Everton 1 – Liverpool 0

carsley-derby.jpg**Þetta er opið bréf til Rafa Benitez**:

Kæri Rafa,

Í fyrsta lagi, til hamingju með starfið. Ég trúi því af öllu hjarta að þú sért maðurinn, sem muni leiða Liverpool uppí þær hæðir, sem hæfa liðinu. Þú hefur sýnt okkur að þú ert frábær þjálfari og að þér er annt um gengi liðsins.

Liðið hefur líka á stundum spilað frábæra knattspyrnu og þú átt hrós skilið fyrir að skýla þér aldrei á bakvið afsakanir líkt og meiðsli eða mistök dómara. Ég er sannfærður um að þú munt færa okkur bikar á þessu tímabili og marga í framtíðinni.

Ég hef hins vegar fylgst með nánast hverjum einasta leik með Liverpool undanfarin ár og ég ætla að miðla smá af þekkingu minni á Liverpool leikmönnunum til þín.

Til að byrja með, Salif Diao kann ekki fótbolta. Svo einfalt er það. Hann kann jú að tækla, en hann getur ekki skilað af sér einni góðri sendingu og hann er nánast öruggur með að fá spjöld í hverjum leik af því að hann brýtur af sér klaufalega.

Í öðru lagi, Didi Hamann getur ekki spilað sóknarbolta fyrir fimmaur. Hann er frábær í að stöðva sóknir andstæðinganna, en hann fær blóðnasir þegar hann kemst nálægt vítateig andstæðinganna og hann getur *ekki* skotið á markið. Markið, sem hann skoraði gegn Englendingum hefur stimplað þá ranghugmynd inní marga að Hamann sé skotmaður, en hann er það ekki.

Þetta leiðir mig að þriðja punktinum. Ef við höfum lært eitthvað, þá er það að það á aldrei, ALDREI að láta Hamann og Diao spila saman í liðinu. Það er álíka gagnlegt fyrir sóknarleik Liverpool og að byrja með tvo markmenn. Rafa, þú manst kannski hvernig það virkaði síðast þegar Hamann og Diao voru saman á miðjunni. Það var gegn [Fulham](http://www.kop.is/gamalt/2004/10/16/17.12.52) í október. Þú manst eflaust líka að liðið gat ekki NEITT þangað til að Xabi Alonso kom inn fyrir Diao í byrjun seinni hálfleiks.

Við skiljum það vel að Xabi Alonso (sem þú átt óendanlega mikið hrós skilið fyrir að hafa keypt) þurfi hvíld öðru hvoru. En hann á ekki að fá þá hvíld gegn Everton. Og hann getur einfaldlega ekki hvílt sig nema að Igor Biscan sé heill og geti komið inní liðið.

Ég ætla ekki að skamma Spánverjana, sem þú keyptir. Reyndar virðist Josemi ekki vera að finna sig hjá Liverpool, en Núnez hefur spilað of fá leiki til þess að hægt sé að dæma hann.

Ég vil að lokum biðja þig um að vinsamlegast kaupa Nicolas Anelka, ekki seinna en 2.janúar. Neil Mellor er ágætur, en hann er ekki nógu góður til að bera uppi sóknina okkar. Einnig væri ráð að kaupa markmann, sem actually ver einhvern tímann boltann. Ég hafði eitt sinn álit á Chris Kirkland, en það er ansi nálægt því að hverfa. Ég trúi því varla að ég sé að segja þetta, en ég vildi fremur hafa David James í markinu, heldur en þá Dudek eða Kirkland. Geturðu ekki platað Canizares til að koma til okkar í janúar?

Ég vona að allt saman sé þetta skýrt og að Salif Diao hafi spilað sinn síðasta leik fyrir Liverpool. Gangi þér vel!

Kveðja, Einar Örn – Liverpool aðdáandi.


Ok, við töpuðum 1-0. Svona var liðið:

Chris Kirkland

Josemi – Carragher – Hyypiä – Riise

Pongolle – Hamann – Gerrard – Diao – Kewell

Mellor

Æ, ég nenni varla að skrifa um þetta. Þetta var ömurlegt. Fyrir utan Steven Gerrard var engin ógnun frá Liverpool. Gerrard hefði átt skilið að skora, en það bara gekk ekki upp.

