Einar, ég veit þú verður hundfúll þegar þú lest þetta, en Benítez er víst reiðubúinn að bjóða Didi Hamann nýjan samning og tryggja sér þannig þjónustu Þjóðverjans næstu tvö-þrjú árin, að minnsta kosti.
Mitt mat er það í raun og veru að ég er ánægður ef hann verður lengur. Ég hefði verið hundfúll ef þetta hefði verið Houllier að bjóða Hamann nýjan samning, þar sem Hamann átti sæti sitt í byrjunarliðinu víst undir stjórn Houlliers. En Benítez hefur þegar sýnt okkur að hann ætlar sér ekki að nota Hamann í alla leiki, hann hefur meira að segja haft hann á bekknum í stöku leikjum eftir að Gerrard meiddist.
Hamann er ennþá einn sá besti í bransanum í því sem hann gerir. Þetta svokallaða skítadjobb á miðjunni, sem enginn miðjumaður fær nóg hrós fyrir. Didier Deschamps vann þetta í mörg ár hjá Juventus, síðan Chelsea, og heims- og Evrópumeisturum Frakka. Patrick Vieira hefur sinnt þessu um árabil hjá Arsenal, Marcel Desailly gerði þetta að listgrein hjá AC Milan og svo mætti lengi telja. Hamann telst fyllilega í sama hópi og þessir menn, enda þótt Klinsmann hafi misst trú á honum í haust og hætt að velja hann í landsliðið hefur hann verið einn mikilvægasti hlekkur þýska landsliðsins undanfarin ár. Það eru einfaldlega fáir betri en Hamann í að vinna boltann af miðjumönnum andstæðinganna, og skila honum svo til manna eins og Xabi Alonso og Steven Gerrard, sem eiga að stjórna spilinu.
Vandamálið með Hamann hefur aldrei verið skortur á getu heldur bara það að leikur hans, sem miðjumanns, er allt of einhæfur. Eins góður og hann er í varnar- og stopparavinnunni þá er hann steingeldur í sóknaraðgerðum. Hann hittir svona þremur langskotum á markið á ári, og fer jafnan þeirra eitt inn með glæsibrag. En að öðru leyti þá er mjög lítið sem Didi Hamann leggur af mörkum til sóknarinnar hjá Liverpool – og þegar hann spilar á miðjunni hjá okkur erum við bara með þrjá miðjumenn sem geta sótt, sem er ekki alltaf það sem við þörfnumst.
Munið eftir leiknum í UEFA keppninni, febrúar 2001, þegar við unnum Roma á útivelli 2-0 og Owen skoraði bæði mörkin? Í þeim leik var maður eins og Dietmar Hamann ómetanlegur. Hann var stöðugur þyrnir í síðu Rómverja og stöðvaði miðjuspil þeirra einn síns liðs. Það var einn af þessum leikjum hans sem standa upp úr á ferlinum.
Að sama skapi þá sást vel hversu mikilvægur hann er í svona erfiðum útileikjum, þar sem varnarvinnan þarf að vera á hreinu, í því hvernig Liverpool lék gegn Bayer Leverkusen í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar ári síðar. Þá virtumst við vera á leið í undanúrslitin þangað til Houllier tók Hamann útaf – sem eru í dag talin ein af hans stærstu mistökum sem stjóra – og eftir það óðu þeir Lucio (miðvörður) og Michael Ballack (miðjumaður) upp í gegnum vörnina okkar miðja hvað eftir annað, þar sem enginn var þar fyrir framan til að kóvera vörnina.
Á móti kemur leikur eins og í gær, gegn Blackburn, þar sem við vorum að sækja fast og pressa stíft í leit að jöfnunarmarki, og svo sigurmarki. Og í þeim leik sást vel hversu mikill akkilesarhæll Hamann er þegar við erum að sækja. Hann vann nokkra bolta í þessum leik en honum gekk erfiðlega að skila boltanum frá sér á samherja, og byggja upp sóknir. Allt of oft enduðu sóknir okkar á ótímabæran hátt með því að hann gaf frá sér boltann.
Þannig að Hamann er ekki jafn alhliða leikmaður og Gerrard eða Alonso, en það breytir því ekki að mínu mati að við getum glaðst yfir því að hann framlengi samning sinn við Liverpool FC. Hann mun ekki spila alla leiki og ég held að hann verði orðinn varamaður fyrir þá Gerrard og Alonso áður en um langt líður … en þegar við þörfnumst þess sem hann gerir best, þá verður ekki ónýtt næstu árin að geta kallað hann inn í liðið.
