“Ay, here we are with problems at the top of the league.” Líklega hefur gamla Bill Shankly línan aldrei átt eins vel við og á þessu tímabili. Liverpool er afgerandi á toppnum en á sama tíma er fyrirséð að töluverðar breytingar verði gerðar á hópnum í sumar.
Hópurinn er alveg nægjanlega stór og fyrir hvern lykilmann sem kemur í sumar er mjög líklegt að a.m.k. einn fari frá félaginu í staðin. Arne Slot og Richard Hughes hafa sannarlega flýtt sér hægt við að setja sitt handbragð á leikmannahópinn og hafa væntanlega lært það sem þeir þurfa á þessu tímabili.
Slot þarf klárlega fleiri leikmenn sem hann treystir á næsta tímabili ef liðið ætlar langt í fleiri en einni keppni. Skoðum hverjir eru líklegir til að fara í sumar og hvað gæti komið í staðin.
Sóknarlínan
Liverpool er búið að skora fjórtán mörkum meira en næstu lið fyrir neðan í deildinni. Mesta breiddin í liðinu er í sóknarlínunni og allir framherjar liðsins eru leikmenn sem geta unnið leiki upp á sínar eigin spítur. Engu að síður er tilfinningin sú að þeir mættu allir fara í sumar fyrir réttan valkost í staðin nema auðvitað Mo Salah, eini af þeim sem er að renna út á samningi.
Salah er stóra breytan hér, ef að hann fer núna í sumar þarf að fylla í risastórt skarð sem erfitt er að sjá neinn af núverandi leikmönnum fara nálægt því að fylla. Mörkin þurfa þá að koma frá fleiri leikmönnum og það þarf ekkert endilega að vera slæmt. Hvort sem það verði í sumar eða ekki þarf Liverpool að fara finna arftaka Salah því hann er líka að komast á aldur.
Diogo Jota er 28 ára og hefur skorað fimm mörk í deildinni í vetur, hann hefur spilað ígildi tæplega 10 leikja sem er normið hjá honum sem leikmaður Liverpool. Hann hefur oft verið rosalega lengi í gang eftir meiðsli en frammistöður hans núna undanfarið eru þó liklega nálægt botninum á hans ferli hjá Liverpool. Þarna er sannarlega hægt að styrkja hópinn töluvert með traustari leikmanni.
Darwin Nunez hlýtur líka að fara í sumar, þessi tilraun er bara ekki að ganga og líklega er hann ennþá ágætlega söluvæn vara. Nunez er líka búinn að skora fimm mörk og með mínútur í deild sem samanlagt eru rétt rúmlega 10 leikir. Þetta er leikmaður sem ætti að skora 30 mörk núna og vera búinn að taka við keflinu af Salah eða a.m.k gera tilkall til þess.
Nunez og Jota virðast bara ekki passa í leikstíl Slot. Kannski er það vegna þess að Salah er svo afgerandi og leikur liðsins snýst í kringum hann, allavega virðist hann mun frekar vera að leita að nýjum Bobby Firmino frekar en afgerandi níu.
Luis Diaz er með 9 mörk í deildinni sem er sæmilegt en hann hefur verið rosalega heitur/kaldur í vetur og virkar blessaður sem töluvert ódýrari útgáfa af Sadio Mané. Það hefur ekkert gengið að gera níu úr honum, ekki frekar en með Gakpo í fyrra. Alls ekkert forgangsverkefni að selja Diaz en ekki ólíklegt að hann sé falur fyrir rétt verð. Sá sem kaupir hans þarf samt að vera skuldbundinn þannig að hann tekur pabba hans með líka.
Cody Gakpo er nánast eini sóknarmaðurinn sem maður getur verið nokkuð viss um að verði áfram á næsta tímabili. Ekki það að hann hefur skorað færri mörk og spilað mun minna en Diaz í vetur.
Chiesa er svo enn einn sem gæti vel farið í sumar, hann er búinn að spila heilar 25 mínútur í deildinni í vetur og augljóslega ekki í plönum Slot. Var FSG að kaupa hann á 10m til að geta selt aftur á 25-30m?
Ben Doak hlítur að vera einn af þeim sem kemur inn í hópinn næsta vetur ef 2-4 af núverandi sóknarmönnum fara. Hann hefði satt að segja vel getað verið hjá Liverpool í vetur í stað þess að fá inn Chisea.
Eins er spurning hvað verður úr hinum 19 ára Jayden Danns, hann er að eiga hræðilegt tímabil núna vegna meiðsla eftir frábæra innkomu á síðasta tímabili.
Spá: Salah framlengir við Liverpool, Darwin, Diaz og Chisea fara og í staðin kemur einn leikmaður í sóknina auk Ben Doak.
Miðjan
MacAllister, Szoboszlai og Gravenberch komu allir í sama glugganum og eru allir búnir að festa sig afgerandi vel í sessi. Engin af þeim er heldur að verða tæpur á samningi. Curtis Jones er mjög líklega ekkert að fara heldur og ólíklegt að Harvey Elliott sé það heldur þó Slot hafi ákaflega lítið treyst honum í vetur. Elliott er með 120 mínútur í deildinni í vetur sem er ótrúleg notkun á einu mesta efni félagsins.
Wataru Endo fær sömuleiðis lítið sem ekkert traust frjá þjálfaranum í deildinni sem spilar Gravenberch frekar á sjúkrahús en að treysta Endo í byrjunarliði. Tyler Morton er annar sem er að eiga ömurlegt tímabil. Hann hefur verið mikið meiddur og er alls ekki í neinum plönum hjá Liverpool. Sorglegt fyrir hann 22 ára taka eitt tímabil án þess að spila leik eftir að hafa tekið tvö mjög öflug ár í Championship deildinni. Maður myndi ætla að það sé hægt að sameina Endo og Morton í einn góðan miðjumann sem Slot actually treystir og getur notað til að dreifa álagi betur með hinum miðjumönnum liðsins.
Hér þarf samt líka að hafa í huga að nýr leikmaður gæti hindrað leikmenn eins og James McConnell eða Trey Nyoni. Ef að Slot var alvara um McConnell ætti hann að vilja nota hann eitthvað á næstu árum. Eins er spurning hvernig félagið ætlar að nota hinn 17 ára Nyoni. Hann verður ekki hjá Liverpool endalaust ef hann sér ekki leið inn í aðalliðshópinn.
Spá: Vonandi ekki enn einn Monitoring FC sumarið þar sem Liverpool er orðað við alla bestu miðjumenn í heimi en enda svo tómhentir eða með aldraðan leikmann á hrakvirði frá meginlandi Evrópu. Klárum einn í þessum Zubimendi klassa, t.d. leikmann eins og Baleba frá Brighton. Tyler Morton verður sá eini sem fer.
Miðverðir
Van Dijk bara má ekki fara í sumar, það er nánast óhugsandi og galið að félagið sé ekki búið að klára samning við hann. Þegar hann fer verður líklega skarð í vörninni sem tekur áratugi að fylla.
Konate er líka að verða áhyggjuefni, hann á í sumar eitt ár eftir af samningi og ef illa gengur að semja við hann þarf félagið að skoða það alvarlega að selja hann og fá inna annan mann í staðin. Konate er algjörlega í Joe Gomez flokki miðvarða frekar en Van Dijk og alveg spurning með tilliti til sögu hans hvort ekki sé rétt að fá inn annan og traustari leikmann?
Árið 2021-22 spilaði hann 11 leiki í deildinni, árið 2022-23 spilaði Konate 17 leiki, hann spilaði líka 17 deildarleiki á síðasta tímabili og er að bæta sín eigin met allverulega í vetur með að vera búinn að spila 23 deildarleiki núna (og var auðvitað að meiðast). Þannig að hann hefur núna á sínu allra besta móti misst úr 6 leiki af 29 leikjum.
Joe Gomez þarf svo að vera fimmti valkostur eða meira sem miðvörður og þriðji valkostur sem bakvörður. Það er því miður bara alls ekki hægt að treysta hans líkama og mjög þreytandi að leggja upp í hvert tímabilið á fætur öðru með slíka leikmenn
Jarrell Quansah hefur byrjað tvo deildarleiki og komið inná í átta deildarleikjum. Hann er ennþá mikið efni og vonandi framtíðar miðvörður Liverpool en ég er ekki viss um að hann sé klár í það hlutverk strax. Hann er samt sá eini sem maður sé alls ekki fyrir sér fara í sumar.
Þessi staða var mjög tæp fyrir tímabilið og það hefur lítið breyst á þessu tímabili. Það vantar klárlega einn heimsklassa miðvörð og mögulega tvo fyrir næsta tímabil.
Spá: Enginn af þeim fer en við bætum við einum alvöru miðverði sem vonandi verður framtíðar arftaki Van Dijk.
Bakverðir
Fyrir ári síðan fannst manni framtíð Liverpool tryggð hægra megin með Trent og Conor Bradley, núna virðist nokkuð ljóst að Trent er að fara á frjálsri sölu og Bradley virðist víðsfjarri því að hafa líkama í að taka við af honum. Auðvitað vill maður halda báðum en fari svo að Trent sé farinn þarf að kaupa nýjan hægri bakvörð.
Vinstra megin var ágætlega augljóst fyrir tímabil að tími væri komin á breytingar og það á við ennþá. Liverpool þarf að kveðja Tsimikas og fá inn leikmann sem tekur stöðuna af Robertson, hvort sem það verði strax eða hægt og rólega á næsta tímabili.
Spá: Liverpool kaupin inn tvo byrjunarliðs bakverði. Trent og Tsimikas fara. Óttast samt að ef Trent fer að ekkert verði gert vinstra megin og bara keypt nýjan hægri bakvörð.
Markverðir
Skarð Alisson verður líklega engu minna en Van Dijk þegar hans tíma hjá Liverpool líkur.
Spá Ef að Mamardashvili er sannarlega að koma í sumar og Alisson ekki að fara þá er nokkuð ljóst að Kelleher sé farinn. Eins held ég að þá verði Mamardashvili að sætta sig að vera varamarkmaður eitt tímabil.
Að lokum
Það er nokkuð auðveldlega hægt að sjá fyrir sér að 6-8 leikmenn fari í sumar og inn komi 4-5 nýir leikmenn auk þess sem ungir leikmenn fylli upp í eitthvað af þessum skörðum. Endurkoma Edwards til Liverpool og ráðning Richard Hughes benda til að Liverpool er alls ekki að fara kaupa Alexander Isak eða álíka tilbúin nöfn nema í algjörum undantekningar tilvikum, þetta verði meira í anda leikmannakaupa Bournemouth undanfarið og Liverpool áður.
Liverpool má alveg missa af augljósa valkostinum sem allir eru að öskra á að fá ef að mótleikurinn er gluggi eins og sá sem skilaði okkur MacAllister, Szoboszlai og Gravenberch. Eins má Hughes halda áfram með leikmannakaup eins og skilaði Bournemouth leikmönnum eins og Kerkez og Huijsen. Hlutfall heppnaðra leikmannakaupa í tíð Klopp og Edwards var ótrúlega gott þó oft hafi þau ekki virkað sem mest spennandi valkosturinn fyrirfram. Vonandi fáum við að sjá eitthvað svipað úr samvinnu Slot og Hughes.