L’pool 2 – ManCity 1

baroscity.JPGÞað má segja að “gamla” Liverpool hafi í raun kvatt í dag með sigri. Liverpool vann Manchester City 2-1 í síðasta deildarleiknum sem liðið mun leika áður en þeir Xabi Alonso og Luis García verða gjaldgengir með liðinu.

Liðið spilaði ekkert illa sko … við dómineruðum völlinn í 90 mínútur og City-menn áttu varla nema eitt eða tvö skot að marki. Það kom því gjörsamlega á óvart þegar Nico Anelka kom þeim yfir rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. Því miður þá var það enn og aftur óöryggi Jerzy Dudek í markinu sem kom okkur í koll.

Hann hafði ekkert að gera í fyrri hálfleiknum … nema að grípa þessa fyrirgjöf frá Wright-Phillips. Carragher fór upp í skallann en náði ekki hreinum skalla og boltinn datt niður í teiginn hjá Dudek, sem henti sér á hann og missti af honum. Anelka þakkaði pent fyrir sig og setti boltann auðveldlega í netið. 0-1 í hálfleik og ekki laust við að maður hafi svitnað.

Það var samt óþarfi, Baros var búinn að jafna eftir tvær mínútur í seinni hálfleik og eftir það var þetta ekki spurning um hvort heldur hvenær Liverpool næði sigurmarkinu. Það kom svo um miðjan hálfleikinn, þegar Gerrard jafnaði úr frákasti eftir að James hafði varið vel frá Baros.

Á heildina litið var frammistaða liðsins fín. Ekki frábær, ekki léleg, bara fín. Þeir gerðu nóg til að vinna leikinn og það er góðs viti, sérstaklega að sýna karakter eftir að hafa lent undir. Það var gott. En það eru samt nokkrir punktar við liðið sem þarf enn að bæta:

· Steve Finnan barðist vel í dag, en hann er ekki hægri kantmaður. Hann spilar þarna á móti Grazer á þriðjudaginn og síðan verður þessi galli lagaður af sjálfu sér þegar Luis García dettur inn á vænginn. Með García og Nunez í hópnum erum við núna með tvo menn sem geta spilað hægri kantinn og því er þetta vandamál sem betur fer alveg að heyra sögunni til.

· Boltinn flæðir ennþá ekki nógu vel. Þetta er vandamál sem lagast líka með því sem liðið spilar fleiri leiki saman. Menn eru greinilega enn að venjast nýjum hugmyndum nýs þjálfara og slíkt tekur tíma. Þá eru leikmenn enn að venjast nýjum samböndum, t.d. sér það hver heilvita maður að Baros og Cissé eru ekki að ná að vinna vel saman … en það er eðlilegt. Þeir þurfa 10 leiki eða svo til að venjast hreyfingum hvors annars og svona. Það sama mun gilda með Xabi Alonso og Stevie Gerrard.

· Markvarðamálin eru núna algjör vandi fyrir liðið. Jerzy Dudek er góður markvörður en – eins og Einar Örn er alltaf að segja mér – hann nær aldrei að vekja með manni trausta tilfinningu. Maður er alltaf að bíða eftir næsta klúðri hjá honum og, því miður, þá kemur klúðrið alltaf fyrr eða síðar. Í dag var það slæmt og kostaði okkur mark og hefði getað kostað okkur sigurinn. Chris Kirkland er betri markmaður en hann er alltof oft meiddur og því gæti Benítez gert margt vitlausara en að fjárfesta í nýjum markverði áður en 30. ágúst gengur í garð!

Menn leiksins:
Steven Gerrard var hiklaust maður leiksins í dag, eins og flesta aðra daga. Hvar værum við án þessa manns? Hann er fyrirliði liðsins, hleypur heilt maraþon í hverjum leik og er algjörlega óstöðvandi á miðjunni. Eins-manns-her, hafi nokkur slíkur verið til á knattspyrnuvelli og hann virðist geta unnið svona leiki algjörlega einsamall! Hann átti frábæra stoðsendingu á Baros í jöfnunarmarkinu og tók svo frákast og skoraði sigurmarkið í dag. Algjörlega ómetanlegur og Xabi Alonso hlýtur að slefa við tilhugsunina um að fá að spila með honum.

Milan Baros barðist vel í fyrri hálfleik en það kom lítið út úr því sem hann var að gera. Eitthvað hefur Benítez gefið honum góð ráð í hálfleik, því hann var gjörsamlega allt í öllu í sókninni hjá okkur eftir hlé! Það er langt síðan ég hef séð jafn öflugan Baros og ég sá í seinni hálfleiknum, hann var út um allan völl takandi menn á, leitandi að marktækifærum, matandi Cissé og Kewell á boltum og égveitekkihvaðfleira! Frábær leikur, frábært mark og vonandi byggir hann á þessari frammistöðu!

