Nú eru aðeins tæpir 12 klukkutímar í fyrsta leik Liverpool FC í ensku Úrvalsdeildinni, tímabilið 2004/05. Leikurinn verður leikinn á White Hart Lane í Lundúnaborg um hádegisbilið á morgun og fannst mér ekki úr lagi að kíkja aðeins á hvað við megum eiga von á að sjá í þessum leik.
Nú, það er þó nokkuð sem þessi lið eiga sameiginlegt. Það fyrsta er það að bæði lið hafa valdið vonbrigðum undanfarin ár. Tottenham hafa þó verið í meiri lægð undanfarinn áratug en Liverpool, en það breytir engu. Bæði lið skarta nýjum knattspyrnustjórum frá meginlandi Evrópu og þó nokkrum leikmannabreytingum. Bæði lið munu spila nýjum leikmönnum í fyrsta skipti á morgun.
Hópurinn sem mun að öllum líkindum manna völlinn og bekkinn hjá Liverpool á morgun verður væntanlega þessi: Kirkland, Dudek … Josemi, Henchoz, Hyypiä, Carragher, Riise, Warnock … Kewell, Gerrard, Biscan, Hamann, Finnan … Baros, Cissé, Sinama-Pongolle.
Þetta eru sextán leikmenn. Darren Potter og Salif Diao spiluðu í Austurríki á þriðjudaginn og Djimi Traoré er að koma inn úr meiðslum, en ég sé engan þeirra koma sér inn í hópinn fyrir þá sem ég nefndi. Þetta er líka nokkuð jafn og góður hópur, 2 markverðir, 6 varnarmenn, 5 miðjumenn og 3 framherjar.
Hvað byrjunarliðið varðar geri ég ekki ráð fyrir miklum breytingum frá liðinu sem sigraði Grazer AK í Austurríki á þriðjudaginn. Liðið verður væntanlega eftirfarandi:
JOSEMI – CARRAGHER – HYYPIÄ – RIISE
FINNAN – GERRARD – BISCAN – KEWELL
BAROS – CISSÉ
Það eru tvær stöður í þessu liði sem, að mínu mati, eru í óvissu og verða alveg fram að leik í fyrramálið. Það er staða Igor Biscan á miðjunni. Mér fannst Hamann standa sig vel á þriðjudaginn en hann er ennþá of hægur fram á við, og miðað við orð Benítez og spilamennsku Igor Biscan í æfingaleikjunum geri ég ráð fyrir að hann komi inn í þennan leik.
Hin staðan er hægri kantstaðan. Steve Finnan lék vel þar í síðasta leik og er að mínu mati 99% öruggur með að halda þessari stöðu, a.m.k. í þessum leik eða þangað til Nunez/García/Alonso koma til okkar eftir helgina. Þó hef ég heyrt fólk tala um að Igor Biscan gæti komið inn á miðjuna og Gerrard verið færður út á hægri kantinn. Ólíklegt, en maður veit aldrei.
En hvað með lið Tottenham? Það hefur tekið talsverðum breytingum undanfarna mánuði, eins og okkar lið, og því gæti það komið mörgum á óvart að sjá hvernig þeir stilla upp á morgun. Skv. spá sem ég las á aðdáendasíðu T’ham í dag búast menn þar á bæ við að sjá þetta byrjunarlið:
IFILL – NAYBET – KING – EDMAN
DAVIS – REDKNAPP – MENDES – ATOUBA
KANOUTE – DEFOE
Þetta er að mínu mati stórhættulegt lið, en að vissu leyti algjörlega óskrifað blað. Paul Robinson kom til liðsins frá Leeds í vor og spilar fyrsta leik sinn á morgun. Aðrir nýir í byrjunarliðinu eru: Phil Ifill (uppalinn, ungur leikmaður sem er að brjótast í byrjunarliðið núna), Naybet (nýkominn frá Deportivo La Coruna), Erik Edman (sem margir muna eftir með sænska landsliðinu í sumar – hann átti sendinguna á Larsson þegar hann skoraði ‘flying header’ gegn Búlgörum), Sean Davis (sem kom frá Fulham í sumar og hefur skorað nokkur mörk gegn okkur í gegnum tíðina) og Timothee Atouba (man ekki hvaðan hann kom í sumar, frá Herenveen í Hollandi minnir mig).
Þá eru nokkrir meiddir hjá Tottenham, eða leikmenn á borð við Anthony Gardner, Dean Richards, Mbulelo Mabizela og Stephen Kelly, auk þess sem hinn nýkeypti Edson da Silva er enn að bíða eftir leikheimild og missir því líklega af þessum leik.
Þá er ekki enn vitað hvort að Jamie Redknapp eða Michael Brown spila á miðjunni með Pedro Mendes. Redknapp er fyrirliði klúbbsins en það er talið að Santini hafi meira álit á Brown. Kemur í ljós, þótt það væri óneitanlega gaman að fá að sjá Gerrard og Redders kljást á miðjunni! 😉
Þannig að það er ljóst að Tottenham-liðið hefur talsvert meiri breidd í ár en undanfarin ár. Það mun þó koma algjörlega í ljós hvort allir þessir nýju leikmenn þeirra ná að stilla saman strengi sína fyrir leik morgundagsins. Vonandi ekki.
Nú, að lokum langar mig aðeins að minnast á eitt lauslega. Owen er farinn, ókei. Við vissum alltaf að hann myndi fara, fyrr eða seinna. Hann er búinn að vera að segja það í fleiri ár núna að hann langaði á einhverjum tímapunkti að spila á meginlandinu fyrir topplið.
Vandinn er bara sá að flestir okkar veðjuðu á seinna, frekar en fyrr. En ég held í alvöru að þetta sé ágætis tími til að missa Owen, þar sem liðið er hvort eð er að ganga í gegnum mikið breytingaskeið og mikla óvissutíð … þannig að það er ekki hægt að saka söluna á Owen um að koma einhverju náttúrulegu jafnvægi úr skorðum.
Þó hefur verið eitt sem fer svolítið í skapið á mér. Menn hafa verið að pæla í því í dag hvað Benítez geri við peningana sem frúin í Hamborg gaf honum, eða öllu fremur hvaða framherja hann kaupir í staðinn fyrir Owen. Hann var spurður að þessu þrisvar á blaðamannafundi í dag og hann svaraði alltaf því til að við værum með þrjá frábæra framherja.
Ég hef bara eina spurningu í þessum efnum. Nokkuð einföld spurning, og mér finnst í raun nauðsynlegt að það spyrji einhver þessarar spurningar:
Er hægt að fá Le Tallec aftur, og það helst í gær?!?!?!?!?!? :confused:
En leikurinn á morgun verður roooosalegur. Vonandi fáum við stórgóða skemmtum og flotta knattspyrnu hjá okkar mönnum. Og vonandi byrja Baros og Cissé tímabilið báðir með marki. Það yrði frábært upp á sjálfstraustið hjá þeim að gera.
Mín spá: Það virðast allir sannfærðir um að þetta verði jafnteflisleikur en ég held að Tottenham-liðið verði ekki jafn sterkt á morgun og menn eru að gera ráð fyrir. Ég er búinn að óttast þá alla vikuna en núna hef ég einhverra hluta vegna bara svo sterkt á tilfinningunni að við tökum þetta og það nokkuð sannfærandi. Mín spá er því Liverpool-sigur, 2-1 eða stærra. Kæmi mér ekkert á óvart þótt þeir skori eitt, komist jafnvel yfir, en á endanum munu gæði þeirra Baros og Cissé (sem og yfirburðir Gerrard á miðjunni) sýna sig.
Vonum að ég reynist sannspár. Það væri ekkert betra en að vera á toppnum um tvö-leytið á morgun … þótt það verði aðeins í nokkra klukkutíma! 😀
Áfram Liverpool!!! Þetta er að bresta á!!!
Aldrei hef ég nokkru sinni á mínum 14 ára ferli sem stuðningsmaður Tottenham séð nokkurn mann kalla liðið T’ham! :biggrin2:
Þessi grein var þá allavega ekki til einskis 😉
Hvað Atouba varðar, þá ætti hann að vera stuðningsmönnum Liverpool vel kunnur, því hann var í liði Basel sem mætti Liverpool í Evrópukeppninni, og skoraði m.a. mark í leiknum.
Edman var hins vegar hjá Heerenveen.
Svo ég víki nú aðeins að liði Tottenham, þá þætti mér eðlilegast að hafa Redknapp og Davis á miðjunni, Atouba á vinstri kanti og Brown á þeim hægri. En mér sýnist á öllu að Santini muni ekki stilla upp þannig.
En já, vonandi skemmtið þið Púllarar ykkur vel yfir leiknum!
Spurs kveðja,
einsidan.
Ég sakna hans samt 🙁
1-3 LFC!
Annars er framlína Tottenham skeinuhætt. Defoe og Kanoute geta gert usla í hvaða vörn sem er.