Í lok ágúst skrifaði ég grein um þá óréttlátu gagnrýni sem mér fannst Harry Kewell vera að fá. Nú, rétt einum og hálfum mánuði síðar, tel ég mig knúinn til að skrifa aðra grein.
Nú þegar tæplega tveir mánuðir eru liðnir af tímabilinu hefur lið Liverpool FC tapað þremur, gert eitt jafntefli og unnið þrjá í Úrvalsdeildinni ensku. Í Evrópukeppninni höfum við unnið tvo leiki og tapað tveimur. Áður en tímabilið hófst unnum við þrjá æfingaleiki og töpuðum einum.
Liðin sem við höfum unnið hingað til í öllum keppnum: Wrexham, Celtic, Roma, Manchester City, W.B.A., Norwich, Graz AK og Mónakó.
Jafnteflið var við Tottenham.
Liðin sem við höfum tapað fyrir: Porto, Graz AK, Bolton, Man U, Olympiakos og Chelsea.
Þetta eru ellefu leikir sem við höfum spilað og hefur Harry Kewell spilað 10 af þeim. Hann missti af leiknum gegn Norwich, síðasta sigurleik okkar til þessa, vegna meiðsla á læri.
Þannig að Harry Kewell hefur spilað 10 leiki og í þeim höfum við unnið fjóra, gert eitt jafntefli og tapað fimm. Án hans höfum við unnið einn leik.
Í þessum 10 leikjum hans hefur Harry Kewell valdið vonbrigðum, augljóslega, að því leytinu til að hann hefur ekki enn komist á blað á tímabilinu. Harry Kewell skoraði grimmt í upphafi síðasta tímabils en nú, eftir tæpa tvo mánuði, á hann enn eftir að skora mark.
Í þessum 10 leikjum hans hefyr Harry Kewell skilað sínu sem kantmaður að því leytinu til að hann hefur átt þrjár stoðsendingar, en það er með því hærra af öllum leikmönnum í Úrvalsdeildinni (ég held að Thierry Henry sé með flestar, einhverjar 5-6 stoðsendingar, en mér gæti skjátlast).
Tölfræðilega höfum við átt í vandræðum með að skora mörk á útivelli og þar er Harry Kewell einfaldlega einn af mörgum sem þurfa að taka sig á. Á heimavelli gæti hann með smá heppni hafa verið búinn að skora nokkur en það hefur ekki fallið honum í vil hingað til. Hins vegar – ef við aðdáendurnir gátum fyrirgefið Michael Owen fyrir að spila 10 leiki í röð án þess að skora mark þá hljótum við að geta fyrirgefið kantmanninum Harry Kewell þetta sama afbrot.
En það er nú samt ekki svo. Gagnrýnin á Ástralann knáa hefur verið mikil, reyndar svo mikil að mér stendur hreint ekki á sama. Ég veit vel og geri mér fulla grein fyrir að hann hefur ekki verið upp á sitt besta í vetur.
En það hafa Didi Hamann, Steve Finnan, Sami Hyypiä, Jerzy Dudek, Djibril Cissé, Milan Baros, Steven Gerrard, Salif Diao og Djimi Traoré ekki heldur verið.
Reyndar myndi ég ganga svo langt að segja að aðeins þeir Xabi Alonso, Luis García, Josemi, John Arne Riise og Jamie Carragher séu búnir að spila framar vonum í haust. Riise virðist endurnærður undir stjórn nýs þjálfara, Spánverjarnir okkar þrír hafa aðlagast hraðar en nokkur þorði að vona (sem sést best á Cissé, sem mun greinilega þurfa meiri tíma en þeir) og Jamie Carragher hefur fest sig rækilega í sessi í miðri vörninni og eftir Man-of-the-Match frammistöðu gegn Chelsea er hann orðinn algjörlega ómissandi í þessu liði.
Þannig að það hlýtur að teljast skrýtið að eftir hvern einasta tapleik virðast aðdáendur flykkjast á hvert spjallborðið á fætur öðru, blaðamenn skrifa greinarnar í gámatali og hver einasti “sófasérfræðingur” keppast við að láta skoðun sína í ljós.
Og skoðanir þeirra virðast allar vera þær sömu: Að Harry Kewell sé Rauðu Treyjunni til skammar!
