Öll erum við líklega sammála því að þessi leikmannagluggi var ekki nógu góður hjá Liverpool og umræðan hefur í verið í takti við það ofan í tvo mjög slæma tapleiki í röð gegn neðstu liðunum. Með þetta í huga ætla ég að einblína á atriði sem eru jákvæð við Liverpool í dag. Þetta er nefnilega alls ekki jafn helvíti slæmt og af er látið oft á tíðum. Þetta hugsa ég ekki hvað síst sem þarfa áminningu fyrir sjálfan mig.
Klopp og árangur í leikmannakaupum
- Það gleymist að árangur Klopp á leikmannamarkaðnum er langt yfir meðaltali og það eru engin geimvísindi þar á bakvið. Hann byggir sín lið upp með nokkur ár í huga og sóar því töluvert minna af fjármunum og tíma í vitleysu. Klopp er með mjög fastmótaðar hugmyndir um hvernig leikmann hann vill og er að sýna það hjá Liverpool að hann er tilbúinn að bíða eftir þeim leikmönnum sem hann telur falla best að hans hugmyndum.
- Önnur ástæða fyrir góðum árangri hans á leikmannamarkaðnum er hversu vel hann treystir fólkinu sem hann vinnur með. Hann er alveg óhræddur við að láta öðrum eftir heiðrinum þegar leikmannakaup ganga vel upp en tekur jafnframt á sig sökina þegar ill tekst til. Hvaða áhrif haldið þið að svoleiðs vinnubrögð hafi á starfsmóralinn hjá félaginu miðað við t.d. hvernig Rodgers vann? Árangurinn er eftir því.
- Þolinmæði sem þessi getur skilað sér í betri árangri heldur en ef keypt er leikmenn sem ekki voru taldir passa alveg 100% inn í plön þjálfarans eða leikmenn sem taldir eru vera töluverð áhætta. Klopp hefur eins og allir stjórar alveg gert mistök á leikmannamarkaðnum en það er töluvert ólíklegra að undir hans stjórn verði keyptir leikmenn eins og Andy Carroll, Christian Benteke, Rickie Lambert eða Mario Balotelli svo örfá dæmi séu tekin úr gríðarlega miklu úrvali bara síðan FSG keypti félagið.
- Leikmenn sem ekki passa inn í plön þjálfarans eða leikmenn sem tekið er áhættu með að kaupa geta kostað félagið í mörg ár á eftir og hindra kaup á þeim leikmönnum sem efst voru á óskalistanum. Þetta er kostnaður bæði fjárhagslega og ekki síst hvað stigasöfnun varðar.
- Andy Carroll kostaði £35m en þar með var bara hálf sagan sögð. Hann fékk líka fimm ára samning og í laun í takti við kaupverðið. Á innan við 18 mánuðum var búið að skipta um stjóra og ljóst að hann passaði enganvegin inn í hugmyndafræði félagsins. Það tókst ekkert að losna við hann strax og á meðan var ekki keyptur betri sóknarmaður sem hentaði liðinu miklu betur og mögulega héldu kaupin á Carroll aftur af okkur lengur en bara í janúarglugganum 2011. Eftir á að hyggja hefði verið skynsamlegra að bíða til sumars með að eyða þessum peningum.
- Það er hægt að taka Balotelli sem dæmi einnig. Hann var augljóslega aldrei ofarlega á lista hjá neinum tengdum félaginu. Félagið var ekki búið að vinna heimavinnuna nærri því nógu vel þegar koma að sölunni á Suarez og þurfti á endanum að kaupa “bara einhvern” sóknarmann, Balotelli er skilgreiningin á leikmannakaupum sem gerð eru í örvæntingu.
- Það er ekki bara kaupverðið og langir samninga sem kosta. Það þarf að gefa þessum leikmönnum séns og þegar þeir virka ekki kostnar það liðið inná vellinum. Carroll var vissulega ekki verri en engin þegar hann var hjá Liverpool en t.d. Balotelli fór ansi nálægt því.
- Benteke er síðan ansi svipuð tegund af leikmanni og Carroll, hann kostaði £35m einnig og bara getur ekki hafa verið efst á óskalista Brendan Rodgers fyrr það sumar. Virkaði meira eins og leikmaður sem var keyptur vegna þess að liðið varð að kaupa sóknarmann. Hann stoppaði ekki lengi, passaði ekki inn í leikkerfið og stjórinn var rekinn fljótlega eftir að hann kom. Hann hélt engu að síður verði.
- Hvort myndum við vilja núna, innkaupastefnu Liverpool áður en Klopp tók við liðinu eða þá sem hefur verið undir öðrum stjórum á tíma FSG hjá Liverpool? Hvernig hefði Klopp bætt liðið fyrir þessar ca £90m sem fóru í þessa þrjá sóknarmenn? Hefðu árin 2011 – 2015 farið betur jafnvel þó við hefðum þurft að bíða í 6-12 mánuði eftir betri valkosti í hverju og einu tilviki? Það er auðvitað gott að vera vitur eftir á en miðað við leikmannkaup Klopp er alveg hægt að leggja þetta svona upp, hann er ekki að keypt neinn af Carroll, Benteke eða Balotelli þó að í öllum tilvikum hafi verið töluverð pressa á honum að kaupa sóknarmann.
- Van Dijk er dæmi um leikmann sem Klopp er tilbúinn að bíða eftir, framtíðin leiðir í ljós hvort það var þess virði. En hefðum við getað sett £75m plús hans laun í miðvörð ef Liverpool hefði t.a.m. sett £30m í Hegazi í sumar? Hefur Liverpool alla þessa öld ekki einmitt verið að kaupa Hegazi og Johnny Evans í staðin fyrir því að setja upphæðina sem fór í þá báða frekar í Van Dijk hálfu ári seinna?
- Það eru alveg neikvæðar hliðar á þessum teningi, hann tekur með þessu sinn tíma í að fylla skarð leikmanna eins og Suarez og Coutinho sem getur einnig kostað okkur, sérstaklega til skemmri tíma litið. Það er engin ein rétt aðferð til sem gengur alltaf upp. Klopp er samt ansi nálægt því besta sem við höfum séð á leikmannamarkaðnum miðað við hlutfall vel heppnaðra leikmannakaupa.
- Leikmannakaup Dortmund eru ágætis vísbending, áður en Klopp tók við var liðið svo gott sem gjaldþrota með illa samansett lið. Michael Zorc var yfirmaður knattspyrnumála hjá Dortmund í rúmlega átta ár áður en Klopp tók við og er ennþá nú þegar hann er farinn. Hlutabréf í honum hækkuðu heldur betur eftir að Klopp tók við og var horft til Dortmund sem galdramanna á leikmannamarkaðnum og hann oft nefndur sem aðalmaðurinn á bak við frábær leikmannakaup liðsins. Staðreyndin er samt sú að hann var eins og áður segir búinn að vera heillengi áður en Klopp tók við án sérstaks árangurs (vissulega við erfiðar aðstæður). Hann hefur einnig verið eftir að Klopp fór. Innkaupastefna Dortmund núna er alls ekkert léleg en hún er ekki nærri því jafn markviss og öflug og hún var er Klopp var hjá þeim. Klopp skildi líka við Dortmund sem áskrifanda af Meistaradeildinni og í gjörbreyttri stöðu fjárhagslega. Tilviljun?
- Klopp gerði það nákvæmlega sama fyrir Mainz, það er bara sýnidæmi í miklu minni hlutföllum en Dortmund og Liverpool. Nota bene, Mainz er ennþá Úrvalsdeildarlið í Þýskalandi, áratug eftir að hann fór frá þeim. Þeir höfðu aldrei komist upp um deild áður en Klopp tók við liðinu.
Liðsandi mjög mikilvægur
- Klopp talar ítrekað um og ber með sér á allan hátt að liðsandi er mjög mikilvægur í hans liðum og hann tekur það alvarlega. Hann vill aðeins leikmenn sem trúa 100% á það verkefni sem hann er með í gangi og vill ekki leikmenn sem eru komnir með hugan annað eða vinna ekki eftir hans hugmyndafræði. Hann hefur sýnt þetta í verki m.a. með því að hann hefur alltaf verið óhræddur við að selja sína bestu menn vilji þeir fara annað. Forráðamenn Dortmund og Liverpool eru engir fávitar og fá auðvitað toppverð fyrir þessa leikmenn. Engu að síður er Coutinho líklega sá fyrsti undir stjórn Klopp sem fer á miðju tímabili. Hann hefur gefið þvílíkan skít í félagið í nokkra mánuði og Liverpool fékk toppverð fyrir hann, sambland af því hefur að öllum líkindum gert það að verkum að Klopp var til í að selja og meti það sem svo að liðið verði betra án hans. Leikmenn með svona stæla eru líklegri til að hafa slæm áhrif á liðið og liðsandann og ég tel að Klopp meti áhrif þess ofar en mikilvægi Coutinho. Hér er samt enginn að halda því fram að Klopp hafi ekki viljað hafa sinn besta mann a.m.k. út tímabilið og reynt að tala um fyrir honum.
- Annar sem augljóslega féll ekki vel að hugmyndafræði Klopp er Mamadu Sakho. Hann komst ekki í liðið þrátt fyrir að Liverpool vantaði miðverði og vörnin væri í molum. Það að lána hann í fyrra og selja í sumar þrátt fyrir að kaupin á Van Dijk hafi ekki gengið í gegn eru skilaboð um að hann hafi verið verri en engin í hóp að mati Klopp. Guð minn góður hvað Balotelli átti aldrei glætu.
Liðsuppbygging
- Það er ómögulegt að vita hvernig Klopp væri sem stjóri Man City, PSG, Bayern eða Spænsku risanna. Hvernig hann myndi vinna á leikmannamarkaðnum með nánast ótakmörkuð fjárráð, vonandi komumst við aldrei að því. Hann hefur töluverð fjárráð hjá Liverpool, líklega nálægt topp 10 í heiminum en vinnur ennþá eftir sömu hugmyndafræði og hann gerði hjá bæði Mainz og Dortmund. Aðlagað eftir aðstæðum auðvitað.
- Hann vill fyrst og fremst byggja upp lið og trúir ennþá fyrst og fremst á vinnusemi og samstöðu. Líklega er hann einn af fáum stjórum í enska boltanum í dag (Guardiola og Pochettino?) sem getur leyft sér að byggja upp lið á 3-5 árum (innan skynsamlegra marka). Svipar til Benitez og Houllier hvað þetta varðar án þess að hafa sagt það beint. Það að hafa þolinmæði til að bíða í 6-12 mánuði eftir réttum leikmönnum gefur til kynna að Klopp er að gefa sér meira en tvö ár í að byggja upp sitt lið. Árangur hans hjá Dortmund byggðist á því að móta unga leikmenn og stórbæta ódýra leikmenn. Hann borgaði ekki yfir €10m fyrir leikmann fyrr en á fimmta tímabili, þá búinn að vinna deildina tvisvar og selja bestu menn liðsins þrjú sumur í röð með gríðarlegum gróða. Hann er ekki að vinna svona hjá Liverpool, Van Dijk, Keita, Salah og Chamberlain voru allir keyptir á toppverði. Hugmyndafræðin er engu að síður áfram sú sama.
- Þegar hann tók við af Rodgers fengu allir leikmenn liðsins 10 mánuði til að sanna sig fyrir nýjum stjóra og flestir bættu sig umtalsvert undir hans stjórn. Síðan þá höfum við séð hann hægt og rólega byggja upp lið eftir sínum hugmyndum og þeir leikmenn sem keyptir eru hafa nánast allir bætt sig, jafnvel stórbætt sig. Þessari uppbyggingu er hvergi nærri lokið og næsta skref er líklega að fá meira af ungu leikmönnunum upp. Við erum að sjá tvo unga leikmenn fá stórt hlutverk í vetur og væntanlega eru 2-3 aðrir farnir að banka fast á sæti í hópnum.
Verðmæti yngri liðanna
- Skoðið helstu lykilmenn Dortmund undir stjórn Klopp og sjáið hversu gamlir þeir voru þegar hann eða hans starfslið tók við þeim.
