Latest stories

  • Liverpool 4 – Tottenham 0 – Wembley bíður

    Mörkin

    C. Gakpo 

    Mohamed Salah 

    D. Szoboszlai 

    V. van Dijk 

    Hvað gerðist markvert í leiknum

    Fyrsta korterið eða svo af þessu leik stefndi í að þetta yrði hádramatískur hitaleikur. Það var gífurlegur hrað báðum megin, ákveðið gerpi náði að vinna sannkallaðan leiksigur eftir brot Van Dijk, höfuð skullu saman svo úr blæddi í vítateig Spurs og Son tók meira segja smá tíma í að laga míkrafóninn í horninu hjá Kop stúku, nokkuð sem ég man ekki eftir að hafa séð áður.

    Svo kæfðu Liverpool Spurs. Eins og anakonda sem nær utan um sært dýr tóku okkar menn utan um hitt liðið, leyfðu þeim ekki að hreyfa sig og kaffærðu þeim.

    Það er erfitt að koma orðum að hversu miklir yfirburðir okkar manna voru í þessum leik. Í fyrri hálfleik var xG Tottenham 0.02, á einum tímapunkti um miðbik hálfleiks voru okkar menn búnir að vera 75% með boltann og þeim punkti var staðan 7-0 í skotum. Í ruslmínútunum í lok leiks náði Spurs smá að sparka frá sér og eiga ágætis skot, en þetta var aldrei í hættu eftir að Salah tvöfaldaði forystuna í byrjun seinni hálfleiks, gestirnir enduðu með xG upp á 0.19

    Svo virtist sem Ange hafi komið til Anfield til að verja forystuna. Gallinn frá hans sjónarhorni var að hann er með sundurtættan hóp vegna meiðsla og pressan hefur sjaldan verið betri hjá Liverpool í vetur. Niðurstaðan var að leikurinn fór meira eða minna fram í varnarþriðjungi Spurs, þar sem okkar menn sendu boltann af Slot þolinmæði fram og til baka þangað til þeir náðu að skapa glufur.

    Okkar menn gerðu bara sitt, fagmannlega, skipulega og með smá snafs af einstaklingsgæðum. Héldu algjörri stjórn á leiknum og sigldu síst til of stórum sigri heim.

    Hverjir stóðu sig vel?

    Hér má telja upp nær alla leikmenn Liverpool. Salah var flottur, Nunez síhættulegur, miðjan okkar hafði algjöra yfirburði, bakverðirnir voru á milljón allan leikinn og Gakpo skoraði frábært mark. En fyrirliðinn var klárlega bestur, leiddi sýna menn eins og kóngur og stoppaði allt sem nálægt honum kom.

    Hvað hefði mátt betur fara?

    Ætla að nefna eitt og bara eitt: Í fyrri hálfleik enduðu ef við töldum rétt FJÓRAR hornspyrnur hjá Kelleher. Fjóar hornspyrnur sem Liverpool tóku hinum megin á vellinum! Það er ótrúlegt hversu daprir við erum alla jafnan í föstum leikatriðum (í sókn), þegar það virðist vera svo einfalt að láta geggjaða spyrnumenn senda boltann á Van Dijk, Konate, Jota eða Nunez.

    Umræðan eftir leik

    Liverpool eru komnir í dauðafæri til að verja dolluna frá því í fyrra og því ber að fagna.

    Á sama tíma þýðir þetta tilfærslur á leikjum. Frá og með næsta miðvikudegi spilar liðið fimm deildarleiki á 15 dögum: Everton (a) Wolves (h) Villa (a) City (a) Newcastle (h).

    Að lokum eitt skondið sem ég rakst á á meðan leik stóð:

    Næstu verkefni

    Áður en að þessu kemur er leikur gegn botnliði B-deildarinnar um helgina í FA bikarnum. Svo er það þessi rosalega törn.

  • Byrjunarlið gegn Spurs: Nunez byrjar

    Jæja, okkar menn eru einum góðum leik frá fyrsta úrslitaleik undir stjórn Slot. Hollendingurinn hefur valið hér um bil sterkasta lið sem er í boði, utan þess að Bradley kemur inn fyrir meiddan Trent og Kelleher er að vanda í markinu í bikarnum. Svo geta menn deilt um hvort Nunez eða Diaz eru betri til að hefja leik, eins hátt upp og Spurs eiga til að spila held ég að sprengikraftur Nunez muni valda alls konar usla.

    Samkvæmt Pearce er Allison ekki meiddur, bara hvíldur í kvöld.

    Svona lítur þetta út:

     

     

    Hinum megin er þessi keppni besti séns Spurs að gera tímabilið eftirminnilegt. Þeirra byrjunarlið er eftirfarandi:

     

    Hörkuleikur framundan, ætla að spá okkar mönnum 3-1 sigri. Hvernig lýst ykkur á?

  • Upphitun: Spurs í deildarbikarnum

    Á morgun mætum við Tottenham í seinni undanúrslitaleik deildarbikarsins þar sem skýrist hvaða lið það verður sem mætir Newcastle í úrslitaleik eftir að þeir kláruðu Arsenal í kvöld. Tottenham leiðir 1-0 eftir umdeildan sigur í fyrri leik liðanna þar sem Bergvall skoraði eina mark leiksins andartökum eftir að hann átti að fá rautt spjald.

    Tímabil Tottenham hefur einkennst af óstöðugleika og meiðslum, eitthvað sem við könnumst við frá síðustu árum, en þeir leiða nú meiðslatöflu ensku Úrvaldsdeildarinnar með tíu menn frá vegna meiðsla. Radu Dragusin bættist á þann lista þegar hann kom inn á í hálfleik í Evrópudeildinni gegn Elfsborg og sleit krossband sem varð til þess að Tottenham fór á markaðinn og keypti Kevin Danso frá Lens til að reyna leysa miðvarðarvandamál sín og við gætum séð hann spila sinn fyrsta leik fyrir Tottenham á morgun ásamt Mathys Tel sem kom á láni frá Bayern.

    Tottenham sitja eins og er í fjórtánda sæti deildarinnar með þrettán tapleiki á tímabilinu og er Postecoglou undir mikilli pressu sérstaklega í leiknum á morgun þar sem hann er búinn að lofa stuðningsmönnum Tottenham titli í ár og þetta er einn af aðeins tveimur sem liðið hefur enn möguleika á því að vinna.

    Liverpool

    Okkar menn ættu að koma inn í leikinn með blóð á tönnunum eftir tapið í fyrri leiknum og koma inn í leikinn eftir sterkan en erfiðan 2-0 sigur gegn Bournemouth um síðustu helgi. Næsta helgi er FA-cup helgi og við dróumst þar gegn Plymouth þannig það ætti að vera upplagt að hvíla þá sem þurfa í þeim leik og því sjáum við líklega ansi sterkt lið á morgun.

    Trent fór útaf meiddur gegn Bournemouth og verður ekki með í þessum leik en betur fór en á horfðist og verður hann líklega aðeins frá í einhverja daga frekar en vikur. Hann er eini maðurinn á meiðslalistanum og verða því sterkir leikmenn sem ná ekki einu sinni á bekk á morgun.

    Geri ráð fyrir að Slot haldi sig að mestu leiti við sama lið og gegn Bournemouth, þó með tveimur breytingum. Bradley kemur augljóslega inn fyrir meiddan Trent og eitthvað segir mér að hann setji inn Nunez til að fá hefbundna níu gegn óvanri vörn Tottenham manna og eigi þá val af Diaz eða Jota inn af bekknum. Held skotið á Jota ef hann væri í betra leikformi en held að Nunez fái sénsinn á morgun.

    Spá

    Okkar menn mættu eitthvað daufir í fyrri leikinn og fundu sig aldrei en ég sé það ekki gerast aftur og held að við sjáum frekar eitthvað í líkingu við deildarleik liðanna sem endaði 6-3 Liverpool í vil. Ætla spá 4-1 sigri þar sem Salah verður stjarna kvöldsins, eins og flest kvöld, og setur þrennu.

  • Gullkastið – Leikmannaglugganum lokað

    Afsláttarkóði í febrúar á WoktoWalk.is – 25% afsláttur með afsláttarkóðanum Liverpoolerubestir

    Það er síðasti dagur leikmannagluggans í dag eða mánudagur eins og við stuðningsmenn Liverpool köllum hann. Rosalega tíðindalítill mánuður hjá okkar mönnum sem er kannski skiljanlegt miðað við gengi liðsins og meiðslalista.

    Flottur útisigur á Bournemouth um helgina sem varð ennþá mikilvægari eftir að Arsenal pakkaði vonlausu City liði saman. Næsta vika fer svo í báðar bikarkeppnirnar, fyrst undanúrslit í deildarbikarnum gegn Tottenham.

    Bjóðum auk þess Deloitte hjartanlega velkomna í hóp samstarfsaðila Kop.is og völdum fyrsta Fagmann vikunnar í boði Deloitte.

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur: SSteinn og Einar Örn sem kynnti m.a. nýja veitingahúsakeðju sína, Wok to Walk og hlóð í 25% afsláttur fyrir okkur á Kop.is í febrúar. Afsláttarkóði á WoktoWalk.is er auðvitað Liverpoolerubestir

    Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.

    Egils Gull / Deloitte / Verdi Travel Ögurverk ehf / Done

    Wok to Walk 

    Fyrir þá sem vilja kynna sér Wok to Walk staðin hans Einars Arnar þá er heimasíðan þeirra https://woktowalk.is/is

    MP3: Þáttur 507

  • Gluggadagur…uppfært í gegnum daginn

    20:00
    Einhver áhugi kviknaði á Tyler Morton hjá Middlesboro, en svo kom víst ekki nægilega hátt tilboð í hann. Sem stendur lítur út fyrir að hann verði áfram hjá Liverpool út tímabilið a.m.k., en sjáum til hvort eitthvað hreyfist fyrir kl. 11.

    14:00

    Stefnir í lélegasta leikmannagluggadag sögunnar. Ekkert bara enn að byrja að fara í gang.

    Ekki það að við reiknum með neinum stórum fréttum af okkar liði í dag þá er vert að samt halda öllu opnu, stundum gerast óvæntir hlutir (segjum við Lakersmenn í dag) og búast má við einhverjum brottförum yngri leikmanna.

    Setjum líka ef að eitthvað merkilegt gerist í Premier League þegar kemur að kaupum og sölum.

    Komnir

    Engir

    Farnir

    Stefan Bajcetic skipti um lánslið, frá Salzburg til Las Palmas
    Marcelo Pitaluga – Fluminese (frítt)

    Fréttir úr EPL

    Leikmaður Frá Til
    Marcus Rashford Man.United Aston Villa (lán út tímabilið)
    Mathias Tel Bayern Tottenham
    Evan Ferguson Brighton West Ham (lán út tímabilið)
    Marco Asensio PSG Aston Villa (lán út tímabilið)
  • Stelpurnar mæta West Ham – aftur

    Eftir að hafa heimsótt West Ham konur í miðri viku og hafa unnið þann leik 5-0, þá er komið að heimaleik í deildinni, og núna er það hlutverk West Ham að setjast upp í rútu og heimsækja okkar konur, í leik sem hefst núna kl. 14.

    Sigurinn í miðri viku var vissulega verðskuldaður, en það hve stór hann varð litast klárlega af þeirri staðreynd að andstæðingarnir misstu mann af velli rétt fyrir hálfleik og spiluðu því rúmlega heilan hálfleik einum færri. Við getum því lesið mismikið í þau úrslit, og ekki hægt að gera ráð fyrir auðveldum leik í dag.

    Nýju leikmennirnir – Sam Kerr og Julia Bartel – hafa komið sterkar inn, en það er óneitanlega galli að þær skuli bara vera lánsmenn. Í fullkomnum heimi þá hefði félagið bara keypt þær, en það virðist ekki vera í boði. Þriðji lánsmaðurinn bættist svo við á föstudaginn þegar Alejandra Bernabé kom til félagsins, einnig frá Chelsea rétt eins og Julia Bartel. Hún er bakvörður að upplagi, og með því að bæta henni í hópinn er hugsanlega verið að viðurkenna að það að endurnýja ekki við Emmu Koivisto hafi verið mistök. Lucy Parry er vissulega ung og ekki bara efnileg eins og sást á markinu sem hún skoraði í vikunni, en hún er líka búin að vera að slást við meiðsli og vaxtarverki, og hefur því ekki verið áreiðanleg þegar kemur að því að stilla upp liðinu. Alejandra er þó ekki í hóp í dag, enda hefur hún í mesta lagi náð einni æfingu með hópnum.

    Liðið sem Matt stillir upp í dag er að mestu leyti kunnuglegt:

    Micah

    Fisk – Clark – Evans

    Parry – Höbinger – Kerr – Holland – Hinds

    Kiernan – Smith

    Bekkur: Laws, Bonner, Daniels, Bartel, Nagano, Shaw, Kapocs, Enderby, Roman Haug

    Það kemur alveg smá á óvart að Gemma Evans sé valin fram fyrir nöfnu sína Bonner, og eins kemur líka aðeins á óvart að Fuka Nagano sé sett á bekkinn. En svo má líka segja að frammistaðan hjá Nagano gegn Leicester um síðustu helgi hafi ekki verið það góð, svo má líka alveg reikna með að leikjaálagið sé aðeins farið að spila þarna inn í. Vissulega spila stelpurnar mun færri leiki en strákarnir, en núna er þetta þriðji leikurinn á viku og þá má alveg fara að rótera aðeins. Þannig hefði maður líka alveg átt von á að sjá Roman Haug í byrjunarliði, en þar spilar sjálfsagt inn í að hún er nýkomin úr meiðslum og að Leanne Kiernan hefur verið að finna fjölina sína og á alveg skilið að byrja.

    Leikinn má sjá á Youtube rás deildarinnar eins og áður.

    KOMA SVO!!!!!

  • Bournemouth 0-2 Liverpool

    Liverpool vann ansi mikilvægan 2-0 sigur á útivelli þegar liðið heimsótti Bournemouth sem hafa verið á miklu skriði á leiktíðinni og reynst mörgum liðum ansi erfiðir – þeir til að mynda pökkuðu Nottingham Forest saman umferðina áður.

    Leikurinn byrjaði nú ekki brjálað sannfærandi og Liverpool byrjaði strax á að tapa boltanum og Bournemouth komust í skotfæri en svona heilt yfir þá spilaðist leikurinn nokkuð jafnt á milli liðana tveggja sem bæði áttu ágætis færi yfir allan leikinn. Báðir markverðir þurftu í nokkur skipti að verja vel og tréverkið bjargaði Liverpool í tvígang.

    Um miðjan fyrri hálfleik komst Liverpool yfir á nokkuð “ódýran” hátt þegar Gakpo var felldur þegar hann komst framfyrir varnarmann sem rak fótinn í aftari fót Gakpo sem missti jafnvægið. Lítur út fyrir að vera mjög soft og á einhvern hátt var það eflaust soft en vítaspyrna dæmd, snertingin átti sér stað og klárlega tók sóknarmann úr jafnvægi og mótmælti varnarmaðurinn þessu ekki einu sinni að ráði. Mo Salah steig á punktinn og skoraði af öryggi.

    Í seinni hálfleik hitnaði nú aðeins í kolunum og menn fóru að brjóta svolítið og virtist um stund að dómarinn færi að missa tökin á leiknum en svo virtist þetta bara svolítið fjara út þó svo að ákefðin í leiknum hafi þó aldrei minnkað.

    Það var svo Mo Salah sem innsiglaði sigurinn með sínu öðru marki í leiknum þegar hann skrúfaði boltann upp í fjærhornið af hægri hlið vítateigs eftir góðan undirbúning Nunez og Jones sem voru nýlega komnir inn á af bekknum.

    Alisson átti 2-3 risa vörslur í seinni hálfleik og átti á sinn hátt “match winning” leik og var hann að mér fannst upp á sitt besta í dag og einn af þremur mönnum Liverpool sem mér fannst standa hvað mest upp úr. Hinir tveir voru Salah og Gravenberch sem voru báðir frábærir í dag, Salah með sín tvö mörk og Gravenberch – bara vá, hann er einn af bestu miðjumönnum heims í dag ef ekki hreinlega bara sá besti.

    Sem stendur er Liverpool núna með níu stiga forskot á næstu lið, Forest vann sinn leik í dag 7-0 og á morgun mætir Arsenal liði Man City sem hafa verið að vinna á stigasöfnun sína undanfarið og er farið að glitta í þá í baksýnisspegli Arsenal, það gæti því verið mjög áhugaverður leikur á morgun sem gæti haft mikið að segja um það hvernig deildin gæti spilast svona seinni hluta leiktíðar.

    Næsti leikur er seinni viðureignin gegn Tottenahm í undanúrslitum Deildarbikarsins, svo er það Plymouth í bikarnum og næsti deildarleikur er svo hinn alræmdi útileikur gegn Everton sem var frestað fyrr í vetur.

  • Byrjunarliðið gegn Bournemouth

    Bekkur: Kelleher, Quansah, Tsimikas, Bradley, Endo, Jones, Elliott, Nunez, Jota

    Ekkert sem kemur á óvart í uppstillingunni á byrjunarliðinu. Það sem kemur helst á óvart er að Jones nær á bekk, sem og Jota. Gomez og Chiesa eru hvorugir á bekk – Gomez að koma til baka en var byrjaður að æfa í gær – og Chiesa nýbúinn að klára 90 mínútur í fyrsta sinn síðan guðmávitahvenær og er örugglega bara feginn að fá smá andrými. Þetta þýðir einfaldlega að það eru allir heilir. Já ég hélt að þetta myndi maður aldrei skrifa.

    Við verðum mjöööööög þakklát fyrir strákana okkar ef þeir krækja í 3 stig í dag.

    KOMA SVO!!!!!

  • Laugardagsheimsókn til Bournemouth

    Eftir að B-liðið skrapp til Hollands í miðri viku, þá er komið að því að A-liðið heimsæki suðurströndina og mæti þar einu heitasta liði deildarinnar í augnablikinu.

    Í upphafi leiktíðar voru sjálfsagt ekki margir sem áttu von á að stórleikur síðustu umferðar yrði leikur Bournemouth og Nottingham Forest. Því síður að sá leikur færi 5-0 fyrir heimaliðið, svona í ljósi þess að Forest kom inn í þann leik sem liðið í 3ja sæti yfir þau lið úrvalsdeildarinnar sem höfðu fengið fæst mörk á sig það sem af er leiktíðar. En svona er þetta og því má alveg færa rök fyrir því að stórleikur morgundagsins verði þessi leikur, enda um að ræða liðin í 1. og 7. sæti deildarinnar. En svo er nú ansi stór leikur á sunnudaginn þegar liðin í 2. og 4. sæti mætast, og úrslitin í þeim leik gætu alveg spilað allstóra rullu í toppbaráttunni sömuleiðis.

    Andstæðingarnir

    Eins og áður sagði eru Bournemouth eitt heitasta lið deildarinnar um þessar mundir, enda nýbúnir að vinna liðið í 3ja sæti (Forest) 5-0, og liðið í 5. sæti (Newcastle) 1-4 á útivelli. Jafnframt tóku þeir sig til og unnu City (4. sæti) í byrjun nóvember og Arsenal (2. sæti) um miðjan október, ásamt því að gera jafntefli við liðið í 6. sæti (Chelsea) núna í janúar. Þá er orðið talsvert síðan liðið tapaði leik í öllum keppnum, en það gerðist 23. nóvember þegar þeir lutu í gras fyrir Brighton á heimavelli.

    En þeir hafa vissulega tapað í haust, og þar á meðal á Anfield seinnipartinn í september, þegar okkar menn skoruðu 3 mörk gegn engu marki gestanna. Svo það er hægt að vinna þetta lið, bara fjarri því að vera eitthvað sjálfgefið.

    Þjálfari félagsins er hinn 42ja ára gamli Spánverji Andoni Iraola. Það var enginn annar en Richard Hughes sem réði hann til Bournemouth þarsíðasta sumar, eftir að Bournemouth höfðu endað í 15. sæti deildarinnar vorið 2023 undir stjórn Gary O’Neil sem var látinn fara í kjölfarið. Iraola stýrði þeim svo í 12. sætið í vor, og félagið hefur aldrei náð í jafn mörg stig á einu tímabili eins og þá, þegar þeir náðu sér í 48 stig. Núna er liðið í 7. sæti með 40 stig og eiga eftir að spila 15 leiki. Uppgangurinn dylst því engum, og nokkuð ljóst að stigamet félagsins mun falla aftur í lok leiktíðar.

    Iraola hóf þjálfaraferilinn árið 2018 hjá kýpverska félaginu AEK Larnaca, kannski má tala um að “fall sé fararheill” því hann var rekinn þaðan eftir 7 mánuði þegar liðið hafði ekki unnið leik í 2 mánuði samfellt. Þaðan fór hann í næstefstu deild á Spáni, fór svo til Rayo Vallecano árið 2020, og kom svo þaðan til Bournemouth sumarið 2023. Stjarna hans er farin að skína það skært að maður yrði ekkert hissa að sjá hann fara til einhvers allnokkuð stærri klúbbs fljótlega.

    Bournemouth hafa gert sniðug kaup í síðustu gluggum, sumarið 2023 kom Milos Kerkez frá AZ Alkmaar á 15 milljón pund, Tyler Adams frá Leeds á 22.5m pund og Justin Kluivert frá Roma á 9m pund sumarið 2023, og síðasta sumar kom Dean Huijsen frá Juventus á tæpar 13m punda, bara svo örfáir séu nefndir. En svo eru þeir líka með öfluga leikmenn sem hafa verið lengur hjá félaginu, þannig er t.d. Ouattara sem skoraði þrennu gegn Forest í síðustu umferð búinn að vera hjá þeim síðan sumarið 2022. Við höfum séð þetta oft áður að stundum detta ensku klúbbarnir í þann gír að hitta á nægilega marga til þess að gera ódýra en efnilega leikmenn, búa til umhverfi fyrir þá þannig að þeir ná að blómstra, og ná þannig annaðhvort að hífa sig upp töfluna eða í versta falli selja þá með góðum afgangi. Sem betur fer er þetta fjarri því að vera sjálfgefin eða auðfáanleg uppskrift, og hægt að finna allmörg dæmi þess að klúbbar hafi fallið gjörsamlega á þessu prófi *hóst*United*hóst*.

    Nóg um andstæðingana í bili. Það er a.m.k. alveg ljóst að þetta eru verðugir andstæðingar og okkar menn þurfa að hafa sig alla við.

    Talandi um okkar menn…

    Okkar menn

    Já það var ungt og ferskt lið sem spilaði í Meistaradeildinni á miðvikudaginn, á meðan megnið af aðalliðinu sat heima og safnaði vopnum sínum. Allnokkrar tilraunir voru gerðar í þeim leik, eins og að spila Robbo í miðverði. Sú tiltekna tilraun var ekkert endilega að ganga upp í fyrstu atrennu, en á móti kemur líka að þegar um er að ræða lið sem hefur lítið spilað saman þá er það nú oft alveg nóg til að þýða að hrynjandinn í liðinu fýkur veg allrar veraldar. Það voru líka aðrar tilraunir eins og að spila Danns uppi á topp, og þó það hafi kannski ekki skilað sér í vikunni þá er engin ástæða til að afskrifa þann efnilega leikmann.

    Af byrjunarliðinu sem má reikna með að byrji á morgun voru það aðeins Robbo og Gakpo sem spiluðu í miðri viku, og voru báðir komnir útaf á 65. mínútu. Nunez átti væntanlega að byrja gegn PSV en veiktist fyrir leik. Tsimikas spilaði allan leikinn og verður því sjálfsagt á bekk á morgun. Það er því nokkuð ljóst hvernig liðið mun líta út:

    Alisson

    Trent – Konate – Virgil – Robbo

    Gravenberch – MacAllister

    Salah – Szoboszlai – Gakpo

    Díaz

    Auðvitað gætu veikindi eða eitthvað slíkt breytt þessum plönum, en þar fyrir utan er ansi líklegt að þetta verði byrjunarliðið.

    Slot sagði í morgun að Jota, Gomez og Nunez hefðu allir mætt til æfinga í dag, en það var ekki ljóst hverjir þeirra verði leikfærir á morgun. Hugsanlega verða einhverjir þeirra á bekk, en það hljómaði líka eins og Slot hefði alls ekki hugsað sér að henda neinum þeirra of snemma út í djúpu laugina, enda er breiddin í hópnum í raun með albesta móti og nóg af öðrum leikmönnum til taks. Í reynd hefur hópurinn líklega aldrei verið jafn breiður og jafn vel staddur hvað meiðsli varðar á þessum tíma árs, í minningunni er a.m.k. ansi langt síðan meiðslalistinn var svona stuttur. Það er semsagt bara Jones sem er frá og nokkuð ljóst að hann verði ekki á bekk. Vissulega er þá miðjan kannski sá hluti liðsins sem er hvað þynnstur, en mögulega er þá að opnast gluggi fyrir McConnell sem sýndi í leiknum á miðvikudaginn að það er ýmislegt í hann spunnið. Reyndar svo mikið að Slot talaði um að hann myndi fyrir vikið alls ekkert senda hann út á lán á seinni hluta leiktíðarinnar, svo kannski verður hann á bekk.

    Salah skoraði ekki í fyrri leik liðanna, og brennur alveg örugglega í skinninu að setja a.m.k. eitt mark á morgun. Enda er það svo að ef hann ætlar að bæta eigið met (sem hann á með Thierry Henry) að skora hjá flestum liðum deildarinnar á einu tímabili, þá verður hann að gjöra svo vel að skora á morgun því annars nær hann ekki að skora hjá fleirum en 17 liðum að hámarki – sem er núverandi met. Þ.e. það að hafa ekki náð að skora gegn Forest þýðir að nú er enginn slaki upp á að hlaupa.

    Er þetta leikur þar sem við yrðum sátt við jafntefli? Mögulega… ég held að það sé samt þannig að í öllum jafnteflisleikjum tímabilsins þá vitum við að liðið hefði alveg átt að geta gert betur og náð í stigin þrjú. Tilfinningin er sú að ef menn mæta vel stemmdir til leiks, og ef orkustigið verður hátt, þá eiga okkar menn mjög góðan möguleika á að koma heim með 3 stig í farteskinu. Það er bara svo alls ekki sjálfgefið.

    Spáum því nú samt að þetta endi 1-3, með mörkum frá Salah, Gakpo og MacAllister.

    KOMA SVO!!!!!

  • Gullkastið – Meistara-deildarmeistarar

    Liverpool endaði á toppi deildarinnar í Meistaradeildinni þrátt fyrir tap gegn PSV í lokaumferðinni og ljóst hvaða fjórum liðum okkar menn geta mætt í 16-liða úrslitum. Flottur sigur á Ipswich í deildinni og toppsætið ennþá okkar.
    Það er mjög margt svipað núna og fyrir ári síðan í deildinni en með undantekningum þó sem vonandi eru okkar mönnum í vil, skoðuðum það aðeins.
    Leikmannamarkaðurinn er opin til mánaðarmóta og töluvert slúður þar þessa dagana, lítið tengt Liverpool reyndar.
    Nýtt Ögurverk lið og stór helgi framundan í enska boltanum.

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur: SSteinn

    Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.


    Egils GullHúsasmiðjan / Verdi Travel Ögurverk ehf / Done

    MP3: Þáttur 506

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close