Annar leikurinn í Meistaradeildinni, aftur gegn ítölsku liði en að þessu sinni á heimavelli. Það er þó ekki úr vegi að skoða aðeins bakgrunn og rætur félagsins og borgarinnar, svo við áttum okkur betur hverju má búast við frá andstæðingum Liverpool (með smá hjálp frá Chatgpt).
Borgin
Bologna er borg á Norður-Ítalíu, með ríka sögu sem spannar yfir tvö árþúsund. Bologna var upphaflega byggð af Etrúrum á 6. öld f.Kr. og varð síðan að rómverskri nýlendu undir nafninu Bononia árið 189 f.Kr. Á tíma Rómaveldis var hún mikilvæg miðstöð verslunar, sökum staðsetningarinnar, á milli Po-sléttunnar og Appennínafjalla. Staðsetningin er raunar alveg fáránlega góð, á miðjum norður-Ítalíuskaga, stutt í allar áttir, t.d. til Flórens, Pisa, Genoa og Mílanó. Eftir fall Rómaveldis varð borgin að hluta af ýmsum konungsríkjum, þar á meðal Langbarðaveldi og síðar veldi Karls mikla.
Á miðöldum náði Bologna nýjum hæðum, einkum eftir stofnun Háskólans í Bologna árið 1088, en hann er elsti háskólinn í heiminum. Háskólinn dró til sín nemendur frá öllum heimshornum og gerði Bologna að mennta- og fræðslumiðstöð Evrópu. Á 12. öld tók borgin upp sjálfstjórn sem borgríki og varð hluti af bandalögum borga sem börðust gegn valdi Hins heilaga rómverska keisaradæmis. Þessi tími einkenndist af efnahagslegum uppgangi, sem sást meðal annars í byggingu hinna frægu turna, Asinelli og Garisenda.
Í endurreisnartímanum var Bologna enn menningar- og listamiðstöð. Borgin varð hluti af Páfaríkinu árið 1506 og hélt áfram að vaxa og þróast. Þegar Ítalía var sameinuð á 19.öld varð Bologna að hluta af hinu nýja ítalska ríki. Á 20. öld leiddi borgin inn í tíma iðnvæðingar og varð mikilvæg miðstöð stjórnmála og menntunar þar sem róttækir sósíalistar og andfasistar létu til sín taka á fyrri hluta aldarinnar. Borgin er kannski Neskaupstaður – Litla Moskva – þeirra Ítala (í pólitískum skilningi) því oftast nær hefur róttækni einkennt borgina og meirihlutinn í borgarstjórn oftast verið vinstri sinnaður. Líklega er það vegna áhrifa háskólastúdenta í gegnum aldirnar.
Í dag er Bologna þekkt fyrir að vera bæði söguleg og nútímaleg borg. Hún er fræg fyrir einstaklega vel varðveittan miðbæ sinn, matarmenningu og virkt háskólalíf. Það sem gerir hana sérstaka er hvernig hún hefur haldið í fornleifafræðilegan og menningarlegan arf sinn, allt frá rómverskum tímum til miðalda, á sama tíma og hún heldur áfram að vera lífleg, nýsköpunarmiðuð borg.
Íþróttirnar
Íþróttir gegna mikilvægu hlutverki í Bologna, og borgin á sér langa íþróttahefð, sérstaklega í fótbolta en ekki síður í körfubolta. Bologna FC 1909 er fótboltalið borgarinnar og er eitt af elstu og virtustu liðum Ítalíu. Liðið var stofnað árið 1909 og hefur náð ágætis árangri í gegnum tíðina. Helstu afrek félagsins eru sjö ítalskir meistaratitlar. Bologna FC leikur heimaleiki sína á Stadio Renato Dall’Ara.
Bologna á einnig sterka hefð í körfubolta. Körfuboltaliðin Virtus Bologna og Fortitudo Bologna eru bæði þekkt á Ítalíu og í Evrópu. Virtus Bologna, oft nefnt “La Vu Nera,” er eitt af sigursælustu liðum Evrópu og hefur unnið bæði ítalska meistaratitla og Evrópukeppnir. Fortitudo Bologna, með sterka stuðningsmenn og langa sögu, hefur einnig unnið marga titla. „Derby di Bologna,“ leikurinn á milli Virtus og Fortitudo, er alvöru derbyleikur sem Bolognabúar bíða eftir með mikilli eftirvæntingu, kannski eins og scouserarnir bíða spenntir eftir Liverpool-Everton.
Auk fótbolta og körfubolta eru íþróttir eins og blak, sund og hjólreiðar vinsælar í Bologna. Bologna er því borg sem státar af öflugu íþróttalífi, með djúpum rótum í hefðbundnum keppnisgreinum sem njóta mikils stuðnings og ástríðu meðal íbúa.
Bologna FC 1909
Saga Bologna FC 1909 er nokkuð litrík. Félagið var stofnað 3. október 1909 af Emilio Arnstein, austurrískum innflytjanda sem hafði áður stofnað fótboltafélag í Vínarborg. Bologna FC hóf þátttöku í ítölsku deildakeppninni á fyrstu áratugum 20. aldar, og á þriðja og fjórða áratuginum var félagið eitt af sterkustu liðum landsins.
Árið 1925 vann Bologna sinn fyrsta ítalska meistaratitil. Liðið hélt áfram að blómstra og bætti við fleiri titlum á fjórða áratuginum, þar á meðal Evrópubikar í París með sigri á Chelsea árið 1936, en það var óopinber Evrópumeistaratitill á þeim tíma. Bologna vann í heildina sjö ítalska meistaratitla, þar af fjóra á milli 1936 og 1941 sem gerði þá að stórveldi í ítölskum fótbolta.
Eftir seinni heimsstyrjöldina missti Bologna nokkuð af fyrri styrk sínum en vann síðasta ítalska meistaratitil sinn árið 1964. Á þessum tíma var liðið þekkt fyrir baráttuhug og stolt sem endurspeglaði gildi borgarinnar sjálfrar. Lokasigurinn í Serie A 1964 var dramatískur, þar sem Bologna þurfti að spila úrslitaleik gegn Inter Milan eftir að hafa lokið tímabilinu jafnt að stigum. Bologna vann 2-0 og tryggði sér sjöunda og síðasta meistaratitilinn í sögu félagsins.
Á síðari hluta 20. aldar tók að halla undan fæti. Þeir urðu bikarmeistarar árið 1970 en félagið lenti síðar í fjölda fjárhagslegra vandamála og féll nokkrum sinnum úr efstu deild á níunda og tíunda áratuginum.
Undanfarið hefur Bologna verið með þokkalega stöðugt lið í Serie A þótt það hafi ekki unnið stærri titla síðan á gullaldarárum sínum. Félagið nýtur samt óbilandi stuðnings stuðningsmanna sinna, sem eru þekktir fyrir tryggð sína og ástríðu. Heimavöllurinn, Stadio Renato Dall’Ara, er staður með mikla sögu, og þar spilar liðið heimaleiki sína. Reikna má með stappfullri útiliðsstúku af háværum og ástríðufullum stuðningsmönnum þegar þeir mæta á Anfield.
Liðið
Í síðasta leik gerði Bologna 1-1 jafntefli á heimavelli gegn fjandvinum okkar í Atalanta. Liðið sem lék þann leik var svona:
Lukasz Skorupski. Skorupski er pólskur landsliðsmarkvörður sem hefur verið fastamaður í marki Bologna undanfarin ár.
Varnarlínan var skipuð austurríska landsliðsmanninum Stefan Posch sem var hægri bakvörður og Jhon Lucumí var við hliðina á Posch í vörninni. Lucumí er kólumbískur varnarmaður sem fékk rautt spjald í síðasta leik. Hollendingurinn Sam Beukema. Hann gekk til liðs við Bologna FC árið 2023 frá AZ Alkmaar. Charalampos “Babis” Lykogiannis er loks grískur vinstri bakvörður (sounds familiar?) sem kom frá Cagliari árið 2022 og berst nú um stundir við Kostas okkar Tsimikas um byrjunarliðsstöðu í gríska landsliðinu.
Á miðjunni voru svo Svisslendingarnir Remo Freuler og Michel Aebishcer ásamt hinum bráðefnilega Ítala, Giovanni Fabbian. Einhverjir gætu munað eftir Freuler og Aebischer frá EM í sumar en þeir spilðu báðir mjög vel, öflugir leikmenn.
Sóknarlínan var síðan skipuð ítalska landsliðsmanninum Riccardo Orsolini, hinum bráðefnlega Argentínumanni Santiago Castro, og loks enn einum Svisslendingnum í Dan Ndoye. Ndoye er eldsnöggur kantmaður sem gæti alveg gert okkar mönnum lífið leitt. Fyrirliðinn þeirra, Skotinn Lewis Ferguson er meiddur.
Þetta er alveg nokkuð sterkt lið á blaði en þeir eru samt í 13.sæti Serie A, búnir að gera fjögur jafntefli í fyrstu sex leikjunum. Sýnd veiði en ekki gefin, við getum búist við baráttuhundum sem eiga eftir að liggja í vörn og beita öllum mögulegum og ómögulegum brögðum til að pirra okkar menn.
Þjálfarinn heitir síðan Vincenzo Italiano og er (surprise, surprise) Ítali sem var m.a. áður hjá Fiorentina.
Liverpool
Nú verður fróðlegt að sjá hvað Arne Slot gerir. Mér hefur fundist hann vera smátt og smátt að finna út úr því hverjum hann treystir best, það sást gegn Wolves að hann var ekkert að skipta af óþörfu þegar staðan var tæp.
Eftir snúinn leik á laugardaginn geri ég samt ráð fyrir töluverðum breytingum.
Liðið getur fyrir mína parta litið allt öðruvísi út. T.d. gæti Endo eða Gravenberch komið inn fyrir McAllister, Trent og Robbo gætu byrjað, Konate gæti byrjað o.s.frv. Eftir þennan leik vitum við töluvert meira um hvernig Arne Slot sér liðið og hópinn, og mögulega sjáum við hvernig hann mun rótera þegar líða tekur á tímabilið.
Ég held að úrslit leiksins fari töluvert eftir uppstillingu okkar manna. Þetta verður ekki auðveldur leikur, Bologna eru komnir til að berjast en við vinnum 2-0.