Metnaðarleysi Skjás Eins

s1.gifEnski boltinn á Skjá Einum var umfjöllunarefni í Kastljósþætti í dag. Þar mættust Hörður Magnússon, íþróttafréttamaður á Sýn og Snorri Már Skúlason, verkefnisstjóri enska boltans á Skjá Einum. Hægt er að [nálgast upptöku af þættinum á heimasíðu RÚV](http://www.ruv.is/main/view.jsp?branch=2576969).

Tilefni þáttarins var grein, sem Hörður skrifaði í Moggann. Þar gagnrýndi hann harðlega þá ákvörðun Skjás Eins að sýna enska boltann án íslenskra þula. Hörður sagði það vera lögbrot og auk þess metnaðarlaust hjá Skjá Einum að hafa ekki íslenska þuli.

Ég viðurkenni það fúslega að ég hef gaman af því að fylgjast með ensku knattspyrnunni á Sky. Ensku þulirnir eru á leiknum, þeir eru vanalega tveir, og kunnátta þeirra á leiknum er frábær. Einstaka skipti, sérstaklega þegar einn ákveðinn þulur á Sýn var að lýsa Liverpool leikjum, þá fór ég útúr húsi bara til þess að sleppa við að hlusta á íslenska þuli á leikjum í enska boltanum.

Hins vegar verð ég að segja að það, sem Skjár Einn er að gera, er skandall.

Þrátt fyrir að krakkinn hans Snorra Más Skúlasonar nenni ekki að horfa á heilan fótboltaleik, þá er fullt af krökkum, sem horfa á enska boltann. Þrátt fyrir að krakkar spili tölvuleiki, þá er enskukunnátta 8-9 ára krakka *mjög takmörkuð*. Líkurnar á því að krakkar geti fylgst með enska boltanum minnka því gríðarlega. Það er mun erfiðara að halda áhuga uppi þegar fólk skilur ekki þulina og leikskilningur hjá krökkum minnkar til muna þegar það hefur ekki hugmynd hvað er að gerast inná vellinum.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að þeir, sem fara á Players og líka staði vilja frekar sjá enska þuli. Þeir eru líka hávær hópur. Kannski eru þeir í meirihluta, en það réttlætir ekki það að hafa leikina á ensku. Þrátt fyrir að Snorri Már fái bréf frá þessum hópi, þá gerir það samt ekki afstöðu Skjás Eins betri.

Auðvitað eru líkur á því að þetta sé einfaldlega klúður hjá Skjás Eins liðum. Þeir ætluðu í upphafi að koma stoðum undir áskriftarstöðina Skjá 2 með því að ná enska boltanum. Víst sú stöð hrundi, þá koma þeir núna einsog einhverjar hetjur og segjast vera að “gefa okkur enska boltann”. Það er náttúrulega bull. Tími minn er mikilvægur og sá tími, sem ég ákveð að horfa á auglýsingar í hálfleik á enska boltanum, er mikilvægur fyrir Skjá Einn.

Það sem Snorri gleymir að minnast á er að náttúrulega snýst þetta um að spara peninga. Ensku þulirnir eru ekki vegna þess að það séu svo margir, sem vilji fá þá (ef S1 menn grunaði það, þá myndu þeir gera könnun á því hvort fólk vilji enska þuli, áður en ákvörðun var tekin). Ástæðan er sú að Skjár Einn gat ekki boðið uppá enska boltann í lokaðri dagskrá og því ætla þeir að spara peninga með því að sleppa því að lýsa leikjunum á íslensku. Þessi tugga um að allir vilji enska þuli, er eingöngu til að láta sparnaðinn líta vel út.

Það er svosem ágætt að enski boltinn sé í opinni dagskrá í ár, en svona mun það ekki vera áfram, til þess getur Skjár Einn aldrei selt nógu margar auglýsingar. Þetta verður líka til þess að við fótboltafíklar fáum meira af boltanum, því Sýn mun sýna frá ítalska og fjölga leikjum í spænsku deildinni og Meistaradeildinni.

