Þetta er Lucas Neill, bakvörður Blackburn Rovers og Ástralíu. Síðast þegar Lucas mætti Liverpool var hann rekinn útaf fyrir að tækla Sinama-Pongolle aftanfrá inní vítateig, sem var beint rautt spjald og við fengum vítaspyrnu sem Danny Murphy skoraði úr. Við unnum þann leik, í Deildarbikarnum, 4-3.
Síðast þegar Lucas Neill mætti Liverpool í Úrvalsdeildinni lærbraut hann Jamie Carragher í einni ljótustu tæklingu sem ég hef á ævinni séð. Frammistaða Lucas Neill í þeim leik er sennilega sú eina sem ég hef séð síðasta árið sem gæti talist grófari en það sem Kevin Muscat sýndi okkur á þriðjudaginn. Þá ökklabrotnaði Milan Baros einnig í þeim leik.
Eins og menn muna rifust Gérard Houllier og Graeme Souness heiftarlega í fjölmiðlum eftir tæklingu Neills, þar sem hvorki Neill né Souness báðu afsökunar. Þetta staðfesti Carra í viðtali í dag, þar sem hann sagði að Neill hefði komið til sín eftir leikinn og sagt að tæklingin hefði verið óviljandi. En hann baðst ekki afsökunar. Og Carra er ósammála ‘túlkun Neills á atvikinu’, eins og hann orðaði það svo snilldarlega.
Bara svo að það sé á hreinu, þá er Jamie Carragher kóngur. Legend. Sennilega flottasti persónuleikinn á Merseyside þessa dagana. Algjör snillingur.
En allavega, nú eru bæði Houllier og Souness horfnir á braut og í þeirra stað komnir Rafa Benítez og Mark Hughes. Hughes hefur í síðustu leikjum reynt að leggja áherslu á vinnusemi og baráttu og að krækja sér í eitt og eitt stig. Það hefur ekki gengið, hann hefur tapað hverjum leiknum á fætur öðrum síðan hann tók við þessu liði í októberbyrjun.
Tugay var rekinn af velli um síðustu helgi fyrir fólskubrot og verður því ekki með í dag. Annars ætti hann að hafa sitt sterkasta lið.
Okkar lið í dag verður – líklega, að mínu mati – svona skipað:
Finnan – Carragher – Hyypiä – Riise
García – Alonso – Hamann – Kewell
Cissé – Baros
Þetta er – eins og glöggir menn sjá – sama byrjunarlið og gegn Charlton fyrir viku, fyrir utan eina breytingu. Uppgangur Djimi Traoré í síðustu leikjum hefur gert Benítez erfitt fyrir, þar sem það hefur fyrir vikið ekki verið pláss í liðinu fyrir Harry Kewell eftir að hann kom inn úr meiðslum. En þar sem Djimi var látinn spila á þriðjudaginn þá grunar mig einhvern veginn að hann verði á bekknum í dag og Kewell byrji inná. Það gæti verið vitlaust – og þá yrði Djimi í bakverðinum og Riise á kantinum – en mér finnst þetta allavega líklegt.
Hitt spurningarmerkið er með Steve Finnan í bakverðinum. Josemi hefur haldið þessari stöðu í haust en var í banni gegn Charlton. Þar lék Steve Finnan algjörlega súpervel og því finnst mér líklegt að hann haldi stöðu sinni í liðinu. Læt samt ekki koma mér á óvart ef ég sé Josemi þarna í upphafi leiks.
Þá var spurning hvort að Luis García gæti spilað leikinn, þar sem hann varð pabbi í fyrsta sinn á fimmtudag, en það er víst búist við því að hann verði með frá byrjun í dag.
Við höfum auðvitað bara unnið einn leik á útivelli í haust og það var sá síðasti, gegn Fulham, eftir að hafa lent 2-0 undir. Fulham-liðið var á þeim tíma lakasta liðið sem við höfðum heimsótt í deildinni en þetta Blackburn lið er sennilega enn verra. Þeir sitja á botninum, eru ekki með neina framherja af viti (Paul Dickov og John Stead hafa verið týndir í haust), þá vantar Tugay á miðjuna og þeir voru að skipta um stjóra. Þetta hlýtur að teljast frábær tími til að spila við þá, þar sem sjálfstraustið þeirra er í molum og flest allt annað í uppnámi.
Mín spá: Það er ekki mér líkt að vera borubrattur eða öruggur með mig á útivöllum, en ég ætla að spá okkur sigri í dag. Það geri ég einfaldlega af því að ég sé þá ekki ná að skora gegn okkur – og því gæti þetta verið spurning um hvað við skorum mikið. En ég ætla að tippa á sömu markatölu og gegn Charlton fyrir viku: 2-0 fyrir okkur og þeir Cissé og Baros skora mörkin! 🙂
Aðalmálið er bara að vinna leikinn í dag! Koma svo, áfram Liverpool!!!
**Viðbót (Einar Örn):** Já, mikið var nú gott að klára Fulham leikinn því maður var eiginlega búinn að gleyma þessari útivallagrýlu okkar.
En þetta er leikur, sem við EIGUM að vinna. Kemur ekkert annað til greina. Öll liðin fyrir ofan okkur, fyrir utan Bolton og Everton, eiga nokkuð auðvelda leiki um helgina og ég býst við að Chelsea, Man U og Arsenal vinni gegn West Brom, Portsmouth og Southampton. Því verðum við að vinna.
Og ég hef trú á að við tökum þetta. Ég spái 2-0 eða 3-1. Ég bara trúi ekki öðru! 🙂