Latest stories

  • Gullkastið – Þyngra prógramm

    Enski boltinn fer að rúlla aftur um helgina, Chelsea bíður okkar mönnum á Anfield á sunnudaginn. Hitum upp fyrir það, skoðum hvaða áhrif innkoma Slot hefur á mismunandi leikmenn liðsins og stöður á vellinum. Bætum vængmanni við Ögurverk liðið og hitum upp fyrir helgina.

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur: SSteinn og Maggi

    Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.


    Egils GullHúsasmiðjan / Verdi Travel Ögurverk ehf / Done

    MP3: Þáttur 491

  • City mæta á Anfield

    Opinber liðsmynd fyrir tímabilið 2024-2025

    Jújú börnin mín, þó það sé landsleikjahlé, þá verður samt spilað á Anfield sunnudaginn 13. október, og andstæðingarnir verða Manchester City. Það verða stelpurnar okkar sem mæta þeim í fyrsta leiknum á Anfield á þessari leiktíð, en ekki þeim síðasta því það hefur verið tilkynnt að leikirnir verði þrír í heildina: fyrir utan þennan þá spilar liðið gegn United og Everton. Hingað til hefur kvennaliðið eingöngu spilað einn leik á tímabili á Anfield – og þá eingöngu þegar liðið var í efstu deild – og alltaf gegn Everton hingað til. Það er því verið að brjóta blað með þessum leik.

    Annað blað sem vel mætti brjóta er að liðið á enn eftir að vinna á Anfield og reyndar hefur liðið ekki enn skorað (eða jú, Missy Bo skoraði gegn Everton á síðasta tímabili, en markið var ranglega dæmt af vegna meintrar rangstöðu). Það væri alveg tilvalið ef stelpunum okkar tekst að afnema þá hefð. Það hefur lítið verið gefið uppi um miðasölu á leikinn, síðustu tveir leikir á Anfield voru með 20 – 30 þúsund áhorfendur, en kannski ekki skrýtið ef það mæta eitthvað færri áhorfendur í þetta skiptið.

    Liðin koma inn í leikinn á ansi misjöfnum stað hvað varðar leikjaálag og stöðuna á hópnum. City voru að spila í meistaradeildinni í miðri viku og gerðu sér lítið fyrir og unnu Barcelona 2-0 á heimavelli. Það má alveg biðja um að það sitji smá þreyta í þeim eftir þann leik, en því miður er það stutt liðið af tímabilinu að líklega er engin þreyta farin að hreiðra um sig hjá leikmönnum, þrátt fyrir fleiri en einn leik í viku. Nú þar fyrir utan þá eru City konur í 2. sæti deildarinnar með 7 stig eftir 3 leiki. Okkar konur koma hins vegar inn í leikinn í 5. sæti deildarinnar (í augnablikinu) með 5 stig eftir að hafa unnið Spurs 2-3 á útivelli fyrir viku síðan, þar var um ákveðinn Phyrrusar sigur að ræða þar sem Sofie Lundgaard sleit krossbönd eftir hálftíma leik og verður þar með líklega frá út tímabilið. Þar sem Ceri Holland gat ekki spilað þann leik vegna meiðsla og er enn frá, þá verður miðjan með alþynnsta lagi í þessum leik. Reyndar er það svo að Fuka Nagano og Marie Höbinger eru einu “senior” miðjumennirnir sem eru heilir og leikfærir. Matt Beard er reyndar búinn að kalla Maddy Duffy úr unglingaliðinu inn í hópinn, og ekki ólíklegt að við sjáum hana á bekk, en undirritaður ætlar að veðja á að það verði farið í 3-4-3 í ljósi stöðunnar. En það kemur allt í ljós á morgun kl. 13, og þá uppfærum við færsluna með liðsuppstillingunni.

    Leikurinn hefst kl. 14:00 að íslenskum tíma og það lítur allt út fyrir að hann verði sýndur á YouTube.

