Latest stories

  • Merseyside derby á miðvikudagskvöld

    Halelúja! Landsleikjahléinu er að ljúka!

    Því lauk svosem tæknilega um helgina, en þetta var bikarhelgi og okkar menn voru í fríi þar út af dottlu. Mig grunar að þetta frí um helgina hafi verið kærkomið, en það kemur kannski endanlega í ljós annað kvöld þegar strákarnir okkar mæta á Anfield, og fá hina bláklæddu Everton menn í heimsókn sem verða undir stjórn David Moyes.

    “There is a league title to be won” hefur verið viðkvæðið núna í svolítinn tíma, og það er bara akkúrat þannig. Staðan er góð, en það er ekkert tryggt. Tja, nema það jú að Fulham og liðin fyrir neðan þá sem hafa leikið jafn marga leiki geta ekki lengur náð Liverpool að stigum. Eftir sigur Arsenal á téðu Fulham liði í kvöld þá er munurinn á okkar mönnum og Arsenal kominn í 9 stig, en þeir eiga vissulega bara 8 leiki eftir. Það gera 24 möguleg stig í pottinum. Ef Arsenal halda sama PPG hlutfalli á lokasprettinum eins og þeir hafa gert fram að þessu – og þetta er stórt EF, því þeir fengu t.d. Saka til baka núna í kvöld – þá enda þeir með 77 stig. Ef það er raunin, þá nægir Liverpool að vinna 3 leiki af þessum 9 sem eftir eru. En svo gætu Arsenal líka farið á “run” og krækt í öll 24 stigin sem eru í boði. Ef svo fer, þá enda þeir með 85 stig. Og þá þurfa okkar menn að tryggja sér að lágmarki 15 stig, þ.e. 5 sigra úr 9 leikjum, 16 stig væri samt betra til að þurfa ekki að stóla á markahlutfallið.

    Höfum eitt á hreinu: það á bara alls ekki að þurfa að mótívera leikmenn Liverpool til að mæta á Anfield og spila þar við Everton – alveg sama hversu aðkeyptir hinir rauðklæddir eru. Við gerum bara kröfu til þess að menn mæti með hausinn rétt skrúfaðan á sig og spili þennan leik eins og menn. En ef menn vantar einhverja smá mótívasjón, þá má alveg sýna þeim síðustu sekúndurnar úr leiknum á Goodison. Við ætlum ekki að rifja þær mínútur upp sérstaklega hér, en guð minn almáttugur hvað það þarf að kvitta fyrir þann leik og það hvernig hann endaði.

    Mohamed Salah hefur svo alveg nokkrar ástæður til að koma fullur eldmóðs inn í þennan leik. Hann er núna jafn Aguero í lista yfir markahæstu deildarinnar, þeir eru þar saman í 5-6 sæti á listanum. Þá er Andy Cole ekki langt undan heldur, því Salah vantar aðeins 3 mörk til að jafna hann. Semsagt: 4 mörk frá Mo, og hann verður kominn í 4. sætið yfir markahæstu leikmenn úrvalsdeildarinnar. Ég myndi segja að morgundagurinn sé bara alveg fullkominn dagur til að skora 4 mörk og ná þessu 4. sæti, en ég myndi alveg sætta mig við að það taki aðeins lengri tíma. Eins er ekki ólíklegt að Salah sé með annað augað á metinu varðandi mörk og stoðsendingar á sama tímabilinu, Thierry Henry náði 20+20 á sínum tíma, en Salah er núna með 27 mörk og 17 stoðsendingar. Líklega er leikurinn á morgun sömuleiðis tilvalinn til að eiga 3-4 stoðsendingar.

    En svo er það líka þannig að þrátt fyrir alls konar met eins og þessi sem Salah er með í sigtinu, þá er í raun bara eitt aðalmarkmið sem skiptir máli á morgun: að ná í 3 stig. Líklega verður það það sem Salah mun allahelst vilja fá út úr leiknum, og það á við um okkur öll.

    Það er líka þannig að Ramadan stóð yfir í mars, en lauk núna um helgina. Salah er því farinn að geta borðað yfir daginn aftur. Vonum að það hjálpi.

    Staðan á andstæðingunum

    Eftir mjög gott gengi á fyrstu vikunum eftir að Moyes tók við, þá hefur aðeins róast í stigasöfnuninni hjá þeim, og í síðustu 4 leikjum hafa þeir gert jafntefli. Síðasti sigurinn hjá þeim kom reyndar 15. febrúar gegn Palace á útivelli. En við getum því miður bara alls ekki reiknað með að þeir séu ekkert hættulegir lengur. Sérstaklega þegar stig á Anfield er í boði. Annars nenni ég ekki að eyða fleiri orðum í þetta blessaða Everton lið, en vil benda á þennan ágæta þátt frá Sportsbible þar sem Everton aðdáendur áttu að reyna að finna út hver þeirra var laumu Liverpool aðdáandi. Mæli með að gefa þessum þætti séns.

    Staðan á okkar mönnum

    Byrjum á meiðslalistanum. Alisson Becker, Gravenberch og Konate komu allir ögn krambúleraðir úr landsleikjahléinu, Alisson missti af seinni landsleiknum vegna höfuðhöggs, en allir þrír ættu að vera búnir að ná sér og ef þeir byrja ekki þá verða þeir í versta falli á bekk. Conor Bradley er farinn að æfa og Joe Gomez hefur sést á grasinu, en þessi leikur kemur líklega of snemma fyrir Bradley og Gomez er ekki heldur klár. Þá er Trent alls ekki tilbúinn og verður frá í einhverjar vikur til viðbótar. Að lokum er Tyler Morton enn að ná sér eftir uppskurð á öxl og spilar sjálfsagt ekki meira fyrir Liverpool á tímabilinu og er mögulega bara búinn að spila sínar síðustu mínútur fyrir félagið.