Sýn hefur sinnt enska boltanum og Meistaradeildinni frábærlega, þannig að það er skiljanlegt að liðsmenn þeirra séu sárir og svekktir. Hins vegar er megininntak gagnrýni þeirra mjög sanngjarnt. Hörður einblýndi mikið á að Skjár Einn væri að brjóta útvarpsréttarlög. Mér finnst það svo sem ekki vera merkilegasta mál í heimi.

Aðalmálið er algjört metnaðarleysi Skjás Eins, sem veldur því að hluti þjóðarinnar, sem vill fylgjast með enska boltanum, getur ekki gert það vegna takmarðar tungumálakunnáttu. Skjár Einn gerir þetta til að spara peninga, ekki vegna þess að fólk vill þuli, sem tala útlensku. Ég efast um að það sé annað land í heiminum þar sem vinsælasta sjónvarpsíþróttin er send út á öðru tungumáli en máli heimamanna.

12 Comments

  1. Ég sé ekki að það sé einhver rök að það megi (eigi) ekki hafa enska þuli á skjá einum vegna þess að þeir eru bara að gera það til þess að spara penge. Síðan munu ensku þulirnir aðallega vera á leikjum sem eru ekki í beinni og þá er aðal markhópurinn (vegna þess að leikurinn verður ekki á primetime), jú þeir sem hafa mestan áhugan á enska boltanum og eru full færir um að skilja enskuna.
    Það gefur hreinlega enska boltanum nýja vídd að geta verið upp í sófa að hlusta á ensku þulina tala að einhverju viti í staðinn fyrir að þurfa alltaf að lækka í tækjunum í hvert skipti sem Höddi ákveður að öskra af almætti þegar boltanum er spyrnt í innkast.
    Kv,

  2. Tveir punktar, Einar.

    Í fyrsta lagi: Það sem Snorra Má ljáðist að segja í þessum þætti, og ég beið alltaf eftir að hann segði því það er vert að gefa því gaum … er að Skjár1 munu hafa íslenskar lýsingar á stórleikjunum og helgarleikjunum. Þannig að við erum í rauninni bara að tala um leiki eins og t.d. Middlesbrough – Bolton á þriðjudegi og slíka leiki, sem teljast ekki “stórleikir”, sem verða með ensku þulunum. Mér fannst skrýtið að Snorri Már skyldi ekki koma þessu að, þar sem það hefði skýrt mál Skjás1s-manna verulega.

    Í öðru lagi: Einar, þú segir að með því að hafa lýsinguna á ensku sé ákveðinn hluti landsmanna, sem hefur takmarkaða enskukunnáttu, að missa af mikilvægri innsýn í leikinn þar sem þá vantar þulinn. Ertu þar með að gefa í skyn að Gaupi hafi veitt þér einhverja innsýn í enska boltann undanfarin ár???

    Nei, bara að pæla svona… stundum er betra að hafa bara þögn heldur en vitleysing og Gaupi, með fullri virðingu fyrir þeim sjónvarpsmanni, á ekki heima í knattspyrnulýsingum frekar en ég á heima í Tókýó. Og þeir eru fleiri á SÝN/Stöð2 sem hafa farið í taugarnar á manni í boltanum, þótt ég myndi telja Hödda og Arnar Björns til undantekninga.

    Þannig að ég tel þetta ekki vera svo mikið “metnaðarleysi” hjá Skjá Einum. Vissulega eru þeir að spara með þessu … en hvar er skaðinn í þessu máli? Af þeim sex leikjum sem þeir ætla að sýna á viku verða 1-2 leikir á ensku … er það virkilega svo mikill skandall? Ef það er það sem þarf til að losna við Gaupa… :rolleyes:

  3. Bíddu, pointið hjá Snorra var að þeir ætluðu að hafa þetta á ensku af því að allir vildu þetta. Eeeen, svo ætla þeir að hafa aðal-leikina á íslensku. Hver er lógíkin í því?

    Þótt að mönnum finnist Gaupi leiðinlegur, þá er það samt engin réttlæting á að hafa enska þuli. Ég veit að þeir gefa kannski ekki mikla innsýn inní leikinn, en það eru meiri líkur á að krakki læri leikinn þegar Gaupi talar um rangstöðu, aukaspyrnur og annað, en þegar enski lýsandinn talar um offside, free kick og slíkt.

    Ég sem fótboltaaðdáandi í 20 ár fæ kannski ekki mikla innsýn, en krakkar sem eru að læra að meta fótboltann, geta lært af því að hlusta á innlendu þulina.

    Menn, sem styðja ensku hugmyndina, eru fyrst og fremst að dæma þetta útaf því að þeim finnst einhverjir gaurar á Sýn leiðinlegir. Erum við semsagt bara að viðurkenna að þessi auma þjóð geti ekki haft almennilega menn til að lýsa leikjum í enska boltanum? Væri ekki réttara að reyna að bæta lýsingarnar í stað þess að bara gefast upp og hafa enska talið?

    Mér finnst til dæmis margar lýsingar á Sýn (sérstaklega þar sem tveir menn eru, til dæmis þegar Gaui Þórðar var) jafnast fullkomlega á við ensku lýsingarnar. Jafnvel þótt einstaka menn séu pirrandi, þá er ekki rétt að bara pakka saman og hafa þetta á ensku.

  4. Mér finst Skjár einn bara vera gera frábæra hluti! ætla sýna 5-6 leiki á viku!!! er það eithvað sem við höfum á móti?? NEI…og svo er það ek þulirnir sem skipta máli hjá krökkum það er fótboltaleikurinn! hver helduru að sé að hlusta á bullið í Gaupa eða Herði Magg? þeir segja bara eintóma þvælu og vita ek neitt í sinn haus…þekkja ek einu sinni kallana! Menn eru bara sárir af því að nú á engin eftir að vera áskrifandi af sýn!! allavena mun það minnka til muna! en takk fyrir kaffið og bless!!! 😡

  5. Bjarni fel var nú góður allavega er það ekki í lögum að það sé útlensk túngumál verði að hafa texta bara að spyrja

  6. Ég hef ávallt verið mjög svo svipaður í skoðunum og þú hingað til, Einar Örn, en núna fórstu algjörlega með það! :biggrin2:

    Málið er að þetta bréf frá Herði Magnússyni og þessi ólga sem er hjá SÝN varðandi enska boltann er bara svekkelsi yfir því að þeir misstu boltann! Þeir höfðu boltann og misstu hann eins og gerist í viðskiptatengdum heiminum í dag. Ef þú borgar minna en keppnisaðilinn þá bara ertu undir í baráttunni. Mér finnst að Hörður Magnússon ætti að steinhalda kjafti og leyfa S1 að byrja veturinn áður en hann fer að gera sig að fífli svona opinberlega.

    Ef það sparar S1 pening að geta haft professional þuli að lýsa leikjunum ásamt virkilega vönduðum pakka sem SKY SPORT er að senda frá sér, þá fagna ég því innilega. Guðjón Guðmundsson og hans félagar á SÝN er ekki hægt að setja á sama stall og þessa professional þuli þarna ytra sem sérhæfa sig í enska boltanum og vita allt sem þarf að vita um boltann. Því ekki að fá þulina beint í gegnum sjónvarpið en að hlusta á þá vera að tönglast á staðreyndum sem þeir fá í headsettin sín og þýða jafnóðum handa áhorfendum. Á meðan þeir eru ekki að þýða viskuna sem ensku þulirnir eru að mata ofan í þá eru þeir að tala um allt á milli himins og jarðar sem viðkemur engan veginn fótbolta.

    Þetta snýst ekki um hvort ungur sonur hans Snorra Más á S1, heldur snýst þetta um að koma efninu frá sér á sem besta hátt til að gera þeim sem horfa á þeirra sjónvarpsstöð betur undir höfði. Það að fá enska boltann FRÍTT næstu 3 árin (sjö níu þrettán) eftir að S1 yfirborgaði SÝN er náttúrulega FRÁBÆRT! Ég er svo yfir mig glaður með þessi mál og sérstaklega sáttur við að fá Snorra Már sem yfirmann á enska boltanum.

    Ef það sparar S1 að sleppa því að vera með einhver “sirkusdýr” í stúdíói þiggjandi laun fyrir að eyðaleggja leiki úr enska boltanum hvern á fætur öðrum og í staðinn hafa enska þuli, þá finnst mér það mjög góð þróun. Fótbolta þarf ekki að þýða þar sem ég stórefast um að ungir krakkar sem fylgjast með enska boltanum og þeim íslenska hafa ekki mikið verið að hlusta á þessa vitleysinga vera að lýsa leikjunum. Hver er munurinn á því að heyra enskan þul segja: “MICHAEL OOWEN SCOOOOOORES” eða Hörð Magnússon öskra eins og fífl: “MÆKEL ÓVEN SSSSKOOOOOOOOOOOOORRRAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAR”???????? Í fyrsta lagi geta krakkar meira í ensku en þau láta af og svo í öðru lagi er þetta bara bölvaður pirringur og svekkelsi hjá SÝN-ar mönnum að vera að ásaka S1 um eitthvað óhreint í pokahorninu. Við fáum miklu meiri bolta næsta vetur en nokkurn tímann áður og því ættu þeir sem eru með eitthvað í hausnum að fagna því frekar en að mótmæla því.

    PS: Svo er þetta fín leið til að fá fjölskylduna saman við skjáinn og “þýða” það sem þulirnir eru að segja ofan í litlu krakkana sem hafa áhuga á að vita það. Jafnvel gætuði hér á Liverpool-blogg komið með smá orðabók handa yngri kynslóðinni um helstu orðin í fótboltanum svo þeir skilja kannski….Tackle, goal, shoot, corner, throw in…etc. :biggrin:

  7. Já, eitt enn. Krakkar eiga ekki að læra fótboltann heima í stofu. Leikskilningur kemur ekki á því að horfa á leikina heima í stofu og sérstaklega ekki með Gaupa eða Hörð Bjössa Bolluson lýsandi leikjunum. Ef það hjálpar eitthvað þá getiði skoðað á heimasíðunni minni en þar hef ég gert þessu máli fín skil og meira að segja bætt við þýðingu á fáeinum enskum til að gera þetta léttbærara fyrir yngri kynslóðina. :laugh:

  8. Ég er sammála þér í þessu máli Einar. Mér finnst það skít að S1 skuli ekki ætla að gera þessu almennileg skil á íslensku.

    Ég skal vel viðurkenna að það eru ákveðnir lýsendur hjá Sýn sem fara hrikalega í taugarnar á mér og eiga ekkert erindi með að vera lýsa fótboltaleikjum. Það eru hins vegar engin rök í þessu máli.

    Raunar hefði ég helst viljað fá Bjarna Fel aftur, (og Einar Bolla í NBA-lýsingarnar) en það er náttúrulega bara mín nostalgía.

    Ég á þó von á að á næsta ári þegar S1 fer með þetta í áskrift verði þessu breytt. Það verður eitt sölugimmikið hjá þeim.

  9. Bwhahahahaha!!! Var að hlusta á kastljósþáttinn varðandi þetta málefni. Þvílíkt fífl er Hörður Bjössa Bolluson! Ég meina vá!!! Maðurinn gat varla útskýrt það afhverju hann sat þarna í stólnum! Ég vona svo sannarlega að S1 haldi áfram sinni stefnu og færi fleiri leiki í enska þuli! Hörður Bjössa Bolluson tapsári!

  10. Hey, slakið á þessu dissi á Hörð.

    Það hlýtur að vera hægt að ræða þessi mál án þess að fara útí einhverja vitleysu.

    Vissulega var Hörður ekki nógu góður í Kastljós-þættinum, en það er ekki sanngjarnt að hann brilleri gegn Snorra Má, sem er öllu vanur í svona umræðuþáttum. Hörður var stressaður og hann er greinilega fúll yfir öllu þessu.

    Það er bara eitt, sem ég vil bæta inní þetta. Það er að við megum ekki afskrifa íslenskt tal með enska boltanum bara af því að sumir fíli ekki þulina hjá Sýn. Það eru ekki rök með því að hafa allt á ensku, að sumum finnist íslensku þulirnir svona leiðinlegir. Þá ætti Skjár Einn frekar að leggja metnað sinn í að vera með betri þuli.

    Skjár Einn mun standa frammi fyrir því næsta vetur að hafa boltann í áskrift (trúið mér!) og þá mun maður spyrja sig af hverju maður ætti að velja þá stöð frekar en Sky Sports á gervihnetti. Hver verður munurinn, ef Skjár Einn endurvarpar bara Sky efninu? Einhvern veginn verður S1 að aðskilja sig á næsta keppnistímabili.

  11. Ókey, bara að benda á að til að ná úsendingum Sky þá þarftu að koma þér upp gervihnattadisk með tilheyrandi afruglara, og í því felst þó nokkur kostnaður, og að ef að þú býrð td. í fjölbýlishúsi eða álíka þá er ekki hlaupið að slíkum framkvæmdum. Þess vegna ættir þú frekar að horfa á útsendingu Skjás eins ! Svo verð ég nú aðeins að commenta á þetta væl Sýnar manna um að Skjár einn náist verr um landið en Sýn gerir, jú það er satt í augnablikinu en munurinn er lítill, en það mun breytast. Svo eru Sýnar menn og aðrir sem eru að ræða þessi mál líka búnir að gleyma hvernig hlutirnir voru þegar að Sýn náði Enska boltanum frá Ruv, hversu mikil áhorfsskerðing varð þá ? Gríðarleg, Sýn var þá með mjög lélega dreifinum út á land, td. var Suðurland, það er austan við Selfoss lengi vel út úr myndinni, nema ef að frá er talin laugardagsleikurinn á Stöð 2 sem náðist þar, og svona var þetta lengi, ég tala að eigin reynslu.
    Þá þótti Sýnar mönnum þetta “leiðinlegt” en lítið við því að gera, en núna er allt annað hljóð í þeim.
    Og að lokum langar mig að spyrja ykkur hvort að þið hafið aldrei tekið eftir því í útsendingum Sýnar á boltanum, að það hafa orðið einhver tæknileg mistök þannig að það heyrðist bæði í ensku þulunum og svo þeim íslensku ? Ég hef tekið eftir þessu nokkrum sinnum á undanförnum vetrum og þá sló mig að íslenski þulurinn var að stórum hluta bara að apa eftir þeim enska, þá er ég að meina þegar að þeir voru að koma með svona auka comment, eins og hvar þessi og hinn leikmaðurinn var áður og svoleiðis. Frekar fyndið stuff !
    Það verður ekki tekið að Sýn að þeir eru búnir að standa sig frábærlega með boltann, en ég er viss um að Skjár einn hefur metnað til að gera enn betur, sjáum bara til og þá finnst mér engu máli skipta hvort eru enskir þulir eða íslenskir, en það er mín skoðun. 🙂

  12. Já það er ekki bara 8-9 ára börn sem kunna ekki ensku. Afi minn horfir alveg rosalega mikið á fótbolta (orðinn 89 ára). Held að hann horfi á alla leiki sem eru sýndir úr enska boltanum… hann kann ekkert í ensku. Efast að hann sé einn um það á sínum aldri.

“Sami Hyypia is on our list” (upfært)

Coloccini í viðræðum