Olympiakos í kvöld!

Úfffff hvað þetta verður rrrrrrrrosalegt!!!!!

Önnur umferðin í Meistaradeildinni og gríðarlega mikið í húfi. Útileikur í Grikklandi gegn fyrrverandi sjöföldum meisturum Olympiakos (þeir urðu í öðru sæti í vor eftir sjö titla í röð). Þegar við förum inn í þennan leik er staðan í A-riðli svona:


Liverpool – 3 stig
Olympiakos – 1 stig
Deportivo – 1 stig
Monaco – 0 stig


Þannig að gefum okkur að við töpum og Mónakó vinni, þá erum við skyndilega komnir í 2-3 sætið ásamt Mónakó. EÐA… gefum okkur að við náum að sigra Olympiakos í kvöld og Deportivo og Mónakó geri jafntefli. Þá erum við skyndilega komnir í 6 stig, Deportivo með 2 stig og Mónakó og Olympiakos með 1 stig. Þá værum við komnir með annan fótinn upp úr þessum riðli, sem væri frábært.

Deportivo la Coruna er að mínu mati erfiðasta liðið í þessum riðli og því væri frábært að vera komnir með 6 stig áður en við mætum þeim. Þess vegna finnst mér fullkomlega eðlilegt að Rafa Benítez ætli að sækja til sigurs í kvöld. Ef sigur næst ekki þá a.m.k. jafntefli, það væri ekki svo slæmt. En við megum alls ekki, alls alls alls alls alls ekki tapa!

Það eru erfiðleikar með byrjunarliðið, það verður að segjast. Það verður ómögulegt að spá um mögulegt lið en ég ætla samt að reyna:

*Josemi var hvíldur á laugardaginn en Finnan spilaði mjög vel í hægri bakverðinum. Því er líklegt að Josemi komi inn í liðið en að Steve Finnan haldi samt stöðu sinni í liðinu.

*Harry Kewell var meiddur á laugardag og Stephen Warnock spilaði vel í hans stað. Nú er Kewell víst orðinn heill, eins og Einar kom inná hér áðan, og því er úr vöndu að ráða.

*Milan Baros og Djibril Cissé spiluðu báðir það vel á laugardaginn að það er ekki hægt að setja þá á bekkinn. Eini möguleikinn á að við spilum með einn framherja (og García þar fyrir aftan) er ef Cissé er eitthvað meiddur eftir að hafa tognað í læri gegn Norwich.

Þannig að ef við gefum okkur að Cissé og Baros séu báðir heilir og Benítez noti þá væntanlega báða, þá myndi liðið líklega líta svona út:

Jerzy Dudek

Josemi – Carragher – Hyypiä – Riise

Finnan – Alonso – Hamann – García

Baros – Cissé

Auðvitað gæti Kewell komið þarna inn og finnst mér þá líklegast að Finnan færi á bekkinn, og García út til hægri. Eða þá að Benítez ákveði að gefa Warnock tækifæri áfram á vinstri kantinum, en þá færi García líka út til hægri.

Nú, ef að Cissé er eitthvað meiddur og Benítez ákveður að fara aftur í 4-4-1-1 taktíkina sem virkaði svo vel á móti Mónakó myndi liðið væntanlega líta svona út:

Jerzy Dudek

Josemi – Carragher – Hyypiä – Riise

Finnan – Alonso – Hamann – Kewell

García – Baros

Þarna væri eina spurningin sú hvort Warnock eða Kewell væri úti á vinstri væng, og svo aftur hvorn af Baros og Cissé Benítez myndi setja fremstan … þó líklega Baros, ef Cissé er meiddur.

Við getum búist við hörkuleik í kvöld, þetta Olympiakos lið er feiknasterkt og í þeirra röðum er hinn leikreyndi Giovanni og að sjálfsögðu stórstjarnan Rivaldo, sem vill örugglega nota tækifærið í kvöld til að sanna að hann sé enn meðal þeirra bestu í Evrópu. Við vonum að hann nái ekki að sanna það, ekki satt?

Mín spá: Ég er skíthræddur við þennan leik en á sama tíma þá er bara spennandi að vera að fara að spila útileik í Meistaradeildinni. Þetta er það sem menn hafa beðið eftir, að fá að spila við þá bestu í Evrópu, og því er ekki séns að maður fari að kvarta yfir því þótt þetta verði tvísýnir leikir. Þetta verður ekki jafn auðvelt og gegn Mónakó, bara svo að það sé á hreinu!

Ég er að vona að við vinnum þennan leik en í raun myndi ég sætta mig við jafntefli. Tel það líka líklegasta kostinn í þessum leik. Þannig að ég ætla að spá 2-1 sigri fyrir okkur … eða 1-1 jafntefli. Þetta Olympiakos-lið pressar mjög stíft og því á ég í raun von á að þeir nái að skora mark. Ég bara vona að sóknin sem hefur verið svo góð hjá okkur undanfarið bregðist ekki og nái þá að skora fleiri mörk en Grikkirnir!

Ohhhhhh … þetta verður magnaður leikur!

Ein athugasemd

  1. Ég segi 2-1 fyrir okkur 🙂

    Allir að mæta á Players, en þó ekki nema 5 mínútum fyrir leik, svo að ég og vinir mínir geti fengið borð.

Kewell heill

Olympiakos 1 – L’pool 0