Latest stories

  • Gullkastið – Slúðrið komið á fullt en tímabilið þarf að klára

    Seint mætti Gullkastið þessa vikuna, sem er til marks um ákveðinn slaka í hugum okkar, enda Englandsmeistarar. Við fórum yfir töluvert af safaríku slúðri sem fjallað hefur um okkar menn undanfarið, veltum fyrir okkur fílupúkanum Arteta og hans stöðu hjá Arsenal. Skoðuðum stöðuna í Meistaradeildarbaráttunni, völdum framherja í Ögurverksliðið og skoðuðum síðasta útileik vetrarins í EPL, viljum klára tímabilið með reisn auðvitað.

    Stjórnandi: Maggi
    Viðmælendur: SSteinn

    Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.

    MP3: Þáttur 521

  • Slúðrið: gæti Wirtz komið?

    Það hafa verið að ganga sögur um Florian Wirtz upp á síðkastið, lang líklegast að hann sé að fara til Bayern, en talað var um að City hefðu verið að bera víurnar í hann og að hann hefði heimsótt England tengt því. En nýjustu kjaftasögurnar eru að sú heimsókn hafi verið vegna áhuga Liverpool á kappanum. Sá áhugi á víst að vera þess eðlis að Liverpool sé til í að borga uppsett verð fyrir kappann, hann er ekki ódýr og væri eitthvað vel fyrir norðan 100 milljónirnar.

    Ef af yrði, þá er spurning hvernig Slot sæi hann fyrir sér í leikkerfinu, því ekki væru menn að kaupa leikmann af þessu kaliberi til að fara á bekkinn. Væri hann að spila meira eins og fölsk nía, eða hann og Szobo í tvöfaldri 10?

    Þetta er allt á slúðurstiginu eins og reyndar öll önnur möguleg vistaskipti leikmanna, og hætt við að ekkert verði staðfest fyrr en glugginn opnar. En við leyfum okkur að dreyma þangað til, og fantasera um uppstillingar og fleira.

    Annars er auðvitað ennþá hellings slúður tengt Frimpong, félaga Wirtz hjá Bayer, eins er Geertruida hjá RB Leipzig eitthvað orðaður við okkur, sem og þeir Bournemouth félagar Huijsen og Kerkez. Allt slúður og ekkert staðfest, bara svo það sé nú marg sagt.

    Uppfært: Eitthvað virðist vera til í slúðrinu um Frimpong:

    Ef þið þekkið hárgreiðslumanninn sem klippir blaðberann í húsinu þar sem umboðsmaður Wirtz býr, og hafið heyrt einhverjar sögur frá honum, þá endilega droppið því í athugasemdir hér fyrir neðan. Nú eða hvaða aðrar slúðursögur sem þið hafið heyrt varðandi mögulega nýja leikmenn. Eitthvað verðum við jú að tala um!

  • Liverpool 2-2 Arsenal

    Mörkin

    1-0 Cody Gakpo(20.mín)

    2-0 Luis Diaz (21.mín)

    2-1 Martinelli (47.mín)

    2-2 Merino (70.min)

    Hvað réði úrslitum?

    Í rauninni allt og ekkert, þetta var fullkomlega sanngjarnt jafntefli þegar allt er talið. Allar tölur frekar jafnar nema að Arsenal var töluvert meira með boltann. Það má lengi deila um markið í lokin, gild rök í báðar áttir með brotið á Konate.

    Hvað þýða úrslitin?

    Breyta engu nema kannski að Arsenal er að taka stutt skref í átt að öðru sætinu. Mikilvægari leikur fyrir þá er samt gegn Newcastle á næstu helgi.

    Hverjir stóðu sig vel?

    Anfield Road. Það var sungið og trallað allan leikinn, nokkuð ljóst að það var gaman á vellinum í dag. Trent fékk þær ansi blendnu móttökur sem við var að búast. Leikmenn stóðu sig flestir ágætlega, enginn sem stóð sérstaklega upp úr eða niður úr.