Enginn af þessum leikmönnum var nálægt því að teljast sem heimsklassa leikmaður áður en Klopp fór að vinna með þá, flestir nánast alveg óþekktir. Flestir voru þeir ómótaðir og í mesta lagi með reynslu af varaliðum eða miklu minni deildarkeppnum. Enginn af þeim fór beint í byrjunarliðið eða spilaði frá fyrstu mínútu jafn vel og ímynd okkar er af þeim er í dag. Reus er sá eini sem kostaði yfir €10m en hann kom 23 ára til baka frá Borussia Mönchengladbach en hafði áður verið tíu ár í yngriflokkum Dortmund 10. - Klopp fær ekki tíma hjá Liverpool til að gera þetta nákvæmlega eins og hann gat gert hjá Dortmund. Samkeppnin er mun harðari, kröfurnar miklu meiri og Liverpool hefur efni á miklu meiri gæðum en Dortmund hafði árin eftir að Klopp tók við þeim. Það þýðir ekki að hann muni ekki móta nokkra leikmenn sem nú eru í yngri liðum Liverpool með álíka árangri og hann gerði hjá Dortmund.
- Hvað sparaði Dortmund mikið á því að ala þessa leikmenn upp og hversu mikið betri urðu þeir en dýrari leikmenn hefði orðið?
- Hversu mikið hefðu misheppuð leikmannakaup eins og Balotelli, Benteke og Carroll haldið aftur af leikmönnum sem seinna urðu Reus, Lewandowski og Götze?
- Hvað hefðu margir af þessum leikmönnum Dortmund orðið heimsklassa leikmenn hjá Liverpool milli 2009 og 2015?
- Með því að horfa á þetta svona er óhætt að spenna beltin fyrir framtíð Joe Gomez, Trent Alexander-Arnold og Solanke haldi Klopp áfram að móta þeirra leik. Trent er 19 ára og hefur spilað fyrir öll yngri landslið Englands á meðan Gomez er aðeins 20 ára og hefur spilað fyrir öll landslið Englands. Solanke er töluvert á eftir þeim hjá Liverpool og í harðari samkeppni, þar er samt á ferðinni besti leikmaður HM U20 ára frá því í sumar.
- Klopp gaf alveg ungum leikmönnum séns hjá Dortmund og Mainz sem ekki urðu partur af hans plönum en strákar sem fá svona mikinn séns hjá honum þetta ungir eru töluvert líklegri til að eiga góðan feril komi þeir upp undir stjórn Klopp, sérstaklega ungir leikmenn hjá þetta stórum liðum.
- Ben Woodburn er ennþá bara 18 ára, hann hefur spilað fyrir öll landslið Wales og m.a.s. komið sex sinnum við sögu í aðalliðinu. Hann er yngsti markaskorari í sögu Liverpool, sá sem átti metið á undan honum var Michael Owen. Ferill Woodburn hingað til bendir til þess að þar eigi Liverpool heimsklassa efnivið.
- Harry Wilson, Marko Grujic, Sheyi Ojo, Ryan Kent og Ovie Ejaria eru allir farnir á láni til Championship liða, hjá Dortmund voru svona leikmenn settir í Dortmund II en flestir þeirra sem ég lista upp úr Dortmund liðinu áttu leiki fyrir það lið. Hjá Liverpool er það U23 ára liðið og lán til liða í neðri deildum til að móta þessa leikmenn. Allir þessir strákar hafa verið lykilmenn í U23 ára liðinu í 2-3 ár núna og næsta skref er að fara á láni í alvöru fótbolta. Dortmund II spilar í neðri deild í Þýskalandi, ekki U23 ára fótbolta. Þannig að þó að þessir leikmenn séu nú farnir á láni er ekkert sem segir að Klopp sé búinn að afskrifa þá hjá Liverpool. Harry Wilson, Ejaria og Kent skrifuðu allir undir nýjan samning ef ég man rétt áður en þeir fóru á láni.
- U23 ára lið Liverpool hefur verið eitt besta lið landsins á því leveli undanfarin ár og er efst í deildinni núna. Þetta gefur oft til kynna að innanborðs eru nokkrir leikmenn sem eru nálægt því að vera tilbúnir í alvöru fótbolta og í tilviki Liverpool eru þetta leikmenn sem flestir eru töluvert yngri en 23 ára. Liverpool er ekki efst í deildinni með lið fullt af 22-23 ára leikmönnun. Það er hinsvegar vonlaust að spá fyrir um hver af þeim (ef einhver) kemur upp og hvenær. Með þennan stjóra og þetta marga góða hefur samt sjaldan verið líklegra að nokkrir þeirra nái að stíga skrefið og við erum farin að sjá það gerast nú þegar.
- Sem dæmi var Harry Kane alls ekki talinn vera nógu góður þegar hann var 21 árs. 22 ára var hann á mörkum þess að vera of góður fyrir Tottenham. Það að fá hann upp úr yngri flokkum frekar en að kaupa hann 21 árs gefur Spurs líka leikmann sem er miklu tryggari sínu félagi.
- Bobby Firmino var að spila í 2.deild í heimalandinu 19 ára og tók svo nokkur ár í Evrópu í að verða sá leikmaður sem við sjáum í dag. Hann var ekki einu sinni “alvöru” markaskorari fyrr en í vetur.
- Það eru ansi stutt síðan Mo Salah og Kevin De Bruyne þóttu ekki nógu góðir hjá Chelsea. Samkeppnin þar var gríðarleg þegar þeir voru þarna og einhverjir af þessum efnilegu leikmönnum Liverpool eiga eftir að lenda í því einnig og leita annað. Flestir ættu þeir þó að fara fyrir töluverðar fjárhæðir. Já og Salah var ennþá í Egyptalandi 20 ára og De Bruyne var hjá Genk í Belgíu 21 árs.
- Ungir leikmenn Liverpool rétt eins og stórstjörnur eins og Coutinho ættu þó að horfa til þessara leikmanna Dortmund sem ég lista upp áður en þeir ákveða að yfirgefa Liverpool. Flestir af þessum frábæru leikmönnum Dortmund toppuðu sem leikmenn undir stjórn Klopp og náðu aldrei sömu hæðum eftir að þeir fóru. Þrír af þeim leikmönnum sem voru valdir leikmenn tímabilsins (Sahin, Kagawa og Götze) og fóru í kjölfarið komu allir aftur nokkrum árum seinna, eru enn hjá Dortmund og hafa aldrei náð sér nærri því jafn vel á strik aftur. Alls ekki núna þegar Klopp er farinn frá Dortmund. Hummels og Lewandowski hafa vissulega viðhaldið sínum gæðum en þeir fóru líka í langbesta liðið í Þýskalandi. Það var miklu meiri ljómi í kringum þá er þeir voru hjá Dortmund.
