Liverpool tók enn eitt skrefið í átt að 20. meistaratitlinum í dag með 2-1 sigri á spræku liði West Ham á Anfield.
Mörkin
1-0 Díaz (18. mín)
1-1 Robertson (sjálfsmark)(86. mín)
2-1 Virgil (89. mín)
Hvað réði úrslitum í dag?
Það sem réði úrslitum var að á þeim köflum þegar Liverpool nennti að spila fótbolta og sýna hvað í þeim býr, þá sýndu þeir hvaða lið er besta liðið í enska boltanum í dag. Þetta var ekki alveg jafn augljóst í öðrum hlutum leiksins.
Hvað gerðist helst markvert?
Þetta leit vel út fyrri hluta hálfleiksins, hápunkturinn var að sjálfsögðu þegar Salah fékk autt svæði fyrir framan sig á hægri kantinum, hljóp upp að teig og átti þar eina af sínum “trademark” utanfótar sendingum á Díaz sem kom aðvífandi og setti boltann í næstum því autt markið. Á þessum tímapunkti þá spiluðu okkar menn eins og sá sem valdið hefur. Það dalaði örlítið á síðari hluta hálfleiksins, West Ham fengu einhver færi og Alisson var kallaður til í einhver skipti, en ekkert til að hafa áhyggjur af, því liðið kemur jú alltaf sterkt inn í seinni hálfleik? Ekki satt?
Reyndar ekki alveg. Þessi seinni hálfleikur í dag var ekki góður. Liðið skapaði ekkert, Salah var lítið í boltanum, og bara almennt lítið að frétta. West Ham urðu sífellt hættulegri og það reyndi sífellt meira á Alisson sem átti nokkrar vörslur sem voru alveg á pari við að skora. Undir lokin skoruðu svo West Ham eftir að það hafði legið í loftinu, og þetta var afar klaufalegt hjá Virgil og Andy. Wan Bissaka slapp í gegn vinstra megin, átti sendingu inn á teig þar sem Virgil ætlaði að hreinsa boltann en sparkaði honum beint í lappirnar á Robbo og þaðan í netið. Þeir voru báðir alveg brjálaðir, og það sást því skyndilega vorum við aftur komin með liðið sem við þekkjum svo vel. Liðið sem ætlar sér stóra hluti. Það tók líka ekki nema rúmar 2 mínútur fyrir fyrirliðann að kvitta fyrir mistökin þegar hann stangaði hornspyrnu frá MacAllister í netið, og það reyndist sigurmarkið.
Hverjir stóðu sig vel?
Hér þarf fyrst og fremst að velja Alisson nokkurn Becker sem mann leiksins. Hann bjargaði okkar mönnum trekk í trekk, og sýndi af hverju hann er bestur í heimi í dag. Þvílíku forréttindin að hafa þennan mann milli stanganna hjá okkur. Macca sýndi líka af hverju hann á heimsmeistaramedalíu. Salah sýndi hvaða gæði hann býr yfir í fyrri hálfleik, en fékk boltann lítið í seinni og merkilegt nokk þá er það oft á tíðum ákveðin forkrafa þegar kemur að því að sóknarmenn sýni hvað í þeim býr. Díaz var líka mjög sprækur, Bradley var líflegur á meðan hann var inná. Quansah kom ágætlega inn í hans stað.
Hvað hefði mátt betur fara?
Hér þarf fyrst og fremst að ræða af hverju orkustigið féll svona niður eftir – tja – segjum hálftíma leik, og komst ekki aftur í lag fyrr en eftir jöfnunarmarkið. Slot notaði allar skiptingarnar – samt fengu Elliott og Chiesa ekki mínútu – en það kom lítið út úr þessum skiptingum. Engin ástæða annars til að taka einhvern leikmann sérstaklega fyrir, þetta er meira spurning um holninguna á liðinu í heild sinni.
Umræðan eftir leik
Salah hélt upp á nýja samninginn með því að slá enn eitt metið: enginn leikmaður hefur átt aðkomu að fleiri mörkum á 38 leikja tímabili heldur en Salah. Hann er núna kominn í 45 mörk + stoðsendingar, gamla metið var 44 (Henry og Haaland). Og hann á 6 leiki eftir. Þá vantar hann bara 2 mörk til að jafna Thierry Henry varðandi stoðsendingar á einu tímabili, en er auðvitað löngu búinn að skora fleiri mörk en Henry gerði á því tímabili (27 vs. 20 sem Henry skoraði).
Virgil hélt vonandi upp á nýjan samning með því að skora sigurmark og kyssa merkið í framhaldinu, það þarf bara að tilkynna það.
Og núna vantar liðið bara 6 stig til að nr. 20 sé tryggður – þessi stig geta annaðhvort komið með því að liðið vinni sér þau inn, eða ef Arsenal tapar stigum, eða sambland af þessu tvennu. Þannig gætu þessi stig t.d. komið í hús um næstu helgi ef Arsenal tapar gegn Ipswich og okkar menn vinna Leicester. En líklega þurfum við að bíða ögn lengur en það. Það er í góðu lagi.
Hvað er framundan?
Næsti leikur er á sunnudag eftir viku, kl. 15:30 nánar tiltekið, þá heimsækja okkar menn lánlausa Leicester menn sem þó kræktu í stig um helgina með jafntefli gegn Brighton. Þeir eru þó í þeirri stöðu af ef West Ham vinna Southampton á laugardaginn, og Wolves vinna United á sunnudaginn kl. 13, þá verða þeir fallnir þegar leikurinn hefst eftir viku. Jafntefli í þessum tveim leikjum myndi í raun tryggja fallið sömuleiðis, ekki tölfræðilega samt, en þá þyrftu þeir að vinna upp einhvern 20 marka mun í síðustu 6 leikjum sínum. Raunveruleikinn er auðvitað sá að Leicester munu falla í vor, og Ipswich gera það sjálfsagt líka þrátt fyrir að hafa hirt stig af Chelsea í dag.
Aðal spennan í deildinni er núna varðandi restina af meistaradeildarsætunum. Ná Forest að hanga í efstu 5? Eru Villa að fara að smeygja sér þar á meðal? Undirrituðum myndi nú ekki leiðast ef City missi af meistaradeildarsæti, og Chelsea mega gera það líka.
Nóg um það. Eyðum ekki frekari tíma í þessi miðjumoðslið. Einbeitum okkur að stöðunni í deildinni, þar sem okkar menn eru með 13 stiga forystu, og verum þakklát fyrir liðið okkar sem kom sér í þá stöðu.