Það kom í hlut fyrirliðans sjálfs, Steven Gerrard að gefa Rafa Benítez þjálfara frábæra byrjun á alvöruleikjum sínum sem stjóri Liverpool. Liverpool báru sigurorð af Grazer AK á Arnold Schwartzenegger Stadium í Austurríki í kvöld með tveimur mörkum gegn engu.
0-2. Samt skoraði Stevie G þrennu. Annað markið hans var, af óskiljanlegum ástæðum, dæmt ólöglegt þar sem línuvörðurinn dæmdi hættuspark á Djibril Cissé. Cissé reyndi hælspyrnu með stæl en bakvörðurinn tók sénsinn af honum og náði óhindruðum og hreinum skalla út úr vítateignum. Þar mætti Gerrard boltanum, hitti hann á lofti og smellti honum í hornið. Óverjandi. Ógilt. Fáránlegt.
Annars skoraði Stevie ekkert nema glæsimörk í þessum leik. Fyrsta markið var fyrir utan teig, þrumuskot beint í sammann. Þriðja (annað, ókei…) markið hans var síðan viðstöðulaust bylmingsskot í fjærhornið eftir góðan undirbúning frá Kewell og Cissé.
Kewell lagði upp bæði mörkin í þessum leik. Cissé var frískur í framlínunni og ef það hefði ekki verið óþarflega barið á honum hefði hann eflaust valdið meiri skaða en raunin varð. Hann þarf engu að síður að venjast svona bellibrögðum; ef honum finnst austurrískir varnarmenn taka hart á sér þá verður erfitt fyrir hann að fóta sig í ensku deildinni. Þar kalla menn ekki allt ömmu sína.
En ég hef engar áhyggjur af Cissé. Né Baros. Og eftir leikinn í kvöld hef ég ekki lengur áhyggjur af Michael Owen, sem jú allt hefur snúist um síðustu tvo sólarhringana!
Michael Owen kom nákvæmlega ekkert við sögu í þessum leik. Ekki neitt. En engu að síður einokaði hann fyrirsagnirnar eftir leikinn. Benítez neitaði að tjá sig um mál Owens og Real Madríd eftir leikinn, en það fór ekkert á milli mála hvað liggur í loftinu. Djibril Cissé og Milan Baros byrjuðu þennan leik sem framherjapar Liverpool. Og því er nokkuð ljóst að Michael Owen er á leiðinni til Real Madríd áður en þessari viku lýkur – nema að honum snúist hugur á elleftu stundu líkt og Gerrard gerði fyrr í sumar.
Það er ekkert öruggt fyrr en búið er að skrifa undir pappírana … en miðað við að hann spilaði ekkert í kvöld er ljóst að þetta er, í raun og veru, virkilega, nánast örugglega, því miður, að gerast. Michael Owen er að fara frá Liverpool og til Real Madríd.
En aftur að leiknum. Það munu verða nógu mikil tækifæri til að fjalla um Owen-málið á næstu dögum. Það var margt gott við þennan leik í kvöld. Fyrir það fyrsta, þá sigruðum við örugglega og gerðum nær út um þetta einvígi … og það án verulegrar áreynslu.
Maður hafði það á tilfinningunni að liðið væri að spara sig, með leikinn á laugardaginn í huga. Liverpool-liðið í kvöld gerði nóg til að vinna leikinn, og það var líka allt og sumt. Um leið og annað markið var komið var augljóst að liðið setti bara í hlutlausa gírinn og leyfði mínútunum að fjara út. Það þurfti ekki meira til, enda á þessu stigi tímabilsins mjög skynsamlegt að leikmenn spari sig á síðasta kortérinu frekar en að fá óþarfa spjöld eða meiðsli, í þeim eina tilgangi að reyna að skora þriðja markið. Tvö mörk í kvöld voru mikið meira en nóg.
Það spilaði enginn illa í liðinu í kvöld svo sem. Baros tapaði boltanum nokkrum sinnum og Dudek missti eina fyrirgjöf úr höndum sér, sem átti að vera öruggt grip. Þá leyfði Josemi vinstri kantmanni Grazer AK að senda boltann fyrir einu sinni í öllum leiknum. En það var líka eina fyrirgjöf þeirra.
Grazer-liðið átti tvö hálffæri í þessum leik. Og aldrei fleiri en fimm snertingar innan liðs síns í einu. Því tók ég eftir. Markvörður þeirra lét varnarmann hafa boltann og hann gaf hann fram á völlinn. Fjórum-fimm sekúndum síðar var Liverpool-liðið búið að vinna boltann (oftar en ekki voru það Hamann eða Riise sem voru iðnir við að hirða boltann af mótherjum) og komið aftur í sókn.
Þetta er mesti munurinn í vörninni, að mínu mati. Í stað þess að vera með 11 menn fyrir aftan boltann og verjast eins og einhver ósigrandi múr, þá spilar Benítez með svæðisvörn og lokar öllum mögulegum sóknarleiðum fyrir andstæðingana. Síðan pressar liðið andstæðingana hægt og bítandi niður að eigin vítateig, sem endar með því óhjákvæmilega: lið reyna langan bolta fram á völlinn í örvæntingu. Og þar tekur Sami Hyypiä alla bolta sem koma nálægt vítateig Liverpool.
Frekar einfalt, ha? Það virðist kannski einfalt, en að baki svona góðri vörn liggur þrotlaus vinna á æfingasvæðinu. Og sú vinna er rétt að byrja, liðið á bara eftir að verða betra. Góðir tímar framundan, segi ég og skrifa.
Sóknarlega séð fannst mér liðið spila of hægt, allavega ef mið er tekið af leifturhröðum sóknarleiknum sem var uppi á teningnum í Ameríku-leikjunum. En það var af augljósri ástæðu: menn voru skíthræddir við að eitthvað stórslys myndi gerast í þessum leik. Menn vildu ekki taka neina sénsa, vildu ekki gefa andstæðingunum einn einasta séns á að skora þetta óvænta mark sem gæti orðið okkur að falli.
Og menn gáfu andstæðingunum líka aldrei þann séns. Aldrei. Þeir áttu bara aldrei möguleika … og það gegn Liverpool í hlutlausum gír. Eftir tvær vikur, úr því að við erum nánast öruggir áfram úr þessu einvígi, munu Grazer-menn mæta troðfullum Anfield-leikvangi og blússandi hröðum og grimmum sóknarbolta. Guð hjálpi þeim, það gerir það örugglega enginn annar!
Þá fannst mér ánægjulegt, í jafngóðu liði Liverpool í kvöld, að sjá Finnan spila mjög vel á hægri kantinum. Ég spáði þessu strax eftir Celtic-leikinn í haust og ég segi það hér og nú: Finnan er ekki á förum frá Liverpool. Ekki á meðan hann er eini leikmaðurinn sem getur talist hægri vængmaður. Með tilkomu Josemi héldu margir að Finnan væri búinn að vera hjá Liverpool. Ég segi hins vegar að með tilkomu Josemi hefur Finnan loks frelsi til að eigna sér kantstöðuna – að minnsta kosti þangað til Benítez kaupir alvöru kantmann. Og við gætum þurft að bíða allavega fram í janúar eftir þeim kaupum.
Annað sem var vert að nefna var það að af þeim þremur varamönnum sem komu inná í síðari hálfleik voru tveir þeirra ungir leikmenn frá Melwood-skólanum. Þeir Stephen Warnock og Darren Potter léku fyrstu alvöruleiki sína fyrir aðalliðið í kvöld – og það í Meistaradeildinni! Þetta er ómetanleg reynsla fyrir svona stráka og gaman að sjá að Benítez ætlar að opna leið Melwood-strákanna inn í aðalliðið á ný. Þeir fengu fáa sénsa undir stjórn Houllier en nú glittir í sólina á ný fyrir ungu strákana, og er það vel!
Maður leiksins: Steven Gerrard. Fyrirliðinn kláraði þetta bara og skoraði þrennu. Æðislega mikilvægur … og ég er alveg æðislega feginn að hann er enn að spila fyrir Liverpool!
Augnablik leiksins: Í upphafi, þegar liðin gengu út á völlinn og maður sá Baros og Cissé hlið við hlið. Skipt yfir á varamannabekkinn þar sem Owen sat sallarólegur. Það fór um mig hrollur … þetta var ógleymanlegt móment fyrir Liverpool-aðdáendur og ef Owen er að fara þá er ljóst að maður man ævilangt eftir augnablikinu sem manni varð það endanlega ljóst að hann væri á förum!