    Rest ætti nú að vera nokkuð klárir í slaginn.

    Það eru engar líkur á því að Slot fari út í neina tilraunastarfsemi í liðsvalinu á morgun. Jújú, hann vantar alla 3 leikmennina sem væru að jafnaði að byrja í vinstri bak (Trent, Bradley, Gomez), svo hann verður líklega að setja Jarell Quansah þangað. Það er ekki ídeal, en pjakkurinn sá hefur reyndar staðið sig furðu vel í þessi tvö skipti þar sem hefur reynt á hann í þeirri stöðu. En að öðru leyti getur Slot líklega stillt upp sínu sterkasta liði. Eina spurning er kannski hvernig hann muni stilla upp í framlínunni. Fær Chiesa loksins sénsinn eftir frammistöðuna undir lokin gegn Newcastle? Líklega ekki, og við skulum prófa að stilla þessu svona upp:

    Alisson

    Quansah – Konate – Virgil – Robertson

    Gravenberch – MacAllister

    Salah – Szoboszlai – Gakpo

    Díaz

    Það eru auðvitað möguleikar í stöðunni þarna. Díaz gæti byrjað vinstra megin – smá séns að Chiesa fái sénsinn – og Jota gæti byrjað í níunni. Jones gæti líka hreinlega byrjað þarna, og kannski setur Slot þetta upp í meira 4-2-4. Látum það bara koma í ljós annað kvöld.

    Dagskipunin er skýr: 3 stig í hús. Bara mjög einfalt. Annað er hreinlega ekki í boði. Við bara NENNUM ekki að fara að hleypa þessu eitthvað upp á lokasprettinum og leyfa Arsenal – hvað þá Forest! – að finna einhverja blóðlykt. Nú þarf bara að sigla þessu í höfn. Og okkar menn þurfa bara að finna taktinn sem þeir fundu svo vel fyrir jól.

    Spáum 3-1 sigri með mörkum frá Gakpo (2) og Salah.

    KOMA SVO!!!!!

  • Stelpurnar fá Villa í heimsókn

    Það er komið að næsta leik hjá stelpunum okkar, og þær ætla núna að spila á St. Helens heimavellinum eftir að hafa spilað nokkra útileiki sem og einn á Anfield sællar minningar. Síðasti leikur var gegn Arsenal í deild og við ræðum hann ekkert frekar, né sjálfsmörkin tvö sem Jas Matthews skoraði, hún hristir það af sér.

    Nú er það semsagt heimaleikur gegn Aston Villa. Andstæðingarnir hafa verið hlutfallslega í mesta brasinu af liðunum í deildinni, og eru í næstneðsta sæti og í alvöru hættu á að falla. Eru aðeins með Crystal Palace fyrir neðan sig, sem komu jú upp úr næstneðstu deild síðasta vor, og á meðan Palace er með Katie okkar Stengel í fremstu röð þá geta þær veitt hvaða liði sem er skráveifu, svo Villa eru heldur betur með hættulegan andstæðing andandi ofan í hálsmálið á þeim. Þær vita því fullvel að leikurinn í dag er upp á líf og dauða varðandi þátttökurétt í deildinni.

    Eins og áður hefur komið fram eru Aston Villa núna með Missy okkar Bo Kearns innanborðs, hún hefur fengið meiri spilatíma upp á síðkastið eftir að hafa verið frá vegna meiðsla um mitt tímabil. Eins er Miri Taylor hjá þeim, var svosem ekki lengi leikmaður Liverpool en við munum nú samt alltaf eiga smá í henni.

    Okkar konur eru jú í baráttu um 5. sætið við Brighton, og þurfa nauðsynlega á sigri að halda í dag til að halda opnum möguleikanum á að ná í það sæti. Jafnframt mun sigur í dag tryggja sætið í deildinni tölfræðilega, sem er jú alltaf jákvætt.

    Nóg um það. Amber er ekkert að finna upp hjólið þegar hún stillir upp liðinu:

    Laws

    Fisk – Bonner – Matthews – Hinds

    Holland – Nagano – Höbinger

    Kiernan – Roman Haug – Kapocs

    Bekkur: Micah, Evans, Clark, Bernabé, Daniels, Bartel, Kerr, Shaw, Enderby

    Olivia Smith er ekki í hóp vegna einhverra meiðsla á mjöðm, það er nú heldur betur skarð fyrir skildi. En annars er lítið um meiðsli, Hannah Silcock er enn á sjúkrabekknum en aðrar eru leikfærar. Þetta þýðir að Lucy Parry er t.d. ekki í hóp, ekki af því að hún sé meidd heldur er bara ekki pláss á bekknum. Ekki það að Whiteley hefur lítið verið að nota varamenn hvort eð er. Þá er nokkuð ljóst að Rachael Laws er hennar markvörður nr. 1, og Teagan Micah verður að gera sér bekkjarsetu að góðu. Svo hefur Sam Kerr fengið byrjunarliðssæti á miðjunni hingað til, en byrjar á bekk í dag. Sama gerir Jenna Clark, verandi nýbúin að skrifa undir framlengingu á samning.

    Eins og venjulega verður hægt að sjá leikinn á Youtube: https://www.youtube.com/watch?v=gvlsOkLdnUk

    Jafnframt verður leikurinn sýndur á LFCTV

  • Gullkastið – Hvað gerir Liverpool á leikmannamarkaðnum?

    Allar helstu fréttir vikunnar benda til að Trent sé við það að skrifa undir hjá Real Madríd og fari þangað á frjálsri sölu. Afskaplega leiðinlegur viðskilnaður hjá uppöldum leikmanni og lykilmanni í algjöru toppliði.

    Óháð framtíð Trent er ljóst að Liverpool þarf að láta til sín taka á leikmannamarkaðnum í sumar og tókum við púlsinn á því hvaða leikmenn eru líklegir til að fara og hvað er í boði í staðin í hverri stöðu.

    Ögurverk liðið er á sínum stað og þrenna að þessu sinni.

    Deildin fer svo aftur af stað í næstu viku og spilar Liverpool við Everton á miðvikudaginn og Fulham um helgina.

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur: SSteinn og Maggi

    Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.

    MP3: Þáttur 514

  • Allar líkur á að Trent Alexander-Arnold fari

    Verst geymda leyndarmálið í fótboltanum þetta árið er því miður að Trent Alexander-Arnold virðist nær örugglega ætla að yfirgefa Liverpool á frjálsri sölu og fara til helvítis djöf…. Real Madríd. Það eru nokkrir mismunandi vinklar á þessu auðvitað og hvaða áhrif þetta kemur til með að hafa á Liverpool liðið og plön næsta sumars.

    Viðskilnaðurinn

    Uppalin leikmaður hjá Liverpool sem ítrekað hefur talað um hversu mikið hann er að lifa drauminn og vilji hvergi annarsstaðar vera verður ekkert klappaður upp þegar hann ákveður 26 ára að fara á frjálsri sölu til Real Madríd. Eitt er að fara frá Liverpool liði sem er í kjörstöðu til að vinna titilinn og bara í vaðandi samkeppni við lið eins og Real Madríd. Annað er að fara á frjálsri sölu þannig að uppeldisfélagið fær ekkert við viðskilnaðinn annað en góðar minningar.

    Hann skrifaði svo sannarlega undir samning til fjögurra ára árð 2021 og er auðvitað í fullum rétti að fara annað þegar sá samningur rennur út. En það er líka fullkomlega eðlilegt að hann fái helvítis hellings gagnrýni fyrir frá stuðningsmönnum Liverpool og þetta hefur klárlega mjög mikil áhrif á arfleið hans sem leikmaður Liverpool. Fróðlegt líka að hugsa til þess núna að hans samningur var til fjögurra ára þá en samningar Robertson til fimm ára og Alisson voru til sex ára, afhverju var það?

    Trent er að upplifa draum stuðningsmanna félagsins og liðið er mjög vel samkeppnishæft öfugt við kannski liðið sem McManaman yfirgaf með sama hætti. Það er ekki alveg hægt að gefa Michael Owen þann vafa enda vann félagið Meistaradeildina bókstaflega tímabilið eftir að hann fór. Owen fór ekki á frjálsri sölu heldur og liðið var vissulega búið að vera í ströggli áður en hann fór 2004.

    M.ö.o. það er hægt að bera aðeins meiri virðingu fyrir brottför Macca og Owen þegar þeir ákváðu að fara til Real en tímasetningu Trent núna. Hann verður líklega í svipuðum metorðum hjá stuðningsmönnum liðsins og þeir hafa verið sl. 20 ár.

    Eins svíður það sérstaklega að missa Trent til Real Madríd í ljósi sögu Liverpool gegn Real Madríd árin sem Trent hefur spilað fyrir Liverpool.

    Hvernig bregst Liverpool við?

    Trent undir stjórn Jurgen Klopp hálfpartinn endurskilgreindi stöðu hægri bakvarðar og er í flokki þeirra allra bestu í þessari stöðu, ekki bara núna undanfarin ár heldur frá upphafi. Enda  hefur hann verið lykilmaður í geggjuðu Liverpool liði sem spilaði mjög mikið inn á styrkleika Trent. Þrjú +90 stiga tímabil og fjórir úrslitaleikir í Meistaradeild eða Evrópudeild er eitthvað sem fáir hægri bakverðir hafa afrekað undir 25 ára, hvað þá sem algjörir lykilmenn öll tímabilin.

    Nýr stjóri virðist ekki alveg ætla að nýta hann eins og Klopp gerði og mig grunar að ef hann þyrfti að velja tvo af þremur fyrir næsta tímabil myndi hann velja Van Dijk og Salah frekar og þeim forsendum að það er erfiðara að fylla þeirra skörð. Það þarf ekkert að vera að Arne Slot sé að fara á taugum yfir því að missa hægri bakvörðinn sinn. Tíminn mun auðvitað leiða í ljós hversu stórt skarð Trent kemur til með að skilja eftir sig. Það er samt líklega nokkuð ljóst að arftaki Trent verður ekki leikstjórnandi Liverpool úr stöðu hægri bakvarðar og sendinga getan er eitthvað sem erfitt er að sjá nokkurn leika eftir í bráð.

    Það er sannarlega hægt að byggja sóknarleikinn öðruvísi upp en Liverpool gerir og vonandi verður lausnin að fá inn mjög líkamlega öflugan og fljótan hægri bakvörð sem keppir um stöðuna við Conor Bradley. Hann fær líklega dauðafæri til að eigna sér þessa stöðu ef hann nær einhverntíma að halda sér heilum blessaður. Bara í guðanna bænum ekki missa Trent og fara inn í næsta tímabil með Conor Bradley sem aðalmann og Joe Gomez sem næsta varamann, læknavísindin eru bara ekki komin svona langt.

    Liverpool þarf líka að kaupa vinstri bakvörð sem einfaldar ekki málið en sé það gert rétt, t.d. annar  sem er líkamlega sterkur og fljótur gæti það alveg styrkt Liverpool liðið frá því sem nú er. Kerkez hjá Bournemouth sem dæmi.

