Jæja, þá hefur maður haft tvær nætur til að reyna að sofa úr sér pirringinn yfir þessu tapi á þriðjudaginn. Ég fór í vinnu og skóla í gær og er í vinnu núna, og það er nánast sama hvert ég fer … alls staðar vilja menn ræða við mig um markið hans Traoré. Ég segi yfirleitt það sama, að maður hafi hálfpartinn átt von á því að ‘kjúklingarnir’ myndu hrapa í einhverjum af þessum bikarleikjum vetrarins, og að það hafi orðið raunin. Og svo hristi ég bara hausinn yfir marki Traoré, enda er ég alveg jafn hneykslaður á því og hver annar.
Samt finnst mér sem umræðan hafi beinst svolítið inn á vitlausa braut í kjölfar þessa taps. Það virðast ansi margir vilja segja Rafa Benítez vera ábyrgan fyrir þessu tapi, að þetta hafi einhverra hluta vegna verið algjört dómgreindarleysi af hálfu stjórans. Mér finnst það heldur djúpt í árinni tekið. T.d. skrifar Chris Bascombe eftirfarandi í annars ágætri leikskýrslu sinni fyrir Echo:
>Benitez has got his priorities horribly confused in handing his senior side a first leg home tie with Wat-ford last week and sending his apprentices onto this dog’s dinner of a pitch.
Ég er þessu ekki sammála. Þótt Bretunum þyki afskaplega vænt um FA Bikarinn þá verða menn aðeins að setja þetta í samhengi. Í báðum keppnum fæst sæti í Evrópukeppni félagsliða og svipað verðlaunafé að launum fyrir sigur. Og ekkert fyrir annað sætið. Liverpool voru að spila í undanúrslitum í annarri af þessum keppnum, 32-liða úrslitum í hinni. Þar að auki bættist við að liðið hefur spilað ótrúlega marga leiki síðasta rúma mánuðinn, og þar sem mikið hefur verið um meiðsli höfum við verið að keyra þetta mikið til á sama kjarna leikmanna.
Þá spiluðu aðalmennirnir okkar ekkert sérstaklega vel á móti Watford á Anfield fyrir viku síðan. Þannig að mitt mat er það að Benítez hafði fulla ástæðu til að velja “varaliðið”, og hann hafði líka fulla ástæðu til að hafa trú á að þeir myndu standa sig. Gleymum ekki að Biscan, Núnez, Potter og félagar hafa unnið sigur á liðum eins og Millwall, Middlesbrough og Tottenham í vetur. Af hverju átti Benítez endilega að sjá það fyrir að þeir myndu spila illa gegn Burnley?
Nú, leikurinn var síðan eiginlega svolítið skrýtinn. Ungu strákarnir börðust vel með þá Stephen Warnock, Zak Whitbread og John Welsh fremsta í flokki (að mínu mati) en það var aldrei ætlast til þess að þeir myndu leiða liðið alla leið. Til þess voru settir inná völlinn sex aðalliðsmenn: einn í markið, tveir í vörnina, tveir á miðjuna og einn frammi.
Sex leikmenn sem hafa leikið reglulega með aðalliðinu okkar í deild og Meistaradeild í vetur. Sjö ef Warnock er talinn með. Hinir fjórir voru síðan “óreyndir kjúklingar” að hætti Rafa Benítez.
Er það virkilega svona hræðileg uppstilling á liði? Nei. Málið er bara það að leikmenn sem hafa verið að spila vonum framar í vetur klikkuðu. Dudek komst vel frá þessum leik á þriðjudaginn en þar með lýkur hrósi aðalmanna liðsins. Sami Hyypiä hefur sjaldan eða aldrei verið jafn slappur og hann var á þriðjudag, á meðan þeir Igor Biscan og Djimi Traoré – sem hafa annars verið miklu betri í vetur en maður bjóst við að þeir yrðu – spiluðu svo illa að mig langar helst aldrei að sjá þá aftur í treyjunni. Þá hélt Antonio Núnez áfram að eiga í erfiðleikum með að finna sig í rauðu treyjunni okkar, á meðan greyið Pongolle gat lítið gert í aðgerðarleysinu frammi, enda aleinn á köflum.
Að mínu mati er ekki hægt að kenna Benítez um að hafa hvílt fjóra leikmenn í þessum leik (Carra, Riise, Hamann, Baros – allir aðrir meiddir eða ólöglegir!) og nota það sem einhverja ástæðu til að gefa í skyn að Rafa sé ekki nógu góður þjálfari fyrir Liverpool, eins og t.d. Dominic Fifield hjá Guardian reynir að gera í sinni leikskýrslu. Nei, að mínu mati er bara hægt að horfa í eina átt með sektaraugum og það er til leikmannanna sem áttu að leiða þetta lið.
Sami Hyypiä, Djimi Traoré, Igor Biscan, Antonio Núnez. Þessir menn áttu að tryggja að við yrðum ekki í vandræðum með sóknarþunga Burnley, og að við hefðum yfirburði á miðjunni. Biscan jarðaði miðju Deportivo la Coruna nær einn síns liðs í haust en hann hefði alveg eins getað setið uppí stúku á þriðjudag. Núnez sást ekki fyrir utan eina fyrirgjöf og eitt olnbogaskot, á meðan Traoré og Hyypiä náðu ekki að gefa eina einustu góðu sendingu á milli sín. Sjálfsmarkið hjá Djimmy var síðan bara rúsínan í pylsuendanum.
Ég hef spilað fótbolta á einn eða annan hátt alla mína ævi og spilaði með FH í rúmlega 10 ár af þeim tíma. Ég veit eins og allir þeir sem hafa nokkurn tímann spilað fótbolta í alvörunni, að það kemur stundum fyrir að leikmenn ganga út á völlinn og eitthvað verður til þess að menn bara gjörsamlega virða að vettugi allar fyrirskipanir þjálfarans og spila eins og hauslausar hænur í 90 mínútur.
Það er nákvæmlega það sem gerðist á þriðjudaginn. Rafa mætti með vel ígrundaða leikaðferð og nokkuð sterkt lið – lesist: aðeins fjórir leikmenn hvíldir – en leikmennirnir hans einfaldlega hlýddu ekki því sem hann setti fram. Í 94 mínútur horfðum við á nokkra af þessum leikmönnum varla nenna að hafa fyrir því að sigra þennan leik. Þeir urðu treyjunni til skammar og eiga skilið að fá bágt fyrir, ekki þjálfarinn.
En því miður virðist það oft vera svo að Rafa tekur árásirnar á sínar hendur, á meðan Sami, Igor, Djimmy og Toni geta gengið um göturnar með höfuðið hátt. Því miður. En þeim er líka hollara að gera gott úr þessu strax á laugardaginn…
Sammála því að fólk sé svolítið að ganga of langt með upphrópunum um að verið hafi verið að vanvirða FA-bikarinn. Við spiluðum vissulega skelfilega og allt í góðu með þá gagnrýni, en það sorglega er eiginlega hvað þetta lið var nálægt því að vera það besta sem við höfðum upp á að bjóða á þriðjudagskvöldið.
Segir auðvitað sitt um breidd hópsins og meiðslavandamálin sem við erum í um þessar mundir. En sem betur fer voru tveir fráverandi vegna tæknilegra ástæðna og koma inn í hópinn á laugardag. Reyndar kannski bara ágætt að þeir Pelle og Morientes hafi ekki mátt spila, þeir hefðu kannski fengið alvarlegt kúltúrsjokk og farið heim með fyrstu vél ef þeir hefðu þurft að spila þennan leik…
Auðvitað tekur Benitez þetta á sig, ekki má nú skemma sjálfstraust þessara manna meira en orðið er…
Málið er einfaldlega það að Liverpool hefur ekki hópinn til þess að spila til úrslita í öllum fjórum keppnum!
Annars finnst mér verðugt að minnast á hversu vel David Raven stóð sig vel í hægri bakverði miðað við hversu illa fíflið hann Nunez spilaði og bauð lítið sem ekkert kover fyrir Raven í vörninni. Nunez ætti að skammast sín fyrir svona lélega frammistöðu og hegðun og á ekki skilið að klæðast rauðri treyju eftir þennan leik! 😡
Það er alltaf ljós í endanum á göngunum og vonandi munum við spila sannfærandi gegn S’ton á laugardaginn. Mundi það koma mönnum á óvart að sjá Warnock í vinstribakverðinum gegn þeim, með Riise á kantinum ?
Aron – það er óþarfi að kalla Núnez “fífl” þótt hann hafi spilað illa. Slíkt telst varla málefnaleg ummæli um leikmann sem er enn að venjast Englandi og enskum bolta.
Og nei, ég verð hreinlega sjokkeraður ef Warnock er ekki í bakverðinum á laugardag. Hann hefur spilað betur með hverjum leiknum sem líður og var eiginlega ljósið í myrkrinu á þriðjudag.
Loksins, heyrist rödd skynseminnar, eins og reyndar oftast á þessari síðu. Auðvitað er alltaf súrt að detta úr keppni en það er nú eðli bikarkeppninnar að helmingur liðanna dettur út í hverri umferð og það geti líka komið fyrir Liverpool.