Harry Kewell var svipaður og Baros. Hann var mikið í boltanum og mjög ógnandi í fyrri hálfleik, án þess þó að skila miklum árangri. Eftir hlé hins vegar tók hann sig til og stundaði hreinar pyntingar á fyrrum félaga sínum, Danny Mills hægri bakverði Man City. Harrý var algjörlega frábær eftir hlé að mínu mati og vona ég að hann, jafnt og Baros, byggi á þessari frammistöðu og sýni okkur þetta miklu oftar í vetur!

Þeir eru fleiri sem kæmu til greina en þessir þrír fannst mér bestir í dag. Þó verður að nefna Dietmar Hamann til sögunnar. Menn hafa verið fljótir að segja að dagar hans séu taldir hjá Liverpool eftir komu Xabi Alonso en í raun held ég að hann hafi í dag sýnt það að hann á enn fullt erindi í liðið.

Varnarlega vinnur hann nærri óaðfinnanlega með Gerrard og stöðvaði allt sem kom nálægt vítateig Liverpool. Vinnsla hans í dag var frábær. Sóknarlega er hann ekki nógu góður, um það eru allir aðdáendur Liverpool sammála held ég – en samt var hann mjög ógnandi í dag. Átti tvö ágætis skot sem hefðu getað orðið að mörkum ef þau hefðu ekki endað í varnarmönnum á leiðinni inn. Þá átti hann algjöra súper-stungusendingu inná Baros í seinna markinu, sem varð til þess að Gerrard skoraði sigurmarkið! Sú sending ein og sér var frábær og held ég að Hamann, þótt hann verði ekki byrjunarliðsmaður í vetur, eigi enn helling inni til að gefa Liverpool-liðinu!

Þannig fór nú það. Fyrsti sigur Benítez í Úrvalsdeildinni, fyrsti leikur hans, Cissé og Josemi á Anfield og fyrstu þrjú stigin okkar í vetur! Það var óneitanlega gaman að heyra áhorfendurna kyrja “Cissé! Cissé” og “Jóóóosemííííí” í leiknum, nýju leikmennirnir greinilega þegar orðnir vinsælir á Anfield.

Góður sigur, mikilvæg stig í safnið og gott veganesti fyrir þriðjudaginn. Þá mæta Austurríkismennirnir í Grazer AK á Anfield og ég býst hreinlega við léttum leik þá. Ég veit, ég veit: ekkert vanmat. En þetta lið eigum við að vinna auðveldlega á þriðjudag … og svo er það Bolton á útivelli um næstu helgi og þá fáum við loksins að sjá García og Xabi Alonso spila fyrir Liverpool FC!

Góðar stundir framundan. 🙂

3 Comments

  1. Mjög góður sigur, svona vinnusigur! Erfitt en gat verið mikið léttara ef menn myndu ekki gefa svona færi á sér eins og Dúddi gerði í þessum leik.

    Það er ekki efi í mínum huga að RB muni kaupa nýjan keeper fljótlega. Þetta gengur ekki svona, slapp í dag af því við spiluðum við slakt lið en guð hjálpi okkur í CL á móti AC-Milan, Barca, Porto og fleirum sterkum liðum.

    Annað áhyggjuefni, Nunez meiddur strax og Josemi fór útaf meiddur í dag?! Vonandi er það ekki alvarlegt!!

    Let it be, let it be, let it be, Stevie G!!
    Spreading balls with wisdom, Stevie G!!

  2. Ég er sammála öllu nema með markvörðinn Dudek. Vissulega gerir hann mistök eins og allir markverðir, en það er kannski ekkert skrýtið að hann sé ekki alveg á tánum. Það er varla samkeppni um markvarðarstöðuna ef hinn “aðalmarkvörðurinn” er alltaf meiddur og getur ekki veitt hinum samkeppni! Kirkland er ungur en nýtist okkur alls ekkert ef hann heldur áfram að vera svona óheppinn með meiðsli. Dudek er góður markvörður sem gerir mistök og mistökin sem hann gerir fær hann nánast 99% á sig mark…ólíkt Schmeichel og Grobbelaar forðum. Þeir voru öruggari með sendingar og bara boltann yfir höfuð en komu sér í óþarfa vandræði með “strandferðum” út á kanta eða “skógarferð” fram á völlinn. Það líður eflaust ekki á löngu þar til Herra Benitez verður búinn að kaupa markvörð frá Spáni. Hver veit.

  3. Ágætt að heyra af þessum sigri, og takk fyrir SMS-lýsinguna.

    Mikið rosalega fannst mér það slappt að geta ekki horft á enska boltann í Leifsstöð. Það var ekki eitt einasta sjónvarp, sem var að sýna eitthvað annað en flugáætlun.

    En þetta með Dudek er orðið alvarlegt mál. Ég var einu sinni handviss um að hann væri besti markvörður í heimi. Í raun alveg þangað til í Middlesboro leiknum fræga. Síðan þá hefur mér aldrei liðið vel með hann í markinu.

    Að mínu mati væri best að kaupa einhvern öruggan og reyndan markmann, einsog t.d. Canizares á meðan að Kirkland reynir að sanna að hann getur farið í gegnum eitt tímabil heill.

Upphitun + Joey Barton (uppfært)

Harry Kewell: ömurlegur?