Milan 1-3 Liverpool
Arne Slot stýrði Liverpool í fyrsta skiptið í Meistaradeildinni í kvöld þegar liðið heimsótti AC Milan. Slot og leikmenn liðsins höfðu talað um að þurfa að sýna rétt svar við slæmu tapi gegn Nottingham Forest um síðastliðna helgi og tókst það heldur betur með mjög flottri frammistöðu og góðum 3-1 sigri á Milan.
Það voru tvær breytingar gerðar á byrjunarliðinu frá því um helgina en það voru þeir Tsimikas og Gakpo sem komu inn fyrir Robertson og Diaz. Báðir áttu nú heldur betur eftir að koma við sögu í leiknum.
Hvað gerðist marktækt í leiknum?
Leikurinn byrjaði nú ekki vel þegar Liverpool var strax lent undir á þriðju mínútu leiks eftir mjög kjánalegan varnarleik hjá Tsimikas sem skildi vörnina eftir mjög illa setta og Christian Pulisic skoraði með góðu skoti. Í fyrstu virtist koma smá svona ónota tilfinning í liðið en nokkrum mínútum seinna náðu þeir sér niður á jörðina og tóku öll völd á leiknum.
Liverpool átti fín færi og Salah til að mynda átti tvö skot í tréverkið úr fínum færum en Liverpool jafnaði svo metin þegar Trent átti fyrirgjöf eftir aukaspyrnu sem fór á kollinn á Konate sem var örugglega kominn einhverja tíu metra upp í loftið og stangaði boltann af krafti í netið. Flott mark hjá honum og vonandi munum við sjá þetta reglulega hjá honum í vetur. Það var svo svipuð uppskrift af markinu sem kom Liverpool yfir en þá átti Tsimikas góða hornspyrnu á VVD sem sömuleiðis skoraði með kröftugum skalla.
Áfram hélt Liverpool stjórninni og gerði AC Milan eiginlega neitt að viti fram á við eftir að þeir lentu undir og Liverpool meira en minna bara stýrðu hraðanum á leiknum og umferðinni. Milan reyndi að sækja aðeins á bakvið þá og svona en gerðu í raun ekkert sem Liverpool réði ekki nokkuð þægilega við.
Það var svo Szoboszlai sem innsiglaði sigurinn í seinni hálfleik með flottu marki eftir frábæran undirbúning Gakpo sem var óstöðvandi í leiknum.
Bestu menn leiksins
Það voru ekki margir leikmenn Liverpool sem voru ekki að eiga fínan leik. Tsimikas gerði sig sekann í marki Milan og var úti á þekju en bætti það upp með stoðsendingunni og átti heilt yfir mjög fínan leik. Trent lagði upp en fannst fara töluvert minna fyrir honum heilt yfir þar sem uppleggið fór rosa mikið upp í gegnum þá Tsimikas og Gakpo.
Mac Allister átti flottan leik á miðjunni og þeir Konate og Van Dijk voru frábærir, ég er ekki viss um að þeir hafi þurft að svitna mikið í þessum leik. Það sem þeir þurftu að gera gerðu þeir bara svo rosalega vel og auðveldlega. Salah átti nokkrar fínar rispur og óheppinn að skora allavega ekki eitt mark. Szoboszlai var stanslaust að og skoraði gott mark en lengi vel fannst mér hann pínu ekki í takti en margar jákvæðar rispur.
Þeir sem ég tel hafa staðið hvað mest upp úr voru þeir Gravenberch og Gakpo. Gravenberch heldur áfram að vera frábær í þessu miðjumannshlutverki sem hann spilar í vetur og Gakpo byrjaði sinn fyrsta leik og var hreint út sagt frábær, einn af hans betri overall leikjum held ég hjá Liverpool í langan tíma. Gravenberch, Gakpo eða Van Dijk – held við getum hent verðlaunum á einn af þeim og ég verð bara sáttur.
Hvað hefði betur mátt fara?
Liverpool hefði getað skorað fleiri og svo sem kjánalegt mark að fá á sig svo fyrir utan það þá var í raun ekkert mikið út á þennan leik að setja. Fínar sóknir og vörðust vel. Ég nenni allavega ekki að reyna að týna bara einhver atriði til að reyna að finna neikvæðan vinkil á þetta – æ jú, segjum bara að við fengum alltof fáar mínútur af Chiesa á vellinum!
Næsta verkefni?
Næsti leikur er heimaleikur við Bournemouth um næstu helgi og svo bikarleikur gegn West Ham í miðri viku eftir það. Við viljum klárlega sjá meira svona í þeim leikjum heldur en það sem við sáum gegn Nottingham Forest takk!