Baros til Barca? (Uppfært: NEI!)

Samkvæmt frétt á Liverpool.is, og fréttum víðar í dag, er umboðsmaður Milan Baros búinn að komast að samkomulagi við Barcelona um að kappinn fari til þeirra á fjögurra ára samning. Skv. fréttum þessum á Barca nú aðeins eftir að komast að samkomulagi við Liverpool um kaupverð, ef Liverpool vill þá selja kappann yfirhöfuð.

Ég veit ekki … viljum við missa Baros? Að mínu mati er hann ekki ómissandi, en á sama tíma hlýtur að vera vilji fyrir því að leyfa honum að spila í haust í kjölfar hamfara þeirra sem hann fór á EM í sumar. Ég er bara að reyna að sjá fyrir mér af hverju Liverpool myndi vilja selja hann.

Auðvitað detta manni einhverjar ástæður í hug. Sú ólíklegasta, en samt möguleiki, er sú að Benítez hreinlega líki ekki við Baros sem leikmann og ætli sér ekkert að nota hann. Finnst það ólíklegt. Nú, þá gæti vel verið að Benítez ætli sér að spila svipaðan bolta hjá okkur og hjá Valencia, þ.e. einn framherji og ein svona “Aimar-týpa” sem liggur fyrir aftan hann. Ef það er málið þá væri nátt’lega feykinóg að hafa Owen og Cissé til skiptis í framherjanum, svo lengi sem liðið klófestir einhvern til að liggja fyrir aftan framherjann … þar sem ég tel okkur ekki hafa neinn nógu góðan í þá stöðu núna (nema kannski Diouf? ég veitiggi…)

Það getur líka verið að þegar Baros snýr/sneri aftur í vikunni til Liverpool-borgar, og hefur væntanlega hitt Benítez, hafi hann hreinlega heimtað að fá fasta stöðu í byrjunarliði í kjölfar EM-markanna en Benítez hefur þá væntanlega svarað því með því að segja honum hvert hann gæti troðið sér … og það skín engin sól þar.

Maður veit ekki. Það verður allavega gaman að sjá hvort Baros mætir til æfinga með hinum EM-stjörnunum á mánudaginn næstkomandi … og ef hann mætir, hvernig verður hann stemmdur? Úr því að Liverpool hafa verið duglegir að neita sölum á bæði Diao og Sinama-Pongolle í vikunni ættu þeir að vera fljótir að neita sögusögnum um Baros, ætli þeir sér ekkert að selja hann. Þannig að þögn er sama og sekt … hlýtur maður að ætla. Sjáum til hvort þeir skjóta þetta tiltekna slúður niður á næstu dögum.

Annars bara bendi ég mönnum á góðan spjallþráð á RAWK þar sem verið er að ræða þessi mál á mjög skynsaman og ígrundaðan hátt. Frábær lestur fyrir þá okkar sem eru að velta fyrir sér af hverju í ósköpunum liðið ætti að selja Baros.




Uppfært (Kristján Atli): Nú hefur Joan Laporta, forseti Barcelona, sjálfur viðurkennt að Barcelona nái ekki að kaupa Baros í sumar, en þar sagði hann meðal annars:

>Baros had a great European Championship and like all great players has possibilities of playing for Barcelona, but not this season.

>His high price makes his arrival here very difficult.

Ókei, þannig að annað hvort neituðu Liverpool að selja hann nema fyrir ákveðið háa upphæp – sem var allt of há fyrir Barca – eða þá að þeir voru til í að selja en Laporta ákvað að fara eitthvað annað.

Hvað sem því líður, þá er ljóst að Baros er ekki á leið til Barcelona. Þó er ekki útilokað með önnur lið, þar sem Laporta talaði um verðmiðann hans og því veit maður enn ekki hvað gæti gerst ef eitthvað lið (Juve? Real? Chel$ki?) myndi koma með nógu gott tilboð.

En það er nánast útilokað úr þessu – og tel ég það bara gott mál. Ég er búinn að hlakka til í nokkrar vikur núna að sjá Owen/Baros/Cissé vinna saman hjá Liverpool í vetur og ég varð bara hálf dapur við tilhugsunina um að verða af því tækifæri! 🙂

2 Comments

  1. Á meðan og eftir EM fannst mér nú Baros og umboðsmaður hans vera voðalega mikið að auglýsa hann til annara risa í fótboltaheiminum (Barca, Real etc). Áhugi þeirra er greinilega ekki mikill að sýna sig og sanna hjá Liverpool samkvæmt því sem maður les og heyrir um í fjölmiðlum. Ef svo er rétt finnst mér að við ættum að losa okkur við Milan Baros hið snarasta og láta það lið sem vill fá hann punga út allavega 10 milljónum fyrir hann. Mér finnst þetta ekki vera lengur spursmál um hvort hann fái byrjunarliðssæti, heldur frekar hvað umboðsmaðurinn fái í sinn hlut. Ég vill fara að sjá umboðsmenn tjóðraða niður svo þeir séu ekki að hafa svona mikil áhrif á leikmenn út um allt. Þeir eru markvisst að skemma skemmtanagildi boltans í dag með peningagræðgi og vitleysu. Ég vill fara að sjá samninga standast svona einu sinni!

  2. Ég er ekki sammála þér, Eiki. Mér finnst Baros ekki endilega hafa gert mikið úr þessu, en umboðsmaðurinn hans er snjall og hann veit að sennilega getur Baros átt von á að bæta samninginn sinn við Liverpool.

    Liverpool eru búnir að fara illa með Baros. Ég á í erfiðleikum með að finna leikmenn, sem voru höndlaðir jafn asnalega af Houllier og einmitt Baros. Hann er ábyggilega ennþá vonsvikinn útí þá meðferð og vill sýna Benitez að hann á aðra möguleika.

    Ég skil þetta hjá Baros. Ég held að hann vilji vera áfram hjá Liverpool en hann er ekki tilbúinn að fara útí sama ruglið og undir Houllier. Þess vegna hefur Baros eflaust lúmskt gaman af því að sjá hversu eftirsóttur hann er.

    Og ég held reyndar að Benitez hafi sagt alla réttu hlutina. Hann hefur aldrei talað um Owen og Cisse, heldur alltaf Owen, Cisse og Baros. Þeir eru vonandi allir jafnir í hans augum.

Babbbel farinn til Stuttgart

Danny Murphy um æfingar hjá Benitez