Latest stories

  • Annar Merseyside derby hjá kvennaliðinu

    Stelpurnar okkar eru í smá lotu í þessari viku, léku gegn United á sunnudaginn, sá leikur fór eins og hann fór og bara áfram gakk. Nú koma Everton stelpurnar í heimsókn á St. Helens völlinn í bikarnum, okkar konur eiga þar harma að hefna eftir tapið gegn þeim í deildinni á Goodison. Jesús minn hvað það þetta bláklædda lið er böggandi, og þá aðallega hvað okkar konum gengur illa að skora gegn þeim. Vonum að það gangi betur í kvöld, en auðvitað hjálpar ekki að liðið skuli vera án bæði Sophie Roman Haug OG Marie Höbinger. Þær sjást varla fyrr en eftir áramótin, verandi frá vegna meiðsla.

    Liðið er klárt, og það eru sem betur fer nokkur andlit komin til baka úr meiðslum:

    Micah

    Clark – Silcock – Fisk

    Daniels – Nagano – Shaw – Hinds

    Holland – Kiernan – Kapocs

    Bekkur: Laws, Spencer, Bonner, Fahey, Matthews, Duffy, McDonald, Smith, Enderby

    Ákveðin rótering í gangi, enda þrír leikir í sömu vikunni og sjálfsagt eitthvað um að leikmenn séu einfaldlega ekki í formi til að spila svo mikið. Smith byrjar á bekk í kvöld, sem og Gemma Bonner. Við sjáum svo Maddy Duffy aftur á bekk, hún fékk sína fyrstu mínútu (í eintölu) í deild í leiknum á sunnudaginn, en náði held ég ekki að koma við boltann, kannski verður annað uppi á teningnum í kvöld. Þá er nýtt andlit á bekknum, við höfum ekki séð hina 16 ára Neve McDonald á leikskýrslu áður og verður áhugavert að sjá hvort hún komi eitthvað við sögu.

    Það verður hægt að sjá leikinn á LFCTV, en virðist ekki vera sýnilegur á Youtube.

    Manni er eiginlega drullusama um þessa bikarkeppni per se, en mikið svakalega langar mann samt til að vinna þær bláklæddu.

    KOMA SVO!!!!!

  • Girona 0-1 Liverpool – sæti í næstu umferð tryggt

    Það var vítaspyrna Mo Salah sem tryggði Liverpool sigurinn í útileiknum gegn Girona í 6.umferð Meistaradeildarinnar og þessi sigur tryggir Liverpool eitt af efstu sætunum í keppninni sem þýðir beina þátttöku í næstu umferð keppninnar þegar tvær umferðir eru eftir af þessu nýja deildar fyrirkomulagi. Liverpool er með fullt hús stiga eftir sex leiki og hefur nú spilað í yfir níu klukkustundir án þess að fá á sig mark í Meistaradeildinni sem er nú bara vægast sagt frábær árangur!

    (more…)

  • Gullkastið – Þáttur 500!

    Hlaðvarpsþættir Kop.is hófu göngu sína 25.maí árið 2011 og hafa síðan þá verið stór partur af starfsemi síðunnar. Þátturinn í þessari viku er númer 500 og er Gullkastið elsta starfandi hlaðvarp landsins og reyndar þó víðar væri leitað. Til að fagna þessum tímamótum fengum við tvær kempur með okkur í þáttinn í þessari viku sem vart þarf að kynna frekar, meistara Bjössa Hreiðars og Hödda Magg.

    Liverpool leik helgarinnar var reyndar frestað en staðan á toppnum vænkaðist eiginlega engu að síður, hressandi yfirferð yfir það helsta í þessari viku og það sem er framundan.

    Ögurverk liðið er á sínum stað og það var lítil samkeppni fagmann vikunnar í boði Húsasmiðjunnar að þessu sinni.

    Happatreyjur.is

    Minnum áfram á Happatreyjur.is eru auðvitað jólagjöfin í ár, lesendur Kop.is geta notað afsláttakóðan KOP10

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur: SSteinn, Maggi, Bjössi Hreiðars og Höddi Magg.

    Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.


