Fréttir gærdagsins setja þennan leik kannski aðeins í annað samhengi og mig langar að gera smá formála áður en ég fjalla um uppstillingar, andstæðinginn og slíkt. Og það má lesa þetta með dramatíska fiðlutóna í bakgrunninum 😎
Goðsagnir
Í sögu Liverpool höfum við séð trilljón leikmenn koma og fara. Sumum man maður bara ekkert eftir örfáum árum síðar, annarra minnist maður með hlýju fyrir baráttu og dugnað og bara fyrir að vera næs gaurar en örfáir leikmenn komast á þann stall að vera gosögn í lifanda lífi. Þegar ég byrjaði að fylgjast með sem krakki á níunda áratuginum var liðið alveg hrikalega gott og nánast uppfullt af gosögnum. Það jók líka ofan á dýrkunina að þeir komu til Íslands til að spila við KR árið 1984 þar sem menn voru misljúfir (ehmm…Bruce) við krakkana sem héngu á Hótel Esju til að safna eiginhandaráritunum. En í þeim hópi leikmanna voru t.d. Ian Rush, Kenny Dalglish, Greame Souness, Ronnie Whelan og Phil Neal auk auðvitað snillingsins Bruce Grobbelaar sem heiðraði okkur stuðningsmenn á Íslandi með frábærri nærveru sinni mörgum árum síðar.
Úr þessum hópi eru a.m.k. tvær óumdeilanlegar goðsagnir, þeir Ian Rush og Kenny Dalglish. Síðan þetta lið lék sér að andstæðingum sínum hafa fáar alvöru goðsagnir klæðst Liverpool-treyjunni enda var gengi liðsins svona um það bil frá 1990-2017 ekkert til að hrópa húrra fyrir, jú, auðvitað Istanbul og eitt og annað skemmtilegt í gegnum árin en aldrei stöðugleiki, hvorki í leikmannamálum né árangri. Á þessu tímabili eignuðumst við þó eina algjöra goðsögn, Steven Gerrard. Við þurfum ekkert að ræða það að frá því að hann kom inn í liðið sem ungur piltur rétt fyrir aldamót og þar til hann yfirgaf félagið gekk á ýmsu, margir misgóðir stjórar og eigendur og hann hefði svo sannarlega átt skilið að ná fleiri titlum en hann gerði. Á þessum tíma komu þó nokkrir ansi frábærir leikmenn til liðsins en stoppuðu stutt við, kannski af því að allt var í steik utan vallar. Ég vil nefna Fernando Torres, Luis Suarez og Xabi Alonso fremsta þar í flokki. Allir voru þeir stutt hjá félaginu en hefðu kannski með lengri tíma og meiri árangri getað komið sér í hóp goðsagna. Því menn þurfa að vera hjá félaginu ansi lengi og vera lengi góðir til að ná þeim status.
Eftir Gerrard-tímabilið kom Jurgen Klopp og breytti öllu hjá félaginu. Ég held að í framtíðinni verði alltaf litið á komu Klopp sem mikil kaflaskil og upphafið af nýrri stórveldistíð. Á valdatíma Klopp komu margir frábærir leikmenn, Firmino, Mané, Robertson, Fabinho, Alisson, Van Dijk og Salah, svo ekki sé minnst á þá sem komu í lok hans tíma og svo Trent sem kom upp í gegnum unglingastarfið.
Þegar saga þessa liðs verður skrifuð verða leikmenn eins og Firmino og Mané alltaf mikilvægur hluti. Alisson verður minnst sem eins besta ef ekki allra besta markvarðarins í sögunni, á pari við fyrrnefndan Grobbelaar (sem þó eru ansi skiptar skoðanir um) og sjálfa gosögnina Ray Clemence. Van Dijk er nefndur í sömu setningu og Alan Hansen t.d.
En einn er sá leikmaður sem verður nefndur í sömu andrá og Kenny Dalglish, Ian Rush og Steven Gerrard. Hann mun leika í 10 ár fyrir félagið, sem er minna en allir þessir, en á þessum 10 árum hefur hann unnið alla titla sem eru í boði, hann hefur slegið hvert metið á fætur öðru og líkur eru á að hann nái öðru sæti yfir mestu markaskorara allra tíma hjá Liverpool. Hann þarf að skora 43 mörk í viðbót til að komast yfir goðsögnina Roger Hunt. Og hann hefur leikið 100 leikjum minna, fer líklega nálægt honum í leikjafjölda ef allt gengur að óskum. Hann er með styttra á milli marka en Ian Rush og Roger Hunt og því þarf hann líklega ekki 100 leiki til að ná Hunt.
Ég held að allir sem fylgjast með Liverpool ættu að taka sér smá hlé frá stressi yfir því að vinna leikina og njóta þess að horfa á þennan mann spila. Stundum sést hann ekki, það er bara hans stíll. En útsjónarsemin, tæknin, augað, hugmyndirnar…og hann er nú ansi langt frá því að vera einhver baráttujaxl. En Ian Rush sást stundum ekki fyrr en á 87.mínútu, þegar hann skoraði, og svo aftur á 89.mínútu þegar hann skoraði aftur. Mo Salah er besti sóknarmaður Liverpool síðustu 35 árin eða svo. Já ég veit, við elskuðum öll Fowler en sorrý, hann kemst bara ekki með tærnar þar sem Salah hefur hælana. Salah hefur tryggt okkur svo marga sigra, gefið okkur svo mörg ótrúleg móment að maður verður að geta stoppað, andað djúpt og notið þess að horfa á hann spila.
