25. október, 2006
Úff.
Okkar menn unnu óþarflega nauman sigur á Reading, 4-3 á Anfield í kvöld í Deildarbikarkeppninni. Eftir að hafa verið 2-0 yfir í hálfleik og komist í 3-0 snemma í síðari hálfleik fór óreynd vörn heimamanna að leka inn mörkum og fyrir vikið voru lokamínúturnar víst óþarflega naumar en sigurinn hafðist þó að lokum.
Mörk Liverpool skoruðu Robbie Fowler, John Arne Riise, Gabriel Paletta (í sínum fyrsta leik fyrir félagið) og Peter “sjóðheitur” Crouch. Mörk Reading skoruðu Long, Lita og Bakey.
Byrjunarlið Liverpool í þessum leik var sem hér segir:
Reina
Peltier - Agger - Paletta - Warnock
Pennant - Sissoko - Zenden - Riise
Fowler - Crouch
Bekkur: Martin, Smith, Carragher, Guthrie, Kuyt.
Í síðari hálfleik tók Rafa þá Peltier (höfuðmeiðsli), Riise og Sissoko (báðir hvíldir) útaf fyrir þá Smith, Kuyt og Guthrie. Samkvæmt því sem ég las á netinu hélt vörnin vel þangað til að Smith kom inná fyrir Peltier, en eftir það fóru víst Reading-menn ansi frjálslega upp hans megin og röðuðu inn mörkum.
Las á netinu segi ég, því að eins og menn tóku eflaust eftir var þessi leikur hvergi sýndur. Enska knattspyrnusambandið er víst með reglu sem segir að í þessum fyrri umferðum keppninnar þurfi að sýna ákveðið mörg lið úr neðri deildunum, og því var leikur Crewe og manchester united
tekinn fram yfir leikinn okkar og leik Blackburn og Chelsea í kvöld. Fyrir vikið sá ég leikinn ekkert frekar en aðrir og get aðeins byggt þessa snubbóttu leikskýrslu á því sem ég las á netinu.
Samkvæmt tölfræði SoccerNet.com áttu okkar menn 19 skot, þar af 11 að marki á meðan Reading-menn áttu 7 skot, þar af 5 af marki. Hornin féllu 10-7 okkar mönnum í vil og rangstæðurnar einnig, 4-2. Reina hafði þó víst meira að gera, þurfti að verja 9 bolta á meðan Stack í marki Reading þurfti að verja átta. Þannig að það er ljóst að þeir hafa sett fleiri bolta á rammann í kvöld miðað við heildarfjölda skota að marki og einnig verið með betri nýtingu.
Það var skrýtið að lesa um hrun liðsins undir lok leiksins, enda var þessi leikur nánast unninn í stöðunni 3-0 eftir 65 mínútna leik. Á móti kemur að þetta var hálfgert varalið hjá okkar mönnum (víst líka einhverjir hvíldir hjá þeim) og vörnin mjög ung og alveg óreynd saman. Þá virðist sem James Smith, hinn ungi varnarmaður, hafi átt míní-martröð en eftir að hann kom inná hrundi allt varnarspil okkar manna.
MAÐUR LEIKSINS: Jermaine Pennant átti tvær stoðsendingar í kvöld, Gabriel Paletta skoraði í fyrsta leik sínum fyrir klúbbinn, Peter Crouch virðist ekki geta hætt að skora þessa dagana og miðað við lýsingar á netinu var Daniel Agger best spilandi leikmaðurinn í kvöld … en ég ætla að gefa ROBBIE FOWLER heiðurinn. Hann fullkomnaði endurkomu sína til Anfield á þessu ári í kvöld með því að leiða Liverpool FC sem fyrirliði í fyrsta sinn síðan árið 2001.
Hann kórónaði þessa endurkomu sína í leiðtogahlutverkið með því að skora fyrsta mark leiksins og leggja upp markið fyrir Peter Crouch. Eitt mark og ein stoðsending fyrir gamla meistarann sem hefur greinilega engu gleymt í markaskoruninni. Hann er nú þriðji markahæstur í vetur með tvö mörk í öllum keppnum, jafn mikið og Dirk Kuyt og Mark Gonzalez en eftir talsvert færri leiki, á meðan Crouchinho er langmarkahæstur með sjö mörk í öllum keppnum og Johnny Riise er næst markahæstur með þrjú stykki.
Hvaða framherjar ætli byrji inná á laugardaginn?
Um frammistöðuna ætla ég sem minnst að segja. Ég sá ekki leikinn og auk þess er spilamennska liðsins varla marktæk. Það er gott að skora fjögur mörk og gott að komast aftur á sigurbrautina og í næstu umferð keppninnar, en sú staðreynd að þetta var hálfgert varalið og að liðið fékk á sig þrjú mörk í síðari hálfleik þýðir að kannski taka menn ekki jafn mikið sjálfstraust frá þessum leik og ella hefði getað orðið.
Hvaða áhrif hafði þessi sigur í kvöld á spilamennsku liðsins? Við fáum svörin á laugardaginn gegn Aston Villa á Anfield … en þangað til getum við allavega leyft okkur að brosa; Fowler skoraði, Crouch skoraði, Paletta og Agger léku vel, og það mikilvægasta af öllu er að liðið er komið á sigurbraut á ný og í næstu umferð Deildarbikarsins.