Latest stories

  • Liðið gegn Swansea

    Eftir rúmlega vikuhvíld er loksins komið aftur að Liverpoolleik. Leikjaálag hvað? Síðasti leikur var líka svo léttur að það telst eiginlega ekki með.

    Liðið hefur verið tilkynnt og er sem hér segir:

    Karius

    Gomez – van Dijk – Matip – Robertson

    Winjaldum – Can – Oxlade-Chamberlain

    Salah – Firmino – Mané

    Bekkurinn: Mignolet, Milner, Klavan, Lallana, Ings, Solanke, Alexander-Arnold.

    Það er Can sem ber fyrirliðabandið í þetta skiptið. Vonum að það hafi önnur og betri áhrif en að láta Coutinho bera bandið fyrir áramót. Annars er þetta nánast óbreytt lið frá síðasta leik, mér sýnist að það sé bara van Dijk sem kemur inn í staðinn fyrir Lovren.

    Nú er bara að sjá hvort að þetta lið nær að vinna á köldu mánudagskvöldi í StokeSwansea, enda ekki nema 8 gráðu hiti þar í augnablikinu og kólnar sjálfsagt með kvöldinu.

    Komasooooooo!!!

    Við minnum svo á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.


  • Mánudagur í Wales.

    Á mánudagskvöldið fara okkar menn í ferðalag suður til Wales og freista þess að taka þrjú stig af botnliði Swansea. Liðin í kringum okkur unnu öll sína leiki um helgina ( Tottenham á eftir að spila þegar þetta er ritað) og því ekkert annað í boði en sigur og stigin þrjú.

    Swansea

    Síðast mættust liðin á Anfield annan í jólum s.l. og  unnu Liverpool mjög þægilegan 5-0 sigur í frábærum leik. Í þeim leik stýrði Leon Britton liði Swansea til bráðabirgða en tveimur dögum síðar eða þann 28. desember réðu þeir hinn Portúgalska Carlos Carvalhal. Carlos þessi er 52 ára og hefur þjálfað fjöldann allan af liðum, flest í heimalandi sínu en einnig Besiktas og Istanbul BB í Tyrklandi. Síðast þjálfaði hann Sheffield Wednesday og hafði verið þar frá árinu 2015 en með “samþykki” beggja aðila var hann látinn taka pokann sinn á aðfangadag. Carlos var þó aðeins atvinnulaus í fjóra daga en Swansea réðu hann þann 28. desember sem áður segir.

    Síðan Carvalhal tók við Swansea hefur þeim gengið alveg þokkalega. Hann hefur stýrt þeim í fimm leikjum í deild og bikar, unnið tvo, gert tvö jafntefli en aðeins tapað einum leik og er mikill munur á að sjá þá þessa dagana þar sem horfin gleði virðist aðeins vera að koma til baka hjá þeim. Það virðast allir leikmenn þeirra leikfærir og engin í leikbanni. Ég renni blint í sjóinn og tippa á að þeir stilli upp sama byrjunarliði og í þeirra síðasta deildarleik þegar þeir gerðu 1-1 jafntefli við Newcastle á útivelli. Liðið þeirra yrði þá svona:

     

     

    Fabianski

    Van Der Hoorn – Bartley – Mawson – Olsson

    Dyer – Clucas – Ki – Carroll – Ayew

    – McBurnie –

    4-5-1 með Ki djúpan á miðjunni og hinn sterka McBurnie einan frammi. Þetta lið getur vel strítt okkar mönnum og ljóst að það má ekki fara inní þennan leik með neitt vanmat. Swansea unnu okkur einmitt 21. janúar 2017 í hörmungarleik á Anfield 2-3 en þeir eru mun veikari núna þar sem Gylfi er náttúrlega farinn en hann skoraði einmitt sigurmarkið í þeim leik.

     

    Liverpool

    Okkar menn eru á mikilli siglingu og hafa ekki tapað leik síðan 22. október þegar Tottenham fóru illa með okkur. Liverpool sitja í fjórða sætinu með 47 stig þremur stigum á eftir Chelsea sem sitja í því þriðja eftir stórsigur um helgina.

    Af okkar mönnum er helst að frétta að Lovren er tæpur fyrir leikinn með flensu en það ætti ekki að koma að sök þar sem Virgil nokkur Van Dijk er orðinn klár og leikur að öllum líkindum í hjarta varnarinnar með Matip sér við hlið í sínum fyrsta deildarleik fyrir Liverpool. Henderson er allur að ná sér af meiðslum en fer að öllum líkindum ekki með liðinu á mánudag og sömu sögu er að segja af Moreno sem er einnig að skríða saman og þeir báðir farnir að æfa eðlilega. Salah og Klavan misstu af æfingu á fimmtudaginn vegna þessarar sömu flensu og er að hrjá Lovren en Klopp var mjög vongóður á blaðamannafundi um að Salah yrði klár í leikinn.  Clyne situr svo náttúrlega sem fastast á meiðslalistanum ásamt Sturridge sem er sagður koma til baka eftir um hálfan mánuð. Klopp gaf það svo skýrt út að Karius væri orðinn markvörður nr eitt og því mun hann byrja á mánudaginn.

    Ég tippa því á liðið svona:

     

    Karius

    Gomez – Matip – Van Dijk – Robertson

    Wijnaldum – Can – Chamberlain

    Salah – Firmino – Mané

    Sama lið og gegn Manchester City nema að Van Dijk kemur inn í stað Lovren sem er mikil styrking. Leikmenn hafa fengið vikuhvíld og því tel ég að Klopp stilli upp sínu sterkasta liði. Persónulega væri ég til að sjá Trent Arnold spila þennan leik og svo getur vel verið að Lallana komi inn í stað annaðhvort Wijnaldum eða Chamberlain. Eins er spurning hvort Salah verði 100 % og þá hvort Solanke eða Ings fái sénsinn.

     

    Spá

    Við eigum að vinna þetta lið þrátt fyrir að það megi alls ekki vanmeta þá, við stuðningsfólk Liverpool vitum svo að það er ekkert gefið eða auðvelt þegar kemur að okkar mönnum. Ég spái samt nokkuð öruggum sigri 1-4 þar sem Mané skorar tvö og Salah og Firmino sitt markið hvor. Koma svo!! YNWA!!

  • Á sama tíma eftir 4 ár

    Núna nýlega birtist þessi mynd á Reddit. Hún sýnir hópinn eins og hann leit út fyrir tímabilið 2013-2014. Það sem er athyglisvert er að af öllum þessum hópi manna þá eru aðeins fjórir leikmenn eftir: Henderson, Sturridge, Mignolet og Flanagan. Aðrir eru hættir, hafa verið seldir, nú eða reknir. Og ef við skoðum þessa fjóra sem eftir standa, þá er Sturridge mögulega á leiðinni til Ítalíu, sama gæti átt við um Mignolet, Flanagan líklega á leið í grjótið, og í raun bara Henderson sem gæti mögulega átt einhverja framtíð hjá klúbbnum. Þetta eru því allsvakaleg umskipti á ekki lengri tíma.

    Þá spyr maður sig: hvernig verður staðan eftir 4 ár? Undirritaður ákvað því að spyrja lesendur /r/LiverpoolFC hvaða leikmenn þeir teldu að yrðu enn í liðinu eftir 4 ár, þ.e. í janúar árið 2022. 16 svöruðu með afgerandi hætti, og að meðaltali voru um 8.6 leikmenn nefndir í hverju svari. Það er semsagt reiknað með að heldur fleiri verði enn til staðar eftir 4 ár heldur en eru núna fjórum árum eftir 2013/2014 tímabilið ágæta. Mögulega skýrist það af því að fólk telji líklegra að nú séum við með stjóra sem verði e.t.v. enn við stjórnvölinn eftir þennan tíma, eða hugsanlega að fólk telji meðalaldurinn vera þannig að leikmenn séu komnir til að vera. Ein skýring gæti líka verið sú að fólk telji að leikmannakaupin síðustu árin hafi e.t.v. verið gáfulegri heldur en árin þar á undan.

    En hverjir gætu svo þessir 9 leikmenn verið? Þessir fengu a.m.k. flest atkvæði:

    1. Virgil van Dijk – 15 stig
      Já flestir telja að við séum komin með framtíðarleikmann með nýjustu kaupunum. Þarf kannski ekki að koma á óvart.
    2. Trent Alexander-Arnold – 14 stig
      Fólk virðist hafa litla trú á því að Scouserinn okkar sé að fara neitt annað.
    3. Alex Oxlade-Chamberlain – 14 stig
      Fólk hefur trú á því að Chambo muni reynast okkur vel, því tæpast væri hann enn á staðnum annars eftir 4 ár? Ég held að síðustu vikur hafi sýnt okkur að hann hefur allt til að bera til að vera a.m.k. næstu 4 ár hjá klúbbnum.
    4. Joe Gomez – 13 stig
      Fólk virðist líta svo á að vörnin okkar sé komin til að vera, og þrátt fyrir að Joe okkar hafi verið ögn mistækur eru líkur á að hann muni læra með tímanum og verða bæði öflugur og mikilvægur í vörninni.
    5. Bobby Firmino – 11 stig
      Hver veit, kannski verður gerður við hann samningur til lífstíðar? Margir virðast a.m.k. vera á því að þessi litríki (*hóst* gul spjöld fyrir fagnaðarlæti *hóst*) framherji okkar verði hér áfram. Sumir tala jafnvel um hann sem mögulegan fyrirliða.
    6. Andy Robertson – 9 stig
      Skotinn með stállungun er búinn að vera að vinna sig inn í hjörtu Liverpool stuðningsmanna á síðustu vikum, og margir vilja sjá hann hér til langframa. Segir ekki sagan líka að Liverpool vinni aðeins titil með Skota innanborðs?
    7. Joel Matip – 7 stig
      Eins og áður sagði virðist fólk líta svo á að vörnin okkar sé orðin bara ágætlega mönnuð, og telja að Matip verði áfram innanborðs næstu 4 ár.
    8. Naby Keita – 7 stig
      Keita er vissulega ekki opinberlega orðinn Liverpool leikmaður, en það voru engu að síður margir sem nefndu hann.
    9. Ben Woodburn – 7 stig
      Þó svo að prinsinn af Wales hafi fá tækifæri fengið í vetur, þá megum við ekki gleyma að hann er aðeins 18 ára (verður 19 á árinu), og verður því aðeins 22ja ára í janúar 2022.

    Næstu menn inn voru Mané með 6 stig, Clyne og Winjaldum með 4, Karius, Moreno og Solanke með 3 og aðrir minna. Áhugavert fannst mér hve fáir reiknuðu með að Salah yrði hér eftir 4 ár. Þá voru leikmenn eins og Mignolet, Lovren, Milner, Can, Sturridge, Ward, Flanagan og Markovic ekki nefndir á nafn.

    Einhver grínistinn nefndi Griezmann, og Klavan var einusinni nefndur á nafn, og þá sem sá sem hefði tekið við Klopp sem knattspyrnustjóri liðsins. OK mögulega var ekki full alvara að baki öllum svörunum.

    Hér er að sjálfsögðu aðeins um framtíðarpælingar að ræða, og tíminn einn mun leiða í ljós hve stór hluti hópsins verður enn til staðar eftir 4 ár. Persónulega telur greinarhöfundur að það muni skipta miklu hvort Klopp haldi áfram með hópinn, eða hvort það verði skipt um knattspyrnustjóra á miðri leið (sem vonandi gerist ekki!)

    Að lokum væri gaman að sjá hvað lesendur kop.is halda í þessum efnum. Hvaða leikmenn sjáið þið fyrir ykkur í liðinu í janúar árið 2022? Setjið endilega ykkar pælingar í athugasemdir. Við skoðum svo niðurstöðuna að fjórum árum liðnum.

  • Varnartengiliðurinn í útrýmingarhættu?