Ekki síður þess vegna verður yndislegt að njóta vorsins, horfa á Liverpool sigla titlinum heim og sjá Salah leika listir sínar inni á vellinum vitandi það að hann verður í tvö ár í viðbót, við fáum að njóta þess að horfa á hann í tvö ár til viðbótar. Slökum á, njótum, því svona leikmenn eru ekki oft hjá félaginu. Mig langar að taka undir með Red úr kommentum við fréttina um samninginn: ég var heldur ekki tilbúinn að kveðja hann eftir þetta tímabil.
En þá að leiknum; byrjum á andstæðingnum, West Ham.
West Ham United
Félagið sem nú heitir West Ham United var stofnað árið 1895 og hét þá Thames Ironworks FC. Þetta félag var knattspyrnulið járnsmiða og skipasmiða á bökkum Thames, sem skýrir gælunafn þeirra, Hammers og merkið. Liðið tók sér nýtt nafn árið 1900, West Ham United. Allt frá 1904 lék liðið á Upton Park en það fékk glæsilegan leikvang, London Stadium árið 2016. Sá völlur hafði hýst Ólympíuleikana árið 2012.
Félagið er ekki eitt af risum ensku knattspyrnunnar, enda hafa þeir í gegnum tíðina átt ansi öfluga nágranna. Þeir eiga þó nokkra FA-bikara og unnu Evrópukeppni bikarhafa árið 1964. Sú keppni var með þeim liðum sem unnu bikarkeppnina í sínu landi og var í gamla daga aðskilin frá Meistaradeild, Evrópudeild og Sambands-deild. Þá hétu Evrópukeppnirnar Evrópukeppni meistaraliða, bikarhafa og félagsliða. Einhvern tímann var líka til Borgakeppni Evrópu. En það er önnur saga.
Félagið hefur flakkað á milli deilda í gegnum áratugina og eru stærsta félagið i austurhluta Lundúna – sem hefur nú oft verið talinn harðari hluti borgarinnar. Enda hafa þeir í gegnum tíðina glímt við fótboltabullukúltúr, einhverjir hafa eflaust séð myndina Green street hooligans. Síðustu árin hafa þeir verið í efri hluta deildarinnar og komust í Evrópukeppni 2021 og 2022 og unnu svo Sambandsdeildina vorið 2023 undir stjórn David Moyes.
David Moyes var rekinn fyrr á tímabilinu og Graham Potter tók við. Í síðustu fimm leikjum eru þeir með einn sigur, gegn Leicester, jafntefli gegn Everton og Bournemouth og töp gegn Newcastle og Úlfunum. Þeir sitja í 16.sæti deildarinnar fyrir leikinn, með 35 stig. 15 stigum frá fallsæti og eitthvað svipað frá Evrópusæti. Þannig að þeir eru akkúrat ekki að gera neitt í deildinni fram að sumarfríi, restin skiptir þá engu máli. Þeir misstu auðvitað Michael Antonio, líklega sinn besta mann, í hörmulegu bílslysi fyrr á tímabilinu og hann er ekki líklegur til að spila fótbolta aftur á næstunni. Þetta hefur án efa haft mikil áhrif. Þeir eru þó með nokkra skemmtilega leikmenn innanborðs, t.d. Kudus og Bowen. Þeir eru að fara að liggja til baka og reyna skyndisóknir með þeim tveimur og kannski Paqueta.
Byrjunarliðið þeirra í síðasta leik var svona:
Areola
Wan Bissaka – Todibo – Kilman – Scarles
Alvarez – Ward-Prowse
Kudus – Soucek – Paquetá
Bowen
Kannski hafa þeir Fullkrug uppi á topp sem target-striker gegn okkur. Eins er Scarles þessi harla óþekktur, hann er tvítugur vinstri bakvörður sem er að mestu uppalinn hjá félaginu.
Liverpool
Það er svosem lítið að frétta af okkar liði en líklega fá Bradley og Alisson stærra hlutverk en í síðasta leik, gefið hefur verið út að Alisson sé klár og þá spilar hann væntanlega 90 mínútur.
Eins og Curtis Jones var geggjaður gegn Everton þá var hann heldur tæpur í tapinu gegn Fulham, reyndar eins og flestir leikmenn liðsins. Ef eingöngu ætti að taka mið af þeirri frammistöðu ættu verðandi goðsagnirnar Salah og Van Dijk jafnvel að detta út úr liðinu, hvað þá allir hinir sem spiluðu alveg skelfilega.
En ég hef grun um að leikurinn gegn Fulham hafi verið blimp – sé ekkert til að hafa áhyggjur af og liðið komi alveg gargandi í leikinn á Anfield. Mo búinn að kvitta og Van Dijk er væntanlegur. Við höfum skorað að vild gegn West Ham og þeir koma skíthræddir í vel stemmdan, sólríkan og hressan Anfield. Liðið verður svona:

Þetta verður æðislegur leikur, okkar menn fara á kostum og vinna 4-0. Salah skorar tvö og Anfield verður bouncing, syngjandi nafnið hans frá fyrstu mínútu. Njótið!