Okkar menn heimsóttu St Mary’s í kvöld og mættu Southampton í 8-liða úrslitum enska deildarbikarsins. Eftir jafnan og spennandi leik… nei djók okkar menn unnu stórsigur, SEX eitt!
Klopparinn stillti upp hálfu varaliði eða svo í kvöld:
Bogdan
Randall – Skrtel – Lovren – Moreno
Can – Lucas (c) – Allen
Lallana
Origi – Sturridge
Bekkur: Mignolet, Brad Smith (inn f. Moreno), Milner, Henderson (inn f. Allen), Ibe (inn f. Sturridge), Firmino, Benteke.
Southampton voru komnir yfir eftir 42 sekúndur. Tadic og Bertrand léku sín á milli á vinstri vængnum, sá síðarnefndi bjó sér til smá pláss og negldi einni hárri yfir á fjærstöngina. Rétt eins og á Stamford Bridge fyrir mánuði (og nokkrum sinnum áður ef ég man rétt) svaf Alberto Moreno á verðinum og hleypti Sadio Mané fram fyrir sig í skallann. 1-0 fyrir heimamenn, völlurinn rokkaði, þeir með nánast fullsterkt lið á móti hálfu varaliði okkar manna og pressan þung.
Ekkert vesen. Þetta Liverpool-lið hlær að pressu á útivelli þessa dagana. Það tók svona 10-12 mínútur fyrir pressu heimamanna að fjara út án þess að þeir sköpuðu sér sérstaklega hættuleg færi eftir markið og eftir svona 20-22 mínútur var Liverpool komið með öll völd á vellinum.
Var ég búinn að nefna það að Daniel Sturridge var að spila í kvöld? Nei? Ókei, hann var allavega að spila og skoraði tvennu fyrir hálftímann til að koma okkur yfir. Fyrst elti hann frábæra stungusendingu Joe Allen, tók illa við boltanum og missti hann út á vinstri hlið vítateigsins þar sem Steven Caulker einangraði hann. Ekki vesen, Sturridge tók snögg skæri, bjó sér til pláss til að skjóta, klíndi tuðrunni í hliðarnetið fjær og tók svo dansinn. Það var á 25. mínútu. Á 28. mínútu vann Lallana boltann með Klopp-pressunni af Victor Wanyama, Emre Can lék frábærlega á andstæðing með hælspyrnu og sendi svo frábæran utanfótarbolta inn í svæðið milli Caulker og Stekelenburg í markinu þar sem Sturridge var aftur mættur og sett’ann í fyrsta með hægri. Óverjandi. 2-1.
Á 45. mínútu kom þriðja markið; Lallana tók hornspyrnu frá hægri, Sturridge var í skallaeinvíginu en boltinn barst út úr teignum þar sem Moreno kom aðvífandi og negldi á mark og í netið vild’ann! Það leit út fyrir að Moreno hefði skorað og hann fagnaði mikið en endursýning sýndi að Divock Origi náði að pota í boltann og átti því markið. Þetta var hans fyrsta mark í 11 leikjum fyrir Liverpool og þótt það stæði tæpt að hann ætti markið átti það eftir að telja áður en yfir lauk.
3-1 í hálfleik og nú ætluðu Southampton-menn væntanlega að pressa og leita að jöfnunarmarkinu eftir hlé, ekki satt? Neinei, þeir áttu einfaldlega ekkert í okkar menn í seinni hálfleik. Sturridge fékk hvíld og bóluplast eftir klukkutímann, á 68. mínútu tryggði Origi sigurinn með frábæru skoti eftir stungu frá Jordon Ibe. Á 73. mínútu skoraði Ibe svo sjálfur eftir fyrirgjöf Moreno áður en sá spænski vék fyrir Brad Smith. Á 86. mínútu var stórsigurinn svo innsiglaður og um leið þrenna Divock Origi – hans önnur á ferlinum (hann er tvítugur) – með skalla af stuttu færi frá fyrirgjöf Brad Smith.
6-1 á útivelli gegn fullskipuðu Southampton-liði. Og þeir Mignolet, Clyne, Milner, Coutinho, Firmino, Benteke og Henderson voru ekki í liðinu. Né Ings, Gomez og allir hinir meiðslapésarnir.
Okkar menn eru því komnir í undanúrslit þar sem þeir mæta Stoke City. Leikið verður heima og úti eftir áramót. Í hinum undanúrslitunum mætast Man City og Everton þannig að það bíður risaleikur á Wembley ef menn komast framhjá Stoke. Risaleikur og dolla. Takk fyrir það, strákar!
Maður leiksins: Liðið lék allt vel í kvöld. Bogdan gat ekkert gert við marki Southampton og var öruggur þess utan; miðverðirnir voru sterkir og stóðu vaktina í allt kvöld; Connor Randall var mjög góður í hægri bakverði sem og Brad Smith í vinstri bakverði eftir innkomuna; Alberto Moreno var frábær í kvöld fyrir utan fyrstu 42 sekúndurnar (hann verður að læra að byrja leiki strax, þetta kæruleysi í nokkrar mínútur gengur ekki); Lucas, Can og Allen gjörsamlega áttu miðjuna og voru allir frábærir á meðan Lallana og Ibe voru iðnir og skapandi allan leikinn.
Þessi leikur snýst samt bara um tvo menn. Daniel Sturridge er einfaldlega heimsklassa leikmaður sem skorar nánast þegar honum sýnist, ef hann er heill. Það er bara þetta ef sem er svo pirrandi. Vonandi, vonandi, vonandi er þessu lokið í bili.
Maður leiksins er samt klárlega senuþjófurinn Divock Origi. Eftir 44 mínútur var enginn að tala um hann og allir að tala um Sturridge. Klukkustund síðar var þetta orðið að einum mest lofandi leik hjá ungum framherja Liverpool síðan þeir Owen og Fowler léku í fremstu víglínu á sama aldri. Origi hefur virkað hrár og óöruggur í aðgerðum sínum í haust en það er þó augljóst að hann hefur alla hæfileikana til að láta að sér kveða. Ef þetta var klappstýruátak Klopp að bera ávöxt í kvöld getum við alveg farið að núa saman höndum í eftirvæntingu. Þessi þrenna var frábær, hann á eftir að gera meira en þetta. Sjáiði til!
Næsti leikur er á útivelli gegn Newcastle. Ég get lofað ykkur því að þá hlakkar ekkert til að fá strákana okkar í heimsókn.
YNWA
Loksins farið að skila sér að kaupa alla leikmennina þeirra!!!
Kvöldið byrjaði illa en endaði mjög vel. Bara geggjaður leikur hjá okkar mönnum. Spurning hvort við viljum ekki bara spila alla leiki á útivelli.
Upphitunin spáði einu marki og mörgum okkar fannst það bjartsýnnt.
Well played Herr Klopp, well played.
Ég elska Klopp!!!!!
Priceless ! Vona að sturridge sé ekki meiddur. Takk Herr KLOPP
Þvílík snilld. Dettur bara í hug að vitna í einn meistara og afsakið orðbragðið: “Yippee Ki Yay Motherfucker”. Þetta lið er mætt til keppni.
Hahahahahaha því líkt sjálfstraust hjá liðinu!!!!!!!!!!!! Við erum bara að verða ansi góðir og Kloppinn bara hlær að þessu öllu saman. Þetta líkar manni.
Áfram Liverpool og Klopp!!!!!!!!!!!!!
Vávává þetta var flugeldasýning af bestu gerð. Eftir skelfilega byrjun sýndi þetta lið hvað býr í því og án marga af sterkustu leikmönnum liðsins.
Hvernig væri þetta lið ef Klopp hefði byrjað tímabilið sem stjóri.
Mér er alveg sama hvaða lið við fáum næst í þessum bikar
Mikið svakalega saknar þetta lið Coutinho.
Hvað finnst fólki, var Origi að skora þrennu eða átti Moreno eitt.
frábær leikur og merkileg hvað Klopp nær miklu meira úr þessum leikmönnum en Rogers, ég tek það til baka sem ég sagði um ráðninug Klopp þegar ég vildi frekar hinn gæjan, hvað heitir hann aftur… en var reyndar allveg sáttur um ráðningu klopp en vildi fá festu og reynslu, mikið svakalega getur maður haft rangt fyrir sér.
Sælir félagar
Þetta var í einu orði sagt “stórkostlegafrábærogmögnuð” frammistaða. Við höfum Klopp og það er sá faktor sem önnur lið hafa einfaldlega ekki. Svo einfalt er það.
Það er nú þannig
YNWA
Og hvernig á að stilla upp næsta sunnudag?? Það er góð spurning
Sælir , væri ekki einnhver fagmaður til í að henda link með highligths úr leiknum ?
Ég veit ekki um ykkur en mér líður eins og við getum ekki tapað þegar ég sé þá spila.
Þannig hefur mér ekki liðið lengi.
Klassa leikur hjá öllum og ég tala nú ekki um ungu drengina þeir voru alveg draumur.
Origi með þrennu, ef þetta gefur honum ekki sjálfstraust þá er ekkert sem gefur honum það.
Hvar eru munkarnir núna… Þetta var sémí orgy
Þumlarnir.. Dem auto correct
1 – 3, 1 – 4, 1 – 6, Newcastle…… here we come!
K-L-O-P-P
[img]Jurgen_Klopp_3118165b.jpg[/img]
Ég veit ekki ekki hvern ég á að velja sem mann leiksins? Einhverjar hugmyndir??
Það styttist í dráttinn fyrir undanúrslitin! Það væri gaman að fá tveggja leikja rimmu við Everton, ég vona það allavega.
Stoke í undanúrslitum
Stoke í undanúrslitum!!!
Fengum Stoke, gott kvöld 🙂
7 sigurinn í 12 leikjum hjá Klopp, ef mér skjátlast ekki.
58% sigurhlutfall.
Góð byrjun það, ótrúlegur viðsnúningur á þessu liði.
HAHAHAHA, Doddijr: klárlega komment áratugarins 😀
“Hvar eru munkarnir núna… Þetta var sémí orgy”
Liverpool – Stoke
Man City – Everton
Stefnir í flotta leiki og með þetta lið á þessari siglingu þá eru allir vegir færir, það er ekkert flóknara en það.
Eina vandamál Liverpool eins og er, er fyrir Klopp að velja í lið. Það er engin að spila illa þessa stundina og Hendo, Sturridge og Origi að minna á sig aftur.
Skemmtilegir tímar framundan, og ef það eiga það einhverjir skilið þá erum það við stuðningsmenn Liverpool. Njótum þess.
Það verður Merseyside derby í úrslitum þessarar keppni á Wembley!
Mark my words dömur og herrar!
YNWA!
Þetta var virkilega flottur leikur hjá strákunum.
Vörnin var nokkuð traust þótt að Randell var smá stressaður í byrjun og Moreno er ekki góður að verjast fyrirgjöfum. Mjög gaman að sjá hvað Lovren er kominn með meira sjálfstaust.
E.Can og Lucas sá um að vernda vörnina og stóðu sig frábærlega og þá sérstaklega E.Can sem lagði upp glæsilegt mark og tók virkan þátt í sókninni.
Joe Allen var virkilega góður í þessum leik. Lagði upp mark með glæsilegri sendingu, vann bolta og skilaði honum.
Lallana var ógnandi og á iði allan leikinn. Þeir réðu ekkert við hann.
Sturridge átti frábæran leik og tvö flott mörk. Hann er greinilega samt ekki alveg kominn með fyrstu snertinguna og er pínu hræddur við snertingu en það kemur og kannski mjög eðlilegt miða við hans meiðsla sögu. Vonandi heldur hann sér heillum því að ef hann nær að gera það þá er hann klárlega einn af bestu sóknarmönnum í úrvaldsdeildarinar.
Origi átti stórfurðulegan leik. Hann var ekki mikið búinn að gera áður en hann potaði inn markinu í fyrirhálfleik en svo var eins og að sjálfstraustið kom og hann skorði tvö frábær mörk til viðbótar og var frábær.
Stórkostlegur leikur og núna er bara að klára Stoke í tveimur leikjum og komast í úrslitaleik gegn Man city eða nágrönunum.
P.s Elska Klopp
Moreno er greinilega búinn að vera að stúdera Riise klippur miðað við þriðja markið.
Ótrúlega flott úrslit. Eftir fyrstu 15 mínúturnar var þetta flott!
STÓRKOSTLEG FRAMMISATÐA 😀 það er varla hægt að finna neikvæðan punkt á þessum leik.
Southampton er sterkt lið og alls ekki auðvelt að spila á móti þeim hvað þá á þeyrra heimavelli.
