Jæja, í gær sagði umboðsmaður Xabi Alonso að allt væri klárt og að aðeins þyrfti að laga einhver smáatriði á milli Real Sociedad og Liverpool til þess að Xabi Alonso færi til Liverpool.
Og núna áðan þá tilkynntu Real Sociedad það á sinni opinberu heimasíðu að Liverpool og Real Sociedad væru búin að komast að samkomulagi. Ef það væri ekki fyrir þessa bévítans landsleiki, þá væri Xabi Alonso á leiðinni til Liverpool borgar. Í stað þess mun hann spila með Spánverjum á morgun gegn Venezuela og svo væntanlega koma til Liverpool á fimmtudaginn.
Gerrard og Xabi Alonso á miðjunni hjá Liverpool. SNILLD!!!
Uppfært (Einar Örn): Ok, veit ekki hvort allir lesa ummælin, en það er vert að benda á ummælin, sem Kristján sendi inn varðandi Alonso, þar sem hann lýsir honum sem leikmanni.
Líklegt byrjunarlið um helgina?
JERZY DUDEK
JOSEMI – CARRAGHER – HYYPIÄ – RIISE
NUNEZ – ALONSO – GERRARD – KEWELL
BAROS – CISSÉ
😀 Vá. Eiga Manchester City-menn séns? Hehe … það verður gaa-aa-aa-aaman á laugardaginn! Verst að sumir missa af leiknum, eh? 😉
Veit einhver eitthvað um Senor Nunez, er þetta kantari eða miðjumaður,sóknar eða varnarsinnaður. Og hvernig er með Xabi Alonso maður er ekkert allt of mikið inni í spánska boltanum. Hef oft heyrt talað um Alonso sem eitthvað svaka efni en hvernig leikmaður er hann? Er hann að setja hann reglulega eða hvað. Las að hann hefði hamrað einn fleyg á Valencia þegar Benitez var með þá. :biggrin:
Veit ekki mikið um Nunez. Veit hins vegar að hann var í byrjunarliðinu hjá Real í fyrra 10sinnum og það þykir mér bara drullugott hjá ungum strák hjá þessum stóra(stærsta)klúbbi!
En eitt veit ég þó!! Að Liverpool eru örugglega með besta byrjunarliðið í deildinni svo er bara spurning hvort að það sé nóg til að vinna deildina :confused:
Ég veit ekkert um Antonio Nunez, nema það sem allir aðrir vita. Hann var varamaður hjá Real Madríd allt síðasta tímabil … en það segir samt í rauninni ekki neitt um leikmanninn, þar sem vitað er að Queiroz sem var með Real á síðustu leiktíð þorði aldrei að taka ‘Galactícos’ hetjurnar útaf … sama hversu illa þær spiluðu.
Í einum leiknum tók hann Santíago Solari útaf og setti Javíer Portillo inná, þrátt fyrir að Solari hafi verið eini leikmaðurinn sem gat eitthvað í þeim leik. Menn eins og Beckham, Figo, Raúl og Zidane voru týndir í þeim leik en hann hélt þeim inná. Þetta var í hálfleik sem Portíllo kom inná. Svo, þegar ekkert gekk í seinni hálfleik, þá tók Queiroz Portíllo útaf fyrir einhvern annan! Frekar en að taka einhverja stjörnuna útaf! Og Berneabeau-völlurinn trylltist … þvílík baul og læti, ég hef aldrei heyrt annað eins!
Þannig að þótt þessi gæji hafi “bara” fengið að spila 10-11 leiki og “bara” skorað eitt mark með Real í fyrra segir það okkur fjandann ekki neitt um getu hans – þar sem Queiros tók Figo aldrei út úr liðinu og því fékk þessi strákur aldrei að byrja inná fyrir Real … flestir af þessum 11 leikjum held ég að séu bara svona leikir þar sem hann kom inná á 80. eða 84. mínútu. Þess háttar “leikir” sem hann spilaði.
En hann er sókndjarfur hægri kantmaður sem kann í raun ekkert annað en að spila hægri kant, skv. öllu því sem maður hefur lesið. Á heimasíðu Real var honum lýst sem “ungum Figo”, hvað svo sem það kann að þýða. Cheyrou átti líka að vera “ungur Zidane” þannig að ég tek öllum slíkum samanburði með MIKLUM fyrirvara.
