Latest stories

  • Liverpool 4 – 1 Ipswich

    Okkar menn kræktu í frekar þægileg 3 stig með sigri á Ipswich í dag. Kop.is hópurinn væntanlega séð til þess.

    Mörkin

    1-0 Szoboszlai (11. mín)
    2-0 Salah (35. mín)
    3-0 Gakpo (44. mín)
    4-0 Gakpo (66. mín)
    4-1 Greaves (90. mín)

    Hvað gerðist markvert í leiknum?

    Þetta spilaðist í raun bara alveg eins og maður átti von á, þ.e. að okkar menn voru með völdin í leiknum og stýrðu honum nánast frá A til Ö. Fyrstu mínúturnar gengu frekar rólega fyrir sig, en eftir um 10 mínútna leik fann Konate Szoboszlai í smá opnu svæði fyrir framan teiginn, Ungverjinn tók eina hreyfingu til að færa boltann yfir á vinstri, og smurði honum svo í hornið niðri nær. Ipswich misstu svo mann af velli sem líklega sleit liðbönd í tæklingu, þetta hægði talsvert á leiknum og gerði það að verkum að uppbótartíminn varð talsverður í lok hálfleiksins. Eftir rúmlega hálftíma leik fékk svo Salah góða sendingu frá Gakpo inn á markteiginn hægra megin og skoraði þar úr færi sem ekkert mjög margir myndu skora úr. Gakpo bætti svo við þriðja markinu skömmu fyrir hlé, Grav fann Szoboszlai í auðu svæði hægra megin í teignum, skotið frá honum var varið en barst til Gakpo sem potaði inn. Þarna voru úrslitin nokkurn veginn ráðin. Í síðari hálfleik kom svo fjórða markið þegar Trent átti klassíska Trent-esque sendingu inn á teig rétt fyrir innan vítapunktinn þar sem Gakpo var á auðum sjó og skallaði í netið. Gakpo var svo tekinn af velli ásamt Szoboszlai og Gravenberch, inná komu Endo, Elliott og Nunez. Nokkru síðar fékk Danns að koma inná fyrir MacAllister, og að lokum kom Chiesa inná fyrir Díaz. Enginn þeirra náði að setja mark sitt á leikinn en Endo var þeirra sýnu öflugastur og ljót tækling á honum hefði nú líklega átt að skila sér í rauðu spjaldi á einn Ipswich leikmann en varð á endanum bara gult. Nunez var líka duglegur að koma til baka og vinna boltann, ein af hans sterkustu hliðum núorðið.
    Þegar venjulegur leiktími var að líða út fengu Ipswich hornspyrnu og skoruðu úr henni, Elliott sofnaði líklega aðeins á verðinum þar og ég hugsa að bæði van Dijk og Slot verði ósáttir við að hafa ekki haldið hreinu. En 4-1 sigur staðreynd, þægilegt og 3 stig í höfn.

    Hverjir stóðu sig vel?

    Szoboszlai var mjög öflugur þann tíma sem hann var inná, og það er nú ekki hægt að sleppa því að minnast á Gakpo í ljósi þess að hann skoraði tvö og lagði upp eitt. Hlustendur geta valið hvor þeirra hlýtur titilinn, þeir eiga báðir gott tilkall. Grav var líka öflugur, en hann fer fljótlega að skríða inn í sama flokk og Salah og Virgil, þ.e. að maður gerir ráð fyrir að hann eigi heimsklassaleik og verður pínku fúll ef hann er ekki að sýna algjöran stjörnuleik. Konate var líka öflugur, t.a.m. með stoðsendingu, og MacAllister er gríðarlega mikilvægur í miðjuspilinu. Alisson hafði lítið að gera í 85 mínútur, en þurfti þá að verja einn stórhættulegan skalla og gerði það vel, en gat svo lítið gert í markinu. Trent og Robbo voru nokkurnveginn á pari eða kannski rúmlega það, Díaz hefur alveg átt betri daga en var ekkert slæmur. Mætti alveg fara að detta í sama gírinn og hann var í í haust samt.

    Hvað hefði mátt betur fara?

    Elliott hefði alveg mátt nýta þetta tækifæri betur, hann hefur átt góðar innkomur upp á síðkastið en oft verið betri en í dag. Smá áhyggjuefni í ljósi þess hve það eru í raun fáir miðjumenn sem geta komið inn fyrir Grav/Dom/Mac þrenninguna okkar, svo hann má ekkert eiga einhverja slaka leiki þegar til kasta hans kemur.

    Umræðan eftir leik

    Þetta var í fjórða sinn í vetur sem liðið skoraði 3 mörk í fyrri hálfleik. Öll hin liðin í deildinni hafa náð að gera þetta 16 sinnum á sama tíma. Samtals.

    Baráttan á toppnum er svipuð eftir daginn eins og fyrir hann, þ.e. Arsenal vann sinn leik þrátt fyrir að hafa misst mann af velli í fyrri hálfleik. Hins vegar rúlluðu Bournemouth yfir Forest 5-0, og því ljóst að þeir verða ekkert lamb að leika við á þeirra heimavelli um næstu helgi. En okkar menn eru enn með 6 stiga forystu, með leik til góða á næstu lið, og núna eiga næstu lið einum leik minna til að vinna upp þetta forskot. Myndi okkur líða betur með meira forskot? Alveg klárlega, en svona er deildin einfaldlega.

    Næstu verkefni

    PSV á útivelli í meistaradeildinni á miðvikudaginn. Liðið þarf í raun bara eitt stig til að tryggja efsta sætið, en Slot vill örugglega vinna þennan leik. Virðist svosem litlu breyta hvort liðið lendir í 1. eða 2. sæti í þessari deild, það er a.m.k. klárt að liðið sleppur við umspilsleikina sem liðin í 9. – 24. sæti þurfa að fara í gegnum. Í öllu falli vill maður að hópurinn verði notaður svolítið í miðri viku, því það býður erfiður leikur gegn Bournemouth um næstu helgi þar sem suðurstrendingarnir eru heldur betur á siglingu og verða engin lömb að leika sér við.

    En fögnum úrslitunum í dag, og njótum stöðunnar sem liðið er í!

  • Liðið gegn Ipswich á Anfield

    Bekkur: Kelleher, Tsimikas, Quansah, Bradley, Endo, Elliott, Nunez, Chiesa, Danns

    Eftir fréttir af því að Konate væri tæpur fyrir þennan leik þá er það ákveðinn léttir að hann sé klár í að byrja. Nú vonar maður bara að hann haldist heill, og vonandi gera allir hinir það líka.

    Jones, Jota og Gomez eru annars allir frá eins og Slot var búinn að útlista á blaðamannafundi fyrir leik. Þetta þýðir að það er pláss fyrir Jayden Danns á bekknum, en einu miðjumennirnir eru Endo og Elliott. Mætti alveg vera aðeins meiri breidd þar.

    Að venju þá pantar maður 3 stig og að meiðslalistinn lengist ekkert. Væri gaman að fá hreint lak í kaupbæti.

    KOMA SVO!!!!!!

  • Heimaleikur gegn Ipswich á morgun

    Á morgun spilar Liverpool sína 22. umferð þegar Ipswich kemur í heimsókn á Anfield og hefst leikurinn klukkan þrjú.

    Liverpool tryggði sig í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar á þriðjudaginn með 2-1 sigri á franska liðinu Lille og ef ekki hefði verið fyrir ansi ævintýralegan viðsnúning Barcelona í sinni viðureign þá hefði Liverpool verið búið að tryggja sér efsta sætið fyrir lokaumferðina en ljóst er að liðið fer allavega ekki neðar en annað sætið í lokaumferðinni. Virkilega kærkomið að þurfa ekki að taka þátt í umspils umferðinni sem liðin í 9.- til 24.sæti þurfa að spila.

    Nú fer fókusinn aftur á deildarkeppnina þar sem staða Liverpool er vissulega mjög góð enn þá. Liðið á sex stiga forskot og leik til góða á næstu lið, Arsenal og Nottingham Forest en þau eiga bæði útileiki gegn Wolves og Bournemouth á sama tíma á morgun.

    Arne Slot segir að Curtis Jones verði ekki með á morgun en gæti vonandi verið með aftur fljótlega. Kannski bara strax í næstu viku, Konate er enn pínu tæpur og óvíst hve marga leiki hann getur spilað á einu bretti og enn er eitthvað í Diogo Jota. Að öðru leiti virðist hópurinn vera nokkuð heill og flottur.

    Ipswich hafa svona að mestu verið í sæmilegu formi undanfarnar umferðir þó þeir hafi ekki fengið fjöldan allan af stigum úr þeim leikjum en létu Arsenal hafa fyrir sér, unnu Chelsea og gerðu jafntefli við Fulham – en hafa tapað síðustu tveimur leikjum gegn Brighton og Man City – sem vann þá 6-0 í síðustu umferð. Þeir eiga nokkra spræka leikmenn og mjög öflugan framherja í Liam Delap sem lét varnarmenn Liverpool finna fyrir sér í fyrstu umferð leiktíðarinnar.

    Heilt yfir hefur Liverpool tekist vel að rótera megninu af sínu liði bæði í deildar- og Meistaradeildarleikjum en þó aðallega í bikarleikjunum. Á þriðjudaginn náði Liverpool til að mynda að gefa þeim Mac Allister, Trent, Robertson, Konate og Gakpo smá breik og ég vænti þess að þeir muni allir byrja leikinn á morgun.

    Alisson

    Trent – Konate – Van Dijk – Robertson

    Mac Allister – Gravenberch – Szoboszlai

    Salah – Nunez – Gakpo

    Ég held að þetta verði eitthvað á þessa leið á morgun, kannski heldur Diaz sæti sínu í liðinu og þá á kostnað Nunez en ég vona pínu að Nunez fái að byrja þennan leik. Szoboszlai hefur verið öflugur en það hefur Harvey Elliott verið líka og í síðustu tveimur leikjum hefur hann átt risa þátt í því að þeir hafi endað með sigri og ég væri mjög til í að sjá hann fá tækifærið í byrjunarliðinu á morgun. Þá hefur Chiesa komið skemmtilega inn af bekknum og væri frábært að sjá hann byrja leik fljótlega en eflaust er það ekki líklegt á morgun. Kannski verður Tsimikas áfram í byrjunarliðinu á kostnað Robertson.

    Sama hvaða lið Slot stillir upp þá er þessi leikur engu að síður skyldusigur og þurfa að vera mikilvæg þrjú stig í titilbaráttunni, fallbaráttulið á heimavelli á ekki að vera neitt annað en sannfærandi sigur og er krafan klárlega það. Sama hvert byrjunarliðið verður þá ætti það að vera nógu sterkt til að klára verkefni morgundagsins og nóg ætti að vera af leikmönnum á bekknum sem eiga að geta unnið leiki og breytt gangi þeirra.

  • Liverpool 2 -1 Lille

    1-0 Mohamed Salah (’34 )
    1-1 Jonathan David (’62 )
    2-1 Harvey Elliott (’67 )

    Það voru ekki mikil gæðin þegar okkar menn mættu Lille á Anfield í dag. Fátt marktækt gerðist í fyrri hálfleik þar til að Mo Salah kom Liverpool yfir á 34. mínútu leiksins. Tsimikas náði þá að vinna boltann og koma honum á Curtis Jones á vallarhelmingi Liverpool sem átti frábæra stungusendingu inn á Salah. Markmaður Lille mætti honum en Salah setti boltann snyrtilega yfir hann og í netið 50. evrópumark Salah. Salah var svo nálægt því að setja annað mark undir lok fyrri hálfleiks en skot hans fór rétt framhjá markinu.

    Í byrjun seinni hálfleiks fengu Liverpool svo algjört dauðafæri til að gera út um leikinn þegar Salah fékk boltann í stöðunni fjórir á móti tveimur en með aragrúa möguleika ákvað hann að hlaða í skot og átti laflaust skot framhjá markinu. Stuttu seinna var Quansah næstum búinn að skora þegar hann átti fínan skalla yfir markið.

    Á 59. mínútu misstu Lille svo mann af velli þegar Elliott átti flotta sendingu á Diaz en Mandi varnarmaður Lille tók hann niður og fékk sitt seinna gula spjald, en hann fékk það fyrra fyrir mótmæli eftir mark Salah. Þremur mínútum síðar jöfnuðu Lille. Þeir komust bakvið Bradley og kom fyrirgjöf fyrir markið þar sem Hákon Arnar átti skot í Tsimikas en þaðan barst boltinn á David sem skoraði auðveldlega.

    Sem betur fer tók það aðeins fjórar mínútur fyrir Liverpool að komast aftur í forustu þegar varnarmaður Lille hreinsaði hornspyrnu fyrir fæturna á Elliott sem átti skot fyrir utan teyg sem breytti um stefnu af öðrum varnarmanni og þaðan í netið. Í uppbótatíma skoraði Nunez eftir að hafa fylgt á eftir skoti Chiesa en var klárlega rangstæður og markið réttilega dæmt af.

    Bestu menn Liverpool

    Elliott átti frábæra innkomu skoraði sigurmarkið, kom Diaz í frábæra stöðu þegar rauða spjaldið kom og hélt spilinu gangandi. Tsimikas átti flottan leik í bakverðinum vann boltann fyrir fyrra markið og skapaði hættu úr föstum leikatriðum. Salah var í betri gír en í síðustu leikjum, fyrir utan þegar hann fór illa með bestu stöðu Liverpool í leiknum í byrjun seinni, þá var hann sífellt hættulegur. Quansah átti sinn besta leik í nokkurn tíma.

    Vondur dagur

    Var enginn sérstaklega slakur í dag. Fór ekki sérstaklega mikil orka í leikinn og sumir slakir á köflum en skiluðu allir fínu dagsverki.

    Umræðan

    • Enn með fullt hús stiga en endurkoma Barcelona þýðir að efsta sætið er ekki tryggt
    • Slóum félagsmet með að halda hreinu í Meistaradeildinni í 572 mínútur frá því að Pulisic skoraði fyrir Milan í upphafi fyrsta leik riðilsins þar til í dag.

    Næsta verkefni

    Næst er það Ipswich heima klukkan þrjú á laugardaginn í deildinni.

  • Byrjunarlið gegn Lille

    Það eru ekki miklar breytingar fyrir Lille í kvöld þrátt fyrir að vera svo gott sem búnir að tryggja okkur í toppsætin í Meistaradeildinni og greinilegt að Slot ætlar ekki að taka áhættuna á því að missa dampinn.

    Bekkur: Kelleher, Jaros, Robertson, Konate, Alexander-Arnold, Mac Allister, Elliott, Morton, Endo, Gakpo, Chiesa og Danns

    Hvílt í vörninni og Macca fær hvíld annars líklega snemma skipt og menn hvíldir þannig.

  • Gullkastið – Ys og Þys Út Af Engu

    Liverpool fór inn í þessa mjög svo þungu viku með 6 stiga forskot á toppi deildarinnar og endaði tveimur leikjum seinna á nákvæmlega sama stað. Leikurinn gegn Everton á Goodison er svo ennþá inni. Ljómandi góð niðurstaða í ljósi þess að útlitið var bara alls ekkert sérstakt eftir 180 mínútur af fótbolta í útileikjum gegn bæði Nottingham Forest og Brentford.

    Vindum okkur í nýtt Ögurverk lið og spáum í spilin fyrir leikinn annað kvöld gegn Hákoni og félögum í Lille frá Frakklandi, sjá upphitun Ívars Reynis hér

    Um helgina er svo Kop.is ferð í samstarfi við Verdi Travel með góðan hóp á Liverpool – Ipswich, það verður eitthvað!

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur: SSteinn og Maggi

    Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.


    Egils GullHúsasmiðjan / Verdi Travel Ögurverk ehf / Done

    MP3: Þáttur 505

  • Liverpool – Lille (Hákon og félagar)

    Þá er það næst síðasti leikurinn í þessari nýju týpu af riðlakeppni, LOSC Lille á heimavelli. “Því miður” er um heimaleik að ræða þannig að við geymum sögu borgarinnar um sinn en þar sem þetta er ekki í fyrsta sinn sem liðin mætast er auðvitað til upphitun frá Einari Matthíasi um félagið frá 2010. En stiklum á stóru um andstæðinginn.

    LOSC Lille

    LOSC Lille var stofnað árið 1944 með sameiningu tveggja knattspyrnufélaga frá Lille, Olympique Lillois, sem varð fyrsti Frakklandsmeistari atvinnumanna árið 1933 og SC Fives, sem hafði átt farsælan feril í frönsku knattspyrnunni. Þessi sameining varð til þess að félagið varð strax eitt það sterkasta í Frakklandi. Á fyrsta áratuginum eftir stofnun unnu þeir Ligue 1 árið 1946 og 1954 og Coupe de France fimm sinnum.

    Eftir sigur í Ligue 1 árið 1954 fór að halla undan fæti og ansi algengt stef sem við höfum skrifað um hér áður hjá öðrum félögum gerði vart við sig. Félagið lenti í fjárhagsvandræðum og féll úr Ligue 1 í neðri deildir og átti erfitt uppdráttar í áratugi. Þrátt fyrir nokkrar endurkomur í efstu deild tókst ekki að keppa við stærri félög landsins. Þess má geta að yfirburðir PSG eru nýtilkomnir og á síðustu áratugum var alvöru keppni í frönsku deildinni. Þess má kannski geta í framhjáhlaupi að franskt lið hefur raunar hampað Evrópubikarnum. En á þessum árum varð Lille helst þekkt fyrir að rækta unga leikmenn og þróa hæfileika þeirra, en hafði ekki burði til að halda þeim eða byggja lið í kringum þá. Segja má að á tíunda áratuginum hafi nýtt blómaskeið hafist hjá félaginu. Með fjárhagslegri hagræðingu, nýjum stjórnendum og áherslu á að rækta sína eigin ungu leikmenn náðu þeir smám saman að styrkja sig í sessi. Eins flutti félagið á nýjan heimavöll, Stade Pierre-Mauroy árið 2012, sem gaf félaginu stöðugleika til framtíðar. Á þessum tíma varð LOSC þekkt fyrir frábært uppeldisstarf og sölur þar sem ungir hæfileikaríkir leikmenn komu til félagsins, sprungu út og voru seldir til stærri liða.

    Árið 2011 var stórt ár í sögu félagsins, þegar þeir unnu tvöfalt, bæði deild og bikar undir stjórn Rudi Garcia. Þar skaust einnig upp á stjörnuhimininn leikmaður að nafni Eden Hazard sem síðar átti eftir að gera garðinn frægan á Englandi og ….Spáni (not so much). Þeir urðu síðan aftur meistarar árið 2021 undir stjórn Christophe Galtier.

    Liðið

    Lille er sem stendur í þriðja sæti frönsku deildarinnar eftir 2-1 sigur á Nice þar sem Hákon Arnar skoraði annað markið. Þeir hafa ekki tapað 20 leikjum í röð, þar af 14 í frönsku deildinni. Þeir eru samt sem áður að berjast við ákveðna leikmannakrýsu því Tiago Santos, Fernandes Pardo, Ethan Mbappe, Samuel Umtiti og Nabil Bentaleb eru meiddir og Andre Gomes er ekki skráður í Meistaradeildina. Já, það er eitt stykki Mbappe í þessu félagi, litli bróður stóra bróður síns.

    Líklegt byrjunarlið þeirra er:

    Chevalier í marki,

    Mandi, Diakite, Alexsandro, Gudmundsson (hann er sænskur) í varnarlínunni,

    André, Bouaddi, Bakker, Cabella, Hákon Arnar Haraldsson á miðjunni/köntunum og loks

    Jonathan David frammi.

    Þetta er bara Hákon og félagar. Neinei, þeir eru með öflugt lið sem spilar 4-2-3-1 possession fótbolta. Hvort þeir þori því á Anfield á eftir að koma í ljós.

    Liverpool

    Eins og áður sagði þá léku liðin í Evrópudeildinni árið 2011. Lið Liverpool á Anfield var skipað þessum leikmönnum í 3-0 sigri:

    Þetta er nú reyndar alveg nokkuð gott lið, helstu veikleikarnir eru kannski á vinstri vængnum og sennilega hefði þetta lið líka geta notað Salah í stað meistara Kuyt. Rétt eins og við gætum alveg notað Mascherano, Gerrard og Torres í dag. En þegar bekkurinn er skoðaður þá kemur í ljós af hverju liðið náði ekki sérstökum árangri: Cavalieri, Benayoun, Kyrgiakos, Ngog, Degen, El Zhar, Kelly. Ekki merkileg breidd það.

    Liðið kemur nokkuð ferskt – óvenju ferskt kannski – inn í þennan leik, núna seinni hlutann í janúar. Óvenju ferskt segi ég og meina þá helst að lítið er um meiðsli og álagið í lok desember og núna í janúar hefur ekki verið brjálæðislegt og hefur dreifst alveg bærilega á hópinn. 2-0 sigur gegn Brentford með frábærum mörkum frá Darwin “okkar allra” Nunez tryggðu þann sigur, tvö síðustu skotin af 512 þann leikinn.

    Ég á von á töluverðri róteringu þar sem sigur í þessum leik er eiginlega óþarfur. Nunez fer beinustu leið í byrjunarliðið, vonandi fá síðan leikmenn eins og Bradley, Quensah, Endo, Elliot og Jones þennan leik. Ég vona það, en mér sýnist sem Arne Slot gefi ekki neinu liði, ekki einu sinni Accrington Stanley grið og þess vegna verður ansi sterkt lið sem spilar þennan leik. Berum það saman við bekkinn árið 2011!!

    Prófum þetta svona. Fer síðan auðvitað eftir standi leikmanna, hvort t.d. Szobo þurfi að spila sig meira í gang, hvort Jota sé klár á bekk, hvort Slot vilji hvíla Van Dijk eða jafnvel Diaz og Gakpo. Já og Gakpo gæti allt eins verið þarna eins og Diaz.

    Ég held síðan að sagan endurtaki sig, Liverpool vinnur 3-0 með mörkum frá Gerrard og Torres (2). Eða bara Nunez, Elliot og Diaz.

    YNWA.

  • Brentford 0 – Liverpool 2

    Okkar menn héldu til vesturhluta Lundúna í dag og freistuðu þess að hrökkva aftur í gang eftir smá hikst í deildinni að undanförnu.

    Byrjunarliðið okkar má segja að sé orðið klárt að sé metið það 11 manna lið sem er klárlega aðalliðið sem Slot horfir til. Einu breytingarnar sem við sjáum eru vinstri bak og nían. Í dag var það Kostas í bakverði og Diaz í níunni. Sennilega fyrst og síðast vegna þess að auðvitað náði Jota ekki að vera í hóp, enn á ný meiddur. Frábær leikmaður en sannarlega búinn til úr gleri.

    Kostas lenti strax í vanda, gult eftir peysutog strax á 7.mínútu eftir skyndisókn heimamanna, en þær eru þeir jú þekktir fyrir. Fyrsta hálftímann héldum við boltanum að mestu en sköpuðum mjög lítið, í raun áttu Brentford hættulegri færi. Undir lok hálfleiksins jókst sóknarþunginn okkar aðeins, Szobo átti skot í ofanverða slána úr teignum og Gakpo átti að gera betur þegar kannski eina snilld Mo í fyrri sýndi sig. Veit ekki alveg hvort Cody ætlaði að skjóta eða senda á markteignum en hvorugt var gott.

    Flautið í hálfleik og 0-0. Enn einn fyrri hálfleikurinn sem við sannarlegaa vorum í brasi.

    Siðari hálfleikur

    Við byrjuðum nokkuð sterkt án þess að skapa okkur færi af viti og eftir 10 mínútur þá hækkaði heldur betur hávaðinn á vellinum og heimamenn hentu sér í heilmikla pressu og læti. Við stóðum það af okkur og Diaz átti skot sem Flekken varði vel, síðasta alvöru mómentið hjá Diaz sem var stuttu siðar skipt út fyrir Darwin og Robbo kom inn fyrir Kostas.

    Brentford skiptu líka um leikmann, Schade kom inn og þeir komu framar, nokkuð sem þýddi opnari leik. Það skilaði þó fáum færum fyrir liðin, hálffæri og efnilegar sóknir sem fjöruðu út svolítið saga leiksins. Á 80.mínútu ákvað Slot að skipta um fremri miðjumennina, Elliott og Jones komu inn í stað Szobo og MacAllister. Ferskir fætur þemað þar.

    Leikurinn var ennþá opinn og alls konar sénsar, Trent skaut rétt framhjá og Salah spilaði illa úr séns sem var gott skotfæri eða sending i teignum og Slot ákvað stuttu síðar að henda Chiesa inn. Svo gerðist hið ótrúlega!

    Okker eigin Darwin Nunez fokking skoraði!!!!

    Ekki bara einu sinni heldur tvisvar!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

    Fyrst eftir að mikil pressa leiddi af sér sendingu Trent inn í markteig þar sem hann negldi í netið og svo mínútu síðar eftir frábæra skyndisókn þar sem Elliott lagði á hann, kappinn tók touch og klíndi úr teignum. Velkominn elsku Darwin, please, please, please stígðu nú upp og vertu Liverpool legend.

    Að lokum sigur, gríðarmikilvægur sigur sem kemur okkur vonandi af stað!

    Molar

    – Pressan okkar er í vanda. Brentford áttu ansi létt með að spila sig í gegnum hana, nú var Szobo mættur sem við höfum stundum saknað en það var alltof langt á milli manna.
    – Nían í liðinu okkar verður. Þá meina ég leikstöðuna en ekki leikmanninn Darwin. Jota er búinn til úr gleri og nú þarf Darwin að nýta þessi móment áfram. Ég sennilega jinxaði Diaz í West Ham leiknum. Enn einn leikinn var hann alveg off sem fremsti maður og við megum ekki að þessi staða verði áfram þetta vandamál.
    – Hornin okkkar. Vá. Ég veit ekki hvað þau enduðu mörg, hætti að telja í 11 og þá komu nokkur í viðbót. Flest enduðu í fyrsta manni eða höndum Flekken. Ekki nóg með að við skorum ekki þá bara skapast varla hætta.

    MIKILVÆGAST

    Fokking sigur á erfiðum útivelli eftir alveg ofboðslegt harðlífi og mikið vona ég að þetta sé upphaf á því að við rífum liðið aftur í gang og þá sérstaklega sóknarlega…eða bara því að nýta færin.

    Við erum óþolinmóð og pirruð í þessum leikjum en þegar að þeir enda svona er allt gleymt. Það verður alveg fróðlegt að sjá hvort að við höldum þessum leikmannahóp eingöngu í janúar en eftir svona leik þá vonar maður að fleiri séu að stíga inn með alvöru hlutverk.

    Að lokum geggjaður dagur í boltanum, en erfitt var það!

    Næstu skref

    Meistaradeildin er næsta verkefnið, Hákon Haralds og félagar í Lille mæta á Anfield í næstu viku og svo fáum við Ipswich í heimsókn í Kop.is-ferð. Þá bara stíga á bensíngjöfina heima og keyra áfram!

  • Byrjunarlið gegn Brentford: Engin Jota sjáanlegur

    Það er komið af hressandi þrjú leik gegn Brentford og Arne Slot hefur ákveðið hverjir hefja leikinn. Áhugaverðast finnst mér að Tsimikas er komin í byrjunarliðið fyrir Robbo og Nunez fær sér sæti á bekknum eftir leikbannið sem hann var í síðasta leik. Því miður virðast fréttir þess efnis að Jota sé (einu sinni en) meiddur réttar. Gaman að sjá að Chiesa er allavega á bekknum, vonandi fáum við að sjá hann í nokkrar mínútur í dag, helst í stöðunni 3-0.

     

     

    Hjá býflugunum er byrjunarliðið svona:

     

     

    Hvernig eruð þið stemmd fyrir þessu? Okkar menn eiga auðvitað alltaf að vinna Brentford en frammistaða síðustu leikja veldur smá áhyggjum. Koma svo Púllarar!

  • Stelpurnar mæta Brighton

    Eftir meira en mánaðarhlé er loksins komið að leik hjá kvennaliðinu okkar. Jólafríið átti ekki að vera alveg svona langt, því það var planaður bikarleikur gegn West Ham um síðustu helgi, en völlurinn var frosinn og því var leiknum frestað.

    Þessi pása hefur haft í för með sér að liðið er að fá einhverja leikmenn til baka úr meiðslum. Marie Höbinger er þannig á bekk í kvöld, og Lucy Parry er í byrjunarliði, en þær voru báðar frá síðast þegar liðið spilaði. Sophie Roman Haug er alveg á mörkum þess að verða leikfær, og við gætum séð hana um næstu helgi. Þá er Faye Kirby komin aftur til æfinga en er ekki í hóp.

    Liðinu hefur svo borist liðsauki núna í janúarglugganum, en Sam Kerr og Julia Bartel eru komnar til félagsins. Báðar eru þær reyndar á láni: Kerr kemur frá Bayern München, og Bartel kemur frá Chelsea. Það er rétt að taka fram að téð Sam Kerr er EKKI sú sama og er á mála hjá Chelsea, þær eru alnöfnur en sú sem nú spilar fyrir Liverpool kemur frá Skotlandi á meðan sú hjá Chelsea er áströlsk.

    Andstæðingarnir í kvöld koma frá Brighton, sem má segja að sé spútniklið tímabilsins. Þær hafa verið í toppbaráttunni alveg frá byrjun, kannski ekki líklegar til að slá Chelsea eða City við, en gætu alveg endað þar rétt fyrir neðan. Enda sóttu þær nokkra sterka leikmenn í sumarglugganum: Fran Kirby kom frá Chelsea, Nikita Parris kom frá United sem og María Þórisdóttir, svo nokkrar séu nefndar.

    Liðið sem byrjaði leikinn núna kl. 19 lítur svona út:

    Micah

    Fisk – Silcock – Evans

    Parry – Kerr – Nagano – Holland – Hinds

    Smith – Kapocs

    Bekkur: Laws, Bonner, Clark, Höbinger, Bartel, Shaw, Daniels, Kiernan, Enderby

    Eins og venjulega má finna leikinn á Youtube rás deildarinnar.

    KOMA SVO!!!!!

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close