Hr Klopp er augljóslega þrusu góður þjálfari ef ekki einn af þeim bestu, það þarf ekkert að deila neitt um það lengur, það er enginn Suarez í þessu liði.
ég er svo ánægður með þetta allt saman að ég fer bráðum að prumpa glimmeri
AMEN!
Fjúff…þvílík veisla sem er verið að bjóða okkur í þess dagana. Ég var á því að ekki ætti að reka Brendan Rodgers en upplyftingin á þessu liði – og gleðin hjá Henderson þegar hann var að koma inn á – og andlitin á leikmönnum að fagna – ég veit ekki hvar á að byrja og hvar á að enda í aðdáuninni.
Það er allavega klárt að þetta lið getur mjög margt og ef Klopp nær að halda rétt á spilunum fram í janúar þá verða allir vegir færir. Það vinnur með honum að stórir póstar eru að stíga upp úr meiðslum og auka breiddina og gæðin svo um munar. Stíllinn og bragurinn á liðinu er frábær og Klopp hefur náð að vekja upp hungrið í öllum hópnum. Blásið þeim baráttuanda og sjálfstraust í brjóst svo að enginn leikmaður inni á vellinum trúir því að leikurinn geti tapast.
Við munum áfram fá einn og einn skell en guð hjálpi Newcastle. Þeir mega sannarlega vara sig. Nú býst maður orðið við flugeldasýningu í hverjum leik.
Samt er nauðsynlegt að hafa allavega 2-3 tær ennþá á jörðinni. Skellirnir geta alveg komið ennþá…en þeir eru fjarlægari en í langan tíma.
Áhangendur Liverpool voru stórkostlegir. Á útivelli. Geggjað.
Nú þarf Anfield bara að taka við sér. Virðist eins og pressan og þyngslin í áhorfendum á heimavelli leggist þungt á leikmenn og því þarf svo sannarlega að breyta.
Frábært kvöld og rúmlega það í alla staði.
Áfram Liverpool!
Að þvæla sér alla leið á suðurströndina og hamra dýrðlingana er nánast guðlast.
Klopp setur upp nýtt kerfi, menn hiksta fyrstu 10 mín. en eftir það þá var ekki litið til baka.
Nánast allt gekk upp. Allir á gasi.
Koeman reyndi að klóra í bakkann í seinni hálfleik og tók áhættu með því að spila þremur aftast en það var einfaldlega aðdáunarvert hvernig Klopp brást við og setti á vængina til að slátra fækkuninni í vörninni hjá Koeman.
Brad Smith átti svo kross tímabilsins, hvenær kom svona hreinræktaður síðast 🙂 beint á pönnuna.
Næsti leikur er hættulegur. Newcastle særðir (nær til ólífs) og við með boner. Hættulegt.
En Klopp er einfaldlega náttúrulegur snillingur og kemur mönnum gegnum það.
Nú mega jólin koma fyrir mér.
YNWA.
highlights eins og alltaf eru á reddit footballhighlights
https://www.reddit.com/r/footballhighlights/comments/3v70md/southampton_vs_liverpool_capital_one_cup_02dec2015/
síðustu 4 útileikir eru:
Chelsea vs LIVERPOOL 1-3
rubin kazan 0-1
manchester city 1-4
southampton 1-6
sem þýðir 3-14
alls ekki hægt að kvarta yfir því 😉
Veit ekki hvar ég á að byrja.
Ég sé ekki eftir því að hafa tekið tölvuna með mér í vinnuna til að geta fylgst með leiknum, en ég var hættur að nenna því áður en Klopp kom til sögunnar. Þetta leit skelfilega út til að byrja með, en síðan var eins og allir Liverpool-menn hefðu fengið að súpa úr pottinum hans Sjóðríks seiðkarls, þvílíkir yfirburðir gegn besta byrjunarliði sem Southampton gat stillt upp, vá.
Meðalaldur þeirra 14 sem komu við sögu er rétt rúmlega 24 ára. Það virðist ekki skipta máli fyrir þessa ungu leikmenn hvernig uppstillingin er og hverjir spila, allir virðast vera farnir að ná vel saman. Origi braut loksins ísinn, Can farinn að leika frábærlega í hverjum leik, miðverðirnir orðnir vatnsheldir, Allen (leikmaður sem ég var löngu búinn að afskrifa og vildi burt) er búinn að troða 2 pörum að skítugum fótboltasokkum lengst niðrí kokið á mér.
6 mörk í kvöld, jafn mörg mörk og United hefur skorað samtals í síðustu 8 leikjum í öllum keppnum.
Klopp mun ekki sofa næstu nætur, á í fullu fangi með að velja lið fyrir Newcastle leikinn. Ég er að reyna að missa mig ekki í bjartsýninni en hvernig er annað hægt?
Skemmtileg staðreynd:
Sturridge er búinn að skora fleiri mörk en Rooney á þessu tímabili 😉
þetta var magnað lvoldof prógrammið ut þennan manuð i deild hja okkur gæti þess vegna skilað þvi að við sætum i toppsætinu þann 1 janúar það er að segja EF ALLT gengi upp.
spennandi tímar framundan !!!
Ég verð að minnast á Allen sem átti stórleik í kvöld. Sendingarnar hjá honum, vinnslan og ákafinn – hann steig varla feilspor. Eins og maður var búinn að afskrifa hann oft…rétt eins og Lucas. May the Klopp be with you!
Yndisleg úrslit og þetta hugarfar sem Herr Klopp er búinn að koma inn í okkar stráka er aðdáunarvert. Ég á varla til orð! Southampton eru mjög þéttir og vinnusamir en þeir voru teknir í bakaríið í kvöld. Þegar maður hugsar um liðið okkar meiðslalaust/lítið, janúargluggann og Jurgen Klopp þá rennur blóðið suðureftir hratt og örugglega. Ég gjörsamlega ELSKA Klopparann!
Those marching saints, are theirs names Origi and Sturridge?
Brad Smith er þá kominn með jafn margar stoðsendingar eins og Martial, Sanches o.fl., og fleiri en Schweinsteiger. Bara svo örfá nöfn séu nefnd.
Frábær leikur! Magnað…
Hér má annars finna bæði highlights og leikinn í heild sinni: https://www.reddit.com/r/footballhighlights/comments/3v70md/southampton_vs_liverpool_capital_one_cup_02dec2015/
Þessi leikur, þetta rönn, þessi karakter og þessi fokkings þjálfari!!
Það er farið að vera ansi mikill stórliðabragur yfir þessu ef Origi er farin að bætast í framherjaflóruna. Verandi með Sturridge og Benteke fyrir og enginn þessara þriggja er í okkar sterkustu útgáfu af byrjunarliði.
Vona innilega að þessi breidd sé jafn mikil og hún virðist vera í leiknum. Þá er hægt að hvíla leikmenn í meira mæli en áður. Tala nú ekki um að þegar Jon Flannagan kemur aftur. Það dreyfir álaginu á bakvörðunum.
Sæl öll.
Ég vissi að líf mitt með Klop yrði gott..en mæ o mæ mig grunaði ekki hveitibrauðsdagarnir yrðu flugeldasýning og að ég yrði svona rosalega ánægð og hamingjusöm. Ég sem var í vafa um að hann væri sá rétti….gott að einhver annar sá um þennan ráðahag.
Þarna var komið aftur gamla góða Liverpool liði mitt sem elskaði að spila fótbolta og gerðu það af ástríðu og eldmóð. Svipurinn á drengjunum og gleðin í augum þeirra segir allt sem segja þarf um það sem gerist utan vallar. Núna horfir maður á liðið sitt svo stoltur og brosir allan hringinnþegar allir eru að tala um liðið mitt og loksins er það óttablandin virðing sem maður heyrir.
Framtíðin er svooooooo björt hjá okkur Klopp og ég veit það eru spennandi tímar framundan auðvita munu koma erfiðir tímar hjá okkur eins og öðrum en ég trúi því að við höfum núna þann stjóra sem mun geta unnið úr því.
Þangað til næst
YNWA
Sæl og blessuð.
Er einhverju við þetta að bæta? Klopparinn mætti til leiks með sinn görótta seyð, blöndu af aga, innblæstri, hernaðarlist og taumlausri greddu. Ég er enn að jafna mig á þessum leik. Þetta var söguleg rimma, risastór á alla kanta.
Almáttugur minn, að sjá fyrrum dauðyfli eins og Lallana, fórna sér eins og það hann lífið að leysa, einhvers staðar úti í horni á 89. mínútu í stöðunni 1-6! Origi, sem maður hélt að væri óhamingjan uppmáluð, skorar fullkomna þrennu! Ibe, sem stefndi á very-early-retirment í einhverju PullworthhamUnited-liði tekur við krúnunni eins og ríkiserfingi á einveldistímanum! Allen sem maður beið eftir að kæmist á lánssamningi hjá því þungbrýnda Newcastle, hefur allt undir kontról á miðjunni! Sturridge sem hafði hugsað sér að taka því rólega fram til fertugt… á ég að halda áfram?
Þessi fyrrum dýragarðsbörn boltans eru núna orðnir konungar vallarins og við sófasessujarðeplin sitjum við skjáinn, grenjandi yfir höktandi útsendingu grenjandi og gólandi af hamingju.
Nú er bara að bíða og sjá hvað gerist næst.
Enginn fer í gönguferð einn.
Liverpool liðið er orðið ógnvekjandi. Árangur þess á útivelli sannar það. Það hefur verið þannig að mér finnst þegar lið koma á Anfeld þá haf þau lagt rútunni og eru ánægð með eitt stig og það er ástæðan fyrir því að árangurinn er ekki betri á heimavelli. Klopp þarf að finna lausn á því! Liverpool þarf helst að skora snemma í heimaleikjum svo gestirnir þurfi að koma framar. Ef Klopp finnur lausn á því þá erum við að tala um gott tímabil. Kæru félagar, ég hef sjaldan verið svona spenntur fyrir Liverpool en nú og er ég búinn að fylgjast með þeim frá því 1968. Mig langar að þakka ykkur fyrir útvarpið. Hef gaman af að hlusta á ykkur hér í Danmörku.
Alveg ótrúlegt að horfa á þessa leikmenn sem gátur ekki blautan fyrir nokkrum vikum síðan. Þetta hlýtur að vera rannsóknarefni fyrir sálfræðinga að reyna að skyggnast inn í hausa þessara leikmanna sem eru búnir að umbreytast úr meðaljónum yfir í stríðsmenn með fullkomið vald á vopnum sínum á mettíma.
Já – og verð að minnast á Allen – algerlega frábær í gær og gerði allt vel. Frábær hausverkur Klopp að velja í liðið á næstu og vonandi eykst sá verkur bara.
Við skulum ekki missa okkur þó komi einn og einn sigur. Leikirnir gegn Swansea og þeim frönsku í Evrópukeppninni voru nú ekkert til að hrópa húrra yfir þó úrslitin hefðu verið jákvæð. Margt er þó greinilega á réttri leið og á þá sennilega aðallega hugarfarið sem skiptir svo miklu máli. Nokkur lið í deildinni eru með betri mannskap en Liverpool og þarf því rétt hugarfar til að ná þeim. Leikgleðin og ánægjan verður að vera til staðar eins og í síðustu leikjum og allir að leggja sig 100% fram. Kannski hjálpar það liðinu að Gerrard er á æfingasvæðinu.
Lúðvík #50 – tók einmitt eftir þessu hjá Lallana. Það eru greinilega skilaboðin að þú spilar allar mínútur leiksins eins, hvort það er sú fimmta eða áttugasta og eitthvað og einnig sama hver staðan er. Það eina sem virðist vanta uppá er að byrja fyrstu mínútuna á tánum!
Flottur leikur í gær, má til með að minnast á tæklinguna hjá stökkmúsinni Moreno í seinni hálfleik sem með smá óheppni hefði getað orsakað rautt en líklega var hann með þetta á hreinu og þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann beitir þessari aðferð. Þetta minnir á orðin um Alex Pettersson forðum, “hver er hann , hvaðan kom hann og hvert er hann að fara” !! eða eitthvað á þá leið. Að öllu gamni slepptu þá var þetta brilljant frammistaða í áttatíu og eitthvað mínutur og vil ég undanskilja fyrstu fimm mínuturnar eða svo í fyrri hálfleik.
Já herra Klopp ég trúi alltaf betur og betur með hverjum leiknum en segi eins og þú ég get ekki gleymt helv. tapinu fyrir Palace. Gæti verið að við værum að sigla inn í betri tíð með blóm í haga , eða verður blautri tusku slengt í andlitið strax í næsta leik ?
