Latest stories

  • Hóparnir hjá stóru liðunum

    Sumarið 2025 stefnir í að verða það líflegasta á leikmannamarkaðnum frá sjónarhóli Liverpool frá því FSG keypti félagið og hin liðin hafa heldur betur ekki setið auðum höndum heldur. Skoðum aðeins hvernig hóparnir eru eins og staðan er núna og berum saman.

    Liverpool 

    Það hefur ekkert lítið verið talað um “ótrúlega” eyðslu Liverpool í sumar og hvað það sé nú ósanngjarnt að félagið geti keypt svona mikið á meðan önnur lið geta það ekki. Eins og staðan er núna er nettó eyðslan alveg um 110m og enn sjáum við fram á nokkuð stórar leikmannasölur. Inni í þessum tölum er auðvitað ekki tekið mið af því að Liverpool þurfti auðvitað að kaupa nýjan sóknarmann fyrir Diogo Jota sem lést! Hvet ykkur til að skoða nettó eyðslu Liverpool í samanburði við hin liðin undanfarin ár.
    Mamardashvili og Woodman/Pecsi fylla mjög vel skarð varamarkmannanna Kelleher og Jaros
    Frimpong kemur inn fyrir Trent sem er eina alvöru veikingin á pappír milli ára.
    Kerkez er eins og staðan er núna hrein viðbót við Robertson og Tsimikas. Það er orðið nokkuð ljóst að Robbo fer ekki í sumar en spurning með Grikkjann.
    Tyler Morton fór til Frakkklands og í hans stað er Trey Nyoni orðin partur af aðalliðshópnum. Eins er óvíst hvort Bajcetic verði áfram hjá Liverpool eftir sumarið í stað þess að fara aftur á láni. Ef hann nær einhverntíma að vera ekki meiddur þ.e.a.s.
    Florian Wirtz er nánast hrein viðbót við hópinn frá síðasta tímabili. Harvey Elliott sér sína sæng útbreidda eftir komu Wirtz og má því líklega í lok sumars segja að hann komi í stað Elliott sem spilaði alveg 360 mínútur í deildinni í fyrra og byrjaði tvo leiki. Elliott var í 20. sæti yfir leikmenn Liverpool hvað mínútur í deildinni varðar sem er auðvitað afleitt fyrir leikmann með svo mikla hæfileika. Wirtz eykur þ.a.l. breiddina stjarnfræðilega mikið og færir menn eins og Jones einum aftar í goggunarröðinni á miðjunni.
    Rio Ngumoah er stjarna undirbúningstímabilsins en hæfileikar hans voru ekkert að koma í ljós bara í sumar. Hann er það mikið efni að Liverpool var til í að selja Luiz Diaz til Bayern og er sagt ekki vilja kaupa inn leikmann sem tæki mínútur af hinum 16 ára Rio. Á sama tíma eru sagðar nokkuð áreiðanlegar fréttir að Liverpool hafi verið á eftir Barcola frá PSG sem spilar sömu stöðu og eins hafa óáreiðanlegar fréttir orðað Liverpool við Rodrygo frá Real Madríd, hann hefur verið á radar hjá Edwards og co síðan hann var unglingur og var nálægt því að ganga til liðs við Liverpool. Þannig að bíðum eftir að glugganum loki til að meta raunverulegan eftirmann Diaz.
    Hugo Ekitike kemur svo inn fyrir Diogo Jota þó líklega hafi hann verið á innkaupalistanum áður en Jota féll frá. Jota blessaður byrjaði bara 14 leiki síðasta vetur sem var meira en tímabilin tvö þar á undan. Ef að Ekitike sleppur mun betur við meiðsli er því ljóst að þarna gæti verið töluverð styrking á sóknarlínunni.
    Darwin Nunez var svo leyft að fara líka núna í byrjun ágúst, afhverju er Liverpool að selja Diaz og Nunez sama sumar og Jota lést? Chiesa er alls ekki neitt svar og fer líka í ágúst, Elliott er einnig nokkuð örugglega á leiðinni burt og Ben Doak er ekki svarið heldur virðist vera. Það vantar eitthvað röndótt í staðin fyrir þessa menn…
    Liverpool er búið að selja eða missa átta leikmenn nú þegar og það fara mjög líklega 4-6 til viðbótar í þessum mánuði. Það er búið að styrkja liðið umtalsvert frá síðasta tímabili en samt vantar klárlega a.m.k. einn sóknarmann, helst tvo miðverði og mögulega einn á vænginn.

    Man City

    Man City kláraði megnið af sínum lista í janúar. Þá kom einn miðvörður í viðbót, miðjumaður, kantmaður og sóknarmaður. City keypti fyrir €220m í janúar og er komið upp í €176m núna og hafa bara selt leikmenn fyrir €33m. Hvernig er það nettó í samanburði við Liverpool 2025? Eigum við svigrúm fyrir einum Alexander Isak sem dæmi?

    Trafford er líklega ekki hugsaður sem framtíðarmarkmaður og kemur líklega meira inn fyrir Ortega en Ederson, eða hvað?  Reijnders kemur líklega inn fyrir KDB en auk hans kom Gonzalez í janúar. Það hressir töluvert upp á miðjuna þó hvorugur sé nálægt De Bruyne í gæðum.  Cherki kemur líklega inn fyrir Jack Grealish og gæti stórbætt sóknarleikinn á miðjunni.

    Auk þeirra eiga Savio, Marmoush og Echeverri líklega eftir að sýna mun meira hvað í þeim býr í vetur en þeir náðu eftir áramót í fyrra. City kemur pottþétt aftur í vetur með látum. Eru þeir samt að gera meira eða betri breytingar en Liverpool?

    Arsenal

    Eins og staðan er núna er Arsenal með ca helmingi meiri eyðslu nettó í leikmenn heldur en Liverpool og eiga eftir að bæta a.m.k. einum stórum leikmannakaupum við. Þeir eiga líklega ekki eftir að selja neitt rosalega dýra bita heldur, mögulega Trossard, Zinchenko og deadwood sem hafa verið á láni en ekki tekist að losna við. Ætli nettó eyðslan verði svipuð hjá liðunum í lok sumars? Það er magnað eftir fókusinn á leikmannakaupum Liverpool það sem af er sumri. Arteta er eins og öll sumur síðan hann tók við liðinu að fá að styrkja liðið vel og hlítur að verða undir pressu í takti við það.

    Kepa fyrir Neto er mikil bæting á markmannahópnum og spurning hvort Spánverjinn slái ekki Raya út á einhverju stigi í vetur? Mosquera þéttir miðvarðahópinn sem 4-5 kostur. Zubimendi og Norgaard fylla vel skarð Partey og Jorginho þó vissulega hafi Partey verið mjög öflugur hjá Arsenal og alveg verkefni fyrir Zubimendi að fylla hans skarð. Madueke kemur eins og staðan er núna inn fyrir Sterling en ef Arsenal kaupir einn sóknarþenkjandi leikmann til viðbótar er líklegt að Madueke verði meira rotation leikmaður. Hann getur spilaði á báðum vængjum en byrjaði 25 leiki í fyrra á hægri vængnum sem er auðvitað ekki í boði hjá Arsenal, hann gæti veitt Martinelli samkeppni ef það kemur ekki stærri fiskur í ágúst í þá stöðu.

    Györkeres er svo auðvitað stóra málið í sumar, hann ætti að leysa 90% af vanda Arsenal m.v. online aðdáendur félagsins síðasta vetur. Þetta er gæi sem skoraði 39 mörk og lagði upp 7 bara í deildinni síðasta vetur hjá Sporting. Ekki ósvipuð markaskorun og Darwin Nunez var með hjá Benfica tímabilið sem hann skipti yfir til Liverpool (hann kom að 30 mörkum í 24 leikjum).

    Rétt eins og með Man City þá gerir maður ráð fyrir mun sterkara Arsenal liði, miðjan er mjög spennandi með Zubimendi og kannski hættulegri sóknarlega fyrir vikið. Madueke getur ekki verið verri en Sterling í fyrra og Györkeres er hrein viðbót við sóknarmannaflotann og ætti ekki að þurfa mikinn tíma til að aðlagast.

    Man Utd

    Sparnaðaraðgerðir INEOS (Jim Radcliff) virka helvíti hjákátlega núna í sumar þegar félagið sem endaði í 15.sæti, er ekki í neinni Evrópukeppni og getur ekki selt leikmenn nema í gegnum Hópkaup afslætti er að kaupa leikmenn hægri vinstri fyrir fullt verð og yfirbjóða Meistaradeildarlið. Var hann mögulega að ljúga um að félagið væri á leiðnni í þrot ef hann segði ekki meira og minna öðrum hverjum manni upp?

    Hvað um það, eins og gjörsamlega alltaf er United heldur betur virkt á leikmannamarkaðnum. Þeir eru að stórbæta sóknarlínuna (á pappír) með kaupum á Cunha, Mbuemo og Sekso. Ekki bara það heldur eru þeir að veikja samkeppnina með því að taka bestu leikmenn Wolves og Brentford.

    Á móti kemur eð aðdáunarvert að mála unga og undir öllum eðlilegum kringumstæðum mjög spennandi/söluvænlega leikmenn svo hressilega út í horn að það er nánast ekki hægt að losa þá. Utd hefur ekkert sparað í samningum við leikmenn heldur undanfarin ár sem hjálpar þeim ekki þegar kemur að leikmannasölum.

    Antony (€95m) var svo toxic að hann var lánaður á síðasta tímabili og hefur ekki ennþá verið seldur í sumar. Hann er ekki beint að fara á hámarksvirði úr þessu er það? Jaden Sancho (€85m) undrabarnið virðist bara virka í þýska boltanum. Hann átti að vera með nokkuð öruggt sell on value ef þetta gengi ekki upp hjá United. Ná þeir að selja hann í sumar eða er það bara lán aftur? Garnacho eitt mesta efnið sem komið hefur úr Akademíu félagsins undanfarin ár er núna opinberlega ekki partur af plönum stjórans. Chelsea er sagt vera að kaupa hann á um €50m. Marcus Rashford var vonarstjarnan í mörg ár en er núna 27 ára kominn á lánssamningarúntinn því ekkert lið vill kaupa hann og samninginn hans hjá United. Þetta er strákur sem ætti að vera toppa núna (og er btw núna á láni hjá Barcelona sem er miklu betra lið).Núna er svo Hojlund (€77,8m) rosaefnið sem kom fyrir tveimur árum búinn að springa svo vel út hjá United að hann er sagður til sölu á um €30m eða fari á láni sem er líklegra. Zirkzee verður líklega í sama pakka næsta sumar. Það er svo ekki langt síðan enn ein vonarstjarnan (Greenwood) féll svona hressilega á no dickhead rule sem flest félög í þessum klassa reyna að vinna með að hann fór nánast gefins.

    Þannig að já þessir sóknarmenn sem United eru að kaupa eru allir spennandi á pappír rétt eins og þeir sem þeir hafa keypt áður. En metum þá eftir 1-2 ár.

    Annars er fróðlegt að skoða leikmannakaup United undanfarin ár svona eftir á. Casimerio kostaði €70,6m og er ennþá skælbrosandi á samningi í takti við hvað hann var góður hjá Real Madríd. Böðullinn með eldhúshnífinn (Martinez) kostnaði €57m sama sumar. (Antony kom líka þá). Mount kostaði €67m og Onana €50m. Ugarte kom árið eftir á €50m

    Síðustu þrjú ár hafa United keypt leikmenn fyrir €243m, €210m og €246m. Nettó eyðsla er alltaf €110m – €220m því þeir eru vonlausir í að selja leikmenn.

    Chelsea

    Maður verður bara sjóveikur á að skoða leikmannahóp Chelsea og breytingar milli ára. Hato frá Ajax var leikmannakaup númer 49 undanfarin fjögur ár. Ef við heimfærum 49 leikmannakaup yfir á Liverpool er það Peter Crouch árið 2005 eða fyrir 20 árum las ég einhversstaðar.

    Núna var Colwill að meiðast og því spurning hvort þeir verði ekki að kaupa miðvörð, þeir eiga bara sjö miðverði í dag sem er fjandi tæpt inn í tímabilið. Fimm af þeim komu btw núna undanfarin ár.

    Það sem af er sumri er samt stóra málið kaupin á Pedro og Delap í framlínuna. Þeir styrkja líklega vel það sem Jackson bauð uppá, Pedro er sagður nokkuð erfiður karkater en hann er varla meiri trúður en Jackson. Gittens kom líka frá Dortmund en hann hljómar eins og kaup sem þeir gera á hverju sumri.

    Það er óvissa með a.m.k. 12 leikmenn Chelsea sem allir eru líklegir til að fara í þessum mánuði, hvort sem það er á láni eða seldir. Samt eru 13 leikmenn nú þegar farnir í sumar! Eftir stendur samt RÁNDÝR hópur ungra leikmanna sem flestir eru á mjög löngum samningum.

    Það er kannski styrkur fyrir Chelsea að stjórinn lifði tímabilið af og fær séns á að byggja ofan á það síðasta og ná kannski einhverjum smá stöðugleika.

    Af liðunum fyrir neðan er Tottenham hvað helst að eiga jákvætt sumar. Frank inn fyrir Angie gæti verið spennandi skref og gert liðið þéttara. Þeir eru búnir að kaupa þrjá miðverði til viðbótar við Van Den Ven og Romero, mjög góðan djúpan miðjumann og Kudus frá West Ham og Tel sem var á láni eftir áramót. Þeir eru ekki að selja neinn sem þeir vilja ekki selja heldur.  Þetta er hópur sem verður ekkert í 17.sæti næsta vetur.

    Það verður svo mjög fróðlegt að skoða breytingar hjá Newcastle í byrjun næsta mánaðar…

  • Gullkastið – Æfingatímabilið á lokametrunum

    Alexander Isak er ennþá leikmaður Newcastle aðallega vegna þess að þeim gengur ekki nokkurn skapaðan hlut að kaupa arftaka fyrir hanna eða bara nokkrun skapaðan hlut. Liverpool spilaði tvo leiki saman daginn og vann báða með fullt af spennadi atvikum og æfingaleikirnir fara upp um eitt level um helgina þegar Liverpool mætir Palace í Góðgerðarskildinum.

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur: Maggi

    Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.

    MP3: Þáttur 529

  • Seinni leikur dagsins gegn Athletic

    Það er ögn sterkara lið sem mætir út á völlinn núna kl. 19 í seinni æfingaleik dagsins, en svona stillir Slot upp á eftir:

    Mamardashvili

    Frimpong – Konate – Endo – Kerkez

    Grav – Szoboszlai

    Salah – Wirtz – Gakpo

    Ekitike

    Bekkur: Pesci, Nallo, Morrison, Davidson, Wright, Chiesa

    Þeir Alisson, van Dijk, Gomez og Bradley eru allir frá af ýmsum orsökum: persónuleg mál heima fyrir hjá Alisson (líklega aðgerð sem konan hans þurfti að fara í), veikindi hjá VVD, og Gomez og Bradley eru að glíma við smávægileg meiðsli, sem þó gætu orðið til þess að þeir tveir síðastnefndu nái ekki góðgerðarskildinum næsta sunnudag gegn Palace. Gott að vera með breiðan hóp til að höndla slíkt.

    Skýrslan verður væntanlega uppfærð í lok dags með úrslitum, aldrei seinna en í fyrramálið, max annað kvöld. Alveg örugglega komið á miðvikudag-fimmtudag í allra síðasta lagi. Geirneglt að þetta verður komið í lok vikunnar, aldrei seinna en í næstu viku.


    Uppfært: leik lokið með 3-2 sigri okkar manna. Nokkuð sanngjarnt en andstæðingurinn klárlega sterkari í kvöld en fyrr í dag. Sóknarlínan okkar hefði reyndar alveg mátt skora fleiri mörk, vonum að þetta sé bara forsmekkurinn að því sem koma skal. Samvinnan hjá Wirtz og Salah hefur alla burði til að verða ógnvænleg fyrir andstæðingana, Frimpong var að koma með mikla orku inn í leikinn, og já spáið í hvernig Mac Allister á svo eftir að koma inn í þessa jöfnu! En það má alveg æfa betur varnarvinnuna í föstum leikatriðum.

    Næst: góðgerðarskjöldurinn á sunnudag eftir viku.

  • Fyrri leikur dagsins gegn Athletic

    Okkar menn ætla að mæta Athletic Club í tveim leikjum á Anfield í dag. Miðað við uppstillinguna þá er byrjað á “varaliðinu”, og svo koma aðalliðin kl. 19.

    Liðið núna kl. 16 lítur svona út:

    Woodman

    Stephenson – Nyoni – Robertson – Tsimikas

    Macca – Jones

    Doak – Elliott – Ngumoha

    Nunez

    Bekkur: Pesci, Lucky, Laffey, Pilling, Kone-Doherty, Koumas, Danns

    Mjööööög ungur bekkur, en gaman að sjá Danns aftur í liðinu, þó hann sé bara á bekk.

    Við uppfærum svo færsluna einhverntímann með vorinu með úrslitum, og sjáum til hvort við hendum í sér þráð fyrir seinni leikinn.

    Uppfært: leik lokið með 4-1 sigri okkar manna. Rio opnaði þetta strax á 2. mínútu með flottu marki fyrir framan miðjan vítateig, þrem mínútum síðar fékk hann mjög góða fyrirgjöf frá Doak beint á kollinn og lagði boltann á Nunez sem skoraði. Þriðja markið kom svo rétt fyrir hálfleik þegar Doak átti gegnumbrot hægra megin og gaf fyrir í hönd markvarðarins og þaðan fór boltinn í netið. Að lokum bætti svo Elliott fjórða markinu við eftir sendingu frá Nunez. Smá mistök undir lokin hjá Stephenson kostuðu mark hjá gestunum, en annars öruggur sigur.

    Rio Ngumoha heldur áfram að minna rækilega á sig og bara hlýtur að fá mínútur í vetur, bara spurning hve margar. Stephenson var öflugur þrátt fyrir þessi einu mistök. Annars var þetta æfingaleikur og ber að horfa á hann sem slíkan.

  • Isak keðjan að leysast?

    Liverpool gerði tilboð í Alexander Isak núna fyrir helgi sem var umsvifalaust hafnað af Newcastle, bæði er tilboðið undir væntingum og verðmiða Newcastle og eins þar sem þeir hafa ekki tryggt sér arftaka Isak sem þarf að gerast áður en þeir heimila sölu á honum.

    Þannig að þetta er smá að verða eins og dæmigerð fasteignakeðja sem þarf að ganga upp á öllum vígsstöðvum. Það hjálpar málinu alls ekki að það eru algjörir viðvaningar að stjórna Newcastle þessa stundina og ráða bókstaflega ekki við að kaupa leikmenn þrátt fyrir að vera með ríkustu eigendur í íþróttaheiminum á bak við sig. Það að liðið tryggði sér aftur sæti í Meistaradeildinni hefur ekki heillað marga virðist vera.

    Newcastle gerði þó tilboð í dag í Sesko frá Leipzig og takist þeim að landa honum ætti leiðin að verða miklu greiðari fyrir Liverpool að landa Isak. Vandamálið með Sesko er að það eru fleiri lið sem hafa áhuga á honum og eitt þeirra en Man Utd sem gæti flækt málið geri þeir tilboð. Það að Newcastle bjóði í Sesko bendir samt vonandi til að þeir séu eitthvað búnir að klára heimavinnuna áður. Man Utd er nú þegar búið að kaupa tvo sóknarmenn og þarf líklega að losa sig við Hojlund og/eða Zirkzee áður en þeir hjóla í Sesko í sömu stöðu. Þar fyrir utan eiga þeir eftir að losa Sancho, Garnacho og Anthony. Að því sögðu þarf Leipzig ekkert að selja leikmenn og ætla ekkert að gefa Sesko frá sér.

    Newcastle eru líka að reyna landa Wissa frá Brentford, þar er svipuð staða og hjá Isak, leikmaðurinn er staðráðinn í að fara og setur mikla pressu á félagið að heimila söluna en tilboð Newcastle er ekki nógu gott að mati Brentford, þeir þurfa heldur alls ekki að selja fleiri leikmenn.

  • Æfingaleikur gegn Yokohama

    Það er komið að næsta æfingaleik okkar manna, en þeir spila núna kl. 10:30 að íslenskum tíma gegn heimamönnum í Yokohama í Japan. Það lítur út fyrir að leikurinn fari fram, þrátt fyrir að það hafi verið gefin út flóðaviðvörun á austurströnd Japan núna í morgun.

    Liðið sem byrjar er sterkt, og við erum líklega farin að sjá lið sem er nálægt því hvernig liðið mun líta út í fyrsta leik, en svona verður stillt upp í fyrri hálfleik:

    Mamardashvili

    Bradley – Konate – Virgil – Kerkez

    Gravenberch – Szoboszlai

    Salah – Wirtz – Gakpo

    Ekitike

    Bekkur: Woodman, Pesci, Tsimikas, Robertson, Stephenson, Frimpong, Endo, Mac Allister, Jones, Morton, Nyoni, Elliott, Ngumoha, Nunez

    Debut hjá Hugo, verður áhugavert að sjá hvernig hann fittar inn í liðið.

    Það verður sjálfsagt svolítið B+C lið í seinni hálfleik eða mögulega frá 60. mínútu, í öllu falli verður þetta líklega afar lærdómsríkur leikur, bæði fyrir leikmenn, Slot, og svo okkur áhorfendur.

    Við uppfærum svo þráðinn eftir leik með stuttri skýrslu.

  • Gullkastið – Mikið meira en bara reykur!

    Slúður um Alexander Isak til Liverpool er orðið mikið meira en bara reykur, þetta er orðið að björtu báli og jafnvel talað um að hann sé farinn í verkfall hjá Newcastle til að pressa á sölu til Liverpool núna í sumar. Spáum í þeirri viðbót ef af verður og öðru slúrði tendu Liverpool í vikunni. Luis Diaz virðist t.a.m. vera farin til Bayern.

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur: Maggi

    Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.

    MP3: Þáttur 528

  • Uppfært: Liverpool sagt vera undirbúa tilboð í Isak

    Uppfært: Hlutirnir gerast hratt í dag – Liverpool sagt vera undirbúa tilboð í Isak

    Isak vill augljóslega fara frá Newcastle og fór ekki með í æfingaferð félagsins af þeim sökum, hann hefur tilkynnt félaginu að hann vilji fara. Eftir að þær fréttir komu hefur komið hver vísbendingin á fætur annarri að þetta sé eitthvað sem var ekkert að byrja bara í dag heldur sé búið að vera í vinnslu í einhvern tíma. Það að Isak taki þessa ákvörðun gæti sett pressu á Newcastle sem hingað til hafa alltaf sagt að hann sé ekki til sölu.

    Núna er verið að orða Wissa frá Brentford við Newcastle og að það sé langt komið, eins eru þeir núna sagðir í viðræðum við Leipzig um Sesko sem væri nokkuð augljós leikmannakaup í staðin fyrir Isak. Þetta er ekki eitthvað sem gerðist bara eftir hádegi í dag vegna þess að Isak tilkynnti í morgun að hann vilji fara.

    Hann hefur verið orðaður við Al Hilal í Saudi Arabíu en fréttir í dag herma að hann hafi engan áhuga á að fara þangað. Eins er Chelsea ekki sagt vera með í þessu kapphlaupi þó þeir hafi sýnt honum áhuga í fyrra. Chelsea er búið að kaupa Pedro og Delap auk þess að eiga Jackson. Ekki að það myndi endilega stoppa Chelsea. Liverpool virðist vera eitt í þessum viðræðum sem eins bendir til að þetta sé komið lengra en hefur hefur verið upp. Þannig að þetta hreinlega gæti bara alveg verið að gerast. Spáum aðeins í stöðunni ef af verður:

    Þrátt fyrir að Liverpool hafi keypt Ekitike í þessari viku er alls ekkert galið að Isak sé þrátt fyrir það ennþá á óskalistanum. Það þarf nefnilega að fylla skarð þeirra sem fara. Liverpool má alls ekki fækka í sóknarlínunni í sumar eða gefa afslátt á gæðum. Salah fer sem dæmi á AFCON og missir úr sex leiki sem gera þarf ráð fyrir. Peningahliðin á ekki heldur að vera vandamál, bæði á Liverpool töluvert svigrúm hvað PSR reglur varðar auk þess sem þá á eftir að selja nokkra stóra bita.