    Þessi áratugur hefur að mestu verið hreint út sagt afleitur fyrir varnartengiliði Liverpool, eins og áratugurinn þar á undan var frábær. Líklega er ekki tilviljun að varnarleikurinn hefur verið vandamál allan þennan tíma með tilheyrandi vangaveltum um miðverði og markmenn.

    Didi Hamann og Javier Mascherano skiptu nánast með sér heilum áratug og þessi staða á vellinum var lítið sem ekkert til umræðu. Vægi varnatengiliðsins minkaði mjög mikið við brotthvarf Mascherano sumarið 2010 og varð að engu haustið 2011 er Lucas Leiva meiddist.

    Hér er lauslega raðað saman þeim sem hafa spilað aftast á miðjunni heilt yfir hvert og eitt tímabil síðan Benitez hætti.

    (more…)

  • Podcast – Er Karius plat markvörður?

    Klopp er búinn að taka ákvöðun með markvarðarstöðuna, Karius er núna númer eitt ef eitthvað er að marka fréttir og hann hefur verið mjög mikið til umræðu í kringum leikinn gegn Man City. Liverpool var fyrsta liðið til að vinna City í vetur og því slóum við tvær flugur í einu höggi og fengum Man City mann landsins numero uno og fyrrverandi landsliðsmarkvörð með í þáttinn. Gunnleifur Gunnleifsson mætti og spilaði með Magga í markinu í þessum þætti. Mikill meistari og stórgaman að hafa hann með.

    Kafli 1: 00:00 – Intro – Besti leikur tímabilsins?
    Kafli 2: 09:20 – Karius vs Mignolet – Umræða um markvarðastöðuna
    Kafli 3: 28:15 – Ederson markmaður City og innkoma hans í deildina
    Kafli 4: 34:00 – Ox, Sané og Sterling – hvert er þakið hjá þessum leikmönnum?
    Kafli 5: 48:36 – Hversu stórt statement var þessi sigur á City?
    Kafli 6: 59:10 – Swansea um helgina, spá og lokaorð.

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur: SSteinn, Maggi og Gunnleifur Gunnleifsson

    MP3: Þáttur 180

  • Liverpool 4-3 Man City

    Meistaraefnin himnabláu frá Manchester komu ósigraðir í deildinni á Anfield til að mæta Rauða hernum í toppformi að lokinni Liverpool-rauðri jólatörn. Bæði lið lögðu langar ósigraðar leikjaraðir að veði og ljóst að mikið væri undir í toppbaráttunni.

    Mörkin

    1-0 Alex Oxlade-Chamberlain 9.mín
    1-1 Leroy Sané 40.mín
    2-1 Roberto Firmino 59.mín
    3-1 Sadio Mané 61.mín
    4-1 Mohamed Salah 68.mín
    4-2 Bernardo Silva 82.mín
    4-3 Ilkay Gundogan 91.mín

    Leikurinn

    Eins og búast mátti við hjá þessum tveimur stórskemmtilegu fótboltaliðum þá var leikurinn hraður og opinn frá fyrstu mínútu. Ekki þurfti að bíða lengi eftir stórtíðindum því að strax á 9.mínútu tók Alex Oxlade-Chamberlain öflugan sprett beint upp af miðjunni og hlóð í fast skot með grasinu sem söng í netinu út við stöng. Hugsanlega hefði Ederson átt að gera betur en þetta eru akkúrat þau skot sem markverðir eiga í vandræðum með og við gefum Ox-Cham hrósið fyrir fantafínt framlag.

    Man City hrukku ekki í kút við markið heldur blésu til sóknar og ógnuðu hraustlega stuttu síðar þegar að De Bruyne átti fasta fyrirgjöf sem Aguero var skónúmerinu frá því að klára í netið. Gott tempó var áfram í leiknum með bæði lið öflug í að pressa hvort annað og hágæði í boði fyrir stuðningsmenn sem hlutlausa.

    Leikurinn var í góðu jafnvægi fyrir Liverpool þegar að hárri sendingu var skipt yfir á vinstri vænginn á 40. mínútu. Gomez tók dreymið boltagláp og gleymdi sinni staðsetningu þannig að Sane keyrði framhjá honum inn í teiginn, tók tvist og bast og bombaði boltanum í netið á nærstönginni. Klárlega tvöföld mistök hjá Gomez og Karius og dýrkeypt þegar að Liverpool var með leikinn undir þægilegri stjórn.

    1-1 í hálfleik.

    City byrjuðu ferskari eftir te-tímann í hálfleik og Otamendi átti skalla í slánna eftir hornspyrnu á 52.mínútu. Liverpool vaknaði við þetta og stuttu síðar hlóðu þeir í tvöfalda ógnun þar sem Ederson varði þrumuskot Salah eftir hornspyrnu og í kjölfarinu átti Ox-Cham skot í utanvert netið við nærstöng. En við vorum komnir í gírinn og á 59. mín. settum við í túrbó með nítró-innspýtingu. Títtnefndur Chamberlain átti sendingu upp vinstra megin við vítateiginn, Firmino tók grjótharða öxl á Stones og vippaði með snúning í stöngina inn yfir samlanda sinn í markinu. Geggjað mark og kveikti vel í Anfield.

    Liverpool voru komnir með yfirhöndina og létu kné fylgja kviði. Tveimur mínútum síðar pressum við boltann af City og Mane setti gott skot í stöngina og framhjá. Senegalinn ætlaði sér að skora og á 61. mínútu fékk hann boltann rétt við vítateig og klíndi vinstrifótar-utanfótar-snúningsnuddu í nærskeytin hjá varnarlausum Ederson. Krafturinn og stemmningin var öll okkar megin og við hjuggum áfram grimmilega í sama knérunn. Efnileg sending inn fyrir vörn City var tímanlega hreinsuð af Ederson en sú hreinsun varð að hreinsunareldi þegar að Salah náði valdi á boltanum og sendi hann í listilegum boga yfir hinn brasilíska. 4-1! Game over???

    Þetta virtist vera banabiti City og Liverpool hélt áfram þannig að þeir myndu hlaða í enn meiri niðurlægingu fyrir þá himnabláu. Pressan hjá Robertson var sérlega lýsandi fyrir kjarkinn og ákveðnina í okkar mönnum þegar að Skotinn knái pressaði alla leið niður í vítateig með góðum árangri. En ekkert er búið fyrr en það er búið og skjótt skipast veður í lofti. Á 84.mínútu á City sóknarfærslu sem endar með því að boltinn fellur vel fyrir varamanninn Bernardo Silva í teignum sem hamraði hann í netið. Óverjandi fyrir Karius og allt í einu fór taugaskjálfti um Anfield allan.

    Leiktíminn var að fjara út þegar á 91. mínútu fær Gundogan sendingu frá Aguero sem hann klárar með tápoti og í netið. Enn tími eftir og ekkert öruggt. City áttu tvær hættulegar ógnanir með tveimur skotum frá Aguero en við náðum að hanga á sanngjörnum sigri.

    Bestu menn Liverpool

    Margir leikmenn Liverpool áttu flottan leik í dag og þrátt fyrir að við höfum fengið 3 mörk á okkur þá fannst mér vörnin eiga góðan dag, sérstaklega Robertson sem var ódrepandi og einnig hafsentarnir Matip og Lovren. Augljóslega voru einnig sóknarmennirnir okkar flottir með 4 mörk skoruð og sérstaklegt gleðiefni er að Mane virðist vera að komast aftur í gang þó að hann sé enn mistækur inn á milli. Minn maður leiksins er Alex Oxlade-Chamberlain sem bara vex og vex í sínu hlutverki. Setti glæsilegt upphafsmark sem gaf tóninn og með stoðsendingu að auki. Frábær kaup á öflugum enskum leikmanni fyrir nútíð og framtíð.

    Vondur dagur

    Enginn átti alvondan dag en mistök Gomez og Karius í fyrsta markinu gefa þeim mínus í kladdann.