Maður spyr sig.
Sælir félagar
Til hamingju með liðið okkar, leikmenn, stjórann og staffið allt. Þetta er dýrðardagur eftir dýrðlegt kvöld.
Það er gaman að lesa athugasemdir stuðningmanna eftir svona leik. Það eina sem vantar er að geta þumlað upp þær bestu/skemmtilegustu og væri gott ef umsjónarmenn gætu komið þeim möguleika í gagnið.
Ég hefi tekið eftir því að það er töluverð eftirspurn eftir þessu og gaman væri ef það yrði leyst á einhvern hátt. Bið samt afsökunar á þessu nöldri mínu.
Það er nú þannig
YNWA
Það eru alveg klárar framfarir á liðinu en þetta var samt undarlegur leikur þar sem mér fannst Liverpool ekkert vera að eiga einhvern stórleik, held að þeir hafi átt 7 tilraunir á rammann og 6 af þeim enduðu inni. Eins voru Swansea og Bordaux leikirnir hreinlega slakir á meðan Chelsea og City leikirnir voru afbragðs.
Liðið er enn að finna taktinn og klárt að Klopp er auðvitað ekki með þann mannskap sem hann sér fyrir sér að vera með. Það verður afar athyglisverður Janúar gluggi og ekki síður sumarið.
Mikið er samt gaman að hlakka aftur til þess að horfa á leiki með Liverpool 🙂
Algerlega orðlaus!!!!!!!!!!
Magnaða Moreno tæklingin:
http://www.empireofthekop.com/2015/10/26/video-alberto-moreno-put-in-the-tackle-of-the-season-for-liverpool-v-southampton-on-sunday/
Mikið er nú gott að vera Liverpool maður í dag, liðið að spila skemmtilegan bolta og gleði virðist vera ríkjandi inni á vellinum. Er svolítið sammála nr 57 um að þetta hafi ekki verið eitthvað yfirspil en effectíft var það og það er kannski það sem vantaði hjá BR undir það síðasta. Sennilega hefðu einhverjir hraunað yfir Mignolet ef hann hefði fengið á sig fyrstu tvö mörkin og sagt hann gæti ekki blautann fyrir að verja ekki. Annars var gaman að sjá Origi og Sturridge á skotskónum og það segir kannski allt að þó Southampton hafi komist yfir þá hafði maður ekki áhyggjur og kom það ekki á óvart að Liverpool kæmist yfir en þessari veislu átti maður ekki von á.
Koeman var byrjaður að reima Predator-skóna á sig þarna undir það síðasta!
Frábær útisigur og nú er lag að koma þessari útileikjageðveiki á Anfield og gera allt vitlaust…
YNWA!
Við höfum engar töfralausnir heldur snýst þetta um að leggja hart að sér. Þú velur ekki að koma til Liverpool útaf veðrinu svo það hlýtur að vera útaf þessu félagi,” sagði Klopp.
ótrúlega heppinn í tilsvörum þessi maður
ég á ekki til aukatekið orð yfir breitinguni á liðinu eftir að klopp tók við
1. viðbrögðin eftir að hafa lent undir er það jákvæðasta að mínum mati, koma til baka og skora 6 er bara frábært
2. bekkurinn í gær Mignolet, Milner, Henderson, Benteke, smith , Ibe og Firmino hef fylgst með Liverpool frá 2005 og hef sjaldan séð liðið með svona sterka menn á bekknum og samt fannst mér byrjunaliðið mjög sterkt sem sýnir að þessi hópur með þennan kong sem þjálfara lýtur mjög vel út og það vantar en Shako, Ings og gomez sem eru meiddir
3. 9,10 watch out he’s back again ef varnamenn fá ekki martröð við það að Sturridge sé komin aftur þá veit ég ekki hvað, Sendingarnar í mörkunum voru gull en þessi drengur er heimsklassa framherji og hlaupin hjá honum án bolta eru unun að horfa á megi hann haldast heill sem lengst
það er gaman að vera Liverpool maður í dag !
Er það ekki Newcastle næst?
Ætla að vera aðeins á undan grátkórnum og koma þessu strax frá:
Djö… hvað er hann að hugsa að hafa Can/Lucas/Millner/Lallana inná?
Can/Lucas/Millner/Lallana geta ekki blautan!
