Latest stories

  • Upphitun: Leicester – Liverpool

    Á morgun mæta Liverpool á King Power völlinn til að spila gegn heimamönnum í Leicester. Tapi Leicester leiknum er ljóst að þeir spila í næst efstu deild á næsta ári á meðan að Liverpool gæti tryggt sér Englandsmeistaratitil með sigri á morgun en Arsenal tapar gegn Ipswich fyrr um daginn.

    Leicester hafa verið heppnir að hafa Southamtpon í deildinni því það hefur dregið athygli frá því hvað þeir hafa verið ótrúlega slakir í ár, þá sérstaklega í markaskorun. Þeir skoruðu tvívegis í jafntefli gegn Brighton um síðustu helgi en þar áður hafði þeim ekki tekist að skora í átta leikjum í röð.

    Hjá okkar mönnum er aðallega verið að bíða og sjá hvenær titillinn kemur í hús en nú með þrettán stiga forskot og sex leiki eftir eru meira að segja svartsýnustu menn orðnir vissir um að titillinn sé í okkar höndum.

    Einnig eru samningamál kominn í betri farveg þar sem Van Dijk og Salah hafa krotað undir nýja samninga og aðeins Trent sem verður samningslaus í sumar og virðist ljóst að hann sé á förum. Hinsvegar er að styttast í endurkomu hjá Trent og gætum við jafnvel séð hann á bekknum á morgun.

    Alisson

    Bradley – Konate – Van Dijk – Robertson

    Mac Allister – Gravenberch

    Salah – Szoboszlai – Diaz

    Jota

    Giska á þetta byrjunarlið á morgun þar sem Robertson og Szoboszlai taka aftur sæti sín í byrjunarliðinu. Liðið hefur verið ansi fyrirsjáanlegt undanfarið og vonandi að það sé frekar vegna þess að nú er að litlu að keppa eftir að hafa dottið úr Meistaradeild og deildarbikar frekar en að hin liðin séu búinn að ná að lesa Slot.

    Spá

    Ætla að spá 5-0 sigri Liverpool þar sem liðið springur út gegn vonlausu liði Leicester. Salah setur þrennu og Diaz og Gakpo með sitt hvort í hvorum hálfleik.

  • Stelpurnar mæta Brighton

    Tímabilið hjá kvennaliðinu er farið að líkjast því hjá strákunum að því leyti að nú er bara deildin eftir, og leikjunum sem eru eftir fer fækkandi. Það eru aðeins fjórir leikir eftir, og í dag kl. 11:30 munu þær heimsækja Brigthon í lykilleik í baráttunni um 5. sætið í deildinni.

    Það eru langflestar af okkar konum leikfærar, í raun eru það bara Sofie Lundgaard og Zara Shaw sem eru í langtímameiðslum, og það er ekki alveg vitað hvenær Hannah Silcock kemur til baka. En svona stillir Amber liðinu upp í dag:

    Laws

    Hinds – Fisk – Bonner – Bernabé

    Kerr – Nagano

    Smith – Höbinger – Holland

    Kiernan

    Bekkur: Micah, Parry, Evans, Clark, Matthews, Bartel, Kapocs, Roman Haug, Enderby

    Manni sýnist að Yana Daniels komist einfaldlega ekki á bekkinn, og Faye Kirby er utan hóps sömuleiðis.

    Grace Fisk er komin í miðvarðarstöðuna sem mætti færa rök fyrir að sé hennar besta staða, frekar en í bakverði eða vængbakverði. Líklega erum við svo að tala um að þetta sé 4231, en það kemur betur í ljós þegar leikurinn hefst. Annars er áhugavert að Kiernan fái sénsinn uppi á topp á kostnað Sophie Roman Haug, en svosem gott að eiga hana inni af bekknum hvort eð er. Það eru hins vegar ekkert mjög margir möguleikar þegar kemur að því að skipta inn miðjumönnum, í raun er Julia Bartel eini hreinræktaði miðjumaðurinn á bekknum.

    Það verður hægt að sjá leikinn á YouTube eins og venjulega: https://www.youtube.com/watch?v=EGyyq7eFqTc

    KOMA SVO!!!!

  • Virgil van Dijk skrifar undir!

    Þá hefur eitt verst geymda leyndarmál boltans í dag verið opinberað þegar fyrirliðinn Virgil van Dijk framlengdi samning sinn við Liverpool til tveggja ára.

    Þetta eru gífurlega jákvæðar fréttir fyrir bæði leikmann og félagið þar sem ljóst er að enginn mun geta fyllt almennilega upp í fótspor Hollendingsins sem hefur sannað sig á þessum tíma sem algjör all time great hjá bæði félaginu, ensku deildinni og heimsboltanum.

    Það kom aldrei neitt annað til greina segir van Dijk og um daginn sagðist hann mjög spenntur fyrir framtíð félagsins og að hann búist við að Liverpool komi enn sterkara inn á næstu leiktíð.

    Nú hafa bæði Sala og van Dijk framlengt og því ber að fagna. Endum þetta á tilvitnun í van Dijk frá undirritun samnings:

    Virgil: “It was always Liverpool. That was the case. It was always in my head, it was always the plan and it was always Liverpool.”

  • Gullkastið – Endamarkið Nálgast

    Það er ennþá styttra í fyrirheitna landið eftir leiki vikunnar. Liverpool náði í þrjú stig á Anfield á meðan Arsenal tapaði stigum. Sex stig duga því til að vinna deildina þannig að tölfræðilega gæti einmitt það gerst núna um helgina. Liverpool mætir Leicester en Arsenal fær Ipswich í heimsókn þannig að við höldum ekkert niðri í okkur andanum.
    Veljum í Ögurverk liðið og skoðum stöðuna í deildinni almennt og spáum í leiknum á Páskadag

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur: SSteinn og Maggi

    Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.


    MP3: Þáttur 517

  • Liverpool 2 – 1 West Ham – 6 stig eftir

    Liverpool tók enn eitt skrefið í átt að 20. meistaratitlinum í dag með 2-1 sigri á spræku liði West Ham á Anfield.

    Mörkin

    1-0 Díaz (18. mín)
    1-1 Robertson (sjálfsmark)(86. mín)
    2-1 Virgil (89. mín)

    Hvað réði úrslitum í dag?

    Það sem réði úrslitum var að á þeim köflum þegar Liverpool nennti að spila fótbolta og sýna hvað í þeim býr, þá sýndu þeir hvaða lið er besta liðið í enska boltanum í dag. Þetta var ekki alveg jafn augljóst í öðrum hlutum leiksins.

    Hvað gerðist helst markvert?

    Þetta leit vel út fyrri hluta hálfleiksins, hápunkturinn var að sjálfsögðu þegar Salah fékk autt svæði fyrir framan sig á hægri kantinum, hljóp upp að teig og átti þar eina af sínum “trademark” utanfótar sendingum á Díaz sem kom aðvífandi og setti boltann í næstum því autt markið. Á þessum tímapunkti þá spiluðu okkar menn eins og sá sem valdið hefur. Það dalaði örlítið á síðari hluta hálfleiksins, West Ham fengu einhver færi og Alisson var kallaður til í einhver skipti, en ekkert til að hafa áhyggjur af, því liðið kemur jú alltaf sterkt inn í seinni hálfleik? Ekki satt?

    Reyndar ekki alveg. Þessi seinni hálfleikur í dag var ekki góður. Liðið skapaði ekkert, Salah var lítið í boltanum, og bara almennt lítið að frétta. West Ham urðu sífellt hættulegri og það reyndi sífellt meira á Alisson sem átti nokkrar vörslur sem voru alveg á pari við að skora. Undir lokin skoruðu svo West Ham eftir að það hafði legið í loftinu, og þetta var afar klaufalegt hjá Virgil og Andy. Wan Bissaka slapp í gegn vinstra megin, átti sendingu inn á teig þar sem Virgil ætlaði að hreinsa boltann en sparkaði honum beint í lappirnar á Robbo og þaðan í netið. Þeir voru báðir alveg brjálaðir, og það sást því skyndilega vorum við aftur komin með liðið sem við þekkjum svo vel. Liðið sem ætlar sér stóra hluti. Það tók líka ekki nema rúmar 2 mínútur fyrir fyrirliðann að kvitta fyrir mistökin þegar hann stangaði hornspyrnu frá MacAllister í netið, og það reyndist sigurmarkið.

    Hverjir stóðu sig vel?

    Hér þarf fyrst og fremst að velja Alisson nokkurn Becker sem mann leiksins. Hann bjargaði okkar mönnum trekk í trekk, og sýndi af hverju hann er bestur í heimi í dag. Þvílíku forréttindin að hafa þennan mann milli stanganna hjá okkur. Macca sýndi líka af hverju hann á heimsmeistaramedalíu. Salah sýndi hvaða gæði hann býr yfir í fyrri hálfleik, en fékk boltann lítið í seinni og merkilegt nokk þá er það oft á tíðum ákveðin forkrafa þegar kemur að því að sóknarmenn sýni hvað í þeim býr. Díaz var líka mjög sprækur, Bradley var líflegur á meðan hann var inná. Quansah kom ágætlega inn í hans stað.

    Hvað hefði mátt betur fara?

    Hér þarf fyrst og fremst að ræða af hverju orkustigið féll svona niður eftir – tja – segjum hálftíma leik, og komst ekki aftur í lag fyrr en eftir jöfnunarmarkið. Slot notaði allar skiptingarnar – samt fengu Elliott og Chiesa ekki mínútu – en það kom lítið út úr þessum skiptingum. Engin ástæða annars til að taka einhvern leikmann sérstaklega fyrir, þetta er meira spurning um holninguna á liðinu í heild sinni.

    Umræðan eftir leik

    Salah hélt upp á nýja samninginn með því að slá enn eitt metið: enginn leikmaður hefur átt aðkomu að fleiri mörkum á 38 leikja tímabili heldur en Salah. Hann er núna kominn í 45 mörk + stoðsendingar, gamla metið var 44 (Henry og Haaland). Og hann á 6 leiki eftir. Þá vantar hann bara 2 mörk til að jafna Thierry Henry varðandi stoðsendingar á einu tímabili, en er auðvitað löngu búinn að skora fleiri mörk en Henry gerði á því tímabili (27 vs. 20 sem Henry skoraði).

    Virgil hélt vonandi upp á nýjan samning með því að skora sigurmark og kyssa merkið í framhaldinu, það þarf bara að tilkynna það.

    Og núna vantar liðið bara 6 stig til að nr. 20 sé tryggður – þessi stig geta annaðhvort komið með því að liðið vinni sér þau inn, eða ef Arsenal tapar stigum, eða sambland af þessu tvennu. Þannig gætu þessi stig t.d. komið í hús um næstu helgi ef Arsenal tapar gegn Ipswich og okkar menn vinna Leicester. En líklega þurfum við að bíða ögn lengur en það. Það er í góðu lagi.

    Hvað er framundan?

    Næsti leikur er á sunnudag eftir viku, kl. 15:30 nánar tiltekið, þá heimsækja okkar menn lánlausa Leicester menn sem þó kræktu í stig um helgina með jafntefli gegn Brighton. Þeir eru þó í þeirri stöðu af ef West Ham vinna Southampton á laugardaginn, og Wolves vinna United á sunnudaginn kl. 13, þá verða þeir fallnir þegar leikurinn hefst eftir viku. Jafntefli í þessum tveim leikjum myndi í raun tryggja fallið sömuleiðis, ekki tölfræðilega samt, en þá þyrftu þeir að vinna upp einhvern 20 marka mun í síðustu 6 leikjum sínum. Raunveruleikinn er auðvitað sá að Leicester munu falla í vor, og Ipswich gera það sjálfsagt líka þrátt fyrir að hafa hirt stig af Chelsea í dag.

    Aðal spennan í deildinni er núna varðandi restina af meistaradeildarsætunum. Ná Forest að hanga í efstu 5? Eru Villa að fara að smeygja sér þar á meðal? Undirrituðum myndi nú ekki leiðast ef City missi af meistaradeildarsæti, og Chelsea mega gera það líka.

    Nóg um það. Eyðum ekki frekari tíma í þessi miðjumoðslið. Einbeitum okkur að stöðunni í deildinni, þar sem okkar menn eru með 13 stiga forystu, og verum þakklát fyrir liðið okkar sem kom sér í þá stöðu.

  • Liðið gegn West Ham – 9 stig eftir

    Svona stillir Slot upp liðinu gegn West Ham núna kl. 13:

    Bekkur: Kelleher, Jaros, Quansah, Robertson, Endo, Szoboszlai, Elliott, Chiesa, Gakpo

    Svolítið áhugavert að Tsimikas byrji en Robbo sé á bekk. Eins er áhugavert að Jones byrji í tíunni en Szoboszlai sé á bekk. Það kemur svo minna á óvart að hvorki Elliott né Chiesa byrji. En það að Nunez sé ekki einusinni á bekk er annaðhvort út af meiðslum/veikindum, eða þá að það eru risa skilaboð um að hann sé að fara í sumar.

    Nóg um það. Í dag þarf að sækja 3 stig, því það er titill sem þarf að vinna.

    KOMASO!!!!!

  • Stelpurnar mæta Chelsea í undanúrslitum bikarsins

    (Rétt að minna á að Ívar er búinn að hita upp fyrir West Ham leikinn)

    Núna kl. 11:15 eru stelpurnar okkar að spila gegn Chelsea á útivelli í undanúrslitum FA bikarsins, en þær unnu sér inn réttinn á að spila í undanúrslitunum með því að sigra Arsenal í síðustu umferð.

    Það þarf ekkert að rifja upp hve ógnarsterkur andstæðingurinn er. Eftir að Sonia Bompastor tók við liðinu síðasta sumar þá hafa þær aðeins tapað einum leik, og það var í útsláttarkeppninni í CL gegn City, í leik sem endaði svo á að skipta engu máli því Chelsea vann seinni leikinn stærra og eru komnar í undanúrslit í CL sömuleiðis. Næsti leikur hjá þeim á eftir þessum bikarleik er einmitt fyrri undanúrslitaleikurinn gegn Barca, en sá leikur fer fram eftir rúma viku svo ekki þurfa þær að horfa eitthvað í leikjaálagið þegar þær ákveða hversu mikil orka fer í leikinn í dag. Það er a.m.k. mjög freistandi fyrir þær að stefna á að vinna fernu á þessu tímabili, ekki verða þær stöðvaðar í deildinni, eru nú þegar búnar að vinna deildarbikarinn, og þá er þetta bara spurning um þessa keppni og CL hjá þeim.

    En okkar konur eru færar um ýmislegt, og það er vert að rifja upp að síðasti tapleikur Chelsea í deild kom 1. maí í fyrra á Prenton Park þegar okkar konur unnu Chelsea 4-3 í ótrúlegum og sveiflukenndum leik. Jafnframt er rétt að rifja upp að þó þær hafi verið ógnarsterkar í vetur, þá hafa komið leikir sem þær hafa ekki unnið: gegn Leicester, Brighton og í síðasta deildarleik fyrir landsleikjahlé þegar þær gerðu jafntefli við Dagnýju Brynjars og félaga í West Ham. Svo það eru möguleikar fyrir hendi, þó okkar konur séu klárlega “underdogs” í þessum leik.

    Hópurinn er að mestu klár, en þó eru tvö forföll eftir landsleikjahléið, því Ceri Holland meiddist í landsleik og verður ekki með í dag en verður vonandi klár í næsta eða þarnæsta leik eftir það. Verri fréttir bárust af Zöru Shaw, en hún ku hafa slitið liðbönd í hné – AFTUR – og er væntanlega að fara að horfa á endurhæfingu næsta árið. Kemur líklega ekki til baka fyrr en haustið 2026. Þetta eru ömurlegar fréttir fyrir þessa efnilegu fótboltakonu, og við skulum sameinast um að senda henni góða strauma. En við fáum smá jákvæðar fréttir í staðinn því Olivia Smith er leikfær og er klár í slaginn í dag, liðið saknaði hennar klárlega í síðasta leik.

    Nóg um það, svona ætlar Amber að stilla þessu upp í dag:

    Laws

    Fisk – Bonner – Evans – Hinds

    Kerr – Nagano – Höbinger

    Smith – Kiernan – Kapocs

    Bekkur: Micah, Kirby, Clark, Parry, Fahey, Matthews, Daniels, Enderby, Roman Haug

    Við sjáum þær Niamh Fahey og Lucy Parry aftur á bekk, nú og svo er þarna markvörðurinn Faye Kirby sem þurfti sjálf að glíma við meiðsli sem tóku hana út í meira en ár. Gaman að sjá að hún er orðin leikhæf, þó við sjáum hana nú tæpast fá mínútur. Lánskonurnar Julia Bartel og Alejandra Bernabé eru ekki með leikheimild því þær eru einmitt í láni frá Chelsea. Semsagt, miðjan er frekar þunn í dag.