    Tölfræðin

    Tvær sigurhrinur mættust í þessum leik og sem betur fer þá var hrina Liverpool hlutskarpari. Þetta var 18. leikur Liverpool án taps í röð í öllum keppnum og geri aðrir betur. Að auki stoppuðum við draum City um að fara ósigraðir í gegnum deildarkeppnina þó að vissulega séu þeir ennþá ótrúlega sigurstranlegir með 15 stiga forskot á næstu lið. Einnig eru þetta 5 sigurleikir í röð og lengi megi sú sigurganga halda.

    Umræðan

    Það verður létt yfir Púlurum næstu vikuna eftir að glæsilegur derby-sigur á Everton var dempaður með sölunni á Coutinho. Liverpool kann að vinna leikina með skorinu 4-3 og við tókum Istanbúlíska-þrennu á stuttum tíma til að vinna leikinn. Það er alveg ljóst að verðmætasti maður Liverpool FC er Jurgen Klopp þannig að liðið mun halda sínu striki undir hans mögnuðu leiðsögn. Maður kemur í manns stað. Vonandi verða styrkingar í janúar en þessi leikur sýndi að núverandi liðshópur er nógu góður til að vinna “besta” lið Englands að öllu óbreyttu. Til að keppa um toppinn þá vantar okkur nokkrar hágæða viðbætur en við erum nálægt þessu og framtíðin er okkar. Gleðjumst á meðan gleðin er í boði. YNWA!

  • Byrjunarliðið gegn Man City

    Það er skammt stórra högga á milli þessa dagana. Derby-bikarsigur um síðustu helgi og í dag er það risaslagur Rauða hersins við ósigrað ofurlið Guardiola & co. frá ljósbláa hluta Manchester. Leiksins hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu og nú er komið að veislunni. Fyrstu fregnir af mannavali fyrir okkar menn voru þó ekki sem bestar því að um hádegisbil bárust þær fregnir að stóri leikmaðurinn okkar missir af stórleiknum í dag. Van Dijk ku vera tæpur aftan í læri (tight hamstring) og ekki verður tekin áhætta með hans heilsu að þessu sinni.

    En Liverpool-liðsval Klopp hefur verið kunngert og er eftirfarandi:

    Byrjunarlið Liverpool gegn Man City

     

    Bekkurinn: Mignolet, Milner, Klavan, Lallana, Ings, Solanke, Alexander-Arnold.

    Mo Salah er kominn aftur inn eftir meiðsli og styrkir framlínuna. Karius heldur sínu sæti frá síðasta leik og fær því annað tækifæri til að sanna sig. Lallana og Milner fara á bekkinn og Wijnaldum kemur inn á miðjuna.

    Hjá Man City er uppstillingin svona:

    Bekkurinn: Bravo, Danilo, Mangala, Bernardo Silva, Diaz, David Silva, Zinchenko.

    Koma svo og keyra upp stemmninguna! Þetta er okkar tími – þetta er okkar stund!

    Come on you REDS! YNWA!

    Við minnum svo á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.


  • City menn mæta á Anfield á sunnudaginn

    Þá er Coutinho farinn og ekkert fab four lengur, aðeins skytturnar þrjár en lífið heldur áfram og á sunnudaginn mæta verðandi deildarmeistarar Manchester City á Anfield. City liðið er taplaust í deildinni á árinu og hafa aðeins tapað einum leik yfir höfuð, gegn Shakhtar í meistaradeildinni þegar þeir voru þegar búið að vinna sinn riðil.

    Andstæðingarnir

    Margir vilja meina að þetta City lið Guardiola sé besta lið í sögu ensku úrvalsdeildarinnar og eiga þeir margt til síns máls. Liðið situr í efsta sæti með 62 stig eftir 22 leiki en það gerir að meðaltali 2,8 stig í leik. Ef þeir halda sama tempói út tímabilið enda þeir í 107 stigum en met stigafjöldi í deildinni er 95 stig, met sem Mourinho setti með Chelsea 2005. Þeir hafa skorað 64 mörk tæplega 3 mörk í leik, næsta markahæsta lið deildarinnar er Liverpool með 50 mörk.

