Luis García að koma + Alonso læknisskoðun

garciamundo.jpgÓkei, Nunez er meiddur og við bíðum enn eftir að fá fregnir af því hversu alvarleg meiðsli hans eru. En svo virðist sem Benítez sé ekki að bíða fregna heldur sé þegar farinn að tryggja það að þurfa ekki að spila fram í janúar án þess að hafa a.m.k. einn hægri kantmann sem er heill heilsu í liðinu. Skv. tímaritinu Mundo Deportivo – sem er svipað nátengt liði Barcelona og Marca og Real Madríd eru – þá er Rafa Benítez búinn að bæta tilboð sitt til Luis García, og er því jafnvel haldið fram í fréttinni að García muni gefa Benítez svar í síðasta lagi um helgina hvort hann vill koma til Liverpool eða ekki. Og þeir telja það víst líklegra að hann fari en að hann verði kyrr.

Málið er það að eins og hjá öllum leikmönnum á Spáni er García með klausu í samningi sínum. Skv. reglum á Spáni verða allir leikmenn að vera með “lágmarksverð”, en ef einhver klúbbur býður þá upphæð verður viðkomandi lið að taka tilboðinu. Lágmarksverðið hans García er 9-milljón Evrur, eða rétt um 6 milljónir punda, og er vitað að Liverpool er búið að bjóða þá upphæð. Þannig að Barcelona geta ekkert gert til að stoppa okkur í að kaupa kauða, þetta veltur algjörlega á því hvað García vill gera.

Skv. þessari frétt þá bað García forráðamenn Liverpool og Barca um frest fram að helginni til að íhuga málið … og er talið að hann þurfi að ráðfæra sig við fjölskyldu sína, þar sem konan hans er langt komin á meðgöngu með þeirra fyrsta barn. Ætli það sé ekki bara konan hans sem ráði þessu? Finnst það líklegt, en allavega virðist skv. þessu blaði (sem er mjög áreiðanleg heimild í Barca-málum) vera frekar líklegt að hann taki tilboði Benítez. Ég vona að það reynist satt, þetta er frábær leikmaður.

Þetta eru allavega frábærar fréttir fyrir Liverpool, ef satt reynist. Eins og Rafa sagði á blaðamannafundi í gær eftir kaupin á Nunez og eftir að hann staðfesti fyrirhuguð kaup á Xabi Alonso, þá viðurkenndi hann að hann gæti keypt fleiri leikmenn. Verður að teljast líklegt að hann hafi verið að tala um Luis García í þeim efnum.


Nú, í öðrum fréttum þá er það haft eftir Liverpool Echo að Xabi Alonso er staddur í Liverpool-borg í dag, til að ganga undir læknisskoðun.

Frrrrrábært. Þó er talið að hann verði kynntur á vellinum á laugardaginn, gegn Man City. Hins vegar mun hann líklega ekki spila sinn fyrsta leik fyrr en á þriðjudaginn, þegar við spilum seinni leikinn við AK Grazer í forkeppni Meistaradeildar. Það líst mér líka vel á … einn svona aðeins auðveldari leikur til að koma honum í gang, leyfa honum og Stevie að venjast því að spila saman … og svo henda honum út í alvöruna gegn Bolton helgina eftir Evrópuleikinn!

En allavega. Xabi Alonso er að koma, eins lengi og hann misstígur sig ekki og ökklabrotnar á tröppunum fyrir utan sjúkrahúsið í Liverpool og fellur á læknisskoðun í kjölfarið þá er þetta alveg pottþétt mál. Ykkur er hér með gefið leyfi til að fagna!

5 Comments

  1. Bara ein pæling varðandi þennan pistil – mætti Alonso spila með okkur gegn Graz?

    Má bæta leikmönnum í Evrópuhópinn milli þessara tveggja leikja? Ég veit það má bæta einhverjum við eftir þessa undankeppni og fyrir riðlakeppnina, en má gera þetta milli undankeppnisleikjanna?

    Bara pæling.

  2. Góður punktur. Ég myndi halda að þetta væri ekki hægt.

    En þetta eru samt frábærar fréttir með Alonso, hvort sem hann byrjar gegn City, Graz eða Bolton. Hann verður frábær á miðjunni!!

    Það verður líka fróðlegt að sjá með Garcia. Persónulega ef ég væri konan hans, þá myndi ég sennilega kjósa borgina Barcelona framyfir Liverpool, en við skulum vona að Garcia komi. Hann mun sennilega fá mun fleiri tækifæri hjá Liverpool, þar sem hægri kantstaðan er alveg steingeld hjá okkur núna.

  3. Nei heyrðu … þetta er sennilega rétt hjá þér. Ég endurtók í þessari frétt það sem Chris Bascombe sagði í Echo-fréttinni, að hann myndi líklegast spila á móti Graz, frekar en á móti City.

    En ég held alveg örugglega að það hafi þurft að skrá menn í þessa forkeppni fyrir tveim vikum síðan og þeir leikmenn einir megi spila þessa leiki. Þannig að ég held alveg örugglega að Xabi Alonso fái ekkert að vera með, frekar en Nunez og þá García, fyrr en komið er í riðlakeppnina í september.

    Það held ég alveg örugglega – góður punktur evah. 😉

    Nú … það skiptir svo sem ekki öllu máli, þar sem ég tel alveg 100% líkur á að við förum áfram á móti Graz, miðað við fyrri leik liðanna. Þá er kannski bara gott, úr því að hann nær ekki að leika gegn City, að hann fái bara heila viku til að koma sér þægilega fyrir í borginni, venjast æfingunum hjá Benítez og svona áður en hann spilar svo fyrir okkur á móti Bolton.

    En hverjum er svo sem ekki sama? Hann er að koma … það er það sem skiptir máli! :biggrin:

  4. 2-0 2-0 2-0 2-0 2-0 2-0 2-0 2-0

    Æji, þetta á nú kannski ekki við, nema jú Benitez sjái að sér og kaupi Hemma Hreiðars 😀

  5. Við erum að tala um stór nöfn samkvæmt fjölmiðlum á Spáni…en ég hef ef mig misminnir ekki, aldrei séð Alonso og Garcia spila….en allavega nær minni mitt ekki svo langt aftur ef ég hef séð þá spila. Ég allavega er sáttur þar sem þetta breytir aðeins hópnum hjá okkur og gerir okkur væntanlega sterkari….(sjö níu þrettán)

Nunez meiddur á hné!!!

Fréttir af Alonso/García/Nunez