Merseyside derby á miðvikudagskvöld
Halelúja! Landsleikjahléinu er að ljúka!
Því lauk svosem tæknilega um helgina, en þetta var bikarhelgi og okkar menn voru í fríi þar út af dottlu. Mig grunar að þetta frí um helgina hafi verið kærkomið, en það kemur kannski endanlega í ljós annað kvöld þegar strákarnir okkar mæta á Anfield, og fá hina bláklæddu Everton menn í heimsókn sem verða undir stjórn David Moyes.
“There is a league title to be won” hefur verið viðkvæðið núna í svolítinn tíma, og það er bara akkúrat þannig. Staðan er góð, en það er ekkert tryggt. Tja, nema það jú að Fulham og liðin fyrir neðan þá sem hafa leikið jafn marga leiki geta ekki lengur náð Liverpool að stigum. Eftir sigur Arsenal á téðu Fulham liði í kvöld þá er munurinn á okkar mönnum og Arsenal kominn í 9 stig, en þeir eiga vissulega bara 8 leiki eftir. Það gera 24 möguleg stig í pottinum. Ef Arsenal halda sama PPG hlutfalli á lokasprettinum eins og þeir hafa gert fram að þessu – og þetta er stórt EF, því þeir fengu t.d. Saka til baka núna í kvöld – þá enda þeir með 77 stig. Ef það er raunin, þá nægir Liverpool að vinna 3 leiki af þessum 9 sem eftir eru. En svo gætu Arsenal líka farið á “run” og krækt í öll 24 stigin sem eru í boði. Ef svo fer, þá enda þeir með 85 stig. Og þá þurfa okkar menn að tryggja sér að lágmarki 15 stig, þ.e. 5 sigra úr 9 leikjum, 16 stig væri samt betra til að þurfa ekki að stóla á markahlutfallið.
Höfum eitt á hreinu: það á bara alls ekki að þurfa að mótívera leikmenn Liverpool til að mæta á Anfield og spila þar við Everton – alveg sama hversu aðkeyptir hinir rauðklæddir eru. Við gerum bara kröfu til þess að menn mæti með hausinn rétt skrúfaðan á sig og spili þennan leik eins og menn. En ef menn vantar einhverja smá mótívasjón, þá má alveg sýna þeim síðustu sekúndurnar úr leiknum á Goodison. Við ætlum ekki að rifja þær mínútur upp sérstaklega hér, en guð minn almáttugur hvað það þarf að kvitta fyrir þann leik og það hvernig hann endaði.
Mohamed Salah hefur svo alveg nokkrar ástæður til að koma fullur eldmóðs inn í þennan leik. Hann er núna jafn Aguero í lista yfir markahæstu deildarinnar, þeir eru þar saman í 5-6 sæti á listanum. Þá er Andy Cole ekki langt undan heldur, því Salah vantar aðeins 3 mörk til að jafna hann. Semsagt: 4 mörk frá Mo, og hann verður kominn í 4. sætið yfir markahæstu leikmenn úrvalsdeildarinnar. Ég myndi segja að morgundagurinn sé bara alveg fullkominn dagur til að skora 4 mörk og ná þessu 4. sæti, en ég myndi alveg sætta mig við að það taki aðeins lengri tíma. Eins er ekki ólíklegt að Salah sé með annað augað á metinu varðandi mörk og stoðsendingar á sama tímabilinu, Thierry Henry náði 20+20 á sínum tíma, en Salah er núna með 27 mörk og 17 stoðsendingar. Líklega er leikurinn á morgun sömuleiðis tilvalinn til að eiga 3-4 stoðsendingar.
En svo er það líka þannig að þrátt fyrir alls konar met eins og þessi sem Salah er með í sigtinu, þá er í raun bara eitt aðalmarkmið sem skiptir máli á morgun: að ná í 3 stig. Líklega verður það það sem Salah mun allahelst vilja fá út úr leiknum, og það á við um okkur öll.