    Liðið hefur þó sýnt að þeir eru ekki ósigrandi þeir hafa unnið nokkra góða karakter sigra með sigurmörkum undir lok leikja og voru heppnir gegn Crystal Palace um jólin þegar Palace menn klúðruðu víti á 92. mínútu í markalausu jafntefli.

    David Silva gæti misst af leiknum en kona hans fæddi fyrirbura um miðjan desember mánuð sem berst nú fyrir lífi sínu og hefur Silva verið inn og út úr liðinu síðan en Guardiola hefur gefið það út að Silva hefur fullt vald yfir því hvaða leikjum hann vilji vera með í og hverjum hann vilji sleppa. Vonum að barninu heilsist vel og gott að sjá liðið standa við bakið á sínum manni.

    Af öðrum leikmönnum City að þá er sóknarmaðurinn Gabríel Jesus enn frá vegna meiðsla ásamt hinum símeidda Vincent Kompany og skemmtilegasta twittara deildarinnar Benjamin Mendy. Ég gæti því trúað að þeir stilli upp sínu liði eitthvað á þessa vegu.

    Ederson

    Walker- Stones – Otamendi – Delph

    B.Silva – Fernandinho – De Bruyne

    Sané – Aguero – Sterling

    Undanfarnir leikir

    Okkur hefur undanfarið gengið vel gegn City, sérstaklega á heimavelli en Liverpool hefur ekki tapað á Anfield gegn City síðan árið 2003 þegar Anelka skoraði bæði mörk City-manna í 2-1 sigri eftir að Milan Baros hafði komið Liverpool yfir. Síðasti leikur liðanna fór hinsvegar á versta veg, fyrsta hálftíman var jafnræði með liðunum þar til að Mané var rekinn útaf og féll þá allur botn undan okkar mönnum og City kláraði leikinn með 5-0 sigri. Liðin fara þó bæði inn í þennan leik full sjálfstrausts eftir jólatörnina þar sem bæði lið sóttu þrettán stig af fimmtán mögulegum.

    Liverpool

    Stóru fréttirnar koma nánast daglega nú eftir að janúarglugginn opnaði fyrst bætum við við okkur dýrasta varnarmanni sögunnar sem skorar sigurmark í sínum fyrsta leik gegn erkifjendunum fyrir framan kop stúkuna en augnabliki seinna er Coutinho farinn á brott. Brotthvarf hans dró mig þó ekki eins mikið niður og ég bjóst við, kannski er það vegna komu Van Dijk eða jafnvel frammistöðum Mo Salah en ég er bara frekar bjartsýnn á framhaldið.

    Liverpool stendur eins og er í fjórða sæti deildarinnar, þremur stigum á undan Tottenham í fjórða sætinu og einnig þremur stigum frá Manchester United í öðru sætinu. Það er ljóst að meistaradeildar baráttan verður hörð í ár og það væri mjög verðmætt að vera fyrsta liðið til að leggja City í vetur, ekki bara stigana vegna heldur einnig uppá móral liðsins næstu vikurnar og sýna heiminum hversu gott lið við erum með þrátt fyrir að Coutinho sé farinn.

    Við erum búnir að vinna þrjá góða karakter sigra í síðustu þremur leikjum, fyrst þar sem við lenntum undir snemma leiks og svo tvo þar sem við fengum á okkur jöfnunarmark seint í leiknum. Ég hef talað mikið um öll þessi jafntefli sem liðið hefur gert í ár og verið mjög pirraður yfir þeim og fyrr á tímabilinu hefðu allir þessir þrír leikir endað með jafntefli en liðið er greinilega að bæta sig á þessu sviði og ég er ekki frá því að þetta hafi verið með ánægumestu Liverpool leikjum sem ég hef horft á í vetur. Auðvitað er skemmtun að sjá liðið vinna 7-0 sigra í meistaradeildinni en þetta var eitthvað sem ég hélt að liðið hefði ekki í sér og hvað þá þrisvar í röð!