    Egils GullHúsasmiðjan / Verdi Travel Ögurverk ehf / Done

    MP3: Þáttur 500

  • Liðið gegn Girona – Alisson er kominn aftur

    Liverpool hefur innan skamms útileik gegn Girona í 6.umferð Meistaradeildarinnar og nokkuð óvænt frí um síðastliðna helgi kannski spilar aðeins inn í liðsvalið í dag en maður átti kannski von á pínu róteringum en þar sem leikurinn gegn Everton féll niður þýðir það mögulega að Slot stilli upp sterkara liði en áður var planað.

    Hins vegar getur alveg verið að Slot og félagar vilji koma sér í enn betri stöðu í Meistaradeildinni og tryggja sér gott sæti fyrir útsláttarkeppnina. Allavega þá er það helst að frétta að Alexis Mac Allister er í banni í kvöld og í næsta deildarleik um helgina svo hann situr hjá og Alisson er mættur aftur í rammann.

    Alisson

    Trent – Gomez – Van Dijk – Robertson

    Jones – Gravenberch – Szoboszlai

    Salah – Nunez – Diaz

    Bekkurinn: Kelleher, Jaros, Quansah, Norris, McConnell, Elliott, Endo, Gakpo

    Sterkt byrjunarlið en nokkuð þunnskipaður bekkur sem verður vonandi þó aðeins þéttari um næstkomandi helgi.

  • Girona-Liverpool í Meistaradeildinni

    18. dag júnímánaðar árið 1979 kom út popplag sem átti eftir að gera það ansi gott. Hljómsveitin hét The Knack og kom frá Los Angeles. Lagið hét My Sharona og var svokallaður one-hit wonder því fátt markvert gerðist það sem eftir lifði hjá hljómsveitinni en væntanlega hafa meðlimir lifað bærilegu lífi út af þessum smelli. En hvað kemur þetta lag Girona við? Akkúrat ekki neitt, nema hvað alltaf þegar ég heyri þetta lag heyri ég söngvarann syngja My Girona. Og af hverju? Jú, vegna þess að árið 2004 kom ég til þessarar borgar, sem ég hefði annars ekki vitað að væri til. Og fæstir kannski vita neitt um. Ástæðan var einföld, Ryanair notaðist við Girona-flugvöll sem “Barcelona-flugvöll”. Sem er nokkuð fjarri lagi enda um 100 km á milli borganna. En nóg um það.

    Á þeim tíma vissi ég akkúrat ekkert um þessa borg og gisti bara nálægt flugvellinum til að halda síðan áfram til Barcelona. En saga borgarinnar er hins vegar alveg ágæt og kannski rétt að stikla aðeins á stóru um hana, þar sem liðin hafa ekki mæst áður og því er ekki til nein Evrópu-Einars-upphitun fyrir sögu borgar og félags. Og hefst þá lesturinn.

    Borgin

    Girona er staðsett eins og fyrr segir í Katalóníu á Spáni við ána Onyar um það bil 100 km norður af Barcelona. Borgin er höfuðborg Girona-héraðs, og er hluti af sjálfstjórnarhéraðinu Katalóníu. Í borginni búa um 100.000 manns.

    Saga borgarinnar nær yfir 2000 ár. Uppruna hennar má rekja til stórveldistíma Rómar, þegar borgin var stofnuð undir nafninu Gerunda. Hún var hluti af Via Augusta, sem var mikilvægur vegur sem tengdi saman Miðjaðarhafsborgir Íberíuskagans en náði einnig yfir á Atlantshafsströndina í suðri þar sem nú er borgin Cadiz. Undir stjórn Rómverja gegndi borgin mikilvægu hlutverki sem miðstöð og virki nyrst á Íberíuskaganum.

    Á miðöldum varð Girona mikilvæg borg og var eins og flestar miðaldaborgir Evrópu oft bitbein konunga og þjóða sem girntust völd yfir fólki og auðlindum. Karlamagnús Frankakonungur náði borginni árið 785 af Márum. Márarnir létu þó ekki segjast og réðust reglulega á borgina á næstu öldum. Alls lenti borgin í umsátrum 25 sinnum og í sjö af þeim umsátrum skipti borgin um “eigendur”. T.d. réðst Napóleon á borgina árið 1809 og náði henni á sitt vald eftir hetjulega varnarbaráttu heimamanna.

    Í nútímanum eru það þó viðskiptaveldi sem gera sig líklega til að vera “eigendur” borgarinnar. Eða a.m.k. þess hluta hennar sem skiptir máli í fótboltalegum skilningi, því félagið FC Girona er hluti af City Football Group, sem á meðal annars Manchester City.

    Félagið

    Girona FC var stofnað árið 1930. Fyrstu áratugina lék Girona í 3. og 4.deildinni á Spáni, sem eru raunar deildir sem eru landshlutaskiptar. Aðeins tvær efstu deildirnar eru landsdeildir á Spáni.

    Í Katalóníu er risinn auðvitað Barcelona og Espanyol kemur þar á eftir. Girona hefur ekki fyrr en á síðustu árum átt roð í þau, því liðið komst upp í 2.deild (Segunda) árið 2008 eftir 49 ára fjarveru. Við erum að tala um síðan 1959. Árið 2010 keyptu síðan fjárfestar frá borginni 72% hlut í félaginu. Liðið hélt sér í 2.deild í nokkur ár og byggði smátt og smátt upp sterkara lið og eftir að hafa tapað í umspilum um sæti í La Liga árin 2015 og 2016 komst liðið í fyrsta sinn í efstu deild árið 2017. Á sínu fyrsta tímabili lenti liðið í 10.sæti en árið eftir féllu þeir aftur í aðra deild. Aftur komust þeir upp árið 2022 og eru núna á þriðja tímabili sínu í röð í efstu deild. Á fyrsta tímabilinu lentu þeir í 10. sæti, á síðasta tímabili í 4. sæti, sem gaf þeim í fyrsta sinn sæti í Evrópukeppni og þeir sitja nú í 9. sæti deildarinnar með 22 stig eftir 16 leiki. Þeir spiluðu við Real Madrid á heimavelli núna um helgina og töpuðu 0-3.

    Eins og fyrr segir eru eigendur félagsins meðal annarra City Football Group. CFG eiga 44,3% í félaginu og Pere nokkur Guardiola á önnur 44,3%. Já, það passar, nafnið er kunnuglegt og Pere þessi er bróðir Pep, þjálfara Man City. Það þarf enginn að segja mér annað en að CFG hafi stutt hann vænlega í því að eignast þennan hlut – einfaldast er að segja að hann sé leppur eða fulltrúi CFG sem á þá 88,6% í félaginu.

    Liðið

    Markvörður liðsins er Argentínumaðurinn Paulo Gazzaniga. Hann er reyndur og góður markvörður sem hefur leikið fyrir Tottenham og Southampton, ásamt Fulham og mína menn í Elche.

    Varnarmenn eru Miguel Gutierrez, Daley Blind eða Ladislav Krejci, David López og Arnau Mártinez. Daley Blind ættum við að kannast við, Gutierrez er vinstri bakvörður, 23 ára Spánverji sem fær það hlutverk að kljást við Mo Salah. López verður síðan miðvörður við hlið Blind eða Tékkans Krejci og Mártinez verður í hægri bakverðinum.

    Það er aðeins erfiðara að spá í miðjuna en líklega verða Iván Martin, Oriol Romeu og Donny Van De Beek á miðjunni. Við ættum að kannast við Romeu og Van De Beek, sem feilaði hjá Man Utd. Martin er 25 ára Spánverji sem verður líklega í mesta sóknarhlutverkinu á miðjunni hjá þeim. Ég held að þeir spili með Romeu og Van De Beek í dýpri hlutverkunum á miðjunni.

    Í sókninni fáum við svo líklega að kljást við Yáser Asprilla, Bojan Miovski og Bryan Gil. Mögulega Arnaut Danjuma. Ég veit ekki hvernig þjálfarinn róterar, hann er búinn að spila ansi mörgum sóknarmönnum í haust en fyrrum Spursarinn Bryan Gil verður líklega vinstra megin, Makedóninn Miovski í níunni og Kólombíumaðurinn Asprilla hægra megin. Markahæstur á tímabilinu er hins vegar Úrúgvæinn Stuani en hann er orðinn 38 ára og er bara varamaður. Stuani þessi er fyrrum landsliðsmaður Úrúgvæ og er markahæstur í sögu Girona.

