Meistaradeildin er það heillin! Þvílíkt sem það er yndislegt að geta hlakkað til næsta tímabils þar sem jafntefli gerði út um vonir Newcastle á að stela 4. sætinu af okkur í lokaleiknum á morgun. Það er búið að vera að tala um “úrslitaleik” á milli Liverpool og Newcastle í síðustu umferðinni allt tímabilið … en nú er sá leikur þýðingarlaus – nema ef ske kynni að menn vilji skemmta heimaáhangendunum. Vonandi.
Ég hlakka allavega frekar mikið til að sjá þennan leik á morgun. Til að byrja með þá gæti þetta verið síðasti leikurinn fyrir einhverja af leikmönnum Liverpool (Heskey? Cheyrou? Diouf? Biscan?) og því gæti þetta orðið svolítð tilfinningaþrungið. Þá hlakkar mig líka til að sjá hvort Houllier leyfir einhverjum af ungu strákunum að spila úr því þessi leikur er merkingarlaus – allavega væri ég alveg rosalega til í að sjá Paul Harrison, hinn unga varamarkvörð, spila seinni hálfleikinn á morgun. Ekki af því að Dudek er lélegur heldur af því að fyrir mánuði voru 15 ár síðan 96 aðdáendur Liverpool létust í Hillsboro-harmleiknum og þar á meðal pabbi Harrisons. Ef einhver á skilið að fá að koma inná og hljóta þrusuklapp frá The Kop á morgun er það Harrison – það yrði æðislegt.
Þá er það allt þetta umtal þessa vikuna um tvö fjárfestingartilboð sem hafa borist. Það er þegar búið að neita tilboði Morgans en spurningin er með tilboð Shinawatra, hvort því verður tekið? Það hefur verið talað um að mótmæla því á leiknum á morgun þar sem Shinawatra er víst upp á kant við Amnesty International vegna glæpsamlegrar meðferðar á fólki í heimalandi sínu, Tælandi. Það verður spennandi að sjá hvort að (a) Shinawatra verður viðstaddur og (b) fólk mun mótmæla.
Að lokum er það Gérard Houllier. Ah, hvað getur maður sagt um Houllier sem hefur ekki þegar verið sagt? Það er búið að skeggræða hann til enda og ég hef sjálfur sagt helling, bæði hér og annars staðar, um manninn og stjórn hans á Liverpool FC. Jú, hann kom okkur aftur í Meistaradeildina núna eftir (sársaukafulla) ársfjarveru – sem var lágmarkið í vetur. En það breytir því ekki hversu óstöðugt liðið er búið að vera undanfarið eitt og hálft ár. Að mínu mati er liðið nefnilega búið að vera að spila þrusugóðan fótbolta í vetur … án þess þó að ná nógu oft að klára dæmið. Oft kemst liðið í 1-0 eða 2-0 og hörfar svo aftur á völlinn, hreinlega býður andstæðingunum upp á að berja sér aftur leið inn í leikinn. Sem hefur einmitt allt of oft gerst. Þá höfum við ekki verið nógu stöðugir – ef liðið gæti spilað eins allt tímabilið og þeir hafa verið að gera undanfarna tvo-þrjá mánuði þá værum við núna í baráttunni um annað sætið, ekki það fjórða (þar sem Arsenal hafa verið ósigrandi í vetur). Í raun má segja að einu töpin sem ég geti sætt mig við séu töpin á móti Arsenal heima og úti, þar sem þeir eru bara allt of góðir í ár.
En stóra spurningin er: getur Houllier haldið áfram að bæta við liðið á næsta ári? Taki klúbburinn tilboði Shinawatra fáum við einhverjar 50m+ punda til leikmannakaupa í sumar. Djibril Cissé er þegar að koma og mun stórbæta markaskorunina á næstu árum. Þá sárvantar miðvörð (Philippe Mexés?), hægri kantmann (Shaun Wright-Phillips?) og sókndjarfan miðjumann (Rafael van der Vaart?) til að styrkja liðið endanlega og er ég í raun fullviss um að menn í allar þessar þrjár stöður verða keyptir í sumar, auk Cissé. Og þegar þau kaup eru orðin að veruleika held ég að það megi reikna með velgengni næsta vetur, hvort sem Houllier er stjóri eða ekki.
Ég hef í raun ákveðið eitt: ef Owen verður áfram, Cissé er að koma og við fáum leikmenn eins og t.d. Mexés, Wright-Phillips og van der Vaart – og ef liðið kemst í gegnum forkeppni Meistaradeildarinnar í ágúst og inn í riðlana – þá mun ég fyrirgefa allt liðið og leyfa Houllier að byrja að nýju! Ef hann er þá enn við stjórn. Ef nýr þjálfari kemur inn (José Mourinho takk!) þá verð ég mjög bjartsýnn og fullur tilhlökkun. Ef hins vegar Houllier verður enn við stjórn – þá verð ég samt mjög bjartsýnn og fullur tilhlökkun. En það verður ekki af því að Houllier er við stjórnvölinn heldur af því að liðið verður í Meistaradeildinni og komið með heimsklassaleikmenn í a.m.k. þessar fjórar stöður.
Þannig að hér með er ég hættur að væla yfir stjórn Houllier. Ég nenni því ekki, ég er ekki þannig gerður að ég vilji dvelja í fortíðinni. Ég er bjartsýnn, þökk sé 4. sætinu og 50+ milljónum punda. Og ég mun ekki kvarta meira yfir Houllier fyrr en í fyrsta lagi ef/þegar (a) hann kaupir ekki þá menn sem liðið þarfnast í sumar og (b) liðið byrjar næsta tímabil með sama kjánaskap og það sem nú er að líða undir lok.
Eitt enn – á morgun mun Liverpool FC brjóta upp venjuna og spila í nýja aðalbúningnum fyrir tímabilin 2004-2006 í síðasta leik þessa tímabils. Þetta hafa þeir aldrei gert áður en það verður spennandi að sjá hvernig þeir eru að fíla sig í nýju hönnuninni (allir þeir sem hafa spilað knattspyrnu í 90mín. svita og núningi vita að þægindi flíkanna utan á mönnum eru mjög mikilvæg). Svo eru þetta bara líka svo flottir búningar, sjáið bara Owen?!?!?