Það er líka þannig að Ramadan stóð yfir í mars, en lauk núna um helgina. Salah er því farinn að geta borðað yfir daginn aftur. Vonum að það hjálpi.
Staðan á andstæðingunum
Eftir mjög gott gengi á fyrstu vikunum eftir að Moyes tók við, þá hefur aðeins róast í stigasöfnuninni hjá þeim, og í síðustu 4 leikjum hafa þeir gert jafntefli. Síðasti sigurinn hjá þeim kom reyndar 15. febrúar gegn Palace á útivelli. En við getum því miður bara alls ekki reiknað með að þeir séu ekkert hættulegir lengur. Sérstaklega þegar stig á Anfield er í boði. Annars nenni ég ekki að eyða fleiri orðum í þetta blessaða Everton lið, en vil benda á þennan ágæta þátt frá Sportsbible þar sem Everton aðdáendur áttu að reyna að finna út hver þeirra var laumu Liverpool aðdáandi. Mæli með að gefa þessum þætti séns.
Staðan á okkar mönnum
Byrjum á meiðslalistanum. Alisson Becker, Gravenberch og Konate komu allir ögn krambúleraðir úr landsleikjahléinu, Alisson missti af seinni landsleiknum vegna höfuðhöggs, en allir þrír ættu að vera búnir að ná sér og ef þeir byrja ekki þá verða þeir í versta falli á bekk. Conor Bradley er farinn að æfa og Joe Gomez hefur sést á grasinu, en þessi leikur kemur líklega of snemma fyrir Bradley og Gomez er ekki heldur klár. Þá er Trent alls ekki tilbúinn og verður frá í einhverjar vikur til viðbótar. Að lokum er Tyler Morton enn að ná sér eftir uppskurð á öxl og spilar sjálfsagt ekki meira fyrir Liverpool á tímabilinu og er mögulega bara búinn að spila sínar síðustu mínútur fyrir félagið.
Rest ætti nú að vera nokkuð klárir í slaginn.
Það eru engar líkur á því að Slot fari út í neina tilraunastarfsemi í liðsvalinu á morgun. Jújú, hann vantar alla 3 leikmennina sem væru að jafnaði að byrja í vinstri bak (Trent, Bradley, Gomez), svo hann verður líklega að setja Jarell Quansah þangað. Það er ekki ídeal, en pjakkurinn sá hefur reyndar staðið sig furðu vel í þessi tvö skipti þar sem hefur reynt á hann í þeirri stöðu. En að öðru leyti getur Slot líklega stillt upp sínu sterkasta liði. Eina spurning er kannski hvernig hann muni stilla upp í framlínunni. Fær Chiesa loksins sénsinn eftir frammistöðuna undir lokin gegn Newcastle? Líklega ekki, og við skulum prófa að stilla þessu svona upp:
Alisson
Quansah – Konate – Virgil – Robertson
Gravenberch – MacAllister
Salah – Szoboszlai – Gakpo
Díaz
Það eru auðvitað möguleikar í stöðunni þarna. Díaz gæti byrjað vinstra megin – smá séns að Chiesa fái sénsinn – og Jota gæti byrjað í níunni. Jones gæti líka hreinlega byrjað þarna, og kannski setur Slot þetta upp í meira 4-2-4. Látum það bara koma í ljós annað kvöld.
Dagskipunin er skýr: 3 stig í hús. Bara mjög einfalt. Annað er hreinlega ekki í boði. Við bara NENNUM ekki að fara að hleypa þessu eitthvað upp á lokasprettinum og leyfa Arsenal – hvað þá Forest! – að finna einhverja blóðlykt. Nú þarf bara að sigla þessu í höfn. Og okkar menn þurfa bara að finna taktinn sem þeir fundu svo vel fyrir jól.
Spáum 3-1 sigri með mörkum frá Gakpo (2) og Salah.
KOMA SVO!!!!!