Stigasöfnun eftir 25 leiki
- Miðað við allan bölmóðin er ótrúlegt til þess að hugsa að staðan í deildinni hefur sjaldan verið betri á þessu stigi tímabilsins en hún er akkurat núna. Ekki síðan Úrvalsdeildin var sett á a.m.k. Þetta gefur auðvitað ekkert en segir okkur að liðið er á góðu róli.
#LFC after 25 matches in Premier League history (1993 to 2018)
[data via @premierleague] #EPL #YNWA pic.twitter.com/QjUx6CNiPv— James Hillyard (@gasometre) February 1, 2018
- Liðið hefur einu sinni skorað meira eftir 25 leiki en liðið hefur gert í vetur, markatalan hefur sömuleiðis einu sinni verið betri. Aðeins einu sinni hefur liðið verið með fleiri stig. Þetta er (sorglega) það minnst sem vörnin hefur lekið undanfarin sex ár. Toppbaráttan er erfiðari núna en oftast áður og ekki á vísan að róa í þeirri samkeppni en við erum andskotin hafi það þáttakendur í baráttunni.
- Liðið er að skora á við bestu lið Liverpool undanfarin 10 ár og jafnvel þó að skarðið sem Coutinho skilur eftir sig sé stórt er sóknarlínan núna vel samanburðarhæf við liðið þá. Salah, Firmino og Mané eru allir á pari við framlínu Gerrard, Kuyt og Torres eða Suarez, Sturridge og Sterling.
- Það er ekkert hægt að gera lítið úr brotthvarfi Coutinho, það er bölvað og mun líklega hafa áhrif en það er ekki þar með sagt að liðið hætti að skora. Það voru skoruð fjögur mörk gegn City án Coutinho og þrjú í síðasta leik gegn einu varnarsinnaðasta liði sem við höfum mætt í vetur. Árið 2017 náði Liverpool í fleiri stig án Coutinho heldur en með hann í liðinu. (Ekki taka slíka tölfærði of hátíðlega samt).
Bæting á varnarleik
-
- Hvort sem það hafi áhrif það sem eftir er að þessu tímabili eða ekki þá hefur Liverpool sjaldan gert eins mikið til að laga varnarleikinn eins og núna í janúar. Það má ekki vanmeta hversu stórt það er að kaupa bókstaflega dýrasta varnarmann í heimi. Fyrir utan það erum við nokkrir sem teljum það styrkja liðið litlu minna að losna við Mignolet úr markinu. Karius hefur auðvitað ekki heillað en Klopp er að a.m.k. að bregðast við og gera miklar breytingar aftast á vellinum. Meira getum við ekki farið fram á í bili.
- Van Dijk er kominn til Liverpool, hann er hrein viðbót við miðvarðaflóruna og strax orðin okkar besti leikmaður í háloftinum og þegar búinn að skora sigurmark í Meseyside Derby.
- Andy Robertson hefur náð að aðlagast Liverpool og er farinn að sýna þann leikmann sem spáð var að þetta yrði þegar hann var 19-20 ára í Dundee. Það gleymist oft að þetta var eitt mesta efni Bretlandseyja í stöðu vinstri bakvarðar á þeim aldri. Moreno er einnig kominn til baka úr meiðslum, hann var búinn að vera bestur af varnarmönnum Liverpool áður en hann meiddist. Það er ekki á hverjum áratug sem það er alvöru samkeppni um stöðu vinstri bakvarðar hjá Liverpool.
- Hægri bakvarðastaðan styrkist með hverjum leik þó þessir 19-20 ára strákar séu ennþá óstöðugir. Okkur hættir til orðið að horfa á þá sem unga og efnilega leikmenn. Vonandi er svo ekki langt í endurkomu Nathaniel Clyne þó hún verði ólíklegri með hverri vikunni hvað þetta tímabil varðar. Meiðsli hans eru gott dæmi um vinnubrögð Klopp, hann hendir ungum strákum frekar í djúpu laugina ef hann hefur alvöru efni í þeirri stöðu.
- Lovren, Matip og Klavan fara allir einu sæti neðar í goggunarröðinni og vonandi sjáum við aðeins einn þeirra í einu inná það sem eftir er af þessu tímabili.
- Fastur markmaður og ekki Mignolet. Vonandi hætti Klopp að skipta leikjum milli markmanna það sem eftir lifir tímabilsins. Liverpool er búið að fá á sig 29 mörk í 25 leikjum eða vel rúmlega eitt mark í leik í deildinni. Þetta er litlu skárra í Meistaradeildinni og ennþá verra í bikarkeppnunum. Karius og Baktus eiga báðir sök á þessari tölfræði sem og varnarleikur liðsins i heild en einhversstaðar verður að byrja og líklega er best að byrja aftast og reyna ná smá stöðugleika þar. Mignolet hefur lekið rúmlega marki í leik í fimm tímabil hjá Liverpool og það hreinlega getur ekki skaðað mikið að gefa Karius sénEf glasið er hálf fullt hjá ykkur er líklegt að vörnin verði mun betri núna síðustu mánuði tímabilsins en hún var fyrstu mánuðina. Við höfum fengið sýnishorn af því á löngum köflum undanfarið hversu þétt vörnin getur verið og það er margt sem gefur von um að hún verði betri eftir áramót.
Minna rotation eftir áramót
- Líklega verður hægt að hrófla minna við liðinu milli leikja núna á lokakafla tímabilsins með minna leikjaálagi. Munurinn milli þessa tímabils og síðasta er ævintýralegur. Það sem af er þessu tímabili hefur Klopp gert samtals 139 breytingar á liðinu milli leikja eða að meðaltali fjórar fyrir hvern leik. Það er rosalegt. Á síðasta tímabili var hann að gera 1,3 breytingar á liðinu milli leikja.
- Þetta hefur svosem komið út á það sama stigalega, Liverpool er með einu stigi meira í deildinni nú en liðið var með í fyrra eftir 25 umferðir en þá var engin Meistaradeild auðvitað. Þáttaka í Meistaradeild, sérstaklega eftir nokkura ára bið kostar oft einhver stig í deildinni en Klopp hefur náð að takast vel á við það í vetur.
