Jæja, þá eru aðeins rúmlega einn og hálfur sólarhringur í næsta leik Liverpool, gegn W.B.A. í deildinni á Anfield.
Það eru góðar fréttir fyrir Benítez þar sem Harry Kewell er orðinn leikfær á ný eftir að hafa misst af Bolton-leiknum vegna meiðsla. Þá virðast þeir leikmenn Liverpool sem léku landsleiki um helgina og í gær allir hafa sloppið heilir úr þeim og því ætti Benítez að geta stillt upp fullu liði … eða hvað?
Skv. fréttum í Bretlandi þá situr Djibril Cissé fastur í Færeyjum, ásamt einhverjum fleiri leikmönnum, þar sem nú situr þung þoka yfir eyjunum og með öllu ófært fyrir flug til/frá staðnum.
Ég verð bara að hlæja að þessu … að hugsa sér, menn vona að Cissé komist til Liverpool á morgun en jafnvel þá hefur hann innan við sólarhring til að gera sig kláran fyrir næsta leik! Þannig að þótt hann komist aftur til liðsins á morgun er líklegt að þokan í Færeyjum hafi kostað hann sæti í byrjunarliðinu gegn W.B.A. Hann yrði þá væntanlega á bekknum í staðinn!
Finnst engum öðrum en mér það fyndið að hugsa um Cissé, Henry og fleiri góða sitjandi fasta í Torshavn að gera … akkúrrat ekki neitt! Í alvöru, hvað er hægt að gera í Færeyjum? Panta Dómínós? 😀
Þannig að ef við gefum okkur að Dji-brilliant þurfi að húka á varamannabekknum þökk sé þokunni … þá er spurning hvernig Rafa stilli upp liðinu á laugardaginn? Ég ætla að giska, að gamni:
Josemi – Carragher – Hyypiä – Riise
Gerrard – Hamann – Alonso
García …………………………………. Kewell
Baros
Miðað við liðið sem hann stillti upp gegn Bolton, sem var sama lið og þetta nema hvað Warnock var á vinstri kanti í stað hins meidda Kewells, þá held ég að þetta verði að teljast líklegt … ef Cissé þarf að vera á bekknum, þ.e.a.s.
Auðvitað mætti vel taka Hamann út úr þessu liði að mínu mati og setja Warnock inn, en þá væri miðjan frá hægri: Gerrard – Alonso – Warnock, með Kewell og García úti á vængjunum.
En þar sem Warnock spilaði með varaliðinu á þriðjudag og Hamann hefur verið í stífri þjálfun á Melwood, einn fárra aðalliðsmanna sem voru ekki á ferðalagi með landsliði sínu síðustu 10 dagana, þá held ég að hann hljóti að vera ferskur og einbeittur fyrir laugardaginn, samanborið við t.d. Gerrard og Alonso sem hafa spilað tvo leiki á fjórum dögum báðir.
Kirkland er enn meiddur og því er Dudek sjálfvalinn í markið, Hyypiä er búinn að ná sér eftir nefbrotið gegn Bolton og því er óþarfi að breyta þessari vörn og að mínu mati velja Kewell og García sig sjálfir í liðið (a.m.k. þangað til Nunez fer að þrýsta á þá). Ef Cissé þarf að sitja á bekknum er Baros augljós kostur í liðið og Gerrard og Alonso verða pottþétt þarna inni.
Þannig að að mínu mati er þetta bara spurning um Hamann eða Warnock. Hamann verður væntanlega þarna held ég en ef Warnock fengi frekar að byrja inná gætum við jafnvel séð svona kerfi:
Josemi – Carragher – Hyypiä – Riise
García – Gerrard – Alonso – Warnock
Kewell……….