Liverpool voru með tvo varnarmenn (Diao og Hamann) á miðjunni, en SAMT stjórnuðu Everton menn miðjuspilinu og voru meira með boltann nær allan leikinn. Vörnin var mjög slöpp, ég nenni ekki að vera að sparka frekar í Josemi, þar sem hann er augljóslega ekki með neitt sjálfstraust þessa stundina.

Mellor veitti enga ógnun, hann átti aldrei sjens í varnarmenn Everton. Eina ógnunin kom frá Gerrard og svo smá frá Pongolle og Kewell. Hamann og Diao voru báðir hrikalega lélegir og varamennirnir, Traore, Núnez og Alonso skiluðu nákvæmlega engu.

Chris Kirkland er farinn að valda mér verulegum hausverk. Hann bara getur ekki nokkurn skapaðan hlut þessa stundina. Nefnið mér hvenær hann síðast varði virkilega vel! Ég get ekki rifjað upp einn einasta leik, þar sem að hann hefur staðið sig virkilega vel. Besta einkunnin, sem ég get gefið honum er að hann hafi verið svona lala í þessum leikjum. En núna er það svo að í síðustu þremur leikjum: Aston Villa, Olympiakos og nú Everton hefur Kirkland ekki varið einn einasta bolta en í öllu leikjunum fengið á sig algjör aula mörk úr skotum fyrir utan vítateig. Það er alveg ljóst að Dudek eða jafnvel David James hefðu aldrei fengið þessi mörk á sig.

Markið, sem að stórstjarnan Lee Carsley skoraði, var ömurlegt. Laflaust skot frá vítateigslínunni, sem Kirkland gat ekki varið. Kirkland var illa staðsettur, en þrátt fyrir það hefði hann átt að verja boltann. Skamm, Kirkland! Ég vil sjá nýjan markmann í janúar. Svo einfalt er það.

**Maður leiksins**: Gerrard, en samt lék hann ekki vel. Það voru langflestir slappir. Þetta var einfaldlega ekki nógu gott. Rafa Benitez þarf að hugsa sig miklu betur um áður en hann stillir upp öðru eins rugl liði og hann stillti upp í dag.

Við náum ekki árangri ef við getum ekki leikið tvo almennilega leiki í röð. Svo einfalt er það. Núna erum við í 7. sæti og gætum dottið niður í það tíunda. Síðan við unnum Arsenal höfum við gert jafntefli og tapað og aðeins skorað eitt mark. Þetta er EKKI NÓGU GOTT!

Ef við skoðum síðustu leiki í deildinni, þá lítur þetta út svona

Blackburn: JAFNTEFLI
Birmingham: TAP
Crystal Palace: SIGUR
Middlesboro: TAP
Arsenal: SIGUR
Aston Villa: JAFNTEFLI
Everton: TAP

Við höfum ekki unnið tvo leiki í röð síðan við unnum Fulham og Charlton í enda október. Í raun er það í EINA SKIPTI Á LEIKTÍÐINNI, sem við höfum unnið tvo leiki í röð. Það er ekki furða að við skulum vera um miðja deild.

17 Comments

  1. Af hverju ertu hissa á því að Everton hafi stjórnað miðjunni “þrátt fyrir” að Liverpool hafi verið með tvo varnarmenn þar? Ég sé ekki endilega hvers vegna það þarf að haldast í hendur, varnarmenn á miðju = possession? Einnig langar mig að segja að ég, og margir non-púllarar sem ég þekki eru ótrúlega hissa á þessari Kirkland dýrkun hjá ykkur. Hann hefur aldrei sýnt neitt sem bendir til þess að hann sé framtíðarlandsliðsmarkvörður Englands, og svo sannarlega ekki að hann sé betri en Dudek… Dudek gerir einstaka sinnum mistök, eins og margir markmenn, en hann tekur stundum alveg rosalegar markvörslur sem Kirkland gæti bara látið sig dreyma um.

