Ókei, ég er búinn að ná að róa mig niður eftir jafnteflið gegn Portsmouth í gær. Pældi mikið í þessum leik í vinnunni í morgun og ég ákvað þegar ég kom heim að skrifa niður smá pælingar varðandi miðjuna hjá okkur. Einar mun svo bæta við þessa grein því sem hann hefur að segja, en hér eru allavega hugleiðingar mínar um fimm manna miðjuna:
Hún virkar. Fimm leikmenn á miðjunni, hver með sitt eiginlega hlutverk, og það svínvirkar bæði á heimavelli og útivelli. Varnarlega eykur fimm manna miðjan á þéttni okkar á miðjum vellinum, sem er mikilvægasta svæði leiksins, og sóknarlega býður fimm manna miðja upp á fleiri möguleika.
Þetta er staðreynd. Fimm manna miðjan virkar, en aðeins þegar hún uppfyllir þrjú skilyrði:
1. Það þarf að velja rétta menn í rétt hlutverk á fimm manna miðju. Þ.e.a.s., hver maður hefur mjög ákveðið hlutverk og það þarf að vera öruggt að viðkomandi geti sinnt því hlutverki.
2. Það verða að vera kantmenn sem eru á heimsmælikvarða á báðum vængjum til að þessi miðja verði ekki bitlaus. Ef kantmennirnir eru ekki að spila vel getur þessi miðja ekki skapað góðan sóknarbolta, þar sem fimm menn mynda þröngt setna miðju og eru því háðir því að geta látið boltann vinna alla breidd vallarins til að geta búið til svæði.
3. Þegar fimm leikmenn spila saman á miðjunni er fyrir vikið aðeins einn framherji í liðinu. Það er gríðarleg ábyrgð að vera fremsti maður í því sem er í raun og veru sex manna sóknarpýramídi, sérstaklega ef liðið lendir í því að þurfa að spila varfærnislegan bolta, því þá er téður framherji mjög einangraður frammi. Þetta kerfi getur því aldrei nokkurn tímann gengið nema að framherjinn sem leiðir fylkinguna sé í algjörum sérflokki hvað framherja varðar.
Ókei, þrjú atriði sem verður að uppfylla til að fimm manna miðjan geti gengið upp. Nú langar mig að fara yfir þessi atriði aftur og sjá hvernig þau ganga upp hjá Liverpool FC:
HAMANN
NÚNEZ – ALONSO – KEWELL
GERRARD
1. Hjá fimm manna miðjunni okkar er mjög skýr skipting á hlutverkum. Hamann situr aftast og “verndar” vörnina hjá okkur. Það hlutverk erum við með pottþétt. Fyrir framan hann er Alonso sem stjórnar miðjuspilinu, virkar eins og eins konar umferðarlögga. Allar sóknir liðsins fara í gegnum hann, hann dreifir boltanum um völlinn enda fáir betri sendingarmenn en hann. Þetta hlutverk er líka á hreinu. Þar fyrir framan leikur síðan Steven Gerrard lausum hala, má ráfa um völlinn að vild enda er hans starf það að finna tóm svæði víðs vegar um völlinn, fá boltann og koma sér í samstarf við kantmennina og/eða framherjann. Þetta hlutverk er líka mjög svo á hreinu.
2. Kewell og Núnez eru að koma til eftir slæmt haust og meiðsli en þeir eru samt hvergi nærri nógu góðir til að geta stutt þetta kerfi fyllilega. Þó hef ég þá von að þeir verði farnir að spila af fullri getu innan mánaðar báðir tveir, auk þess sem endurkoma Luis García mun bjóða upp á mjög góðan kost á hvorum kantinum sem er.
3. Milan Baros. Engar áhyggjur hér.
Í hnotskurn, þá gætu kantmennirnir okkar staðið sig betur en þeir eru allavega ekki að leika það illa að þeir hái liðinu. Hvað varðar “hlutverk” hinna þriggja miðjumanna liðsins þá er allt á hreinu. Þannig að maður hlýtur að spyrja sig, hvað getur mögulega klikkað?
Það sem klikkar of oft hjá okkur er í raun það hvernig liðið ræður við hinar svokölluðu breytur sem verða á meðan á leik stendur?
Dæmi: í gær stilltu Portsmouth upp 5 manna miðju eins og við og því var eflaust mjög rétt að stilla upp sterkri þrennu á móti þeim, með Hamann í verndarhlutverkniu. En það varð ljóst strax á fyrstu þrem-fjórum mínútum leiksins að Portsmouth-miðjan ætlaði bara að verjast eins og hún lagði sig og því var hlutverk Hamanns orðið óþarft strax í upphafi leiks.
Hvað er þá til bragðs að taka? Á að taka Hamann útaf fyrir framherja eftir aðeins 5 mínútuna leik? Eða hvað?
Þetta er stærsta vandamálið með Hamann að mínu mati. Hvað varðar hlutverk “verndarans” er hann í heimsklassa, einfaldlega einn af þeim allra bestu í sínu fagi. Þeir eru teljandi á fingrum annarar handar, þeir miðjumenn í Evrópu sem “vernda” vörnina sína jafn vel og hann. EN… eins og sást svo vel í gær, þá þarf þessi fimmti miðjumaður að vera nógu fjölhæfur til að geta skellt sér af fullum þunga með í sóknina þegar óþarft er að vernda vörn sína, eins og t.d. gegn liðum sem liggja í vörn.
Gott dæmi um þetta er t.d. Patrick Vieira, eða Claude Makelele. Þessir gaurar eru tveir af þeim fjórum-fimm bestu í Evrópu í að vernda vörnina sína, ásamt Hamann. En það sem þeir hafa algjörlega fram yfir hann er það að þegar þeirra lið er í stórsókn þá taka þeir fullan þátt. Fimm manna miðja Arsenal, þegar Henry er einn frammi og Bergkamp liggur fyrir aftan hann í “Gerrard-hlutverkinu”, verður skyndilega að svona eins konar 2-4-4 kerfi þar sem bakverðirnir verða nánast að vængmönnum, vængmennirnir pressa alla leið upp að teig og Vieira, Bergkamp og þriðji miðjumaðurinn (sem hefur undanfarið verið Fabregas) þrýsta allir á vítateig andstæðinganna. Vieira liggur jafnan fyrir utan teiginn, reiðubúinn að éta alla lausa bolta og skila þeim aftur út á vængina eða inn í teiginn, eða skjóta langskotum, á meðan Fabregas og Bergkamp eru nánast framherjar í þessu kerfi.
Þegar þetta sama gerist hjá okkur þá pressa Kewell og Núnez fram, eins og sást í gær, og Gerrard verður nánast framherji ásamt Baros.
En Hamann? Hann liggur ennþá á miðjuhringnum, harðákveðinn í að yfirgefa þá Hyypiä og Carragher ekki, sama á hverju gengur!
Það er náttúrulega alls ekki nógu gott. Eins og sást t.d. gegn Arsenal um daginn þá var Hamann ómetanlegur, enda þurftum við á verndaranum að halda til að drepa niður spil þeirra áður en Henry næði að komast í boltann. Hamann var gallalaus í þeim leik, en það var ekki bara af því að hann varðist vel. Það var líka af því að hann þurfti ekki að sækja.
Í gær var hann líka gallalaus varnarlega séð og vann fyrir okkur marga bolta. En hann þurfti líka að sækja, hann þurfti að hjálpa til við sóknina. Hann átti einn skalla að marki, úr dauðafæri, sem Ashdown varði örugglega. Það var eina skiptið sem hann sást inní vítateig andstæðinganna.
Ég vill meina að fimm manna miðjan geti svínvirkað og verið ótrúlega sókndjörf gegn lakari liðum á heimavelli, en til að svo megi vera verður hún að vera mönnuð leikmönnum sem hafa fjölhæfnina til að bregða sér í hlutverk sóknarmanna þegar svo ber við, og varnarjaxla þegar þess er krafist. Gerrard og Alonso eru svo góðir sóknar-miðjumenn að það er ekki fyndið, en þeir eru líka með betri tæklurum í boltanum og eru ótrúlega sterkir og kraftmiklir þegar þeir þurfa að berjast og verjast.
Hamann hins vegar getur ekki sótt.
Þannig að maður spyr sig, hvað er til ráða? Þurfum við að kaupa nýjan miðjumann inn í þennan pakka, eða eru til aðrar lausnir innan núverandi hóps á þessum vanda?
Ef við kíkjum á þá leikmenn sem við höfum úr að velja þá eru Igor Biscan og Salif Diao svo sem ágætis kostir, sérstaklega Igor. Hann gæti komið þarna inn, enda ofboðslega sterkur líkamlega og góður tæklari. En ólíkt Hamann þá hefur Igor miklu betri hæfileika sem sóknarmiðjumaður. Ég hef því miður ekki eins mikla trú á Diao, sem ég held að fari frá okkur í janúar eða næsta sumar.
Svo væri líka hægt að færa Gerrard aftar og láta hann sitja í hlutverki verndarans, þar sem hann og Alonso gætu skipst á að fara fram og bíða til baka. Þar fyrir framan gæti Luis García til dæmis komið inn í holuna fyrir aftan Baros, eins og hann gerði svo vel í haust.
Síðan eigum við náttúrulega ótrúlega efnilegan strák í Darren Potter, sem ég tel að geti alveg orðið að byrjunarliðsmanni hjá okkur á næstu tveimur til þremur árum.
Þannig að möguleikarnir eru fyrir hendi, hvort sem menn vilja gefa Biscan, Potter eða García séns í þessu kerfi eða kaupa nýjan “verndara” sem er betri fram á við en Hamann. Ég hins vegar væri til í að halda Hamann, þar sem hann er ómetanlegur þegar við þurfum á honum að halda í varnarvinnunni … en mér finnst bara að hann ætti alls ekki að vera byrjunarliðsmaður hjá okkur í öllum leikjum.
Síst af öllu heimaleikjum gegn “lakari” liðum. Þá eigum við bara að stilla upp þremur fjölhæfum og sókndjörfum miðjumönnum á miðjuna, eða þá bara að sleppa því að vera með fimm manna miðju og spila með tvo framherja. Eins og sást í gær var Hamann bara sóun á plássi í sóknarpressu okkar manna. Ef við hefðum verið með mann eins og Igor Biscan í byrjunarliðinu í gær held ég að við hefðum verið búnir að skora fleiri mörk gegn Portsmouth, og þá hefði hættan á jöfnunarmarki undir lokin aldrei verið til staðar.
En staðreyndin er sú að við vorum bara einfaldlega ekki nógu beittir fram á við, enda erfitt að eiga við níu manna varnarmúr Portsmouth þegar við erum bara að sækja á fjórum miðjumönnum og einum framherja. Hamann hefði þurft að hjálpa til við sóknina, en hann bara gat það ekki. Því miður.
Hvað finnst mönnum? Ætti Hamann að setjast á bekkinn í heimaleikjum okkar og jafnvel líka útileikjum gegn lakari liðum? Eigum við að gefa Biscan séns og hafa þrjá sókndjarfa miðjumenn fyrir aftan Baros, eða eigum við bara að versla Anelka, fara í 4-4-2 og gleyma þessu rugli?
Að lokum, þá langar mig að minna fólk á nýjasta dæmið um fimm manna miðju sem svínvirkar. Eitt flottasta sóknarlið í heiminum í dag, Barcelona, spilar allajafna með eftirfarandi uppstillingu á miðjunni:
MARQUEZ
GIULY – XAVI – DECO – RONALDINHO
ETO’O
Þetta er fimm manna miðja, þar sem miðvörðurinn Marquez þarf í raun að leysa af í verndarahlutverkinu þar sem þeir Edmílson og Tiago Motta eru meiddir. Hann er miðvörður en samt sókndjarfari en Hamann. Þar fyrir framan eru síðan fjórir af sókndjörfustu miðjumönnum í heiminum, og einhver flottasti framherji heims í dag. Eins og ég segi, þegar þetta kerfi er rétt gert með mönnum sem virka þá virkilega svínvirkar þetta…
**Uppfært (Einar Örn):** Ég ætla svosem ekki að bæta miklu við þetta. Við Kristján ræddum þetta lauslega í hálfleik í gær. Mín skoðun á þessu er einfaldlega sú að þetta kerfi virki, en bara ekki með Didi Hamann. Hann væri frábær í leikjum á móti sterkustu liðunum, en lítið gagn af honum gegn þeim minni.
Í raun finnst mér þetta vera of varfærnisleg miðja.
Alonso ætti að mínu matir að vera brimbrjóturinn, Gerrard með honum og svo yrði þriðji maðurinn að vera mjög sókndjarfur miðjumaður. Til dæmis Luis Garcia, Kewell eða Smicer. Einnig kæmi til greina að hafa Biscan og Alonso á miðjunni og Gerrard sem sá sókndjarfi.
Við sjáum að hjá þeim stórliðum, sem þetta kerfi svínvirkar, Chelsea og Barcelona er grundvallarmunur á þeim liðum og Liverpool hvað varðar mannval. Hjá Barca er Ronaldinho á miðjunni, sem er í raun annar sóknarmaðurinn. Það er, hann er tengill á milli sóknar og miðju og er í raun meiri sóknarmaður en miðjumaður. Hjá Chelsea gengur þetta upp vegna þess að þeir eru með tvo stórkostlega kantmenn í þeim Robben og Duff.
Hjá okkur virkar þetta ekki vegna þess að miðjan er of varfærnisleg með Alonso, Gerrard og Hamann (sem hafa allir verið kallaðir varnarsinnaðir miðjumenn einhvern tímann á ferlinum, Gerrard spilar m.a. þannig fyrir enska landsliðið) og svo tvo kantmenn, sem hafa þrátt fyrir framfarir, alls ekki leikið nógu vel. Vegna þessa mannskapar er þessi miðja einfaldlega ekki að virka.
Ég held að Alonso gæti ekki sinnt því hlutverki gegn liðum eins og Arsenal, Chelsea og Man Utd að vera akkerið á miðjunni. Hans sérgrein er að dreifa miðjuspilinu, koma boltanum í leik, finna “target” mennina og skapa eithvað. Gerrard passar fullkomnlega í þetta frjálsahlutverk sem sókndjarfur miðjumaður, eftir að hann byrjaði að spila þessa stöðu gegn Arsenal er hann búinn að leggja upp 1 mark og skora 2. Hamann er snillingur í því sem að hann gerir best, stöðva sóknarspil andstæðinga. Hann er miklu betri en Alonso og Gerrard í þeim efnum og mydi mér finnast það sárt ef að hann yrði látinn fara, sem þíðir að við verðum að finna annað “akkeri.” Þessi 4-5-1 taktík, eins og ég sagði, virkar rosalea vel gegn þeim liðum sem að ég nefndi hér fyrir ofan, en á heimavelli gegn smáu liðunum (eða á útivelli) þá er ég allveg sammála um það að Hamann ætti að vera hvíldur og við ættum að breyta yfir í annað kerfi sem að hefur heldr ekki þjónað okkur svo illa, 4-4-1, sem þíðir að við mundum þá láta Gerrard og Alonso spila saman á miðjunni með Luis Garcia fyrir aftan strækerinn.
En það sem að þetta lið nauðsinlega vantar eru tveir vængmenn sem að geta tekið varnarmenn á og komið góðum crossum in í teig. Kewell gat ert þetta en hann getur varla gert þetta í dag. Nunez viðist ekki geta þetta þannig að þetta er eithvað sem að Benitez verður að laga.
Ég held að við séum nú allir sammála um að okkur vantar sterkari leikmenn í hópinn en það sem ég vildi sjá er ekki endilega að losa sig við menn í janúar, það verður nægur tími til þess næsta sumar, heldur að fá 2-4 sterka menn sem hafa sannað sig til að stækka hópinn og fá meiri samkeppni um stöður, því að þó að allir væru heilir í liðinu að þá væri byrjunarliðið nokkuð sjálfskipað með 2-3 undantekningum.
Ef við horfum bara til Chelski, þó að við getum náttúrulega ekki keppt við þá peningalega séð að þá held ég að við höfum ekkert lakari framkvæmdarstjóra í Benna en Móri hjá Chelski, en samkeppnin um stöður hjá þeim er mikil þó að þeir lendi í meiðslavandræðum og einnig finnst mér stemningin hjá þeim mikið betri en hjá okkur, meiri barátta, ég fæ það stundum á tilfininguna að Stevie G sé sá eini sem sé að berjast á vellinum fyrir okkar hönd. Mér finnst að lykillinn í ár ( í vor)verði að lenda í einu af 4 efstu sætunum í deildinni, ef að það tekst að þá finnst mér að það ætti að verða auðveldara að fá til okkar leikmenn með það í huga að við verðum í meistaradeildinni(forkeppninni að vísu) og svo er það hann Benni stjóri sem ætti einnig að laða til okkar sterka stráka næsta sumar. 🙂
Hvaða leikaðferð sem við komum til með að nota í framtíðinni að þá höfum við ekki hópinn til að vinna deildina og hvað þá meistaradeildina þetta tímabilið, við verðum bara að vera tilbúnir þegar að Everton bólan springur og grípa tækifærið og komast upp fyrir þá, hver hefði trúað því að ef lið væru að berjast um sæti við bláuleikskólastrákana að þau væru að berjast um meistaradeildarsæti!!!
Hvar er Biscan eiginlega er kallinn meiddur
Já, Biscan er meiddur í baki.
Hörku pistill hjá þér Kristján, ég er þér sammála að mestu leiti. Þetta með Hamann er nátturlega vandamál í dag. Hann nýtist á móti betri liðum deildarinnar sem eru hvað mörg? 3 eða 4, og á útivöllum í meistaradeildinni. En hvað með alla hina leikina? Ástæða þess að Hamann sækir svona lítið fram á við er einföld, hann er svo hægur.
Kveðja
Krizzi
Ég þurfti að bregða mér frá og gat því ekki klárað svarið áðan, þannig að hér kemur það:
Með hægur á ég við það að ef Liverpool fær á sig skyndisókn þá næði Hamann aldrei að koma sér aftur í sína stöðu sem “verndarinn”. En eins og þú nefnir réttilega Kristján þá eru leikmenn á borð við Viera, Makelele, Gatusso, Edgar D, Emerson(Juve), allir með meiri hraða og tækni en Hamann. Þess vegna eru þeir óhræddir við að taka þátt í sóknaraðgerðum síns liðs.
Vonandi finnur liðið okkar lausn á þessu hið snarasta.
Kveðja
Krizzi