Helgarfríið…

Jæja, það er Verslunarmannahelgi í fullum gangi hér heima (með tilheyrandi leiðindaveðri) og í raun ekki mikið um fréttir að utan. Liðið er bara að æfa daglega í USA og á ekki leik fyrr en laust fyrir miðnætti á þriðjudagskvöld, eða eftir rúma tvo sólarhringa, gegn AS Roma frá Ítalíu.

Þó rak ég augun í tvennt sem vert væri að benda á. Í fyrsta lagi er það grein á Liverpoolfc.tv um Rafael Benítez og það sem hann hefur að segja um ýmis málefni liðinnar viku. Sérstaklega fannst mér gaman að þessum ummælum þjálfarans:

>It would be very easy to say, ‘We’ll be the best’. We are talking about a gap of 30 points. If we work hard and effectively, and the players want – really want – to win, then I think we can do it.

Nákvæmlega. Menn skulu ekki gleyma sér í æsingi yfir því að nýr þjálfari sé kominn. Við treystum honum til að bæta liðið, síðan verður bara að koma í ljós hversu mikil framför verður. En það mun ekki gerast á einni viku eða í nokkrum æfingaleikjum. Ég persónulega mun ekki dæma Benítez af gjörðum sínum fyrr en í fyrsta lagi eftir hálft tímabil eða svo. Finnst bara fásinna að ætla að panikka yfir því EF það gerist að við töpum í fyrstu umferð eða eitthvað álíka. Framförin tekur tíma.

Þá er hægt að dunda sér yfir þessa löngu helgi við að skoða myndasafn frá æfingum Liverpool í Bandaríkjunum. Þetta er frábært myndasafn, alls 111 myndir sem sýna ýmislegt sniðugt. Meðal þess sem menn gætu tekið eftir eru: rauðu skórnir hans Steven Gerrard, Josemi að æfa með liðinu, hversu stór Chris Kirkland er og svona mætti lengi telja. Þarna eru allir leikmennirnir á mörgum myndum og gaman að sjá svona ítarlega myndasyrpu frá æfingum liðsins.

Jæja, fleiri fréttir um leið og þær berast. En það verður eflaust eitthvað lítið um fréttir fram að leiknum við Roma á þriðjudag … nema við förum að heyra eitthvað af kaupum á miðjumanni. Sjáum til.

Benítez viðurkennir hugsanleg kaup

Hægri kantmann, takk!