Þá er Coutinho farinn og ekkert fab four lengur, aðeins skytturnar þrjár en lífið heldur áfram og á sunnudaginn mæta verðandi deildarmeistarar Manchester City á Anfield. City liðið er taplaust í deildinni á árinu og hafa aðeins tapað einum leik yfir höfuð, gegn Shakhtar í meistaradeildinni þegar þeir voru þegar búið að vinna sinn riðil.
Andstæðingarnir
Margir vilja meina að þetta City lið Guardiola sé besta lið í sögu ensku úrvalsdeildarinnar og eiga þeir margt til síns máls. Liðið situr í efsta sæti með 62 stig eftir 22 leiki en það gerir að meðaltali 2,8 stig í leik. Ef þeir halda sama tempói út tímabilið enda þeir í 107 stigum en met stigafjöldi í deildinni er 95 stig, met sem Mourinho setti með Chelsea 2005. Þeir hafa skorað 64 mörk tæplega 3 mörk í leik, næsta markahæsta lið deildarinnar er Liverpool með 50 mörk.
Liðið hefur þó sýnt að þeir eru ekki ósigrandi þeir hafa unnið nokkra góða karakter sigra með sigurmörkum undir lok leikja og voru heppnir gegn Crystal Palace um jólin þegar Palace menn klúðruðu víti á 92. mínútu í markalausu jafntefli.
David Silva gæti misst af leiknum en kona hans fæddi fyrirbura um miðjan desember mánuð sem berst nú fyrir lífi sínu og hefur Silva verið inn og út úr liðinu síðan en Guardiola hefur gefið það út að Silva hefur fullt vald yfir því hvaða leikjum hann vilji vera með í og hverjum hann vilji sleppa. Vonum að barninu heilsist vel og gott að sjá liðið standa við bakið á sínum manni.
Af öðrum leikmönnum City að þá er sóknarmaðurinn Gabríel Jesus enn frá vegna meiðsla ásamt hinum símeidda Vincent Kompany og skemmtilegasta twittara deildarinnar Benjamin Mendy. Ég gæti því trúað að þeir stilli upp sínu liði eitthvað á þessa vegu.
Ederson
Walker- Stones – Otamendi – Delph
B.Silva – Fernandinho – De Bruyne
Sané – Aguero – Sterling
Undanfarnir leikir
Okkur hefur undanfarið gengið vel gegn City, sérstaklega á heimavelli en Liverpool hefur ekki tapað á Anfield gegn City síðan árið 2003 þegar Anelka skoraði bæði mörk City-manna í 2-1 sigri eftir að Milan Baros hafði komið Liverpool yfir. Síðasti leikur liðanna fór hinsvegar á versta veg, fyrsta hálftíman var jafnræði með liðunum þar til að Mané var rekinn útaf og féll þá allur botn undan okkar mönnum og City kláraði leikinn með 5-0 sigri. Liðin fara þó bæði inn í þennan leik full sjálfstrausts eftir jólatörnina þar sem bæði lið sóttu þrettán stig af fimmtán mögulegum.
Liverpool
Stóru fréttirnar koma nánast daglega nú eftir að janúarglugginn opnaði fyrst bætum við við okkur dýrasta varnarmanni sögunnar sem skorar sigurmark í sínum fyrsta leik gegn erkifjendunum fyrir framan kop stúkuna en augnabliki seinna er Coutinho farinn á brott. Brotthvarf hans dró mig þó ekki eins mikið niður og ég bjóst við, kannski er það vegna komu Van Dijk eða jafnvel frammistöðum Mo Salah en ég er bara frekar bjartsýnn á framhaldið.
Liverpool stendur eins og er í fjórða sæti deildarinnar, þremur stigum á undan Tottenham í fjórða sætinu og einnig þremur stigum frá Manchester United í öðru sætinu. Það er ljóst að meistaradeildar baráttan verður hörð í ár og það væri mjög verðmætt að vera fyrsta liðið til að leggja City í vetur, ekki bara stigana vegna heldur einnig uppá móral liðsins næstu vikurnar og sýna heiminum hversu gott lið við erum með þrátt fyrir að Coutinho sé farinn.
Við erum búnir að vinna þrjá góða karakter sigra í síðustu þremur leikjum, fyrst þar sem við lenntum undir snemma leiks og svo tvo þar sem við fengum á okkur jöfnunarmark seint í leiknum. Ég hef talað mikið um öll þessi jafntefli sem liðið hefur gert í ár og verið mjög pirraður yfir þeim og fyrr á tímabilinu hefðu allir þessir þrír leikir endað með jafntefli en liðið er greinilega að bæta sig á þessu sviði og ég er ekki frá því að þetta hafi verið með ánægumestu Liverpool leikjum sem ég hef horft á í vetur. Auðvitað er skemmtun að sjá liðið vinna 7-0 sigra í meistaradeildinni en þetta var eitthvað sem ég hélt að liðið hefði ekki í sér og hvað þá þrisvar í röð!
Meiðslalistinn er svipaður og undanfarnar vikur en þar eru Clyne, Henderson og Moreno en Mo Salah mun að öllum líkindum byrja leikinn þrátt fyrir litilháttar meiðli sem hann varð fyrir í Leichester leiknum og urðu til þess að hann missti af síðustu tveimur leikjum. Ég býst því við að liðið verði eitthvað í þessa áttina.
Mignolet
Gomez – Van Dijk – Matip – Robertson
Wijnaldum – Can – Chamberlain
Salah – Firmino – Mané
Einnig gæti verið að við sjáum Lovren á kostnað Matip en ég hugsa að Klopp haldi sig við parið úr Everton leiknum og svo gæti Milner komið inn á miðsvæðið í stað annað hvort Chamberlain eða Wijnaldum.
Það er alveg ljóst að þetta verður hrikalega erfiður leikur en það er kominn tími á að einhver stoppi þetta City lið og ég held að við séum með lið sem hefur fulla getu til að gera það. Ég spái því að við vinnum þennan leik 2-1 þar sem Salah og Chamberlain skora fyrir Liverpool en Sterling setur eitt fyrir City.