Hver veit nema við þurfum að spila erfiðan útileik við lið eins og Juventus eða Barcelona í Meistaradeildinni eftir áramót? Ef það gerist, þá veit ég að ég verð feginn að hafa Hamann í mínu liði.
Nú, Hamann er ekki sá eini sem verður lengur en fram á næsta sumar hjá Liverpool. Rafa Benítez segist hafa rætt við konuna sína um það að búa sig undir að vera í Liverpool næstu 15 árin. Sem hlýtur að gleðja okkur mjög mikið.
Hann hefur greinilega horft á menn eins og Wenger (9 ár) og Ferguson (17 ár) og hugsað með sér að til að ná sama árangri og þeir, og til að vera nefndur í sömu andrá og þeir, er ekki nóg að vinna titil með Liverpool. Hann verður að vinna titla – í fleirtölu – og gera það yfir margra ára bil. Ég veit ekki með ykkur en mér léttir allavega að vita að hann ætli ekki að vinna eina dollu með okkur og svo hlaupa til Real Madríd við fyrsta boð. Þetta eru góðar fréttir.
Vill einhver veðja hvort að Hamann endar sem þjálfari í starfsliði Benítez? 🙂
Hamann pissar í buxurnar
Ok, þetta eru ekki jafnslæmar fréttir og þær hefðu verið undir Houllier.
Ég hef í raun ekkert á móti því að hafa Hamann í hópnum. Hann er enn betri en Diao og Biscan, sérstaklega á útivelli. En hans hlutverk **verður** að vera sem varamaður. Hann er ekki í þeim gæðaflokki að vera miðjumaður númer 1 eða 2 hjá toppliði lengur.
Benitez hlýtur að vera á sömu skoðun og 99% stuðningsmanna um að Gerrard og Alonso séu miðjumenn númer 1-2. En ég er bara hræddur um að hann leiðist útí eitthvað bull, einsog að setja Gerrard eða Alonso á kantana til að hafa Hamann inná. Það væru mikil mistök.
En semsagt,
Hamann sem varaskeifa=fínt
Hamann, sem aðalmaður=slæmt.
Hefur enginn tekið eftir því hversu aftarlega Alonso situr á vellinum, sem virðist neyða Haman til að hlaupa fram. Alonso vill vera við miðjuhringinn og dreifa boltanum þaðan, hann er miklu minna í því að hlaupa inní teig eins og Gerrard. Þessi feimni hjá Alonso lætur Haman líta illa út, eða í það minnsta verr en gæti verið.
Jamm, Alonso er náttúrulega að spila í sömu stöðu og Hamann. Hann hefur alltaf verið þessi varnarsinnaði miðjumaður.
Þess vegna myndi hann passa fullkomlega með Gerrard. Alsonso vill sitja aftar, en Gerrard nýtur sín best þegar hann fær að fara með í sóknina.
Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að ég hef viljað hafa Biscan með Alonso í stað Diao, þegar Hamann hefur verið tekinn útaf. Diao, Alonso og Hamann spila allir sömu stöðuna, en Biscan og Gerrard eru talsvert sókndjarfari.
Ég held að Gerrard og Alonso verði *skuggalega* góðir saman.
Gerrard og Alonso fyrsta par á miðjuna.
Hamann, Biscan og síðan Diarra varamenn fyrir þá og jafnvel Potter og Welsh.
Selja Diao í janúar!
Finnst að okkur vanti cover fyrir Garcia á kantinn, get ekki séð Finnan verða hægri kantur í toppliði. Er ennþá að meta Josemi sem hægri bakvörð. Ótrúlega gaman að sjá að Riise er að koma til aftur. Warnock er mikið efni. Kewell er í lægð og vonandi nær hann sér á strik. Traore er byrjaður að sýna styrk sinn. Vignal kemur síðan inní þetta að ári.
Þetta lítur vel út.
Ég held nú að Nunez eigi pottþétt að vera cover, eða þá aðalmaðurinn á hægri kantinum.
Einnig gleymist Smicer í allri þessari umræðu. Hann kemur nú vonandi aftur.
Varðandi Josemi, þá hefur hann valdið mér miklum áhyggjum í síðustu leikjum. Hefur verið mjög óstabíll.