    Það er erfitt að spá fyrir um úrslit leiksins. Okkar konur voru í vandræðum með City á síðustu leiktíð – þetta var reyndar eina “stórliðið” sem stelpurnar okkar unnu aldrei á þeirri leiktíð því þeim tókst að skella öllum hinum liðunum (Chelsea, Arsenal, United) á einhverjum tímapunkti. Þar fyrir utan þá hjálpa meiðslavandræðin á miðjunni alls ekki. En spáum því að þetta endi með 1-1 jafntefli þar sem Olivia Smith skorar mark okkar kvenna (Andrew Beasley hefur aðeins skrifað um tölfræðina hjá henni í fyrstu þrem leikjunum og spáir að hún eigi eftir að ná langt).


    UPPFÆRT: svona er stillt upp, og jújú þetta lítur út fyrir að vera 3-4-3 þó það eigi eftir að koma í ljós hvernig Höbinger gangi að vera í tvöföldu sexunni við hlið Nagano:

    Laws

    Clark – Bonner – Matthews

    Parry – Höbinger – Nagano – Hinds

    Smith – Roman Haug – Kapocs

    Bekkur: Evans, Fahey, Silcock, Matthews, Duffy, Enderby, Kiernan

    Aftur er enginn markvörður á bekk, Teagan Micah greinilega ekki enn orðin leikfær. Þá verður Matt Beard ekki heldur á hliðarlínunni þar sem hann krækti sér í einhverja flensu, svo það verða Amber Whiteley og Scott Rogers sem stýra liðinu í dag. Þau verða nú samt örugglega með Beard í beinni.

    Engin Vivianne Miedema í hóp hjá City, en ógnarsterkt lið engu að síður hjá þeim; fyrrum púlarar Alex Greenwood (í byrjunarliði) og Laura Coombs (á bekk) og svo fullt af öðrum öflugum leikmönnum, en okkur er í sjálfu sér drullusama um hverjir andstæðingarnir eru, við viljum bara ná í sem best úrslit.

    KOMA SVO!!!

  • KOP Penni gefur út bók

    Kæru lesendur Kop.is

    Ég er búin að vera að dreyma um að skrifa þennan litla pistil árum saman. Mögulega síðan áður en ég byrjaði yfir höfuð að skrifa hér.

    Síðan ég var krakki, ég meina svo ungur að ég man ekki eftir öðru, hef ég stefnt að því að skrifa bók. Þegar ég byrjaði að skrifa um íþróttir um 2016 (þá fyrir FH og handboltasíðuna sálugu Fimmeinn.is og síðar .net og Kop.is) var ég með það á bakvið eyrað að ég væri að reyna að brýna pennann fyrir skáldskaparskrif og núna er fyrsta bókin tilbúin.

    Síðasti Bóksalinn gerist í óræðri framtíð í Reykjavík, þar sem stofnanir eru grotnar niður, vafasamir aðilar fara með raunverulegt vald og einn gamall maður reynir að halda bókabúðinni sinni opinni. Á fögrum sumardegi stefnir í að allt sjóði yfir í bænum og Mikael þarf að finna lausnir, þegar valdameiri menn ákveða að gera hann að peði.

    Ég ákvað að gefa bókina út sjálfur. Það er bæði að gaman og gefandi að standa í öllu því sem tengist útgáfunni, en það erfiðasta er að standa skil af prentkostnaði. Til að gera bókina að veruleika hef ég sett af stað Karolina Fund söfnun, þar sem hægt er að tryggja sér eintak af bókinni, auk þess sem öllum áheitum fylgir auka verðlaun af ýmsum toga.

    Til þess að þetta verkefni verði að veruleika þarf söfnuninn að heppnast, enda er Karolina Fund allt eða ekkert dæmi. Ég vona að þið sýnið mér það traust að heita á verkefnið, inn á Karolina Fund má heyra fyrstu tvo kaflana lesna af mér og í næstu viku mun ég taka upp næstu tvo kafla og senda á þá sem hafa heitið á verkefnið.

    Hlekkur á verkefnið

    Með fyrirfram þökkum fyrir stuðinginn.

    YNWA
    -Ingimar Bjarni Sverrisson

  • Klopp í nýja vinnu og Alisson meiddur

    Eftirsóttasti þjálfari í heimi var í dag tilkynntur sem yfirmaður knattspurnumála hjá Red Bull samsteypunni þar sem hann hefur störf strax eftir áramót. Hann er ekki að fara á hliðarlínuna hjá þessum liðum heldur meira í gamla starfið hans Gerard Houllier og Ralf Ragnick.

    Þetta þarf nú kannski ekki að koma svo ýkja mikið á óvart. Klopp er þarna augljóslega ekki að fara í sama álag og hann hefur unnið í undanfarin 25 ár en engu að síður að vinna í fótboltanum og sér þarna tækifæri til að deila sinni reynslu til annarra stjóra sem og að læra eitthvað nýtt sjálfur.

    Red Bull samsteypan þarf ekki heldur að koma á óvart, fyrir það fyrsta getur hann þá auðvitað verið búsettur í Þýskalandi, þeirra hugmyndafræði er keimlík þeim fótbolta sem Klopp stendur fyrir og í tíð Klopp hafa alla jafna verið töluverð samskipti við Red Bull. Núverandi stjórar hjá Red Bull liðunum þekkja einnig flestir Klopp mjög vel

    Samhliða þessari tilkynningu var sagt að Klopp væri með skýrt ákvæði í samningi að hann má taka við Þýska landsliðinu losni sú staða og óskað verði eftir hans kröfum. M.ö.o. þetta starf hjá Leipzig virkar eins og biðleikur þar til Nagelsmann hættir með landsliðið og Klopp nennir að hella sér aftir af aðeins meiri alvöru í þjálfun aftur.

    Eigum við ekki að segja að þetta sé nokkuð hlutlaust næsta skerf hvað Liverpool varðar, skárra en ef hann væri að taka við liði sem stjóri og færi að mæta Liverpool þannig. Þó Liverpool eigi vissulega Leipzig í næsta leik í Meistaradeildinni. Hinsvegar eru stuðningsmenn Dortmund allt annað en ánægðir og líklega á það við um þýska stuðningsmenn almenn, Red Bull liðin eru alls ekki vinsæl í Þýskalandi líkt og við höfum farið yfir áður. Hvað okkur varðar er þetta klárlega skárra en ef þetta væri sama starf hjá City Group þó Red Bull sé fyrir Þýskum ekki ósvipað “ævintýri”

    Alisson meiddur

    Auðvitað fór það svo með Alisson eins og við óttuðumst, hann er frá í 6 vikur og verður ekkert með í gríðarlega þungu leikjaálagi milli næsti landsleikjapása. Þetta er einmitt ástæða þess að Liverpool keypti annan heimsklassa markmann í sumar og hefur ekki viljað selja Kelleher. Það reynir heldur betur á hann næstu vikur og ekki í boði að vera veikur líkt og í síðasta leik!

    Alisson er fáránlega mikið meiddur m.v. stöðu sem hann spilar og er að missa af 1/4 af of mörgum tímabilum sem er svo sorglega mikil synd. Bara síðasta vetur missti hann af 18 leikjum. Þegar Adrian var að spila og klúðra t.d. fyrir okkur Meistaradeildinni vantaði bæði Alisson og Kelleher.

    Það er svosem ágætt að inni í þessum tíma eru tvö landsleikjahlé en á 21 degi missir hann af þessum leikjum Chelsea, RB Leipzig, Arsenal, Brighton (x2), Bayer Leverkusen, og Aston Villa.

    Þetta er bara rándýrt helvíti.

  • Gullkastið – Útisigur í London

    Liverpool er áfram á toppi Úrvalsdeildarinnar eftir ágætan útisigur á Selhurst Park í London og verður næstu vikur enda deildin komin í aðra pásu tímabilsins vegna landsleikja. Fréttir af samningsmálum leikmanna Liverpool, Ögverk liðið og hörku umferð að baki í enska boltanum.

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur: SSteinn og Maggi

    Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.


    Egils GullHúsasmiðjan / Verdi Travel Ögurverk ehf / Done

    MP3: Þáttur 490

  • Stelpurnar mæta Spurs

    Kvennaliðið okkar er í Lundúnum rétt eins og strákarnir voru í gær (vonum að þeir séu komnir heim núna), og þær ætla að mæta stöllum sínum í Tottenham Hotspurs núna kl. 13:15.

    Annað sem er svipað ástatt með karla- og kvennaliðunum eru markmannsvandræði. Hjá strákunum eru bæði Alisson og Kelleher frá (en vonandi verður Kelleher orðinn frískur af flensunni þegar landsleikjahléinu lýkur), og hjá stelpunum hafa Teagan Micah og Faye Kirby verið frá, mislengi þó. Rachael Laws hefur því staðið á milli stanganna og svosem ekkert nýtt þar, en Eva Spencer úr akademíunni hefur verið á bekknum. Nú er hins vegar U17 landslið Englands á leið á HM, Eva var kölluð inn í það lið, rétt eins og Zara Shaw (sem er reyndar listuð þar meðal varnarmanna), svo hvorug þeirra er til reiðu í dag og næstu vikur reyndar.

    Matt Beard breytir til og fer í 4-3-3 með uppstillingunni í dag (eða mögulega 4-2-3-1 með Nagano og Lundgaard djúpar), enda full ástæða til að hrista aðeins upp í liðinu eftir 2 jafntefli í fyrstu deildarleikjunum:

    Laws

    Parry – Bonner – Matthews – Hinds

    Höbinger – Nagano – Lundgaard

    Smith – Roman Haug – Kapocs

    Bekkur: Evans, Fahey, Silcock, Clark, Daniels, Kiernan, Enderby

    Það er semsagt ENGINN varamarkvörður á bekknum, og eins gott að Rachael Laws fari ekki að meiðast. Ef svo illa skyldi fara þá er spurning hvort Yana Daniels myndi ekki setja á sig hanskana, vonum að til þess þurfi ekki að koma. Reyndar er enginn hreinræktaður miðjumaður heldur, en Niamh Fahey spilaði í sexunni fyrir einhverjum árum og gæti sjálfsagt brugðið sér þangað ef þess þarf. Ceri Holland er ekki í hóp, ekki alveg ljóst hvað veldur.

    3 stig í dag myndu nú gera helling til að laga stöðuna, en það er ljóst að það verður ekki hlaupið að því, liðin gerðu tvö jafntefli á síðustu leiktíð og það má búast við hörkuleik.

    Leikurinn verður sýndur á Youtube og verður víst einnig á BBC2.

    KOMA SVOOO!!!!

  • Palace 0 – Liverpool 1

    Okkar menn munu halda toppsætinu þetta landsleikjahléið eftir góða ferð til Suður London í dag.

    Við fengum strax kalda vatnsgusu í andlit eftir 24 sekúndur þegar Palace skoraði en réttilega var það mark tekið af vegna rangstöðu. Eftir það var bara eitt lið á vellinum í 45 mínútur. Við bara pökkuðum heimamönnum saman, héldum boltanum vel og fórum inn í svæðin sem Palace gefa séns á með sinni þriggja manna vörn.

    Eina markið sem skildi að kom á 8.mínútu. Sjúk íshokkísending Kostas upp vinstri rataði í fætur Gakpo sem átti fasta sendingu inn í markteiginn sem Diogo Jota setti í netið. Við fengum færi til að skora fleiri mörk en nýttum færin illa og því var munurinn miklu minni en átti að vera þegar all sérstakur dómari leiksins flautaði til hálfleiks.

    Palace komu sterkt út úr hálfleiknum og Ali þurfti að verja nokkur skot en við tókum svo leikinn yfir aftur, Jota hélt áfram að fá færi sem ekki nýttust og hægt og rólega fóru heimamenn að koma meira inn í leikinn og þurfti Ali áfram að grípa inní og gerði það vel. Það fór svo vel um mann á mínútu 77 þegar hann dúndraði boltanum útaf til að fá skiptingu, enn einu sinni lærið góða og Vitoslav Jaros kom inná í fyrsta sinn fyrir klúbbinn. Klárt að Ali verður frá um stund, Kelleher sem var veikur í dag örugglega að taka næstu leiki og frábært í raun að þriðji markmaðurinn okkar sé landsliðsmaður!

    Síðustu mínútur leiksins voru auðvitað stressandi en þó þurfti Jaros aldrei að verja, hann greip þó vel inní leikinn og er flottur í fótunum. Við hefðum alveg getað bætt aðeins við en þetta mark Jota stóð uppi og tryggði níunda sigur Slot í tíu leikum. Verst hvað maður er enn ógeðslega pirraður yfir þessum eina tapleik!
    Svo maður fer slakur inn í næstu h***ítis pásu og framundan eru RISA leikir í þessari toppbaráttu sem við sannarlega erum á kafi í!

    Nokkrir umræðumolar

    Liðið er stöðugt að verða meira solid í sinni leikfræði sem Slot er að byggja upp. Við héldum boltanum algerlega í fyrri hálfleik og sköpuðum færi gegn liði í lágri blokk, eitthvað sem við hlökkum til að þróist enn meir.
    Að því sögðu VERÐUM við að nýta færin okkar. Í dag var það Jota sem fékk þau flest en það má líka gagnrýna frammistöðu Salah í dag og bæði Szobo og Jones hefðu getað nýtt hlaup inn í teiginn og skotfærin betur. Of oft höfum við tapað stigum í svona leik.

    Vörnin okkar. VÁ!!! Van Dijk er kominn á þann stað sem hann var bara bestur, manni fannst hann gera allt það yfirvegað að hægt væri að hugsa það að hann væri bara í hægindastól með vindil. Hann var alger lykillí því að sigla þessum leik heim þegar Palace vöknuðu og alger leiðtogi þessa liðs. Við höfum nú fengið á okkur 2 mörk í 7 leikjum, langbesti árangur í deildinni og það sem við þurfum til að ná árangri á meðan við nýtum færin ekki betur en þetta. Bestur í dag, stutt á eftir kom félagi hans Konaté. Snillingar.

    Í fyrsta sinn sjáum við rotation hjá nýja stjóranum. Eins og við fórum yfir í podcasti vikunnar þá er álagið búið að vera mikið að undanförnu og því fengu Jones og Gakpo fyrsta start í deild og Kostas heldur áfram að leysa Robbo af. Allir komu vel frá sínum leik og það skiptir auðvitað öllu máli að menn geti stigið inn þegar þarf.
    Annað landsleikjahlé mætt og það er bara fínt fyrir Slot að geta aðeins hallað sér til baka og horft yfir deildina fyrir næstu skref. Þetta er FÁRÁNLEGA góð byrjun og það segir bara margt að hann er að slá met yfir bestu byrjun stjóra í sögunni í hverjum leik núna. Það er alveg ljóst að hér er mikill hæfileikamaður á ferð sem að leikmenn eru tilbúnir að berjast fyrir.

    Næstu skref

    Nú förum við inn í 15 daga pásu áður en við förum í ROSALEGT prógramm. Næstu sjö leikir eru deildarleikir við Chelsea, Arsenal og Brighton í bland við Meistaradeildarleiki við Leipzig, Real Madrid og Leverkusen…og útileikur við Brighton í deildarbikar. Það mun segja helvíti margt um tímabilið hvernig þeir leikir.

    En, næstu tvær vikur amk syngjum við…

    LIVERPOOL, TOP OF THE LEAGUE – LIVERPOOL, LIVERPOOL TOP OF THE LEAGUE!!!

  • Byrjunarliðið gegn Crystal Palace – Leikþráður.

    Ég þarf að játa svolítið Kopverjar.Ég elska hugmyndina um hádegisleiki á Laugardögum. Vakna í rólegheitum, drekka kaffi og horfa á Liverpool áður en haldið er inn í helgina af fullum krafti? Hvað gæti verið betra? En eins og með margt í þessu lífi þá er hugmyndin betri en framkvæmdin, allavega ef okkar menn spila eins á þessum leiktíma og þeir hafa oftar en ekki gert síðustu ár. En Slot hefur valið ellefu menn sem eiga að rjúfa þessa hádegisleikjabölvun, ég vona að innan fárra mánaða verði þetta orðið uppáhalds leiktíminn okkar!

    Byrjunarliðið er eftirfarandi:

    Verður að teljast óvænt að bæði Jones og Tsimikas byrja, kannski ekki alveg jafn óvænt að Gakpo fái sénsin í byrjunarliðinu. Kelleher er víst veikur og þess vegna er hann ekki á bekknum.

    Crystal Palace teflir fram eftirfarandi liði:

    Image

     

    Hvernig lýst ykkur á?

     

     

  • Crystal Palace á útivelli

    Í hádeginu á morgun ferðast okkar menn til London og mæta þar særðum Palace-mönnum. Eftir frábæran endi á síðasta tímabili sitja Palace nú í fallsæti með þrjú stig í fyrstu sex leikjunum og eru eitt af fimm liðum í deildinni sem er ekki enn búinn að vinna leik.

    Sumarglugginn var skrýtinn hjá Palace. Eins og flestir gerðu ráð fyrir misstu þeir Olise þegar Bayern Munich borgaði upp klásúlu í samningi hans en Palace höfnuðu tilboði frá Bayern í þjálfaran Glasner og höfnuðu nokkrum tilboðum frá Newcastle í Guehi en seldu svo fyrirliða sinn og leiðtogan í vörninni í Andersen til Fulham.

    Eddie Nketiah voru svo stóru kaup Palace í vetur en hefur verið að spila fyrir aftan Mateta í stöðunni sem Olise spilaði í fyrra og ekki náð að heilla eins og er. Einnig sóttu þeir Ismaila Sarr frá Marseille sem margir munu muna eftir en hann var mikið orðaður við Liverpool þegar hann spilaði fyrir Watford en ég var handviss um að hann yrði næsti stóri sóknarmaður Liverpool á eftir Salah og Mané en er nú bekkjarmaður hjá Crystal Palace, þannig maður veit kannski ekki alltaf alveg jafn mikið um boltann eins og maður vill meina.

    Palace hafa klárlega leikmenn í Eze og Mateta sem geta sært hvaða lið sem er og munu á einhverjum tímapunkti ná saman og enda um miðja deild en vonandi verður leikurinn á morgun ekki sá sem kveikir á þeim.

    Okkar menn

    Okkar menn unnu Bologna í vikunni. Sá sigur var alls ekki sannfærandi og virtist vera að leikmenn væru ekki tilbúnir að fara úr öðrum gír. Vonandi var það bara til að spara krafta sína og við sjáum liðið á fullum krafti á morgun.

    Selhurst Park hefur oft verið talinn erfiður völlur fyrir Liverpool heim að sækja eftir frægt 3-3 jafntefli þar í titilbaráttunni 2014 og 3-1 tap þar haustið eftir en síðan þá höfum við farið tíu skipti á Selhurst Park og unnið níu og gert eitt marklaust jafntelfi.

    Leikurinn á morgun er sá síðasti fyrir enn eitt landsleikjahléið þannig ég sé Slot ekki gera margar breytingar. Jota kemur aftur inn fyrir Nunez og ég á erfitt með að sjá hann breyta neinu öðru. Á blaðamannafundi talaði hann um að Elliott væri enn meiddur og Chiesa tæpur aðrir heilir, þannig ef ekkert breytist held ég að við sáum þetta lið á morgun.

    Spá

    Ég held að vandamál Palace haldi áfram og við vinnum sannfærandi 3-1 sigur þar sem Jota, Salah og Szoboszlai sjá um mörkin og Eze setur eina aukaspyrnu til að minnka muninn.

  • Gullkastið – Slot Vélin Farin Að Malla

    Liverpool er á toppi Úrvalsdeildarinnar og með fullt hús stiga í Meistaradeildinni eftir leiki vikunnar þrátt fyrir að hvorugur hafi verið einhver flugeldasýning sem verður í minnum höfð. Áhugaverð úrslit í öðrum leikjum vikunnar og framundan er útileikur í London sem er síðasta verkefnið fyrir næsta landsleikjahlé.
    Það koma svo tveir inná miðjuna í Öguverk liðinu

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur: SSteinn og Maggi

    Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.

    Ef fólk vill skoða upphitun á síðunni fyrir leikinn við West Ham á morgun er hana að finna hér á þessum hlekk.


    Egils GullHúsasmiðjan / Verdi Travel Ögurverk ehf / Done

    MP3: Þáttur 489

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close