Latest stories

  • Stelpurnar mæta Brighton

    Eftir meira en mánaðarhlé er loksins komið að leik hjá kvennaliðinu okkar. Jólafríið átti ekki að vera alveg svona langt, því það var planaður bikarleikur gegn West Ham um síðustu helgi, en völlurinn var frosinn og því var leiknum frestað.

    Þessi pása hefur haft í för með sér að liðið er að fá einhverja leikmenn til baka úr meiðslum. Marie Höbinger er þannig á bekk í kvöld, og Lucy Parry er í byrjunarliði, en þær voru báðar frá síðast þegar liðið spilaði. Sophie Roman Haug er alveg á mörkum þess að verða leikfær, og við gætum séð hana um næstu helgi. Þá er Faye Kirby komin aftur til æfinga en er ekki í hóp.

    Liðinu hefur svo borist liðsauki núna í janúarglugganum, en Sam Kerr og Julia Bartel eru komnar til félagsins. Báðar eru þær reyndar á láni: Kerr kemur frá Bayern München, og Bartel kemur frá Chelsea. Það er rétt að taka fram að téð Sam Kerr er EKKI sú sama og er á mála hjá Chelsea, þær eru alnöfnur en sú sem nú spilar fyrir Liverpool kemur frá Skotlandi á meðan sú hjá Chelsea er áströlsk.

    Andstæðingarnir í kvöld koma frá Brighton, sem má segja að sé spútniklið tímabilsins. Þær hafa verið í toppbaráttunni alveg frá byrjun, kannski ekki líklegar til að slá Chelsea eða City við, en gætu alveg endað þar rétt fyrir neðan. Enda sóttu þær nokkra sterka leikmenn í sumarglugganum: Fran Kirby kom frá Chelsea, Nikita Parris kom frá United sem og María Þórisdóttir, svo nokkrar séu nefndar.

    Liðið sem byrjaði leikinn núna kl. 19 lítur svona út:

    Micah

    Fisk – Silcock – Evans

    Parry – Kerr – Nagano – Holland – Hinds

    Smith – Kapocs

    Bekkur: Laws, Bonner, Clark, Höbinger, Bartel, Shaw, Daniels, Kiernan, Enderby

    Eins og venjulega má finna leikinn á Youtube rás deildarinnar.

    KOMA SVO!!!!!

  • Heimsókn í býflugnabúið

    Segja má að seinni hluti tímabilsins hafi byrjað í síðasta leik þegar okkar menn léku sinn 20. leik á tímabilinu. Frestunin gegn Everton gerir það að verkum að liðið á enn eftir að spila við hina bláklæddu nágranna sína, en er í staðinn núna búið að spila tvisvar gegn United og Forest.

    Undirritaður vill fullyrða að ef okkur hefði verið boðið að vera í þessari stöðu í upphafi leiktíðar – að vera á toppnum á þessum tímapunkti með 4 stig á næsta lið og leik til góða – að þá hefðum við hrifsað það fengins hendi. En liðið er búið að gera fjögur jafntefli síðan í byrjun desember, og þess vegna væri auðvelt að líta svo á að þar séu 8 töpuð stig og liðið sé því búið að glutra niður fræðilegu 12 stiga forskoti niður í 4 stiga forskot.

    Málið er samt sem áður að þannig virkar það auðvitað ekki. Þetta er ekki tímabilið 2019-2020, þegar okkar menn kafsigldu yfir deildina og töpuðu bara tveim stigum fram í febrúar. Núna er deildin jafnari, liðin eru meira í því að hirða stig hvert af öðru, og það þarf einfaldlega að mæta til leiks á fullu gasi í hvern einasta leik. Það þarf að reikna með að liðið tapi stigum, bara svo lengi sem hin liðin tapa fleiri stigum. Ef það verður reyndin í lok tímabils þá verðum við sátt og rúmlega það.

    Og berst þá talið að næsta leik, þegar okkar menn skreppa suðureftir til Lundúna að heimsækja býflugurnar í Brentford, á þrælerfiðan heimavöll. Þeir voru komnir vel inn í desember þegar þeir töpuðu sínum fyrsta heimaleik, og í dag eru það bara 3 lið sem hafa haft betur gegn þeim á þeirra heimavelli: Forest, Arsenal…. og Real MadridPlymouth Argyle. Þetta er nú ekki hópur sem er svo glatt að komast inn í, en látum samt á það reyna.

    Fyrri leik liðanna á Anfield í haust lauk með 2-0 sigri okkar manna, og úrslitin í síðustu innbyrðis leikjum þessara liða hafa nú almennt endað með sigri okkar manna, en þó unnu Brentford t.d. leiðinlegan 3-1 sigur í janúar 2023 – einmitt á sínum heimavelli – og svo gerðu liðin 3-3 jafntefli í september 2021.

    Andstæðingarnir

    Þetta er jú dönskuskotið lið eins og komið hefur fram, með baunann Thomas Frank á hliðarlínunni í 66° norður jakkanum sínum, og með Nørgaard, Jensen, Roerslev og Damsgaard alla siglandi undir dönskum fána. Nú svo er okkar maður Hákon Rafn á bekknum svona að mestu og er búinn að vera þar síðan í janúar á síðasta ári. Að lokum þá eru þeir Sepp van den Berg og Fabio Carvalho jú þarna síðan í haust þegar þeir afklæddust rauðu Liverpool treyjunum sínum og urðu röndóttir. Carvalho lítið fengið af sénsum á síðustu vikum, en Sepp öllu meira.

    Þetta er eitt af þessum liðum sem hefur verið að spila bara ansi vel í vetur og náð ágætum úrslitum, sitja í 11. sæti í töflunni (fyrir ofan United) með 28 stig. Eiga kannski tæplega séns á að komast í neina Evrópukeppni, en eru að sama skapi vel fjarri allri fallbaráttu. Það þyrfti a.m.k. eitthvað mikið að breytast til að þeir myndu nálgast annað hvort þessara svæða. En eins og áður sagði hafa þeir náð fínum úrslitum á heimavelli, gerðu m.a. jafntefli þar við City í síðasta leik, og höfðu unnið Newcastle, Bournemouth og Palace heima svo nokkur dæmi séu tekin (auk fleiri leikja gegn ögn minni spámönnum). Meiðslalistinn þeirra er nú talsvert lengri en hjá okkar mönnum, en kannski ekki mikið af burðarásum fjarverandi. Þ.e. við skulum reikna með leikmönnum eins og Mbeuno, Damsgaard og Wissa á sínum stað.

    Okkar menn

    Byrjum á meiðslalistanum: ótrúlegt en satt þá er Joe Gomez sá eini sem er ekki leikfær, og það er enn talsvert í hann. Miðað við hvernig Slot talar, þá hljómar eins og við sjáum hann ekki fyrr en kannski í lok febrúar eða byrjun mars í fyrsta lagi. En Nunez sem var í banni í síðasta leik er aftur tilbúinn í slaginn, og það þýðir að einhver kemst ekki á bekkinn sem var þar í síðasta leik. Þá leit bekkurinn svona út: Kelleher, Tsimikas, Quansah, Bradley, Jones, Endo, Elliott, Jota og Chiesa. Það má nú frekar búast við að Nunez verði a.m.k. á bekk ef hann byrjar ekki hreinlega, og þá þarf bara að henda einhverjum af þessum leikmönnum út. Líklegast að það verði Chiesa, nokkuð ljóst að hann er tæpastur af þessum þegar kemur að spilaformi.

    Svo er það spurningin hvað Slot gerir varðandi byrjunarliðið. Fyrstu 11 fengu lang flestir pásu um síðustu helgi, spiluðu jú á þriðjudaginn gegn Forest, og líklegast að hann stilli bara upp svipuðu liði og þá. Gerum samt ráð fyrir að það verði einhverjar breytingar, það kæmi t.d. ekki á óvart þó Jota byrji frammi, hugsanlega Kostas í vinstri bak, og eins mætti e.t.v. henda Curtis í byrjunarliðið. Ekki það að líklega er Grav – Macca – Szobo okkar sterkasta miðja, svo það væri ekkert út úr kortinu þó sú miðja byrji. En gerum ráð fyrir að Slot vilji rótera ögn. Samt ekki of mikið, liðið á vissulega leik á þriðjudaginn næst, en það er heima gegn Lille í CL. Það verða alveg tækifæri til að spila einhverri blöndu af A og B liðinu þar.

    Semsagt, spáum þessu svona:

    Alisson

    Trent – Konate – Virgil – Tsimikas

    Macca – Gravenberch – Jones

    Salah – Jota – Gakpo

    Það þyrfti samt ekki að koma neinum á óvart að sjá Robbo, Bradley, Szoboszlai, Díaz eða jafnvel Nunez byrja þennan leik. Í raun yrði maður ekkert hissa að sjá Úrúgvæjann okkar byrja, enda Brentford með líkamlega sterkt lið.

    Hér er ég að gera ráð fyrir að Alisson haldi sinni stöðu í markinu. Það hefur þó verið umræða um þá tölfræði að eftir að hann kom til baka úr meiðslum þá hefur hann fengið á sig 15 skot, og af þeim hafa 9 endað í netinu. Þetta er bara alls ekkert sérstök tölfræði, sérstaklega ekki hjá markmanni af þeim kaliber sem Alisson er. Einhverjir vilja meina að hann sé ekki að treysta líkamanum jafn mikið og áður, og sé þar af leiðandi ekki að teygja sig aaaaalveg jafn langt og hann myndi kannski annars gera. Ég skal ekkert segja um þetta, nema það að lágmarka mörk fengin á sig er samvinnuverkefni alls liðsins, og ekki hægt að benda bara á markvörðinn í því samhengi. Alveg ljóst að Slot vill t.d. örugglega leggja af þennan ljóta ósið að liðið lendi undir í leikjum.

    Þrátt fyrir að Brentford séu sýnd veiði en ekki gefin, þá eru okkar menn fullfærir um að skila 3 stigum í hús. Sendum nú extra góða orku til þeirra fyrir leik og hvetjum þá til sigurs – 1-3 verða úrslitin þar sem Salah, Gakpo og Macca setja mörkin.

    KOMA SVO!!!!!

  • Nott.Forest 1-1 Liverpool

    Liverpool gerði 1-1 jafntefli á útivelli gegn Nottingham Forest og það er ekkert eðlilega drullu pirrandi.

    Í raun byrjaði Liverpool fínt fyrir utan eitt moment snemma í leiknum þegar bara gjörsamlega allt klikkaði í vörn. Allt frá linri 50/50 baráttu Salah, klúðurs frá Gravenberch og Konate, Van Dijk að spila framherjan réttstæðan og Alisson ekki gera nægilega vel til að verjast skoti hans. Auðvitað fyrsta og svo gott sem eina skot þeirra í leiknum. Liverpool lentir undir og ljóst að þetta yrði nú eflaust ekki fallegasti og þægilegasti leikur sem Liverpool mun spila undir stjórn Slot.

    Í fyrri hálfleik átti Liverpool nokkrar ágætar rispur en gekk ómögulega að ná skoti á markið eða skapa sér almennileg færi. Það var því ljóst að það þyrfti eitthvað að breyta til i hálfleik til að auka hraðann og bæta færin.

    Arne Slot gerði ekki breytingar í hálfleik en það var strax sjáanlegur munur á spilamennskunni. Það vantaði samt að láta kné fylgja kviði og það var ekki fyrr en á 66.mínútu þegar Tsimikas og Jota komu af bekknum að Liverpool braut ísinn þegar hornspyrna Tsimikas rataði beint á kollinn á Jota sem skoraði – tók þá félaga ekki nema 20 sekúndur og þeirra fyrstu snertingar voru mark og stoðsending.

    Það breyttist svo mikið með Jota, hann skoraði markið og í raun galið að hann hafi ekki endað með þrennu. Ógn Liverpool varð allt öðruvísi þegar hann kom inn á og spilið varð mikið óútreiknanlegra og betra og Liverpool fór að fá fín færi en auðvitað átti markvörður þeirra stórleik og varði í 3-4 skipti frábærlega og tryggði þeim klárlega stigið í þessum leik.

    Liverpool hefði svo sannarlega átt að gera betur í leiknum og nýta yfirburðina en því miður mistókst það og snýr til baka með aðeins eitt stig og sem stendur sjö stiga forskot á Arsenal eftir jafn marga spilaða leiki og sex á Nottingham Forest.

    Það hafa svo sannarlega flest allir leikmenn liðsins spilað töluvert betur en þeir gerðu í dag og kannski enginn sem átti allan leikinn fullkominn. Miðjan var frekar döpur í fyrri en þeir þrír sem byrjuðu uxu hins vegar ágætlega inn í leikinn í seinni og átti nokkur fín moment, sóknin heilt yfir frekar döpur og Salah svo sannarlega átt betri leiki en var samt líka í nokkur skipti svo nálægt því að eiga stórt moment sem hefði getað klárað leikinn. Fyrir utan mark Forest þá var vörnin að mestu bara mjög fín en maður leiksins klárlega Diogo Jota sem skoraði markið og umturnaði sóknarleiknum í dag þegar hann kom inná.