En allavega … ég er bara vongóður um að hann muni koma okkur þægilega á óvart á næstu vikum. Guð veit að okkur sárvantar hægri kantmann, einhvern sem getur skotið andstæðingunum skelk í bringu á vængnum. Vonandi er þessi strákur sá gaur!
Hins vegar veit ég talsvert mikið um Xabi Alonso. Fyrir rúmu ári, þegar Sociedad laumuðu sér í toppbaráttuna á Spáni voru þeir mikið í sviðsljósinu og þeir á Sýn sýndu ófáa leiki með Sociedad. Þannig að maður sá hann nokkuð oft á vormánuðum 2003. Þá sá ég nokkra leiki með þeim í Meistaradeildinni sl. vetur, þar sem þeim gekk ekkert allt of vel … en ég gaf Nihat og Xabi Alonso alltaf sérstakan gaum, þar sem Nihat var orðaður við okkar menn og Xabi var orðaður þrálátlega við Barca og Real Madríd sl. vetur.
Því get ég með fullkomlega góðri og hreinni samvisku sagt að þegar Michel, gamla kempan hjá Real Madríd, sagði að Xabi Alonso væri betri leikmaður 22 ára gamall en Vieira var þegar hann var 22 ára gamall … að það gæti bara vel verið rétt hjá honum! Að mínu mati þá er ekkert loku fyrir það skotið að þessi strákur sé jafnvel betri en Gerrard … þannig að tilhugsunin um tvo heimsklassa, alhliða miðjumenn saman á Liverpool-miðjunni er nóg til að fá mig til að dansa!
Þessi gæji er ofboðslega öflugur. Hann er stór og sterkur, svipað og Biscan kannski, þannig að hann er mjög góður skallamaður og alveg ósigrandi í návígjum. Þá er hann ofboðslega góður tæklari. En það sem gerir hann svo spes er það að þrátt fyrir að vera góður varnar-miðjumaður er hann líka búin að vera leikstjórnandi Real Socíedad undanfarin tvö ár. Þeir spila oft með Nihat fyrir aftan Darko Kovacevic í framlínunni og þar fyrir aftan með þá Valerý Karpin og Xabi Alonso þar fyrir aftan. Xabi hefur í raun gegnt sama hlutverki hjá Sociedad undanfarið og Gerrard gegnir hjá okkur: að stjórna öllum leiknum í gegnum miðjuna.
Ég man eftir markinu sem hann skoraði gegn Valencia í fyrra. Stórglæsilegt langskot sem fengi meira að segja Didi Hamann til að roðna. Hann er góður skotmaður með báðum fótum, mjög fljótur og rosalega teknískur. Þá svipar honum til Vieira að því leytinu til að það tekur enginn af honum boltann. Hann heldur bolta alveg svakalega vel.
Það er í raun erfitt að lýsa honum því hann hefur svo marga kosti. Ímyndið ykkur bara spænskan Steven Gerrard eða spænskan Patrick Vieira. Þessi gaur er alveg alhliða miðjumaður, bæði varnarsinnaður og sóknarsinnaður og mun eflaust ekki koma inn sem varnarmiðjumaður fyrir aftan Gerrard. Ég er nokkuð viss að Benítez hugsar sér þá tvo hlið við hlið þar sem annar bíður á meðan hinn sækir og svo framvegis.
Ef við gefum þeim Xabi og Stevie smá tíma til að aðlagast þá verða þeir orðnir ósigrandi á miðjunni eftir nokkra mánuði! Sanniði til! Það er ekki oft sem ég hreinlega þori að taka mér stór orð til munns en ég þori því núna! Þessir tveir ungu strákar á Liverpool-miðjunni munu éta hvaða miðjupar sem er í Evrópu eftir nokkra mánuði!
Þeir eru eitt besta miðjupar í heiminum, um það efast ég ekki. Ég myndi nefna til pör eins og:
Pirlo og Gattuso hjá Milan.
Vieira og Gilberto/Edú hjá Arsenal.
Albelda og Baraja hjá Valencia.
Zidane og Guti hjá Real.
Makelele og Lampard hjá Chelsea.
Svo að nokkur séu nefnd. Og núna…
Gerrard og Alonso hjá Liverpool! :laugh:
Trúið mér. Þetta eru jafnvel mikilvægari kaup fyrir Liverpool en kaupin á Cissé. Jafnvel.
Við skulum bara vona að hann meiðist ekki í landsleiknum…