Þurfa menn eitthvað jákvætt til að jafna sig eftir afhroð gærkvöldsins?
Í dag voru þeir Xabi Alonso og Luis García kynntir formlega á blaðamannafundi í Liverpool. Þetta var mjög afslappaður og góður blaðamannafundur fannst mér og það var ljóst að Benítez hafði ástæðu til að brosa á þessum fundi. Hann sagði meðal annars að þeir myndu líklegast spila með gegn Bolton á sunnudaginn og að hann væri ánægður með kaupin, enda bæta þessir tveir menn verulega þá möguleika sem Rafa hefur í liðsuppstillingarmálum.
Nú, Xabi Alonso talaði góða ensku og sagðist vonast eftir að vinna titla með Liverpool, og er það vel. Mér líst alveg feykilega vel á þennan dreng, hef dáðst að honum í tvö ár í spænsku deildinni og með fullri virðingu fyrir Hamann þá held ég að þessi kauði verði orðinn fastamaður við hlið Stevie G á miðjunni frá og með Bolton-leiknum á sunnudag. Þessi gaur verður okkur ómetanlegur næstu árin, um það efast ég ekki!
Þá talaði Luis García um það hversu erfitt það var fyrir hann að fara frá Barcelona, þar sem það er einn af allra stærstu klúbbum í heimi. En hann sagði að á endanum hafi hann ekki getað neitað boðinu um að koma og leika fyrir Liverpool, sem hann segir að sé líka einn stærsti klúbbur í heimi, sem og undir stjórn síns gamla stjóra Rafa Benítez.
Ég veit ekki með ykkur en mér líst svoleiðis þrusuvel á þessa náunga. Framundan eru 36 leikir í deildarkeppninni, tvær enskar bikarkeppnir og a.m.k 6 leikir í riðlinum í Meistaradeildinni. Þetta gerir a.m.k. 44 leiki, jafnvel fleiri ef við dettum ekki út í fyrsta leik í bikarkeppnunum. Það er nóg til að hlakka til í vetur og svei mér þá ef við lítum ekki til baka eftir svona hálft ár og eigum erfitt með að ímynda okkur hvernig Liverpool-liðið spilaði áður en þeir Luis García, Xabi Alonso, Josemi, Antonio Nunez og Djibril Cissé gengu til liðs við liðið!
😉
**Uppfært (Einar Örn)**: Ég er staddur í útlöndum og því verða uppfærslur frá mér í lágmarki næstu vikurnar. Ég verð þó að segja hversu ofboðslega það gleður mig mikið að sjá þessa tvo Spánverja í Liverpool búningi.
Allt frá því að við minntumst fyrst á [Xabi Alonso orðróminn](http://www.kop.is/gamalt/2004/08/07/19.29.01/) hef ég verið gríðarlega spenntur. Það er ótrúlega spennandi tilhugsun að hugsa sér hvernig Alonso og Gerrard verða saman á miðjunni. Við getum með stolti sagt að við erum með tvo af bestu og efnilegustu miðjumenn Í HEIMI á miðjunni hjá Liverpool.
Þetta eru pottþétt stærstu kaup Liverpool síðustu 10 árin. Harry Kewell var stór á sínum tíma, en samt ekkert í líkingu við Alonso. Við erum að fá mann, sem brilleraði í erfiðustu deild í heimi, mann sem valdi okkur fram yfir Real Madrid og mann sem er aðalmaðurinn í spænska landsliðinu. Við erum að kaupa efnilegasta miðjumanninn úr sterkustu deild í heimi. Það eru engar smá fréttir!
Luis Garcia er líka frábær. Ég hef séð hann spila nokkrum sinnum fyrir Barcelona og var hann alltaf góður.
Það er í raun með hreinum ólíkindum að hugsa til þess hvernig þetta sumar hefur gengið. Í mínum villtustu draumum átti ég ekki von á því að þetta yrði svona gott. Þegar maður hugsar til þess hversu [ömurlega dapur](http://www.kop.is/gamalt/2004/04/15/06.21.04/) maður var yfir gengi Liverpool fyrir aðeins FJÓRUM MÁNUÐUM. Þá var allt ömurlegt, en núna getur maður ekki nema verið bjartsýnn.
Houllier er farinn, Benitez er kominn í staðinn. Heskey er farinn, Cisse kominn í staðinn. Danny Murphy og Bruno Cheyrou eru farnir, Luis Garcia og Nunez komnir í staðinn. Og að auki erum við búin að kaupa Xabi Alonso.
Það er hreinlega ekki hægt annað en að vera þakklátur fyrir ástandið einsog það er í dag. Eftir þjáningar síðustu ára er svo sannarlega gaman að geta aftur verið stoltur og ánægður með það að vera Liverpool aðdáandi. 🙂