    Arsenal, þeir sem maður telur gjarnan helstu keppinauta Liverpool um efsta sætið í vetur, mæta grönnum sínum í Tottenham á morgun og munu því aftur hafa leikið einum leik meira en Liverpool og ekki ósennilegt að þeir endi morgundaginn á því að vera fjórum stigum frá Liverpool sem er nú drullu pirrandi í ljósi stöðunar sem Liverpool var í en nokkur fúl jafntefli upp á síðkastið eru að éta upp forskotið.

    Næsta verkefni er svo útileikur gegn Brentford um helgina sem geta nú verið anskoti seigir eins og Nottingham Forest og verður það líka krefjandi leikur. Þeir gerðu 2-2 jafntefli við Man City í kvöld eftir að hafa lent 2-0 undir og þeir létu Plymouth, næstu mótherja Liverpool í FA bikarnum, slá sig út um helgina svo það getur verið erfitt að spá fyrir um hvernig lið Brentford mætir til leiks næstu helgi.

    Áfram gakk, tvo töpuð stig og hellingur eftir í deildinni. Staða Liverpool enn fín á toppnum en það þarf svo sannarlega að fara að breyta þessum jafnteflum í sigra aftur!

  • Liðið gegn Nott.Forest – Szoboszlai byrjar

    Þá hefur verið birt byrjunarliðið sem byrjar útileikinn gegn Nottingham Forest sem hefst kl átta. Ekki er margt óvænt í byrjunarliðinu í kvöld.

    Alisson

    Trent – Konate – Van Dijk – Robertson

    Mac Allister – Gravenberch – Szoboszlai

    Salah – Diaz – Gakpo

    Bekkur: Kelleher, Endo, Chiesa, Jones, Elliott, Jota, Tsimikas, Quansah, Bradley

    Diaz heldur sætinu í strikernum, Szoboszlai kemur inn í byrjunarliðið eftir að hafa misst af síðasta deildarleik vegna leikbanns og Konate er í miðverðinum.

    Á pappír er þetta eflaust með sterkustu uppstillingum sem liðið getur boðið upp á og eru sterkir menn á bekknum eins og til dæmis þeir Jones og Elliott sem geta breytt leikjum og Diogo Jota og Chiesa sem báðir skoruðu í bikarleiknum um helgina.

    Sjáum hvað setur, erfitt lið á erfiðum útivelli og Liverpool þarf þessi þrjú stig.

  • Gullkastið – Prófavika framundan

    Það eru stór próf framundan í þessari viku, fyrst er það útileikur gegn sjóðandi heitu liði Nottingham Forest, eina liðið sem vann Liverpool í deildinni á þessu tímabili. Brentford á útivelli bíður svo um helgina

    Liverpool fór áfram í FA Cup síðustu helgi og fær Plymoth úti í næstu umferð.

    Ögurverk liðið er á sínum stað og sem og fagmaður vikunnar í boði Húsasmiðjunnar.

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur: SSteinn og Maggi

    Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.


    Egils GullHúsasmiðjan / Verdi Travel Ögurverk ehf / Done

    MP3: Þáttur 504

  • Liverpool 4, Accrington Stanley 0 (Skýrsla uppfærð)

    Mörkin

    Jota ’29
    Trent ’45
    Danns ’76
    Chiesa ’90

    Hvað gerðist helst markvert?

    Þegar bikarleikir þar sem heilu deildirnar eru á milli liðanna eru upp á sitt besta, er það venjulega af því að stóra liðið á lélegan dag, litla liðið fær trú á verkefninu og það nær að hleypa leiknum upp í hasar og læti. Svo gerðist ekki í daga. Megnið af leiknum var fremur hægur, þar sem leikmenn Liverpool voru afar duglegir að láta boltann ganga, oft löturhægt og nýttu sér þær glufur sem mynduðust í skipulagi gestanna til að skapa fínar stöður.

    Eftir svæfandi upphaf leiksins fengu Accrington Stanley aukaspyrnu á vænlegum stað. Það fór þá þannig að sextán sekúndum eftir að aukaspyrnan var tekin var boltinn komin í net gestanna, eftir klassíska Liverpool skyndisókn, sem endaði á að Darwin Nunez gaf á Jota, sem skoraði af miklu öryggi.

