Hvað er í gangi hjá Stevie G?

Ég veit hreint ekki hvað maður á að halda varðandi þetta Gerrard mál. Benítez fór víst til Spánar á föstudag og ræddi við Gerrard, Owen og Carragher. Eftir það talaði hann við opinberu vefsíðuna og nánast staðfesti að Gerrard væri í raun að íhuga að fara frá Liverpool, auk þess sem hann ítrekaði að hann myndi gera allt sem í sínu valdi stendur til að telja hann á að vera áfram í Liverpool.

Á meðan á því stóð hefur breska pressan að sjálfsögðu farið mikinn um fyrirhuguð kaup Chelsea á kauða, enda hafa þeir varla komist í jafn feitt síðan Beckham svaf hjá konu sem er ekki kölluð “Posh” í vetur. Meðal þess sem nú er rætt er möguleikinn á að Scott Parker komi til L’pool í skiptum fyrir Gerrard, auk einhverra 30milljón-punda í reiðufé.

Önnur frétt segir samt að Liverpool muni aldrei selja Gerrard fyrir minna en 50milljónir punda, og miðað við að Parker kostaði Chelsea 10millur í janúar þá hljóta 30millur + Parker (alls 40 millur) að teljast of lítið fyrir Steven Gerrard, ekki satt?

Kannski það sem veldur mér hvað skrýtnustum tilfinningum eru sögusagnirnar um að Carragher og Gerrard hafi hnakkrifist í Portúgal fyrir skömmu. Þetta veldur mér bæði létti og áhyggjum; létti af því að ef ég væri Carra þá myndi ég líka lesa Stevie G pistilinn fyrir að íhuga svona græðgissölu – en þetta veldur mér samt áhyggjum því kannski gerir ósætti þeirra í milli Gerrard ákveðnari í að fara.

Hvað sem verður þá efast ég um að við fáum úrlausn á þessu máli fyrr en eftir Euro 2004. Þegar Gerrard er kominn heim til Liverpool, búinn að sjá þróun leikmannamála hjá Benítez og búinn að fá smá frið til að hugsa málin, þá fyrst tekur hann væntanlega endanlega ákvörðun. Við getum bara vonað að það sé rétt ákvörðun og að hann verði fyrirliði Rauða Hersins á næsta ári.


Eitt er það samt sem ég skil ekki og það er allt þetta tal um að Gerrard vilji fara til Chelsea af því að hann vilji vinna titla. Ef hann segðist vilja fara frá Liverpool fyrir lið sem gæti unnið titla – og færi svo til Arsenal eða ManU, þá gæti ég skilið það. En til Chelsea??? Hvað hafa þeir sem við höfum ekki?

Berum aðeins saman liðin:
Þjálfarar: Bæði lið nýbúin að ráða nýja stjóra. Benítez og Mourinho eru vafalítið tveir efnilegustu og heitustu þjálfarar Evrópu í dag og erfitt að gera upp á milli þeirra.

Aðstaða: Skv. ummælum Mourinhos þá er aðstaðan hjá Chelsea FC til háborinnar skammar, þannig að Liverpool FC hefur augljóslega vinninginn hér.

Saga og fyrri afrek: Liverpool er sigursælasta lið enskrar knattspyrnusögu. Og hefur unnið sex titla á síðustu fimm árum. Chelsea hafa unnið einn bikar á þessum sömu fimm árum, minnir mig alveg örugglega. Þannig að Liverpool hefur öruggan sigur hér líka.

Peningar: Chelsea geta eytt án tillits til kostnaðar í leikmenn. Flott hjá þeim. En Liverpool eru skv. öllum miðlum að gíra sig upp í að eyða allt að 50-60 milljónum punda í leikmenn áður en nýtt tímabil hefst, sem er ekkert slor. Talað eru m Ayala, Aimar, Vícénte, Sylvail Wiltord, Ricardo Quaresma, Scott Parker, Damien Duff og endalaust fleiri leikmenn í því sambandi. Þannig að Chelsea hafa hér vinninginn, en það er naumara en mætti ætlast til þar sem Liverpool hafa líka vissulega fjármagnið til að eyða í heimsklassamenn í sumar!

Persónulegt umhverfi: Hér ætti sterkasta vopn Liverpool að liggja. Stevie er uppalinn púllari, fyrirliði liðsins sem hann dýrkar og dáir og launahæsti leikmaður liðsins. Ef hann fer fram á launahækkun fær hann hana, eins lengi og hann verður um kyrrt. Hann er að spila hjá sínu liði, fyrirliði, og það lið er á mikilli uppleið. Af hverju ætti hann að fara???

