Þetta hefur verið tíðindaminnsti júlímánuður sem ég man eftir. Allavega hvað varðar Liverpool og leikmannakaup. En hvað merkir öll þessi þögn?
Ég veit nefnilega ekki alveg hvort ég á að vera glaður yfir þögninni eða stressaður. Þýðir hún að allt sé með felldu hjá Liverpool, Benítez telji sig vera með nógu góðan hóp nú þegar eða jafnvel að þegar sé búið að semja um kaup á einum eða tveimur nýjum leikmönnum og þeir bíði bara eftir réttum tíma til að láta okkur vita? Ég veit það ekki. Eftir stóru orðin í vor væri það mjög skrýtið ef Liverpool myndu bara kaupa Djibril Cissé í sumar, sérstaklega í ljósi þess að Steven Gerrard gerði öllum það ljóst að það þyrfti að styrkja liðið í sumar ef hann ætti að vera kyrr.
Hann ákvað að vera kyrr. Sem hlýtur að þýða að einn eða tveir leikmenn, í það minnsta, hljóta að vera á leiðinni.
Annars hef ég takmarkaðar áhyggjur af þessu. Með nýjum þjálfara koma nýjar áherslur og nýtt líf fyrir eitthvað af þessum leikmönnum okkar. Kannski verður Kewell týndur í leikskipulagi Benítez? Kannski veldur Sami Hyypiä vonbrigðum á næstu leiktíð? Kannski meiðist Gerrard í öðrum leik og verður frá í hálft ár? Kannski blómstra Diouf, Biscan og Vignal hjá Benítez? Maður veit ekkert hvað gerist, sem gerir þetta einmitt svo spennandi.
Að vissu leyti samt finnst mér þögn Benítez vera mjög góð tilbreyting. Hann er ekkert að henda fram stóru orðunum heldur mun eflaust bara láta verkin tala, annað en José Mourinho sem getur ekki hætt að tala um allt og alla, við allt og alla. Eftir öll þau stóru orð sem hann hefur sjálfur látið falla um að hann sé “sérstakur þjálfari” og hann muni fara alla leið með liðið og allt það þá verður pressan fáránleg fyrir mótið.
Og hann þarf að byrja gegn ManU – ekki besta liðið til að spila gegn í sínum fyrsta leik í deildinni. Ef hann tapar þeim leik – sem hann má alls ekki við – þá verður áhugavert að fylgjast með því hversu fljótt breska pressan snýst gegn honum. The higher they come, the harder they fall…
Við, á hinn bóginn, öðlumst eitt með þögninni: þolinmæði. Jújú, auðvitað langar mann að sjá Liverpool rústa Tottenham í fyrsta leik og vinna titilinn strax í vor. En það eru samt frekar litlar líkur á titli á fyrsta tímabili. Benítez mun þurfa tíma til að byggja upp sitt lið, eins og hann vill hafa það, og með þögninni er hann einfaldlega að vinna tíma. Fæst orð bera minnsta ábyrgð.
Ég a líka erfitt með að skilja þetta, sérstaklega útaf þessu með Gerrard. Honum hlýtur að hafa verið sagt að það myndu koma nýjir leikmenn, annars hefði hann farið.
Við þurfum ennþá MIÐJUMANN með Gerrard. Hamann mun ekki læra að hlaupa, þrátt fyrir að það komi nýr þjálfari.
Ef heldur áfram sem horfir, þá gætum við verið að horfá á nákvæmlega sama byrjunarlið og í fyrra nema að Baros/Cisse kemur inn fyrir Heskey. Það er scary tilhugsun. :confused: