Leikur við Graz í kvöld!

Liverpool mæta AK Graz frá Austurríki í seinni leik liðanna í kvöld, á Anfield Road vellinum í Liverpool-borg. Búist er við því að völlurinn verði pakkfullur er Liverpool-liðið leitast við að tryggja sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu á komandi vetri. Eftir 2-0 sigur í fyrri leiknum, á útivelli í Austurríki, verður að teljast yfirgnæfandi líkur á því að Liverpool komist áfram úr þessu einvígi.

Hvað leikmenn varðar þá er vitað að Josemi er tæpur, en hann meiddist í baki á laugardaginn í leiknum gegn ManCity og varð að fara útaf. Hann gæti verið orðinn leikfær í kvöld en ég held að Benítez muni ekki hætta honum í þennan leik heldur hvíla hann, leyfa honum að jafna sig alveg fyrir Bolton-leikinn á sunnudaginn.

Þá hefur Benítez einnig gefið í skyn að hann muni jafnvel hvíla leikmenn og gefa nokkrum öðrum séns í leiknum í kvöld, sem gerir liðsuppstillinguna spennandi. Hann hefur stillt upp sama byrjunarliðinu síðustu þrjá leiki liðsins í röð, en nú býst ég við að það verði einhverjar breytingar … bæði vegna meiðsla Josemi og þess sem Benítez vill kannski hvíla nokkra leikmenn.

Þannig að þetta er mjög erfitt um að spá, en ég ætla samt að skjóta á liðsuppstillingu. Svo verður gaman að sjá í kvöld hvað ég hef margar stöður réttar. 🙂 En liðið í kvöld, skv. minni spá, verður væntanlega svona:

JERZY DUDEK

FINNAN – CARRAGHER – HYYPIÄ – RIISE

KEWELL – GERRARD – HAMANN – WARNOCK

PONGOLLE – BAROS

Sem sagt, skv. minni spá verða þrjár breytingar í kvöld og þar af eiga tvær sömu ástæðu. Meiðsli Josemi verða til þess að Benítez færir Finnan niður í sína náttúrulegu stöðu og notar um leið tækifærið og gefur hinum unga Stephen Warnock fyrsta byrjunarliðssætið sitt á ferlinum fyrir Liverpool. Það virðast flestir búast við því að Warnock fái að byrja inná í kvöld, enda er hann ungur heimamaður sem á það fyllilega skilið að fá þennan séns. Ég vona allavega að hann verði í liðinu.

Þá held ég að hann muni hvíla annan hvorn framherjann í kvöld og þótt ég spái Baros í byrjunarliðinu gæti það allt eins orðið Cissé. Ég held að hann reyni að hvíla þá báða þannig að ef Baros byrjar inná kemur Cissé inn fyrir hann snemma í seinni hálfleik … eða öfugt. Það held ég allavega, þannig notar hann alla þrjá framherjana í kvöld, gefur Sinama-Pongolle gott tækifæri í byrjunarliðinu og heldur bæði Baros og Cissé ferskum fyrir sunnudaginn.

Höfum eitt á hreinu – leikurinn í kvöld er miklu, miklu mikilvægari fyrir Liverpool heldur en nokkurn tímann leikurinn gegn Bolton á sunnudaginn. Við megum við því að tapa gegn Bolton á sunnudag, þar sem við höfum heila 35 leiki til að jafna okkur eftir slíkt reiðarslag.

Ef við töpum í kvöld gætum við misst af riðlakeppni Meistaradeildarinnar, sem og bílhlassi af peningum. Slíkt áfall gæti riðið liðinu að fullu … ég get ekki til þess hugsað að þetta fari illa í kvöld! Því verður að setja fulla áherslu á leikinn í kvöld, tryggja sigur í þessum leik fyrst og fremst … síðan hafa áhyggjur af öðru, svo sem:

-Að enginn leikmaður meiðist, vonandi.
-Að ná að hvíla nokkra lykilmenn eins og t.d. framherjana eins og ég stakk uppá, sem og kannski taka Gerrard útaf í seinni hálfleik.
-Gefa ungu strákunum í hópnum tækifæri og dýrmæta reynslu í Evrópukeppni. Þeir eiga meiri séns á að spila gegn Graz AK heldur en gegn Juventus eða Real Madríd í riðlakeppni.