    Það verður hægt að fylgjast með leiknum á Youtube rás bikarsins.

    KOMA SVO!!!!!

  • Liverpool-West Ham

    Fréttir gærdagsins setja þennan leik kannski aðeins í annað samhengi og mig langar að gera smá formála áður en ég fjalla um uppstillingar, andstæðinginn og slíkt. Og það má lesa þetta með dramatíska fiðlutóna í bakgrunninum 😎

    Goðsagnir

    Í sögu Liverpool höfum við séð trilljón leikmenn koma og fara. Sumum man maður bara ekkert eftir örfáum árum síðar, annarra minnist maður með hlýju fyrir baráttu og dugnað og bara fyrir að vera næs gaurar en örfáir leikmenn komast á þann stall að vera gosögn í lifanda lífi. Þegar ég byrjaði að fylgjast með sem krakki á níunda áratuginum var liðið alveg hrikalega gott og nánast uppfullt af gosögnum. Það jók líka ofan á dýrkunina að þeir komu til Íslands til að spila við KR árið 1984 þar sem menn voru misljúfir (ehmm…Bruce) við krakkana sem héngu á Hótel Esju til að safna eiginhandaráritunum. En í þeim hópi leikmanna voru t.d. Ian Rush, Kenny Dalglish, Greame Souness, Ronnie Whelan og Phil Neal auk auðvitað snillingsins Bruce Grobbelaar sem heiðraði okkur stuðningsmenn á Íslandi með frábærri nærveru sinni mörgum árum síðar.

    Úr þessum hópi eru a.m.k. tvær óumdeilanlegar goðsagnir, þeir Ian Rush og Kenny Dalglish. Síðan þetta lið lék sér að andstæðingum sínum hafa fáar alvöru goðsagnir klæðst Liverpool-treyjunni enda var gengi liðsins svona um það bil frá 1990-2017 ekkert til að hrópa húrra fyrir, jú, auðvitað Istanbul og eitt og annað skemmtilegt í gegnum árin en aldrei stöðugleiki, hvorki í leikmannamálum né árangri. Á þessu tímabili eignuðumst við þó eina algjöra goðsögn, Steven Gerrard. Við þurfum ekkert að ræða það að frá því að hann kom inn í liðið sem ungur piltur rétt fyrir aldamót og þar til hann yfirgaf félagið gekk á ýmsu, margir misgóðir stjórar og eigendur og hann hefði svo sannarlega átt skilið að ná fleiri titlum en hann gerði. Á þessum tíma komu þó nokkrir ansi frábærir leikmenn til liðsins en stoppuðu stutt við, kannski af því að allt var í steik utan vallar. Ég vil nefna Fernando Torres, Luis Suarez og Xabi Alonso fremsta þar í flokki. Allir voru þeir stutt hjá félaginu en hefðu kannski með lengri tíma og meiri árangri getað komið sér í hóp goðsagna. Því menn þurfa að vera hjá félaginu ansi lengi og vera lengi góðir til að ná þeim status.

    Eftir Gerrard-tímabilið kom Jurgen Klopp og breytti öllu hjá félaginu. Ég held að í framtíðinni verði alltaf litið á komu Klopp sem mikil kaflaskil og upphafið af nýrri stórveldistíð. Á valdatíma Klopp komu margir frábærir leikmenn, Firmino, Mané, Robertson, Fabinho, Alisson, Van Dijk og Salah, svo ekki sé minnst á þá sem komu í lok hans tíma og svo Trent sem kom upp í gegnum unglingastarfið.

    Þegar saga þessa liðs verður skrifuð verða leikmenn eins og Firmino og Mané alltaf mikilvægur hluti. Alisson verður minnst sem eins besta ef ekki allra besta markvarðarins í sögunni, á pari við fyrrnefndan Grobbelaar (sem þó eru ansi skiptar skoðanir um) og sjálfa gosögnina Ray Clemence. Van Dijk er nefndur í sömu setningu og Alan Hansen t.d.

