Latest stories

  • Upphitun fyrir Tottenham

    Það breytist margt á þrem vikum. Þegar Liverpool sigraði Manchester City örugglega í upphafi mánaðar virtist komin upp sú staða að liðið gæti rúllað upp deildinni. Síðan þá hefur liðið tapað fjórum stigum í erfiðum jafnteflum og veðurguðirnir frestuðu einum leik, sem veldur því að allt í einu eru Chelsea komnir í hnakkadrambið á okkar mönnum og geta með sigri á Everton komist í efsta sæti deildarinnar áður en leikur Liverpool við Spurs fer fram. Hörku viðsnúningur á stuttum tíma, þó við getum verið ánægðir með að eiga leikinn til góða. Í bili er verkefnið að sigra á White Hart Lane, völlur sem var martraðakenndur fyrir okkar menn í fyrra.

    Andstæðingurinn – Tottenham Hotspur

    Everton Lundúnaborgar tekur á móti okkar mönnum þessa helgi. Liðið hefur rokkað í ár frá því að vera frábært yfir að vera brandari, stundum oft í sama hálfleiknum. Ekkert lýsir tímabilinu betur en að þeir hafi tapað fyrir Ipswich heima og svo stútað Manchester City á útivelli viku síðar (það síðarnefnda þótti reyndar meira afrek fyrir mánuði en það þykir í dag). Þeir niðurlægðu Southampton fyrir viku, þar áður gerðu þeir jafntefli við Rangers og töpuðu tæpt 4-3 fyrir Chelsea eftir að hafa verið komnir tveim mörkum yfir. Þessi gífurlegi óstöðuleiki sem hefur einkennt þá í vetur hefur skilað þeim í tíunda sæti, þó að fimm stiga bilið upp í meistaradeildarsæti sé langt í frá óbrúanlegt.

    Ástralinn Ange Postecoglou er nú á sínu öðru tímabili með liðið. Spurs sýna vissulega handbragð hans, óreiðukenndur hasararbolti sem getur verið yndi fyrir augað, en er alveg skelfing þegar liðið spilar ekki í takt. Hann hefur ekki verið feiminn við stefna á að vinna titla með Spurs, en tíminn mun leiða í ljós hvort honum takist það. Þrátt fyrir að vera bæði geðþekkur og skemmtilegur, er maður ennþá með óbragð yfir viðbrögðum hans við þessum leik í fyrra. Hann sagði í grunninn að Klopp þyrfti að hætta að kvarta, sem var svo sem sjónarmið. En ef menn ætla að hafa þá skoðun, hefði verið meiri klassi að fara eftir þeim nokkrum vikum seinna þegar Spurs lentu sjálfir í enskri dómgæslu.

    Síðustu árin hafa Liverpool haft ágætis tök á Spurs. Lundúnabúarnir hafa aðeins unnið einn af síðustu fjórtán leikjum liðanna, en það var einmitt leikurinn í fyrra sem ég hef minnst of oft á nú þegar. Sá leikur var verst dæmdi leikur úrvalsdeildarinnar í seinni tíð og minnistæður fyrir ótrúleg dómaramistök þegar löglegt mark var tekið af Liverpool og VAR herbergið misskildi hver ákvörðun dómarateymisins hafði verið. Sú staðreynd að dómararnir voru nýkomnir úr gjöfulu verkefni hjá eigendum City hjálpaði ekki. Það sorglega við þetta allt saman er að eftir þetta var, að því virtist, hvorki sjálfskoðun né breyting hjá dómarasambandinu. Ef lið deildarinnar hefðu staðið saman eftir þetta og krafist umbóta, hefði kannski verið að hækka ránna í dómgæslu á Englandi.

    En það var þá. Það þarf ekki að spyrja hver aðal stjarnan er hjá Spurs, Son er allt í öllu hjá þeim. En það má afsaka óstöðugleikann í þeim með töluverðri óheppni þegar kemur að meiðslum. Christian Romero, Van De Ven, Udogie, Mikey Moore, Richarlison (gerpið), Odebert (ég hef séð aðeins lengri og aðeins styttri lista á meiðslasíðunum, en aldrei færri en sex meiddir á þeim) og Bentancaur eru allir frá, sá síðastnefndi í banni vegna ummæla um Son þegar hann var í viðtali í heimalandinu. Þeir geta þó stillt upp ágætis liði og okkar menn þurfa að vera á tánum til að klára þetta verkefni.

    Okkar menn

    Síðustu tveir deildarleikir hafa verið erfiðir, bæði hasarinn í Newcastle og svo að spila einum færri megnið af leiknum gegn Fulham. En utan deildarinnar hafa úrslit verið góð og þó nokkrir leikmenn eru að stíga upp úr meiðslum, það er nú þannig að eingöngu Konate og Conor Bradley sem eru ófáanlegir fyrir þennan leik, þó menn eins og Chiesa og Jota þurfi líklega fleiri mínútur áður en þeir byrja leiki.

    Lang stærsta spurningin fyrir þennan leik er vinstri bakvörðuinn. Robertson er goðsögn hjá liðinu en virðist hafa elst um áratug í sumar. Að sama skapi er Tsimikas að stíga upp úr meiðslum svo maður sér hann ekki alveg taka heilan leik. Ég ætla að kenna þreytu um frammistöðu Robbo um síðustu helgi og að hann mæti ferskur inn í byrjunarliðið, þó ég vilji ekki sjá hann spila meira en einn leik á viku það sem eftir lifir vetrar. Gomez, Van Dijk, Alisson og Trent eru allir sjálfvaldir, en mér finnst líklegt að Endo komi inn fyrir Trent í þessum leik ef vel gengur og að Gomez taki bakvörðinn.

    Á miðjunni er Gravenberch á sínum stað og ég hugsa að Elliot og Szobozlai byrji leikinn. Mér finnst afar ólíklegt að Nunez byrji eftir að hafa lokið leik í deildarbikarnum, líklega fá Gakpo og Diaz að hefja leikinn og svo koma Jota og Nunez inn þegar á líður, margt verra en að eiga þá ferska inni. Þetta verður sem sagt svona:

    Spá

    Spurs gátu minna róterað í vikunni, fá degi minna í hvíld og eru með laskaðari (og lakari) hóp. Ætla að spá því að Liverpool vinni þetta nokkuð örugglega 0-3.

  • Southampton 1-2 Liverpool

    Það var ansi breytt lið Liverpool sem mætti Southampton í deildarbikarnum í dag. Wataru Endo byrjaði leikinn í nýrri stöðu í miðverði en Liverpool breytti aðeins nálgun sinni og fór hann upp á miðsvæðið þegar okkar menn voru með boltann. Við fengum að kynnast nýjum þjálfara á hliðarlínunni þar sem Slot var í banni og aðstoðarmaður hans Hulshoff var á hliðarlínunni.

    Á 24. mínútu leiksins komumst við yfir eftir að Trent átti flott hlaup frá eigin vallarhelmingi og kom svo með góða sendingu inn á Darwin Nunez sem slapp einn í gegn og aldrei þessu vant kláraði auðveldlega. Flott móment fyrir hann eftir að stuðningsmenn Southampton höfðu verið að syngja til hans að hann væri bara slök útgáfa af Andy Carroll.

    Átta mínútum síðar spiluðu Gakpo og Endo sig upp völlinn þar sem sá fyrr nefndi lagði svo boltann fyrir Harvey Elliott sem átti frábæra snertingu til að stilla upp í skot og setti boltann fram hjá McCarthy í markinu.

    Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks voru Liverpool mun betri aðilinn og komst MacAllister næst því að bæta við en McCarthy varði gott skot frá honum.

    Í hálfleik fóru Trent og Gomez af velli og inn komu Chiesa og Tsimikas og við það færðist Morton í hægri bakvörð, sem sagt tveir miðjumenn í öftustu línu hjá Liverpool í seinni hálfleik.

    Við þetta datt tempóið svolítið úr leiknum og Southampton menn fengu að komast meira í boltann og tóku undirtökinn í leiknum án þess þó að gera mikið með það þar til á 69. mínútu þegar boltinn barst til Cameroon Archer sem sótti inn á teig og fékk alltof mikinn tíma og setti boltann í fjærhornið framhjá Kelleher í markinu. Fannst að Morton og Quansah hefðu getað lokað mun fyrr á þessa hættu.

    Þá gerðu Liverpool aðra tvöfalda skiptingu þar sem MacAllister og Gakpo fóru útaf og McConnell og Jota komu inn í stað þeirra. Þetta stoppaði þó ekki yfirburði Southampton í seinni hálfleiknum en þeir sköpuðu þó ekkert dauðafæri fyrir utan skalla Brereton Diaz undir lok leiks sem Kelleher varði en hann var rangstæður hvort eð er.

    Í uppbótartíma var Chiesa nánast búinn að skora eitt trademark Salah mark þegar hann var við það að krulla bolta í fjærhornið áður en að Harwood-Bellis bjargaði á línu. Þremur mínútum síðar kom umdeildasta atvik leiksins þegar það kemur langur bolti fram á Fernandes sem er í baráttu við Quansah við vítateigin, þeir láta boltann skoppa og hlaupa á eftir honum með hendur á hvor öðrum þegar Fernandes fellur inn í teyg og vildi fá víti. Dómarinn var fljótur að láta vita að það væri ekkert að þessu og ekkert VAR í dag þannig það bara stendur en við endursýningu sást að Quansah var í það minnsta ansi tæpur. Við hefðum öskrað á brot hinu meginn á vellinum allavega en leikurinn endar og Liverpool í undanúrslit.

    Bestu menn Liverpool

    Gakpo hélt áfram að eiga flotta leiki í þessari keppni en hann var mjög hættulegur í fyrri hálfleik og fór snemma útaf, vonum að þetta hafi verið byrjun á flottum Liverpool ferli hjá Chiesa sem kom inná í hálfleik og spilaði verri hálfleikinn af okkar hálfu en flest jákvætt sóknarlega undir restina fór í gegnum hann. Elliott byrjaði sinn fyrsta leik á þessu tímabili og skilaði marki. Morton var flottur á miðjunni í fyrri hálfleik en átti erfiðara með bakvörðinn í seinni.

    Vondur dagur

    Leikurinn var skrýtinn, kaflaskiptur og oft tempólaus þannig það átti kannski enginn sérstaklega slæman dag og enginn sérstaklega góðan. Quansah hélt áfram að sýna okkur að það er erfitt fyrir ungan miðvörð að vera inn og út úr liðinu og er alls ekki jafn stabíll þegar hann er ekki að spila viku eftir viku eins og í loks síðasta tímabils. Svo gerði maður ráð fyrir að MacAllister væri sýnilegri í leik þar sem hann er að spila í miðjunni með tveimur guttum eftir ágætis hvíld en var bara fínn í dag.

    Umræðan

    • Liverpool ósigraðir í 20 leikjum í röð í öllum keppnum á sama tímabilinu í fyrsta sinn síðan 1996.
    • Gott að sjá Tsimikas, Chiesa og Jota fá fínar mínútur til að koma sér aftur í form. Á meðan fengu Gravenberch, Van Dijk, Salah, Jones, Szoboszlai og Diaz að sitja heima og hvílast og fengum að sjá að líkt og Klopp er Slot ekkert smeykur við að henda ungu strákunum í þessa keppni.
    • Liverpool komnir í undanúrslit og geta varið titil sinn í þessari keppni og sjáum núna hversu mikilvægt það var að enda í topp átta í Meistaradeild og fá ekki enn fleiri leiki í janúar og byrjun febrúar.

    Næsta verkefni

    Næst er það hefndar ferðalag til London á sunnudaginn þar sem við mætum Tottenham en við eigum þeim harm að hefna eftir úrslitin þar í fyrra en þeir mæta Manchester United í þessari keppni á morgun.

  • Byrjunarliðið gegn Southampton

    Bekkur: Jaros, Nallo, Norris, Tsimikas, McConnell, Jota, Chiesa, Danns og Ngumoha

    Áhugavert lið í dag spurning hvernig varnarlínan er, eitthvað slúður um að það sé verið að prófa Trent í vinstri bak en verður áhugavert að sjá hvernig þetta er.

  • Dýrlingarnir á miðvikudagskvöld

    Rétt eins og farfuglarnir leita suður á bóginn á veturna, þá gera okkar menn það sama núna í miðri viku enda bíður þeirra bikarleikur í suðrænna loftslagi (mögulega er ég örlítið að ýkja hversu mikið sunnar Southampton er heldur en Liverpool).

    Þessi leikur er í 8 liða úrslitum deildarbikarsins, og fer fram á St. Mary’s leikvangi Southampton. Það vill svo skemmtilega til að við höfum verið í nákvæmlega þessum sporum áður, þ.e. að spila við þetta lið á þessum velli í 8 liða úrslitum deildarbikarsins. Þá var Klopp nýtekinn við, leikurinn fór 6-1, og Divock Origi nokkur skoraði fullkomna þrennu. Daniel Sturridge setti tvö, og Jordon Ibe átti svo eitt fáséð mark. Jafnframt var það Brad Smith sem átti stoðsendingu í síðasta marki Origi, ætli við getum ekki þakkað þeirri sendingu fyrir það hvað Bournemouth keyptu hann svo fyrir mikinn pening? Þetta var leikurinn þar sem Travelling Kop söng hástöfum:

    He’s winning five-one
    He’s winning five-ooooooone,
    Adam Lallana
    He’s winning five-one

    Svo skoraði Origi sjötta markið, og þá breyttist söngurinn (í miðju erindi):

    He’s winning six-one
    He’s winning six-ooooooone,
    Adam Lallana
    He’s winning six-one

    Þetta fannst mönnum tilhlýðilegt að minna Southampton á, enda var téður Lallana þá nýkominn yfir til Liverpool frá Southampton. Lallana er nú einmitt kominn aftur til Southampton eins og kom berlega í ljós í síðasta deildarleik liðanna þegar hann var ekki fjarri því að fótbrjóta einn af okkar mönnum, en nóg um það.

    Nú svo má rifja upp að Sadio Mané og Virgil van Dijk spiluðu þennan leik sömuleiðis, og Mané meira að segja skoraði, en þeir voru reyndar hjá suðurstrendingum á þessum tíma. Ekki var nú langt í að þeir væru svo báðir orðnir rauðklæddir.

    Það hvort við sjáum Virgil spila leikinn á morgun verður svo bara að koma í ljós. Við skulum nú eiginlega vona að svo verði ekki, og að Slot leyfi kjúklingunum sem mest að spila þennan leik. Sama ætti að gilda um Salah, Gravenberch, Szoboszlai og fleiri sem liðið má alls ekki við að missa í einhver meiðsli. En meira um það á eftir.

    Andstæðingarnir

    Af einhverjum orsökum þá reynist það oft falla í skaut Liverpool að mæta liði sem er nýbúið að losa sig við knattspyrnustjórann sinn. Southampton létu Russell Martin fara eftir síðasta leik, reyndist 0-5 tapið gegn Spurs vera dropinn sem fyllti mælinn. Það er ekki alveg ljóst hver tekur við eða hvort nýr stjóri verði kominn til starfa fyrir leikinn.

    Þá eiga þeir leik um helgina rétt eins og önnur lið í deildinni – heimsækja Fulham nánar tiltekið – og ef þeir ætla að hanga uppi í deildinni á þessari leiktíð þá er eins gott að þeir fari að safna stigum. Og þá er nú kannski ekki gott að vera búnir að jaska út leikmönnunum í miðri viku. En svo er það nú líka þannig að þeir eru nú þegar afgerandi neðstir, en eru vissulega komnir í 8 liða úrslit í deildarbikarnum og ef þeir ætla sér að ná í einhverja dollu á þessu tímabili þá er þetta kannski besta tækifærið til þess. Svo það er í raun engin leið að spá fyrir hvort þeir stilli upp sínu sterkasta liði, eða spili B-liðinu og stefni á að vera með óþreytt aðallið á sunnudaginn (þess má geta að Fulham spila ekki núna í miðri viku).

    Það eru þó ágætar líkur á að hvort sem nýji stjórinn verði kominn eða ekki, að þá gætum við séð a.m.k. snert af “new manager bounce”. Munum líka að Southampton voru engin lömb að leika sér við þegar liðin áttust við í lok nóvember, og við skulum bara gera ráð fyrir því sama í þessum leik.

    Okkar menn

    Eins og gengur þá halda meiðslin áfram að hrjá hópinn. Diogo Jota fann fyrir einhverju eftir leikinn gegn Fulham, og æfði ekki í gær, en spurning hvort hann hafi æft í dag. Þá var mögulega ákveðin vísbending fólgin í því að U23 liðið spilaði í gær, og þar vantaði leikmenn eins og Trey Nyoni, Nallo, Morton, McConnell og Danns. Það eru því ágætar líkur á að þeir verði flestir eða allir í hóp, og ekki útilokað að einhverjir þeirra byrji.

    Annars er Kostas Tsimikas farinn að æfa, þó svo leikurinn á morgun komi líklega of snemma fyrir hann til að byrja. En mikið væri gott ef hann verður orðinn klár í að vera a.m.k. á bekk á móti Spurs á sunnudaginn.

    Nú og svo verður jú Arne Slot okkar ekki á hliðarlínunni, þar sem hann verður í banni eftir gula spjaldið um helgina. Það má því leiða líkum að því að Sipke Hulshoff stýri sínum fyrsta leik fyrir Liverpool við þetta tækifæri. Mögulega verður fyrrum Everton maðurinn John Heitinga honum við hlið. Nú og ef “The Travelling Kop” vantar hvatningarsöng fyrir þann síðarnefnda, þá þarf bara að kynna þann hóp fyrir íslenskum dægurlögum frá 9. áratugnum: “Fyrirtaks Heitinga, fjólublátt ljós við barinn”.

    Það hvernig uppstillingin verður er í sjálfu sér ágætis skot í myrkri. Slot gaf það í skyn að einhverjir akademíuleikmenn gætu byrjað, og e.t.v. myndu einhverjir leikmenn spila í framandi stöðum. Við skulum prófa að stilla þessu upp svona – en búum okkur alveg undir það að Slot og félagar stilli upp sterkari hóp:

    Kelleher

    Endo – Quansah – Nallo – Gomez

    Morton – Nyoni

    Chiesa – Elliott – Gakpo

    Danns

    Ef þessi spá reynist vera með, tja, segjum 60% hlutfall af réttum leikmönnum, þá held ég að það verði bara ágætis hlutfall. Því kannski langar Slot til að hirða sinn fyrsta bikar fyrir félagið, og 8 liða úrslit með leik gegn neðsta liði deildarinnar er nú alveg ágætis tækifæri.

    Ef Einar Matthías fær einhverju ráðið þá munu leikmenn eins og Alisson, Virgil, Trent, Gravenberch, Szoboszlai, Salah og Díaz ekki koma nálægt þessum leik. Af þeim leikmönnum sem hafa verið að byrja fyrir aðalliðið þá er kannski einna helst að MacAllister byrji þennan leik, enda ekki búinn að spila núna í einhvern hálfan mánuð og þarf mögulega bara að fara að hreyfa sig aftur.

    Hvernig sem fer þá er númer eitt, tvö og þrjú að leikmenn komi heilir út úr þessum leik. Ég held að það séu ekki margir Liverpool aðdáendur sem verði óhuggandi þó liðið falli úr leik á morgun, enda vitað að það að komast í úrslit í þessari keppni eykur álagið á hópinn. Við sáum hvernig það fór á síðustu leiktíð.

    Semsagt, fögnum ef liðið sigrar og kemst í undanúrslit, en fögnum ögn léttari dagskrá ef þessi leikur vinnst ekki.

    Það verður því engin spá í þetta skiptið.

    Que sera, sera.

  • Gullkastið – Tvö Töpuð Stig

    Liverpool lenti í ótrúlegu mótlæti gegn Fulham og tapaði á endanum ósanngjarnt tveimur stigum í leik þar sem stóru atvikin féllu svo sannarlega ekki með okkar mönnum, ekkert þeirra. Engu að síður sæmilegt stig m.v. að liðið var marki undir þegar Robertson var sendur í bað og því manni færri í 74.mínútur plús 16.mínútur í uppbótartíma. Samtals 90 mínútur og það voru svo sannarlega ekki 10 leikmenn Liverpool sem voru að reyna tefja og halda stiginu á lokamínútunum.

    Ögurverk liðið er á sínum stað og sem og fagmaður vikunnar í boði Húsasmiðjunnar.

    Næstu verkefni eru stjóralausir Southampton menn í deildarbikarnum þar sem Slot mun klárlega nota hópinn töluvert því að um helgina bíður Tottenham úti, leikur liðanna á síðasta tímabili er í sögubókunum sem sá ósanngjarnasti ever í úrvalsdeildinni enda dómgæslan bókstaflega glæpsamleg. Vonandi er ekki annað fíaskó framundan svona strax í framhaldi af þessu bulli sem við horfuðum uppá gegn Fulham. Lágmark að þau mörk sem okkar menn skora telji allavega og aðeins jafnvægi í rauðu spjöldunum myndi einnig hjálpa!

    Happatreyjur.is

    Minnum áfram á Happatreyjur.is eru auðvitað jólagjöfin í ár, lesendur Kop.is geta notað afsláttakóðan KOP10

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur: SSteinn og Maggi

    Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.


    Egils GullHúsasmiðjan / Verdi Travel Ögurverk ehf / Done

    MP3: Þáttur 501

  • Síðasti leikur kvennaliðsins fyrir jól

    Lokaleikurinn hjá stelpunum okkar fer fram á St. Helens vellinum núna kl. 14:30 þegar Arsenal konur mæta í heimsókn.

    Næsti leikur er svo ekki fyrr en um miðjan janúar, og það er í raun bara ágætt enda liðið enn í meiðslakrísu. Ekki minnkaði hún þegar Leanne Kiernan meiddist í Everton leiknum á miðvikudaginn, og hún er því frá í dag, en virðist vera nokkuð öruggt að hún verði klár í leikinn 12. jan gegn West Ham sem er leikur í FA bikarnum.

    Vonandi sjáum við Sophie Roman Haug í þeim leik sömuleiðis, þó svo það hafi ekki verið gefið út opinberlega hvenær megi eiga von á henni til baka. Eins væri óskandi ef Marie Höbinger verði þá líka komin til baka, nú en ef ekki þá þýðir það bara enn fleiri mínútur sem Zara Shaw fær. Hún hefur sannarlega gott af slíku og er alltaf að sýna betur hvað í hana er varið. Yfirveguð á velli, með lágan þyngdarpunkt, góðan skotfót, og á framtíðina fyrir sér.

    Andstæðingurinn situr í 3ja sæti töflunnar á meðan okkar konur sigla lygnan sjó um miðja deild í 7. sæti, og því von á erfiðum leik. En á hinn bóginn þá er það nú þannig í þessari deild – rétt eins og í karladeildinni – að öll lið geta strítt öllum hinum, og sást það bersýnilega í gær þegar neðsta lið deildarinnar – Leicester – gerði jafntefli við það efsta – Chelsea. Það er því allt hægt ef viljinn er fyrir hendi og leikmenn mæta nægilega ákveðnir til leiks.

    Fátt nýtt í uppstillingunni, og Matt heldur sig áfram við 3ja manna vörn:

    Micah

    Clark – Bonner – Matthews

    Fisk – Holland – Nagano – Shaw – Hinds

    Smith – Enderby

    Bekkur: Laws, Spencer, Evans, Fahey, Silcock, Daniels, Kapocs, McDonald

    Gemma Evans er komin til baka eftir höfuðhögg, og Neve McDonald fær aftur sénsinn eftir að hafa sýnt líflega takta gegn Everton í vikunni. Sannarlega talsvert efni þar á ferð, ennþá bráðung en komin í U17 landslið Skota.

    Leikurinn verður sýndur á Youtube eins og venjulega, og ég myndi alveg þiggja 3 stig í skóinn eða jólapakkann.

    KOMASO!!!

    p.s. ef svo fólk langar að ræða aðra leiki dagsins hér (gera Brentford okkur greiða? Hvað gerist í Manchester slagnum?) þá er það guðvelkomið.