    Meiðslalistinn er svipaður og undanfarnar vikur en þar eru Clyne, Henderson og Moreno en Mo Salah mun að öllum líkindum byrja leikinn þrátt fyrir litilháttar meiðli sem hann varð fyrir í Leichester leiknum og urðu til þess að hann missti af síðustu tveimur leikjum. Ég býst því við að liðið verði eitthvað í þessa áttina.

    Mignolet

    Gomez – Van Dijk – Matip – Robertson

    Wijnaldum – Can – Chamberlain

    Salah – Firmino – Mané

    Einnig gæti verið að við sjáum Lovren á kostnað Matip en ég hugsa að Klopp haldi sig við parið úr Everton leiknum og svo gæti Milner komið inn á miðsvæðið í stað annað hvort Chamberlain eða Wijnaldum.

    Það er alveg ljóst að þetta verður hrikalega erfiður leikur en það er kominn tími á að einhver stoppi þetta City lið og ég held að við séum með lið sem hefur fulla getu til að gera það. Ég spái því að við vinnum þennan leik 2-1 þar sem Salah og Chamberlain skora fyrir Liverpool en Sterling setur eitt fyrir City.

  • Podcast – Liverpool rússíbaninn á fullri ferð

    Það er aldrei lognmolla í kringum Liverpool og höfum við stuðningsmenn heldur betur farið bæði hátt upp og langt niður í þessari viku. Þetta kemur sér allt sama vel fyrir okkur sem erum að reyna halda úti vikulegum podcast þætti enda af nægu að taka. Fengum engan annan en Hörð Magnússon til að vera með okkur að þessu sinni.

    Kafli 1: 0:00 – 15:45 – Intro og áhrif Coutinho
    Kafli 2: 15:46 – 21:16 – Hvaða skilaboð sendir salan á Coutinho?
    Kafli 3: 21:17 – 30:36 – Eftirmenn Coutinho (Janúarglugginn)
    Kafli 4: 30:37 – 59:16 – Everton, Van Dijk, Firmino og Colgate og Sammy Lee
    Kafli 5 – 59:17 – 1:06:30 – Man City og lokaorð

    Man

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur: SSteinn, Maggi og Hörður Magnússon íþróttafréttamaður hjá 365.

    MP3: Þáttur 179

  • Hvað næst?

    Það er ekki hægt að breyta því sem orðið er og ljóst að Liverpool er svo sannarlega með boltann og þarf að sækja eftir söluna á Coutinho. Það er ekkert eðlilegt við það að selja samningsbundinn leikmann á miðju tímabili þegar liðið er í harði samkeppni á þremur vígstöðum án þess að vera með eitthvað mótsvar tilbúið. Jurgen Klopp er svo sannarlega að bjóðast til að taka á sig alla pressuna sem fylgir því að leyfa sölu á Coutinho núna og veit líklega manna best hvaða áhrif þetta getur haft á tímabilið hjá Liverpool, hvort sem hann er að meta það jákvætt eða neikvætt.

    Persónulega held ég að Liverpool sé ekki með neitt tilbúið í janúar umfram Van Dijk sem tengist þessum díl ekki neitt. Flestir fjölmiðlar tengdir Liverpool virðast núna vera senda út pistla um hversu ólíklegt það er að eitthvað verði gert í janúar og að sagan segi okkur að Klopp sé tilbúinn að bíða og fá það sem hann vill. Það er líka svo sannarlega satt, hann var tilbúinn að bíða heilt ár eftir Naby Keita og hálft ár eftir Van Dijk, það hjálpar Liverpool alls ekki neitt á þessu tímabili. Að selja Coutinho og kaupa ekkert í staðin setur þetta tímabil ennþá meira í uppnám. Fyrir mér er það satt að segja ótrúlegt ef sala á Coutinho sé leyfð núna án þess að það sé til mótsvar. Liverpool hefur tvisvar náð Meistaradeildarsæti á þessum áratug og er allt annað en með áskrift að sæti sínu þar. Fyrir utan að liðið er ennþá í Meistaradeildinni á þessu tímabili. Að leyfa sölu á leikmanni sem er að koma að marki á innan við 80.mínútna fresti er ekki mögulegt nema sú ákvörðun sé gagnrýnd.
    (more…)

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close