    Þjálfarinn er Míchel. Hann er fæddur árið 1975 og hann lék nánast alla sína hunds- og kattartíð á miðjunni hjá Rayo Vallecano. Hann hefur þjálfað Girona frá árinu 2021 með þeim árangri sem fjallað er um hér að ofan. Liðið spilar uppspilsbolta sem ég held að nánast öll lið á Spáni spili. Gæti orðið pressuveisla fyrir Liverpool á Municipal Montilivi.

    Gengi Girona í Meistaradeildinni er einfaldlega hörmulegt. Þeir eru ekki líkegir til að komast áfram, sitja nú í 30. sæti deildarinnar með þrjú stig eftir fimm leiki, hafa tapað öllum nema einum, unnu Slovan Bratislava 2-0. Þeir byrjuðu á að tapa 1-0 fyrir PSG á útivelli, því næst 2-3 fyrir Feyenoord á heimavelli, í þriðja leik kom loks sigurinn en í fjórða leik töpuðu þeir 4-0 gegn PSV á útivelli. Í síðasta leik töpuðu þeir 1-0 á útivelli gegn Sturm Graz. Þannig að þeir ættu ekki að eiga séns í topplið ensku deildarinnar og Meistaradeildarinnar. En þetta er jú fótbolti og allt getur gerst. Eða hvað?

    Liverpool

    Það er vissulega gaman að fjalla um og spekúlera í liði Liverpool þessa dagana. Liðið fékk óvænta hvíld á laugardaginn þökk sé storminum Darragh. Helgin spilaðist síðan heldur betur vel því allir keppinautar Liverpool nema Chelsea töpuðu stigum.

    Gengi Liverpool hefur verið nánast óaðfinnanlegt í vetur. Jú, segjum bara óaðfinnanlegt. Það er ekki hægt að fara í gegnum heilu tímabilin án þess að tapa stigum og því eru leikir eins og gegn Newcastle hluti af óaðfinnanlegu gengi og spilamennsku. Næsta fórnarlamb ætti ekki að vefjast fyrir liðinu, sérstaklega ekki eftir að hafa fengið hvíld um helgina. Ég hef grun um að Arne Slot róteri áfram eins og hann hefur gert, frestunin kemur á góðum tíma og lykilmenn eru smátt og smátt að snúa til baka. Ég held að hann byrji með sterkt lið og geri svo stórtækar breytingar, jafnvel í hálfleik, ef allt gengur að óskum í leiknum. Að sama skapi vill hann eflaust ekki taka neina sénsa með fyrrnefnda lykilmenn sem eru að koma úr meiðslum. MacAllister er í banni.

    Ég spái þessu svona:

    Nunez fær áfram sénsinn, einn af hans síðustu í byrjunarliði myndi ég halda. Jota er að koma til baka og tekur níuna um leið og hann er klár. Nunez hefur áfram valdið miklum vonbrigðum og virðist bara alls ekki komast í markaskorunargír þótt hann fái sannarlega tækifærin til að skora. Það dugar bara ekki ef við ætlum okkur alla leið alls staðar. Við þurfum striker sem skorar og gerir allt hitt líka, þar á meðal sleppur við meiðsli.

    Skiptingar verða Trent út fyrir Quensah, Gravenberch og Szoboslai fyrir Endo og Elliot, Gakpo og Salah fyrir Diaz og Jota (vonandi). Staðan verður 0-3 eftir 55 mínútur og liðið á cruise control í seinni hálfleik.

    Spá, 0-4, Salah með 2, Gakpo og Díaz með sitthvort.

    YNWA 

     

     

     

  • Stelpurnar okkar heimsækja United

    Ekkert varð af Merseyside derby á Goodison vegna veðurs, en það lítur allt út fyrir að stelpurnar okkar muni spila gegn United í dag kl. 12:00 (sunnudaginn 8. desember) í sínum fyrsta leik eftir síðasta landsleikjahlé ársins.

    Merkilegt nokk þá var þeirra síðasti leikur gegn Newcastle, rétt eins og hjá strákunum. Hins vegar spilar kvennalið Newcastle í næstefstu deild – leikurinn var semsagt í Continental bikarnum – og okkar konur unnu öruggan 6-1 sigur þrátt fyrir að vera með allnokkuð róterað lið. Zara Shaw skoraði þar sitt fyrsta mark fyrir félagið með góðu langskoti, Mia Enderby setti tvö og sýndi enn og aftur hvað hún er hættulegur leikmaður þegar aðstæður eru henni í hag. Hún er jú – rétt eins og Zara – enn ung og er eðliðega aðeins að ströggla gegn sér eldri og sterkari leikmönnum.

    Nóg um síðasta leik. Nú er það leikur gegn Manchester United. Lið United hefur verið á góðri siglingu í haust, og hefur verið að gera betri hluti en í fyrra, þrátt fyrir að hafa misst leikmenn eins og fyrirliðann Katie Zelem og markvörðinn Mary Earps ásamt fleirum. Það er semsagt þannig að hann þarna Ratcliffe er mest að einbeita sér að karlaliðinu – ekkert skrýtið svosem enda allt á rú og stú þar – og kvennaliðið þeirra hefur litla athygli fengið á síðustu misserum. Þetta varð til þess að þær Zelem og Earps vildu fara annað, lái það þeim hver sem vill (mögulega var fleira sem spilaði inn í en þetta hjálpar klárlega ekki). En einhvernveginn tókst þeim að snúa bökum saman og hafa bara staðið sig óþægilega vel á þessum síðustu mánuðum.

    Okkar konur koma ögn lemstraðar inn í leikinn. Nöfnunar Sophie Roman Haug og Sofie Lundgaard eru báðar frá – sú danska út tímabilið væntanlega – þá er Marie Höbinger líka að glíma við eitthvað hnjask, og Rachael Laws er tæp í besta falli. Eins fengu bæði Gemma Evans og Hannah Silcock heilahristing með sínum landsliðum og verða því tæpast með. Að lokum er Lucy Parry líka frá. Matt Beard gaf því út á fréttamannafundi fyrir helgina að Zara Shaw myndi byrja sinn fyrsta deildarleik, og jós hana reyndar lofi. Sagðist hefði viljað setja hana í liðið 15 ára – en rétt áður en til þess kom þurfti hún endilega að slíta liðbönd og var því frá í heilt ár. En nú fáum við loksins að sjá hvað í henni býr.

    Til að bæta gráu ofan á svart þá munu stelpurnar spila 3 leiki í þessari viku; þennan leik gegn United, spila svo gegn Everton í bikarnum í miðri viku, og fá svo Arsenal í heimsókn á St. Helens um næstu helgi. Þetta er því alversti tíminn til að vera í meiðslakrísu. Eitthvað hljómar það nú kunnuglega…

    Liðið sem byrjar lítur svona út:

    Micah

    Fisk – Bonner – Matthews – Hinds

    Holland – Nagano – Shaw

    Smith – Kapocs – Enderby

    Bekkur: Spencer, Clark, Fahey, Daniels, Duffy, Kiernan.

    Þetta er klárlega með alþynnstu bekkjum sem við höfum séð hjá stelpunum.

    Leikinn má svo sjá á Youtube rás deildarinnar.

    KOMASO!!!!!

  • Merseyside Derby helgi (Everton á Goodison á laugardag – Upphitun)

    Það er svolítið merkilegt hve svekktur maður var eftir jafnteflið gegn Newcastle. Í leik þar sem maður hefði líklega þegið jafntefli fyrir leik, í hálfleik og um miðjan síðari hálfleik en vera svo virkilega svekktur með jafnteflið þegar flautað var til leiksloka. Líklega vegur þar hvað þyngst hvernig og hvenær jöfnunarmarkið kom en þau úrslit setja þennan leik í svolítið annað samhengi. Sigur er orðinn nauðsynlegur ef við ætlum ekki að sjá forskotið hverfa á innan við viku – en það sýnir kannski hve stutt getur verið á milli í þessu sporti. Meiðslin sem við urðum fyrir gegn Real telja nú þungt og höfðu klárlega áhrif á leik liðsins á miðvikudaginn. Við náum vonandi vopnum okkar aftur á morgun enda verða helgarnar ekki mikið stærri – Það er Merseyside derby helgi!

    Það er ekki mikill tími til að hvíla sig, fara á kaffibarinn á æfingarsvæðinu og ræða málin. Eftir að hafa spilað á miðvikudagskvöld hefjum við 15 umferðina í hádeginu á laugardag (12:30). Við minnum á gullkastið frá því fyrr í vikunni þegar Einar, Maggi og Sigursteinn hituðu m.a. fyrir þessa veislu.