    Ég er náttúrulega ekki hlutlaus, en mér finnst tveir enskir markmenn bera af löndum sínum í dag, Paul Robinson og Robert Green hjá Norwich. Norwich falla alveg örugglega, en ég skal lofa þér því að þeir myndu falla enn harkalegar ef þeir væru ekki með Green á milli stanganna. Frábær markvörður. Vinsamlegast kaupið hann svo hann fari ekki á Highbury eða Old Trafford.

  2. Ég held að það myndi engu breyta þó Biscan væri heill, ekki fékk hann mikið að spila meðan Gerrard var frá í meiðslum. En mér þykir það merkilegt að Liverpool vörnin virðist arfaslök. Miðjan verst vel og ef það er lítil pressa ráða Carragher og Hyypia vel við allt, en þegar andstæðingarnir ná að pressa og bakverðir + miðjumenn þurfa að koma í hjálparvörn þá fer allt í handaskol, t.d. í aðdragandanum að markinu í dag fóru 3 menn í einn í teignum sem þýddi að vítateigslínan var óvarinn og Carsley fékk nægan tíma til að rúlla boltanum inn. Fyrir svo utan Kirland, núna hlýtur Dudek að fá séns aftur, hann getur þó varið boltann öðru hverju.

    Svona í framhjáhlaupi, var ekki merkilegt að sjá hversu lítið boltinn gekk í gegnum miðjuna hjá okkur? Langar sendingar uppí hornin voru aðalsmerki dagsins. Ég hef einmitt verið að velta því fyrir mér hvort að Gerrard og Alonso geti spilað saman, því þeir þurfa báðir að fá boltan aftarlega á miðjunni til að fá að sýna sig. Það eru bara ekki nógu margir boltar í boði.

  3. Einsidan, ég var ekkert hissa á þessu. Ég vildi bara benda á að það var magnað að þrátt fyrir að við værum með þessa varnarsinnuðu menn, þá hafði það engin áhrif á sóknarspil Everton.

    Og varðandi Kirkland, þá höfum við Liverpool menn alltaf verið að bíða eftir því að Kirkland yrði æði. Hann var stórkostlegur þegar hann spilaði fyrir Coventry, en hann hefur alls ekki spilað vel. Í fyrra þá gerði hann engin mistök þegar hann kom inn og virkaði sterkur, en á þessu tímabili hefur hann verið langt frá því að vera sannfærandi. En ég bara höndla það ekki að fá Dudek aftur í markið. Það eitt hækkar púslinn hjá mér um 30 slög.

    Og Daði, ég er ósammála þessu um Alonso og Gerrard. Þeir hafa spilað að mínu mati mjög vel. Vandamálið er Hamann og Diao. Alonso er sá varnarsinnaðri og Gerrard sá sóknarsinnaðri. Báðir geta svo sótt og báðir varist. Að mínu matu ættu þeir að vera hið fullkomna miðjupar.

    Ef að Benitez ætlar að nota þessa þriggja manna miðju, þá verður hann að fá betri mann en Didi Hamann til að vera með þeim Xabi og Stevie.

  4. Í fyrsta lagi vil ég spyrja þig, Einar Örn, hvort að þú hafir skilið hugmyndina á bakvið þessar breytingar á liðinu ? Mér finnst, samkvæmt skriftum þínum, að þú hafir ekki skilið hugmyndina á bakvið Didi og Diao og að þú kunnir ekki að meta hlutverk Didi á miðjunni. Ef að þú lítur á liðið sem að spilaði í dag þá er það augljóst hvað Benitez ætlaði sér að gera. Everton er búið að ná nokkuð góðum úrslitum undanfarið með því að spila góðan varnarbolta með 5 varnarmenn, Carsley sem 5. varnarmaðurinn og nota skyndisóknirnar. Benitez ákvað því að spila gegn eldi með því að beyta eld með því að stilla líka upp frekar varnarsinnuðu liði og þar með draga Everton framar á völlinn og nota hraða Pongolle og Gerrard (og því miður Kewell). Diao stóð sig vel á miðjunni í dag hjá okkur, miðað við það sem að hann átti að gera: koma tæklingum inn og vinna skalla bolta. Af þessu viðmiði að dæma þá höfðum við nokkurnveginn leikinn undir stjórn í fyrrihálfleik, fá færi voru sköpuð og höfðu Everton aðeins eitt marktækifæri í öllum fyrri hálfleiknum.

