Latest stories

  • Í minningu Diogo Jota

    Fótboltaheimurinn allur er sleginn.

    Heimsþekktur knattspyrnumaður kveður sviðið óvænt, rifinn úr þessari jarðvist án nokkurs fyrirvara. Enn ein staðfestingin á því hve heimurinn getur verið óútskýranlega erfiður. Við aðdáendur Liverpool höfum eiginlega bara staðið algerlega kolslegin niður í ljósi þessara frétta enda um leikmann úr okkar röðum sem er óumdeilanlega dáður og hefur verið nú um sinn.

    Diogo José Teixeira da Silva okkar eini Diogo Jota er allur. Lést ásamt bróður sínum André í hörmulegu slysi á leið í ferju sem ætlað var að flytja þá bræður til Englands þar sem Diogo var á leið að hefja undirbúningstímabil fyrir næsta tímabil sem Englandsmeistari. Ferjuna ætlaði hann að taka eftir að hafa verið varaður við að fljúga í kjölfar smávægilegrar lungnaaðgerðar sem hann fór í. Eftirköst meiðsla frá því í vetur sem við munum jú eftir.

    Hér á eftir ætlum við að minnast mannsins og leikmannsins sem nú hefur verið staðfest að verður síðasti leikmaður í sögu Liverpool að skarta númerinu 20. Númerið verður nú aflagt honum til heiðurs og því að hann tryggði titil númer 20. Það er sannarlega við hæfi.

    Við skorum á lesendur að skrifa uppáhalds minningu/minningar sínar um kappann í athugasemdum við þessa færslu.

    (more…)

  • Diogo Jota látinn

    Þær hörmulegu fréttir bárust fyrir nokkrum mínútum að Diogo Jota og bróðir hans hafi látist í bílslysi.

    Það hefur ekki enn komið staðfesting á því frá félaginu en flest allir áreiðanlegir miðlar greina frá þessu.

    Þetta eru hrikalega sorglegar fréttir og hugur okkar að sjálfsögðu með fjölskyldum þeirra og aðstandendum.

    Við uppfærum ef frekari upplýsingar berast.

    Uppfært Nú hefur Liverpool og portúgalska knattspyrnusambandið staðfest þessar sorgarfréttir af Diogo Jota og Andre Silva, bróður hans.

  • Hafnað boði í Luis Diaz

    Það er ekki mikið að frétta af leikmannamálum Liverpool en skv. fréttum nú í morgun hafnaði Liverpool tilboði FC Bayern í Luis Diaz og segja hann ekki til sölu. Sama svar og Barca fékk fyrr í sumar.

    Nú er bara spurning hvort það sé vegna þess að Barca á ekki pening og Bayern er eitt nískasta Elítu liðið eða vegna þess að Diaz er bara alls ekki til sölu í sumar. Hann er auðvitað á besta aldri og á frekar hagstæðum samningi frá sjónarhóli Liverpool, en hvort það sé hægt að halda honum sáttum áfram á þeim samningi og neita á sama tíma að selja hann til risaliða er póker sem fróðlegt verður að fylgjast með.

  • Uppfærsla á síðunni

    Erum að uppfæra WordPress hjá okkur og reyna að laga þetta bölvaða Spam vandamál í ummælum.

    Ummælin eru tímabundið ekki sjáanleg á meðan, biðjumst velvirðingar á því.

    Þetta kemst vonandi í lag fljótlega

  • Gullkastið – Leikmannasölur framundan?

    Kerkez er kominn til Liverpool og því búið að staðfesta alla sem voru líklegastir til að koma núna strax í júní. Þá eru leikmannasölur líklega næstar á dagskrá og líklegt að þar verði ekki minna að gera hjá okkar mönnum.
    Skoðum líka stöðuna á leikmannamarkaðnum hjá hinum stórliðunum.

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur: SSteinn og Maggi

    Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.

    MP3: Þáttur 525

  • Milos Kerkez og Jeremie Frimpong

    Þá er búið að staðfesta nýja bakverði báðum megin og tímabært að skoða aðeins hvað þessir ágætu drengir koma með að borðinu hjá okkur. Byrjum á þeim sem var staðfestur í dag, Milos Kerkez.

    Hver er Milos Kerkez?

    It’s a real honour for me, a privilege to come to play for one of the biggest clubs in the world, [the] biggest club in England. I’m just really, really happy and excited.