    Það er vert að geta þess að það er spáð vitlausu veðri í Liverpool á morgun. Engin ákvörðun sem liggur fyrir að svo stöddu en það er alveg möguleiki á að leiknum verði frestað – en það er búið að fresta leikjum morgundagsins í Wales til dæmis. Við sjáum hvað setur.

    (more…)

  • Newcastle 3 – 3 Liverpool

    Liverpool mætti á St. James Park í Newcastle í kvöld og fór þaðan með eitt stig, sem að sumu leyti var bara ágæt uppskera, en að sumu leyti ógeðslega súrt að krækja ekki í öll stigin 3.

    Mörkin

    1-0 Isak (35. mín)
    1-1 Jones (50. mín)
    2-1 Gordon (62. mín)
    2-2 Salah (68. mín)
    2-3 Salah (83. mín)
    3-3 Schar (90. mín)

    Hvað gerðist markvert í leiknum?

    Hellingur. Fyrir það fyrsta þá var orkustigið hjá leikmönnum alls ekki gott, og Newcastle menn mættu mun ákveðnari til leiks. Í raun var ákveðinn léttir að fara bara með eitt mark á bakinu inn í hálfleikinn. Reyndar spilaði líka inn í að dómarinn var gjafmildur á gulu spjöldin, þó svo að heimamenn hafi nú minnst fengið að njóta þeirrar gjafmildi einhverra hluta vegna. T.d. var spjaldið sem MacAllister fékk sérlega furðulegt, og nokkur brot hjá þeim röndóttu sem hefðu frekar verðskuldað gult spjald.

    Seinni hálfleikur var að mestu leyti mun betri hjá okkar mönnum, enda var komið jöfnunarmark innan 5 mínútna, flott mark hjá Jones í sínum 150. leik fyrir félagið og stoðsending frá Salah (en ekki hvað?). Antony Gordon þurfti svo auðvitað að skora annað mark nokkru síðar, en Salah svaraði með marki rétt eftir að Trent, Szobo og Díaz komu inná, og þar var nú Trent potturinn og pannan. Svo bætti Salah öðru marki við þegar skammt var til leiksloka, en á lokamínútu venjulegs leiktíma náðu heimamenn að jafna þegar Kelleher lét bolta fara sem hann hefði a.m.k. átt að slá afturfyrir eða hugsanlega reyna bara að grípa. Þar sást vel að þrátt fyrir allt er hann reynslulítill og vafasamt að Alisson hefði fengið svona mark á sig. Og þannig enduðu leikar, drullufúlt að ná ekki að vinna, sérstaklega fyrst jöfnunarmarkið var eins og það er.

    Hverjir stóðu sig vel?

    Það eru mun færri á þessum lista heldur en eftir leikina gegn Real og City. Það er nú varla annað hægt en að setja Mo Salah efst á þann lista, nú er hann sá leikmaður í sögu úrvalsdeildarinnar sem hefur bæði skorað og átt stoðsendingu í sama leiknum. 37 leikir hjá kappanum, Rooney er næstur með 36 og Henry með 32. Trent kom sterkur inn síðasta hálftímann eða svo, MacAllister átti góðan seinni hálfleik, og Curtis má nú alveg fá smá hrós líka.

    Hvað hefði mátt betur fara?

    Hér setjum við frammistöðuna hjá Kelleher í fyrsta sætið, fyrst og fremst fyrir þessa einu fyrirgjöf sem hann hefði átt að díla öðruvísi við. En hann er ekki sá eini sem má líta í eigin barm. Darwin Nunez hljóp eins og vitleysingur, en það kom lítið út úr honum og hann átti nokkur færi sem betri slúttari hefði skorað úr. Gravenberch hefur oft spilað betur, kannski ósanngjarnt að gera kröfur til að hann haldi sama leveli allt tímabilið eftir að hafa verið þetta góður í haust. Quansah er enginn bakvörður, og líður greinilega mun betur í miðverðinum. Munum jú líka að hann er enn ungur og á ýmislegt eftir ólært.

