Liverpool 4 – 1 Ipswich
Okkar menn kræktu í frekar þægileg 3 stig með sigri á Ipswich í dag. Kop.is hópurinn væntanlega séð til þess.
Mörkin
1-0 Szoboszlai (11. mín)
2-0 Salah (35. mín)
3-0 Gakpo (44. mín)
4-0 Gakpo (66. mín)
4-1 Greaves (90. mín)
Hvað gerðist markvert í leiknum?
Þetta spilaðist í raun bara alveg eins og maður átti von á, þ.e. að okkar menn voru með völdin í leiknum og stýrðu honum nánast frá A til Ö. Fyrstu mínúturnar gengu frekar rólega fyrir sig, en eftir um 10 mínútna leik fann Konate Szoboszlai í smá opnu svæði fyrir framan teiginn, Ungverjinn tók eina hreyfingu til að færa boltann yfir á vinstri, og smurði honum svo í hornið niðri nær. Ipswich misstu svo mann af velli sem líklega sleit liðbönd í tæklingu, þetta hægði talsvert á leiknum og gerði það að verkum að uppbótartíminn varð talsverður í lok hálfleiksins. Eftir rúmlega hálftíma leik fékk svo Salah góða sendingu frá Gakpo inn á markteiginn hægra megin og skoraði þar úr færi sem ekkert mjög margir myndu skora úr. Gakpo bætti svo við þriðja markinu skömmu fyrir hlé, Grav fann Szoboszlai í auðu svæði hægra megin í teignum, skotið frá honum var varið en barst til Gakpo sem potaði inn. Þarna voru úrslitin nokkurn veginn ráðin. Í síðari hálfleik kom svo fjórða markið þegar Trent átti klassíska Trent-esque sendingu inn á teig rétt fyrir innan vítapunktinn þar sem Gakpo var á auðum sjó og skallaði í netið. Gakpo var svo tekinn af velli ásamt Szoboszlai og Gravenberch, inná komu Endo, Elliott og Nunez. Nokkru síðar fékk Danns að koma inná fyrir MacAllister, og að lokum kom Chiesa inná fyrir Díaz. Enginn þeirra náði að setja mark sitt á leikinn en Endo var þeirra sýnu öflugastur og ljót tækling á honum hefði nú líklega átt að skila sér í rauðu spjaldi á einn Ipswich leikmann en varð á endanum bara gult. Nunez var líka duglegur að koma til baka og vinna boltann, ein af hans sterkustu hliðum núorðið.
Þegar venjulegur leiktími var að líða út fengu Ipswich hornspyrnu og skoruðu úr henni, Elliott sofnaði líklega aðeins á verðinum þar og ég hugsa að bæði van Dijk og Slot verði ósáttir við að hafa ekki haldið hreinu. En 4-1 sigur staðreynd, þægilegt og 3 stig í höfn.
Hverjir stóðu sig vel?
Szoboszlai var mjög öflugur þann tíma sem hann var inná, og það er nú ekki hægt að sleppa því að minnast á Gakpo í ljósi þess að hann skoraði tvö og lagði upp eitt. Hlustendur geta valið hvor þeirra hlýtur titilinn, þeir eiga báðir gott tilkall. Grav var líka öflugur, en hann fer fljótlega að skríða inn í sama flokk og Salah og Virgil, þ.e. að maður gerir ráð fyrir að hann eigi heimsklassaleik og verður pínku fúll ef hann er ekki að sýna algjöran stjörnuleik. Konate var líka öflugur, t.a.m. með stoðsendingu, og MacAllister er gríðarlega mikilvægur í miðjuspilinu. Alisson hafði lítið að gera í 85 mínútur, en þurfti þá að verja einn stórhættulegan skalla og gerði það vel, en gat svo lítið gert í markinu. Trent og Robbo voru nokkurnveginn á pari eða kannski rúmlega það, Díaz hefur alveg átt betri daga en var ekkert slæmur. Mætti alveg fara að detta í sama gírinn og hann var í í haust samt.
Hvað hefði mátt betur fara?
Elliott hefði alveg mátt nýta þetta tækifæri betur, hann hefur átt góðar innkomur upp á síðkastið en oft verið betri en í dag. Smá áhyggjuefni í ljósi þess hve það eru í raun fáir miðjumenn sem geta komið inn fyrir Grav/Dom/Mac þrenninguna okkar, svo hann má ekkert eiga einhverja slaka leiki þegar til kasta hans kemur.
Umræðan eftir leik
Þetta var í fjórða sinn í vetur sem liðið skoraði 3 mörk í fyrri hálfleik. Öll hin liðin í deildinni hafa náð að gera þetta 16 sinnum á sama tíma. Samtals.
Baráttan á toppnum er svipuð eftir daginn eins og fyrir hann, þ.e. Arsenal vann sinn leik þrátt fyrir að hafa misst mann af velli í fyrri hálfleik. Hins vegar rúlluðu Bournemouth yfir Forest 5-0, og því ljóst að þeir verða ekkert lamb að leika við á þeirra heimavelli um næstu helgi. En okkar menn eru enn með 6 stiga forystu, með leik til góða á næstu lið, og núna eiga næstu lið einum leik minna til að vinna upp þetta forskot. Myndi okkur líða betur með meira forskot? Alveg klárlega, en svona er deildin einfaldlega.
Næstu verkefni
PSV á útivelli í meistaradeildinni á miðvikudaginn. Liðið þarf í raun bara eitt stig til að tryggja efsta sætið, en Slot vill örugglega vinna þennan leik. Virðist svosem litlu breyta hvort liðið lendir í 1. eða 2. sæti í þessari deild, það er a.m.k. klárt að liðið sleppur við umspilsleikina sem liðin í 9. – 24. sæti þurfa að fara í gegnum. Í öllu falli vill maður að hópurinn verði notaður svolítið í miðri viku, því það býður erfiður leikur gegn Bournemouth um næstu helgi þar sem suðurstrendingarnir eru heldur betur á siglingu og verða engin lömb að leika sér við.
En fögnum úrslitunum í dag, og njótum stöðunnar sem liðið er í!