- Mikilvægast er að ná stöðugleika í vörninni, fá sem flesta leiki frá öftustu fimm saman, Karius og Van Dijk þar fremst í flokki. Eins þýðir minna leikjaálag vonandi það að fremstu þrír geti spilað sem flesta leiki.
- Það eru pottþétt 15 leikir eftir af þessu tímabili og þeir geta mest orðið 20. Til að setja þetta í samhengi þá spilaði Liverpool 15 leiki bara frá 1.nóvember til 1.janúar!
- Liverpool er jafnan betra þegar Klopp fær tíma milli leikja (ekki algilt) og þarf vonandi ekki að breyta liðinu jafn ört þessa síðust 3,5 mánuði líkt og þurfti á þessu brjálaða tveggja mánaða tímabili.
Þægilegt prógram framundan?
- Ok þetta er hættulegur punktur og svona tölfræði gefur svo sannarlega ekki neitt. En ef við skoðum leikina sem Liverpool á eftir í vetur og hvernig sömu eða sambærilegir leikir fóru á síðasta tímabili þá tapaði Liverpool ekki neinum þeirra og náði í samtals 31 stig.
- Það er ekki alveg raunhæft þetta verði leikið eftir núna, þarna inn á milli eru nokkrir mjög góðir sigrar en á móti eru líka jafntefli sem hægt er að snúa í sigra.
- Heilt yfir tímabilið það sem af er hefur Liverpool núna fimm stigum meira úr þessum 25 umferðum en liðið hafði úr sömu viðureignum á síðasta tímabili.
Meira stress hjá hinum stóru liðunum?
- Lokakafli janúar hefur farið í það að pirra sig á því að á meðan Liverpool gerir ekkert til að styrkja liðið eru öll hin toppliðin að styrkja sín lið. En er hægt að horfa á þessi leikmannakaup á lokametrunum sem merki um smá stress hjá hinum liðunum, sum af þessum leikmannaviðskipum bera þess merki. Vissulega töluverð Pollýanna hér á ferð.
- Sanchez er frábær leikmaður og ætti að styrkja Man Utd gríðarlega, ef ekki þá eru þeir búnir að gera risa samning við 29 ára skapstyggan leikmann sem er ólíklegt að komi til með að bæta sig mikið úr þessu. Vissulega eru þeir sáttir ef hann heldur sama standard og hann hefur verið á. Þetta eru samt leikmannakaup sem Klopp og FSG vilja ekki taka þátt í
- Chelsea eru augljóslega ekki sáttir við hópinn hjá sér og á pappír eru þeir að gera mjög góða breytingu sóknarlega og hver veit nema Barkley taki næsta skref hjá þeim. Palmeri er jafnframt góður leikmaður. En það er ólíklegt að þeir smelli allir inn í hópinn strax.
- Arsenal held ég að hafi gert góða tiltekt í janúarglugganum en þeir hafa líka selt þrjá leikmenn sem hefa komið að flestum mörkum liðsins undanfarin tvö tímabil og það er ekkert öruggt að þeir sem koma í staðin nái að aðlagast liðinu strax. Sóknarlínan er áfram byggð upp áleikmönnum í krinum þrítugt. Eru Mkhitaryan og Aubameyang ekki óvanaleg leikmannakaup fyrir Wenger ef horft er í aldur beggja? Jafnvel merki um smá örvæntingu? Vörnina styrktu þeir svo ekki neitt öfugt við Liverpool sem er jákvætt.
- Tottenham held ég að hafi tekið þennan glugga svipað stresslaust og Liverpool, þeir bæta við sig skynsamlegum leikmannakaupum á fínu verði og breikka hópinn töluvert. Innkaupastefna Tottenham undanfarin ár hefur enda bent til þess að þar er svipaður hugsunarháttur og er hjá Liverpool núna og lítið um panic.
- Með þessu er ég ekki að segja að ég sé sáttur við að Liverpool hafi ekkert gert í janúar, ég vildi leikmann í stað Coutinho strax og finnst galið að leyfa honum að fara án þess að brugðist sé við því strax. Treysti þó Klopp betur en mér til að meta þetta.
- Hinsvegar held ég að það sé gott að Liverpool sé ekki að taka þátt í þessum risasamningum og/eða kaupverði á 29 ára leikmönnum sem hafa allir átt erfitt uppdráttar undanfarið, hvort sem þá er átt við innan eða utan vallar.
Endurkoma Danny Ings
- Síðasti blaðamannafundur Klopp og það að hann hafi samþykkt að lána Sturridge gefur til kynna að Danny Ings er að sína meira á Melwood en við höfum fengið að sjá til þessa á Anfield. “Ég þarf að vera meðvitunarlaus til þess að Danny Ings verður lánaður” sagði Klopp aðspurður um framtíð Ings.
- Þetta gefur til kynna að Ings sé ekki alveg jafn afskrifaður og af er látið og að hann sé eitthvað að gera rétt á æfingum. Þegar Klopp tók við var Danny Ings 23 ára leikmaður með 138 leikja reynslu hjá Burnley og hafði spilað þrettán U21 árs landsleiki fyrir England. Hann var öllu meira efni en við munum kannski í dag og að taka risastökk á ferlinum. Ings var klárlega leikmaður sem maður sá fyrir sér að gæti stórbætt sig undir stjórn Klopp og jafnvel orðið lykilmaður enda klárlega hans tegund af leikmanni.
- Ings er líkleg það næsta sem við eigum Firmino í hópnum, hann er svipað vinnusamur (þegar hann er í formi), mjög góður í pressunni og veit hvar markið er. Undanfarin tvö tímabil hafa verið með ólíkindum sorgleg fyrir hann enda virkar hann toppgaur utan vallar einnig. Passar líklega vel í hóp og er líklega meira tilbúinn að vera varaskeifa en Sturridge eins og staðan er núna.
- Hann hefur verið meiðslalaus mest allt þetta tímabil og hefur spilað nokkra leiki í U23 ára liðinu og er kominn á bekkinn sem fyrsti kostur í sókninni. Næsta skref eru fleiri mínútur með aðalliðinu og vinnubrögð Klopp benda til að það hann fái þann séns á næstu mánuðum. Ef að hann nær að koma jafn vel til baka og Joe Gomez hefur gert á Liverpool mjög góðan squad leikmann í Ings.
- Solanke gæti átt lengra í land en það að hann sé kominn þetta nálægt byrjunarliðinu 19-20 ára segir allt sem þarf um hversu mikið efni hann er og hvaða álit Klopp hefur á honum.
Hugmyndafræði Klopp getur alveg gengið í Englandi
- Þó það sé orðið svolítið síðan Klopp vann síðast titil og að Liverpool hafi sjaldan farið í gegnum eins langan kafla titlalaust er ekki lengra síðan en fimm ár að hann var í úrslitum Meistaradeildarinnar með Dortmund. Hann byrggði Dortmund liðið upp frá grunni nánast, að mestu leiti á þessum ungu strákum sem vísað var í áður. Hann vann deildina á þriðja og fjóra tímabili. Hann fór strax með Liverpool í úrslit Evrópudeildarinnar og liðið er núna í fyrsta skipti í 9 ár komið í 16.liða úrslit Meistaradeildarinnar.
- Samkeppnin á Englandi er vissulega miklu harðari, bæði eru fleiri mjög góð lið og eins eru þjálfarar úr öllum heimshornum og mörg mjög ólík lið. Öfugt við t.d. Þýskaland og Spán þar sem meirihluti stjórana eru heimamenn eða stjórar með svipaða hugmyndafræði.
- Helmingurinn af ríkustu 30 liðum í heimi spilar í úrvalsdeildinni.
Góðir eigendur
- Þrátt fyrir að vera byggja auð sinn ekki á olíusjóðum Austantjaldsþjóða eða Arabaríkja sem er vægast sagt mjög vafasamt hvernig er ráðstafað er lítið hægt að gagnrýna FSG. Sérstaklega ekki eftir að Klopp tók við liðinu. Hann hefur marg ítrekað sagt að hann stjórni leikmannakaupum félagsins og fær pening þegar hann óskar eftir því, innan skynsamlegra marka auðvitað t.d. samkvæmt FFP sem flest lið þurfa ennþá að vinna eftir. Nettó eyðsla er ekkert svakaleg núna áður en peningnum fyrir Coutinho verður ráðstaðaf aftur í leikmannakaup. Þeir hafa samt sett hverja krónu aftur í rekstur félagsins og veittu vaxtalaust lán fyrir stækkun vallarins. Það er rosaleg breyting frá fyrri eigendum.
- Velta Liverpool er sú fimmta mesta á Englandi og Liverpool er í fimmta sæti yfir þau lið sem greiða mest í laun. Þessu er erfitt að breyta mikið og standast FFP á sama tíma.
- Stærri heimavöllur og miklu arðbærari sem og Meistaradeildarfótbolti taka okkur vonandi upp hvað þetta varðar á næstu árum. Svo ekki sé talað um hvað það gæti sparað að fá 1-2 unga leikmenn upp á ári líkt og t.d. TAA og Gomez núna.-
Klopp hefur sama sigureðli og þeir bestu
- Klopp er klárlega draumaráðning fyrir FSG, engu minna en hann var fyrir okkur aðdáendur Liverpool. Það þýðir ekki að hann sé ekki jafn hell-bent á að vinna (leiki/titla) og aðrir stjórar af sama kaliberi.
- Það er ekki ókostur að hann sé sáttur við eigendur Liverpool og noti ekki tækifærið núna til að skjóta á þá á blaðamannafundum haldandi þvi fram að Liverpool geti ekki keppt við hin liðin. Conte og Mourinho hafa verið með þannig takta undanfarið. Benitez var vissulega með mun verri eigendur en Klopp hefur núna en hann var sífellt ósáttur við yfirmenn sína, fyrst Rick Parry og svo Hicks & Gillett jólasveinana. Brendan Rodgers sömuleiðis treysti engum nema sjálfum sér en var vitavonlaus á leikmannamarkaðnum. Það fer nákvæmlega engin orka frá stuðningsmönnum lengur í það að velta sér upp úr innanhússátökum hjá Liverpool. Þá er betra að vera velta sér upp úr liðsuppstillingu, skiptingum og leikmannakaupum.
- FSG ber líka virðingu fyrir Klopp og það fer ekkert á milli mála hver stjórnar hjá Liverpool. Það er enginn seldur gegn hans vilja, Klopp er skv. öllum sem hann þekkja og skrifa um hann ekki líklegur til að láta slíkt ótalið.
Þannig að þrátt fyrir sölu á Coutinho og leiðinlegan janúarglugga er heilmargt jákvætt við Liverpool í dag og liðið er klárlega mikið líklegra til að fara uppá við heldur en niður á við.
Að öðru leiti afsaka ég þessa roastbeef langloku.
EMK
Wow, takk Einar…..
Flott langloka ég treysti klopp alla leið !
Það flottasta sem ég hef lesið á þessari síðu. Takk fyrir, Einar.
Jákvæðni, má það bara ? Flottur pistill, vonandi er þessi jákvæðni bráðsmitandi!
Wow þvílík lesning, frábært Einar, takk takk
Frábær pistill eins og venjulega. Ég er ósammála að þetta hafi verið slæmur gluggi. Ef við lítum raunsætt á málið þá erum við ekki fyrsti valkostur hjá heimsklassa leikmönnum. Samt fengum við inn einn eftirsóttasta varnarmann í heimi, það er vitað að öll liðin á Englandi vildu hann en hann kaus að koma til Liverpool.
Ef það er ekki breyting til batnaðar þá veit ég ekki hvað.
Frábært Einar
glæsilegur pistill Einar en hjó eftir einu : “Ungir leikmenn Liverpool rétt eins og stórstjörnur eins og Coutinho ættu þó að horfa til þessara leikmanna Dortmund sem ég lista upp áður en þeir ákveða að fyrirgefa Liverpool”
á þetta ekki að vera yfirgefa Liverpool? ekki fyrirgefa Liverpool 🙂
Innskot: Takk, lagað.
Frábær pistill hjá þér Einar og þetta er nákvæmlega sem margir hérna á spjallinu hafa gott af því að lesa 😉
Það þarf nefnilega að horfa á heildarpakkan en Klopp er greinilega að vinna eftir ákveðnu plani og hann ætlar ekki að víkja frá því þótt að einhvern meiðist eða leikmaður var seldur sem langar að fara(Coutinho).