    Fjárhagshliðin

    Versta er að fá ekki krónu fyrir Trent og vafalaust eigum við eftir að heyra fréttir af því í sumar að ekki verði eytt um efni fram enda kom ekkert kaupverð inn fyrir Trent. Þetta er vel rúmlega 100m leikmaður.

    Liverpool á þrátt fyrir þetta að eiga meira en nægt svigrúm til að taka þó ekki væri nema einn svona hálfan Chelsea glugga í sumar og þarf að gera það. Það er líka vel mögulegt að töluvert skili sér í kassann fyrir sölu á öðrum leikmönnum. Liverpool hefur ekki gert nokkurn skapaðan hlut undanfarin misseri en á sama tíma losnað við nokkra stóra bita af launaskrá, Trent sjálfur er t.a.m. stór biti sem losnar af launaskrá, Thiago og Matip voru það líka.

    Kelleher, Nunez, Morton, Chiesa og jafnvel Diaz gætu allir skilað töluverðu í kassann fyrir utan að Liverpool hefur ítrekað reynt að kaupa stóra bita á leikmannamarkaðnum án árangurs.

    Höfum samt í huga að Edwards og Hughes voru mjög líklega ekki að koma aftur til að Liverpool færu að kaupa mest augljósa og dýrasta bitann á markaðnum, Alexander Isak er sem dæmi aldrei að fara koma í sumar. Núna þurfa þeir líka að finna “réttu” bitana og klára kaupin á þeim, ekki meta stöðuna til dauða og missa svo fyrsta valkost eins og venjulega til keppinauta.

    Nóg komið af neikvæðum fréttum

    Liverpool er að eiga alveg einstaklega slæman mars mánuð eftir að tímabilið var nánast bara jákvætt fram til nú. Það hefði svo sannarlega frekar mátt tilkynna að þríeykið væri búið að framlengja núna frekar en að Trent væri mjög líklega að fara. Liðið er nýbúið að tapa bikarúrslitaleik og falla úr leik í Meistaradeildinni í 16-liða úrslitum eftir að hafa unnið 36 liða riðil í undankeppninni. Það sem verra er liðið hefur virkað dauðuppgefið og þungt undanfarnar vikur og jafnvel mánuði.

    Það hefur ekki einn leikmaður verið orðaður af einhverri alvöru við Liverpool í vetur og raunar ekki nokkur einasta jákvæða frétt komið af leikmannamálum allt þetta tímabil. Samningsmál virka svipað strand og síðasta haust. Magnað fyrir lið sem er þrátt fyrir allt með 12 stiga forskot á toppi deildarinnar. Já og guði sér lof að liðið er með þetta forskot núna! 

    Trent er að fara. Salah hefur ítrekað sagt að hann vilji vera áfram en lítið sem ekkert sé að frétta af samningsviðræðum við hann. Van Dijk er svipaður en segir að hann sé ekki í neinum viðræðum við klúbbinn. Konate er núna sagður erfiður í samningsviðræðum og mögulega að fara til PSG eða Real Madríd. Hann á ár eftir af sínum samningi í sumar.

    Zubimendi var svo gott sem kominn í sumar en það fór samt í vaskinn. Úr því svo fór var enginn annar valkostur í boði! Félagið má svo sannarlega fara skipta aðeins um plötu og haga sér eitthvað meira í líkingu við lið sem er að vinna ensku úrvalsdeildina og stefnir á að gera það aftur á næsta tímabili.

     

     

  • Hverjir fara í sumar?

    Ay, here we are with problems at the top of the league.” Líklega hefur gamla Bill Shankly línan aldrei átt eins vel við og á þessu tímabili. Liverpool er afgerandi á toppnum en á sama tíma er fyrirséð að töluverðar breytingar verði gerðar á hópnum í sumar.

    Hópurinn er alveg nægjanlega stór og fyrir hvern lykilmann sem kemur í sumar er mjög líklegt að a.m.k. einn fari frá félaginu í staðin. Arne Slot og Richard Hughes hafa sannarlega flýtt sér hægt við að setja sitt handbragð á leikmannahópinn og hafa væntanlega lært það sem þeir þurfa á þessu tímabili.

    Slot þarf klárlega fleiri leikmenn sem hann treystir á næsta tímabili ef liðið ætlar langt í fleiri en einni keppni. Skoðum hverjir eru líklegir til að fara í sumar og hvað gæti komið í staðin.

    Sóknarlínan

    Liverpool er búið að skora fjórtán mörkum meira en næstu lið fyrir neðan í deildinni. Mesta breiddin í liðinu er í sóknarlínunni og allir framherjar liðsins eru leikmenn sem geta unnið leiki upp á sínar eigin spítur. Engu að síður er tilfinningin sú að þeir mættu allir fara í sumar fyrir réttan valkost í staðin nema auðvitað Mo Salah, eini af þeim sem er að renna út á samningi.

    Salah er stóra breytan hér, ef að hann fer núna í sumar þarf að fylla í risastórt skarð sem erfitt er að sjá neinn af núverandi leikmönnum fara nálægt því að fylla. Mörkin þurfa þá að koma frá fleiri leikmönnum og það þarf ekkert endilega að vera slæmt. Hvort sem það verði í sumar eða ekki þarf Liverpool að fara finna arftaka Salah því hann er líka að komast á aldur.

    Diogo Jota er 28 ára og hefur skorað fimm mörk í deildinni í vetur, hann hefur spilað ígildi tæplega 10 leikja sem er normið hjá honum sem leikmaður Liverpool. Hann hefur oft verið rosalega lengi í gang eftir meiðsli en frammistöður hans núna undanfarið eru þó liklega nálægt botninum á hans ferli hjá Liverpool. Þarna er sannarlega hægt að styrkja hópinn töluvert með traustari leikmanni.

    Darwin Nunez hlýtur líka að fara í sumar, þessi tilraun er bara ekki að ganga og líklega er hann ennþá ágætlega söluvæn vara. Nunez er líka búinn að skora fimm mörk og með mínútur í deild sem samanlagt eru rétt rúmlega 10 leikir. Þetta er leikmaður sem ætti að skora 30 mörk núna og vera búinn að taka við keflinu af Salah eða a.m.k gera tilkall til þess.

    Nunez og Jota virðast bara ekki passa í leikstíl Slot. Kannski er það vegna þess að Salah er svo afgerandi og leikur liðsins snýst í kringum hann, allavega virðist hann mun frekar vera að leita að nýjum Bobby Firmino frekar en afgerandi níu.

    Luis Diaz er með 9 mörk í deildinni sem er sæmilegt en hann hefur verið rosalega heitur/kaldur í vetur og virkar blessaður sem töluvert ódýrari útgáfa af Sadio Mané. Það hefur ekkert gengið að gera níu úr honum, ekki frekar en með Gakpo í fyrra. Alls ekkert forgangsverkefni að selja Diaz en ekki ólíklegt að hann sé falur fyrir rétt verð. Sá sem kaupir hans þarf samt að vera skuldbundinn þannig að hann tekur pabba hans með líka.

    Cody Gakpo er nánast eini sóknarmaðurinn sem maður getur verið nokkuð viss um að verði áfram á næsta tímabili. Ekki það að hann hefur skorað færri mörk og spilað mun minna en Diaz í vetur.

    Chiesa er svo enn einn sem gæti vel farið í sumar, hann er búinn að spila heilar 25 mínútur í deildinni í vetur og augljóslega ekki í plönum Slot. Var FSG að kaupa hann á 10m til að geta selt aftur á 25-30m?

    Ben Doak hlítur að vera einn af þeim sem kemur inn í hópinn næsta vetur ef 2-4 af núverandi sóknarmönnum fara. Hann hefði satt að segja vel getað verið hjá Liverpool í vetur í stað þess að fá inn Chisea.

    Eins er spurning hvað verður úr hinum 19 ára Jayden Danns, hann er að eiga hræðilegt tímabil núna vegna meiðsla eftir frábæra innkomu á síðasta tímabili.

    Spá: Salah framlengir við Liverpool, Darwin, Diaz og Chisea fara og í staðin kemur einn leikmaður í sóknina auk Ben Doak.

    Miðjan

    MacAllister, Szoboszlai og Gravenberch komu allir í sama glugganum og eru allir búnir að festa sig afgerandi vel í sessi. Engin af þeim er heldur að verða tæpur á samningi. Curtis Jones er mjög líklega ekkert að fara heldur og ólíklegt að Harvey Elliott sé það heldur þó Slot hafi ákaflega lítið treyst honum í vetur. Elliott er með 120 mínútur í deildinni í vetur sem er ótrúleg notkun á einu mesta efni félagsins.

    Wataru Endo fær sömuleiðis lítið sem ekkert traust frjá þjálfaranum í deildinni sem spilar Gravenberch frekar á sjúkrahús en að treysta Endo í byrjunarliði. Tyler Morton er annar sem er að eiga ömurlegt tímabil. Hann hefur verið mikið meiddur og er alls ekki í neinum plönum hjá Liverpool. Sorglegt fyrir hann 22 ára taka eitt tímabil án þess að spila leik eftir að hafa tekið tvö mjög öflug ár í Championship deildinni. Maður myndi ætla að það sé hægt að sameina Endo og Morton í einn góðan miðjumann sem Slot actually treystir og getur notað til að dreifa álagi betur með hinum miðjumönnum liðsins.

    Hér þarf samt líka að hafa í huga að nýr leikmaður gæti hindrað leikmenn eins og James McConnell eða Trey Nyoni. Ef að Slot var alvara um McConnell ætti hann að vilja nota hann eitthvað á næstu árum. Eins er spurning hvernig félagið ætlar að nota hinn 17 ára Nyoni. Hann verður ekki hjá Liverpool endalaust ef hann sér ekki leið inn í aðalliðshópinn.

    Spá: Vonandi ekki enn einn Monitoring FC sumarið þar sem Liverpool er orðað við alla bestu miðjumenn í heimi en enda svo tómhentir eða með aldraðan leikmann á hrakvirði frá meginlandi Evrópu. Klárum einn í þessum Zubimendi klassa, t.d. leikmann eins og Baleba frá Brighton. Tyler Morton verður sá eini sem fer. 

    Miðverðir

    Van Dijk bara má ekki fara í sumar, það er nánast óhugsandi og galið að félagið sé ekki búið að klára samning við hann. Þegar hann fer verður líklega skarð í vörninni sem tekur áratugi að fylla.

    Konate er líka að verða áhyggjuefni, hann á í sumar eitt ár eftir af samningi og ef illa gengur að semja við hann þarf félagið að skoða það alvarlega að selja hann og fá inna annan mann í staðin. Konate er algjörlega í Joe Gomez flokki miðvarða frekar en Van Dijk og alveg spurning með tilliti til sögu hans hvort ekki sé rétt að fá inn annan og traustari leikmann?

