Chelsea 1 – L’pool 0

cole-fagnad.jpgEnn ein vonbrigðin.

[1 – 0 tap á útivelli](http://www.liverpoolfc.tv/news/drilldown/N146238041003-1800.htm) gegn liði, sem var alls ekki að spila neinn stjörnuleik. Enn eitt ódýrt mark úr föstu leikatriði.

Þessi frammistaða Liverpool er farin að valda mér miklum áhyggjum. Liðið virðist vera gjörsamlega ófært um að spila almennilega á útivöllum þegar virkilega á reynir. Þetta var alveg einsog gegn Man U og Olympiakos. Engin barátta, engin leikgleði, engin sköpun.

Ekki það að Chelsea hafi verið eitthvað mikið betra liðið. Chelsea var meira með boltann og skapaði eitt eða tvö færi en á endanum, þá var það ódýrt mark úr aukaspyrnu ([déja vu all over again](http://www.quotationspage.com/quote/27218.html)), sem gerði út um leikinn. Joe Cole skoraði eftir sendingu frá Frank Lampard. Josemi átti að gæta Cole, en hann var úti að aka (einsog hann var allan leikinn) þegar spyrnan var tekin. Chelsea spilaði frábæran varnarleik, þeir pressuðu gríðarlega stíft alltaf þegar Liverpool fékk boltann og nánast án undantekninga fengu þeir Liverpool mennina til að sparka boltanum á Chelsea mann.

Meira að segja hinn annars frábæri Xabi Alonso átti fleiri sendingar útí loftið en á samherja, án efa hans lélegast leikur fyrir liðið. Diao og Alonso náðu aldrei saman á miðjunni og áttu alltaf undir högg að sækja. Ekki bætti að Chelsea fengu fjölmargar ódýrar aukaspyrnur þegar Diao og Alonso voru í baráttunni. Þegar Cisse fékk boltann þá snéri hann án undantekningar bakinu í markið með varnarmann í sér, sem pressaði svo þangað til að hann missti boltann.

Benitez stillti liðinu svona upp:

Chris Kirkland

Josemi – Carragher – Hyypiä – Traoré

García – Alonso – Diao – Riise

Kewell

Cissé

Einsog áður á útivöllum, þá var leikaðferðin nokkurn veginn 4-4-1-1. Cisse var einn frammi, og þá meina ég einn. García og Kewell áttu að skapa færin, en þeir áttu engan sjens gegn sterkri vörn Chelsea.

Það er í raun ómögulegt að velja mann leiksins. Það stóð enginn uppúr þessu Liverpool liði í dag. Enn og aftur söknuðum við Gerrard og krafts hans. Þó fannst mér **Chris Kirkland** vera mjög sterkur og öruggur í markinu. Hann átti alla bolta og sýndi oft mjög góð tilþrif. Honum verður ekki kennt um markið hjá Chelsea.

Ég veit ekki hverjum öðrum ég á að hrósa, eða skamma. Það var enginn einn blóraböggull. Traore var fínn, og Diao var alls ekki versti leikmaður Liverpool, þannig að það er ekki hægt að kenna þeim breytingum Benitez um. Mestu vonbrigðin í leiknum voru miðjumennirnir, þeir Alonso, Kewell og Garcia. Þessi leikur tapaðist án efa á miðjunni. Einnig var Josemi arfaslakur í bakverðinum. Duff og Drogba léku sér að honum hvað eftir annað.

Menn munu halda áfram að spyrja spurninga um 4-4-1-1 leikaðferð Benitez og eflaust munu einhverjir krefjast þess að hann hætti þessu umsvifalaust og leyfi Baros og Cisse að spila saman (eða jafnvel gefa Sinama Pongolle tækifæri).

Ég tel aðferðina svo sem ekki vera vandamálið, heldur fyrst og fremst þeir leikmenn, sem við höfum úr að spila. Til þess að aðferðin gangi upp, þá verður að vera einhver sköpun frá miðjumönnunum og hana höfum við því miður ekki í dag. Alonso er varnarsinnaður og það eru Hamann og Diao líka. Með öðrum orðum, þá tel ég að aðferðin myndi virka ef að hinn sóknarsinnaði Gerrard og Alonso væru þarna inná. Þannig virkaði þetta víst á móti Monaco. Fyrir utan þann leik, þá hefur þessi aðferð bara ALLS ekki virkað, nema þá gegn W.B.A., sem verður seint talið stórlið.

Núna eru næstum því **2 heilar vikur** í næsta leik gegn Fulham **á útivelli**, sem verður 16.október. Benitez og leikmenn Liverpool hafa um nóg að hugsa á meðan.

