Einar skrifaði færslu um þetta mál fyrir tæpri viku síðan, en mér fallast bara hendur þegar ég hugsa um þetta mál og verð að fá að tjá mig um þetta mál, eða öllu heldur þennan leikmann. Þannig að ég spyr, einu sinni enn: AF HVERJU hata allir El-Hadji Diouf?
Ég bara hreinlega skil þetta ekki. Það eina sem mér dettur í hug sem útskýrir hversu mjög Benítez liggur á að losna við hann er að hann hafi gert eða sagt eitthvað á bak við tjöldin sem hafi farið rosalega í skapið á stjórnarmönnum Liverpool og/eða Houllier, og því hafi þeir gert Rafa ljóst þegar hann tók við liðinu í sumar að Dioufy ætti sér ekki framtíð á Anfield.
Og nei, ekki tala við mig um launin. Hann er kannski á háum launum en það eru margir fleiri hjá liðinu … þá mætti frekar losna við Diao og Biscan, sem hafa lagt miklu minna af mörkum til liðsins undanfarin ár, og minnka þannig launakostnaðinn um svipað mikið og ef Dioufy færi. Þannig að ég hef enga trú á að launin séu málið.
Það er samt eitthvað við þetta sem maður skilur ekki. Hugsið aftur í tímann – tvöfaldur knattspyrnumaður Afríku, brilleraði á HM 2002 og í Afríkukeppninni sama ár. Hann skoraði tvö mörk í fyrsta heimaleiknum sínum fyrir Liverpool, þá sem framherji, en lenti síðan í því að skora ekkert í fjóra-fimm leiki. Eftir það kom Owen inn úr meiðslum og Houllier ákvað að færa Dioufy út á kantinn. Þar hefur hann mátt dúsa síðan og þrátt fyrir að það sé ekki hans náttúrulega staða hefur hann aðlagast ágætlega.
Man enginn eftir Dioufy fyrstu tvo mánuði síðasta tímabils? Á kosningu LiverpoolFC.tv var hann stigahæstur eftir fyrstu sjö-átta leiki Liverpool og hafði verið valinn maður leiksins í fjórum eða fimm af þeim leikjum. Hann var óstöðvandi. Man enginn hvernig hann jarðaði Blackburn í deildarbikarnum? Man enginn hversu mjög hann pyntaði J’Lloyd Samuel hjá Aston Villa í mars?
Helstu lestir Dioufy sem kantmanns hafa verið þeir að hann skorar ekki nóg, þarf að bæta fyrirgjafirnar og er enn of óstöðugur. Hann var samt næst-stoðsendingahæsti leikmaður liðsins í fyrra á eftir Harry Kewell, þrátt fyrir að vera slakur í fyrirgjöfum. Hann er fyrirtaks skallamaður og það getur enginn með góðri samvisku sagt að hann vinni ekki vel fyrir liðið!
Þannig að ég spyr: Ef Biscan, Diao og Riise geta virst svona líka endurnærðir og endurfæddir undir stjórn Benítez, af hverju er það þá svona óhugsandi að Rafa geti hjálpað Dioufy að stórbæta leik sinn sem kantmaður?
Spáið aðeins í þessu: Anthony Le Tallec er að fara frá liðinu á láni, Vladimir Smicer er meiddur og Harry Kewell er of meiðslagjarn til að við getum treyst á hann einan á vinstri vængnum allt tímabilið. Jafnvel með alla leikmenn heila vantar okkur sárlega hægri kantmann og ef Kewell meiðist eigum við engan góðan staðgengil á vinstri kantinn.
Af hverju er það þá svona gjörsamlega útilokað að Dioufy fái annan séns hjá þjálfara sem er reiðubúinn að gefa Biscan og Diao séns númer tíu á að standa sig?
Síðustu fréttir af Dioufy komu í dag: Hann segist ekki fara frá Liverpool til neins liðs fyrr en hann fær að ræða við Rafael Benítez um þessi málefni. Þannig að þeir hafa greinilega ekki ræðst nógu vel við hingað til. Mér finnst líklegast, og nánast augljóst, að Benítez hafi verið gert ljóst að menn vildu helst losna við Dioufy og því hafi hann bara byrjað á að skila því til kauða þegar hann mætti til æfinga í júlíbyrjun.
Af hverju má ekki gefa Dioufy séns þangað til í janúar til að sýna að hann hafi þann metnað sem þarf til að vinna sig upp í áliti hjá nýjum þjálfara? Og ég meina, það er ekki eins og Benítez sé að fara að kaupa fleiri menn miðað við fregnir frá Bandaríkjunum.
Ég bara skil þetta ekki. Af hverju hafa menn svona mikið á móti Dioufy? Ég þekki hann ekkert persónulega, kannski gerði hann eitthvað af sér á bak við tjöldin og þá myndi ég skilja það. En það er ekki verið að selja hann af því að hann er lélegasti leikmaðurinn í hópnum, og því síður er verið að selja hann af því að hann hrækti á Celtic-aðdáanda fyrir einuoghálfuárisíðan! Hafið það á hreinu.
Af hverju þá? Er kvóti á ljóshærða svertingja í enskum liðum eða? Ég bara skil þetta ekki. Getur einhver útskýrt þetta fyrir mér? Af hverju er betra að hafa engan hægri-kantmann en að hafa Dioufy þar?
Já þetta hljómar allt skiljanlegt og þú ert greinilega mjög fróður um þessi mál en það er eitt í þessu sem við getum eiginlega sagt til um. Það er hvað er í gangi á bak við tjöldin, kannski er Diouf mjög slæmur fyrir liðið. Stundum eru toppleikmenn alltof uppteknir af sjálfum sér og gleyma því sem mestu skiptir, liðinu! Ef rétt reynist að Diouf sé að mæta seint á æfingar og sé með stjörnustæla þá er þessi maður ekki í myndinni hjá LIVERPOOL, svo einfalt er það. Eins og R&B segir að þá hafi hann ekkert að gera við menn sem vilja ekki vinna fyrir liðið!
Áfram Liverpool og takk fyrir flotta síðu!
Slater, þetta var nakvæmlega það sem Kristján var að gefa í skyn, það er að það væri eitthvað að gerast bakvið tjöldin, sem hafi sannfært menn um að Diouf þyrfti að fara.
Það er í raun það eina sem skýrir þetta, því Benitez er að gefa mönnum einsog Diao og Biscan tækifæri, meðan Diouf kemst ekki einu sinni í hópinn.
Það er ekki fræðilegur möguleiki að þetta komi frá Benitez, því Diouf vill spila áfram og það er engin leið til þess að hann hafi virkað svona hroðalega illa á Benitez í fyrstu vikunni. Benitez hlýtur að hafa verið tjáð af öðrum að Diouf þyrfti að fara. Það er eina rökrétta skýringin.
Við skulum vona að þessi fundur milli Diouf og Benitez verði gagnlegur og að Diouf fái annað tækifæri til að sýna magnaða hæfileika sína. Ég neita að trúa öðru en að Benitez takist að ná þeim fram umtalsvert betur en Houllier.