……….Baros
Þarna væri Kewell í raun þessi “support” framherji fyrir aftan Baros, svipað og t.d. Paul Scholes spilar fyrir aftan Van Nistelrooy hjá ManU, eða Bergkamp fyrir aftan Henry hjá Arsenal. Þessi liðsuppstilling væri að mínu mati alls ekki óvitlaus þar sem hún getur auðveldlega dottið niður í 4-5-1 ef við þyrftum að verjast (Kewell dytti niður á vænginn og Warnock þétti miðjuna) … en ef við þyrftum að sækja hressilega (sem hlýtur að vera á dagskrá á laugardaginn) þá gætum við sótt upp báða kantana í fyrsta sinn í mörg ár með marga vængmenn þarna inni. Hægri: Josemi, García, Gerrard, Baros (sem leitar gjarnan út til hægri). Vinstri: Riise, Warnock, Kewell og jafnvel García í einstökum hlaupum.
Segið mér að þetta lið gæti ekki sótt alveg svakalega hart að liði eins og W.B.A., sem mætir væntanlega með þétta vörn, þétta miðju og einn framherja í þeirri von að ná jafntefli á Anfield? 0-0 fyrir þá er betra en 1-0 tap og því munu þeir verjast með kjafti og klóm … af hverju ekki að demba á þá fullt af sóknarmönnum og vængmönnum?
En það gerist aðeins að mínu mati ef Hamann sest á bekkinn. Ég hef fulla virðingu fyrir Hamann, það gera fáir betur en hann það sem hann gerir best … en á heimavelli gegn “lakara” liði þar sem við verðum að sækja og skora til að ná í þrjú stigin, þá er hann okkur fjötur um fót! Því væri ég miklu frekar til í að sjá Stephen Warnock í liðinu í hans stað á laugardaginn.
En við sjáum hvað setur. Kannski verður Cissé mættur nógu snemma til að geta farið í byrjunarliðið … allir að skoða veðurspána fyrir Færeyjar á morgun! 😉
Ég er mun hrifnari af tillögu þinni um 4-4-1-1. Hamann á heima á bekknum og koma inn þegar leikurinn spilast þannig að við þurfum að halda stöðu.
Sammála þessu með Hamann. Hann er frábær “ruslakall” í varnarstöðu en sóknarlega er hann alltof hægur þótt hann skori 2-3 mörk á ári (reyndar alltaf fallegustu).
Mín spá fyrir morgundaginn er Liverpool 2 WBA 1
Baros og Gerrard.
Yfirleitt fínar greinar sem þú skrifar hérna, en ég myndi samt aðeins passa mig á stóru orðunum, eins og athugasemdirnar um færeyjar hér að ofan, (þær geta virkað móðgandi á sumt fólk). Ég veit ekki hvort þú hefur komið til færeyja eða ekki en ég allavega hef það mjög oft og get sagt þér að þú getur gert allt þar sem þú getur gert hér á klakanum, og eflaust meira til.
Það er alltaf einn… :rolleyes:
Ólafur – ég meinti ekkert móðgandi í garð Færeyja. Ég hef komið þangað og mér finnst ekkert svo mikið hægt að gera þar, miðað við Liverpool. Reyndar finnst mér ekki mikið hægt að gera í Hafnarfirði, þar sem ég bý, þannig að það er óþarfi að taka þessu alvarlega.
Annars meinti ég bara það að ég sá fyrir mér svona “töffara” eins og Cissé hangandi á kaffihúsi eða í sjoppu í Þórshöfn að láta sér drepleiðast … bíðandi eftir flugi. Þú verður að viðurkenna að það er nokkuð skondin hugsun.
Það var nú ekki meira móðgandi en þetta. Ekkert slæmt í garð Færeyja, sem eru ágætt land þrátt fyrir smæð sína. En það er ekkert hægt að gera þar, neitt frekar en í Hafnarfirði … eða á Akureyri … eða á Ísafirði … ekki miðað við það sem hægt er að gera af sér í Liverpool-borg.
Ókei? Gott. 🙂
:biggrin: :biggrin: