Ég er Einar Örn Einarsson og bý í Stokkhólmi.
Ég er forfallinn Liverpool aðdáandi. Ég hef haldið með liðinu frá því að ég var 8-9 ára gamall. Ég hef átt óteljandi ánægjustundir tengdar Liverpool og alltof margar sorgarstundir.
Liverpool hefur áhrif á líf mitt. Ég er oftast í góðu skapi þegar liðið vinnur og töp liðsins gera það að verkum að ég verð fúll útí vini og vandamenn. Ég les allt á netinu um Liverpool og horfi á alla leiki liðsins. Ég hef farið tvisvar á Anfield – bæði sá ég þá vinna Blackburn og svo sá ég tapleikinn gegn Benfica í Meistaradeildinni. Hápunkturinn er þó þegar ég sá Liverpool vinna Meistaradeildina í Istanbúl.
Ef við lítum aftur í tímann, þá eru Barnes, Rush og Fowler í miklu uppáhaldi hjá mér af Liverpool leikmönnum.
Ég er í raun forfallinn íþróttasjúklingur. Fyrir utan Liverpool hef ég sterkar taugar til Barcelona auk argentíska, mexíkóska og hollenska landsliðsins. Uppáhaldsknattspyrnumaðurinn minn fyrr og síðar er Ruud Gullit. Auk fótboltans fylgist ég mikið með amerískum íþróttum, sérstaklega hafnabolta þar sem Chicago Cubs eru í uppáhaldi hjá mér.
Auk þess að fylgjast með Liverpool, þá vinn ég sem framkvæmdastjóri Serrano í Svíþjóð. Auk þess er ég draumóramaður og ferðamaður.
Ég hef bloggað í mörg ár á heimasíðunni minni eoe.is. Þar hef ég fjallað alltof mikið um fótbolta og ákvað að lokum að færa þau skrif yfir á þessa síðu.