Áður en þú tekur þátt í umræðum á Kop.is förum við fram á að þú, lesandi góður, kynnir þér eftirfarandi reglur fyrir ummælaskrif á síðunni. Sem eigendur og ritstjórar síðunnar áskiljum við okkur rétt til að framfylgja eftirfarandi reglum. Þetta teljum við nauðsynlegt til að viðhalda siðmenntuðum umræðustaðli hér á Kop.is.
1: Bann við þátttöku í umræðum
Síendurtekin brot á öllum þeim reglum sem talin eru til hér fyrir neðan skila sér í banni frá þátttöku í umræðum á Kop.is. Þetta er ekki umsemjanlegt. Brjóti menn reglurnar einu sinni fá þeir viðvörun. Hlýði menn þeirri viðvörun ekki og haldi áfram að brjóta reglurnar verða þeir bannaðir. Á þetta sérstaklega við um ummæli sem birt eru undir dulnefni.
2: Persónuníð og skítkast
Allt persónuníð (ad hominem) er með öllu bannað. Persónuníð þýðir að í stað þess að gagnrýna skoðun einhvers er viðkomandi einstaklingur gagnrýndur. Það er, umræðan er persónugerð á neikvæðan máta. Hér skiptumst við á skoðunum, ekki móðgunum. Öll ummæli sem innihalda persónuníð eða skítkast af einhverju tagi verða fjarlægð með öllu.
3: Þráðrán
Ekki er leyfilegt að „ræna þræði“ án virkilega góðrar ástæðu. Ritstjórar síðunnar munu fjarlægja öll ummæli sem innihalda þráðrán nema þeir sjái tilefni til undantekningar. Þráðrán er það kallað þegar verið er að ræða ákveðna hluti í færslu og einhver setur inn ummæli sem fjalla um allt annað. Það heitir að „ræna þræðinum“, þ.e. að beina umræðunni í annan farveg. Ætlast er til að umræður fylgi því umfjöllunarefni sem færslur penna Kop.is fjalla um. Þetta á ekki við um færslur sem heita „Opnar umræður“ eða færslur fyrir leiki sem eru í gangi. Þar má ræða það sem fólk vill og tjá sig í hita leiksins. Þráðrán eru algjörlega, undantekningarlaust bönnuð við leikskýrslur. Þær eru til að ræða viðkomandi leik og ekkert annað.
4: Birting mynda/myndbanda í ummælakerfi er bönnuð
Lesendum síðunnar gefst ekki kostur á að birta ljós- eða hreyfimyndir í ummælakerfi síðunnar. Þetta er gert til að vernda útlit síðunnar, svo ekki sé hægt að „brjóta“ síðuna með t.d. allt of stórum ljósmyndum. Ummæli sem „brjóta“ síðuna á annan hátt (svo sem ummæli með allt of mörgum upphrópunarmerkjum!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!) verða einnig fjarlægð.
Pennar Kop.is hafa einir leyfi til myndbirtinga. Vilji lesendur deila myndum á síðunni er alltaf hægt að setja inn tengil á mynd á netinu.
5: Troll og pirringur
Öll ummæli sem innihalda troll eða eru vísvitandi gerð til þess að pirra lesendur Kop.is verða fjarlægð. Við líðum engin troll á þessari síðu. Þetta á sérstaklega við um aðdáendur annarra liða sem halda að það sé sniðugt að æsa Liverpool-stuðningsmenn.
6: Síendurtekin ummæli
Það er ekki í lagi að síendurtaka sömu ummælin mörgum sinnum í sama ummælaþræði. Fólki er sjálfsagt að koma sinni skoðun á framfæri en það nennir enginn að lesa sama hlutinn mörgum sinnum. Misnotkun á fjölda ummæla í þræði kann að leiða til tímabundins banns viðkomandi aðila.
7: Aldurstakmörk
Á síðunni eru engin aldurstakmörk. Það er erfitt að meta hvenær menn eru of ungir eða nógu gamlir til að skrifa ummæli á svona síðu. En til þeirra sem yngri eru viljum við ítreka að þeir vandi ummæli sín og reyni sitt besta til að leggja sitt af mörkum í umræðunni. Ef þú ert tólf ára og skrifar vel, vertu velkominn í umræðuna. Ef þú ert fimmtán ára og nennir ekki að skrifa neitt af viti, láttu þér nægja að lesa ummæli þeirra sem nenna og geta.
8: Vandið ykkur
Þetta síðasta atriði er ekki regla heldur frekar ábending. Að baki þessari síðu standa margir sem leggja á sig mikla vinnu til að halda henni úti og framleiða gæðaefni. Í ummælaþráðunum eru einnig margir lesendur sem leggja sig fram um að skrifa innihaldsrík og skemmtileg innlegg í umræðurnar hverju sinni. Ef menn hafa ekkert meira til málanna að leggja en „þessi leikmaður er ömurlegur“, eða „þessi dómari er bara fífl“, eða „glataður leikur“, er kannski betra fyrir viðkomandi að sleppa því að skrifa ummæli og láta sér nægja að lesa síðuna.