Upphitun fyrir Tottenham
Það breytist margt á þrem vikum. Þegar Liverpool sigraði Manchester City örugglega í upphafi mánaðar virtist komin upp sú staða að liðið gæti rúllað upp deildinni. Síðan þá hefur liðið tapað fjórum stigum í erfiðum jafnteflum og veðurguðirnir frestuðu einum leik, sem veldur því að allt í einu eru Chelsea komnir í hnakkadrambið á okkar mönnum og geta með sigri á Everton komist í efsta sæti deildarinnar áður en leikur Liverpool við Spurs fer fram. Hörku viðsnúningur á stuttum tíma, þó við getum verið ánægðir með að eiga leikinn til góða. Í bili er verkefnið að sigra á White Hart Lane, völlur sem var martraðakenndur fyrir okkar menn í fyrra.
Andstæðingurinn – Tottenham Hotspur
Everton Lundúnaborgar tekur á móti okkar mönnum þessa helgi. Liðið hefur rokkað í ár frá því að vera frábært yfir að vera brandari, stundum oft í sama hálfleiknum. Ekkert lýsir tímabilinu betur en að þeir hafi tapað fyrir Ipswich heima og svo stútað Manchester City á útivelli viku síðar (það síðarnefnda þótti reyndar meira afrek fyrir mánuði en það þykir í dag). Þeir niðurlægðu Southampton fyrir viku, þar áður gerðu þeir jafntefli við Rangers og töpuðu tæpt 4-3 fyrir Chelsea eftir að hafa verið komnir tveim mörkum yfir. Þessi gífurlegi óstöðuleiki sem hefur einkennt þá í vetur hefur skilað þeim í tíunda sæti, þó að fimm stiga bilið upp í meistaradeildarsæti sé langt í frá óbrúanlegt.
Ástralinn Ange Postecoglou er nú á sínu öðru tímabili með liðið. Spurs sýna vissulega handbragð hans, óreiðukenndur hasararbolti sem getur verið yndi fyrir augað, en er alveg skelfing þegar liðið spilar ekki í takt. Hann hefur ekki verið feiminn við stefna á að vinna titla með Spurs, en tíminn mun leiða í ljós hvort honum takist það. Þrátt fyrir að vera bæði geðþekkur og skemmtilegur, er maður ennþá með óbragð yfir viðbrögðum hans við þessum leik í fyrra. Hann sagði í grunninn að Klopp þyrfti að hætta að kvarta, sem var svo sem sjónarmið. En ef menn ætla að hafa þá skoðun, hefði verið meiri klassi að fara eftir þeim nokkrum vikum seinna þegar Spurs lentu sjálfir í enskri dómgæslu.
Síðustu árin hafa Liverpool haft ágætis tök á Spurs. Lundúnabúarnir hafa aðeins unnið einn af síðustu fjórtán leikjum liðanna, en það var einmitt leikurinn í fyrra sem ég hef minnst of oft á nú þegar. Sá leikur var verst dæmdi leikur úrvalsdeildarinnar í seinni tíð og minnistæður fyrir ótrúleg dómaramistök þegar löglegt mark var tekið af Liverpool og VAR herbergið misskildi hver ákvörðun dómarateymisins hafði verið. Sú staðreynd að dómararnir voru nýkomnir úr gjöfulu verkefni hjá eigendum City hjálpaði ekki. Það sorglega við þetta allt saman er að eftir þetta var, að því virtist, hvorki sjálfskoðun né breyting hjá dómarasambandinu. Ef lið deildarinnar hefðu staðið saman eftir þetta og krafist umbóta, hefði kannski verið að hækka ránna í dómgæslu á Englandi.
En það var þá. Það þarf ekki að spyrja hver aðal stjarnan er hjá Spurs, Son er allt í öllu hjá þeim. En það má afsaka óstöðugleikann í þeim með töluverðri óheppni þegar kemur að meiðslum. Christian Romero, Van De Ven, Udogie, Mikey Moore, Richarlison (gerpið), Odebert (ég hef séð aðeins lengri og aðeins styttri lista á meiðslasíðunum, en aldrei færri en sex meiddir á þeim) og Bentancaur eru allir frá, sá síðastnefndi í banni vegna ummæla um Son þegar hann var í viðtali í heimalandinu. Þeir geta þó stillt upp ágætis liði og okkar menn þurfa að vera á tánum til að klára þetta verkefni.
Okkar menn
Síðustu tveir deildarleikir hafa verið erfiðir, bæði hasarinn í Newcastle og svo að spila einum færri megnið af leiknum gegn Fulham. En utan deildarinnar hafa úrslit verið góð og þó nokkrir leikmenn eru að stíga upp úr meiðslum, það er nú þannig að eingöngu Konate og Conor Bradley sem eru ófáanlegir fyrir þennan leik, þó menn eins og Chiesa og Jota þurfi líklega fleiri mínútur áður en þeir byrja leiki.
Lang stærsta spurningin fyrir þennan leik er vinstri bakvörðuinn. Robertson er goðsögn hjá liðinu en virðist hafa elst um áratug í sumar. Að sama skapi er Tsimikas að stíga upp úr meiðslum svo maður sér hann ekki alveg taka heilan leik. Ég ætla að kenna þreytu um frammistöðu Robbo um síðustu helgi og að hann mæti ferskur inn í byrjunarliðið, þó ég vilji ekki sjá hann spila meira en einn leik á viku það sem eftir lifir vetrar. Gomez, Van Dijk, Alisson og Trent eru allir sjálfvaldir, en mér finnst líklegt að Endo komi inn fyrir Trent í þessum leik ef vel gengur og að Gomez taki bakvörðinn.
Á miðjunni er Gravenberch á sínum stað og ég hugsa að Elliot og Szobozlai byrji leikinn. Mér finnst afar ólíklegt að Nunez byrji eftir að hafa lokið leik í deildarbikarnum, líklega fá Gakpo og Diaz að hefja leikinn og svo koma Jota og Nunez inn þegar á líður, margt verra en að eiga þá ferska inni. Þetta verður sem sagt svona:
Spá
Spurs gátu minna róterað í vikunni, fá degi minna í hvíld og eru með laskaðari (og lakari) hóp. Ætla að spá því að Liverpool vinni þetta nokkuð örugglega 0-3.