    Milos Kerkez fæddist í bænum Vrbas í Serbíu þann 7. nóvember 2003. Hann á því enn nokkra mánuði í 22 ára afmælið sitt. Vrbas er í Vojvodina héraði í Norður-Serbíu og í bænum búa tæplega 40.000 manns. Hann er af ungverskum ættum og flutti ungur til Ungverjalands og lítur á sig sem Ungverja. Hann lék með bæjarliðinu OFK Vrbas þar sem hæfileikar hans komu fljótt í ljós en þeir sem kannast við serbneska skólann vita líka að þar er lítið gefið eftir og gildin snúast auðvitað um hæfileika en ekki síður andlega eiginleika á borð við vinnusemi, aga og liðsheild.

    Milos Kerkez var þó ekkert lengi í heimabænum því að 11 ára gamall, árið 2014, flutti hann til Vínarborgar og lék með Rapid Vín sem unglingur, allt til 2019 þegar hann fór til Hódmezövásárhely sem er lið frá samnefndum bæ í suð-austur Ungverjalandi. Alls ekki stórt lið, og raunar bara ansi erfitt að finna eitthvað um dvöl hans þar en þetta virðist vera félag sem einblínir á að þróa unga leikmenn. Í dag er meistaraflokkurinn í þriðju deild ungversku deildarkeppninnar og mér sýnist hann ekki hafa spilað með meistaraflokki þar, en árið eftir, tímabilið 2020-2021 lék hann 16 leiki í 2. deild með ETO Györ, sem er frá samnefndri borg í Ungverjalandi. Þetta er ágætlega stórt félag á ungverskan mælikvarða, hafa fjórum sinnum hampað ungverska meistaratitlinum og þeir komust í undanúrslit í Evrópukeppni bikarhafa árið 1965 en voru í uþb. 10 ára basli með liðið, eru núna komnir aftur í efstu deild. Þetta tímabilið ákvað hann að velja Ungverjaland sem sitt landslið. Munum bara líka hvað hann er ungur, vorið 2021 var hann 17 ára.

    Eftir þetta tímabil vakti hann áhuga engra annarra en AC Milan. Paolo Maldini sjálfur sló á þráðinn til guttans og hann lék tímabilið í Primavera deildinni með U20 ára liði AC Milan. Um haustið 2022 fór hann svo til AZ Alkmaar og tók gott tímabil með aðalliðinu, lék alls 52 leiki sem vakti áhuga Bournemouth. Þangað fór hann því tæplega tvítugur að aldri sumarið 2023. Hann lék 28 deildarleiki fyrra tímabilið sitt en 38 leiki seinna tímabilið þar sem hann skoraði tvö mörk og gaf fimm stoðsendingar. Í öllum keppnum á hann 74 leiki fyrir Bournemouth.

    Hann á fjölmarga yngri landsleiki fyrir Ungverjaland og á 23 a-landsleiki.

    Helstu eiginleikar sem leikmaður

    Það hefur nokkuð verið rætt um Milos Kerkez sem leikmann og hvað hann mun koma með að borðinu fyrir Liverpool. Ég man fyrst eftir að hafa séð þetta nafn þegar Liverpool mætti Bournemouth haustið 2023. Ég átti von á því að Mo Salah myndi rúlla létt yfir þennan unga, óþekkta leikmann sem var nýkominn í lið Bournemouth. Það fór nú svo að Mo Salah skoraði eitt mark, tók sjálfur frákast eftir víti sem var varið frá honum þannig að hann fór nú ekki beint létt með Kerkez í þeim leik.

    Kerkez er kraftmikill leikmaður, nokkuð þéttbyggður, 1,80 á hæð og með góða boltameðferð. Hann reynir oft að sóla og komast í gegnum varnarpakka með hraða og þríhyrningaspili. Tekur bæði yfir- og undirhlaup við kantmanninn og opnar þar með vel fyrir þá. Stundum vantar end-product hjá honum en hann hefur þótt bæta það töluvert á seinna tímabili sínu með Bournemouth. Hann hefur verið lítið frá vegna meiðsla, er hraður og sterkur en fær gjarnan á sig spjöld. Hann á líklega eftir að læra stöðufærslur hjá Liverpool, þær verða að mörgu leyti öðruvísi en hann er vanur frá bæði Bournemouth og AZ Alkmaar.

    Ég vona að Liverpool haldi Andy Robertson og að tími Kostas okkar Tsimikas hjá félaginu ljúki. Ef við verðum með Andy og Milos verður vinstri bakvarðarstaðan ótrúlega öflug, jafnvel þótt Robbo sé að eldast. Þeir munu geta bætt hvorn annan upp og komið með geggjað orkustig í seinni hluta leikja og raunar á svipað við um hinum megin þar sem Jeremie nokkur Frimpong er kominn til að tryggja sér hægri bakvarðarstöðuna.

    Hver er Jeremie Frimpong?

    For me, everywhere I’ve been I’ve always won things. It’s always been the cups and the league, so I’ve always won trebles. So yes, I want to win trebles, I want to win trophies – I play football to win trophies. I want to win as many trophies as possible.

    OK, já takk, til í það. Þetta sagði Jeremie Frimpong í viðtali sem var tekið við hann þegar hann var tilkynntur sem leikmaður félagsins. Hann var sá fyrsti sem var keyptur þetta sumarið.

    Jeremie Frimpong er elstur þessara þriggja nýju útileikmanna sem hafa verið keyptir til liðsins. Hann fæddist 10.desember árið 2000 og er því 24 ára gamall. Hann er hollenskur en á ættir að rekja til Ghana. Hann flutti til Englands 7 ára gamall með fjölskyldu sinni. Foreldrar hans völdu reyndar ekkert sérlega góðan stað til að búa á, þau fluttu til Manchester þar sem drengurinn æfði hjá AFC Clayton og Clayton Villa áður en hann fór til Manchester City 9 ára gamall. Hann lék með City til 19 ára aldurs og var þá leyft að fara frá félaginu og hann fór til Glasgow-borgar, nánar tiltekið til Celtic. Þar lék hann fyrsta meistaraflokksleik sinn á ferlinum, gegn Partick Thistle. Hann var bara maður leiksins og tryggði sér fljótlega fast byrjunarliðssæti. Þarna var hann 19 ára gamall. Hann lék síðan alls 36 leiki fyrir Celtic fram til janúar 2021 að hann var keyptur til Leverkusen, þaðan sem hann kemur svo til Liverpool.

    Á þessu fyrsta hálfa tímabili sínu hjá Leverkusen spilaði hann alls 13 leiki en hin fjögur tímabilin spilaði hann alls 34 leiki, og svo 47-48 leiki. Alls á hann 190 leiki og 30 mörk. Þess má geta að hann er með 22 mörk á síðustu þremur tímabilum í Bundesligunni. Þá hefur hann leiki 13 leiki og skorað eitt mark fyrir Holland auk fjölmargra yngri landsleikja. Í samanburði við Kerkez er leiðin hans til Liverpool mun einfaldari, færri lið og færri flækjur á ferlinum.

    Helstu eiginleikar sem leikmaður

    Jeremie Frimpong er 1,71 á hæð, lítill, sterkur og fljótur kubbur. Líkt og Kerkez er hann með mikinn sprengikraft, við erum kannski að fá sóknarlega frekar svipaða leikmenn beggja megin með yfir- og undirhlaup í sóknarleiknum, aggresíva, sterka og hraða leikmenn. Hann er líka frekar sterkur í návígjum, við eigum eftir að sjá hann vinna boltann oft í pressu framarlega á vellinum. Ég held að honum finnist ekkert mjög gaman að verjast og þess vegna gæti hann átt á hættu að skilja eftir sig, líkt og vaninn er með Trent, ansi stórt svæði sem miðvörður eða djúpur miðjumaður þarf þá að kovera. Eins á hann erfitt með að verjast einn á einn. Allt í allt, geggjuð viðbót sem sumir sjá líka sem mögulegan varamann fyrir Salah en á mest eftir að deila stöðunni með Conor Bradley.

    Þessir tveir guttar líta út fyrir að vera mjög sterk viðbót og greinileg áherslubreyting í bakvarðarstöðunum. Við vitum að Conor Bradley er líka beinskeyttur, fljótur og kannski ekki í sama sendingaham og Trent. Kerkez og Frimpong eru það ekki heldur en mér sýnist sem hraði og sprengikraftur sé það sem Slot sé að leita að í þessum stöðum. Mér sýnist hann sé frekar að leita að sóknar-vængbakvörðum heldur en sterkum varnarmönnum en að sama skapi eru slíkir bakverðir nú þegar hjá félaginu, Robertson og Bradley eru líklega sterkari varnarlega en nýju gæjarnir.

    On we go, það er meira framundan í sumar og vonandi fæ ég að skrifa fleiri djúsí greinar um nýja leikmenn.

     

  • Kop ferðir næsta tímabils

    Nú hafa snillingarnir hjá Verdi ákveðið hvaða ferðir hafa verið valdar til að verða ferðir undir fararstjórn Kop.is í vetur.

    Ferðirnar verða gegn Nottingham Forest helgina 21. – 24.nóvember og gegn Burnley 16. – 19.janúar. Opnað hefur verið fyrir bókanir og hægt að smella á þennan hlekk hér til að stökkva með.

    Við munum fara nánar yfir málið í næsta podcasti og auðvitað fara betur yfir dagskrá þegar nær dregur. Við hlökkum mjög til að taka þátt áfram með Verdi í því ævintýri að búa til skemmtilegar ferðir til borgarinnar dásamlegu við Merseyána!

  • Nat Phillips til WBA (Staðfest)

    Þá er hinn eitilharði Nat Phillips genginn til liðs við WBA eftir að hafa átt stuttan (8 ár eða svo) feril með Liverpool, þar af allnokkrum sinnum á láni hjá öðrum félögum. En í þau skipti sem hann var hjá Liverpool gaf hann allt í leikinn, og yfirgefur klúbbinn sem “legend”. Tímabilið 2020-2021 mun að eilífu verða greypt í minni okkar, þar sem hann átti þátt í því að meiðslahrjáðasta lið Liverpool síðustu áratuga náði 3ja sæti.

    Hver er ykkar helsta minning af Nat Phillips? Hendið því endilega í athugasemdirnar hér fyrir neðan.

    Þessi sala þýðir einhverjar 3 millur í kassann, og líkur á að veskið hjá Edwards og Hughes eigi eftir að fitna enn meira því Jarell Quansah er líklega að fara til Bayer á einhverjar 30 millur plús 5 í klásúlur. Téð veski mun nú reyndar þynnast talsvert á móti þegar Milos Kerkez verður kynntur sem nýr leikmaður félagsins, væntanlega á morgun ef trúa má slúðrinu.

    Annars er orðið laust, svo ef þið hafið heyrt eitthvað áhugavert slúður er um að gera að deila því.

  • Florian Wirtz

    Það er sannarlega nóg að gera á kop.is skrifstofunni þessa dagana. Hér kemur enn ein færslan!

    “I feel very happy and very proud. I was waiting for a long time”. 

    Í dag staðfesti Liverpool Football Club kaup á Þjóðverjanum Florian Wirtz. Menn gera sér kannski ekki almennilega grein fyrir því hversu stórt þetta er:

    • stærstu kaup sögunnar hjá Liverpool
    • stærsta salan í sögu Bundesligunnar
    • stærsta salan í sögu Bayer Leverkusen
    • ef allar klásúlur verða greiddar eru þetta stærstu kaup í sögu ensku úrvalsdeildarinnar

    Og þetta er ekkert smá.

    Hver er Florian Wirtz?

    Florian Wirtz er fæddur 3.maí árið 2003 og er því nýorðinn 22 ára. Hann er frá Norður-Rín/Westfalíu, sem er hérað í norð-vesturhorni Þýskalands, með landamæri að Hollandi og Belgíu. Hann fór 7 ára til 1.FC Köln og svo 16 ára til Bayer Leverkusen, í janúar 2020. Það olli reyndar fjaðrafoki þar sem Kölnarar voru ekki par sáttir við aðferðir Leverkusen til að fá hann til félagsins.

    Hann lék fyrsta leik sinn í meistaraflokki sama ár, þann 18.maí 2020, nýorðinn 17 ára. Hann var yngsti leikmaðurinn til að spila og skora í Bundesligunni en reyndar er búið að slá þau met síðan.

    Næstu tímabil hélt hann síðan áfram að slá met. Hann festi sig í liði Leverkusen og sló eftirfarandi met:

    • fyrstur til að skora fimm mörk í Bundesligunni fyrir 18 ára aldur
    • fyrstur til að skora yfir 10 mörk í Bundesligunni fyrir 19 ára aldur
    • yngsti leikmaðurinn í Bundesligunni til að spila 50 leiki

    Það er því sannarlega ljóst og hefur verið lengi að þessi strákur hefur lengi verið algjör gullmoli. En lífið hefur ekki verið eintómur dans á rósum hjá honum því í mars 2022 sleit hann liðbönd í ökkla og var frá í 10 mánuði, allt fram í janúar 2023. Það eru einu teljandi meiðslin sem hann hefur átt í síðan hann hóf meistaraflokksferil sinn þótt eitthvað smávægilegt hafi hrjáð hann annað slagið.

    Tímabilið eftir er síðan kannski tímabilið sem hann sprakk út fyrir alvöru, þ.e. tímabilið 2023-2024. Bayer Leverkusen vann þýska meistaratitilinn, þýska bikarinn og komst í úrslit í Evrópudeildinni. Hann lét það þó ekki duga heldur var hann valinn besti leikmaður deildarinnar og kom að 23 mörkum í 32 leikjum, 11 mörk og 12 stoðsendingar. Síðasta tímabil var svipað hjá honum, 31 leikur, 10 mörk og 13 stoðsendingar í deildinni.

    Alls á hann 31 a-landsleik fyrir Þýskaland (munum að hann er 22 ára) og hefur skorað 7 mörk. Hann hefur verið fastamaður í landsliðinu síðan í mars 2021 fyrir utan auðvitað meiðslatímabilið 2022. Til að mynda lék hann 15 leiki árið 2024 og skoraði 6 mörk fyrir landsliðið. Hann lék með landsliðinu í lokakeppni EM um sumarið.

    Hvers konar leikmaður er Florian Wirtz?

    Flestir kannast líklega við ungstirnið Musiala hjá Bayern Munchen. Hér er samanburður á Wirtz og Musiala á helstu tölum:

    Og einhverjir gætu líka kannast við stoðsendingakónginn Mohammed Salah. Florian Wirtz er nú bara ekkert mjög langt fyrir aftan okkar allra besta Mo:

    Þetta eru bara ansi magnaðar tölur. Væntanlega eru flestir búnir að sjá klippur af þessum frekar mjóa gutta, sem spilar með kaffimál fyrir legghlífar og er eiginlega með sokkana niðri – a la Ásgeir Sigurvinsson. Hann er ekki stór, 1,77 á hæð og honum finnst gaman að sóla, er alveg skuggalega teknískur og útsjónarsamur að sjá leiðir að marki andstæðinga í sóknarleiknum. Hann er líklega það sem svo marga dreymir um að vera, tía af gamla skólanum. Eiginleikar hans hafa gert það að verkum að Xabi Alonson hefur haft hann í þessu mikilvæga sóknarhlutverki í stórskemmtilegu liði Bayer Leverkusen og landsliðsþjálfarar Þýskalands, Joachim Löw, Hansi Flick og núna Julian Nagelsmann hafa verið á sömu skoðun.

    Það sem við eigum eftir að sjá af honum í nýju adidas-treyjunni hjá Liverpool verður akkúrat það sem hann hefur verið að gera undanfarin ár. Slot sér hann sem lykil að þéttum varnarpökkum andstæðinganna, hvort sem er með því að sigla framhjá varnarmönnum með bolta eða finna hlaup samherja og taka þríhyrningaspil. Hann bætist í hóp teknískra sóknarmanna og eykur til mikilla muna sköpunarkraft sóknarlínunnar. Hann er líka duglegur, með mjög góðar hlaupatölur. Einar kemur inn á áhrif á miðjuna hér að neðan:

    Hann var að mestu framarlega á miðjunni vinstra megin hjá Leverkusen sem spilaði með þriggja manna vörn, tvo fljúgandi bakverði og tvo varnarsinnaða miðjumenn fyrir aftan sig. Það er erfitt að sjá Slot stilla honum þannig upp næsta vetur. Mun líklegra er eitthvað í ætti við 4-2-3-1 þar sem Wirtz er í gömlu góðu Gerrard holunni eða einhverja útgáfu af 4-3-3 þar se Wirtz er fremstur.

    Önnur pæling er hvort koma Wirtz verði til þess að öll miðjulínan okkar færist aftar, Szoboszlai verði meira átta, MacAllister og Jones meira í holunni og Gravenberch í miðverði líkt og við sáum stundum í leikjum á síðasta tímabili?

    Það verður sannarlega fróðlegt að fylgjast með ferli hans hjá Liverpool á næstu árum. Áhrifin hans verða án efa víðtæk og það er óhætt að láta sig fara að hlakka til næsta tímabils. Tökum fagnandi á móti Florian Wirtz!

     

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close