    Árið 2021-22 spilaði hann 11 leiki í deildinni, árið 2022-23 spilaði Konate 17 leiki, hann spilaði líka 17 deildarleiki á síðasta tímabili og er að bæta sín eigin met allverulega í vetur með að vera búinn að spila 23 deildarleiki núna (og var auðvitað að meiðast). Þannig að hann hefur núna á sínu allra besta móti misst úr 6 leiki af 29 leikjum.

    Joe Gomez þarf svo að vera fimmti valkostur eða meira sem miðvörður og þriðji valkostur sem bakvörður. Það er því miður bara alls ekki hægt að treysta hans líkama og mjög þreytandi að leggja upp í hvert tímabilið á fætur öðru með slíka leikmenn

    Jarrell Quansah hefur byrjað tvo deildarleiki og komið inná í átta deildarleikjum. Hann er ennþá mikið efni og vonandi framtíðar miðvörður Liverpool en ég er ekki viss um að hann sé klár í það hlutverk strax. Hann er samt sá eini sem maður sé alls ekki fyrir sér fara í sumar.

    Þessi staða var mjög tæp fyrir tímabilið og það hefur lítið breyst á þessu tímabili. Það vantar klárlega einn heimsklassa miðvörð og mögulega tvo fyrir næsta tímabil.

    Spá: Enginn af þeim fer en við bætum við einum alvöru miðverði sem vonandi verður framtíðar arftaki Van Dijk. 

    Bakverðir

    Fyrir ári síðan fannst manni framtíð Liverpool tryggð hægra megin með Trent og Conor Bradley, núna virðist nokkuð ljóst að Trent er að fara á frjálsri sölu og Bradley virðist víðsfjarri því að hafa líkama í að taka við af honum. Auðvitað vill maður halda báðum en fari svo að Trent sé farinn þarf að kaupa nýjan hægri bakvörð.

    Vinstra megin var ágætlega augljóst fyrir tímabil að tími væri komin á breytingar og það á við ennþá. Liverpool þarf að kveðja Tsimikas og fá inn leikmann sem tekur stöðuna af Robertson, hvort sem það verði strax eða hægt og rólega á næsta tímabili.

    Spá: Liverpool kaupin inn tvo byrjunarliðs bakverði. Trent og Tsimikas fara. Óttast samt að ef Trent fer að ekkert verði gert vinstra megin og bara keypt nýjan hægri bakvörð. 

    Markverðir

    Skarð Alisson verður líklega engu minna en Van Dijk þegar hans tíma hjá Liverpool líkur.

    Spá Ef að Mamardashvili er sannarlega að koma í sumar og Alisson ekki að fara þá er nokkuð ljóst að Kelleher sé farinn. Eins held ég að þá verði Mamardashvili að sætta sig að vera varamarkmaður eitt tímabil. 

    Að lokum

    Það er nokkuð auðveldlega hægt að sjá fyrir sér að 6-8 leikmenn fari í sumar og inn komi 4-5 nýir leikmenn auk þess sem ungir leikmenn fylli upp í eitthvað af þessum skörðum. Endurkoma Edwards til Liverpool og ráðning Richard Hughes benda til að Liverpool er alls ekki að fara kaupa Alexander Isak eða álíka tilbúin nöfn nema í algjörum undantekningar tilvikum, þetta verði meira í anda leikmannakaupa Bournemouth undanfarið og Liverpool áður.

    Liverpool má alveg missa af augljósa valkostinum sem allir eru að öskra á að fá ef að mótleikurinn er gluggi eins og sá sem skilaði okkur MacAllister, Szoboszlai og Gravenberch. Eins má Hughes halda áfram með leikmannakaup eins og skilaði Bournemouth leikmönnum eins og Kerkez og Huijsen. Hlutfall heppnaðra leikmannakaupa í tíð Klopp og Edwards var ótrúlega gott þó oft hafi þau ekki virkað sem mest spennandi valkosturinn fyrirfram. Vonandi fáum við að sjá eitthvað svipað úr samvinnu Slot og Hughes.

  • Gullkastið – Allur fókus á deildina

    Arne Slot valdi hreint afleita viku til að tapa tveimur leikjum í röð í fyrsta skipti á ferlinum. Liverpool lauk leik í 16-liða úrslitum þrátt fyrir að hafa toppað deildarfyrirkomulagið í Meistaradeildinn og tapaði svo með afar þreyttum og ósannfærandi hætti gegn Newcastle Wembley, versta frammistaða Liverpool þar síðan 1988.

    Alls ekki gott og ágætt að fá bæði landsleikjahlé og bikarhelgi í kjölfarið á því. Nú fer allur fókus á þessa níu leiki sem eru eftir af þessu tímabili. Sigur í fimm þeirra og það er hægt að jafna sig á þessari viku.

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur: SSteinn og Maggi

    Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.

    MP3: Þáttur 513

  • Liverpool 1 – 2 Newcastle

    Eftir tap gegn Newcastle á Wembley þá er staðan sú að Liverpool getur að hámarki náð í einn titil í ár. Og eins og liðið hefur verið að spila upp á síðkastið – þar sem okkar menn hafa virkað orkulausir bæði líkamlega og andlega – þá skulum við ekki bóka eitt eða neitt varðandi þennan eina titil sem enn er í boði.

    Mörkin

    0-1 Burn (45. mín)
    0-2 Isak (52. mín)
    1-2 Chiesa (90+4 mín)

    Hvað réði úrslitum?

    Það er frekar einfalt. Newcastle menn mættu mun hungraðri í leikinn, vildu þetta meira, sköpuðu meira og skoruðu á endanum fleiri mörk.

    Hvað gerðist helst markvert?

    Í fyrri hálfleik gerðist nánast ekkert markvert í sóknarleiknum hjá Liverpool, og fyrir utan eitt færi sem Jota fékk á síðustu mínútu uppbótartíma (sem hann skóflaði nánast í innkast), þá var xG hjá okkar mönnum upp á 0.0 í hálfleiknum. Newcastle fengu mun fleiri hornspyrnur, og upp úr einni þeirra skoraði Dan Burn með skalla þegar Mac Allister átti að vera að dekka hann. Þá hefði Kelleher líka sjálfsagt getað gert betur.

    Síðari hálfleikur var eitthvað aðeins skárri, en samt ekki mikið. Isak þurfti auðvitað að skora, fyrst mark sem var dæmt af vegna rangstöðu, en svo aftur sem var alveg löglegt. Sköpunin framávið hjá okkar mönnum var í algjöru lágmarki. Jones og Nunez komu inná eftir tæpan klukkutíma, Curtis átti gott skot sem var samt nánast beint á Pope, og það var eiginlega fyrsta alvöru tilraunin hjá okkar mönnum. Gakpo kom svo inná og er enn greinilega ekki kominn í rytma. Svo komu Elliott og Chiesa inná og það voru þeir sem sköpuðu þessa litlu von sem við höfðum með því að minnka muninn í 1-2 í uppbótartíma, tók reyndar alveg rúmar 2 mínútur að finna út að Chiesa var ekki rangstæður eins og aðstoðardómarinn hafði upphaflega dæmt. En þrátt fyrir þessa líflínu þá sköpuðu okkar menn ekkert af viti það sem eftir lifði uppbótartíma og því fór sem fór.

    Það verður svo að minnast aðeins á árásina sem Joelinton átti á Elliott á síðustu mínútu uppbótartímans, en fékk ekki einusinni gult fyrir. Skandall. En breytti n.b. engu um úrslitin.

    Hverjir stóðu sig vel?

    Chiesa kom ferskur inn af bekknum. Kelleher átti góða vörslu og kom í veg fyrir að staðan yrði 0-3. Svo voru Konate og Virgil öflugir, en máttu sín lítils. Szoboszlai var duglegur, en ekki mjög áhrifaríkur. Quansah var líklega að spila nokkurnveginn á pari, og Robbo sömuleiðis.

    Hvað hefði mátt betur fara?

    Eiginlega allt. Líklega hefði mátt stilla upp algjörlega öðru byrjunarliði. Jota átti sinn versta leik, Salah var heppinn með það hvað Jota var skelfilegur því annars hefðum við talað um hvað Salah var ósýnilegur í leiknum. Það kom ekkert út úr Díaz. Miðjan var ekki með á löngum köflum, Grav var að eiga einn af sínum verstu leikjum fyrir félagið, og áhyggjuefni hve oft upp á síðkastið það er raunin. Mac Allister hefur oft verið betri.

    Umræðan eftir leik

    Sko, ef okkar menn ná nú að tryggja sér titilinn í apríl og maí, þá munum við gleyma þessu tapi mjög fljótt. En það hefði verið mjög gaman að ná í eina auka dollu. Svo verður ekki og við bara óskum Newcastle til hamingju með bikarinn, þeir voru klárlega betri í dag.

    Nú þarf að sjá hvernig hópurinn nær að safna kröftum – bæði líkamlega og andlega. Vissulega eru margir að fara með landsliðunum sínum núna á næstu dögum, þá er bara að krossa fingur og vona að menn komi heilir til baka. Fyrsta helgi eftir landsleikjahlé er svo bikarhelgi, svo það er pása þá. Hugsa að það sé jákvætt frekar en neikvætt.

    Við þökkum líka fyrir að í næsta leik sem Salah spilar fyrir Liverpool þá verður Ramadan lokið, svo þá má hann borða yfir daginn. Ég vil meina að þetta hafi áhrif á orkustigið hjá honum.

    Næstu verkefni

    Það er deildartitill sem þarf að vinna. Everton á Anfield miðvikudaginn 2. apríl, Fulham úti helgina þar á eftir, West Ham heima helgina þar á eftir. Í öllum þessum leikjum þarf liðið að mæta mun betur stemmt heldur en það hefur gert síðustu leiki.

    Það er einfaldlega ekki í boði að missa dampinn núna á lokasprettinum!

  • Liðið gegn Newcastle á Wembley

    Bekkur: Alisson, Tsimikas, Endo, Jones, McConnell, Elliott, Gakpo, Chiesa, Nunez

    Fátt sem kemur á óvart. Aðal spurningin var frammi, þ.e. hvort Gakpo væri klár í að byrja, og hvort Nunez fengi traustið í níunni.

    Newcastle stilla upp sínu sterkasta liði, fyrir utan að Gordon er í banni og Hall er á sjúkrabekknum.

    KOMA SVO!!!!!

  • Bikarúrslit á morgun – landar Slot sínum fyrsta titli með Liverpool?

    Á morgun fer fram leikur Liverpool og Newcastle í úrslitum Deildarbikarsins þar sem Liverpool fær tækifæri til að verja titil sinn sem var síðasti bikar sem Jurgen Klopp vann með Liverpool – og nú gæti farið svo að það verði fyrsti bikar Arne Slot sen þjálfari liðsins. Það er pínu rómans í því þó hugur flestra beinist þó klárlega að þessum stóra sem virðist innan seilingar.

    Lengi vel hefur þessi bikarkeppni verið töluð niður og margir sem segja þann titil nokkuð ómerkilegan en flest allir sem vinna hann fagna honum þó vel og innilega. Bikarkeppnirnar í Englandi hafa kannski bara því miður misst einhvern ákveðin sjarma eða mikilvægi í alltof þéttu leikjaprógrami fótboltans. Við glöddumst yfir þessum bikarsigri í fyrra og munum án efa fagna þessum innilega líka verði það raunin aftur í ár enda vilja allir að sitt lið vinni allt það sem býðst.

    Verkefnið á morgun verður þó klárlega krefjandi þar sem Liverpool mætir sterku liði Newcastle sem geta verið hræðilegt lið að mæta og. Þeir eru með marga öfluga karaktera, sterkir í vörn, miðjan þeirra er öflug, þeir hafa hraða menn á köntunum og einn besta strikerinn í bransanum í dag. Síðast þegar liðin mættust vantaði framherjann þeirra Isak og nokkra menn á miðjuna sem munar nú alveg um og eru þeir klárir í slaginn á morgun. Þeir verða hins vegar án vinstri vængs síns þar sem þeir Lewis Hall og Anthony Gordon verða fjarri góðu gamni og getur munað um það, sér í lagi þar sem Trent Alexander Arnold er meiddur.

    Newcastle er eitt þeirra liða sem eru í baráttunni um að tryggja sér þátttökurétt í Meistaradeildinni á næsta ári og klæjar eflaust í fingurna að takast það verkefni og kóróna það sem ansi langþráðum bikarsigri. Það má því alveg búast við að þeir selji sig ansi dýrt á morgun og verði enn erfiðari viðureignar en áður – og eru þeir nú öllu jafna ansi verðugur mótherji.

    Liverpool spilaði heilt yfir frábæran leik þegar þeir duttu út fyrir PSG í miðri síðustu viku og eiga nú góða möguleika á þeim tveimur keppnum sem liðið er eftir í. Trent varð fyrir því óláni að meiðast að því virtist nokkuð illa í leiknum og verður frá í einhvern tíma, Konate var tekinn út af en það var meira þreyta eða krampi en einhver meiðsli svo líklega verður hann á sínum stað. Annað er svona nokkurn veginn eins og það hefur verið.

    Nú hefur verið gefið til kynna að Kelleher, sem var lykilmaður í úrslitaleiknum í fyrra þegar hann meðal annars skoraði í vítaspyrnukeppni gegn Chelsea, muni líklega byrjan leikinn sem er heiðarlegt val þar sem þetta á að vera “hans keppni” en fylgir ákveðin áhætta að velja ekki Alisson, sem hefur verið í frábæru formi upp á síðkastið og er aðalmarkvörður liðsins.

    Kelleher

    Quansah – Konate – Van Dijk – Robertson

    Mac Allister – Gravenberch – Szoboszlai

    Salah – Jota – Diaz

    Ætli ég spái þessu ekki bara svona. Svipað heilt yfir og liðið sem byrjaði gegn PSG fyrir utan þær tvær breytingar að Quansah kemur líklegast inn fyrir Trent og Kelleher fyrir Alisson. Persónulega vil ég sjá Gakpo út á vinstri kanti ef hann er orðinn nógu fit en miðað við það sem maður sá þegar hann kom inn á gegn PSG þá er það ekki raunin svo ætli Diaz verði ekki á þeim kanti og líklega Jota í strikernum.

    Þetta verður síðasti leikur Liverpool í þessum mánuði svo vonandi getum við talað um bikarsigur fram að næsta deildarleik í byrjun apríl. Sjáum hvað setur, erfitt og stórt verkefni framundan sem vonandi fer allt á réttan veg!

  • Liðið gegn United á Anfield

    Bara svo það sé á hreinu: þetta eru stelpurnar okkar sem við erum að tala um í þessum pósti. Þær eru að leika sinn 2. leik á tímabilinu á Anfield, og fá núna stöllur sínar í Manchester United í heimsókn. Lið sem var í brasi á síðasta tímabili, þannig að okkar konur enduðu fyrir ofan þær í töflunni nokkuð óvænt. Voru svo í bölvuðu brasi í sumar á leikmannamarkaðinum, misstu Mary Earps og fleiri, en komu bara sterkari út úr þeim hremmingum og eru núna í 2. sæti í deildinni frekar gegn væntingum. Á meðan hafa okkar konur ekki náð að sýna sitt rétta andlit og eru um miðja deild í 6. sæti. Fyrri leikur liðanna fór ekki nógu vel og við ræðum það ekkert frekar, en það er vonandi að stelpurnar okkar sýni réttara andlit í kvöld.

    Það eru hins vegar einhver veikindi að hrella hópinn, svo við verðum án þeirra Gemmu Bonner, Gracie Fisk, Leanne Kiernan og Ceri Holland. Óhætt að segja að þar séu stór skörð hoggin í hópinn, en þá myndast tækifæri fyrir aðra leikmenn að rísa upp.

    Svona stillir Amber liðinu upp:

    Laws

    Bernabé – Clark – Matthews – Hinds

    Kerr – Nagano – Höbinger

    Smith – Roman Haug – Kapocs

    Bekkur: Micah, Parry, Evans, Fahey, Daniels, Bartel, Shaw, Enderby

    Mögulega er þetta meira 4-2-3-1 með Kerr og Nagano í tvöfaldri sexu, og Höbinger þar fyrir framan. Yrði svosem ekki gapandi hissa þó það væri uppleggið.

    Fyrir utan þær sem eru veikar og missa þar af leiðandi af leiknum þá vantar þær Hönnu Silcock sem er nú vonandi að koma til baka, svo er Sofie Lundgaard í langtímameiðslum og sést líklega ekki aftur á þessu tímabili, og að lokum er Faye Kirby að koma til baka úr sínum langtímameiðslum.

    Fylgist með leiknum hér: https://www.youtube.com/watch?v=2Zz5-pczQWo

    KOMA SVO!!!!!

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close