Mér finnst vera of ríkjandi skoðun að það eigi að vera einhvert formsatriði að vinna lið í 1. deild. Sagan sýnir að svo er ekki og það er einmitt það sem gerir þessa FA-cup keppni í Englandi svo skemmtilega.
Val Benitez fannst mér skynsamlegt. Þessir strákar hafa staðið sig vel og það gegn sterkari liðum. Ég er hræddur um að grátkórinn hefði aldeilis hafið upp raust sína ef Gerrad hefði spilað og svo hugsanlega meiðst, Þá hefðu allir sagt ?afhverju var hann ekki hvíldur, aðalatriðið að ná fjóra sæti og ná áfram í Meistaradeildinni osfrv.?
Það er bara stundum svona í fótbolta að lið nær sér ekki á strik og það gerðist í þessum leik og menn sem hefðu átt að bera leikinn uppi, eins og Biscan, Traore og hugsanlega Hyypia, brugðust. Afhverju veit ég ekki og þessi misheppnaði snúningur Traore er bara áttunda undur veraldar.
Auðvitað er það svekkjandi þegar liðið manns spilar eins og hauslausar hænur og það á aldrei að sætta sig við það, en að fara drulla yfir Benitez og hann skilji ekki FA keppnina er að mínu mati rangt og afar ósanngjarnt í hans garð. Það er svo auðvelt að segja núna að hann hefði átt að hafa Baros, Gerrard og co. í liðunu. Ég er ansi hræddur um að sami hópur hefði hrósað Benitez fyrir kjark, þor og snilli í að nýta leikmannahópinn og gefa ungu strákunum sjéns ef leikurinn hefði unnist.
Gott að hafa í huga að engin vísindi eru jafn nákvæm og að vera vitur eftirá.
Ég er alveg sammála þér Kristján, Rafa er í raun ekki að hvíla marga leikmenn. T.d. Riise hvílir held ég sinn fyrsta leik á tímabilinu. Ef eitthvað er þá fannst mér Welsh ekki eiga svo slæman leik, ef þú berð hann saman við Biscan sem var svo gjörsamlega týndur í þessum að það alveg með ólíkindum að Rafa skyldi ekki hafa tekið hann útaf.
Það verður bara að horfast í augu við það að við erum með 7-8 menn í meiðslum, 5 í útláni (ALT, Vignal, Cheyrou, Diao & Diouf) og 2 sem voru ekki löglegir. Miðað við allt þetta eru ekki margir leikmenn eftir til að breyta aðeins liðinu á milli leikja án þess að það komi niður á frammistöðu þess.
Og eins og völlur var á móti Burnley þá þakka ég bara fyrir að Rafa skipti mönnum út því við höfum ekki efni á fl. meiðslum.
Ég sá nú ekki leikinn, en ég verð samt að gagnrýna Rafa fyrir þessa úlpu. Alls ekki nógu smart!
Heilmikið til í þessu hjá þér Kristján Atli. Ég er nú algjör fótboltaamatör en hef nú svo sem ekkert verið að ráðast neitt sérstaklega á Benites fyrir sinn þátt. Ég hefði viljað sjá Carra og Riise í fararbroddi í þessum leik. Var að vona það fyrir leikinn en það varð ekki.
Síðan held ég að þetta blessað sjálfsmark hafi sett liðið út af laginu. Það átti að halda hreinu á þessu moldarflagi. Það var planið og gekk bara vel áður en Traore sólaði sjálfan sig! Síðan ef við hefðum sett mark — gott mál að klára dæmið. Annars klára það bara á Anfield. Ég held að liðið hafi verið að hugsa eilítið svona. :confused:
En alveg sama hvað verður sagt um þennan leik þá er það algjör hneisa að lið eins og Liverpool skuli láta slá sig út úr FA Cup í 64 liða úrslitum.
Bara hreinasta hneisa………. 🙁
Einar Örn sagði:
>Ég sá nú ekki leikinn, en ég verð samt að gagnrýna Rafa fyrir þessa úlpu. Alls ekki nógu smart!
Einar, ertu fokking hálfviti fíflið þitt!?!?!?!? :tongue:
Ekki tjá þig um eitthvað sem þú veist ekkert um. Ég og Rafa vitum hvernig á að fela bumbuna … og ef maður ætlar á annað borð að gera það þá er eins gott að fara alla leið og verða Michelin-maðurinn. :biggrin:
Ég get ekki ætlast til að spíra eins og þú vitir þetta… 🙂