    Undir lok seinni hálfleiks fékk Trent boltann rétt fyrir utan teig Stanley manna. Bakvörðuinn hafði þó nokkra metra til að athafna sig og skaut hárnákvæmu skoti í átt að fjær stönginni, skoti sem þræddi nálarauga milli varnarmanna og markmanns og söng í netinu. Staðan 2-0 í hálfleik, fagmannlega afgreitt hjá okkar mönnum hingað til.

    Chiesa kom inn á hálfleik og minnkaði ekkert spennu manns fyrir að sjá hann í stærra hlutverki. Þó hann sé augljóslega ryðgaður þá er alltaf eitthvað að gerast hjá honum og hann tengir greinilega vel við liðsfélaga sína. Fyrri hluti seinni hálfleiks var besti kafli gestanna, einkum eftir að Liverpool gerði tvöfalda skiptingu þegar klukkutími var liðin af leiknum. Þeir virtust fá eilitla trú á verkefninu á meðan Liverpool var alls ekki takt. Á einum tímapunkti var staðan 5-1 í hornspyrnum í seinni, fyrir gestunum.

    Þegar korter var eftir að leiknum gerði Danns útum um allar vonir gestanna (og hlutlausra). Hann var nýbúinn inná þegar hann vann boltann á miðjunni og tók af stað í átt að Kop stúkunni. Hann gaf á Chiesa og markmaðurinn varði óþarflega vel frá Ítalanum, en Danns hélt hlaupinu áfram og skoraði úr frákastinu. Markanefið hjá honum er svo sannarlega öflugt.

    Eftir þetta róaðist leikurinn og gestirnir virtust sætta sig við úrslitinn. Liverpool náði að skapa nokkur álitleg færi en það var þó ekki fyrr en á nítugust mínútu sem Chiesa rak smiðshöggið með sínu fyrsta Liverpool marki, 4-0 niðurstaðan.

    Hverjir stóðu sig vel?

    Manni hættir til að horfa bara á yngri leikmenn í svona leik. Rio Ngumhoa varð í daga yngsti leikmaðurinn til að spila með Liverpool og stóð sig með prýðum miðað við aldur og reynslu. Eins var geggjað að sjá Danns aftur, vonandi að hann fái nóg á mínútum í minni keppnunum í ár því hæfileikarnir og marknefið eru augljóslega til staðar. Tyler Morton átti líka fínasta leik, ögn skrýtið að sjá hann fara útaf eftir klukkutíma því hann á varla séns á að spila á þriðjudaginn. Sá leikmaður sem tók líklega mest gott með sér úr þessum leik er Chiesa, ég veit ekki hvort hann fái margar mínútur í vetur en hann gæti verið stórfenglegur ef hann kemur sér í stand.

    Hvað hefði mátt betur fara?

    Þrátt fyrir öruggan sigur hefði maður vilja sjá meiri ákefð hjá liðinu, þá sérstaklega hjá mönnum eins og Nunez og Harvey Elliot. Kannski var það upplegg hjá Slot að drepa tempóið í leiknum en allt má ofgera.

    Umræðan eftir leik

    Þó nokkrir leikmenn fengu tækifæri til að sanna fyrir Slot, ég spyr ykkur hvort einhver þeirra eigi að fá stærra hlutverk eftir þennan leik? Er ég þá sérstaklega að hugsa um Danns, sem er með ótrúlegt nef fyrir framan markið.

     

    Næsta verkefni

    Nottingham Forest á þriðjudaginn, sem ótrúlegt en satt er einfaldlega toppslagur! Ef við misstígum okkur illa í þeim leik geta Forest komið sér í annað sæti, ekki nema þremur stigum frá toppnum. Okkar menn verða að spila frábærlega til að klára það verkefni.

  • Byrjunarlið og leikþráður gegn Accrington Stanley: Stór dagur hjá Rio Nghumoha

    Það styttist í einn af þessum töfrandi leikjum þar sem lið í efstu hillu spilar við fjórðu deildar nágranna sína í Accrington Stanley. Slot gerir níu breytingar á byrjunarliðinu frá því í miðri viku, en stærsta fréttinn að hinn sextán ára gamli Rio Nghumoha fær að hefja leik í rauðu treyjunni í fyrsta sinn:

    Liðið frá Accrington er eftirfarandi:

    Afar áhugavert að Trent byrjar þennan leik, sem og að Chiesa gerir það ekki. Þýðir væntanlega að sá síðarnefndi sé alls ekki í áætlunum Slot þennan vetur.

    Hvernig lýst ykkur á?

  • Gullkastið – Slæm byrjun á árinu

    Það hefur alls ekki verið sama flug á Liverpool núna eftir áramót og var yfir hátíðarnar, slæmt 2-2 tap á Anfield gegn okkar gömlu erkifjendum og svo tap í fyrri hálfleik deildarbikarsins gegn Tottenham, þeir þurftu reyndar að vanda óhemju mikla hjálp frá dómarateyminu sem eyðilagði þann viðburð. Engin heimsendir en viðvörunarbjöllur á Anfield og stór leikur næst í deildinni.

    Það er nóg að frétta úr enska boltanum stjóraskipti hjá liðum sem hafa verið í brasi, leikmannamarkaðurinn er opinn og fleiri stórlið en Liverpool að byrja árið illa.

    Ögurverk liðið er á sínum stað og sem og fagmaður vikunnar í boði Húsasmiðjunnar.

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur: SSteinn og Maggi

    Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.


    Egils GullHúsasmiðjan / Verdi Travel Ögurverk ehf / Done

    MP3: Þáttur 503

  • Liverpool-Accrington Stanley

    Þá er það sú sem af sumum er talin sú elsta og virtasta, ég held þó að flestir líti á FA Cup sem skemmtilega keppni þar sem óvænt úrslit eiga sér stað öðru hvoru en oftast nær eru það nú toppliðin í úrvalsdeild sem vinna – með misskemmtilegum undantekningum þó.

    FA Cup – sagan

    FA Cup er elsta knattspyrnukeppni heims og hefur verið haldin árlega síðan hún var stofnuð árið 1871. Fyrsti úrslitaleikurinn var leikinn á The Oval í London, þar sem Wanderers FC sigraði Royal Engineers 1–0 og hlaut þar með fyrsta FA Cup-bikarinn. Notts County varð fyrsta atvinnumannaliðið til að sigra keppnina árið 1894. FA Cup hefur í gegnum tíðina verið vettvangur óvæntra sigra, svokallaðra “giant killings,” þar sem minni lið hafa sigrað stærri og öflugri lið. Þetta hefur gert bikarkeppnina mjög vinsæla og áhugaverða þar sem draumurinn um að allt sé mögulegt í knattspyrnu hefur oft orðið að veruleika. Það var lengi vel æðsti draumur ungra, enskra knattspyrnumanna að skora sigurmarkið í úrslitaleik FA Cup á Wembley en síðustu áratugi hefur líklega dregið töluvert úr því.

    Margir eftirminnilegir úrslitaleikir hafa farið fram í keppninni og snemma á 8. áratuginum var farið að sýna úrslitaleikina beint í Ríkissjónvarpinu, þökk sé Bjarna heitnum Fel og ástfóstri hans við ensku knattspyrnuna. Á þeim árum voru lið á borð við Tottenham og Manchester United í ákveðinni lægð í deildinni en þeim tókst á vinna bikarinn og afla sér þannig fjölda stuðningsmanna á Íslandi. Hver þekkir ekki einhverja Spursara? Þau voru þó alltaf í skugganum á Liverpool þennan áratuginn sem vann fjöldan allan af titlum, ekki bara FA-cup heldur deildar- og Evróputitla auk deildarbikarsins. Liverpool spilaði tvo af eftirminnilegustu leikjum þessa tíma, unnu Everton 3-1 í Merseyside derbyleik á Wembley og svo töpuðu þeir tveimur árum síðar gegn “Crazy Gang” Wimbledon liðinu með stórleikarann Vinnie Jones í hlutverki Sergio Ramos sem head-bully og tuddara.

    Bresku sjónvarpsstöðvarnar hafa haldið keppninni á lofti undanfarin ár og áratugi með því að sýna oft neðrideildarliðin spila, gjarnan gegn stærri liðunum og það verður raunin á laugardaginn þegar Liverpool tekur á móti Accrington Stanley, kl. 12:15 á laugardaginn.

    Accrington Stanley

    Accrington Stanley FC kemur frá samnefndum nágrannabæ Liverpool.