Þannig er nú það. Byrjunarliðið í kvöld, að mínu mati, eins og segir hér að ofan. Nú, mín spá fyrir leikinn í kvöld er einfaldlega öruggur sigur. Við fáum ekki á okkur mark – það á varla að geta gerst miðað við getumun þessarra tveggja liða – og ég geri ráð fyrir blússandi sóknarbolta og allavega 2-3 mörkum í frábærri stemningu á Anfield Road í kvöld.

Sjáum til hverjar lokatölurnar verða. Áfram Liverpool!

5 Comments

  1. Hvað er málið með Sýn!?!? Þeir sýna leikinn EKKI í kvöld heldur einhven gamlan chelsea-asnava leikl!! Ég ætla að skila afruglunarkassanum í dag!

  2. Ég var að hringja inn í þátt Valtýs Björns á Skonrokk 90.9 þar sem ég spurði einmitt af því af hverju Sýn er ekki með leikinn í kvöld.

    Valtýr brást skjótt við, hringdi í aðstandendur Sýn og fékk svar. Málið er það að Sýn kaupir forkeppnina á pakkadíl og fær því kostinn á að sýna tvo leiki í hverri umferð. Í fyrri umferðinni fengu þeir kostinn á Liverpool-leiknum og Manchester-leiknum og sýndu þá báða.

    Hins vegar, þar sem Liverpool vann fyrri leikinn frekar afgerandi þá búast flestir við að þeir klári þetta auðveldlega í kvöld. Og því var pakkadíllinn fyrir þessa umferð Manchester-leikurinn og leikur Djurgarden og Juventus, en sænska liðið náði öllum að óvörum 2-2 jafntefli gegn Juve í Torínó fyrir tveim vikum og því vafalítið meiri spenna í þeim leik en leik Liverpool.

    Þannig að Sýn í raun fékk engu um þetta ráðið, þeim stóð Liverpool-leikurinn einfaldlega ekki til boða og því fór sem fór.

    Þá er bara um að gera að fjölmenna á Players og Ölver í kvöld, en leikurinn er í beinni þar … og eflaust víðar! :biggrin:

  3. Þeir félagar Potter & Warnock eiga án efa eftir að fá góðar móttökur í kvöld á Anfield.

    [Liverpool Way](http://www.liverpoolway.co.uk/news/news7.htm)

    “Rising young midfield star Daren Potter is set to make his first start for the club tonight against Graz.

    The Ireland u21 midfielder made his senior debut as a late substitute in the first leg in Austria, and has made a big impression on Rafa Benitez since the Spaniard took charge.

    Potter’s reward is a starting place for tonight’s second leg, whilst fellow youngster Stephen Warnock is also in line for his first start after appearning as a substitute in all of the reds’ games so far this campaign.

    Stephane Henchoz and Igor Biscan are also set to start as Benitez takes the opportunity to give run outs to some of his squad players.

    Zak Whitbread is likely to be on the subs bench along with Paul Harrison. “

  4. byrjunarliðið er komið:

    Dudek
    Carra-Hyypia-Henchoz-Riise
    Potter-Diao-Gerrard-Kewell
    Baros-Cissé

    Frábært að Potter fái sénsinn – hef heyrt að hann sé allsvakalegt efni.

    Eins set ég spurningamerki við þá ákvörðun Benitez að setja Diao inn í stað Biscan. Miðað við upphitunarleikina í USA þá var Biscan að spila eins og engill – allavega það litla sem ég sá og eins miðað við leikskýrslur enskra fjölmiðla.

    Síðan þá hefur hann ekkert fengið að sýna sig – nánast.

    En maður veit náttúrulega ekki hvernig þeir eru að standa sig og augljóst að Benitez sér eitthvað í Diao sem hann sér ekki í Biscan. Nema hann sé að gefa Diao séns til að sanna sig og takist honum það ekki verður hann seldur.

    :confused:

  5. Hmm…

    þetta kom eitthvað asnalega út í síðasta pósti frá mér.

    En varamannabekkurinn er svona skilst mér:
    Paul Harrison, Steve Finnan, Dietmar Hamann, Florent Sinama-Pongolle, Igor Biscan, Stephen Warnock (vona að hann fái að spreyta sig) og Zak Whitebread.

Harry Kewell: ömurlegur?

Liverpool 0, Graz 1