Sjáiði virðinguna sem Liverpool eru komnir með, stórlið pakka í vörn á móti okkur. Lið eru farinn að treysta í auknu mæli á föstleikatriði og 11 manna varnarpakka í 90 mín, auðvita virkar þetta stundum en á móti kemur þá eykur þetta líkurnar á stigasöfnum hjá liverpool.
Ég er á því að við séum með einn besta stjóra í heimi og þótt að einhverjir skilja ekki alltaf hvað hann er að gera þá er númer 1,2 og 3 að hann viti það og hingað til er hann að standa sig. Liverpool er lið sem hefur bara verið í meistaradeild tvisvar sinnum síðustu 10 ár og ef Klopp nær að festa okkur í meistardeild tvö ár í röð þá er það stórt skref í að koma okkur nær þeim titli sem við höfum ekki séð síðan 1990 (örugglega margir hérna inni sem muna ekki eftir honum).
YNWA
Flott lesning, greinilegt að þú hefur lesið Paul Tomkins pistilinn eins og ég sjálfur, enda góður pistill hjá honum.
Varðandi gluggann er ég 100% sammála þér, en velti fyrir mér.. ef Klopp hefði kynnt van Dijk 31.janúar hefðu stuðningsmenn verið glaðari? En afþví hann var keyptur snemma í janúar þá er allt hræðilegt? Bara athyglisverð pæling.
Upp og áfram. YNWA.
Glæsileg greining og hugarfarið eins og best gerist.
like
Takk Einar.
Frábær lesning og akúrat það sem ég hef haldið um meistara Klopp.
Hefur verið vaxandi gangur í liðinu sem og klúbbnum en allt tekur þetta sinn tíma og menn og konur þurfa að sýna þolinmæði. Það er jú ekki langt síðan við vorum á barmi gjaldþrots peningalega og gjaldþrota sem lið með arfa slakan stjóra.
Við eigum eftir að toppa deildina áður en næsti áratugur gengur í garð það er ég viss um.
YNWA
Langbesta síða í heimi….segi það og skrifa….þvílík boba!!! Hef fylgst ansi lengi með liðinu okkar, ja síðan Leeds varð meistari og Man.utd. féll úr deildinni, gat ekki valið betra ár og loksins sér maður þjálfara og framtíð sem hæfir Liverpool. Þess vegna þarf þolinmæði, kingja nokkrum erfiðum úrslitum og gefa Klopparanum tíma til að byggja upp lið sem VERÐUR svakalegt á komandi árum. in Klopp I trust!
YNWA
Flott hjá þér Einar
Ég er samt áhyggjufullur. Það verða í sumar mörg lið sem munu hafa áhuga á þá leikmenn sem við viljum fá til okkar. Ekkert víst að þessir leikmenn verða eitthvað ódýrari í sumar. Því er ég hræddur um að leikmen eins og Allisson, Lemar og félagar verða alveg eins dýrir í sumar og fleiri lið reyna allt til þess að fá þá til sín.
Á eftir að lesa þessa miklu grein en geri ráð fyrir að hún rími við mína líðan með stöðuna.
Ég nýt þess að horfa á mitt lið. Allar 90+ mínúturnar í hverjum leik. Hvort sem útkoman er sigur, jafntefli eða tap,
Og ég þakka Klopp það að mestu í dag að sú gleði og spenna fer vaxandi.
Fótbolti er í mínum huga hvert augnablik liðsins míns í hverjum leik en ekki hvað og ef og hefði og hin liðin.
Tilfinningalegu hæðirnar verða hærri með titlum, hef lifað það. En lægðirnar verða þarna líka, alltaf, og ég virði það. Því þær láta blóðið ólga jafn mikið og glæstu sigrarnir.
Liðið mun klára þetta tímabil með nokkrum sóma.
Klopp mun taka næstu stóru skref áfram með liðið í sumar og línan heldur áfram að leita uppá við.
Það dugir mér eftir að hafa lifað hnignunina fyrir ótrúlega fáum árum.
YNWA
Frábær grein. Eg er algerlega sammála Einari að Klopp er með mjög fastmótaðar hugmyndir um hvernig leikmenn hann vill og er að sýna það hjá Liverpool að hann er tilbúinn að bíða eftir þeim leikmönnum sem hann telur falla best að hans hugmyndum. Þessi innkaupastefna hja Klopp hefur reynst liðinu ákaflega vel. Klopp vill fyrst og fremst byggja upp lið og trúir fyrst og fremst á vinnusemi og samstöðu. Þess vegna vill Klopp ekki vandræða leikmenn eins og Aubameyang og Sanzces sem falla ekki inn hans hugmyndafræði. Frábærir leikmenn en mikil áhætta að þeir eyðileggi lagmóral eins og sást vel hjá Arsenal og Dortmund. I þessu sambandi má benda a Sako kallinn ! Það er deginum ljósara að Klopp stjórnar leikmannakaupum félagsins þvert á það sem margir stuðningsmenn Liverpool halda fram og fær pening þegar hann óskar eftir því en þeir leikmenn sem Klopp vill i sitt lið voru ekki á lausu nú i janúarglugganum. Þvi fór sem fór. Eg treysti Klopp fullkomlega og hann verður kominn með lið sem getur barist um tittla vonandi á næsta leiktímabili en i síðasta lagi efir 2-3 misseri. Stígandi lukka er best !
Afhverju gátum við samt ekki haldið Philippe Coutinho eins og RB Leipzig náðu að halda í Naby Keita? Vildu báðir augljóslega fara frá félaginu en Þjóðverjarnir voru harðari í horn að taka.
Það er ekki eins og að Coutinho gæti neitað því að spila sex mánuðum fyrir HM í sumar. Hann hefði þurft að spila og sýna sitt rétta andlit fram að HM.
Menn átta sig held ég ekkert á því hvaða afleiðingar það gæti haft á klúbbinn að missa af Meistaradeildarsæti. Ef klúbburinn tekur tilboði í Coutinho á miðju tímabili. Þá er hann ekki ólíklegur til að gera slíkt hiða sama þegar tilboðin í Firmino og Salah koma í sumar.
Afhverju eru allir leikmenn svo “available” nema þegar Liverpool á í hlut?
Alltaf gaman að lesa greiningarnar þínar Einar, þær fræða mann sem fótboltaáhugamann og staðfesta stundum að það sem maður hugsar sjálfur um boltann og liðið er ekki alvitlaust.
Biðin endalausa eftir Englandsmeistaratitlinum verður framlengd ótímabundið fái Klopp ekki nokkur ár í viðbót með liðinu, það er gapandi ljóst. Eina raunhæfa vonin miðað við módelið er að treysta á að eitt skref áfram í senn (og um leið EKKI tvö aftur á bak) leiði að lokum til sigurs. Klopp nefndi á einum af sínum fyrstu blaðamannafundum að fengi hann að vinna eins og hann kýs kæmi “a title” á 3-4 árum.
Þessi “a title” var reyndar túlkaður í pressunni sem Englandsmeistaratitillinn en Klopp orðaði það samt ekki alveg þannig. Held hann hugsi þó sem svo að þetta sé raunhæft. Það er fágætt að lið dómíneri efsta sætið í deildinni mörg ár í röð og þótt það líti svo út í augum margra að City geti átt óhindrað rönn á næstu árum er ég efins. Lið hiksta, verða södd, leikmenn slaka aðeins á og þá opnast glugginn fyrir önnur lið. Stundum er það músin sem læðist, eins og Leicester, en hvers vegna ekki LFC á næstu 2-3 árum? Sé það vel geta gerst. Hið læðastandi spendýr yrði í því tilviki stærra en mús, því LFC er sannarlega nógu stór klúbbur til að þurfa ekki að koma á óvart þótt titillinn skili sér aftur í hús.
Af öðrum hugleiðingum, af því að þú nefndir aðalmiðverðina fjóra og vildir bara sjá einn af þeim utan Van Dijk í liðinu hverju sinni: Væri þriggja manna varnarlína með Dijk, Lovren og Matip svo galin þar sem Arnold og Robertsson væru framliggjandi bakverðir (báðir mjög sóknarsinnaðir fyrir) og yrðu þar með sterkari hluti miðju og sóknar en fyrir er? Væri allavega gaman að sjá þessa tilraun í einhverjum leiknum, sem væri í raun sóknarsinnuð frekar en hitt.
Anyways, gaman að þessum lestri og haltu áfram að kæta okkur Púllarana með skemmtilegum skrifum Einar!
Varðandi unga leikmenn, hvernig er með Origi er hann kominn út úr plönum Liverpool. Hann er einungis 22 ára gamall og hefur sýnt að hann hefur hæfileika í að verða toppframherji. Leikmenn sem eru vaxnir eins og hann ná oft ekki að toppa fyrr en frekar seint á ferlinum.
Drogba er gott dæmi um þannig leikmann. Þeir eru svipað vaxnir og búa yfir svipuðum eiginleikum amk á sumum sviðum, þeas sterklega vaxnir og hávaxnir. Þeir endast aftur á móti oft lengur en þessir sem eru lágvaxnari og stíla frekar inná hraða og tækni, t.d. Owen.
Ég myndi segja að það væri glæpsamlegt að afskrifa Origi á þessu stigi ferilsins, að mínu mati er þetta eitt mesta potentialið sem Liverpool á og jafnvel í heiminum þó það sé sterklega til orða tekið.
Smá viðbót, sýnist hann vera að gera eitthvað af viti í Bundesligunni
https://www.bundesliga.com/en/news/Bundesliga/liverpool-s-divock-origi-coming-of-age-in-wolfsburg-463581.jsp
Kalli, klárlega að gera eitthvað að viti, en ekki allt:
https://www.youtube.com/watch?v=hl5X7S9rJp8
Sælir félagar
Hvar í veröldinni allri finnast slíkir snillingar sem á kop.is. Hvaða stuðningsmannahópur í veröldinni allri hefir aðgang að öðru eins efni um liðið sitt og við. Takk Einar fyrir bráðskemmtilega, fræðandi og uppbyggilega langloku sem mér fannst að vísu síst of löng. Það er nefnilega þannig að þegar maður er að lesa eitthvað skemmtilegt vill maður ekki að það endi.
Það er nú þannig
YNWA
Það sem ég kann best við Klopp er að hann vinnur með lið en sér einstaklingana.
Gerir einstaklinga betri með því að móta þá inn í lið.
Hann er að púsla og gefur sér tíma í það.
Eins og Einar rekur svo vel þá er maðurinn með plan sem hleypur ekki eftir tilfinningalegu ójafnvægi heldur rökhugsun og framsýni.
Samhent og samhæft lið gerir meira en einstaka oflaunaðar og oft ofmetnar stjörnur.
Við eigum og munum eignast fleiri stjörnur sem eru líka liðsmenn út í eitt og það er styrkur.
Ég vil sjá Klopp næstu 10 árin við stjórnvölinn áður en Gerrard tekur við.
Það fer að þrengjast um í bikaraskápnum, sanniði til.
YNWA
#22 – Maðurinn
Alveg sammála við skulum þá líka dæma þessa eftir sama standard:
https://www.youtube.com/watch?v=v04htGzxNaM
Frábær grein hjá þér Einar 🙂 takk takk félagi.
Ég held að við séum að fara í úrslitaleikin í vor.
klopp er maðurinn!
Algjörlega sammála Làka. Àfram Lfc og kloop.
Frábær pistill, frábær síða!
Ég gleymdi Einar að þakka fyrir þessa frábæru og metnaðarfullu grein, klapp á bakið!! Ekki má gleyma ykkur öllum einnig á kop.is. fyrir þennan frábæra og metnaðarfulla miðil.
Fyrsta sinn sem roastbeef lóka smakkast svona vel, hvað þá þegar upp að vörum bar þá var eins og maður væri með spjót í höndunum, en við fyrsta bita var eins og einhver hefði slegið mann utanundir, gourmet gourmet, löng er hún en ekki vil ég að hún endi. Enda setti ég 2/3 í dogybag til að geta gripið í næstu daga og leyfa bragðinu að endast. Fyrir svartsýnustu púlara, ekki er ég undanskilinn og reyndar alla þá gef ég þeim það ráð áður en við hraunum yfir Klopp og kennum honum um allt og allt, að geyma, ekki lókuna, heldur þessa grein undir koddanum til að geta gripið í á svörtustu dögum, þegar við þurfum að kyngja stoltinu og dreifa huganum því það er eitthvað í loftinu, eitthvað óútskýrt.
Magnað hvað roastbeef langlóka getur verið góð…….með rauðvíni.
YNWA
Frábær pistill