Eins og ég sagði, þá væri það erfitt en ég myndi skilja það ef Gerrard færi til Arsenal, ManU, Real Madríd eða AC Milan. Af því að það eru lið sem hafa undanfarin ár verið að vinna fleiri deildarsigra og fleiri titla í öllum keppnum en við í Liverpool. En að fara til Chelsea, sem er að versla leikmenn og með nýjan þjálfara og á mikilli uppleið – EINS OG VIÐ – en hefur ekki sömu hefð fyrir titlum og við? Það væri að mínu mati óskiljanlegt … og þá held ég að ég gæti lítið annað en haldið að Gerrard væri bara að fara þangað til að elta peningana.

Það verður mikið um fréttir af þessu á næstunni þannig að ég legg til að við öndum öll rólega. Eins og Benítez sjálfur sagði þá mun hann gera allt sem í hans valdi stendur til að halda Gerrard en ef allt kemur fyrir ekki og við missum hann til Chelsea – þá er það ekki endir alls. McManaman var einu sinni talinn ómissandi – og Robbie Fowler líka. Ian Rush var einu sinni talinn ómissandi en án hans unnum við tvennu. Gerrard og Owen eru vissulega taldir ómissandi fyrir Liverpool FC í dag – en hafið það á hreinu að ef þeir velja að fara frá klúbbnum sem ól þá upp þá verður það ekki endir alls fyrir Liverpool Football Club!

Að lokum minni ég á styrjöldina í kvöld: Portúgal – Spánn. Þetta verður ROSALEGT … kannski ekki jafn rosalegt og Milan Baros í stuði, en samt roooooosalegt!

14 Comments

  1. Já, ég er sammála þessari grein hjá þér. Ég myndi skilja (og jafnvel fyrirgefa) Gerrard ef hann væri að fara til Arsenal (ímyndið ykkur hann og Vieira saman!), Real Madrid (hann og Zidane) eða Milan. Hann yrði byrjunarmaður í öllum þessum liðum.

    Af hverju Chelsea, fyrir utan peningana?

    Látum svo vera að hann fari til Chelsea, myndi Mourinho vilja spila tveim sókndjörfum miðjumönnum? Myndu Lampard og Gerrard spila vel saman?

    Ég segi að ef hann fer til Chelsea, þá vil ég fá Parker og Terry í staðinn. Parker, Terry og svona 20 milljónir punda finndist mér sanngjarnt. Þá væri ég ekki frá því að Liverpool væri vel settir. Það væru allavegana mistök að krefjast þess ekki að fá Terry í staðinn!

    Ég vil ekki segja of mikið áður en Stevie segir eitthvað, en það er ágætt að muna að enginn leikmaður er stærri en Liverpool. Ekki einu sinni Gerrard!

  2. Einmitt, ég gæti “sætt mig við” 20 millur plús Duff, Terry og Parker 🙂

    Annars rakst ég á þessa grein um það af hverju Stevie G fer ekki frá Liverpool. Góður lestur!

    Ég persónulega reyni að vera eins stóískur og ég get á þetta … ég leiði þetta eins mikið hjá mér og ég get – allavega þangað til við heyrum hvað Gerrard sjálfur hefur um þetta mál að segja… þangað til er þetta bara slúður, held ég.

  3. Í fyrsta lagi heyrist mér (í bresku pressunni að vísu) að Chelsea séu að bjóða honum að minnsta kosti að tvöfalda launin hans. Það er úr 60.000 í 125.000 pund. Ef satt er, þá finnst mér það feykinæg ástæða fyrir Gerrard að fara. Buisness er buisness. Ég er orðinn ótrúlega þreyttur á þessari barnslegu trú á tryggð í fótbolta. Wake up and smell the Java maður. Þetta er málaliðahernaður.

    Í öðru lagi skilst mér að Gerrard og Lampard séu miklir og góðir vinir og þeir hafa verið að ná vel saman á miðjunni hjá landsliðinu. Þeir vilja hugsanlega þróa það samstarf enn frekar. Það er kannski engin sérstök ástæða, en Gerrard hefur verið duglegur við að gagnrýna LFC fyrir að styrkja liðið ekki nægilega mikið. Það er eitthvað sem hann þarf varla að kvarta yfir hjá Chelsea. .

    Í þriðja lagi getur verið að hann vilji frekar taka sénsinn á Mourinho en Benitez.

    Í öllu falli mun það ekki koma mér neitt á óvart ef Gerrard fer. Það er vissulega sorglegt að missa hann, en svona gerast kaupin á eyrinni. Mín von er fyrst og fremst að við getum þvingað sem allra mesta upphæð út úr Chelsea og notað peningana til að fylla skarðið.

  4. Já, kannski er ég bara skrítinn en ég held að mér myndi ekkert muna neitt rosalega um það hvort ég væri með 385 milljónir króna á ári (einsog Gerrard er með núna) eða 770 milljónir. Hvað gerir maður við þessar auka 385 milljónir á ári? Ég bara spyr. Hvað gerir 23 ára strákur við þessa peninga? Það er ekki einsog hann sé að svelta hjá Liverpool. Liverpool eru alltaf meðal þeirra liða, sem borga hæstu launin í öllum heiminum.

    Ef ég væri fyrirlið Liverpool, liðsins sem ég hef stutt öll þessi ár, þá myndi ég ekki fara frá liðinu útaf peningum. Gerrard veit að það verður allt vitlaust ef hann fer frá liðinu og hann veit hvaða afleiðingar það hefur fyrir liðið.

    Auðvitað er maður kannski of einfaldur í þessu, en ég bara get ekki trúað því að hann fari frá Liverpool útaf peningum. Ef hann vill árangur, þá á hann að fara til Arsenal eða Real Madrid. Chelsea hefur ekki unnið neitt! Ef hann fer til Chelsea þá blæs ég á að það sé til að ná betri árangri.

    Og hvaðan í andskotanum kemur þetta bull, sem maður heyrir núna aftur og aftur, um að Gerrard og Lampard nái svo vel saman á miðjunni fyrir landsliðið? COME ON!

    Hvað eru þeir búnir að leika marga leiki saman? Tvo-þrjá? Ég er ekki að æsa mig útí þig, Birkir, en ég hef verið að heyra þessa vitleysu alltof oft síðustu daga.

  5. Það er alveg pottþétt að Steven Gerrard er að fara vegna peninganna. Það hef ég allavega pikkað upp samkvæmt fréttum sl viku eða svo, að hann er ósáttur hjá LFC. Eins og þið brutuð niður á skemmtilegan hátt hér að ofan, þá er greinilega mikið metnaðarleysi hjá manninum ef hann vill ganga til liðs við Chelsea. Auðvitað eru það peningarnir sem hann er að eltast við og svo að vissu leyti ákveðin pressa sem hann afléttir af sér en tekur með sér til Stamford Bridge.
    Annar hef ég akkúrat engar áhyggjur ef hann fer. Ég vill minna á orð Benitez um að það eru lið sem vinna fleiri leiki en einstaklingar, og eru þetta orð sem koma svo sannarlega á hárréttum tíma. Steven Gerrard á eftir að átta sig á því að ef hann fer til Chelsea er hann að gera mistök. Það er asnalegt að gefa ekki stjóranum séns í eins og 1 tímabil eftir að hafa nýlega samið nýjan samning við Liverpool til 5 ára. Enn ein sönnunin á því að samningar gilda ekki neitt í dag. Við misstum Dalglish á sínum tíma og við höfum getað spilað fótbolta eftir það. Það verður fínt að heimta 50 millur úr Chelsea því þeir vilja borga og því ekki að láta þá borga! Kaupa 4-5 frábæra leikmenn fyrir þetta og styrkja okkur enn frekar!

  6. A) Ég setti hér fram ástæður fyrir því af hverju það kæmi mér ekki á óvart ef Gerrard fer.

    B) Ég skal vera sammála þér um að það er lélegt ástæða að segja að Gerrard og Lampard nái svo vel saman á miðjunni hjá Englandi, það sem ég myndi hafa meiri áhyggjur af í því sambandi er hvort þeir eru jafn miklir félagar og vinir utanvallar eins og af er látið.

    C) Ég er ekki sammála því að það sé metnaðarleysi að fara til Chelsea af því að þeir hafi ekki unnið neitt og að Liverpool sé miklu sigursælla lið. Það er langt síðan Liverpool hefur unnið eitthvað af viti og það er mjög augljóst hvort liðið er að leggja allt undir til þess að vinna titila. Liverpool hefur einfaldlega ekki verið að sýna sama metnað í leikmannakaupum t.d. og Chelsea. Ég er tilbúinn að veðja við þig að það verður styttra þangað til Chelsea vinnur titilinn en Liverpool. Með eða án Gerrard. Ég er bara ekki sammála þér um að það sé rétt að blása á það að hann telji sig geta náð meiri árangri hjá Chelsea.

