Það er óhætt að segja að Meistaradeildin hafi farið ágætlega af stað hjá okkar mönnum, og nú er komið að leik nr. 3 af 8 og andstæðingarnir verða RB Leipzig. Þessi tvö lið eru eins og kunnugt er í 36 liða “deild” sem kom í stað riðlakeppninnar. Deild þar sem toppliðið er að sjálfsögðu… Aston Villa. Kannski ekki staðan sem við spáðum í upphafi leiktíðar, en staðreynd engu að síður.
Það eru auðvitað bara 3 leikir búnir hjá sirka helmingi liðanna, og afgangurinn spilar sinn 3ja leik á sama tíma og okkar menn. Það er því nóg eftir fyrir öll liðin til að mjaka sér í efri hluta “deildarinnar”, nú eða gera upp á bak og missa af lestinni. Semsagt, ekkert í hendi ennþá hjá neinu liðanna. En auðvitað myndum við þiggja eins og 2ja marka sigur í þessum leik. Slíkur 2ja marka sigur myndi setja Liverpool á toppinn, eða a.m.k. við hlið Aston Villa (rétt að taka fram að Brest, Benfica og Bayer Leverkusen geta öll jafnað Villa að stigum sömuleiðis).
Fyrri viðureignir
Listinn yfir fyrri viðureignir liðanna er nú ekki langur. Liðin mættust í 16 liða úrslitum CL vorið 2021, jújú það var tímabilið þegar ALLIR miðverðir Liverpool meiddust – tja, nema Nat og Rhys. Reyndar spilaði Ozan nokkur Kabak báða leikina, í þeim fyrri lék Henderson við hlið hans, og í þeim seinni fékk Nat að spreyta sig. Okkar menn unnu báða leikina 2-0, en féllu svo úr leik í næstu umferð gegn Real (eins og er hefð fyrir). Eru þá upptalin þau skipti þar sem liðin hafa mæst í keppnisleik, en til viðbótar léku þau æfingaleik sumarið 2022, og þar unnu okkar menn sömuleiðis. Semsagt, út frá því þá ætti þetta að vera “gönguferð í garðinum”, en við vitum að svo verður ekki.
Staðan á Leipzig
Andstæðingarnir eru sem stendur í 2. sæti í þýsku Bundesligunni, með jafnmörg stig og Bayern München, en ekki með eins gott markahlutfall. Liðið er reyndar taplaust í deildinni, hefur gert tvö jafntefli en unnið 5. Í Meistaradeilinni hafa þeir hins vegar tapað báðum sínum leikjum, þ.e. gegn Atletico og Juventus, og munu því mæta dýrvitlausir til leiks, vitandi að tap gegn Liverpool gerir restina af þessari deildarkeppni að helvíti brattri brekku.
Hvað meiðslalistann varðar, þá eru þeir með óþægilega marga miðjumenn skráða á meiðslalistann, en hvort þeir verði allir utan skýrslu á morgun verður bara að koma í ljós, eða hvort þetta hafi stóráhrif á plön og uppstillingu. Reiknum a.m.k. með þeim drulluerfiðum.
Okkar menn
Byrjum að skoða meiðslalistann. Hann er farinn að lengjast óþægilega mikið: Diogo Jota þurfti að fara af velli á sunnudaginn, fyrst var talið að hann væri rifbrotinn, en mögulega er hann bara (illa) marinn. Ef það reynist raunin, þá er smá séns að hann nái leiknum um helgina gegn Arsenal, en hann er ekki í hópnum sem flaug til meginlandsins.
Í hópinn vantar sömuleiðis þá Alisson Becker og Harvey Elliott, í raun ekkert sem kemur á óvart þar, það var alltaf vitað að þeir yrðu ekki með. Vonandi styttist samt í að við förum að sjá Elliott á skýrslu, hann hefur verið úti að hlaupa upp á síðkastið og vonandi fer hann að taka fullan þátt í æfingum sem allra fyrst.
Að lokum eru það tvö nöfn til viðbótar sem vantar í hópinn: Conor Bradley og Federico Chiesa. Sá fyrrnefndi er víst meiddur og ekki alveg ljóst hve alvarleg þau meiðsli eru. Vissulega er bagalegt að missa hann enda ákaflega gott að eiga hann inni til að hvíla Trent, en Joe Gomez er næsti maður og er fullfær um að skila ágætis dagsverki í þessari stöðu. Það er því líklegra en ekki að Joe fái mínútur í næstu leikjum. Chiesa hins vegar virðist í raun ekki vera meiddur, hann er bara ekki kominn í leikæfingu, og virðist eitthvað takmarkað vera að æfa með aðalliðinu. Í sjálfu sér er bara jákvætt að það sé ekki verið að henda honum allt of snemma út í djúpu laugina þegar kemur að líkamlegu atgervi, sérstaklega ef restin af hópnum er í góðu standi.
Fjarvistir þessara 5 leikmanna þýða að nokkrir sem annars hefðu tæpast ferðast með eru í hóp, sjást nú tæpast á vellinum, en samt… Harvey Davies markvörður ferðast með sem þriðji markvörður, og svo eru Tyler Morton og Trey Nyoni í hóp sömuleiðis. Það er nú reyndar frekar ótrúlegt að það séu ekki fleiri kjúklingar í hópnum, og það segir okkur að þó svo við séum nú þegar með nokkra á sjúkralistanum þá er breiddin í hópnum ágæt.
Í ljósi þess að það er stutt síðan að liðið spilaði síðast, og leikurinn gegn Arsenal um helgina er óþægilega skammt undan, þá má alveg reikna með einhverri uppstokkun í liðinu. Slot er nú samt íhaldssamur þegar kemur að uppstillingu og mun því alveg örugglega ekki mæta með nýtt 11 manna lið. Spáum þessu einhvernveginn svona:
Kelleher
Trent – Quansah – Virgil – Tsimikas
MacAllister – Endo
Salah – Szoboszlai – Díaz
Nunez
Fullt af spurningamerkjum við þessa uppstillingu. Endo virðist nú ekkert endilega vera mikið í plönum Slot, en spurning hvort Grav þurfi ekki að fá smá hvíld í næstu leikjum. Konate viljum við ekki missa í meiðsli vegna ofspilunar, og þess vegna setjum við Quansah þarna, en verðum nú ekkert hissa þó Frakkinn byrji ef læknateymið er sátt við stöðuna á skrokkinum á honum. Ég spái því að Trent byrji og Gomez komi inn fyrir hann á 60. mínútu, reyndar yrði ég mjög hissa ef allar 5 skiptingarnar verða ekki notaðar í leiknum.
Okkar menn eiga alveg að geta náð í góð úrslit í Þýskalandi, en að sjálfsögðu skiptir dagsformið miklu. Myndum alveg þiggja góðan 0-2 sigur.
KOMA SVO!!!