    Slot notar þennan leik vonandi til að læra af, það má nú alveg færa rök fyrir því að hann hefði átt að skipta ferskum löppum inn eftir að Salah skoraði 2-3, og í raun magnað að nota ekki allar 5 skiptingarnar á þessu tímabili þar sem það er nauðsynlegt að dreifa álaginu eins og hægt er.

    Endum samt á dómaranum sem átti alls ekki góðan dag, og var mjög óstöðugur í sinni dómgæslu. Líklega ekki ástæða til að kenna honum um úrslitin samt.

    Umræðan eftir leik

    Fyrst og fremst þarf bara að klára að semja við Mo Salah, og reyndar við Virgil og Trent sömuleiðis. En þó svo Salah sé kominn yfir þrítugt þá er hann einfaldlega ennþá bestur. Svo er spurningin hvað Darwin Nunez á að fá mörg tækifæri. Persónulega hefur undirritaður alltaf haft miklar mætur á honum og hann getur orðið algjört skrímsli, en bara spurning hvað eigi að bíða lengi eftir að það gerist.

    Næsta verkefni

    Varðandi frammistöðuna í kvöld – sérstaklega í fyrri hálfleik, þá er kannski bara eðlilegt að menn séu ögn lúnir eftir tvo háspennuleiki gegn Real og City. En það þarf að endurheimta með hraði, því það er hádegisleikur á Goodison kl. 12:30 á laugardaginn. Við verðum án Alexis okkar í þeim leik, því hann er kominn í eins leiks bann eftir gula spjaldið í kvöld. Svosem ágætt að hann fái smá hvíld.

    Þeir bláklæddu náðu í 3 stig í kvöld gegn Úlfunum og koma í góðum gír inn í leikinn á laugardaginn, sem verður erfiður og mikil slagsmál eins og alltaf. Panta 3 stig í þeim leik takk!

  • Liðið gegn Newcastle

    Slot búinn að tilkynna liðið sem hefur leik núna kl. 19:30 á eftir í Newcastle. Ekki mikið sem kemur á óvart, það þarf að rótera eins og hægt er án þess að veikja liðið að ráði, og hann hendir þrem leikmönnum inn sem byrjuðu ekki síðasta leik:

    Bekkur: Jaros, Nallo, Trent, Endo, Morton, Szoboszlai, Nyoni, Elliott, Díaz

    Jújú, kannski óvenjulegt að spila Quansah í hægri bak, en mögulega er það bara fín leið til að koma honum í spilaform, varnarskyldan er kannski ekki alveg sú sama þar eins og í miðverðinum (en samt talsverð). Það er líka bara nauðsynlegt að ætla Trent ekki um of verandi nýstiginn upp úr meiðslum.

    Við sjáum kjúklingana Nyoni og Nallo á bekk, Nallo er jú varnarmaður og virðist vera sá úr unglingahópnum sem er kominn fremst í goggunarröðina þegar kemur að varnarmönnum. Trey Nyoni fær líka sénsinn, og manni líður nú betur með það frekar en að vera með tvo varamarkverði í hóp. Ekki það að þessir tveir koma tæpast inná, en vonandi notar Slot skiptingarnar eins og hægt er til að hvíla menn og dreifa álaginu.

    Að sjálfsögðu byrjar Nunez, skemmst að minnast þess þegar hann mætti á þennan völl fyrir ári og skoraði tvö mörk sem tryggðu 10 leikmönnum Liverpool sigur gegn heimamönnum.

    Þigg hvaða sigur sem er, myndi alveg þiggja að menn sleppi heilir frá herlegheitunum.

    KOMA SVO!!!!!

  • Toppliðið heimsækir Newcastle á morgun

    Annað kvöld mun lang efsta lið deildarinnar heimsækja lærisveina Eddie Howe í Newcastle í 14.umferð Úrvalsdeildarinnar en Liverpool kom sér heldur betur í þægilega stöðu um helgina þegar Liverpool rústaði Manchester City 2-0 á Anfield. Rústaði og 2-0 hljómar kannski klikkað en þau sem horfðu vita að þetta var rúst.