Ég spyr: af hverju?
Þótt hann sé ekki búinn að spila upp á sitt besta, af hverju er það honum og honum einum að kenna að Liverpool hafa tapað fyrir Man U, Bolton og Chelsea? Var Steven Gerrard, fyrirliði vor og besti maður liðsins, ekki alveg jafn dapur og Harry Kewell gegn Bolton og Man U? Voru hinir miðju- og sóknarmenn liðsins ekki alveg jafn slæmir og Kewell gegn Chelsea – ef ekki verri?
Hvað með Olympiakos-leikinn? Við sáum Harry Kewell berjast og reyna þar en bakvörður Grikkjanna hafði hann í vasanum allan leikinn. Samt, hann barðist við að reyna að skapa eitthvað – sem er meira en hægt er að segja um marga í þeim leik. Af hverju er þetta þá allt honum að kenna?
Maður fær það á tilfinninguna að ef aðdáendurnir þarna úti gæti talað við Harry Kewell í eigin persónu myndu þeir ráðleggja honum að hætta að spila fótbolta – eða í það minnsta hypja sig frá Liverpool?!?!?
Ef ég hins vegar gæti talað við Harry Kewell í eigin persónu og ráðlagt honum myndi ég segja honum að þetta væri allt á réttri leið – hann þyrfti bara að vera viss um að lærið og ökklinn væru ekkert að trufla hann og einbeita sér að því að gera það sem hann á að gera: koma sér í skotstöðu oftar, skjóta oftar á markið og reyna að taka menn á oftar. Það finnst mér einna helst hafa vantað í leik hans í haust.
Vinnslan hans fyrir liðið er hins vegar ekki til umræðu og mér finnst algjörlega óþolandi að menn séu að gagnrýna hann fyrir leti þegar það er augljóslega ekki málið. Harry hefur unnið betur undir stjórn Benítez í haust en hann gerði í allan fyrravetur, þar sem hann naut talsvert meira frelsis í liði Houllier sem ætlaði honum engar varnarskyldur. Hversu oft sáuð þið Harry Kewell vinna aftur að eigin vítateig og kóvera fyrir bakverðina okkar í fyrra? Sjaldan. En það sjáum við í hverjum leik nú í vetur, auk þess sem hann er farinn að linka miklu betur við Alonso, Gerrard og hina miðjumennina okkar.
Ég bara skil ekki þessa þráhyggju manna fyrir að ráðast á Harry Kewell eftir tapleiki. Væruð þið frekar til í að vinna alla leiki 1-0 og vera með hundleiðinlegt lið eins og Chelsea? Við reyndum það fyrir tveimur árum, vorum ósigraðir eftir 12 leiki og með 7 stiga forskot á Arsenal á toppnum. Og við munum öll hvernig það tímabil endaði, ekki satt?
Það er ekki eins og Damien Duff eða Géremi séu að skapa meira fyrir Chelsea en Kewell gerir fyrir Liverpool, er það? Hvað er Cristiano Ronaldo – þrátt fyrir alla sína tilburði – búinn að skora mikið fyrir Man U í vetur? Giggs er búinn að skora eitt mark, að öðru leyti hefur hann ekki haft sig mikið í frammi.
Og nei, það þýðir ekki að miða Kewell við vængmenn Arsenal. Það er ósanngjarnt að ætlast til að hann skori jafn mikið + leggji eins mikið upp og þeir Pires, Ljungberg og Reyes hjá Arsenal. Þeir eru sér á báti hvað markaskorun varðar í ár.
Ég segi: Harry Kewell á fullt erindi í þetta lið. Við þurfum að sýna honum þolinmæði – það er greinilegt að meiðsli hafa verið að hrjá hann. Við vitum að hann spilaði þrátt fyrir meiðsli á vormánuðunum, þar sem ökklinn hrjáði hann þrálátlega. Í vetur hefur ökklinn haldið en það er ákveðinn sálfræðilegur múr sem þarf að yfirstíga eftir ökklameiðsli, mönnum hættir til að hlífa sér aðeins í tæklingum. Harry Kewell hefur hlíft sér í tæklingum í haust, en það er ekki eins og hann sé sá fyrsti sem gerir það. Auk þess er hann kantmaður eða framherji og því varla hægt að ætlast til að hann hendi sér í hverja einustu tæklingu, Jamie Carragher-style!??? Hmmm?
Þá hefur lærið verið að pirra hann í haust og hann missti af Norwich-leiknum vegna þessa, og þegar þetta er skrifað er hann að missa af landsleik Ástrala gegn Salómon-eyjum á morgun vegna meiðslanna í læri. Það er því ómögulegt að segja nákvæmlega hversu heill heilsu Harry Kewell er þessa dagana. Það hefur þó aldrei stöðvað hann í að vinna á fullu fyrir Liverpool í hverjum einasta leik.
Mín spá er sú að með hverjum leiknum sem Kewell spilar muni sjálfstraust hans gagnvart meiðslunum vaxa, og þá munum við bæði sjá hann verða áræðnari með boltann sem og snerpu hans aukast. Um leið og það gerist verður hann grimmari og mun fara að ógna marki andstæðingana meira – og já ég býst fastlega við að hann verði kominn með a.m.k. eitt mark undir beltið áður en októbermánuður er úti. Og ef ekki, þá eigum við að spila við Arsenal í nóvember … og Harry Kewell elskar fátt meira en að skora gegn Arsenal! 🙂
Benítez prófaði í leiknum gegn Chelsea að spila með Kewell í holunni fyrir aftan Djibril Cissé, og virtist vera hrifinn af Harry í leiknum:
>I was happy with the five changes I made and I played Harry up front because I wanted us to keep the ball in attack. I thought Harry played very well.
Ef Rafa er ánægður þá nægir það mér! Spurningin er enn hvort Rafa telur sig geta nýtt Kewell best á vinstri kantinum eða í framherja en það sér það hver heilvita maður að þessi maður er einn lykilleikmaðurinn í sóknarlínu Liverpool FC í vetur, hvar á vellinum sem hann spilar. Hann hefur ekki verið að spila sinn besta bolta undanfarið, og hann viðurkennir það sjálfur, en að mínu mati er ekki langt í að hann finni sitt besta form – og þá mun gagnrýnin vonandi deyja.
Á meðan við bíðum eftir að hann detti aftur í stuð þá held ég að það sé vert að minna Liverpool-aðdáendur nær og fjær á að Harry Kewell er bara einn af ellefu leikmönnum sem spila í leik og það að gefa það í skyn að hann sé ábyrgur fyrir taphrinu Liverpool undanfarið er gjörsamlega fáránlegt, svo ekki sé minnst á ósanngjarnt!
Já, menn verða að hafa einhvern leikmann til að kenna öllum óförunum um.
Í fyrra höfðum við augljós skotmörk í Emile Heskey og Gerard Houllier. Ef þeir klikkuðu, þá allavegana Michael Owen.
Núna eru svo margir nýjir menn og nýr þjálfari, sem menn vilja ekki gagnrýna. Það er ólíklegt að menn gagnrýni Gerrard, Carra eða Hyypia og þess vegna er Kewell einn af fáum, sem menn eru tilbúnir að gagnrýna.
Hann hefur líka valdið okkur vonbrigðum. Hann átti að vera miðjumaðurinn, sem myndi skapa mörkin fyrir okkur, en það hefur ekki gerst. Við vitum öll hvað hann getur og hann veit það líka. Við vitum að hann er að spila undir getu og það veit hann líka.
Ég er alveg klár að Kewell mun ná sér. Benitez mun takst að ná meira út úr Kewell. Ég er alveg pottþéttur á því. Við þurfum bara að sýna smá meiri þolinmæði.
Þið eruð snillingar að gera eina setningu að ritgerð :biggrin2:
Harry Kewell hefur verið slakur á tímabilinu þrátt fyrir 3 stoðsendingar, og hann getur meira…punktur!
Eiki – það væri líka hægt að segja “Harry Potter fer í galdraskóla, lendir í lífsháska en sleppur á endanum ómeiddur.”
En það væri ekki jafn skemmtilegt og að lesa alla bókina, er það nokkuð?
Satt satt. Líka hægt að taka Kewell út úr liðinu og þá hafa öll þessi orð verið óþörf :biggrin: