Deportivo og Olympiakos gerðu markalaust jafntefli í kvöld. Sem þýðir að eftir stórgóðan 2-0 sigur á Mónakó á Anfield er Liverpool FC í toppsætinu í A-riðli Meistaradeildarinnar, eftir fyrstu umferð!
Gæti það verið betra? Ég man hreinlega bara ekki eftir því hvenær ég sá Liverpool síðast spila svona vel. Mónakó eru talsvert sterkari andstæðingar en W.B.A., og þó virtumst við hafa miklu meiri yfirburði í kvöld en nokkurn tímann gegn W.B.A. á laugardaginn. Ég bjóst við hnífjöfnum leik í kvöld, var að vonast eftir að okkar menn myndu vinna þetta jafnvel nokkuð sannfærandi – en aldrei í lífinu átti ég von á þessu. Við hreinlega yfirspiluðum þá og það í 90 mínútur!
Sem var ekki leiðinlegt… 😉
Aðeins ein breyting var gerð á sigurliðinu frá því á laugardag, en Alonso kom inn á miðjuna fyrir Didi Hamann. Liðið leit því svona út:
Josemi – Carragher – Hyypiä – Riise
Finnan – Gerrard – Alonso – Kewell
García – Cissé
Liverpool-liðið pressaði þá frönsku bókstaflega frá fyrstu mínútu, við vorum með boltann og í sókn nær allan fyrri hálfleikinn en uppskárum á ótrúlegan hátt aðeins eitt mark. Djibril Cissé skoraði sitt fyrsta Evrópumark fyrir Liverpool á 22. mínútu eftir frábæran samleik Gerrard og García sem splundraði vörn Mónakó.
Þá átti Luis García tvö dauða-dauða-dauðafæri í fyrri hálfleik, auk þess sem við vorum stöðugt ógnandi. Cissé fékk dauðafæri undir lok hálfleiksins en missti boltann of langt frá sér, auk þess sem Flavio Roma markvörður Mónakó gjörsamlega hélt þeim á floti.
Þannig að staðan í hálfleik var 1-0 en hefði auðveldlega getað verið 3-0 eða 4-0. Slíkir voru yfirburðirnir.
Í seinni hálfleik var það sama uppi á teningnum, við pressuðum og pressuðum og þeir fengu varla tækifæri til að spila upp að miðju, hvað þá að sækja að marki okkar. Einu færi Mónakó-manna í þessum leik voru einhver langskot sem bakverðirnir þeirra tóku í fyrri hálfleik, eða allavega þangað til tuttugu mínútur voru eftir af leiknum.
Cissé komst einn innfyrir en Roma varði, García skaut framhjá fyrir opnu marki, Kewell og Gerrard skutu hátt yfir úr sitt hvoru dauðafærinu og Milan Baros reyndi að sóla þegar hann átti að gefa á García í dauðafæri. Þannig að ef heppnin hefði verið okkur í vil í þessum leik hefðum við verið komnir í svona 7-0 þegar hálftími var eftir.
Þá fór aðeins að draga af okkar mönnum og frá svona 70. – 80. mínútu náðu Mónakó-menn aðeins að pressa okkur. Manni stóð ekki á sama, þvílíkir yfirburðir og samt bara eins marks forysta. Ég var skíthræddur um að þeir myndu jafna en sem betur fer gerði Milan Baros út um leikinn með stórgóðu einleiksmarki á 82. mínútu, eftir frábæra sendingu frá Xabi Alonso.
Eftir það var þetta bara reitabolti hjá okkar mönnum, bara spurning um að láta boltann ganga og eyða tímanum. Á endanum var þetta bara alveg fáránlega öruggur (og auðveldur? ) sigur hjá Liverpool og það er ljóst að ef þetta er það sem koma skal eru ManU í vondum málum á mánudaginn kemur!
Ég hreinlega treysti mér ekki að velja úr einhvern einn mann leiksins þannig að ég ætla bara að gefa öllu liðinu umsögn. Það er auðveldara, þar sem liðið var “maður” leiksins í kvöld:
Jerzy Dudek: Hefði alveg eins getað mætt með bók á völlinn. Hann þurfti að verja einn skalla kortéri fyrir leikslok, að öðrum kosti gerði hann ekkert annað en að taka markspyrnur eftir langsótt langskot Mónakó-manna. Öruggur í kvöld, enda lítil pressa á honum.
Josemi: Frábær, einu orði sagt. Þeir fóru aldrei upp hans kant í þessum leik og í þau fáu skipti sem þeir reyndu var boltinn étinn af þeim. Hann er ofboðslega massífur og í þessu stuði hlakka ég til að sjá hann taka á Giggs og Ronaldo á mánudaginn. Þeir eiga eftir að væla!
Carragher & Hyypiä: Ótrúlega öruggir. Töpuðu ekki einum einasta skallabolta, lentu aldrei undir neinni pressu og voru virkir í spilinu fram á við. Hyypiä les leikinn betur en flestir miðverðir sem ég veit um og það var mjög oft sem hann steig inn í sendingarlínu og braut sóknir Mónakó á bak aftur. Carragher hins vegar tók að sér að sjá til þess að Mohammed Kallon snerti boltann varla nema þrisvar-fjórum sinnum allan leikinn. Fáránlega yfirvegaðir og góðir saman.
Riise: Frábær varnarlega, gaf ekki tommu eftir frekar en Josemi. Hefði mátt vera aðeins skynsamari þegar hann fór fram á við, ég sá hann þrisvar í þessum leik sóla svona tvo-þrjá Mónakó-menn en missa síðan boltann af því að hann reyndi að sóla einn í viðbót, þegar hann hefði átt að gefa hann. Átti samt góðar fyrirgjafir og vann boltann sem á endanum gaf okkur fyrra markið.
Finnan: Annar frábær leikur hjá honum í röð á hægri kanti! Ef hann heldur svona áfram verður hreinlega erfitt að ætla að ýta honum út úr liðinu þegar Nunez er orðinn heill. Hann var mjög skapandi, vann sérlega vel með Josemi bæði í vörn og sókn og átti nokkrar stórhættulegar fyrirgjafir. Pressaði bakvörð Mónakó allan leikinn og sá til þess að þeir gátu aldrei andað rólega hvað hægri kantinn okkar varðar. Á tvímælalaust skilið að halda stöðu sinni í liðinu á meðan hann spilar svona vel!
Gerrard: Steven Gerrard spilaði í kvöld eins og Steven Gerrard er vanur að spila. Maður leiksins. Besti miðjumaður í heimi. Svo einfalt er það bara.
Xabi Alonso: Hversu góður er þessi strákur? Vá. Um daginn sá ég Barcelona sigra Racing Santander í fyrstu umferð La Liga og tók eftir að Xavi, miðjumaður Barcelona, var með 100% sendingargetu í þeim leik. Sem þýðir að allar þær 80+ sendingar sem hann sendi í þeim leik rötuðu til samherja.
Ég sá ekki opinbera tölfræði fyrir það í þessum leik en ég get ímyndað mér að Xabi Alonso hafi verið með svipaða tölfræði. Allavega man ég ómögulega eftir að hann hafi átt misheppnaða sendingu. Hann átti löngu sendinguna á Baros sem gaf annað markið og stjórnaði umferðinni á miðjunni eins og herforingi. Hann vinnur varnarvinnuna jafn vel og Hamann, stjórnar spilinu jafn vel og Lampard og er með einhverja mestu sendingargetu sem ég hef séð hjá miðjumanni! Ekki síðri leikmaður en Steven Gerrard hér á ferð og það besta við tilkomu Alonso er að hann gefur Gerrard lausan tauminn! Þeir verða óstöðvandi saman!
Kewell: Þrátt fyrir að Arnar Björns og Bjarni Jó hafi verið að tala illa um hann nærri allan leikinn fannst mér Harry Kewell vera rosalega góður í þessum leik! Þetta var hans besti leikur fyrir Liverpool á þessu ári, eða síðan hann meiddist fyrir jól á síðasta tímabili! Hann vann örugglega allavega 8-10 bolta af Mónakó-mönnum og sýndi rosalega góða vinnslu. Hann pressaði þá stíft og var duglegur að trufla þá. Fram á við átti hann eina eða tvær slæmar sendingar auk þess sem hann klúðraði dauðafæri í seinni hálfleik, en hann átti líka frábæra bolta eins og þann sem sendi Cissé á auðan sjó í seinni hálfleik. Var síógnandi og sívinnandi, bæði í vörn og sókn. Frábær leikur.