    Liverpool hefur verið á frábæru skriði undanfarið og komust svo sannarlega vel í gegnum þetta tíu leikja prógram í öllum keppnum þar sem ansi margir virtust handvissir um að Liverpool myndi nú fara að fatast flugið en svo var nú aldeilis ekki og Liverpool vann alla leiki nema einn þar sem liðið gerði 2-2 gegn Arsenal á útivelli í mögulega einum versta leik sem liðið hefur spilað í vetur. Það var nú ekki beint glæsibragur yfir leiknum gegn Southampton sem var fyrsti leikur eftir síðasta landsleikjahlé og fóru margir keppinautar eflaust að sleikja út um og bjuggust við að Liverpool færi nú að dala en heldur betur ekki.

    Á síðustu viku eða svo lék Liverpool sér að bæði Real Madrid og Man City og vann bæði lið 2-0 og situr nú með níu stiga forskot á Arsenal, Chelsea og Brighton og ellefu stig á Man City sem er bara drullu sæmileg staða til að vera í þegar desember törnin fer af stað og næsta verkefni er útileikur gegn Newcastle.

    Newcastle hefur verið svolítið upp og niður á þessari leiktíð, litið mjög flott út í einhverjum leikjum en alls ekki merkilegir í öðrum. Frá síðasta landsleikjahléi hafa þeir tapað gegn West Ham og gerðu jafntefli við Crystal Palace um núliðna helgi. Alexander Isak, þeirra skæðasti framherji, fór meiddur út af í síðasta leik og óvissa hefur verið með þátttöku hans á morgun en það virðist vera að útlitið sé bjartara með hann og að hann verði líklega með.

    Oft hafa þeir verið þéttir varnarlega og erfitt að brjóta þá niður, með nokkra grófa leikmenn hér og þar sem er nú ekki skemmtilegt að mæta eins og t.d. Joelinton. Þeir eru nokkuð hávaxið og sterkt lið sem gæti verið ógn í föstu leikatriðunum og þeir hafa nokkra beinskeytta sóknarmenn eins og áðurnefndan Isak og Harvey Barnes og Anthony Gordon – sem var nú nokkuð sterklega orðaður við Liverpool í sumar.

    Liverpool verður án leikmanna eins og Alisson, Bradley, Diogo Jota, Konate, Tsimikas og spurning verður hvort að Chiesa verði kominn aftur í leikmannahóp eftir meiðsli en sá ítalski er farinn að hefja æfingar með liðinu að nýju og ætti að vera væntanlegur inn í hóp aftur fljótlega og Harvey Elliott kom inn á í uppbótartíma gegn Man City svo það er að aukast aðeins í breiddina frammi en á móti þá hefur fækkað leiðinlega mikið úr vörninni eftir meiðsli Konate, Bradley og Tsimikas.

    Kelleher

    Trent – Gomez – Van Dijk – Robertson

    Szoboszlai – Gravenberch – Mac Allister

    Salah – Nunez – Gakpo

    Það er kannski pínu erfitt að spá fyrir um það hvernig Arne Slot ætlar að stilla upp í þessum leik og ekki ósennilegt að hann róteri einhverju svona nokkuð “óvænt” í næstu leikjum. Til dæmis hefur Gravenberch spilað mikið undanfarið en gæti þó verið mjög mikilvægur í þessari viðureign, Trent mun ekki spila tvisvar 90 mínútur gegn Newcastle á morgun og Everton um helgina svo það þarf að finna skiptimann fyrir það – það er því spurning hvort að Quansah gæti spilað annan leikinn í miðverði og Gomez í hægri bakverði eða þá annar þeirra komið inn sem hægri bakvörður seinna í leikjunum eins og Quansah gerði gegn Man City.

    Szoboszlai og Jones hafa skipt svolítið á milli sín stöðu á miðjunni líkt og Gakpo og Diaz hafa gert með vinstri vænginn og spurning hverjir þeirra koma til með að byrja en þeir voru allir frábærir gegn Man City, þá gæti Nunez alltaf fengið tækifæri á að byrja og ef hann gerir það ekki þá er það líklega Diaz sem að spilar fremstur.

    Sjáum hvað setur. Krefjandi útileikur framundan og á margan hátt allt, allt öðruvísi áskorun heldur en síðustu tveir leikir hafa verið svo Liverpool þarf að halda haus og spila vel til að halda sigurgöngu sinni áfram og vonandi fá hagstæð úrslit á morgun og auka bilið enn meira á toppnum!

    Sjáum hvað setur annað kvöld.

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close