Luton, QPR og önnur prump lið

Stefán Pálsson, ofurbloggari heldur með liðinu Luton í ensku knattspyrnunni. Hann skrifar á vef sinn að hann hyggist stofna klúbb fyrir þá, sem halda með minni liðunum í enska boltanum.

Stefán telur það greinilega dyggð að styðja litlu liðin en ekki Liverpool (sem er mitt uppáhaldslið), United eða Arsenal. Ég er algerlega ósammála þessu. Ég held nefnilega að Stefán haldi með Luton af sömu ástæðu og ég held með Liverpool, það er, að þeir voru góðir þegar við byrjuðum að fylgjast með fótbolta.

Fyrsti fótboltaleikurinn, sem ég man vel eftir var Liverpool-Juventus í úrslitum Evrópukeppninnar, sem var háður á Heysel leikvanginum í Belgíu. Sá leikur er fremur þekktur fyrir þann sorglega atburð, sem gerðist fyrir leikinn þegar tugir Juventus stuðningsmanna dóu er stúkan þeirra hrundi eftir ólæti Liverpool stuðningsmanna. Eftir þann leik hef ég ávallt haldið með Liverpool, einfaldlega vegna þess að þeir voru góðir þegar ég byrjaði að fylgjast með fótbolta.

Ég var þónokkuð heppnari en til dæmis Gunnar Narfi vinur minn, sem heldur með Everton, en þeir voru með gott lið á svipuðum tíma. Ef ég hefði verið óheppinn hefði ég getað asnast til að halda með Everton, Norwich eða einhverjum ámóta sorglegum liðum, sem voru góð þegar ég var 8-9 ára gamall.

Ég held með fulltaf lélegum liðum í öðrum deildum og íþróttum. Ég held til dæmis með Stjörnunni á Íslandi af því að ég ólst uppí Garðabænum. Stjarnan hefur aldrei unnið neitt (nema frægan Íslandsmeistaratitil í fótbolta í 5.flokki, sem er án efa hátindur frekar slapps knattspyrnuferils míns). Það er þó engin sérstök dyggð að halda með þessu slappa liði heldur einfaldlega óheppni. Sama gildir með Stefán og Stefán og aðdáun þeirra á QPR og Luton.

3 Comments

  1. Heyrðu vinur, ég ætla bara að minna þig á það að Everton er í 5. sæti deildarinnar, einu sæti og tveimur stigum á eftir Liverpool.

Jerzy, Jerzy, Jerzy

Hvað er að Liverpool?