Hvenær ætlar Allen að læra fótbolta?
Mignolet gæti ekki einu sinni gripið kvefpest!
Getum við gefið Moreno?
Hvernig dettur Klopp að stilla upp þessari vörn/miðju/sókn?
Gætum ekki skorað mark þótt lífið lægi við!
Er Rodgers ekki á lausu?
Klopp out!
Þarna!
Þetta ætti að nægja.
Svartsýnispésar og vælukjóar geta þá sleppt því að hrauna yfir liðið fyrstu 15-20 commentinn á sunnudag og þá getum við stuðningsmenn fókuserað á að STYÐJA liðið!
YNWA!
Er að njóta eins og aðrir púlarar í dag. Margt jákvætt sem hefur breyst hjá liðinu eins og kemur fram í kommentunum hér að ofan. Það sem mér finnst einna ánægjulegast að sjá er hvað liðið er afslappað þrátt fyrir að lenda undir. Þegar Klopp tók við liðinu hengdu menn haus við mótlæti en nú bera menn höfuðið hátt og halda áfram að spila sinn fótbolta með líka þessum árangri. Þetta er klárlega sálræn breyting á liðinu.
Þetta er ekki flókið.
Við erum einfaldlega BESTIR í ensku deildinni í dag. 😀
Prins KLopp we love. 😀
Like á Magnús Viðar nr. 61
Like á Svavar “Finchy”!
Þú ert búinn að vera að hamra á þýska stálinu í öll þessi ár og það er svo sannarlega að sýna sig hérna blákalt að það er ekkert ryð sem kemur frá Þýskalandi.
Ég er búinn að vera að bíða eftir því í mörg ár að sjá þýska boltann koma sterkt inn í ensku deildina eftir að hafa séð frönsku áhrifin (Wenger), ensku áhrifin (Ferguson), spænsku áhrifin (Benitez) og trúða-áhrifin (Mourinho). Það gleður mig svo óneitanlega mikið að sjá þýsku áhrifin koma inn hjá Liverpool og það verður ómótstæðilegt að sjá leikmannahópinn í nánustu framtíð þegar handbragð Klopp verður komið þar sterkt inn.
Spáið í þessu, hann er að ná þessu út úr liðinu nú þegar og hefur ekki tekið inn einn einasta mann enn sem komið er í leikmannaglugga. What a man!
Liverpool verður í top 4 með 36 stig 1. Janúar 2016, heyrðuð það fyrst hér 🙂
Mér finnst myndin af Liverpool mönnum fagna, hér að ofan segja meira en þúsund orð. Augu leikmanna okkar eru orðin full af sigurhungri og víkingabrjálæði. Allir virðast vera tilbúnir að fórna sál sinni fyrir málstaðinn og sannfærðir um að engin fjandmaður er ósigrandi.
Rauði herinn er farinn að bera nafn sitt með rentu þar sem allir berjast fyrir einn og einn fyrir alla. Ekkert nema toppbarátta komi til greina. Meistaradeildarsæti er grunntakmark og Englandsmeistaratitillinn er aðalmarkmiðið.
Eins og þetta lítur út fyrir mér, þá var einfaldlega rétt að halda Rodgers við stjórn í sumar einfaldlega vegna þess Jurgen Klopp var ekki á lausu þá og það hefði verið áskrift á dauðaþunglindi ef við hefðum fengið stjóra í stað Rodgers sem væri jafnhæfur eða vanhæfari en hann.
Mig grunar að Klopp hafi enn þá greiðara tækifæri á að gera Liverpool að stærri klúbbi en Dormund því Liverpool er miklu sterkari klúbbur fjárhagslega. Klopp virðist miklu frekar leita að gæðum inná við og ná að draga það besta úr mönnum sem eru þarna fyrir, en leita stöðugt út á við.
T.d held ég að hann sé ekki að fara að kaupa neinn í janúarglugganum og ef það verður einhver sem verður keyptur í sumar, þá er það leikmaður sem getur haft úrslitaáhrif á leikinn. Þegar leikmenn eins og Joe Allen,Lovren, Moreno, Origi, farnir að blómstra og sýna hvað í þeim býr, þá er það bara spurningin hvar á að kaupa mann. Gæðin í klúbbnum virðast allt í einu miklu meiri en áður.
Kaiser Klopp!