    En einn er sá leikmaður sem verður nefndur í sömu andrá og Kenny Dalglish, Ian Rush og Steven Gerrard. Hann mun leika í 10 ár fyrir félagið, sem er minna en allir þessir, en á þessum 10 árum hefur hann unnið alla titla sem eru í boði, hann hefur slegið hvert metið á fætur öðru og líkur eru á að hann nái öðru sæti yfir mestu markaskorara allra tíma hjá Liverpool. Hann þarf að skora 43 mörk í viðbót til að komast yfir goðsögnina Roger Hunt. Og hann hefur leikið 100 leikjum minna, fer líklega nálægt honum í leikjafjölda ef allt gengur að óskum. Hann er með styttra á milli marka en Ian Rush og Roger Hunt og því þarf hann líklega ekki 100 leiki til að ná Hunt.

    Ég held að allir sem fylgjast með Liverpool ættu að taka sér smá hlé frá stressi yfir því að vinna leikina og njóta þess að horfa á þennan mann spila. Stundum sést hann ekki, það er bara hans stíll. En útsjónarsemin, tæknin, augað, hugmyndirnar…og hann er nú ansi langt frá því að vera einhver baráttujaxl. En Ian Rush sást stundum ekki fyrr en á 87.mínútu, þegar hann skoraði, og svo aftur á 89.mínútu þegar hann skoraði aftur. Mo Salah er besti sóknarmaður Liverpool síðustu 35 árin eða svo. Já ég veit, við elskuðum öll Fowler en sorrý, hann kemst bara ekki með tærnar þar sem Salah hefur hælana. Salah hefur tryggt okkur svo marga sigra, gefið okkur svo mörg ótrúleg móment að maður verður að geta stoppað, andað djúpt og notið þess að horfa á hann spila.

    Ekki síður þess vegna verður yndislegt að njóta vorsins, horfa á Liverpool sigla titlinum heim og sjá Salah leika listir sínar inni á vellinum vitandi það að hann verður í tvö ár í viðbót, við fáum að njóta þess að horfa á hann í tvö ár til viðbótar. Slökum á, njótum, því svona leikmenn eru ekki oft hjá félaginu. Mig langar að taka undir með Red úr kommentum við fréttina um samninginn: ég var heldur ekki tilbúinn að kveðja hann eftir þetta tímabil.

    En þá að leiknum; byrjum á andstæðingnum, West Ham.

    West Ham United

    Félagið sem nú heitir West Ham United var stofnað árið 1895 og hét þá Thames Ironworks FC. Þetta félag var knattspyrnulið járnsmiða og skipasmiða á bökkum Thames, sem skýrir gælunafn þeirra, Hammers og merkið. Liðið tók sér nýtt nafn árið 1900, West Ham United. Allt frá 1904 lék liðið á Upton Park en það fékk glæsilegan leikvang, London Stadium árið 2016. Sá völlur hafði hýst Ólympíuleikana árið 2012.

    Félagið er ekki eitt af risum ensku knattspyrnunnar, enda hafa þeir í gegnum tíðina átt ansi öfluga nágranna. Þeir eiga þó nokkra FA-bikara og unnu Evrópukeppni bikarhafa árið 1964. Sú keppni var með þeim liðum sem unnu bikarkeppnina í sínu landi og var í gamla daga aðskilin frá Meistaradeild, Evrópudeild og Sambands-deild. Þá hétu Evrópukeppnirnar Evrópukeppni meistaraliða, bikarhafa og félagsliða. Einhvern tímann var líka til Borgakeppni Evrópu. En það er önnur saga.

    Félagið hefur flakkað á milli deilda í gegnum áratugina og eru stærsta félagið i austurhluta Lundúna – sem hefur nú oft verið talinn harðari hluti borgarinnar. Enda hafa þeir í gegnum tíðina glímt við fótboltabullukúltúr, einhverjir hafa eflaust séð myndina Green street hooligans. Síðustu árin hafa þeir verið í efri hluta deildarinnar og komust í Evrópukeppni 2021 og 2022 og unnu svo Sambandsdeildina vorið 2023 undir stjórn David Moyes.

    David Moyes var rekinn fyrr á tímabilinu og Graham Potter tók við. Í síðustu fimm leikjum eru þeir með einn sigur, gegn Leicester, jafntefli gegn Everton og Bournemouth og töp gegn Newcastle og Úlfunum. Þeir sitja í 16.sæti deildarinnar fyrir leikinn, með 35 stig. 15 stigum frá fallsæti og eitthvað svipað frá Evrópusæti. Þannig að þeir eru akkúrat ekki að gera neitt í deildinni fram að sumarfríi, restin skiptir þá engu máli. Þeir misstu auðvitað Michael Antonio, líklega sinn besta mann, í hörmulegu bílslysi fyrr á tímabilinu og hann er ekki líklegur til að spila fótbolta aftur á næstunni. Þetta hefur án efa haft mikil áhrif. Þeir eru þó með nokkra skemmtilega leikmenn innanborðs, t.d. Kudus og Bowen. Þeir eru að fara að liggja til baka og reyna skyndisóknir með þeim tveimur og kannski Paqueta.

    Byrjunarliðið þeirra í síðasta leik var svona:

    Areola

    Wan Bissaka – Todibo – Kilman – Scarles

    Alvarez – Ward-Prowse

    Kudus – Soucek – Paquetá

    Bowen

    Kannski hafa þeir Fullkrug uppi á topp sem target-striker gegn okkur. Eins er Scarles þessi harla óþekktur, hann er tvítugur vinstri bakvörður sem er að mestu uppalinn hjá félaginu.

    Liverpool

    Það er svosem lítið að frétta af okkar liði en líklega fá Bradley og Alisson stærra hlutverk en í síðasta leik, gefið hefur verið út að Alisson sé klár og þá spilar hann væntanlega 90 mínútur.

    Eins og Curtis Jones var geggjaður gegn Everton þá var hann heldur tæpur í tapinu gegn Fulham, reyndar eins og flestir leikmenn liðsins. Ef eingöngu ætti að taka mið af þeirri frammistöðu ættu verðandi goðsagnirnar Salah og Van Dijk jafnvel að detta út úr liðinu, hvað þá allir hinir sem spiluðu alveg skelfilega.

    En ég hef grun um að leikurinn gegn Fulham hafi verið blimp – sé ekkert til að hafa áhyggjur af og liðið komi alveg gargandi í leikinn á Anfield. Mo búinn að kvitta og Van Dijk er væntanlegur. Við höfum skorað að vild gegn West Ham og þeir koma skíthræddir í vel stemmdan, sólríkan og hressan Anfield. Liðið verður svona:

    Þetta verður æðislegur leikur, okkar menn fara á kostum og vinna 4-0. Salah skorar tvö og Anfield verður bouncing, syngjandi nafnið hans frá fyrstu mínútu. Njótið!

  • MO SALAH FRAMLENGIR

    Dásamlegar fréttir voru að berast núna í morgunsárið. Liverpool Football club setti út frétt kl. 7 í morgun að Mohammed Salah væri búinn að undirrita nýjan samning við félagið. Flestir helstu miðlar hafa síðan staðfest fréttina.

    Mo Salah signs (af opinberu heimasíðunni)

    Ekki er tekið fram hversu langur samningurinn er (í viðtali kemur fram að líklega eru það tvö ár) en í lauslegri þýðingu segir Mo Salah: “Auðvitað er ég mjög spenntur. Við erum með frábært lið eins og áður. En ég skrifaði undir vegna þess að ég tel okkur hafa góða möguleika á að vinna titla og njóta fótboltans. Þetta er frábært, ég hef átt mín bestu ár hérna. Ég hef spilað hérna í 8 ár og vonandi verða þau tíu. Ég er að njóta lífsins og fótboltans. Þetta eru bestu ár ferilsins. Ég myndi vilja segja við stuðningsmennina að ég er virkilega ánægður hérna. Ég skrifaði undir vegna þess að ég tel okkur geta unnið stóra titla saman. Haldið áfram að styðja okkur og við gerum okkar besta og í framtíðinni getum við vonandi unnið fleiri titla.

    Ég segi bara til hamingju allir stuðningsmenn Liverpool nær og fjær. Mo Salah hefur verið ótrúlegur þjónn fyrir félagið síðastliðin átta ár og það verður hrein dásemd að hafa hann áfram þannig að hann geti slegið fleiri met og unnið fleiri titla með félaginu okkar.

  • Gullkastið – Salah og Van Dijk að semja?

    Annað tap tímabilsins í deildinni um síðustu helgi og löng vika fram að næsta leik fyrir vikið.
    Góðar fréttir af Salah og Van Dijk

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur: SSteinn

    Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.


    MP3: Þáttur 516

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close