García: Náði ekki að skora í kvöld en fékk þó þrjú-fjögur algjör dauðafæri til þess. Hann skaut framhjá fyrir opnu marki um miðjan seinni hálfleik í einhverju mesta dauðafæri sem ég hef á ævinni séð. Þannig að hann var klaufi að ná ekki að skora.
Hins vegar þá var hann alveg stórkostlegur í kvöld. Vinna hans fyrir liðið er ótrúleg, og það er hálf fáránlegt að sjá hversu góðu sambandi hann nær við liðsmenn sína eftir aðeins þrjá leiki með þessu liði. Hann og Gerrard bjuggu saman til fyrra markið fyrir Cissé og með heppni hefðu þeir getað búið til fjögur eða fimm mörk til viðbótar saman. Fyrirgjöf Gerrard og skalli García undir lok fyrri hálfleiks var nóg til að fá mann til að slefa. Þessi gaur er kominn til að vera og – þótt ótrúlegt megi virðast – þegar orðinn ómissandi leikmaður í liðinu eftir aðeins þrjá leiki! Yndislegur leikmaður og ný Anfield-hetja!
Cissé: Síógnandi, ávallt hungraður og jafnvel eftir markið sást að hann var hungraður í meira. Gegn W.B.A. hefði hann getað skorað þrennu með smá heppni og hann skoraði eitt í kvöld, en hefði þó aftur getað náð þrennu. Fékk dauðafæri í fyrri hálfleik en missti boltann of langt frá sér, auk þess sem hann lét Roma verja frá sér maður-á-mann í seinni hálfleik. Þá var hann dæmdur nokkrum sinnum rangstæður en það er í lagi, hann á að vera þarna á mörkum hins löglega því það heldur vörn andstæðinganna á bakkinu. Nýtti vel færið sitt í markinu og sýndi virkilega gáfuð og úthugsuð hlaup á köflum í liðinu. Frábær leikur og ég þori alveg að segja að við erum betur staddir með hann þarna frammi en Emile Heskey!
Milan Baros: Kom inná fyrir Cissé á 70. mínútu og var rétt rúmar 10 mínútur að skora annað mark leiksins. Hefði getað skorað tvö ef hann hefði ekki misst stjórn á boltanum undir lokin en á heildina gerði hann meira en maður getur ætlast til á 20 mínútum. Innsiglaði sigurinn fyrir okkur, var sívinnandi og jákvæður. Klassaspilari og ég vona að hann sé búinn að jafna sig á lélegum frammistöðum gegn Graz og Bolton. Gæti jafnvel hafa spilað sig inn í byrjunarliðið í kvöld.
Stephen Warnock: Kom inná fyrir Kewell þegar kortér var eftir, sem er ekki mikill tími fyrir hann en var þó nóg til að við sæjum hann kvelja varnarmenn Mónakó nokkrum sinnum. Vinnslan á stráknum er frábær, hann er mjög teknískur og ef eitthvað er þá gefur hann betri fyrirgjafir en Kewell. Þetta er tvímælalaust framtíðarmaður í liðinu og í raun bara spurning hvenær hann eignar sér stöðu í byrjunarliðinu, ekki hvort. Við erum allavega vel staddir með varaskeifu ef Kewell eða Riise skyldu meiðast…
Igor Biscan: Króatíska tæknitröllið fékk bara fimm mínútur en tókst þó að brjóta tvisvar af sér, eiga einn stórhættulegan stungubolta á Baros og vinna einhverja tvo-þrjá bolta. Kom inná fyrir García og átti að þétta varnarhlið miðjunnar, sem hann og gerði. Fín innkoma, þótt stutt hafi verið.
Og hana nú! Sigur í Meistaradeildinni, í fyrsta sinn sem maður fagnar því í tvö ár! Það er ljúft að vera komnir aftur á meðal þeirra bestu!
Talandi um … ManU rétt sluppu með 2-2 jafntefli frá meisturum Lyon í Frakklandi, sem eru frábær úrslit fyrir þá miðað við að þeir voru 2-0 undir í hálfleik. Fyrri hálfleikurinn hjá þeim var skelfilegur, seinni hálfleikurinn mjög góður. Þá eru þessir lykilmenn hjá þeim að koma inn úr meiðslum, þannig að ljóst er að leikurinn við þá á mánudaginn verður SVAKALEGUR!
Ég get ekki beðið. Mónakó – mission accomplished. Næsta fórnarlamb: Manchester United!
p.s.
Ef einhverjum finnst þetta vera of mikil hallelúja-grein, þá þið um það. Liðið spilaði fáránlega vel í kvöld og því er ekkert annað en gott um það að segja!!!
Frabaert ad heyra!!! 🙂
Djofull hefdi eg viljad sja thennan leik.
Tittlingaskítur: Það var Josemi, ekki Alonso, sem átti sendinguna á Baros í öðru markinu 🙂
Frábær frammistaða hjá Liverpool í kvöld.
Vá! Þvílíkur leikur!
Besti leikur sem ég hef séð með Liverpool síðan 4-0 leikurinn á móti Arsenal á þorláksmessu fyrir 3 árum síðan. Manni fannst þetta aldrei spurning og Luis Garcia er heldur betur að stimpla sig inn í liðið! Frábær miðjumaður og er að verða einn af mínum uppáhalds leikmönnum liðsins.
YNWA!!
Ég er sammála þér af mörgu leiti, en ekki með Baros. Mér fannst hann frekar lélegur í kvöld. Hann skoraði reyndar þetta mark, og er það auðvitað vel, en ég þoli ekki hvað hann vill alltaf skora 2-3 mörk í hverri sókn…og HANN VILL GERA ÞAÐ EINN. Hann gæti ekki gefið boltan á liðsfélaga sína þótt líf hans lægi við, enda var ég mjög ánægður þegar Gerrard hundskammaði hann fyrir að gefa ekki á sig í opnu færi þegar Baros klúðraði dauðafærinu sínu.
Einnig með markið hans. Þetta var vel gert og gaman að skora úr svona færi, en að sama skapi er rosalega leiðinlegt að klúðra svona færi, sérstaklega þar sem opnir menn voru í teignum.
Ef hann lagar ekki þessa hlið hjá sér á ég ekki von á því að hann verði langlífur í þessu liði, allanvega vona ég ekki. Mér leiðast svona týpur. Sjáið Cissé t.d., þar er allt annað upp á teningnum. Ef Cissé er í hálffæri, en sér að samherji hans er í mun betra færi og sendingarmöguleikinn er góður, þá myndi hann gefa boltann. Baros mynd ALDREI gera það. Hann myndi jagast einhvernveigin áfram og á endanum líklega klúðra færinu.
Af mínu mati á Baros EKKI heima í byrjunarliðinu. Cissé og Garcia eiga að spila saman frammi og Baros sem varaskeifa.
Já ég er sammála Innvortis með að Baros hafi ekki heillað mig í þessum leik, ég hreinlega þoli ekki þessa einspilsáráttu hjá honum. Þegar hann skoraði markið voru 2 menn búnir að bíða eftir sendingu, dauðafríir, í markteig. Og já, hver lagði upp dauðadauðadauða færið sem Garcia fékk í seinni hálfleik? Ekki var það Baros, nei það var Finnan, sem er að stimpla sig allsvakalega inn á hægri kantinum.
En það má endilega einhver kenna Baros að horfa aðeins upp, maður sá það þegar hann klúðraði dauðafærinu (eftir að hann lét markmanninni detta) að hann leit ekki af boltanum og hafði ekki hugmynd um hvar markmaðurinn var (og þar af leiðandi vissi hann ekki um þessa 2-3 liverpool menn sem voru komnir í/við teiginn og voru í betra færi).
Góður sigur já, en það er alveg á hreinu að Cisse er fyrsti sóknarmaðurinn í þessu liði og ef Baros passar sig ekki þá held ég að Pongolle eigi góða möguleika á að verða nr 2.
Innvortis & Daði – ég er sammála ykkur í því að stóri gallinn í leik Baros þessa dagana er sá að hann á enn eftir að læra að líta meira upp og vera opnari fyrir samspili við félaga sína.
Dæmi: eitt skiptið í gær fékk hann boltann og sneri sér að marki Mónakó, einn á móti þremur varnarmönnum. Finnan bauð sig dauðafrír úti á kantinum og ef Baros hefði gefið á hann hefði hann getað fengið þríhyrninginn innfyrir vörnina, eins og við sáum hina leikmenn liðsins gera svo oft og svo vel í gær. En þess í stað ákvað Baros að það væri auðveldara að reyna að sóla þessa þrjá varnarmenn … hann komst fram hjá #1 en #2 tók af honum boltann og Finnan fórnaði höndum, enn dauðafrír úti á kanti.
Hins vegar er ég ekki sammála því að Baros eigi ekki heima í þessu liði. Hann er ekki gallalaus en það eru það engir aðrir í þessu liði. Cissé hefur líka akkilesarhæl – fyrsta snertingin hjá honum í móttöku á bolta er ennþá frekar slöpp og hann þarf að laga það, García þarf að nýta þessi færi sem hann fær betur, Kewell vinnur vel en þarf að skila fleiri boltum inn í boxið á samherja og Finnan – sem kantmaður – mætti vera duglegri að taka menn á og pressa upp að endalínu.
Það hafa allir sína galla í þessu liði og þrátt fyrir frábæra frammistöðu í gær er enginn að segja að þetta lið sé fullkomið. Langt því frá. En að segja að Baros eigi að vera fjórði kostur á eftir Cissé, García og Flo-Po af því að hann er eilítið eigingjarn er bara rugl. Þið megið ekki gleyma því að eftir tvo slappa leiki missti hann stöðu sína í byrjunarliðinu til García. Hann fékk 20 mínútur til að sýna hvað í honum býr í gærkvöldi og ég skil hann vel að hafa verið ákafur í að nýta þessar 20 mínútur vel. Sem mér fannst hann og gera: hann skoraði mark, var næstum því búinn að skora annað og barðist rosalega vel og lét finna fyrir sér. Auðvitað hefði hann getað búið til eitt eða tvö marktækifæri fyrir samherja sína ef hann hefði bara litið upp en það breytir því ekki að hann gerði allt sem maður ætlast til af sóknarmanni sem kemur inn af bekknum með bara 20 mínútur eftir!
Þannig að endilega farið varlega að drengnum, hann er að læra eins og aðrir og ég er alveg viss um að með tímanum mun Benítez kenna honum að nýta sér samherjana, alveg jafnt og hann mun kenna Cissé að ná stjórn á boltanum strax í fyrstu snertingu, og García að nýta færin sín. Þetta kemur allt með tímanum.
Bottom line: Baros er frábær markaskorari, ótrúlega grimmur og vinnusamur leikmaður, sem er fær um að búa til mörk út úr engu – eins og sást í gær. Kostir hans vega mikið þyngra en gallar þessa stundina og þótt hann geti enn bætt sig er hann mikilvægur í þessu liði, hvort heldur sem er súper-varamaður eða annar sóknarmaður.
Ég sagði í gær að hann hafi kannski spilað sig inn í byrjunarliðið, en ég var EKKI að meina með því að hann ætti að koma inn næst fyrir Cissé eða García. Langt því frá. Bara það að ef Benítez vill þá getur hann vel farið aftur í tvo framherja og sett García á vænginn eða eitthvað, Baros stendur alveg undir því.
Geri þó fastlega ráð fyrir óbreyttu liði gegn Man Utd. Af hverju að breyta því sem gengur vel? Eina spurningin fyrir næsta leik er, að mínu mati, hvort Hamann eða Alonso spilar þar sem Hamann var brilljant á laugardag og Alonso var brilljant í gær. Kemur í ljós.
Ég er ekki að gagnrýna Baros útá einn leik, hann hefur alltaf spilað svona (já líka á EM, þar sem hann var svo heppinn að spila með besta miðjumanni í heimi, Nedved) svo sú afsökun að hann hafi verið ákafur í gær er þunn. Málið við gallann hans Baros er sá að einspilið gerir hann algera andstæðu við alla hina í liðinu, eins og hefur sést undanfarið þá er mikið “teamwork” í gangi, en allt samspil brýtur Baros upp því hann gefur boltan aldrei ef hann er inna 40 metra frá marki. Já ég er kannski svolítið harðorður, en þetta er bara eitthvað sem hefur pirrað mig alveg síðan Baros kom til Liverpool. Á meðan hann kostar okkur ekki fleiri mörk en hann skorar er þetta nú samt alveg ásættanlegt, ég vil bara sjá hann hætta að einblína á boltann.
Annars vil ég endilega benda mönnum á að horfa vel á Baros næst þegar hann spilar, takið eftir því hversu oft hann leitar að manni til að gefa á og takið sérstaklega eftir því ef hann hefur augun af boltanum 🙂
Málið með Baros er einfallt hann vill alltaf skora og það vita varnarmennirnir alveg og geta því ekki sleppt augum af honum þar sem hann refsar þeim um leið, mér fannst hann einum of eigingjarn í gær en lítið á málið frá annarri hlið, hann vill spila og fékk til þess 20 mín í gær og þarf að sýna eitthvað til að komast e.t.v í liðið næst, og ef við lítum á fortíð hans hjá Liverpool þá hljómar hún af einskærri bekkjasetu og vonbrigðum, miðjumennirnir eru komnir með sendingarnar og sóknarleikurinn er kominn. Hann mun koma til og verða með topp mönnum okkar tvímannalaust. Ég var nú persónulega ekki hans nr1 fan fyrir Euro út af þessu en sú skoðun breittist eftir frammistöðuna þar. Ég vill nú meina að hann hafi bara verið æstur í því að sanna sig í gær en vonandi skánar þetta dæmi hjá honum og hann fari að senda boltann aðeins meir 🙂
Það er eitt sem ég gaman væri að spjalla um, en það er þetta leikkerfi sem Liverpool er að nota núna. þetta er greinilega að virka eftir frekar slaka byrjun á móti Bolton. Hvað finnst ykkur??
eitt með Baros, hann verður að átta sig á að um leið og hann fer að nota samherja sína, verður hann magfalt hættulegri framherji. sjáið bara Eið Smára.
Mér finnst þetta leikkerfi vera að virka brilljant vel. Þetta er í raun bara 4-4-2 nema að annar framherjinn fær svokallað ‘free role’ og getur ráfað á milli kantanna, sóknar og miðju, sem gerir andstæðingunum rosalega erfitt að reyna að dekka hann.
Slíkt leikkerfi hins vegar veltur algjörlega á því að við séum með réttan mann í þessum “holu-framherja”, og af þessum fyrstu þremur leikjum hans að dæma virðist Luis García vera sá maður. Þá gæti Vladimir Smicer komið inn í þessa stöðu þegar hann jafnar sig (þetta er jú hans besta staða en hann fékk aldrei að spila hana undir stjórn Houllier) og á næsta tímabili gæti Le Tallec komið inn í hana sem varaskeifa fyrir García.
Þannig að mér finnst þetta kerfi virka brilljant, en fyrst og fremst af því að þú ert með 11 menn þarna í liðinu sem eru að spila í sinni náttúrulega bestu stöðu. Sá eini sem er kannski ekki alveg í sinni bestu stöðu er Finnan, sem er bakvörður, en hann spilar á kantinum með írska landsliðinu þannig að hann er ekki alveg ókunnugur þarna.
Sem sagt, frábært kerfi en það sem skiptir mestu er að menn séu að spila í sínum bestu stöðum. Baros gæti t.d. aldrei spilað það hlutverk sem García er að spila núna, og því neyðist hann til að deila framherjastöðu með Cissé.
svo getið þið DL mörkunum á þessari síðu http://www.frank2002.myby.co.uk