Ég heiti Kristján Atli og er ’80 árgerð. Ég bý í Hafnarfirði ásamt eiginkonu og tveimur dætrum. Þær hafa engan áhuga á fótbolta.
Segja má að ég hafi nánast fæðst í Liverpool-treyju, þar sem ég ólst upp innan um eintóma Púllara. Ég hef haldið með Liverpool frá því að ég man eftir mér, og sennilega enn lengur.
Ég æfði fótbolta í rúman áratug. Byrjaði sex ára gamall með Keflavík, þar sem ég bjó á þeim árum í Njarðvík. Fluttist svo átta ára gamall til Hafnarfjarðar og æfði þar með FH allt þar til ég var átján ára. Þá hætti ég en hef reynt að stunda eins mikla lausamennsku og ég get síðan. Þá æfði ég einnig handbolta með FH, á 10-16 ára aldri, og hef enn mjög gaman af handbolta.
Auk þess að fylgjast með Liverpool vinn ég sem stöðvarstjóri hjá FMS í Hafnarfirði og á það til að stunda ritstörf í frístundum. Þess utan er mig helst að finna með nefið á kafi í góðri bók eða kvikmynd, eða dansandi við uppvaskið með góða tónlist í eyrunum.
Ég hef bloggað mörg ár, á ýmsum miðlum en þó alltaf í gegnum vefsíðuna mína og síðustu ellefu árin hér á Liverpool blogginu.