Alveg sama hvað gengið hefur á hjá Liverpool undanfarin ár þá höfum við alltaf átt a.m.k. einn leiðtoga sem óumdeilt allur aðdáendahópurinn sem og leikmannahópurinn gat treyst á skilyrðislaust. Sama hversu sterkur andstæðingurinn var þá áttum við alltaf Steven Gerrard, oftar en ekki ekki dugði það til sigurs. Hafi einhver stuðningsmanna Liverpool ekki kunnað að meta framlag og fórnir Gerrard til Liverpool undanfarin 27 ár hafði sá hinn sami alltaf rangt fyrir sér, svo einfalt er það bara.
Meðal goðsagna úr leikmannahópi Liverpool stendur helst King Kenny Dalglish jafnfætis Gerrard en þó á allt annan hátt enda King Kenny ekki uppalinn og ávallt partur af heimsklassa liði. Mikið nær væri að líkja goðsögn Gerrard við sjálfan Billy Liddell sem ávallt hélt tryggð við Liverpool sama á hverju gekk þó hann hafi sjaldan verið að spila með leikmönnum í hans gæðaflokki. Liddell er ennþá minnst meðal hundtryggra stuðninsmanna Liverpool sem hafa haldið goðsögn hans vel á lífi mann fram af manni, vonandi eins og Gerrard verður minnst. Þetta er svona stór goðsögn sem við erum að kveðja.
Við kannski náum því ekki eins vel hér á klakanum hversu mikils virði uppaldir leikmenn eru í augum heimamanna en í Gerrard (sem og Carragher) átti Liverpool ekki aðeins heimsklassa leikmann sem bauðst það bókstaflega að spila með öllum bestu liðum álfunnar heldur einnig stuðningsmann sem hugsar málefni tengd Liverpool ekki ósvipað og óbreyttir stuðningsmenn gera. Slíka leikmenn er ákaflega erfitt að finna í nútíma fótbolta og mögulega verður Gerrard sá síðasti sinnar tegundar. Hver veit nema hann leiki þetta eftir sem þjálfari? Ekki ætla ég að veðja gegn því.
Um helgina er síðasti heimaleikur Gerrard fyrir Liverpool, óhuggnaleg og ótrúleg staðreynd. Þessi leikur skiptir ekki miklu máli nema fyrir einmitt þessa hluta sakir og ætlum við hér á Kop.is að helga fyrirliðanum allri umræðu í kringum þennan síðasta heimaleik og mun hún að minnstu leiti snúast um núverandi tímabil.
Miðar á þessa kveðjustund Gerrard eru að fara á svipuðu ef ekki hærra verði á svarta markaðnum en miðar voru að fara á lokaleikina í fyrra er Liverpool átti séns á titlinum. Ef það segir ekki allt sem segja þarf um álit stuðningsmanna Liverpool á Gerrard þá veit ég ekki hvað þarf til. Þeir sem eiga ársmiða eru fæstir tilbúnir í að láta hann í þetta skiptið.
Fyrsta færslan um Gerrard snýr að uppvaxtarárum hans og þeim tíma er hann vann sig inn í liðið og spilaði undir stjórn Houllier.
Efnilegur
Það kom þeim sem til þekktu innan herbúða Liverpool og í borginni ekkert á óvart er Gerard Houllier gaf Gerrard tækifæri á kostnað Vegard Heggem á lokamínútu leiks Liverpool og Blackburn 29. nóvember árið 1998. Gerrard sem var rúmlega 18 ára á þeim tíma hafði um langt skeið verið langbestur í yngri flokkum Liverpool og aðeins tímaspursmál hvenær hann fengi sénsinn. Það hafði ekki verið eins öruggt að unglingur næði í gegn síðan Fowler og Owen tóku sama skref nokkru áður. Það var ekki vitað þá en Gerrard varð sá síðasti sem kom upp úr unglingastarfi Liverpool í verulega langan tíma en árin á undan hafði unglingastarfið skilað af sér mörgum leikmönnum í byrjunarliðið. Það leið rúmlega áratugur þar til næst kom nothæfur leikmaður úr akademíu Liverpool en á móti var Gerrad sá besti af þeim öllum. Hann er og líklega verður langbesti uppaldi leikmaður í sögu Liverpool.
Höfum þó í huga að Michael Owen sem einnig er uppalinn og ári eldri en Gerrard er eini leikmaður Liverpool sem valinn hefur verið knattspyrnumaður Evrópu og ásamt þeim voru t.a.m. Fowler, McManaman og Carragher í liði Liverpool þegar Gerrard hóf sinn feril. Auk þeirra voru í hópi Liverpool þeir Rob Jones, Matteo, Thompson, Murphy og Redknapp sem allir teljast nánast uppaldir, áttu a.m.k. ekki meistaraflokksleik í efstu deild annarsstaðar áður.
Gerrard er fæddur og uppalinn í Whiston á Merseyside og vakti fyrst athygli útsendara Liverpool er hann var átta ára gamall og langbestur í sínu skólaliði. Hann gekk til liðs við akademíu Liverpool níu ára en hélt þó áfram að spila fyrir Whiston líka þar til hann varð 12 ára. Pabbi eins af samherjum hans þar hélt utan um alla fréttaumfjöllun og video upptökur frá þessum tíma og var það eiginlega ósanngjarnt að leyfa Gerrard að vera með.
12 ára fór hann alveg yfir í akademíu Liverpool og duldist engum þar hvurslags leikmann þeir hefðu í höndunum. Steve Heighway, yfirmaður akademíunnar skrifaði reglulega pistla um unglingastarfið í Liverpool Echo og sparaði ekkert stóru orðin er hann talaði um Steven Gerrard.
A newspaper article from 1992 on a young Steven Gerrard. pic.twitter.com/4KjPrnyPSR
— 90s Football (@90sfootball) March 30, 2015
Á þessum árum var Gerrard svipað stór og Owen en er hann náði 14 ára aldri fór hann að stækka mjög hratt og háðu verkir því tengdir honum næstu 2 árin. Gerrard vildi fá ungliðasamning hjá Liverpool eftir því sem hann sagði í ævisögu sinni árið 2006 og fór m.a. á reynslu til Man Utd til að þrýsta á Liverpool. Sagan hefði því svo sannarlega getað verið örðuvísi enda Gerrard stuðningsmaður Everton fyrstu ár ævinnar þó hann hafi fljótlega þroskast upp úr þeirri vitleysu.
Liverpool vissi vel af hæfileikum Gerrard og hann fékk samning 14 ára. Þremur árum seinna skrifaði hann undir sinn fyrsta atvinnumannasamning við Liverpool, átta árum eftir að hann kom fyrst á radar félagsins.
Melwood var töluvert frábrugðið og opnara árið 1997 en það er í dag og rifjaði blaðamaður Mirror upp skemmtilega sögu af einum af fyrstu æfingum Gerrard í aðalliðinu. Roy Evans var stjóri þá og Ronnie Moran hans hægri hönd.
Fóstbræðurnir McManaman og Fowler komu þá skellihlæjandi úr hádegi og stríddu fyrirliða félagsins, Paul Ince látlaust vegna atburða morgunsins. Ince var þarna nýkominn frá Inter Milan, var fyrirliði liðsins og eitt mesta ego á jarðríki, sem hann virðist reyndar vera ennþá.
Unglingaliðið hafði verið að æfa með aðalliðinu og var stillt upp eins og andstæðingurinn var talinn koma til með að spila í leik helgarinnar. Þessi uppstilling setti Ince á móti 17 ára Steven Gerrard.
Unglingarnir báru eðlilga virðingu fyrir leikmönnum aðalliðsins og áttu jafnan í basli með að aðlagast. Gerrard var ekki alveg þannig og fór í hressilega og eflaust illa tímasetta tæklingu á fyrirliða félagsins sem lá eftir og öskraði fúkyrðum á leikmanninn unga sem stóð yfir honum. Æfingin stoppaði og allir horfðu á þessa rimmu, Ince eflaust líklegur til að drepa krakkaandskotann.
Gerrard hafði ekki beint áhyggjur af þessu, horfði niður á Ince og svaraði fullum hálsi að hætti heimamanna að hann ætti að hætta að grenja eins og barn og reyna frekar að venjast þessu enda myndi hann slá hann fljótlega úr liðinu hvort eð er. Þögn á mannskapinn þar til Ince trompaðist.
Sagan segir að Moran sem líklega hefði getað étið báða lifandi stöðvaði æfinguna og sendi alla í klefann. Enginn var að trúa hverju þeir hefðu orðið vitni af en Fowler og McManaman sáu til þess að enginn gleymdi þessu í bráð, sérstaklega ekki Ince.
Hvort þetta var það sem kynnti Gerrard til leik hjá aðalliði Liverpool fylgir ekki sögunni þó Ince hafi orðað þetta þannig seinna, en það duldist líklega fáum að hann vær mættur og skít sama við hvern hann var að eiga við. Hæfileikar hans voru öllum ljósir frá fyrstu æfingu. Evans og hans starfslið vissi að Gerrard hefði nægan hroka og sjálfstraust til að fara alla leið.
Gerrard hætti svosem ekkert að pirra Ince þarna
Gerrard hafði eins og áður segir gengið í gegnum erfiða vaxtaverki er hann var 14-16 ára og var kannski þess vegna aldrei valinn í unglingalandslið Englendinga eða í æfingahóp sem æfði í Lilleshall landsliðs æfingabúðunum. Carragher, Owen og aðrir vinir hans hjá Liverpool voru valdir í þennan hóp en aldrei fékk Gerrard kallið. Hann var ekkert að fara í fýlu yfir þessu, það var mikið frekar að þetta gerði hann hissa og reiðan enda vissi hann mætavel að hann væri nógu góður. Þegar hann var 14-15 ára fékk hann kjörið tækifæri til að sanna það. U15 lið Liverpool fékk U15 ára lið Lilleshall landsúrvalsins í æfingaleik á Melwood. Michael Owen markavél Liverpool liðsins var í Lilleshall í þessum tíma og Liverpool liðið því ennþá veikara.
Gerrard tók þessum leik persónulega og gekk frá manninum sem var í hans stöðu hjá landsúrvalinu, sá heitir Kenny Lunt og var hjá margrómaðri akademíu Crewe. Liverpool (án Owen) vann leikinn 2-1, niðurlæging fyrir landsúrvalið og engin verðlaun fyrir að giska á mann leiksins þann daginn. Mögulega útskýrir val á Kenny Lunt fram yfir Gerrard eitthvað árangur Englendinga í landsliðafótbolta undanfarin 49 ár?
Evans sagði þetta seinna um Gerrard á þessum árum:
“The coaches knew he had the right attitude more than anything else. They saw the steel of a top player that marked him out,”
Gerrard var kannski vanmetinn á landsvísu en í Liverpool borg vissu allir að félagið ætti gullmola sem væri aðeins tímaspursmál hvenær fengi sénsinn. Hann varð seinna fyrirliði U18 ára landsliðsins og hefur verið lykilmaður í öllum landsliðum Englands síðan.
Fyrstu árin í aðalliði Liverpool
Houllier setti Gerrard inná fyrir Heggem og spilaði hann nokkra leiki sem hægri bakvörður. Næsta leik á eftir byrjaði Gerrard inná í hægri bakverðinum og fékk það hlutverk að dekka David Ginola, einn al besta leikmann deildarinnar á þeim tíma. Það var því ekki furða að Gerrard hafi ekki liðið vel og fundist hann vera stressaður og úr stöðu.
Blessunarlega fyrir Gerrard var Redknapp þarna lykilmaður Liverpool og hann meiddist að sjálfsögðu nógu reglulega til að Gerrard fengi nokkra leiki á miðjunni og eins spilaði hann aðeins á hægri kantinum í 4-4-2 kerfi Houllier. Fyrsta tímabilið var þó nokkuð tíðindalítið enda 18 ára strákur þarna að stíga sín fyrstu skref í liði sem var verið að móta.
Houllier hugsaði Gerrard sem lykilmann frá byrjun tímabilið á eftir (1999/2000) og spilaði honum í þeirri stöðu sem hentaði best hverju sinni. Félagið var þarna búið að kaupa Hamann inn fyrir Ince og fór hann aftast á miðjuna. Enginn miðjumaður hefur spilað oftar með Gerrard hjá Liverpool heldur en Þjóðverjinn trausti eða 132 leiki. Framar á miðjunni voru þeir Danny Murphy og Jamie Redknapp sem var auðvitað alltaf meiddur. Gerrard leysti hann því oft af ásamt því að hann og Thompson voru oftar en ekki á vængjunum enda McManaman þarna nýfarinn.
Það helsta sem er eftirminnilegt við þetta tímabil hjá Gerrard er þó þegar hann kom inn af bekknum fyrir Fowler gegn erkifjendunum í Everton og fékk rautt stuttu seinna. Þriðja rauða spjaldið í þeim leik eftir að Westerveld og Jeffers fuku útaf fyrr í leiknum, Steve Staunton fór í markið.
Gerrard skoraði sitt fyrsta deildarmark þetta tímabil gegn Sheffield Wednesday en átti í töluvert miklum meiðslum sem hrjáðu hann allt tímabilið. Hann var veikur í baki sem var talið vera vegna vaxtakippsins sem hann tók á mjög skömmum tíma sem unglingur og eins vegna mikils spilatíma upp alla yngri flokka. Seinna á tímabilinu fór nárinn að segja til sín og þurfti hann á endanum fjórar aðgerðir til að laga það vandamál.
Hann náði þó 29 deildarleikjum í heildina og festi sig ágætlega í sessi þó hann hafi spilað víða og þá helst allar stöðurnar á miðjunni.
Tímabilið 2000/01
Fyrsta fulla tímabil Gerrard ef svo má segja var strax eftir aldamótin er hann spilaði 50 leiki í öllum keppnum og fór að lyfta bikurum. Hann spilaði á miðjunni, helst með Hamann og/eða Murphy ásamt því að McAllister og Nick Barmby bættust við hópinn. Redknapp var alltaf meiddur sem hjálpaði Gerrard. Eftir að Houllier var búinn að gefa honum leikreynslu á hægri vængnum og í bakverði fór hann að gefa honum tækifæri sem varnartengiliður í passívu liði Frakkans. Með aukinni leikreynslu fór hann að treysta Gerrard fyrir meiri ábyrgð og þróaðist hann seinni ár Houllier í box-to-box miðjumanninn sem marga dreymir um í dag og hélt því hlutverki út stjóratíð Houllier. Eftir því sem leið á tímabilið 2000/01 festi miðjan sig í sessi sem Hamann aftastur, Gerrard við hlið hans með leyfi til að taka þátt í sóknarleiknum og McAllister (Murphy eða Barmby) þar fyrir framan. McAllister 36 ára þakkar líklega gríðarlega kraftmiklum og ungum Gerrard fyrir að lengja ferilinn því það var Gerrard sem vann mest alla skítavinnuna fyrir Skotann.
Þetta tímabil 2000/01 voru það frekar menn eins og Owen og McAllister sem fengu alla athyglina og er minnst sem hetjanna en Gerrard spilaði 50 leiki, skoraði 10 mörk, var valinn besti ungi leikmaður tímabilsins og var í fyrsta skipti valinn í landsliðið. Liverpool vann allar bikarkeppnirnar sem í boði voru (þ.á.m. UEFA Cup) og enduðu í 3. sæti sem gaf þátttökurétt í Meistaradeildinni. Aldrei þessu vant átti Gerrard ekki stóru momentin þetta árið en framlag hans þetta ár hefur líklega verið stórlega vanmetið eftir því sem árin líða.
Hann fékk þarna alvöru reynslu af stórleikjum í Evrópu því að á leiðinni í úrslit sló Liverpool út bæði Roma og Barcelona. Bæði lið sem Gerrard átti eftir að mæta aftur.
Houllier var kominn með mann sem hann gat byggt liðið í kringum og hann vissi það. Þetta var þó ekkert eins manns lið frekar en nokkurt knattspyrnulið er nokkurntíma. Hryggsúlan var mjög góð með Hyypia og Henchoz aftast og nánast aldrei meidda, Carragher var með þeim aftast í öðrum hvorum bakverðinum og Babbel/Ziege í hinum. Fyrir framan var Ditemar Hamann landsliðsmaður Þjóðverja sem spilaði til úrslita á HM árið eftir. Fyrir framan voru Owen (Knattspyrnumaður Evrópu), Fowler (Guð) og t.d. Jari Litmanen sem þó fékk lítið að spila. Gerrard var einn af bestu leikmönnum Liverpool en hélt ekkert á því einn síns liðs eins og sumar söguskýringar segja, það er bull og gerir lítið úr samherjum hans sem margir hverjir voru góðir og þjónuðu félaginu mjög vel.
2001/02
Ekki þurfti að versla neitt á miðjuna sumarið á eftir og Liverpool gerði atlögu að titlinum undir lok tímabilsins í fyrsta skipti í nokkur ár en varð undir gegn sjóðandi heitu Arsenal liði. Liverpool vann þó bæði góðgerðarskjöldinn og meistarar meistaranna í Evrópu áður en deildarbikarnum var landað eftir 2-0 sigur á Man Utd í úrslitum þar sem Gerrard skoraði fyrsta markið.
Houllier vissi hvað hann var með í höndunum þarna og gerði Gerrard að varafyrirliða á eftir Hyypia sem tekið hafði við bandinu af Redknapp og Fowler sem hafði verið hans varafyrirliði.
Það var þó ekki deildin sem stóð upp úr þetta tímabilið því Liverpool bjó að sigri sínum í Evrópu tímabilið á undan er kom að þáttöku í Meistaradeildinni. Liðið vann fyrri riðil sinn sannfærandi en seinni riðillinn var æsispennandi. Houllier hafði fengið hjartaáfall á fyrri hluta tímabilsins en sneri aftur fyrir mikilvægan leik gegn Roma sem varð að vinnast 2-0 til að Liverpool kæmist áfram.
Það tókst og Houllier sneri aftur að fullu og gerði í næstu umferð ein eftirminnilegustu mistök sem stjóri Liverpool hefur gert í þessari annars ágætu keppni. Liverpool vann Leverkusen á Anfield 1-0 og var í góðum málum eftir klukkutíma í Þýskaland með útivallarkark og forystu í stöðunni 1-1. Þá tekur Houllier Ditemar Hamann útaf og setur Smicer inná. Ég horfði á þennan leik á litlum bar í Bournemouth man ég og öskraði á ca. 14″ stóran sjónvarpsskjáinn. Leverkusen með Ballack fremstan í flokki gekk á lagið og komst í 3-1 áður en Litmanen skoraði 3-2, úrslit sem hefðu dugað Liverpool. Þeir náðu enn á ný að klúðra því og töpuðu 4-2 í ótrúlegum leik. United beið í næstu umferð og eftir það fór Leverkusen í úrslit.
Ég er ennþá jafn pirraður yfir þessari yfirnáttúrulega heimskulegu skiptingu og ég var á 61.mínútu í þessum leik. Skv. ævisögu Hamann er hann það líka. Þarna glataði Liverpool dauðafæri á því að komast langt í Meistaradeildinni og var með lið til að fara alla leið. Efasemdir fóru að vakna með stjórann.
Lokaár Houllier
Houllier fylgdi atlögu að titlinum og ágætum árangri í Meistaradeildinni hroðalega eftir á leikmannamarkaðnum 2002 og keypti bara þá sem stóðu sig vel á HM. Liðið endaði mótið í 5. sæti sem voru gríðarleg vonbrigði en Gerrard var áfram besti leikmaður liðsins ásamt Owen. Hann spilaði 54 leiki og þegar illa gekk fékk Houllier Hyypia til að gefa eftir fyrirliðabandið hjá Liverpool. Röðin var komin að hinum 23 ára Gerrard sem hefur borið það síðan.
Deildin var ótrúleg, liðið byrjaði á því að tapa ekki leik í fyrstu 12 leikjum tímabilsins, 9 sigrar. Eftir það ofan í hræðilega frammistöðu í Meistaradeildinni vann liðið ekki deildarleik næstu 11 umferðir á eftir. Þarna fóru hnífarnir á loft og beindust að Houlllier sem náði aldrei að bjarga sér eftir þetta. Liðið endaði hræðilegt tímabilið í 5. sæti.
Þó deildin hafi verið vonbrigði toppaði Meistaradeildin það hressilega. Liverpool komst ekki upp úr sínum riðli þar sem liðið réð ekki við það að vinna Basel í hreinum úrslitaleik (hljómar kunnuglega), staðan var orðin 3-0 fyrir Basel eftir hálftíma en okkar menn komu til baka og jöfnuðu sem þó dugði ekki til. Helvítis Basel.
Þess í stað fór Liverpool í UEFA Cup aftur og var slegið út af vinafélaginu sjálfu frá Skotlandi, Celtic í 8-liða úrslitum.
Sumarið eftir keypti Houllier Harry Kewell ásamt Le Tallec og Pongolle en hópurinn var ekkert styrktur milli ára. Frakkinn kom þó Liverpool aftur í Meistaradeildina árið eftir en það var löngu komin gríðarleg þreyta með hann meðal stuðningsmanna og leikstíll liðsins var alls ekki spennandi. Gerrard var fyrirliði liðsins og besti leikmaður en hafði ekki náð að springa almennilega út. Ef eitthvað er var það Owen sem fékk alla athyglina.
Houllier var rekinn eftir tímabilið og setti það framtíð Gerrard í töluverða óvissu. Hann hafði mikið álit á Houllier, fékk sénsinn og lærði mikið undir hans stjórn ásamt því að hann fékk að spila þá stöðu sem hann telur henta sér best. Sumarið 2004 hefur svolítið fallið í skuggann á sumrinu 2005 því Gerrard var mjög eftirsóttur þá líka og óttuðust margir að hann færi líkt og Michael Owen vinur hans gerði.
Næsti stjóri gerði það að sínu fyrsta verki að sannfæra hann um að vera áfram en keypti strax í kjölfarið mann í stöðuna sem Gerrard spilaði og færði fyrirliðann framar.
Fyrirliðinn sprakk endanlega út í kjölfarið og varð að þeim leikmanni sem er svo erfitt að kveðja núna.
Farið verður yfir þann kafla í pistli morgundagsins.
Það þarf varla að taka það fram að hér er Steven Gerrard til umræðu og uppvaxtarár hans hjá Liverpool. Síðasta færsla er fínn vettvangur fyrir umræðu um málefni dagsins í dag hjá okkar mönnum.
Eyþór og Maggi koma svo næstu tvo daga með pistla um restina af ferlinum hjá Liverpool áður en við tökum allir saman okkar eftirminnilegustu augnablik og minningar.
Nú verður tekinn frá tími fyrir svefninn næstu daga.
Hlakka til að lesa pistlana ykkar um þessa eðalhetju.
Hann á eftir að gefa klúbbnum ennþá meira um ókomna framtíð því í svona manni býr hinn sanni Liverpool andi og hann mun halda áfram að smita þeim anda til upprennandi kynslóða.
Klúbburinn lifir gegnum svona legends … King Kenny -> Gerrard …
YNWA
Frábær pistill og ég hlakka til að lesa næstu…þegar maður hugsar til Houllier tímans þá rifjast upp hversu gott lið við vorum í raun með enda komu margar dollur í hús og enski titillinn var hársbreidd frá okkur. Ef blessaður Houllier hefði ekki fengið hjartaáfallið þá er spurning hvað hefði orðið. En fókusinn núna á Gerrard…söknuðurinn verður massa mikill. Ég held svei mér þá að ég fari bara líka að fylgjast með norður ameríska tuðrusparkinu.
Takk fyrir strákar að gleðja okkur með þessum pistlum.
GERRARD!
Algjör meistari. Hugarfar hans er magnað og hafa séð hann og Suarez (m/sama hugarf.) spila saman er bara snildin ein.
Ég held að menn hafi ekki gert sér það ljóst hvað salan á Suarez myndi hafa á Gerrard. Þegar Suarez kom kveiknaði sigurneistinn svo sannarlega hjá Gerrard en slökknaði jafn fljótt aftur þegar hann var seldur því hann sá von um meistaratitilinn hverfa með honum.
Það var þess vegna sem ég vildi að Tevez hefði verið fengin til liðsinns meðan við fynndum framtíðar framherja því hann hefur þetta sama hugarfar og Gerrard og Suarez.
Bókin um Steven Gerrard sem var auglýst hér á Kop.is þarf nú aldeilis að vera góð til að standast samanburð hér! Takk Babú.
Vel gert. Ég held við gerum okkur ekki nógu vel grein fyrir því hversu mikill konungur Liverpool er í þann mund að yfirgefa félagið. Þessir pistlar munu hjálpa til við það.