    Breytingar á hópnum:

    Wirtz > Elliott = Töluverð bæting og hentar Slot mikið betur

    Ekitieke > Jota = Kannski svipuð gæði en mun hærra þak hjá Ekitike og vonandi minni meiðsli

    Frimpong > Trent = Hraði vs. Sendingar. Auðvitað ekki jafn góður leikmaður en hentar vonandi Slot ekki síður vel.

    Kerkez > Tsmiikas = Rosaleg bæting ef svosem hvort sem Kostas fer eða ekki

    Isak > Nunez = Töluvert upgrade ef af yrði og litlu minna statment en kaupin á Wirtz. Gleymum samt ekki að ef Nunez er að fara þarf að koma annar í staðin.

    ? – > Diaz og Chiesa = Það þarf jafnvel einn enn til ef Diaz og Chiesa fara líka. Eðlilegt væri að ná í þá leikmenn úr hópnum, Doak eða Rio sem dæmi. Draumurinn væri samt að hjóla bara í Rodrygo frá Real líka. Fofana eins verið orðaður og raunhæfari kostur

    Mamardashvili > Kelleher = Töluverð bæting á hópnum og líklegri til að verða framtíðarmarkmaður Liverpool

    Nýr miðvörður > Quansah = Ef Liverpool klárar t.d. Guéhi er það töluverð bæting m.v. Quansah. Það þarf samt klárlega einn miðvörð í viðbót.

    Þetta eru rosalega spennandi breytingar á pappír og nánast allt bæting á hópnum frá síðasta tímabili fyrir utan Trent. Nettó eyðslan verður heldur ekkert svo galin m.v. hvað flest önnur topplið hafa verið að gera undanfarin á og þá leikmenn sem Liverpool er líklega að fara selja. Það þarf líka að eyða aðeins rúmlega í ljósi þess að Trent fór á nánast frjálsri sölu og Diogo Jota féll frá.

    __________________________________________________________

    Leikmannagluggi Liverpool þetta sumarið er nú þegar orðin sögulegur. Ívar Örn var að kynna okkar nýjasta leikmann Hugo Ekitike sem spilar sem sóknarmaður í gærkvöldi. Maður hefði haldið að kaupin á Ekitike myndu drepa endanlega vonina um að Liverpool kaupi Alexander Isak frá Newcastle líkt og orðrómur hefur verið um í allt sumar, en sú von lifir ennþá góðu lífi.

    Isak er að taka öll helstu trkkin í bókinni fyrir leikmann sem vill fara. Eddie Howe skildi hann eftir heima þegar Newcastle spilaði við Celtic. mætti ekki einu sinni á leikinn. Hann sást æfa einn um daginn (vegna “meiðsla”) og svo var hann skilin eftir í Englandi í gær þegar Newcastle flaug til Asíu í æfingaferð, smávægileg meiðsli eru ástæðan en samt svo lítið að þau koma ekki fram á myndum, immitt! Svona “meiðsli” kallast Coutinhoitis.

    Núna áðan kom svo loksins frétt um að Isak vill skoða möguleika sína á að fara annað í sumar…

    Þetta þýðir ekkert endilega að hann sé að koma til Liverpool, kannski eru Liverpool ekkert að spá í að setja ofur pening í hann eftir kaupin á Wirtz og Ekitike en það hefur sannarlega enginn útilokað Liverpool ennþá, þvert á móti er Liverpool eina liðið sem hefur alltaf verið í þessari umræðu af einhverri alvöru.

    Öll önnur sumur myndi maður mæla með að halda væntingum í lágmarki hvað þennan díl varðar, en í sumar. Ahverju ekki bara kaupa Isak líka?

  • Hugo Ekitike til Liverpool

    Fimmti leikmaðurinn í sögu Liverpool sem er með nafn sem stafast eins áfram og afturábak er kominn til liðsins. Hér kynnum við til leiks Hugo Ekitike, enn eina viðbótina við meistaralið Liverpool.

    Hver er Hugo Ekitike?

    Það er erfitt að skrifa þetta nafn, ég villist alltaf á k og t þegar ég skrifa, þannig að héðan í frá verður hann kallaður Hugo.

    Hugo Ekitike er franskur, fæddur 20.júní 2002 og því nýorðinn 23 ára. Hann ólst upp í fæðingarborg sinni, Reims, skammt norðaustur af París, ekki langt frá vígvöllum Fyrri heimsstyrjaldarinnar. Nafnið hans er vissulega óvenjulegt en faðir hans er frá Kamerún en móðirin er frönsk. 6 ára gamall byrjaði hann að æfa með hverfisliðinu Cormontreuil FC, var þar í 6. og 5. flokki en fór árið 2013 til stóra liðsins í borginni, Stade de Reims. Þar lék hann næstu 10 árin, fyrst bara einfaldlega upp yngri flokkana, svo í b-liðinu og loks a-liði félagsins. Hann skrifaði 18 ára gamall undir atvinnumannasamning, lék með b-liðinu í Campionnat National, sem er fjórða efsta deildin í Frakklandi tímabilið 2019-2020 og skoraði þá 5 mörk í 12 leikjum. Þetta vakti nokkra athygli því næsta tímabil spilaði hann alls með þremur liðum, a- og b-liði Reims en eins fór hann á láni til Danmerkur þar sem hann spilaði með Vejle Boldklub á Jótlandi.

    Þegar þarna er komið við sögu, í janúar 2021, er drengurinn ekki orðinn 19 ára en frammistaða hans er farin að vekja athygli hjá stærri klúbbum álfunnar. T.d. bauð Newcastle í hann og PSG var farið að fylgjast með honum og eflaust nokkur fleiri félög. Hugo lék síðan tímabilið 2021-2022 með Reims og skoraði þar 10 mörk í 24 leikjum.

    Næsta skrefið á ferlinum var stigið í júlí sama ár. PSG tilkynnti um lánssamning við Reims með möguleika á 35 milljón evra kaupsamning. Þeir gengu síðan að samningnum í lok tímabils, því Hugo lék alls 25 leiki það tímabilið í deildinni (13 af bekknum) og skoraði 3 mörk í auðveldum deildarsigri PSG. Hann var vissulega að kljást við stór nöfn um sæti í liðinu og hefur líka eflaust lært ansi margt þetta tímabilið. Sóknarlína PSG samanstóð af Messi, Mbappe og Neymar.

    Þetta er samt sem áður ansi mikilvægt tímabil fyrir Hugo. Þarna var hann í fyrsta sinn að spila á hæsta stigi heimsknattspyrnunnar með engum smá súperstjórnum og egóum. Ungur drengur frá frönskum smábæ kominn í höfuðborgina að spila með Messi…

    Allavega, tímabilið á eftir gekk síður en svo vel þar sem hann kom aðeins inn á í einum leik í þónokkuð breyttri (nútímavæddri) sóknarlínu PSG og í janúar var hann sendur á lán til Eintracht Frankfurt. Þar náði hann að bjarga tímabilinu sínu, skoraði 4 mörk í 14 leikjum. Þarna kynntist hann líka egypska kantmanninum Omar Marmoush og honum gekk ansi vel að spila með honum, þó sérstaklega á fyrri hluta næsta tímabils. Undir lok apríl virkjaði Eintracht Frankfurt kaupákvæði þar sem þeir voru ekki í neinum vafa um leikmanninn. Alls greiddu þeir 16.5 milljónir evra fyrir Hugo.

    Það átti svo sannarlega eftir að borga sig fyrir Frankfurt, því tímabilið 2024-2025 sprakk hann gjörsamlega út. Hann leiddi línuna hjá Frankfurt ásamt fyrrnefndum Marmoush – sem var seldur í janúar síðastliðnum til Manchester City. Hann skoraði alls 15 mörk í 33 deildarleikjum fyrir Frankfurt, alls 22 mörk og 12 stoðsendingar í 48 leikjum á tímabilinu. Það vakti auðvitað víða áhuga, ekki síst hjá Liverpool sem tryggðu sér kappann fyrir dágóða summu sem er talin vera 69 milljónir punda + 10 milljónir í viðbótargreiðslur.

    Hvers konar leikmaður er Hugo Ekitike?

    Maður veltir því vissulega fyrir sér hvað Hugo kemur með að borðinu til félags eins og Liverpool eftir eitt alvöru tímabil.

    Hann er ungur og nokkuð hrár, tölurnar hans eru að mörgu leyti svipaðar og tölurnar hjá Darwin Nunez en hafa ber í huga að á síðasta tímabili spilaði Nunez lítið. Ég held að það sé ljóst að það verði ekki gerð krafa á fullkominn sóknarmann sem nýtir færin upp á 10, heldur verði Hugo settur inn í jöfnuna fremst á vellinum þar sem hann er talinn passa betur en Nunez, hann er flinkari og betri í link-up spili. Ég hef grun um að Slot og co sjái hann sem góðan kost hvort sem er svona link up leikmaður sem getur fundið sér pláss og tengt vel við sóknarmennina, en líka að vera gammur upp við markið þegar það á við. Sumir senterar hafa bara annað, en ég hef grun um að níunni hjá Liverpool sé ætlað að vera mjög flæðandi, út á kanta, upp í miðjuna, skipta um stöður við miðjumenn og að taka þríhyrningaspil út um allt. Leikskilningur og pláss skipta öllu máli auk þess að vera með góða fyrstu (einu) snertingu, geta komið boltanum mjúkt frá sér í fyrstu snertingu, tekið hlaup og séð hlaupin í kringum sig. Það verður að viðurkennast að Darwin Nunez, sama hversu mikið við elskum hann, hefur ekki endilega mikið af þessu.

    Hugo er góður með boltann í fótunum. Hann getur tekið varnarmenn á og hlaupið hratt með boltann og skapar góð færi fyrir félaga sína. Aðeins þrír leikmenn voru með hærra xG + xA í stóru deildunum í vetur, hann var með 26 og Salah var t.d. með 32. En, eins og áður sagði, þá urðu þessi x ekki öll að mörkum og hann er stundum í krummafót þegar kemur að því að skjóta á markið úr teignum. Ekki síður er mikilvægt fyrir senterinn hjá Liverpool að vera góður og fljótur í pressu og lið Eintracht Frankfurt var öflugasta skyndisóknalið Evrópu á síðasta tímabili og Hugo hefur sýnt að hann hefur þessa tvo mikilvægu eiginleika líka.

    Nánar um leikfræðilega eiginleika Hugo Ekitike hér:

    https://www.nytimes.com/athletic/6501701/2025/07/21/hugo-ekitike-liverpool-tactical-fit/

    Þegar allt er síðan tekið saman, þá er ljóst að Hugo Ekitike á eftir að koma með nýja vídd inn í leik Liverpool. Hann er hrár og á eftir að klúðra færum en hann á líka eftir að koma okkur á óvart. Ég er ekki í miklum vafa um að Slot og starfslið hans eigi eftir að fínpússa þennan strák og gera hann að markavél á 1-2 árum.

  • (Uppfært) Hugo Ekitike á leið í læknisskoðun

    Uppfært
    Hugo Ekitike er á leiðinni í læknisskoðun og flýgur í kjölfarið til Hong Kong þar sem Liverpool liðið er þar í æfingaferð.
    Samningur til sex ára, kaupverð £79m, þar af £10m í árangurstengdum klásúlum.


    _______________________________________________________________________________________________________

    Liverpool er skv. fréttum kvöldsins að landa hinum franska Hugo Ekitike á um £82m frá Frankfurt. Hann er með £86.7m klásúlu og líklega er kaupverð eitthvað í grend við hana en þó án þess að virkja hana enda þyrfti þá að greiða alla fjárhæðina strax.

    Þetta er vægast sagt gríðarlega spennandi 190cm franskur strákur sem er alinn upp hjá Reims. Ekitikie hefur undanfarin 4-5 ár verið ein bjartasta vonin í boltanum og fór til PSG árið 2022, fyrst á láni en sá díll var með kaup klásúlu sem var gegnið frá árið eftir. PSG var fullt af stjörnum með stórt egó þannig að Ekitike var lánaður til Frankfurt í febrúar 2024 og keyptur til þeirra um sumarið á €16,5m. Hjá Frankfurt sprakk hann út á síðasta tímabili, fyrst sem samherji og aðeins í skugga Omar Marmush en svo sem aðalmaðurinn eftir að Egyptin fór til Man City í janúar. Hann er aðeins með eitt alvöru tímabil að baki sem fastamaður í alvöru liði og ennþó nokkuð hrár. Það að Liverpool sé tilbúið að taka sénsinn á honum segir okkur að þarna er töluvert potential. Hann er bara 23 ára og því nákvæmlega á því aldursbili sem Liverpool vill vinna með í leikmannakaupum og vonandi á barmi þess að taka skrefið uppávið sem leikmaður, hann þarf þess hjá Liverpool.

    Alexander Isak líka?

    Leikmannagluggi Liverpool í sumar er þannig að maður veit varla hvað snýr upp og hvað niður. Ekitike virðist sannarlega vera að koma og varla er Liverpool að fara kaupa bæði hann og Alexander Isak í sumar fyrir nákvæmlega sömu stöðuna, er það? Isak til Liverpool sagan var nokkurnvegin að fjara út þar til í dag að Eddie Howe skildi Isak eftir heima og hafði ekki einu sinni í stúkunni í æfingaleik gegn Celtic. Howe segir það hafa verið til að vernda leikmannninn frá sviðsljósi fjölmiðla sem heldur litlu vatni enda var þetta eins og að setja olíu á eldinn. Það er nokkuð ljóst að hausinn á Isak er ekki 100% á Newcastle og miðað við fréttir undanfarna daga hefur Liverpool aldrei gefið alveg upp vonina á að landa svíanum.

    Á sama tíma og Liverpool vann ensku úrvalsdeildina nokkuð sannfærandi og endaði efst í 32 liða riðlakeppni Meistaradeildarinnar var nokkuð auðveldlega hægt að finna holur í leikmannahónum og svigrúm til bætinga. Nýr stjóri með öðruvísi áherslur og leikstíll kallar auðvitað á nýja leikmenn í einhverjum tilvikum. Núna ætti heldur betur að vera uppsafnað svigrúm, Slot fékk ekkert að gera sl. sumar og félagið hefur oftast haldið að sér höndum undanfarin ár og nánast alltaf misst af stóra bitanum sem reynt var við undanfarna 3-4 tímabil.

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close