    Hvað mátti betur fara?

    Það var óþarfi að hleypa Arsenal inn í leikinn í seinni hálfleik. Það er sama hvað hver segir en það er erfitt að gíra sig í gang þegar titillinn er kominn í hús. Ég átti samt von á því að Anfield næði að kveikja í leikmönnum, það vantaði svo sem ekki mikið upp á að sigurinn kæmi.

    Næsta verkefni

    Næstsíðasti leikur tímabilsins, gegn Brighton á útivelli. Fyrirpartýið heldur áfram, aðalviðburðirnir verða 25. og 26.maí.

  • Liðið gegn Arsenal – leikþráður

    Arne Slot velur 10 af þeim 11 sem Ingimar spáði fyrir um. Aðeins Curtis Jones fyrir MacAllister er öðruvísi en Ingimar taldi. Ekkert Chelsearugl takk

    Alisson

    Bradley – Konate – Van Dijk – Robertson

    Jones – Gravenberch – Szoboszlai

    Salah – Díaz – Gakpo

    Koma svo!! Sýnum þeim af hverju við erum meistarar!!!

     

  • Arsenal kemur í heimsókn (Upphitun)

    Þegar tímabilið hófst spáðu flestir því að gestir okkar í dag myndu vera titilbaráttu fram á síðasta leik og sumir voru svo frakkir að spá þeim fyrsta titlinum í tuttugu ár. Þegar ljóst varð, í sirka nóvember, að Liverpool yrðu eitt að liðunum sem myndi berjast um þann stóra, fóru margi að horfa á þennan leiuk sem einhversskonar úrslitaleik. Um janúar-febrúar fóru margir púllarar að láta sig dreyma um að klára dæmið fyrir leikinn og horfa á lið Arsenal standa heiðursvörð fyrir Liverpool fyrir leikinn. Sá draumur rættist og leikurinn seinna í dag er í raun ekkert nema tækifæri fyrir liðin tvö að senda skilaboð inn í næsta tímabil.

    Andstæðingurinn – Arsenal

    Fyrrum undrabarnið í þjálfun, Mikel Arteta, hefur nú stýrt Arsenal í sex ár. Strax á fyrsta ári vann liðið bikarinn og þeir hafa náð í tvo samfélagsskildi síðan, en stóru titlarnir hafa verið svo nálægir… en samt ekki. Það stefnir í að þeir endi þriðja tímabilið í röð í öðru sæti deildarinnar, í ár leit út eins og þeir ættu raunhæfan séns að sækja evrópubikarinn en þeirri von lauk gegn PSG í seinustu viku. Liðið hans Arteta virðist vera komið á einhversskonar endastöð, þrátt fyrir að hafa eytt fúlgum fjár þá hefur það síst verið betra en í fyrra og virðist vera komin töluverð óánægja í stuðningsmenn og leikmenn.

    Það er erfitt að spá fyrir hvernig þeir mæta til leiks í dag. Arsenal hafa veirð afar brothættir í vetur og líklegt að vonbrigðin frá París sitji í þeim. Síðustu 3-4 ár hefur gamall rígur Liverpool og Arsenal blossað upp jafnt á vellinum sem á samfélagsmiðlum. Þó Arsenal hafi ekki unnið Liverpool á Anfield síðan 2012, þá hefur liðið haft tak á Liverpool síðustu ár. Í síðustu fimm deildarleikjum hefur Arsenal unnið tvo og liðin þrisvar gert jafntefli.

    Okkar menn

    Englandsmeistararnir fengu högg í síðustu viku þegar prinsinn Trent lýsti því yfir að hann væri á leiðinni út í heimi. Slot tæklaði þetta vel og sagði að Bradley fengi restina af tímabilinu til undirbúa sig fyrir það næsta. Ég myndi ekki gera ráð fyrir að sjá Trent aftur spila í rauðri treyju.

    Vonandi mun þetta drama ekki hafa áhrif á stemninguna á Anfield. Þó Slot hafi lýst því yfir að hann ætla að gefa minni spámönnum nóg af mínútum út tímabilið, þá vonar maður að hann stilli upp sterkasta mögulega liði og sendi Arsenal skilaboð á morgun. Það er alveg eins líklegt að þessi tvö lið muni berjast um titilinn á næsta ári og það væri mjög vont fyrir móralinn ef þeir næðu að sigra á morgun, sem og mjög gott fyrir móralinn hjá þeim, sem við viljum ekki. Þess vegna spái ég klassísku byrjunarliði á morgun, fyrir utan Bradley dekkar hægri bakvörðinn. Semsagt svona:

    Þess má geta að fyrirliðinn mun spila sinn þrjúhundruðasta deildarleik.

     

    Spá.

    Leikurinn gegn Chelsea var ekki til útflutnings og ég vil sjá okkar menn minna alla á hvers vegna þeir eru meistarar. Ég spái að þetta endi 2-0 fyrir Liverpool, Salah skorar eitt og Gakpo hitt. Einnig spá i ég því að það hitni duglega í hamsi í þessum leik og það verði eitthvað kjánalegt rautt spjald í leiknum.

     

    Njótið dagsins meistarar!

  • Lokaleikur tímabilsins hjá stelpunum – heimsókn í höfuðborgina

    Það er komið að lokaleik þessa tímabils hjá kvennaliðinu okkar, þær eru mættar til London og taka þar á móti Chelsea sem urðu meistarar (mjög fyrirsjáanlega) fyrir nokkru síðan, Arsenal var þeirra helsti keppinautur en þegar lið tapar ekki leik í deild yfir heilt tímabil þá er erfitt að stoppa það. Og þannig er staðan í dag, þ.e. það er til nokkurs að vinna fyrir okkar konur að ná sigri í dag, því með því kæmu þær í veg fyrir að Chelsea fari taplausar í gegnum þetta tímabil. Ekki eru nú líkurnar með okkar konum, en þær stóðu þó upp í hárinu á þeim bláklæddu í undanúrslitum bikarsins fyrr í vor og það þurfti mark í uppbótartíma til að slá okkar konur úr keppni. En nóg um það.

    Það er nokkuð ljóst að okkar konur ná ekki 5. sætinu eftir að Brighton unnu Arsenal í síðustu umferð, eru þar með 3 stigum fyrir ofan okkar konur og með mun betra markahlutfall. Þannig að nú snýst þetta í raun um að halda 6. sætinu, og það gæti orðið þrautin þyngri því West Ham, Villa og Everton eru öll að anda ofan í hálsmálið og gætu komist uppfyrir í töflunni með hagstæðum úrslitum í dag. Það er óhætt að segja að ef Liverpool fer frá því að lenda í 4. sæti í fyrra yfir í að lenda í 9. sæti (sem gæti orðið raunin í versta falli), þá sé óhætt að tala um vonbrigðatímabil. En leyfum leikjum dagsins að klárast áður en við förum að gera upp tímabilið.

    Amber Whiteley stýrir liðinu í leik sem gæti mögulega verið hennar síðasti með liðinu, það á eftir að koma í ljós hvaða stefnu klúbburinn tekur varðandi að velja næsta stjóra. Það kemur í ljós í sumar, og gæti þess vegna komið í ljós mjög fljótlega enda er það ákveðið grunnatriði að vera með stjórann á hreinu áður en það verður farið í að sækja nýja leikmenn.

    Svona stillir Amber liðinu upp:

    Laws

    Fisk – Bonner – Evans – Hinds

    Kerr – Nagano

    Smith – Höbinger – Holland

    Roman Haug

    Bekkur: Micah, Kirby, Clark, Matthews, Fahey, Daniels, Kapocs, Enderby

    Þær Leanne Kiernan og Lucy Parry eru báðar frá vegna meiðsla. Alveg magnað að bæði kvenna- og karlaliðin séu að fara inn í sumarglugga þar sem þarf að ákveða hvort það eigi að stóla á “homegrown” hægri bakvörð sem er meiðslagjarn.

    Við sjáum þær Teagan Micah, Niamh Fahey, Jasmine Matthews og Yana Daniels allar í síðasta skipti í Liverpool búning í dag, tja nema þær komi inn í fleiri Liverpool Legends leiki eins og Natasha Dowie…? Skulum ekkert útiloka slíkt.

    Leikinn má sjá á Youtube eins og venjulega: https://www.youtube.com/watch?v=DDXppk-fyIQ

    Það væri gaman að enda tímabilið á sigri, munum að síðasti tapleikur Chelsea í deild kom á Prenton Park í 4-3 sigri okkar kvenna síðasta vor. Nú þarf að finna svipaða geðveiki og var við lýði í þeim leik.

    KOMA SVO!!!!

  • Gullkastið – Hvað Næst?

    Arne Slot gaf hópnum aðeins séns um helgina töluverðum timburmannaleik gegn Chelsea og frammistaðan var ekki til að hrópa húrra fyrir. Skipti ekki öllu enda Liverpool nú þegar búið að vinna titilinn og stemningin á pöllunum í takti við það.
    Trent nýtti tækifærið til að staðfesta loksins brottför sína eftir tímabilið eftir að hafa forðast blaðamenn (og þannig stuðningsmenn Liverpool) mest allt þetta tímabil.
    Næsti leikur og heiðursvörður er gegn Arsenal í deildinni en þeir eiga risaverkefni í Meistaradeildinni í millitíðinni.
    Skoðum Ögurverk liðið og eitt og annað í þætti vikunnar.

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur: Maggi

    Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.

    MP3: Þáttur 520

  • Trent fer í sumar (Staðfest)

    Þá er komið staðfest á brottför Trent í sumar og PR spin yfirlýsing frá honum um mest allt annað en að hann fær rosalega góðan signing bonus frá Real Madríd fyrir að yfirgefa uppeldisfélagið frítt.

    Hef persónulega rosalega lítinn tíma fyrir PR spin yfirlýsingar frá honum sem stangast á við fyrri PR spin yfirlýsingar hans um Liverpool. Það eru leikmenn í mun minni liðum sem virða sín lið nógu mikið til að semja við þau til að tryggja kaupverð þegar þeir fara. Hafði mikið meiri skilning á brottför Owen en Trent, hann skilaði smá kaupverði, fór frá verra liði og var bara ekki eins almennt vinsæll meðal heimamanna og Trent hefur verið. Hann er að fara frá ríkjandi meisturum og hefur verið að spila til úrslita í öllum helstu keppnum. Eins situr það alls ekki vel að hann sé að fara til Real Madríd eftir einvígi liðanna í tíð Trent.

    Hann um það, frábær ferill hjá Liverpool þar sem hann var lykilmaður.

  • Chelsea 3 – 1 Liverpool

    Mörkin

    E. Fernández 

    J. Quansah 

    V. van Dijk 

    C. Palmer 

    Hvað réði úrslitum

    Liverpool mættu ekki sem beittastir til leiks og Chelsea refsaði þeim umsvifalaust. Markið hans Enzo á þriðju mínútu þýddi að Chealse gátu legið til baka og beitt frábærum skyndisóknum sem ollu Liverpool usla allan leikinn.

    Fyrir utan fyrstu tíu voru okkar menn betri og meira með boltann megnið af leiknum, en tókst ekki að skapa raunverulega hættuleg færi. Sjálfsmarkið hans Quansah kom á vondum tíma, okkar menn voru með undirtökin en ein af þessum skyndisóknum leiddi til einkar klaufalegs marks hjá hinum unga Quansah, sem líklega er ekki búin að spila sig inn í framtíðaráætlanir Slots.

    Okkar menn náðu að klóra í bakkann þegar skammt var eftir af leiknum, fyrirliðinn náði að stanga boltan í netið eftir eina af mýmörgum hornspyrnum Liverpool. Síðustu tíu mínútur leiksins var ekki að sjá að okkar menn væru tilbúnir að tapa, en þeim Chelsea mönnum tókst vel að drepa tíman. Þegar komið var í uppbótartíma braut Quansah hinsvegar einkar klaufalega í vítateignum og ungstirnið Cole Palmer tryggði heimamönnum stiginn þrjú ásamt því að vera fyrsta liðið til að vinna Liverpool Arne Slot með meira en einu marki.

    Hvað þýða úrslitin

    Heilt yfir lítið. Tillinn er komin í hús og allt það.

    Jared Quansah, Harvey Elliot og Curtis Jones hljóta hins vegar að naga sig í handarbökin yfir að hafa ekki nýtt sénsinn í byrjunarliðinu betur. Að sama skapi er ofboðslega erfitt að dæma menn sem þurfa að koma inn þegar svo margar breytingar eru gerðar á liðinu. Þessi leikur mun ekki breyta miklu í áætlunum Slots fyrir sumarið, sérstaklega ekki þessum leikmönnum. Ég vona þó að Elliot og Jones fái að spreyta sig meira út tímabilið, þá helst í liði sem samanstendur af fleiri af okkar bestu mönnum.

    Bestu menn

    Mér fannst Bradley komá virkilega ferskur og góður inn af bekknum og Gakpo virkaði stórhættulegur þó hann næði ekki að skora. Van Dijk fær punkta fyrir markið sem hann skoraði en átti líka þátt í sjálfsmarkinu svo það núllast út.

    Einnig eiga stuðningsmennirnir sem mættu með læti hrós skilið!

    Hvað hefði mátt betur fara?

    Það má telja upp næstum hálft liðið en ég ætla aðeins að gagnrýna Slot hér. Að skipta út hálfu byrjunarliðinu á Stamford Bridge er ekki vænlegt til árangurs. Þessi frábæri þjálfari hefur marga kosti, en hans augljósasti ókostur er að hann virðist líta á það að rótera hópnum sem illa nauðsyn sem á að lágmarka. Til að liðið taki næsta skref þarf hann að læra að skipta mönnum út minna í einu, en oftar. Þá haldast menn í leikformi og er betur undir það búnir að koma inn í leiki þegar á þarf að halda.

    Næsta verkefni

    Partýið heldur áfram gegn Arsenal næsta sunnudag. Okkar menn þurfa að mæta töluvert betur til leiks, því við viljum ekki lenda í að Arsenal taki stig á Anfield, hvað þá að þeir komi með einhverja yfirlýsingu með því að rústa okkar mönnum.

     

  • Byrjunarliðið gegn Chelsea: Endo og Quansah byrja

    Nú eru aðeins eftir fjórir leikir af tímabilinu hjá Englandsmeisturunum, spáin segir að þeir leikir munu einkennast af partýi í stúkunni og mögulega að leikmenn sýni einhver merki um að hafa farið í partý hjá Englansmeisturunum. Slot hefur valið 11 leikmenn sem byrja fyrir Englandsmeistarana á brúnni. Mesta athygli vekur líklega að Jones, Quansah og Endo hefja leik, hægt að giska á að þeir hefðu ekki byrjað ef Englandsmeistaratitillinn væri ekki komin heim:

    Treystum því að liðið njóti þess að spila í dag og minni bláliða á hvers vegna þeir rauðklæddu er meistarar.

     

    Chelsea stillir svona upp:

     

    Hvernig lýst ykkur á liðið og finnst ykkur rétt af Slot af rótera grimmt í þessum síðustu leikjum?

     

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close