    Miðjuparið okkar stóð sig vel í dag og Riise átti ekkert slæmann leik. Josemi var í rauninni veikasti hlekkurinn okkar (og hefur verið undanfarna mánuði). Ég mundi segja að með þessum breytingum sem að Benitez gerði að hann var í rauninni frekar að reyna að ná stigi út úr leiknum og hvíla leikmenn sem að hann vill fá ferska gegn Portsmouth og ekki má gelyma því að sá leikur er á þriðjudaginn !!! Stærstu mistök okkar í leiknum átti Kirkland, hann átti að verja þetta skot ! Ég er nokkuð öruggur um það að Dudek hefði varið þetta og að eiginlega ætti annarhver markvörður í deildinni að verja þetta.

    Þetta var frekar slappur leikur en við erum með þunnan hóp og vonum að nokkrir góðir muni koma í janúar glugganum og að við fáum fjármuni til þess að eyða í góða leikmenn.

    En smá ábending til þín, Einar Örn, varðandi pistlana þína hér EFTIR leiki, þá er gott að kæla sig aðeins niður og bíða í 2-3 tíma þangað til að maður hefst handa en þú ert annars mjög fínn penni og gaman að lesa pistlana frá þér 🙂

  5. Jæja, ég var að horfa á leikinn á spólu (helvítis laugardagspróf) og ég verð að vera ósammála þér með nokkra punkta Einar:

    Salif Diao var ekki lélegur í þessum leik! Didi Hamann var ömurlegur, gerði ekkert af viti og Gerrard var furðulega lítið í baráttunni, miðað við það sem við eigum að venjast af honum. Hann var sennilega svolítið þreyttur eftir miðvikudaginn. En Salif Diao var ekki lélegur, hann vann slatta af boltum af andstæðingum í þessum leik, skilaði jafnan einföldum boltum á næsta samherja (í stað þess að dæla endalaust erfiðum boltum í innkast og markspyrnur eins og Gerrard og Riise) og átti nokkur góð markskot. Hann var ALLS EKKI svarti sauðurinn í dag.

    Hver var þá svarti sauðurinn? Að mínu mati, EVERTON. That’s who.

    Við vorum meira með boltann, við áttum miklu fleiri skot á mark og framhjá markinu, við áttum fleiri hornspyrnur, við vorum að spila betri bolta en samt var þetta bara baráttuleikur. Auðvitað getum við spilað miklu betur en þetta, og við eigum greinilega ennþá í vandræðum með að finna fótana á útivelli í deildinni, en við vorum samt miklu betra liðið í þessum leik.

    Af hverju töpuðum við þá þessum leik? Jú, af því að þeir skoruðu og við ekki. Sem er búið að vera sagan með Everton í vetur. Þeir hafa sérhæft sig í því að liggja í vörn og “stela” 1-0 sigrum, bæði á heimavelli og útivelli. Everton eru einfaldlega spútniklið þessa árs, þessi bóla sem mun óumflýjanlega springa fyrr en síðar.

    Mér er slétt sama hvort sú bóla springur á morgun, eftir mánuð eða í mars. Hún mun springa, það er ekki fræðilegur möguleiki að Everton endi fyrir ofan okkur í maí í deildinni … jafnvel þótt þeir séu 12 stigum á undan okkur núna. Þegar menn eru að spila ömurlega en vinna 1-0 þá kemur að því að heppnin snýst gegn manni … og þá eru menn bara að spila ömurlega, án þess að ná sigrum. Og þannig lið hrynja alltaf eftir áramót.

    Þannig að ég er í raun ekkert sótillur yfir þessu. Okkur sárvantar meiri ógn í sóknina (Baros í næsta leik og Anelka eftir mánuð, plííííís!) og þess háttar … en staðreyndin er samt sú að ég vildi frekar tapa í dag og ná sigri gegn Olympiakos en að tapa þeim leik og ná að sigra Everton. Ef leikurinn í dag var fórnarkostnaður, “þynnka” eftir Olympiakos-sigurinn, þá verður bara að hafa það.

    Já, og JOSEMI var algjörlega gallalaus í dag. Hann fékk fáránlegt gult spjald, var ekki einu sinni brot, en fyrir utan það steig hann ekki feilspor í þessum leik. Kevin Kilbane sást ekki í þessum leik. Josemi á alveg skilið að heyra það þegar hann spilar vel, eins og hann hefur verið gagnrýndur undanfarið. Hann var frábær í dag … Riise lenti í miklu meiri vandræðum með Leon Osman en Josemi gerði með Kilbane.

    Næst: Portsmouth á þriðjudaginn á Anfield. Vonandi hefst jólavertíðin okkar þá … eins og þú segir réttilega Einar þá höfum við aðeins einu sinni náð að sigra í tveim leikjum í röð í vetur. Við þurfum nauðsynlega á því að halda að sigra 3 af 4 leikjum um jólin … nauðsynlega. Svo liggur leiðin bara uppávið í janúar, þegar (vonandi) Anelka mætir á svæðið og við höfum aftur úr tveimur heimsklassaframherjum að velja!

  6. Já, ef þetta er ekki ekta Liverpool þá veit ég ekki hvað, það getur verið jafn erfitt og það er gaman að halda með svona liði.
    Leikurinn í dag var hreinasta hörmung, enginn kraftur, ekkert spil og engin markvarsla. Ég er að pæla í að þakka fyrir hönd Einars fyrir útskýringu Arons á leikaðferð okkar manna í dag, þar sem ég hélt að Diao væri þarna inni til þessa að setja kraft í sóknarleikinn.
    Annars var Diao alls ekki slakasta maðurinn á vellinum en það er ekki honum að þakka heldur voru allir aðrir hundlélegir nema kannski Hyypia.
    Það sást greinilega á leiknum á miðv. að Flo á að vera uppi á topp og taka við boltanum og dreifa, það er greinilega styrkurinn hans þó hann sé lítill og lágvaxinn. Hans styrkur er ekki að geysast framhjá mönnum upp kanntinn.
    Gerrard sást varla nema þessi nokkur skot hans og manni er spurn hver tilgangur þess er að hafa hann sem 3 miðjumann ef hann kemur aldrei og sækir boltann, hann var sífellt að reyna stinga sér innfyrir vörnina í von og óvon.

    Ef hann á að vera svona ofboðslega góður þá hlýtur það að vera kostur að hafa hann nálægt boltanum en ekki eins og stærri útgáfu af Owen.

    Síðan er það að mér finnst taktísk mistök að ætla vinna Everton á þeirra eigin leik, þeir eru lélegir þess vegna spila þeir svona bolta, afhverju erum við að beita sömu taktík, nema þá að við erum bara ekki með betri mannskap?

    Síðan langar mig rosalega að sjá Kirkland verja einn bolta, þó það væri ekki nema á æfingu, ég hef aldrei séð hann verja eitthvað sem ég hefði ekki getað varið.

    Þið fyrirgefið þennan pistil ef ég hef vaðið úr einu í annað, en svona er það að vera Poolari í dag!
    Kv,

  7. Aron, ef það var takmark Benitez að plata Everton með því að spila varnarbolta, þá minnkar álit mitt á Rafa talsvert við það. Ég las ekki þetta inní þessar breytingar Benitez einsog þú gerðir. Ég taldi að einsog í Arsenal leiknum þá myndi Benitez reyna að vinna miðjuspilið og dóminera þannig leiknum. Ég tel mun líklegra að það hafi verið ástæðan fyrir 5. miðjumanninum. En Diao er bara enginn Xabi Alonso og því fór sem fór. Það er ekkert alltof sniðugt að spila varnarbolta gegn varnarliði, sérstaklega vel skipulögðu varnarliði einsog Everton, því þeir láta ekki gabba sig framar á völlinn.

    Ég verð að segja að það er í raun magnað að lesa bæði orð þín og Kristjáns Atla um Diao. Finnst ykkur virkilega nóg að miðjumaður vinni nokkra bolta? Væri ekki takmark að þessi sami maður gæti skilað boltanum skikkanlega af sér FRAM á völlinn?

    Ok, Diao var ekki jafn hroðalegur og við höfum séð hann áður, en hann skilaði samt ekki neinu af viti og þeir Carsley og Gravesen voru miklu sterkari á miðjunni. Það sem eftir liggur er að Diao spilar ALDREI vel fyrir Liverpool. Við erum búnir að ganga í gegnum þetta í tvö ár núna. Fyrir utan smá kafla á fyrsta árinu, þá er Diao alltaf slappur.

    Og ég er sammála þér, BFI, það væri gaman að sjá svona “highlights reel” með tilþrifum Chris Kirkland á þessu ári. Það væri ansi fátæklegt myndband. Hann ver aldrei neitt. Þetta er hætt að vera fyndið. Ég hef haft áhyggjur af þessu í langan tíma, en einhvern veginn slapp Kirkland alltaf því hann fékk engin klaufaleg mörk á sig. En í síðustu leikjum hefur hann verið afleitur. Þessi úthlaup voru farinn að minna á verstu tímana með David James, þegar hann var hvað villtastur.

    Kræst, ég er greinilega ennþá veeeerulega pirraður.

    Og má ég spyrja líka hvað er með þetta “Houllier-esque” sóknarmenn á köntunum dæmi hjá Benitez? Pongolle var frábær á miðvikudaginn þegar hann spilaði FRAMMI. Hann er hins vegar mun minna gagnlegur á kantinum. Gæti ástæðan fyrir markaleysinu kannski verið sú að við erum alltaf bara með einn helvítis framherja frammi??? Pongolle er ekki kantmaður, ekki frekar en Emile Heskey.

  8. Og jú, Aron, auðvitað má maður róa sig aðeins niður eftir leikinn, en ég held að þetta sé bara áhugaverðara þegar maður skrifar strax eftir leik, bæði hápunktarnir og lægstu punktarnir. 🙂

    Svo er líka ágætt að fá útrás eftir erfiða tapleiki með skrifunum 🙂

  9. “Já, og JOSEMI var algjörlega gallalaus í dag. Hann fékk fáránlegt gult spjald, var ekki einu sinni brot, en fyrir utan það steig hann ekki feilspor í þessum leik. Kevin Kilbane sást ekki í þessum leik.”

    Er þetta eitthvað grín eða?
    Vorum við ekki að horfa á Everton-Liverpool, þann 11. des. 2004?

    Josemi var gjörsamlega útá þekju allan leikinn, varnarlega og sóknarlega.

  10. kristján atli, josemi var ekki gallalaus í dag… það var fáránleg sending hans beint í lappirnar á everton manni sem hófu sóknina sem endaði með sigurmarkinu…

    já mér hefur fundist þetta hálf vafasamt undanfarið hvernig skotnýting hjá mótherjum okkar hefur verið… þetta er ekki í fyrsta skiptið sem þeir hafa bara átt eitt skot sem hefur hitt rammann, og það skot hefur einmitt yfirleitt endað í netinu hjá kirkland….
    hvað þarf að gerast til þess að maðurinn verji skot???
    þarf það að vera laflaust og beint á hann… eða þurfa carrager og hypia að fara að spila betur en þeir hafa gert (er það hægt???) og koma algjörlega í veg fyrir að mótherjinn nái skoti???

    mér líst þó mun betur á liðsheildina núna en á sama tíma í fyrra… 🙂

  11. Ég þori með fullri samvisku að segja ykkur að Josemi lék vel í dag. Ég hef, eins og ég hef eflaust sagt milljón sinnum áður, þónokkuð vit á starfi bakvarðar.

    Kevin Kilbane skilaði einni sendingu fyrir markið í dag. Hún var frá miðjum vallarhelmingi Liverpool og Kirkland greip hana, enda einn í teignum.

    Kevin Kilbane sólaði Josemi 0 sinnum í dag. Hins vegar vann Josemi 4 bolta af Kevin Kilbane í dag. Josemi stöðvaði Kevin Kilbane svona 5-6 sinnum með því að tækla boltann í innkast í dag.

    Josemi braut þrisvar af sér í dag, þar af eitt skipti sem var ekki brot en var ranglega dæmt og hann fékk spjald fyrir. Engu að síður var Josemi mjög fastur fyrir í dag og lét finna fyrir sér líkamlega.

    Josemi vann mjög vel fram á við í dag. Hversu oft sáuð þið Sinama-Pongolle fá boltann í góðri stöðu á kantinum? Hver var að mata hann á þessum sendingum? Júúúú … bakvörðurinn fyrir aftan hann.

    Sem heitir Josemi.

    Þannig að látið hann vera. Við töpuðum í dag en það var ekki Josemi að kenna. Trúið mér, tölfræðin talar sínu máli en það gerir sjálfstraust hans líka. Hann var í góðu lagi í dag. Það er ástæða fyrir því að Rafa Benítez kýs hann fram yfir Steve Finnan í hægri bakvörðinn, og allir sem hafa nokkurn tímann spilað bakvörð á ævinni vita nákvæmlega af hverju.

  12. Úfff þetta hlaut að enda svona eftir frábær úrslit undanfarið gegn Asnaval og Olympiakos. Annars set ég spurningarmerki við “hugsanlegu kaup” á títtnefndum Anelka?

    Erum við ekki að tala um franska gaurinn sem slóg í gegn með Arsenal, var síðan keyptur til Real Madrid fyrir metfé, hrökklaðist þaðan með skottið á milli lappana eftir að hafa gert allt vitlaust þar.

    Hafði viðkomu í Frakklandi og var síðan lánaður til Liverpool en GH vildi ekki festa kappann enda launakröfurnar fáránlega háar. Frá Liverpool til Man shitty og hefur verið í miklum útistöðum við hæstráðendur þar??

    Ég tel Anelka ekki vera “Liverpool kaup”. Enginn getur neitað því að drengurinn kann fótbolta en hausinn á gaurnum virðist ekki vera í lagi. Fínt ef Anelka fæst á free transfer. Annars er ég á þeirri skoðun að Liverpool eigi EKKI að kaupa dýran leikmann í janúar þrátt fyrir þröngt val leikmanna nú um stundir.

    Bara mín skoðun :confused:

  13. Svavar, ég held að þessi saga um launakröfur Anelka sé ekki rétt. Finnst ólíklegt að ef að launin voru vandamálið að þá hafi hann endað hjá Man City.

    Einsog ég skildi þetta alltaf, og einsog mig minnir að Houllier hafi útskýrt þetta, þá snérist þetta um að Houllier var hræddur um agavandamál Anelka. Ég hef hins vegar ekki nándar nærri jafnmiklar áhyggjur.

    Hann er búinn að vera hjá City núna í nokkur ár án teljandi erfiðleika. Ég held einnig að hann vilji innilega spila fyrir Liverpool og að hann yrði ekki til vandræða þar. Ef við fáum hann fyrir einhverjar 5-6 milljónir punda, þá efast ég um að það séu til betri kaup á markaðinum.

  14. >Einsog ég skildi þetta alltaf, og einsog mig minnir að Houllier hafi útskýrt þetta, þá snérist þetta um að Houllier var hræddur um agavandamál Anelka.

    …og því keypti hann El-Hadji Diouf í staðinn. Smart move!

    Ég man að það kom fram í þessum málum fyrir tveim árum að Anelka var reiðubúinn að taka lægri laun en hann hafði hjá PSG til að spila fyrir okkur. Þannig að það var ekki vandamál. Það sem varð steinn í götu Houllier var ótti um agamál Anelka, sem er hálf fyndið því hann hefur hagað sér vel síðan hann kom til City, á meðan Dioufy virðist ekki enn vera búinn að læra að kyngja munnvatninu…

  15. Hi,
    (hope you speak english?)…I was goign to ask you if I could have permission to use the photograph you have on this page (“carsley-derby-thumb.jpg”)?

    I need an Everton vs Liverpool image for use on promotional material for Liverpool university.

    My email is jmarshal@liv.ac.uk

    Thanks,

    Jeremy

Nágrannaslagur í dag

Hversu góður er Chris Kirkland? (uppfært!)