    D) Ég skil ekki af hverju menn eiga svona erfitt með að fallast á að Gerrard gæti haft áhuga á meiri peningum. Tökum þig sjálfan sem dæmi Einar. Nú vinnur þú hjá Danól, ef að Karl Karlsson heildverslun sem er í húsinu við hliðina myndi nú bjóða þér að taka við sama starfi hjá þeim og þú gegnir hjá Danól fyrir tvöfalt hærri laun, myndirðu þá segja nei af því að Danól er þitt fyrirtæki? Myndir þú taka þér langan umhugsunarfrest áður en þú segðir: já takk, og pakkaðir niður laptoppnum og labbaðir yfir í KK? Ég held ekki. Það er einföld hagfræði að þú ert þess virði sem markaðurinn er tilbúinn að greiða fyrir þig.
    Ef einhver er tilbúinn að greiða tvöfalt hærra fyrir þig heldur en þú færð núna hjá Danól, þá þætti þér væntanlega frekar sorrý að vera að vinna langt undir markaðsvirði hjá Danól. Það særir stoltið. Af hverju ætti það að vera eitthvað öðruvísi hjá Gerrard.
    Í boltanum snýst launatékkinn snýst ekki bara um það hvort þú getir komið peningunum í lóg, heldur er þetta einnig sú mælistika sem leikmenn hafa á þá virðingu sem þeir hafa sem leikmenn.
    Mér finnst bara röksemdafærslan: Ég held með Liverpool. Ergo: Ég gef skít í 385 milljónir; fáránleg.

    E) Þetta hefur bara gerst svo oft áður í boltanum. Figo og Beckham eru gott dæmi. Scott Parker er annað gott dæmi. Cristian Ziege og Dietmar Hamann komu til Liverpool undir svipuðum kringumstæðum. Þetta á ekki að þurfa að koma neitt á óvart.

    F) Ég er ekki að setja fram ástæður fyrir því af hverju Gerrard ætti að fara. Ég vona svo innilega að hann verði um kyrrt. Ég er einfaldlega að reyna að halda því fram að það þyrfti ekki að koma neinum á óvart ef svo færi. Það væri djöfullegt ef svo færi, en ég myndi samt reyna að sýna því skilning.

  7. Jamm, þetta eru góð rök hjá þér Birkir. Þrátt fyrir að það sé smá munur á því að tvöfalda launin mín og tvöfalda launin hans Gerrard 🙂

    Já, og KKK þyrftu að gera meira en að tvöfalda launin mín til að ég myndi skipta 🙂

    Auðvitað hljóta þessi launamál að snúast um stolt, en ég sé bara ekki af hverju Gerrard ætti að vera fúll. Hann er launahæstur hjá Liverpool og ábyggilega með hærri laun en t.d. Vieira og Lampard. Ætli Roy Keane sé ekki einu miðjumaðurinn í enska boltanum, sem er með hærri laun en Gerrard. Og ef hann vill launahækkun hjá Liverpool, þa *mun* hann fá hana. Hverja er hann eiginlega að miða sig við? Liverpool hefur ávallt farið vel með hann og boðið honum launahækkanir löngu áður en að samningar við hann runnu út.

    Varðandi það, sem Eiki sagði um metnaðarleysið, þá held ég reyndar að hann hafi verið að meina að ef Gerrard skiptir um félag, þá sé það metnaðarlaust að fara í Chelsea, á móti t.d. því að fara í Arsenal eða Real Madrid.

    Ég er ósammála þeim rökum hjá þér að Chelsea hafi sýnt meiri metnað í leikmannakaupum. Þeir eiga einfaldlega bara meiri pening og hafa sólundað peningnum í menn, sem munu líklega lítið sem ekkert spila næsta vetur, t.d. Geremi, Verón, Crespo og fleiri. Liverpool er ekki stjórnað þannig.

    En ég ætla samt ekki að falla í þá gryfju að fara að ásaka Gerrard um græðgi þangað til að þetta verður staðfest. Ef að hann fer mun ég samt blása á þau rök að það sé útaf því að einhveri löngun til að vinna titla. Ef hann fer til Chelsea, þá er það vegna peninganna. Svo einfalt er það.

    Og ég veit líka að þegar það gerist, þá mun ég tapa endanlega trú á því að leikmenn séu trúir sínum félögum. Þá mun allavegana endanlega slökkna á þeirri barnalegu trú minni að tryggð þýði eitthvað í fótbolta. Ég held að það séum bara við aðdáendurnir, sem erum trúir okkar félögum. Einhvern veginn hefur hugsunin alltaf verið að flestir séu falir, nema menn einsog Gerrard. Einhvern veginn var maður alltaf vongóður um að hann væri einn af okkur. Fyrir utan Jamie Carragher, þá hafði maður á tilfinningunni að það væri enginn maður jafn stoltur af því að spila fyrir Liverpool og Gerrard.

    Ég held að Kristján sé með góðan punkt í [prófílnum sínum](http://www.eoe.is/liverpool/kristjan.php), þar sem hann segir: “Ég á mér svo sem enga uppáhalds leikmenn [hjá Liverpool] og hef aldrei haft – hef þá trú að ef maður verður of háður einhverjum leikmanni geti það skemmt fyrir ástinni á liðinu ef viðkomandi leikmaður fer eða hættir.

  8. Ég held að við séum nokkurn veginn komnir að sama punkti hérna Einar. Munurinn á okkur er bara sá að ég hef fyrir talsverðu tapað þessari “barnalegur trú”, eins og þú kallar það, á að tryggð þýði eitthvað í fótbolta.

    Mér finnst ástæðulaust að ætlast til þess að leikmenn sýni klúbbnum meiri tryggð en klúbburinn sýnir leikmönnum. Mér fannst tryggð LFC við leikmenn ekki vera mikil þegar Fowler og Redknapp voru seldir.

    Ég held líka að ef til kemur að Gerrard fer, þá sé það vegna peninganna.

    Og enn og aftur vil ég endurtaka það sem ég hef áður sagt. Það er enginn einn leikmaður stærri ein LFC. Ef Gerrard fer þá er það sorglegt, en það er ekkert náðarhögg samt sem áður.

  9. Fowler vildi fara ef ég man rétt og Redknapp var búið að sýna ansi mikla tryggð ansi lengi ekki satt?

  10. Fór Redknapp ekki meira að segja á Bosman? Man ekki eftir því að Liverpool hafi fengið pening fyrir hann.

    Liðið hafði haft gríðarlega þolinmæði með Redknapp og því væri það frekar ósanngjarnt að segja að liðið hafi ekki sýnt Redknapp tryggð.

    Og Fowler talaði um að hann vildi fara, að mig minnir.

  11. Eins og ég man þessa sögu þá var það þannig að Fowler einfaldlega gafst upp á að sitja á bekknum fyrir aftan Heskey. Mér fannst hann aldrei fá þann séns sem hann átti skilið til þess að ná formi eftir meiðslin.

    Rekknapp var tilkynnt að hann skyldi leita sér að öðru liði því það væri ekki lengur pláss fyrir hann á Anfield. Þar fannst mér illa farið með góðan pilt, því ég hefði tvímælalaust viljað sjá hann sitja á bekknum frekar en Diao eða Diouf.

  12. Ég skil ekki af hverju það er verið að segja að það sé vitlaust hjá Gerard að fara í Chelsea frekar en Real, Arsenal eða Milan af því að Chelsea hafi ekki unnið neitt en hin liðin hafi unnið eitthvað. Ef Gerard væri að velja sér lið til að vinna eitthvað fyrir 2 árum þá mundi hann auðvitað velja Real en málið er að þú græðir ekkert á sögunni. Hann er ekkert að fara í nýtt lið til að skoða bikarasafnið hann er að fara til að bæta í það. Þó að lið hafi unnið fullt af titlum þá þarf það ekki að þíða að þau geri það á næsta tímabili líka (samanber Liverpool) þeir voru sigursælir en hafa aldrei unnið Premier League. Það er ekkert líklegra að Utd vinni titilinn á næsta tímabili frekar en Chelsea. Og þið eruð alltaf að segja hvað Gerard er stórkostlegur leikmaður þá ætti hann að geta bætt Chelsea liðið sem var í 2 sæti í ár og 4 liða úrslitum meistaradeildarinnar

Má ég kynna: Milan Baros!

Af hverju Gerrard verður áfram