  • Liverpool 2 – 2 Fulham

    0-1 Pereira  11.mín

    1-1 Gakpo  47. mín

    1-2 Muniz  76. mín

    2-2  Jota  86. mín

    Leikurinn hófst á miklum áhyggjum þegar Robertson var sparkaður niður og leit það ekki vel út en sem betur fer stóð hann upp og hélt áfram þar sem enginn vinstri bakvörður var á bekknum og hefðum þurft að hrófla ansi mikið við varnarlínunni ef hann hefði farið útaf. Hinsvegar voru alveg rök fyrir því að brotið átti skilið rautt spjald á Diop frekar en gult.

    Stuttu seinna ætlaði fyrrum Liverpool-maðurinn Harry Wilson að senda boltann tilbaka en gaf hann beint á Jones inn í teig Fulham manna en hann var aðeins of lengi að athafna sig og þeir náðu að loka á hann.

    Það voru hinsvegar aðeins um tíu mínútur liðnar af leiknum þegar við lenntum undir en Iwobi átti þá fyrirgjöf sem Pereira náði að teiga sig í knöttinn sem fór af Robertson og í netið. Sóknin byrjaði því og endaði á Robbo sem átti lélega sendingu sem hóf sókn Fulham manna.

    Robertson kórónaði svo hauskúpuleik sinn á sextándu mínútu þegar hann tekur illa á móti boltanum og Harry Wilson stelur boltanum af honum og Robertson tekur hann niður og uppskar rautt spjald.

    Eftir rauða spjaldið fór Gravenberch í varnarlínuna og tóku Fulham menn völdin í leiknum án þess þó að skapa sér eitthvað virkilega gott færi en þegar tók að líða á hálfleikinn fóru okkar menn að ná að halda aðeins betur í boltann og Salah tók nokkrar rispur sem minntu á að við gætum enn skorað þrátt fyrir að vera manni færri.

    Besta færi okkar í hálfleiknum kom eftir 40 mínútna leik þegar Szoboszlai kom boltanum inn á Diaz sem átti skalla yfir markið. Klár bæting undir lok fyrri hálfleiks en Fulham líka farnir að bakka og ljóst að það þurfti mikla bætingu í seinni hálfleik til að ná í einhver stig í dag.

    Fyrri hálfleikurinn byrjaði eins vel og hægt var að vona þegar Diaz kom boltanum út á Salah sem átti frábæran bolta á fjærstöngina þar sem Coady Gakpo stangaði hann í netið. Mínútu síðar var Gakpo aftur kominn í skotstöðu en Leno varði skot hans en þá átti sér stað stórundarlegt atvik þar sem Gomez er á fleygiferð inn á teiginn og Tete keyrir hann niður en ekkert var dæmt.

    Tete meiddist í atvikinu og fór útaf og fékk aðhlynningu fékk svo að koma aftur inn á bara til að leggjast strax niður til að tefja leikinn og draga úr frábærri byrjun okkar manna í seinni hálfleik.

    Það var svo þegar aðeins stundarfjórðungur var eftir sem Fulham náðu að nýta liðsmuninn þegar Iwobi fékk boltann útá vinstri kantinum og Quansah endaði einn með tvo menn og elti Robinson inn á teig þannig Iwobi fékk góðan tíma til að koma boltanum á Robinson sem framlengdi yfir til Muniz og þaðan lak boltinn í netið.

    Þá komu Elliott og Jota inn á og voru fljótir að koma sér inn í leikinn þegar Jota kom boltanum á Salah inn á teignum en skot hans fór í varnarmann og þaðan til Elliott sem átti frábært skot rétt framhjá.

    Svo þegar fimm mínútur voru eftir kom Darwin Nunez boltanum á Jota sem dró boltann framhjá varnarmanninum og afgreiddi boltann snilldarlega í netið, ofboðslega gott að fá þig aftur Jota minn.

    Í uppbótatíma var svo mikill darraðadans í teig Fulham þegar Jota vinnur boltann og kemur honum á Van Dijk sem á skot sem fer í varnarmann og nokkrir menn fá tækifæri til að skjóta í röð en enginn náði að koma boltanum á markið.

    Alisson átti góða markvörslu frá Adama Traore en Liverpool voru mun hættulegri aðilinn undir lok leiks og því erfitt að segja til um hvort þetta séu tvö töpuð stig eða eitt unnið.

    Bestu menn leiksins

    Það voru misjafnar frammistöðurnar í dag en þá bestu átti maðurinn sem var í því að breyta um stöðu Gravenberch skipti litlu máli hvort hann var á miðjunni eða í vörninni hann var mjög flottur. Gomez fær líka hrós í dag leysti vel úr flestu bæði sem miðvörður og bakvörður og stundum eitthvað hybrid þar á milli en mátti kannski gera betur í seinna markinu. Varamennirnir komu virkilega vel inn í dag þá allra helst Jota sem var allt í öllu eftir að hann kom inn á. Einnig var Gakpo mjög hættulegur í seinni hálfleiknum alveg þar til hann fór af velli eftir 70. mín.

    Vondur dagur

    Ég hef ekki alveg verið sammála mönnum með það hversu slakur Robertson hefur verið á þessu tímabili, vissulega hefur hann verið sekur um mistök og langt frá sínu besta en fannst hann ekki alveg jafn búinn og sumir vildu meina en hann gerði sitt besta til að sýna mér að það var rangt í dag. Fékk vissulega ansi þungt högg strax í upphafi leiks en ef það hafði áhrif á þessa frammistöðu átti hann að biðja strax um skiptingu því hann var sökudólgurinn í flest öllu sem fór illa hjá Liverpool alveg þar til hann fékk að fara snemma í sturtu.

    Umræðan

    • Arsenal gerði markalaust jafntefli við Everton í dag, náum ekki að nýta okkur það en þetta er dýrmætt stig að sækja miðað við að vera marki undir og manni færri eftir rétt rúmlega korters leik.
    • Það er í raun ótrúlegt að vera manni færri nánast allan leikinn en vera samt liðið sem er miklu hættulegra undir lok leiks og stemmingin á vellinum var orðinn þannig að maður gerði eiginlega ráð fyrir að þeir myndu ná að sjúga inn þriðja markinu.
    • Hefðum vel getað fengið víti í dag og séð Fulham missa menn af velli og í raun frekar skrýtið að hvorugt atvikið var skoðað eitthvað sérstaklega.

    Næsta verkefni 

    Næst er það deildarbikarinn þar sem við mætum dýrlingunum í Southampton á miðvikudaginn.

     

  • Byrjunarliðið gegn Fulham

    Þá er búið að tilkynna liðið sem mætir Fulham í dag og er það svona

    Bekkur:Kelleher, Quansah, Nyoni, Elliott, Morton, Endo, Nunez, Jota og Chiesa

    Darwin Nunez missir sæti sitt í byrjunarliðinu í dag og byrjar Diaz á toppnum.

    Það er jákvætt að sjá þá Chiesa og Jota koma inn á bekkinn og vonandi sjáum við sigur gegn Fulham í dag.

  • Vestur-London býður – Heimsókn til Fulham (Upphitun)

    Jólin eru að koma og fótboltaleikir eru spilaðir oft á viku á Bretlandseyju. Um síðustu helgi fengu okkar menn óvænta pásu sökum illviðris í Liverpool, áður en þeir skelltu sér til hinnar yndislegu Girona borgar og sóttu þrjú stig í Meistaradeildinni. Ef ég er að lesa töfluna rétt þá þarf Slot að tryggja sér eitt stig í viðbót til að gulltryggja topp átta sæti í evrópukeppninni. Svo fer tvennum sögum um hversu miklu skiptir að vera ofarlega í topp átta pakkanum, en það er seinni tíma umhugsunarefni. Um helgina bíða hinir geðþekku Fulham í vesturhluta Lundúna, sem sigla nú nokkuð lignan sjó um miðja deild, láta sig dreyma um að vinna evrópusæti í ár og spila hörku fótbolta undir stjórn Marco Silva.

    Andstæðingurinn

    Fulham er elsta fótboltalið höfuðborgarinnar. Félagið var stofnað árið 1879 og varð að atvinnumannaliði rétt fyrir aldarlok. Þeir gengu til liðs við fótboltadeildina (undanfara nútíma Úrvalsdeildarinnar) árið 1907. Það eru nokkrir gullmolar í sögubókunum frá þessum tíma, til dæmis var einn fyrsti útlendingurinn til að spila á Englandi, egyptinn Hussein Hegazi, var leikmaður Fulham (í einn heilan leik).

    Í seinni tíð hafa Fulham rokkað á milli efstu tveggja deildana. Árið 1997 var sögulegt ár fyrir Fulham og enska boltann, þegar egypski milljarðarmæringurinn Mohamed Al-Fayed keypti félagið. Þetta var í fyrsta sinn sem erlendur aðili eignaðist lið í efstu hillu enska boltans. Nokkrum árum seinna upplifði liðið gullöld sína undir stjórn Roy Hodgson. Þeir tóku þátt í evrópukeppni í annað sinni í langri sögu félagsins og einhvernveginn stýrði Roy þeim alla leið í úrslit evrópudeildarinnar. Við ræðum ekki hvað hann gerði eftir þetta ár.

    Síðasta ferð Fulham í b-deildina átti sér stað 2021, þegar liðið féll nokkuð sannfærandi eftir eitt ár í efstu deild. Þeir snýttu Championship deildinni undir stjórn núverandi þjálfarans, Marco Silva, tímabilið 21-22 og héldu sér örruglega uppi næstu tvö ár.

    Þeir hafa verið hrikalega öflugir í vetur. Bakvörðurinn Antonee Robinson er að eiga frábært tímabil, sem og markmaðurinn Bernd Leno og miðjumaðurinn Alex Iwobi. Þeir verða þó án lykilmanna á morgun, varnarmennirnir Calvin Bassey og Joachim Andersen eru báðir frá, sem og fyrirliðinn Tom Cairney.

    Á góðum degi geta þeir unnið hvaða lið sem er en eiga það til að basla gegn liðunum neðar í töflunni. Í síðustu þrem leikjum hafa þeir náð jafnteflum gegn Spurs og Arsenal, ásamt því að vinna Brighton, eftir að hafa náð að tapa stórt gegn botnliði Wolves.

     

    Craven Cottage er völlur af gamla skólanum, opin í hornunum með stúkur sem geta búið til alvöru læti. Til að vinna Liverpool þurfa þeir að gera eins og Newcastle og hleypa leiknum upp í einhverja vitleysu, berja frá sér og pirra okkar menn. Á pappír eiga þeir ekki að eiga séns í Liverpool, en það er fátt hættulegra en vanmat í ensku deildinni.

    Okkar menn

    Pásan um síðustu helgi breytti jólaáætlunum Arne Slot líklega töluvert. Hann fékk líka þær góðu fréttir að líklega gætu Jota og Chiesa spilað um helgina, sem er rosalegur liðsauki ef rétt reynist. Tsimikas og Konate gætu líka komist aftur á lappir fyrir áramót, en við þurfum samt að lifa með því í nokkrar vikur að það eru ekki nema fjórir leikmenn færir í fimm stöður aftast á vellinum. Hversu ánægðir ætli mennirnir bakvið tjöldin séu yfir að hafa haldið Joe Gomez?

    Aftasta lína er því nokkuð sjálfvalinn. Robbo, Trent, Gomez og Van Dijk. Þó Kelleher hafi staðið sig eins og hetja er maður afar ánægður með að brassinn sé komin aftur í markið. Á miðjunni er Gravenberch auðvitað á sínum stað, en MacAllister tekur út bannið sem hann átti að vera í á móti Everton í þessum leik í staðinn. Þá er nokkuð víst að Jones byrjar með Szoboszlai.

    Það hefur verið mikið ritað og rætt um Nunez síðustu vikur. Mikilvægasti punkturinn kom frá Salah, sem kallaði Darwin besta liðsfélaga sinn síðan Firmino. Þó hann sé greinilega farin að ofhugsa það að skora í döðlur, þá er hann risastór hluti af sóknarlínunni og á að halda stöðunni, allavega þangað til Jota er klár að byrja. Ég spái að Slot vilji nota stærð Gakpo frekar en æsinginn í Diaz í þessum leik. Í öðrum orðum verður þetta svona:

     

    Spá

    Okkar menn vilja hefna fyrir þetta litla klikk á móti Newcastle og koma vel gíraðir inn í þennan leik. Þeir koma til með að vinna 0-2, þar sem Gakpo skorar eitt og Trent poppar upp með góða neglu. Þetta gerist á meðan Liverpool aðdáendur blóta því að árið 2024 ríghalda bretar ennþá í að sýna ekki laugardagsleiki klukkan 3, sem er ótrúlegt.

  • Annar Merseyside derby hjá kvennaliðinu

    Stelpurnar okkar eru í smá lotu í þessari viku, léku gegn United á sunnudaginn, sá leikur fór eins og hann fór og bara áfram gakk. Nú koma Everton stelpurnar í heimsókn á St. Helens völlinn í bikarnum, okkar konur eiga þar harma að hefna eftir tapið gegn þeim í deildinni á Goodison. Jesús minn hvað það þetta bláklædda lið er böggandi, og þá aðallega hvað okkar konum gengur illa að skora gegn þeim. Vonum að það gangi betur í kvöld, en auðvitað hjálpar ekki að liðið skuli vera án bæði Sophie Roman Haug OG Marie Höbinger. Þær sjást varla fyrr en eftir áramótin, verandi frá vegna meiðsla.

    Liðið er klárt, og það eru sem betur fer nokkur andlit komin til baka úr meiðslum:

    Micah

    Clark – Silcock – Fisk

    Daniels – Nagano – Shaw – Hinds

    Holland – Kiernan – Kapocs

    Bekkur: Laws, Spencer, Bonner, Fahey, Matthews, Duffy, McDonald, Smith, Enderby

    Ákveðin rótering í gangi, enda þrír leikir í sömu vikunni og sjálfsagt eitthvað um að leikmenn séu einfaldlega ekki í formi til að spila svo mikið. Smith byrjar á bekk í kvöld, sem og Gemma Bonner. Við sjáum svo Maddy Duffy aftur á bekk, hún fékk sína fyrstu mínútu (í eintölu) í deild í leiknum á sunnudaginn, en náði held ég ekki að koma við boltann, kannski verður annað uppi á teningnum í kvöld. Þá er nýtt andlit á bekknum, við höfum ekki séð hina 16 ára Neve McDonald á leikskýrslu áður og verður áhugavert að sjá hvort hún komi eitthvað við sögu.

    Það verður hægt að sjá leikinn á LFCTV, en virðist ekki vera sýnilegur á Youtube.

    Manni er eiginlega drullusama um þessa bikarkeppni per se, en mikið svakalega langar mann samt til að vinna þær bláklæddu.

    KOMA SVO!!!!!

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close