Sjöunda ferð okkar kop.is í samvinnu við Úrval Útsýn hófst fimmtudaginn 19.janúar á hefðbundnum brottfararstað, Leifsstöð.
Við fararstjórarnir erum enn á því að gott sé að hefja ferðalagið snemma og vorum mættir á undan innritunarfólki Icelandair á staðinn, algerlega til í slaginn. Okkur til ákveðins léttis þá leið nú ekki langur tími þar til að fólk mætti til starfa og eftir hefðbundið inntékk, vopnaleit og litla humlasúpu í morgunmat var stigið um borð í flug til Birmingham sem er að verða býsna algengur lendingarstaður slíkra ferða.
Þegar þangað var komið hittist hópurinn svo í fyrsta sinn. Okkur til mikillar ánægju hafði verið komið þannig fyrir að hópurinn fór allur í eina rútu. Sú var á tveimur hæðum og öll hin huggulegasta. Bílstjórinn var þó sennilega í yngri kantinum, allavega virtist ekkert benda til þess að hann hafi nokkurn tíma heyrt um leikinn Tetris og hvað þá séð…auk þess sem hann hafði örugglega ekki keyrt Íslendinga oft. Honum tókst þó að koma öllum töskunum fyrir með því að beinlínis raða sig inni í hálfgerðan flugstjórnarklefa í kringum sætið sitt með öllum pinklunum okkar og lagt var af stað. Þegar í borgina við Mersey var komið ákvað hann svo að rúlla töluverðan krók um miðborgina og stoppa svo drjúgan spöl frá hótelinu okkar þrátt fyrir hið ágætasta rútustæði þar. Sennilega ekki séð almennilega út úr klefanum blessaður!
Allavega, í borgina vorum við mætt og allt gekk vel eins og venjulega á Mercure hótelinu, þar voru allir komnir í herbergi um þrjúleytið og því gafst tími til að slaka á eða labba um borgina áður en kom að fyrsta viðburði ferðarinnar, sem er alltaf samanhristingur og pöbbkvisskvöld á The Vines kránni þar sem góðvinur okkar hann Ron ræður ríkjum. Hópurinn var nær allur mættur og fyrsta atriðið er alltaf happdrætti gestgjafans en hann er afskaplega duglegur að safna flottum Liverpool vinningum og rennur ágóðinn allur til góðgerðamála tengdum börnum í borginni. Skemmst er frá því að segja að í fyrsta sinn í hans minni seldi hann alla 200 miðana sína í happdrættinu og hann var beinlínis klökkur þegar við drógum vinningana út en þeir voru áritaðar myndir frá Sadio Mané, Coutinho og sjálfum Klopparanum. Frábær frammistaða hjá hópnum og allt til góðgerðarmála.
Þá voru bornar inn alveg dásamlegar samlokur og pulsur að breskum sið til að gleypa með drykkjunum og svo hóf Steini upp sína yndisfögru rödd og byrjaði að lesa spurningar í gríð og erg. Gríðarleg einbeiting skein úr andlitum fólks enda fór það svo að þegar upp var staðið náðist frábær árangur. Mögulegur hámarksárangur var 29 stig og þegar farið var yfir stóðu uppi sigurvegararnir Rúnar og Haukur með 26 stig, liðið í 2.sæti var með 25 stig og tvö lið náðu 24 stigum. VEL GERT ÞAR!
Þegar hér var komið sögu var rólega deildin í fararstjórninni vel virk og fljótlega upp úr lokum kvissins fórum við Kristján heim enda löngu orðið ljóst að við værum ekki til stórræða í stuðinu, Steini hélt uppi heiðrinum en viðurkenndi þó síðar að hafa verið litlu skárri fjörkálfur. Enda fimmtudagskvöld maður…come on!
Rólega deildin var enda snemma á fót á föstudeginum, það þurfti jú að vekja búðareigendur til að kaupa dót. Eftir flottan Starbuckskaffibolla löbbuðum við Kristján framhjá tómu búðinni í Liverpool One sem selur vörurnar frá okkar “Bitter Blue” bræðrum. Eins og alltaf var hún tóm og því ákváðum við að smella af mynd til að senda Einari vini okkar þennan morguninn þar sem sönnunargagnið var tóm búð. Kristjáni varð það á að skella upp þumli á myndinni sem fauk í tölvupósti austur á Selfoss til félaga okkar og vins sem sat þar við bankaborðið að við héldum bara með vatn og að vinna. Við vorum þó ekki vissir hvað væri í glasinu hans þegar þrjú skeyti komu til baka þar sem ég óskaði svari við því hvað ætti að gera við Kristján og þumalinn:
Réttast að berja hann! Ármúli.k. Bíta hann..aftur
amk ekki Ármúli, wtf
HELVÍTIS IPHONE AUTOCORRECT
Við biðjum viðskiptavini Landsbanka Íslands á Selfossi afsökunar á að hafa rótað við stráknum, ætlum að safna fyrir Windows síma fyrir hann fljótlega!
Eftir búðarrápið var búið að skipuleggja það að fara í skoðunarferð á Anfield og þangað fóru 65 af okkar ferðalöngum. Þegar upp á Anfield var komið varð manni ljóst að við vorum mættir í íslenska meðaltalsútihátíð. Það var beinlínis íslenska töluð um allan völl, því auk okkar ferðar voru nokkrar aðrar hópferðir á leikinn og töluvert af fólki á eigin vegum. Skoðunarferðirnar gengu auðvitað vel og margt að sjá, þó er enn ekki farið að nýta nýjustu búningsklefana því fram að þessu hafði gengið ansi vel á heimavelli og hjátrú leikmanna og þjálfara orðið til þess að menn eru ennþá í bráðabirgðabúningsklefum í gámum undir stúkunni…sennilega verður því breytt fljótlega!
Auðvitað var búðin skoðuð og fjárfestingar í félaginu voru með miklum ágætum. Um tveir þriðju hlutar hópsins höfðu ákveðið að hlýða á hetjuna David Johnson þá seinni part dagsins og aftur var The Vines staðsetning viðburðarins. David er afskaplega skemmtilegur ræðumaður og fór yfir nokkrar skemmtilegar sögur af sínum ferli auk þess að rabba um liðið okkar í nútímanum. Hann vinnur á öllum leikdögum hjá félaginu og sér alla leiki og það var afskaplega fróðlegt að hlusta á hann. Við skulum orða það þannig að hann hafi litla trú á því að eðlilegt sé að ræða um þreytu sem breytu í fótbolta. Nútímafótboltamenn þurfi auk þess ekkert að hugsa – aðrir hugsi fyrir þá og svo auðvitað séu þeir að spila við allt aðrar aðstæður en áður var. Góður rómur var gerður að máli hans auk þess sem menn fengu að skoða medalíusafnið hans.
Þær voru allnokkrar medalíurnar…á ferlinum með LFC vann hann 18 slíkar – ansi magnaður árangur.
Nú fækkaði allverulega í rólegu deild fararstjóranna. Eftir The Vines og pizzu í kjölfarið var komið að því að halda í Matthíasarstrætið okkar góða þar sem við kunnum okkur afskaplega vel. Þegar þangað var komið rákumst við auðvitað á fullt af fólki úr okkar hópi sem hafði einmitt ratað í sömu götu enda margt þar skemmtilegt að finna. Þar hófum við leik á Cavern búllunum sitthvorumegin við götuna. Þar tókum við Kristján að okkur að kenna þjónunum drykkinn “Screwdriver” sem er einkennisdrykkur rithöfunda eins og Kristján er. Þegar kvöldinu lauk höfðum við kennt fjórum slíkum þjónum að blanda drykkinn við mikinn fögnuð þeirra – enda alltaf gaman að læra eitthvað nýtt. Rólega deildin var semsagt lögð niður þetta kvöld. Við enduðum á bar kenndum við Sgt. Pepper og sáum þar allmagnaða þriggja manna sveit taka a.m.k. klukkutímasyrpu án þess að staðnæmast milli nokkurs lags. Við tökum þó skýrt fram að við dönsuðum ekki – stúlkur dansa…við gerðum þó lúftgítar auðvitað! Eftir slíka frammistöðu þótti okkur ekki líklegt að aðrir gerðu betur og löbbuðum meira að segja framhjá Rubber Soul, enda var þar allt að verða vitlaust eins og endranær og nú alveg án okkar hjálpar!
Upp rann leikdagurinn sem er auðvitað stóra stundin í ferðunum. Við dreifðum aðgöngumiðum að morgni og að því loknu rúlluðum við stjórarnir upp á völl. Í bílnum á leiðinni frétti Steini það afskaplega óvænt að Þórir frændi sinn – sem var með okkur í ferðinni – hefði þá iðju að aðstoða sérsveitina við handtökur og annað slíkt bras. Kristján hafði þetta eftir öruggum heimildum, svo öruggum að þegar við bárum þetta upp á Þóri sjálfan síðar þá bara trúði hann þeim frekar en sér sjálfum og var bara býsna ánægður með það að vera sennilega lágvaxnasta sérsveitarlögga sögunnar og hann var óskaplega glaður að hafa upplifað það þrátt fyrir að hafa alls ekki gert það. Vel gert Þórir!
Uppi á Walton Breck Road förum við félagar alltaf á The Park. Stemmingin þar er víðfræg, svo víðfræg að þar inni eru nú að stærstum hluta ferðamenn frá Norðurlöndum og víðar sem ganga og leita að “lókölum” til að spyrja “when do you start to sing”. Góðvinur okkar hann Mark fékk nokkrar slíkar spurningar þennan morgun og þær féllu honum ekki í geð og svaraði þeim öllum á sama hátt. “You start singing and I’ll join”. Það er vissulega eftirsjá í miklu Park-skoppi á leikdag en bara tímanna tákn þegar kostnaður við leikina er orðinn þannig að heimamönnum þykir nóg um. Það má þó alveg segja þeim sem þar dvöldu þennan dag að það var bara töluvert sungið og trallað, meira að segja Mark viðurkenndi að þetta væri bara með því sterkara á þessari leiktíð.
Svo kom leikurinn og ekki til neins að rifja hann upp. Ég fékk sæti ofarlega í nýju stúkunni um hana miðja, ca. 5 röðum frá efstu sætum. Eins og sést á myndinni þá er útsýnið þaðan gott þó vissulega sé ansi langt niður og maður svolítið frá öllu því sem á gengur. Sem var kannski ágætt í þessum leik, lágpunktur leiksins klárlega þegar gestirnir í stúkunni tóku Víkingaklappið.
Stúkan er býsna magnað mannvirki og búið að setja í gang “fan zone” fyrir utan og alls konar skemmtun inni áður en leikur hefst og í hálfleik sem allt var voða fínt. Ljóst líka að innkoma félagsins eykst verulega, okkur var greint frá því að tekjur félagsins af heimaleikjum hefðu aukist um 3 milljónir punda pr. leik í vetur, sem er auðvitað frábært. Það var óneitanlega ansi mögnuð lífsreynsla að trilla upp fjóra langa rúllustiga á leiðinni í sætið og síðan labba upp einn með rosalegt útsýni yfir borgina á alla kanta. Mér fannst þó stór ókostur að maður sá alltof vel yfir á Goodison Park, það þarf eiginlega að blokka það svæði af…bara negla krossviðarplötu og málið dautt.
Eftir leik fórum við fyrst yfir á Park, en þegar Íslendingur nr. 207 hafði labbað upp að Steina af öllum mönnum til að segja það að “það var allavega hann Gylfi sem skoraði sigurmarkið” þá sáum við Kristján á litarhafti félaga okkar að nú væri komið nóg og við fengum Mark til að benda okkur á annan stað þar sem okkar ágæti landsliðsmaður yrði ekki aðalumræðuefnið. Þar náðum við niður mesta pirringnum enda miklu betra að upplifa tapleiki í Liverpoolborg en við sjónvarpið því maður veit að borgin mun hjálpa til við björgunaraðgerðir.
Þær fólust auðvitað fyrst og síðast í góðum félagsskap, mat og veigum. Að aflokinni góðri máltíð var haldið í Matthíasarstræti á ný þar sem við rákumst á ritstjórn Fótbolta.net eins og hún lagði sig. Við Steini töldum það skyldu okkar að fara og sýna þeim Bierkeller sem enn lifir ágætis lífi þrátt fyrir að ekki sé enn sama geðveikin þar og forðum. Eftir að hafa fallið í þá gryfju að dansa smá upp á bekkjum var staðnum lokað. Allt í einu sáum við Steini að við vorum umkringdir ungum mönnum sem voru enn í góðum gír og því var ákveðið að fylgja þeim á heimavöll diskóklúbba borgarinnar sem er í kringum Concert Square torgið og þangað var stormað. Eftir að hafa safnað nokkrum drengjum þangað og beðið eftir Ingimundi Norðfjörð ferðafélaga okkar sem taldi okkur gömlu mennina vera leiða hópinn í töluverðar ógöngur en uppgötvaði afskaplega glaður að svo var ekki þá töldum við gamlingjarnir okkar hlutverki lokið. Veifuðum til strákanna sem löbbuðu glaðir inn á risastóran írskan dansibar og héldu þar merkjum Íslendinga hátt á lofti á meðan við trítluðum heim á hótel og hugsuðum okkur gott til þeirrar glóðar sem hótelbarinn var. Sú glóð var þó lokuð svo við héldum í sæng svo ekkert varð af fótboltaspjalli þá nótt.
Sunnudagurinn var svo hefðbundinn “dagurinn eftir leik” – dagur. Verslað, horft á fótbolta á risaskjám og hann gladdi okkur ekkert meir en dagurinn á undan. Setið á hótelbarnum og talað um fótbolta, farið út að borða og aftur heim á hótelbar að tala um fótbolta. Yfirvegaður dagur að öllu leyti enda ræs snemma á mánudagsmorgun. Rútubílsstjórinn sá vissi hvar rútustæði hótelsins var og því var einfalt að hoppa inn í rútuna kl. 7:00 að loknum morgunmatnum þar sem við gleyptum síðustu bresku beikonsneiðarnar og soðnu sveppina fyrir íslenska Cheeriosið. Umferðin á M62 sveik engan, stöðug stappa þar svo rútan var aðeins lengur á leiðinni en uppeftir. Við náðum þó á góðum tíma á flugvöllinn og allt gekk eins og smurt þar. Um þrjúleytið á mánudegi lauk svo hópferðinni þar sem hún hófst, á Miðnesheiðinni ágætu.
Þessi sjöunda ferð okkar Kopverja var a.m.k. jafn góð og þær sem á undan hafa verið. Ferðahópurinn beinlínis frábært samsafn fólks sem naut borgarinnar í botn og var sjálfum sér og sínum til mikils sóma. Allt gekk upp sem við vildum utan þessa helvítis fótboltaleiks. Frábær þátttaka á viðburðunum okkar og mjög öflug umræða um mál málanna – Liverpool FC – reglulega á hótelbarnum alla helgina.
Ég vill fyrir hönd okkar fararstjóranna í ferðinni þakka öllum ferðafélögum okkar frábæra samfylgd, það væri alveg magnað að fá að sjá ykkur aftur í slíkri ferð hið allra fyrsta!
Hvernig gegnru þessu Windows söfnun? Fínt að fá síma sem getur ekkert nema hringt og í mesta lagi sent SMS.
En við myndina ætlaði ég að setja, réttast væri að berkja hann, a.m.k. bíta hann…aftur.
Fyrir hönd okkar feðga langar mig að þakka kærlega fyrir frábæra ferð þó að úrslitin hafi verið slæm. Allt skipulag uppá 10, miklir fagmenn ? Þetta var mín önnur ferð með ykkur og alveg örugglega ekki sú síðasta. Takk takk
Eitt er víst að maður þarf að fara koma sér í eina svona KOP ferð, það er á hreinu. Ég hef reyndar komið tvisvar á Anfield 1997, Liverpool United þar sem leikar fóru 1-3 fyrir Scum, þar sem Gary nokkur Pallister skoraði 2 eins skallamörk. Svo fór ég 2009 þar sem ég sá Liverpool fella Newcastle, leikar fóru 3-0 fyrir okkur. Þar sat ég í við hornfána í KOP Stúkunni, eina sem gerðist þarna nálægt var að Alonso var tæklaður þannig að hann var borinn af velli í börum. Eitt var þó í þessari ferð þegar ég og konan fórum á Cavern og ég var alveg gáttaður að það væri búið að breyta staðnum frá því 1997, svo seinna í ferðinni þá áttuðum við á okkur á því að það væri 2 staðir Cavern Pub og Cavern Club :), mikið sem mér var létt að finna þennan eina sanna Cavern Club.
Þessi ferð var rússíbani!
Hef farið í þær nokkrar en þessi var hreint út sagt mögnuð!
Það er 100% að ég skelli mér með ykkur í næstu KOP ferð, það er bara þannig að alveg sama hversu oft maður fer til Liverpool þá mun maður upplifa nýja hluti 🙂
Reyndar var ég veikur og konan líka.. hún slasaði sig á fætinum á fyrsta degi og haltraði hina dagana.. töpuðum leiknum og endaði ég á flugvellinum í Birmingham á að ýta konunni áfram í hjólastól.. en fyrir utan það þá var þetta tær snilld! haha
Þakka ykkur kæru félagar fyrir að opna fyrir mér nýja heima í skemmtanalífinu í Liverpool.. ég sem hélt ég væri svo með þetta.. en þið vitið alveg hvað þið eruð að gera 🙂
Þangað til næst, takk fyrir okkur 🙂
Kv. Ingimundur