Úrskurður leiksins: Á heildina litið, örugg og hárbeitt frammistaða hjá liðinu í kvöld. Þeir gerðu nákvæmlega það sem þurfti og ekki tommu meira en það, enda mikilvægt að sleppa með alla menn heila og óþreytta úr þessum leik.
Jæja … það eru þrír og hálfur sólarhringur í fyrsta leik, á útivelli gegn Tottenham. Það mun þó margt vatn renna til sjávar á þessum þremur dögum. Ég geri ráð fyrir að við munum festa kaup á Xabi Alonso fyrir helgina, sem og selja Michael Owen til Real Madríd. Skrýtið að skrifa þetta, en það er bara staðreynd í dag að hann er 98% á leiðinni til Real.
En nóg um Owen í bili. Í kvöld unnu Liverpool ótrúlega mikilvægan (og ótrúlega áreynslulítinn) sigur í Forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Benítez byrjar vel, vonum bara að velgengni hans haldi áfram á laugardaginn! Bring on Tottenham!
**Viðbót (Einar Örn)**: Já, ég verð að vera sammála þér varðandi þetta flestallt. Hafði nákvæmlega sömu tilfinninguna, það er að leikmenn Liverpool hefðu aldrei virkilega tekið á því. Þeir gerðu það, sem þurfti að gera og það var nóg.
Baros hefði átt að skora 2 mörk og Gerrard hefði átt að skora þrennu. En þessu einvígi á núna að vera lokið. Ef að við gefum okkur að Owen fari, þá verða Baros og Cisse frábært framherjapar.
Hamann var sterkur, en lítið kom útúr honum fram á við. Langmesta hættan var hjá Kewell (sem var góður) og svo auðvitað Steven Gerrard. Ef einhver efaðist um það í sumar hversu mikilvægur Gerrard er fyrir þetta lið, þá minnti hann allsvakalega á sig í þessum leik.
Ég held líka að ef að við kaupum Alonso, þá muni Gerrard fá enn meira frelsi undir stjórn Benitez. Ef Gerrrard þarf ekki að hirða alla bolta í vörninni, þá getur hann einbeitt sér meira að sókninni og þá fáum við vonandi fullt af svona mörkum frá honum.
Josemi var sterkur í vörninni. Hann viriðist vera nokkuð sókndjarfur. Braut klaufalega á sér nokkrum sinnum, en það var ekki alvarlegt. Finnan var ágætur á hægri kantinum. Það vakti sérstaklega athygli mína hversu föstu leikatriðin hjá honum voru frábær.
En semsagt, fínn leikur. Maður leiksins án efa Steven Gerrard.
Mér fannst sérstaklega gaman að sjá að Abel Xavier er kominn aftur og blómstar í nýju hlutverki sínu sem sóknarmaður. Var þetta ekki annars Abel kallinn? :rolleyes: :biggrin:
Allavega mjög líkur Xavier:) Annars svíf ég á bleiku skýji þessa dagana og er að rifna úr bjartsýni!! RB er að að mér sýnist nýta mannskapinn mun betur eða allavega öðruvísi en GH. Menn eins og Biscan, Finnan og Baros loksins komnir með hlutverk! Það sem gaf mér gæsahúð í leiknum á móti GAK var að sjá staðsetninguna á öftustu línunni! RB sagði að hann myndi færa línuna 10-15metra framar og það varð raunin í gær. Hans handbrögð eru STRAX byrjuð að sjást og ég er vakna alla morgna með Sólheimabros á vör!!
Varðandi einstaka leikmenn þá fannst mér reyndar Cisse væla allt of mikið og í stað þess að standa upp og elta boltann þá lág hann og fórnaði höndum! Josemi var að mínu mati frábær, mjög grimmur og var oft hátt uppi eins og góðum hægribakk sæmir! Steven var náttúrulega í heimsklassa enda tilheyrir hann þeim flokki.
Heilsteypt lið og ég horfði svo stíft að ég þarf að kaupa mér nýjar linsur í dag!
YNWA!!