Fyrir okkur aðdáendurnar verður þetta náttúrulega hræðilegur tími. Staðan er **slæm**. Sjö leikir og við erum búnir að fá 10 stig af 21 mögulegum. Það er **verulega slæmur árangur**.


Viðbót (Kristján Atli): Ég er sammála því sem þú segir Einar, að vandamálið er að mínu mati ekki kerfið heldur leikmennirnir í kerfinu. Augljóslega voru nokkrir leikmenn verri en maður átti von á í dag, Josemi, Alonso og García ollu sérstaklega vonbrigðum. Þá sá Benítez væntanlega í dag að Johnny Riise er ekki kantmaður!

Hins vegar myndi ég útnefna Jamie Carragher mann leiksins hjá okkur, hann var alveg frábær í þessum leik og þá sérstaklega í seinni hálfleik.

Ég er rólegur þrátt fyrir þetta tap. Það er slæmt að fá á sig ódýrt mark úr föstu leikatriði – aftur – og það er slæmt að ná ekkert að skora á útivelli – AFTUR – en maður fær samt á tilfinninguna þegar maður horfir á liðið að það vanti ekki mikið uppá. Smávegis meiri yfirvegun á boltanum, örlítið meira flæði í spilið fram á völlinn og örlítið meiri grimmd í leikmennina og þá gætum við alveg hafa unnið þennan leik í dag.

Mér finnst t.d. enginn skandall að fá á sig eitt mark gegn Chelsea á Stamford Bridge, þó það mark hafi verið frekar ódýrt. Skandallinn er ekki að fá á sig eitt mark á útivelli gegn Chelsea, Bolton & Olympiakos. Skandallinn er sá að við erum ekki að skora eitt einasta mark á útivelli þessa dagana.

Bolton: 1-0 tap. Olympiakos: 1-0 tap. Man U: 2-1 tap (og sjálfsmark okkur í hag) og núna Chelsea: 1-0 tap.

Ég held ekki að þetta sé kerfinu að kenna. Maður sér Valencia-liðið spila þetta 4-4-1-1 kerfi og þeir skora helling. Vandamálið er það að mínu mati að það vantar fleiri menn sem henta þessu kerfi. Tökum dæmi:

Sami Hyypiä: Eins vel og mér finnst Carragher aðlagast leikstíl Benítez, þá verð ég að segja að Hyypiä er allt of varkár til að geta spilað sóknarbolta í þessu 4-4-1-1 kerfi. Hann stjórnar vörninni og hvað eftir annað í dag sáum við okkar menn sækja, með boltann við vítateig Chelsea, og svo þegar boltinn tapaðist þá sá maður að vörnin var leeeeeengst í burtu – svo að Chelsea-menn fengu nógan tíma til að athafna sig í hröðum sóknum. Ef við ætlum að pressa þá með 4-4-1-1 kerfinu þá verða varnarmennirnir okkar að þora að fylgja því með. Við sáum Traoré gera þetta vel (kom oft alla leið að endalínu Chelsea í sóknum okkar, en vann samt alltaf vel til baka) og Josemi gerir þetta venjulega vel (þótt slakur hafi verið í dag), auk þess sem Carragher var oft mættur til að pressa Lampard/Smertin þegar þeir fengu boltann í skyndisóknum Chelsea. En Sami Hyypia, um leið og við missum boltann, virðist bara snúa sér við og taka á sprett aftur að eigin vítateig – UNDANTEKNINGARLAUST. Hann er of varkár fyrir þetta kerfi og annað hvort breytist hugsunarháttur hans eða þá að við fáum nýjan mann þarna inn.

Svo er ljóst að við þurfum fleiri sókndjarfa miðjumenn, þótt Benítez sé búinn að bæta við þann pakka í haust. García, Kewell, Nunez og Warnock er fínn pakki en eins og staðan er í dag þá er Nunez meiddur, Warnock of ungur og Kewell ekki enn búinn að finna sig í kerfi Benítez. Þannig að fyrir mér væri ekkert vitlaust að reyna að kaupa mann eins og Vícénte Rodríguez, Joaquín eða Shaun Wright-Phillips í janúar-glugganum. Það er þörf á, enda er sama hvort Baros eða Cissé spilar þarna frammi … viðkomandi er algjörlega einangraður.

Á heildina litið er slæmt að vera búnir að tapa þremur leikjum í deildinni nú þegar, slæmt að eiga erfitt með að skora (og skapa sóknir almennt) á útivelli og slæmt að liðið virðist skorta sjálfstraust til að gera eitthvað í málinu.

Hins vegar er gott að vera búnir með Man U og Chelsea á útivelli í vetur. Það er það í alvöru – nú tekur við leikkafli af “slakari” liðum alveg þangað til við mætum Arsenal á Anfield þann 28. nóvember. Þannig að nú er lag að setja saman smá sigurbraut og vinna nokkra leiki í röð. Það myndi gera góða hluti fyrir móralinn og sjálfstraustið í liðinu að vinna svona 3-4 leiki í röð, auk þess sem það myndi lyfta okkur ofar í töflunni.

Að lokum: Munið eftir Barcelona í fyrra? Rijkaard bað um tíma og liðinu gekk illa framan af vetri. Þeir voru í fallsæti þegar desembermánuður hófst og menn töldu víst að Rijkaard yrði látinn fara áður en áramótin kæmu. En Rijkaard sagðist allan tímann vera að kynnast liðinu, sjá hverjir virka í kerfinu sem hann spilar og hverjir ekki. Í janúar gerði hann síðan mikilvægar breytingar, losaði sig við tvo-þrjá leikmenn og fékk tvo-þrjá inn, sérstaklega Edgar Davids á miðjuna. Þeir töpuðu ekki leik eftir það, unnu sextán deildarleiki í röð (take that Arsenal! ) og enduðu í öðru sæti. Í sumar gerði hann síðan frekari leikmannakaup og er núna, eftir bara 14 mánuði í starfi, með eitt af þremur bestu fótboltaliðum í Evrópu, segi ég og skrifa.

Ég sé Benítez fyrir mér gera sömu hluti með Liverpool. Hann er búinn að kaupa fjóra Spánverja, auk þess sem Cissé er kominn. Að öðru leyti er hann enn að burðast með þann bagga sem Houllier skildi eftir. Hann mun kaupa í janúar, am.k. 2-3 leikmenn held ég. Og svo mun hann versla meira næsta sumar, um leið og hann heldur áfram að losa sig við þá leikmenn sem ekki standa sig.

Þannig að látið ykkur ekki koma á óvart að eftir 11 mánuði verði menn eins og: Hamann, Henchoz, Finnan, Dudek, Biscan og jafnvel Hyypiä farnir og þeirra í stað komnir 6-8 nýir leikmenn, helst allir úr betri klassa en þeir sem fara.

Þetta er þróun. Benítez er með kerfi sem virkar og hann er að nota haustmánuðina til að sjá hverjir eru reiðubúnir að aðlagast þessu kerfi, hverjir standa sig og hverjir eru ekki nógu góðir. Síðan gerir hann þær breytingar sem þarf. Ég ætla ekki að dæma Benítez eða framtíð Liverpool á meðan hann er að spila sitt kerfi með leikmenn Houllier. Ég dæmi hann ekki fyrr en hann er farinn að spila sitt kerfi með sínum leikmönnum.

Og ég vænti þess ekki að það verði fyrr en í fyrsta lagi næsta haust. Þannig að allar vonir um að vinna deildina í vetur eru óraunhæfar að mínu mati (Chelsea og Arsenal eru núna með rúmlega helmingi fleiri stig en við). Raunhæft mat er að ná 3.-4. sæti, komast aftur í Meistaradeildina að ári og vera nær toppliðunum en 30 stig. Það er raunhæft mat.

Og gleymið því ekki að við erum með 10 stig en Man U er bara með 13 stig. Ef við vinnum leikinn sem við eigum inni á hin liðin erum við komnir upp í 4.-6. sætið með 13 stig ásamt Tottenham og Man U. Þar fyrir ofan eru Everton með 16 stig (sem endist ekki lengi) og svo Chelsea og Arsenal, sem eru að stinga af í þessari deild.

Þannig að þetta er ekki eins slæmt og stigamunurinn á okkur og topp2-liðunum gefur til kynna. Þetta tímabil er ennþá galopið og við eigum á næstu leikjum að geta lyft okkur talsvert ofar í töflunni!

5 Comments

  1. Ég er allskosta ósáttur við frammistöðu liðsins. Við erum ekki að skapa okkur nein færi í þessum leikjum og það hlýtur að valda áhyggjum þegar við lítum á leikmennina sem við erum með. Það er eins og við séum alltaf að byrja leikina með það í huga að fá ekki á okkur mark og um leið reyna með mesta mætti að skora ekki heldur. Ég vil ekki sjá annað tímabil af varnarleik og rugli og vil frekar fá að sjá sóknarleik hjá liði sem getur spilað sóknarleik.
    Svo vil ég fá Dudek aftur í markið. Mér fannst Kirkland eiga þátt í þessu marki í dag og fannst hann vera þungur. Það er spurning hvort Kirkland meiðist ekki á næstunni :biggrin:
    En ég er allskosta ósáttur og mér líst ekki á þessa þróun. Ég er samt sáttur við framkvæmdastjórann engu að síður og hann er að gera betri hluti en fyrrirrennari hans. Mætti vera aðeins positívari samt.

  2. Fari það í kolmyglaðar, forljótar krabbaflær.

    Enn einn ósigurinn á útivelli. Með aðeins betra framspili og heppni þá hefði þessi leikur alveg eins getað farið 1-1. Sóknarleikurinn er í mesta basli svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Síðan til að bæta gráu ofan á svart þá átti Alonso afleitan dag (sem ég fyrirgef honum eins og skot). Hann vissi af því sjálfur -sáuð þið þegar hann tók peysuna yfir hausinn eftir aukaspyrnuna í lokin. Ég spái því að við sjáum ekki marga svona leiki hjá þessum unga stórefnilega miðjumanni.

    Kewell var engan veginn sannfærandi. Og það fór í mínar fínustu þegar hann fór að skammast út í Baros þarna í lokin. Hann ætti að líta sér nær. Mér fannst Garsia standa sig vel. Hann var stanslaust á ferðinni og vann upp og niður eins og píla. Ég hef grun um að Benites hafi kippt honum út af þarna í lokin til að hvíla hann. Hann var búinn að skila sínu. Carragher var að berjast til síðustu mínútu.
    Stundum fékk ég á tilfinninguna eins og menn væru að berjast en spilið gekk bara ekki upp. Chelsea vörnin mætti okkur mjög framarlega og við áttum bara engin svör við því.

    En nú er að sýna þolinmæði og leyfa hlutunum að þróast. Við vinnum ekki EPL í ár. Það er deginum ljósara og þá er bara að setja sér önnur markmið.
    Tímabilið er bara rétt að byrja og við aðeins búnir með 7 leiki af 38 !!!!

    Ef Fullham vinnur á morgun, þá erum víð í 13.sæti!!

    Næsti leikur verður bara að vinnast, því héðan í frá meigum við bara til að færas upp töfluna.

    😡 😡 😡

  3. Ok, þetta með Kirkland hjá þér, Eiki, hlýtur að vera djók! Hvernig átti Kirkland sök á þessu marki? Riise stóð fyrir honum, skotið var af 5 metra færi og Kirkland var 10 cm frá því að verja það.

    Virkaði hann þungur? Hvernig þá í ósköpunum? Í fyrsta skipti í langan tíma átti markmaðurinn okkar alla bolta. Dudek er nánast alltaf ein taugahrúga og hefur kostað okkur ófáa leiki að undanförnu. Kirkland kom beint inní erfiðan útileik og stóð sig mjög vel.

    Ef að Kirkland stendur sig ekki á næstu mánuðum, eða meiðist á þeim tíma, þá getum við BÓKAÐ að Benitez mun kaupa markvörkð. Það er allavegana augljóst að hann (skiljanlega) treystir ekki Dudek.

  4. Ég var að agnúast út í Kewell hér að ofan en gleymdi að gefa honum kredit fyrir frábæra markvörslu!!! Menn eiga það sem þeir eiga. Kirkland skilaði sínu og ég bóka ekki markið á hann. Af og frá. En ég get ekki gert að því að mér fannst hann dálítið óstyrkur í úthlaupum. Kannski ekki skrítið. Hvað er langt síðan hann átti leik í PL?

  5. ok, þetta mark kom af stuttu færi og maður þarf að vera snöggur niður til að ná þessu…..en…akkúrat í þessum atvikum finnst mér Dudek vera betri. Kirkland var bara alltof seinn niður. Ég hefði viljað sjá hann fljótari niður en það er ekki hægt að sakast við hann þarna þar sem þetta “zonal marking” í vörninni þegar við fáum á okkur föst leikatriði er ekki að virka.
    Svo vil ég sjá Kewell úr liðinu. Hann á ekki skilið að setja á sig fótboltaskóna fyrir svona frammistöður eins og hann hefur sýnt á þessu hausti. Ég vil frekar gefa yngri mönnum séns, yngri mönnum sem hafa sýnt og sannað að þeir geta spilað í liðinu án þess að standa sig neitt afleitlega. Ég hlakka til þegar leikmannamarkaðurinn opnar í janúar. Ég get ekki beðið með að fá fleiri leikmenn í hópinn til þess að við getum losað okkur við yfirborgað rusl sem inn á milli er í hópnum okkar.
    Besti leikmaðurinn í gær var án efa JAMIE CARRAGHER. Hann var út um allan völl og fórnaði sér í allt! Hann hefði ekki gefið ömmu sinni færi á að skora ef hún stæði á marklínunni mundandi fótinn! Ó NEI!

Liðið í dag!

Mörk á útivelli