Tvöfalt eða ekkert

Þetta sumar virðist ætla að bjóða upp á fordæmalausa stöðu knattspyrnustjóra Liverpool. Ég veit að minnsta kosti ekki til þess að annar stjóri hafi verið í þeirri stöðu sem Brendan Rodgers mun finna sig í við upphaf komandi leiktíðar.

Síðasta vika var óvænt. Ég hef tíundað mínar skoðanir á Rodgers áður, bæði í rituðu máli og í podcöstum. Í stuttu máli fannst mér að hann ætti að missa vinnuna eftir nýafstaðið tímabil. Ef Liverpool er félag með metnað á knattspyrnustjórinn ekki að halda vinnunni eftir svona tímabil, og síst af öllu eftir svona lok á tímabili, sama hvað hann heitir. Mér líkar vel við Rodgers, tilheyri ekki þeim hópi sem þolir varla að heyra á hann minnst og froðufellir ef það sér myndir af honum (nóg af slíku fólki á Twitter þessa dagana) en það breytir engu. Hann átti að missa starfið eftir þetta tímabil, að mínu mati.

Það gerðist þó ekki. Síðasta vika var óvænt að því leyti að ekki aðeins hélt Rodgers vinnunni (um sinn) heldur virðist hafa verið ráðist í breytingar allt í kringum hann. Aðstoðarmaður hans, vinurinn Colin Pascoe sem hefur verið við hlið hans allan ferilinn, fékk að fjúka sem og aðalliðsþjálfarinn Mike Marsh. Enn eru aðrir þjálfarar í óvissu auk þess sem orðrómur um brotthvarf Ian Ayre úr stöðu framkvæmdarstjóra klúbbsins neitar að deyja út.

En Rodgers tórir. Og eins vel og mér líkar við kauða þá verð ég að viðurkenna að ég sé það ekki enda vel.

Við verðum að sjá hvernig sumarið lendir – hverjir koma/fara í leikmannahópi, hvaða þjálfara Rodgers fær til liðs við sig og svo framvegis – áður en við fellum stóran dóm. En eitt virðist vera ljóst: FSG hafa í raun og veru “dobblað” veðmálið sem þeir tóku að sér fyrir þremur árum. Þeir eru í raun að segja, “Rodgers er sérstakur, það býr winner þarna inni, double or nothing.”

Ég man ekki eftir að knattspyrnustjóri Liverpool hafi verið í slíkri stöðu. Þegar keppni hefst á nýjan leik í ágúst verður nýtt þjálfarateymi við hlið Rodgers, skari nýrra leikmanna á vellinum og á bekknum og jafnvel nýr framkvæmdarstjóri í VIP-stúkunni fyrir ofan hann. Og þolinmæðin verður nákvæmlega engin.

Ég bíð rólegur, sé ekki ástæðu til að æsa mig yfir “ástandinu” á hverjum degi í sumar. Ég get engu breytt þannig að ég ætla að leyfa dómínókubbunum að falla áður en ég skoða heildarmyndina við upphaf tímabilsins. En sú pressa sem yfirstandandi breytingar virðast ætla að hlaða á knattspyrnustjórann er að mínu mati að gera honum nær ómögulegt að ná árangri.

Mér líkar vel við Brendan Rodgers. Ég hefði skipt um stjóra ef ég hefði ráðið málum en hann er enn knattspyrnustjóri Liverpool og ég vona að hann geti snúið genginu við strax í ágúst. Það væri frábært ef við gætum hlegið að Hysteríusumrinu Mikla 2015 eftir ár, hrist hausinn yfir hvað við vorum öll móðursjúk þegar það reyndist engin þörf á að hafa áhyggjur af Rodgers eða FSG. Ég vona innilega að það rætist.

Ég er bara hræddur um að það sé til allt of mikils ætlast af Rodgers að leggja þetta allt á hans axlir. Ég sé ekki hvernig hann snýr gengi liðsins, spilamennsku flestra leikmanna, lægð yfir klúbbnum, almenningsáliti og löngu hnífunum, öllu þessu í rétta átt. Þetta er of mikið, of langt gengið. Ég er nánast reiðubúinn að veðja háum upphæðum að hann verður ekki stjóri Liverpool við lok komandi tímabils.

“Brendan Rodgers er einstakur knattspyrnustjóri, tvöfalt eða ekkert.” Þvílíkt veðmál hjá FSG. Vonandi drógu þeir rétt spil úr bunkanum. Það er allt undir.

26 Comments

  1. Við skulum orða þetta þannig: ég vona að Klopp verði ennþá á lausu þegar/ef þeir átta sig á því að Rodgers verði að fara.

    Ég er annars á sömu skoðun og Kristján Atli: ég kann vel við BR, og vona innilega að hann nái að snúa genginu við. Er samt alltaf að verða smeykari og smeykari um að hann nái því ekki.

    Mér finnst samt að hann eigi að fá séns að reyna sig án þess að vera með menn eins og Carra og Gerrard á bakinu eins og hann hefur haft síðastliðin 3 ár, þ.e. “gamla hunda” sem eru mun tengdari klúbbnum heldur en hann sjálfur. Hættan er sú að nú þegar hann er loksins laus við þá pressu, þá komi þessi nýja pressa í staðinn.

  2. Kristján Atli hittir naglann þvílíkt á kollinn. Brendan var kominn út á plankann við lok tímabils og er þar enn, meira að segja með annan fótinn á lofti. Og miðað við pressuna verður ekki létt að halda jafnvægi og stýra skútunni í höfn. Þetta eru í raun spennandi tímar, þó þeir reyni á þolrifin. En mikið vona ég að þessi stefna FSG gangi upp og að við fáum að sjá mikið af Colgate brosi Brendan á komandi leiktíð.

  3. Það er magnað að Brendan skuli enn vera stjóri okkar sögufræga liðs. Þar er ég sammála Kristjáni Atla. Sögur heyrðust um að R. Sterling væri til í að vera áfram ef Brendan færi. Eigi er það ólíklegt ef satt var að hann væri búinn að missa klefann eins og það er orðað. Hann virðist hafa farið í það að kaupa sér nýjan ódýran klefa en fór svo bara í frí enda búið að ráða manninn alla vega til áramóta að líkindum.

    Ég hef enga trú á að Brendan kallinn muni breyta skitunni sinni í bragðgóðan súkkulaðibúðing með þeim mannakaupum sem orðin eru. Vonandi bætir hann stórum nöfnum við hópinn og hættir að tína upp vonarpening úr neðri hluta deildarinnar og neðri deildunum. Tröllið Benteke er að mínu viti meira og minna örkumlaður hverja leiktíð og deila má um hæfileika hans til að spila Brendanskan bolta. Læt nótt sem nemur í bili um þetta allt.

  4. Ég held Brendan hafi fengið 6 mánaða frest nýlega, eftir tilkynningu frá umboðsmanni Klopp. Kannski óskhyggja.

  5. Það er nú meira hvað þér líkar við Rodgers! Minnist á þessa ást þína á manninum amk þrisvar sinnum. Get a room. 🙂

    Líkar ekkert sérstaklega við hann. Hvað er það sem manni á að líka við og hvað ekki? En stórefast um að hann bæti eitthvað árangurinn á næsta tímabili.

  6. Hann hefur sýnt fram á það að hann hafi burði til að ná öðru sæti ef hann er með rétta mannskapinn og liðið náði að komast á skrið í vetur en missti dampinn eftir síðari leikinn gegn Man Und. Reyndar byrjaði og endaði flugið hjá okkar mönnum í leikjunum gegn Man Und.

    Ef liðið fær framherja upp á 15-20 mörk og Sturridge skilar sínu – þá lýtur þetta lið allt öðruvísi út næsta vetur. Því að vörnin er núna í raun betri en þegar við náðum öðru sætinu og því full ástæða að hafa trú á því að við gætum náð árangri í vetur ef rétt er haldið á spilunum.

    Ég held að barátta um titil sé óraunhæft markmið en barátta um að komast í meistaradeildarsæti er vel í myndinni. Allavega yrði ég sáttur ef við næðum Vengerbikarnum í ár. Allt annað væri plús.

  7. Ég hef trú á Rodgers og Liverpool.
    Mér fannst hann flottur hjá Swansea, mér fannst hann flottur þegar hann stýrði okkur í 2.sætið(pælið í því liðið var einu Steven Gerrard að standa í fæturnar frá því að verða meistara og þá væri hann líklega með ævilangan samning) og þótt að ég var ósáttur við síðasta tímabil þá held ég að hann setur það í reynslubankan.
    Mér fannst ekki að það átti að reka kappan og mér fansnt að hann ætti að fá næsta tímabil til þess að rétta við skútuni ef við verðum í einhverju miðjumoði um áramótinn þá er hans tími liðinn en ég tel að svo sé ekki og að við verðum í góðum málum á næsta tímabili og verðum að berjast um meistaradeildarsæti af fullum krafti.

  8. Sælir miklu meistarar, afsakið off topic umræðuna. Ég er staddur rétt fyrir utan Torreveja svæðið og dauðlangar að horfa á landsleikinn á morgunn. Vitið þið hvort einhverjir Íslendingar ætla að hittast og horfa á leikinn ? Verður hann sýndur á einhverri opinni íþróttastöð ?

    kv. Kallinn

  9. Sælir allir.

    Ég ætla að fá að vera ósammála Kristjáni Atla um að reka hefði átt Brendan Rogers. Rösktyð með eftirfarandi hætti:

    1. Veit að það kannski klisja að segja að við séum ekki svona klúbbur sem rekur stjórann þegar ekki gengur vel. Það er kannski einhver mantra sem ekki á sér stoð í raunveruleikanum. Auðvitað á það rétt á sér stundum en að mínu viti er það alltof billeg lausn.

    En getur einhvern bent mér á félag á Englandi eða í Evrópu sem hefur náð árangri með því að skipta um stjóra á 1-3 ára fresti stöðugt ?

    Þá frábið ég mér að bent sé á félög eins og Chelski, ManCity, Real og Barca sem geta hugsanlega leyft sér það vegna þess að þau eiga svo mikla peninga svo geta keypt til alla þá leikmenn sem hugurinn girnist sem gera öll stjóraskipti auðveldari.

    „Lets face it“ Liverpool hefur ekki þessa peninga og því verður að beita öðrum leiðum til að ná árangri. Það er erfitt og kannski er það ekki lengur hægt þar sem peningar eru í dag alfa og omega þess að ná árangri.

    Við komust þó skrambi nálagt því í fyrra. Kannski mun aldrei gerast aftur nema það komi einhver „Sugerdaddy“ og kaupi félagið. Sjálfur er ég ekki spenntur fyrir því. Er miklu spenntari fyrir þeirri nálgun sem FSG hefur.

    2. Sumarkaup. Ég veit ekki hvað Rogers hefur mikla stjórn á þeim en mín tilfinning er sú að menn geri of mikið úr þessari blessaðri nefnd, held að hann hafi alltaf lokaorðið. Hún sé meira svona til að bakka hann upp og vera svona „betur sjá augu en auga“. Hvort þetta er vont eða gott fyrirkomuleg hef ekki hugmynd um og enga forsendur til að meta.

    Með þessu er ég auðvitað segja að Rodgers ber ábyrgð á kaupunum og verður að standa og falla með þeim.

    Sagan sýnir okkur að það er ekki alltaf heillavænlegt fyrir félög að fá fullar fúlgur fjár og eiga að eyða þeim öllum skynsamlega og sennilega tókst það ekki hjá Rodgers. En ég skil hvað hann var að pæla.

    Stækka hópinn verulega. Við komust í gegnum veturinn 2013-2014 á fáranlega þunnum hóp vegna þess að við vorum bara svo að segja í einni keppni. Það var allveg ljóst að það tækist ekki aftur og vera að spila í Meistaradeildinni. Þannig að það varð að kaupa magn. Af sjálfu leiðir að þá verður kaupa að meðaltali ódýrari leikmenn.

    Kannski liggja mistökinn í því hjá Rodgers að hann einblíndi of mikið á unga og ódýrari, en efnilega leikmenn sem gætu orðið snilldarkaup ef þau ganga upp. Og plúsinn er að þú ert kannski að byggja upp öflugan hóp til margra ára.

    Undir þessi kaup má fella Markovic, Can og Moreno. Ég tel reyndar að það sé langt í frá fullreynt með nokkurn þeirra. Can sýndi alla vega takta í vetur sem lofa góðu, en þá má hann auðvitað alls ekki vera bakvörður. Origi er í þessum hóp, en látum hann liggja á milli hluta að svo stöddu.

    Svo keypti hann líka menn sem væntanlega áttu að vera „tilbúnir“. Lallana, Lovren og Lambert. Ég trúi ekki öðru en að minnsta 95% allra Liverpoolmanna hafi verið sáttir við kaupin á Lallana og Lovren. Leikmenn sem áttu frábært tímabil með góðu úrvalsdeildarliði. Lambert var svo meira svona „aukakaup“ líkt og þegar maður fer og kaupir sér gallabuxur og grípur sokkarpar í leiðinni. Var örugglega bara hugsaður svona sem uppfylling og væri hægt að henda inná í vissum leikjum. Átti örugglega ekki að vera neinn burðarás.

    Svo er það sérkaflinn Balotelli. Ég hristi hausinn þegar fyrsta slúðrið byrjaði um að hann væri á leið í Liverpolo og hugsaði með mér að þetta væri akkúrat ekki týpan af leikmanni sem Rodgers myndi kaupa. Latur og hyskinn. Svo þegar búið var að kaupa hann náði maður á einhvern óskiljanlegan hátt að sætta sig við í hausnum að þetta væri kannski bara góður díll. En eins og við vitum þá kom annað á daginn. Fyrir kaupinn á Balotelli fær Rodgers stóran mínus í kladdann.

    Að mínu viti eru þetta mestu mistök Rodgers í sumarkaupum hafa ekki fengið einn striker til viðbótar eða alvöru striker í stað Balotelli vitandi meiðslasögu Sturridge í gegnum tíðina. Skil ekki allveg afhverju Remy var ekki bara líka keyptur miðað við verðið á honum. Kannski er þetta Borini að kenna með því að neita að fara til Sunderland. Þeir voru tilbúinir að henda 12 milljónum punda í kappann og kannski hefði með þeim aurum mátt kaupa alvöru striker ?

    Svo ég dragi þetta aðeins saman þá er það mín skoðun að sumarkaupin hafi að mestu verið skynsamlega hugsuð og útfærð. Nokkra unga leikmenn (allir efnilegir og á radarnum hjá fleiri liðum en Liverpool), nokkra reynda menn sem áttu að vera tilbúnir. En ég ítreka að í strikermálum þá gerði Rodgers uppá bak.

    Til varnar Rodgers þá var reynt að ná í Sanhez (sem hefði passað fullkomlega inn í leikskipulagið) en hann valdi Arsenal. Það getur ekki verið Rodgers að kenna. Stundum vilja menn bara ekki koma jafnvel þótt þeir fái allveg jafnmikið borgað eða meira.

    3. Meiðsli Sturridge kostuðu okkur meistaradeildarsæti. Ég fullyrði það. Hefði hann náð að spila jafnmarga leiki og í fyrra þá er 100% viss að Liverpool hefði náð meistaradeildarsæti. Jafnvel þótt hann hefði ekki skorað jafnmikið og í fyrra.

    4. Missa 52 mörk út úr liðinu, bara í deildinni. Það er hefði ekkert lið í Englandi eða Evrópu náð að jafna sig á því. Munið að þetta voru tveir markhæstu leikmennirnir á Englandi. En þá vísa ég til þess sem ég segi að ofan um strikerkaup. Þó misfórust hjá Rodgers. Tel að hann hefði átt að reikna meira með hættuna á að Sturridge væri meiddur. Saga hans er þannig.

    5. Slysið í fyrra að missa af titlinum. Held að þá hafi t.d. Gerrad misst móðinn. Hann er enginn kjáni og fattaði allveg að þarna fór hann síðasti sjéns að ná í titil og ekki síst þar sem Suarez var seldur, sem var X-faktorinn okkar en til að vinna titill þá þarf meistaralið hafa einn slíkan. Hazard í vetur hjá Chelski, Yaya Toure hjá ManCity (og kannski líka Aqureo) í fyrra og Van Persie þar áður hjá Manu.

    Gæti allveg trúað að þetta hafi smitað meira út frá sér en menn átta sig á eða þora að viðurkenna.

    6. Sigurhrinan sem kom í vetur þegar Rodgers skipti yfir í 3 manna vörn. Okey liðið byrjaði illa, skeit á sig og varð sér til skammar í Meistardeildinni en hann fann þó lausn sem virkaði vel í nokkra mánuði. Það sýnir mér að hann getur fundið lausnir.

    Á sama tíma verð ég að viðurkenna að ég skil ekki allveg afhverju hann hætti að spila þetta kerfi og fór svo í mjög illa ígrundaðar breytingar aftur í 4 manna vörn með Can sem bakvörð.

    Ég á s.s. ekki skýringu afhverju liðið byrjaði illa nema það verður ekki undan því vikist að meiðsl fóru nokkuð illa með okkur framan af og að auki var liðið að mörgu leyti nýtt. Klárlega á Rodgers hluta af sökinni en ekki alla.

    7. Þrátt fyrir allt komust við í undanúrslit á báðum bikarkeppnum. Þurftum auðvitað endilega að lenda á móti Chelski í deildarbikarnum. Fáranlegt að segja að það sé einhver aumingjagangur að detta út fyrir besta liði Englands í dag.

    Það var aftur á móti aumingjalegt að tapa fyrir Aston Villa með þeim hætti sem Liverpool gerði. Það er ekkert óeðlilegt að tapa fyrir úrvalsdeildarliði í bikarleik. Það er nú fegurðin við bikarkeppnir að þú mátt ekki og getur ekki bókað sigur. En það var skandall hvernig við töpuðum þeim leik, ekki síst eftir að hafa komist yfir. En er það Rodgers að kenna, komir eitt núll yfir og svo hrynur liðið. Veit ekki.

    En samt verður að líta til þess að Liverpool var í undanúrslitum beggja bikarkeppnanna. Var eitthvað annað lið sem gerði það? Auðvitað veit ég að það telur ekkert rosalega en samt er þetta árangur á sinn hátt.

    Samandregið þá tel ég að Rodgers hafi gert meira rétt en rangt og ég er þess líka fullviss að hann hefur lært helling af síðasta vetri. Hann er að mínu metnaðarfullur þjálfari sem hefur það sem þarf fyrir Liverpool . Hvað hann á svo að fá langan tíma er ósvöruð spurning. Kannski vil ég reka Rodgers næsta vor. Vonandi þó ekki.

    Mér finnst FSG líka vera að gera margt gott, stækka völlinn og hafa sinnt „commercial“ hliðinni vel. Held að þarna séu gaurar á ferð sem eru að sameina að reka Liverpool sem fyrirtæki sem sé sjálfbært og muni ná árangri. Kannski hafa þeir tekið „Financial Fair Play“ reglurnar of trúanlega, haldið að í framtíðinni myndu öll félög fara eftir þeim en eins og við vitum þá eru þær að mestu djók, ekkert sem „creative accounting“ getur ekki komist framhjá.
    En fyrir þá sem þrá ekkert meira en að Liverpool verði rekið eins og svindllið í tölvuleik, sem kaupir alla þá leikmenn sem menn vilja, þá munu aðgerðir FSG gera klúbbinn að mun söluvænlegri afurð.

  10. Held að eina ástæðan fyrir því að BR fær 6-12 mánuði í viðbót er að þeir sem FSG vildu fá voru ekki tilbúnir á þessum tímapunkti.

  11. rodgers getur ekkert snúið þessu við.. maður sér það bara strax.. hann babblar um að það þurfi topp class leikmenn og fer síðan og nær í milner og ings..

  12. Rodgers er snillingur að bulla í viðtölum…..stjórnendur Liverpool eru aldrei á leikjum Liverpool þannig að auðvitað gekk season ending review fundurinn glæsilega!

  13. Er ekki málið bara að fsg er að grafa undan BR. Dýrt að reka hann, neyða hann til að segja upp.
    Hvernig á annars að túlka þessa uppsögn á aðstoðarmanni hans. Maður sem hefur fylgt honum allavega frá Swansea, kannski lengur. Hans maður. Ég persónulega myndi labba út. Það er búið að grafa svo undan honum að hann á aldrei möguleika að koma til baka.

  14. Góða við fréttir tengdar klúbbnum að það er mjög auðvelt að sikta út hvað eru kjaftasögur og hvað ekki.

    A) Falcao er ekki að fara yfir til Liverpool. Ástæðan fyrir því að hann sagðist vilja semja við lið í London var til að gefa aðhangendum Man Und skýr skilaboð um að hann væri ekki að fara að semja við Man City eða Liverpool. Hann vill sem sagt ekki fara yfir til erkifjenda liðsins sem hann var að spila fyrir. Það er ágætlega skiljanlegt því hann var á luxus launum hjá Man Und og finnst hann hafa brugðist þeim með frammistöðu sinni.

    B) Sama á við um YAYA Tore. Þrátt fyrir allt er YAYA einn af gullmolum Man City og maðurinn sem átti hvað stærstan þátt í að gera þá að Englandsmeisturum fyrir tveimur árum síðan. Hann er enn í toppstandi og til þess að einfalda hlutina þá værum við með lið sem væri líklegt í titilbaráttu ef við fengjum hann til okkar. Það vita Man City og því er ég nokkuð viss um að hann fari aldrei til okkar.
    Hann er líka kominn af besta aldri og FSG hefur margítrekað lýst því yfir að þeir kaupi ekki þannig leikmenn dýrt.

    C) Zlatan Er ekki að fara að koma. Hann er ekki að renna út af samningi hjá PSG og Liverpool er ekki að fara að kaupa mann á þessum aldri á ofursprengdu verði.

    Þetta er ekki flókið.

    Ef leikmaðurinn er kominn yfir svona 28-29 ára aldur eða yfir og er ekki að renna út af samningi þá er mjög líklegt að Liverpool kaupi ekki leikmanninn nema á lágu verði.

    Annars finnst mér það orðið leiðinlega fyndið hve stór hluti af slúðri um fótboltamenn eru augljóslega tómt kjaftæði.

    Ég væri ekkert á móti því að fá Falcao og Toure… en á sama tíma stið ég stefnu Liverpool heilshugar og trúi því að hún sé best rekna stefna fótbolta liða til lengri tíma.

    og eitt er ljóst varðandi t.d Danny Ings.

    Hann mun aldrei verða jafn mikið flopp og Andy Carol sem var keyptur á 35milljónir punda.

  15. Horfi bara alls ekki á þetta svona og held að pressan á Rodgers nú sé litlu minni en hún var áður en Pascoe og Marsh voru reknir, efa að þeir skipti nokkru einasta máli hvað það varðar.
    Tek svosem undir alla punkta Hamlet hér að ofan.

    Rodgers verður að láta liðið spila miklu betri bolta en það var að gera á síðasta tímabili og 4. sætið er lágmarkskrafa í lok tímabilsins. Ok ef þeir tryggja sér sæti í Meistaradeild með sigri í Europa League en það er fjarlægur kostur eins og staðan er núna. Þetta er NÁKVÆMLEGA sama pressa og væri á Klopp eða hverjum sem menn vilja fá inn í staðin. Nýr stjóri væri orðinn “gjörsamlega vonlaus” strax í sept/okt ef hann myndi byrja illa.

    Allt fyrir ofan sæti í Meistaradeild er bónus á næsta tímabili þó við viljum auðvitað öll sjá liðið berjast aftur um titilinn, rétt eins og það gerði á miðju síðasta ári, undir stjórn Rodgers sem var meira óumdeildur þá en hann er umdeildur núna. Þetta getur léttilega snúist jafn hratt í hina áttina batni árangur liðsins.

    Takist leikmannabreytingar vel í sumar þá er Rodgers strax með miklu betri spil á hendi heldur en í upphafi síðasta tímabils. Hópurinn sem hann hafði í höndunum á síðasta tímabili getur ekki annað en bætt sig milli ára. Ekki útiloka alveg að Rodgers geti stillt upp sannfærandi liði og leikkerfi út af þessu tímabili þar sem ekkert gekk upp og liðið var mjög ósannfærandi.

    Tek dæmi um nokkrar smávægilegar breytingar milli ára sem gætu safnast mjög fljótt saman og stórbætt árangur Liverpool:

    Mignolet ætti að vera mun sterkari frá byrjun á næsta ári en hann var á síðasta (og þarsíðasta) tímabili og er þar um hellings bætingu að ræða í markmannsstöðunni. Hann var að setja clean sheet met um miðbik þessa tímabils svo eitthvað er líklega hægt að fá út úr honum meira en náðist í byrjun síðasta tímabils. Varamarkmann erum við að fá inn án þess nánast að leggja neitt út fyrir honum.

    Staða hægri bakvarðar getur ekki annað en stórbatnað milli ára og er augljóslega verið að vinna að því nú þegar. Flanagan og Wisdom styrkja nú þegar það sem var þarna fyrir á síðasta tímabili og á þá líklega eftir að kaupa einn sem getur ekki verið verri en Johnson var í fyrra.

    Moreno er búinn með eitt tímabil á Englandi og fær vonandi miklu gáfulegra og betra back up heldur en Enrique. Eins þarf hann bara traustari varnarleik í kringum sig bæði frá miðjumönnum og miðvörðum til að bæta þetta fyrsta tímabil sitt. Hér ætti vel að vera hægt að bæta liðið verulega.

    Miðvarðahópurinn hjá Liverpool getur ekki versnað mikið. Liverpool á sinn besta mann (Sakho) að mestu alveg inni og dýrasti varnarmaður í sögu félagsins bætir sig vonandi eins milli ára og hann gerði eftir svipað tímabil í Frakklandi snemma á sínum ferli. Hér þarf Rodgers klárlega að bæta leik Liverpool og takist það fer hann strax að safna stigum líkt og liðið gerði um miðbik síðasta tímabils.

    Gerrard verður auðvitað saknað hjá Liverpool en þessa 35 ára varnartengiliðs sem við sáum í vetur verður ekkert saknað. Milner kemur frítt og fer líklega á öllu lægri laun, hann virðist koma nánast alveg í stað Gerrard. Þar er sex árum yngri leikmaður og vonandi töluverð styrking. Emre Can er búinn að fá leikreynslu í deildinni í eitt ár og gæti stórbætt Liverpool liðið á miðjunni strax á næsta tímabili. Vonandi kemur einn enn inn í stað Lucas eða Allen en þeir eiga báðir töluvert inni frá síðasta tímabili. Henderson sem oft spilaði betur án Gerrard fær svo sviðið útaf fyrir sig núna og verður fróðlegt að sjá hvernig það kemur út.

    Lallana á heilan helling inni m.v. það sem hann sýndi í vetur. Þó ekki nema hann myndi sleppa við helming af þeim meiðslum sem voru að hrjá hann í vetur. Hann fær gott sumarfrí núna (öfugt við 2014) og hefur fengið eitt tímabil til að aðlagast miklu stærra liði núna. Jordon Ibe sem er á aukaæfingum núna hefur alla burði til að verða heimsklassa leikmaður og það er hlæilegt hvað Markovic á mikið inni, þeir gætu stórbætt sig báðir. Coutinho stórbætti sig í vetur og ætti að halda þeirri þróun áfram fái hann betri framherja fyrir framan sig. Sterling er óvissuatriði en það þarf ekki einu sinni að kaupa mann til að fylla skarð leikmannsins sem Sterling var á síðasta tímabili.

    Aspas, Borini og Lambert jafna út og rúmlega það kaup á Ings og Origi, manna sem henta sóknarleik Rodgers líklega töluvert betur. Ekkert öruggt í þeim efnum auðvitað en þarna ættum við að vera tala um 3-4 kost í sóknarlínunni. Sturridge sem var meiddur allt síðasta tímabil nær vonandi rúmlega helmingi fleiri leikjum á næsta tímabili og þá er eftir að sjá hvað kemur í staðin fyrir Balotelli í framlínuna. Hefði Sturridge náði 10 fleiri deildarleikjum í vetur fullyrði ég að Liverpool væri í topp 4 í vetur, þetta skipti svo miklu máli.

    Liverpool var þremur sigurleikjum frá því að komast í Meistaradeildina á síðasta tímabili og þarf líklega meira til að ári. Ég hef fulla trú á að með smávægilegum bætingum í nánast öllum stöðum sé hægt að stórbæta árangur liðsins og eins fagna ég öllum minniháttar breytingum á innra starfi félagsins og hef engu minni trú á þeirri stefnu en að byrja enn á ný frá grunni.

    Hver veit hvað liggur að baki breytingum í starfsliði Liverpool og afhverju er útilokað að Rodgers hafi ráðið þar mestu? Ferguson er oft hægt að nota sem dæmi og hann losaði sig við sinn trygga aðstoðarmann Archie Knox eftir fimm ár í starfi United. Mann sem hafði fylgt honum frá Aberdeen og var góður vinur hans til margra ára.

    Pressa á stjóra helst fullkomlega í hendur við gengi liðsins og skiptir í dag nákvæmlega engu máli hvort um sé að ræða nýjan eða gamlan stjóra, óreyndan eða reyndan. Brendan Rodgers er gott dæmi um það og Arsene Wenger er það líka ef við tökum dæmi úr annarri átt.

    Merkilegt einmitt við þá báða að þeir virðast ná verri árangri ef þeir missa sýna bestu menn en góðum árangri fái þeir góða leikmenn.

  16. Er engin að ræða það að city gerði tilboð uppá 25 – 30 milljonir punda i kvold sem okkar menn hofnuðu.

    Eigum við ekki bara að bjoða þeim drenginn og fá Yaya toure plus pening ?

  17. Bogdan bara mættur líka. Ótrúlegt að við höfum ekki hirt André Ayew líka í þessu free-transfer-frenzy okkar.

  18. Þráðrán – sorrí!

    Er í útlöndum og langar að athuga hvort einhvert ykkar geti leiðbeint mér til að ég geti horft á landsleikinn milli Íslands og Tékklands á ruv.is !?

    Lengi lifi Liverpool FC.

  19. Mér finnst það alls ekki vera eitthvað klippt og skorið hvort að BR hefði átt að fjúka eða ekki. Hann vann sér inn ákveðið vogarafl með þessari fáránlega fram úr væntingum frammistöðu sem skilaði liðinu næstum því titli.

    Þó að tímabilið í vetur hafi verið vonbrigði, þá glitti samt í þessa frammistöðu nokkrum sinnum og ég held að menn hljóti að vera að horfa á það. Ef að hægt er að ná því aftur svo ekki sé nú talað um ef hægt er að gera það að föstum lið, þá er þetta ekki spurning, BR er maðurinn.

    Hann sýndi það líka að það er ekki aðal málið að vera með þekkt nöfn inn á vellinum og menn eins og Sterling, Henderson og Coutinho spiluðu langt fram úr væntingum á þessu draumaseasoni. Auðvitað er Suarez leikmaður sem er ekki hægt að replaca, en liðið spilaði líka vel án hans þannig að mér finnst einföldun að kenna því einu um að hann hafi farið.

    Ef aftur á móti næsta tímabil byrjar illa og ráðleysið sem við sáum í vetur verður enn ríkjandi, þá spái ég að kallinn fjúki fyrir jól.

  20. Þrír nýir menn komnir áður en glugginn opnar.
    Það er slatti.
    Og enginn af þeim er top top player.

    Klúbburinn virðist amk stefna að því að halda sig við sama módel; magn umfram gæði.

    Með öðrum orðum; skita í leikmannaglugganum og svo mun liðið halda uppteknum hætti á næsta tímabili og festa sig enn frekar í sessi sem 6.-10. sætis lið.

    Annars er ég sammála flest öllu hjá Kristjáni Atla í pistli hans hér að ofan.

  21. Vonum það besta.
    Þessir leikmenn sem komnir eru eiga að heita nauðsynlegar breytur í hóp.
    Liverpool lætur vonandi kné fylgja kviði og koma inn með 2-3 leikmenn sem eru í þeim klassa sem við óskum eftir og sæmir Liverpool FC

  22. Varðandi leikinn á eftir #9 #19
    Þið getið notað þjónustur á borð við Hola. Þetta er í raun bara plugin í browserinn. Þú stillir browserinn þannig að hann platar severinn til þess að halda að þú sért á Íslandi. Þannig ættir þú að geta horft á hann í gegnum ruv.is. Ég nota þetta til að horfa á t.d. bbc.co.uk.
    http://hola.org/

  23. Góður pistill, lykilsetningin er klárlega: “Ef Liverpool er félag með metnað…”

    Því miður er ekkert í stefnu eiganda félagsins sem gefur þetta til kynna. Annars væri liðið með leikmenn á borð við Mkhitaryan, Willian, Costa, Suarez, Salah, Konoplyanka o.fl í hópnum, væri í meistaradeild og að byggja nýjan leikvang sem er grunnur að tekjumódeli stórklúbba.

    Þess í stað erum við með leikmenn á borð við Lambert, Balotelli, Aspas, Alberto o.fl., erum í evrópudeild (rétt svo) og erum að stækka okkar eldgamla Anfield sem tæpast verður fugl né fiskur á við nýjann leikvang, enda takmarkaðir möguleikar í boði þar. Í þokkabót eru póstar eins og Gerrard, Agger, Reina og félagar á bak og burt – alvöru menn það.

    Stjórinn er svo annað mál. Ljóst er að kanarnir vilja hvorki stór nöfn né borga samkeppnishæf laun, annars væru þeir með stórt nafn í brúnni og alvöru menn í leikmannahópnum, í stað óharnaðra unglinga og leikmanna sem löngu eru komnir yfir hæðina.

    Með slíkri stefnu er og verður Liverpool númeri of lítill klúbbur til að keppa um dollur og þéna alvöru peninga. Því miður, það þarf að eyða peningum til að afla þeirra ef maður ætlar að keppa í þessari íþrótt.

Opinn þráður – nýr varamarkmaður?

Bogdan staðfestur og tilboði City í Sterling hafnað