    Í bænum búa um 35.000 manns en allnokkuð fleiri ef nágrannaþorpin eru tekin með. Accrington komst fyrst á vitorð Englendinga þegar nafn félagsins, Accrington Stanley var notað í mjólkurauglýsingu árið 1980 – who are they? Auglýsingin gekk út á að tveir ungir stuðningsmenn Liverpool voru að spjalla og annar sagði: Ef Ian Rush drykki ekki mjólk þá myndi hann spila fyrir Accrington Stanley. Hinn svarar þá “who are they?” og hinn svarar “excactly”. Upphaflega hugmyndin var þó sú að Tottenham átti að vera notað í stað Accrington Stanley en Spursarar mótmæltu…

    Annars er þetta týpískur enskur smábær, þekktur fyrir Accrington Noris múrsteininn sem notaður var til að byggja Empire State bygginguna í New York. Það er eins og allir bæir hafi eitthvað svona…og það er meira því í bænum er Haworth Art Gallery, sem hýsir stærsta safn breskra Tiffany-glerlampa í heiminum. Tiffany-lamparnir eru heimsfrægir fyrir listfengi og handverk. Hver myndi ekki vilja eiga einn svona í stofuhorninu?

    Bærinn er svo sem ekki þekktur fyrir neitt fleira sérstakt, það er þó hægt að ná sér í bjór á nokkrum stöðum, t.d. er Crown barinn við hliðina á velli félagsins og það er alltaf gaman að fara í neðrideildastemminguna. Völlurinn er hins vegar í úthverfi og í miðbænum er hægt að ná sér í öl t.d. á Forts Arms. Svona ef þið eigið leið um Accrington.

    Accrington Stanley FC

    Accrington Stanley FC var stofnað árið 1968, en nafn félagsins var tekið upp til að heiðra eldra félag, Accrington Stanley, sem hafði verið lagt niður árið 1966. Eldra liðið átti sér sögu allt frá 1891 en hafði áratugum saman barist við fjárhagserfiðleika. Því var líka oft ruglað saman við annað lið, Accrington FC, sem var eitt af upprunalegu stofnfélögum ensku deildarkeppninnar árið 1888.

    Þrátt fyrir að „upprunalega“ Accrington FC hafi lagt niður starfsemi árið 1896, varð nafnið Stanley að hluta af menningu bæjarins. Íbúar vildu endurvekja knattspyrnuliðið í Accrington og ákváðu að heiðra gamla nafnið, sem er nú samt bara dregið af götunni sem heimavöllurinn stóð við – Stanley Street.

    Accrington Stanley byrjaði í neðri deildum enska knattspyrnusambandsins og átti í miklum erfiðleikum að komast upp um deildir. Félagið var í fjárhagserfiðleikum í áratugi og var meira að segja sent niður í utandeildina vegna skulda árið 1962.

    Félagið var endurbyggt af aðdáendum sínum og byrjaði í neðstu deildum ensku knattspyrnunnar með aðsetur á Crown Ground (síðar Wham Stadium (!)), sem enn í dag er heimavöllur liðsins. Völlurinn var vígður árið 1968 og rúmar 5.450 manns. Þetta Wham nafn hefur ekkert með George Michael eða Andrew Ridgeley úr samnefndri hljómsveit að gera heldur ber völlurinn skammstöfun fyrirtækisins What More UK Ltd. Ég hef ekki hugmynd um hvað það fyrirtæki gerir en lesendum er frjálst að kynna sér það og skrifa við í kommenti.

    Eftir áratuga baráttu í neðri deildunum hóf Accrington Stanley að vinna sig upp um deildir. Árið 2006 komst félagið aftur inn í enska deildarkerfið eftir sigur í Conference National. Þetta markaði mikinn áfanga fyrir félagið og aðdáendur þess.

    Árið 2018 vann liðið League Two og kom sér upp í League One (þriðju efstu deild Englands). Þetta var besti árangur félagsins frá upphafi. Eftir fimm ár í þeirri deild féllu þeir vorið 2023. Þeir sitja núna í 19.sæti League Two, fjórðu deildar enska pýramídans, rétt ofan við fall í utandeildina.

    Accrington Stanley á engar sögulegar fótboltahetjur eftir því sem ég kemst næst, hafa aldrei komist langt í deild eða bikar og leikurinn við Liverpool er örugglega einn stærsti leikurinn í sögu félagsins. Liðin mættust líka fyrir næstum réttum 69 árum, 7.janúar 1956 í sömu keppni og sömu umferð, þriðju umferð enska bikarsins, líka á Anfield. Þar voru a.m.k. tveir ansi sögulegir leikmenn í liði Liverpool, þeir Ronnie Moran, sem síðar þjónaði félaginu sem þjálfari og varð hluti af hinu goðsagnakennda Boot room í áratugi, og Billy Liddell, sem skoraði bæði mörk Liverpool í 2-0 sigri. Billy Liddell er einmitt sá sem Mo Salah var rétt að komast upp fyrir á markalista Liverpool. Liddell skoraði alls 228 mörk á sínum ferli með Liverpool. Hann hefði eflaust skorað töluvert fleiri mörk á sínum ferli ef hann hefði ekki þurft að bíða í 6 ára með sinn debut-leik, því skömmu eftir að hann samdi við Liverpool, árið 1938, braust Síðari Heimsstyrjöldin út og því lék hann ekki opinberlega með Liverpool fyrr en árið 1946, einmitt í þriðju umferð bikarsins, gegn Chester, þar sem hann skoraði í 2-0 sigri. Þetta félag, Chester, komst svo löngu síðar í umræðuna þegar Liverpool keypti ungan Walesverja, Ian Rush af félaginu. The rest is history, nema hvað hringurinn lokast auðvitað með þessari mjólkurauglýsingu sem fjallað var um hér að ofan.

    Lið Accrington Stanley

    Síðastliðinn laugardag lék liðið á útivelli gegn Colchester í League Two. Þeir unnu sannfærandi 0-2 sigur með mörkum frá Shawn Whalley. Liðið þeirra var þannig skipað:

    Crellin
    Love, Rawson, Awe, Woods
    Martin, Khumbeni, Woods, Hunter, Whalley
    Walton
    Ég ætla ekki að reyna að giska á byrjunarliðið en það er alveg ljóst að þeir koma alveg dýrvitlausir til leiks, hafa engu að tapa og eru að fara að njóta þess að spila í kannski eina skiptið á ferlinum fyrir framan 60.000 manns. Þeir stilla upp 4-3-3/4-5-1, munu eflaust liggja aftur, kannski með 6-3-1 varnarlínur og reyna að dúndra boltanum fram og hlaupa eins og óðir menn þegar þeir fá tækifæri til. Það er uppselt hjá stuðningsmönnum Accrington þannig að þeir verða líka í banastuði, eflaust hátt í 9000 manns.

    Liverpool

    Árið 2025 hefur ekki farið eins vel af stað og fólk vonaði. Jafntefli gegn Man Utd og tap gegn Tottenham í deildarbikarnum það sem af er ári, en 2024 endaði með þvílíkum hvelli, 14 mörkum í þremur leikjum. Eitthvað hefur verið rætt um veikindi í hópnum, Szoboszlai hefur verið veikur og Quensah þurfti að fara veikur af velli eftir um hálftíma leik gegn Tottenham. Það gæti útskýrt slappleikann í þessum tveimur leikjum, sem hafa verið óvenju slappir. Ég frábið mér tal um að Trent sé kominn til Real Madrid í hausnum og sé að missa einbeitinguna vegna þess, hann var þó mjög slakur gegn Man Utd en var geggjaður í hálftíma gegn Spurs. Það er eiginlega útilokað að spá fyrir um liðsvalið, þó ansi mikilvægur leikur gegn Nottingham Forest strax á þriðjudaginn í næstu viku og þess vegna fá einhverjir kærkomna hvíld. Eins eru þessi veikindi óútreinanleg. Slot hefur nánast alveg haldið sig við 22 manna hópinn og nánast engir unglingar hafa fengið sénsinn. Það ber líka að hafa í huga að fyrir leikinn gegn Man Utd var vikuhlé, og svo koma alveg leikir seinna í mánuðinum þar sem hægt er að rótera líka. En mín ágiskun er þessi:

    Þetta er bara út í loftið, einn kaldur handa mér ef ég verð með 11 rétta.

    Leikurinn verður barningur til að byrja með, lið Accrington kemur öskrandi út á völlinn en eftir 20-30 mínútur kemur fyrsta markið, svo verður þetta örugg sigling, endar 3-1 fyrir okkur, það verða engin smáræðis fagnaðarlæti þegar Accrington ná að pota inn marki.

    YNWA

     

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close