Besti miðjumaður Liverpool FC: (+viðbót)

elcapitan.JPG xabi_and_stone.jpg

Hver er besti miðjumaður ensku Úrvalsdeildarinnar? Hver er besti miðjumaður Liverpool FC? Í dag myndu margir svara báðum þessum spurningum eins: Steven Gerrard. Og vissulega ætla ég ekki að gera lítið úr því áliti – fyrirliðinn okkar sýndi ofurmannlega takta allt síðasta tímabil og hefur á köflum verið hreint stórkostlegur í vetur. Þá hefur hann bætt eina hlið hjá sér undir stjórn Rafa Benítez í vetur – hann er farinn að skora meira af mörkum. Hann er það sem kallað er alhliða miðjumaður, getur sótt og varist jafnvel og hver einasti annar miðjumaður í deildinni. Hann er einfaldlega í heimsklassa.

Þess vegna finnst mér svo skrýtið að hugsa til þess að sennilega er hann ekki besti miðjumaðurinn hjá Liverpool FC, hvað þá í Úrvalsdeildinni. Ég hef hugsað þetta í nokkurn tíma núna, og eftir því sem lengra hefur liðið frá nýársdegi hef ég fundið þessa trú mína styrkjast með hverjum leiknum, þar sem Gerrard hefur ekki verið jafn góður síðasta einn og hálfa mánuðinn og hann var fyrir meiðslin í haust, og fyrst eftir að hann kom til baka úr meiðslunum.

Og loksins hefur verið skrifuð grein í The Guardian sem virðist taka undir þetta sjónarmið mitt: So naïve about Steve eftir Scott Murray, sem ég hef hingað til ekkert tekið neitt sérstaklega eftir fyrir framúrskarandi pistlaskrif. En mér finnst hann hitta naglann beint á höfuðið í þessari grein sinni, og hann kemur líka með góðan rökstuðning fyrir skoðun sinni.

Það er ekkert leyndarmál að nú á dögum hættir 9 af hverjum 10 íþróttafréttamönnum í Englandi til að ýkja það talsvert hversu stórt framlag Gerrard til Liverpool FC er. Vissulega er hann í dag fyrirliðinn okkar, okkar frægasti og dáðasti leikmaður og sá eftirsóttasti/heitasti. Og það á sér allt eðlilegar ástæður, hann er bara yndislega góður miðjumaður. En engu að síður held ég að það geti allir tekið undir það að hugtök eins og “eins manns her” og “Gerrard & Co.” eru frekar fáránleg. Baros er búinn að skora 13 mörk í vetur, Riise 8. Carragher hefur verið stöðugasti og jafn-besti maður liðsins í vetur, á meðan Djimi Traoré og Steve Finnan hafa ljáð vörninni mikinn stöðugleika og mikla dýpt. Luis García hefur komið með óvissuþáttinn á miðjuna, sem hefur reynst ómetanlegt á köflum. Pongolle hefur sýnt sig sem einn efnilegasta leikmann deildarinnar, á meðan Neil Mellor hefur þegar staðið sig langt umfram allar væntingar og er þegar kominn með 5 mörk á leiktíðinni. Fernando Morientes er rétt að komast í gang en þegar eru skýr merki þess að nærvera hans muni stökkbreyta sóknarleik okkar.

Eins manns her? Ég held nú síður. Og OPTA-tölfræðin sem Murray vísar í í grein sinni virðist staðfesta það sem mig hefur lengi grunað: eins ótrúlegt og það kann að virðast er Stevie G ekki einu sinni besti miðjumaðurinn í Liverpool FC. Sá maður sem, tölfræðilega, er talinn betri en Steven Gerrard heitir XABI ALONSO. Og að mínu mati tel ég dýfu í spilamennsku Gerrard eftir að Alonso meiddist vera nokkuð sterka sönnun þess eðlis.

Það besta við þá er það hvað þeir eru ólíkir leikmenn. Alonso lætur best að liggja til baka og halda stjórn á miðjunni, halda utan um taumana og stjórna spilinu með sendingargetu sem á sér enga líka. Fyrir framan hann getur Gerrard leyft sér að ráfa eilítið frjálslega um völlinn og finna sín svæði til að valda sem mestum skaða. Eftir að Gerrard kom inn úr meiðslum sínum í nóvember fengum við í um einn og hálfan mánuð að sjá þessa tvo snillinga þróa samstarf sitt og undir lok ársins 2004 var maður orðinn gjörsamlega sannfærður um að það væri ekkert miðjupar í Evrópu – já, Evrópu! – sem stæðist þeim snúning. Ef við bætist það að við getum bætt Hamann við sem þriðja miðjumanninn til að drepa endanlega miðjuspil erfiðari andstæðinga þá fannst mér orðið nokkuð augljóst að við vorum með miðjuþrennu sem gæti orðið grunnur að frábærri leiktíð hjá okkur.

En síðan meiddist Alonso og við neyddumst til að afskrifa hann út tímabilið (þótt, eins og Einar Örn sagði í síðustu færslu, hann gæti náð að spila síðasta mánuðinn – jibbí!!! ) og eftir það hafa þeir Gerrard og Hamann verið skugginn af sjálfum sér, að mínu mati. Á meðan García og Riise eru farnir að skila fullt af mörkum og stoðsendingum, við erum með tvo heimsklassaframherja sem eru sjóðheitir og vörnin virðist loks vera farin að halda aftur eftir erfiðan janúarmánuð þá hefur mér í undanförnum leikjum fundist vanta smá aukakraft frá miðjunni.

Til að gera langa sögu stutta, þá held ég að Gerrard hafi verið farinn að líka það of vel að spila með Alonso, þannig að í fjarveru hans veit Gerrard ekki alveg hvernig hann á að sér að vera. Þá hefur hann líka verið að spila meiddur í nokkrum leikjum sem hefur ekki bætt ástandið. En í mínum huga er alveg ljóst að ef Alonso hefði spilað með okkur síðan á nýársdag hefðum við unnið Chelsea þann örlagaríka dag (helvítis Mike Riley… ) og við hefðum sennilega aldrei tapað fyrir liðum eins og Southampton og Man U … þriggja manna miðjan okkar át Arsenal lifandi á Anfield, en án Alonso þá náðu bæði Chelsea og Man U að vinna miðjubaráttuna gegn Gerrard og Hamann, enda voru þeir manni færri á þessu mikilvægasta svæði vallarins í báðum leikjum.

Ég bara sakna Xabi Alonso. Það að hann gæti náð að spila síðasta mánuðinn okkar í vetur eru yndislegar fréttir … ég get bara ekki beðið eftir að fá hann inn aftur. Svo er það spurningin eilífa, ætlar Gerrard að yfirgefa okkur í sumar? Ef ég væri hann myndi ég ólmur vilja halda áfram að þróa samstarf mitt og Alonso … Gerrard bara hlýtur að átta sig á því hversu frábært tækifæri það er að fá að starfa fyrir framan Xabi Alonso á næsta tímabili. Og með Morientes, Baros og Cissé fyrir framan sig? Ég myndi titra af tilhlökkun í sumar … en það verður að koma í ljós hvað Gerrard gerir. En ég er alveg harður á því að ef hann fer, þá er það ekki eins slæmt og það hefði verið fyrir ári síðan, því nú eigum við mann sem er alveg jafn góður/mikilvægur og hann, ef ekki betri.

Að lokum, þá sá ég góða pælingu í dag. Ef við seljum Gerrard næsta sumar þá fáum við lágmark 30 milljónir punda fyrir hann, þar sem hann er enskur og verðir því uppsprengt. Hvað gætum við gert fyrir 30 milljónir punda?

Dæmi: verslað Ruben Baraja, sem ég met jafn mikils ef ekki meir en Gerrard … og svo annan miðjumann eins og t.d. Pablo Aímar eða Julio Baptísta með. 30 milljónir gætu gefið okkur tvo til þrjá heimsklassamenn sem myndu styrkja okkur ótrúlega mikið, og eins og Rafa hefur sýnt með kaupunum á Alonso, García og Morientes (þrír dýrustu leikmenn hans) þá kaupir hann rétt þegar hann hefur peninginn til að eyða.

García – Alonso – Baraja – Kewell/Riise

væri það svo miklu verra heldur en:

García – Alonso – Gerrard – Kewell/Riise

???

Ég held ekki. Það er líka hægt að orða þessar vangaveltur svona: ef Gerrard kostar 30+ millur af því að hann er enskur, hvað hefði Xabi Alonso þá kostað okkur síðasta sumar … ef hann væri enskur og við hefðum þurft að kaupa hann frá Newcastle, til dæmis?

Hm?


**Stutt viðbót (Einar Örn):** Þessi grein, sem þú bendir á Kristján, er nokkuð góð og þá sérstaklega sá punktur að þetta eilífa blaður um að Liverpool sé eins manns lið geti á endanum sannfært Gerrard að hann þurfi að fara.

Ég hef haldið því fram áður að Alonso sé okkar mikilvægasti leikmaður (sjá skemmtilega leikskýrslu [eftir Southampton leikinn](http://www.kop.is/gamalt/2005/01/22/13.29.36)). Það er með hreinum ólíkindum hvað Xabi var fljótur að aðlaga sig að enska boltanum og hreint unaðslegt að sjá hvernig hann gat stjórnað sumum leikjum. Einsog við áttuðum okkur á eftir [fyrri Norwich leikinn](http://www.kop.is/gamalt/2004/09/25/22.43.09/), þá er hann síst síðri leikmaður en Gerrard og ég hallast að því að hann sé enn mikilvægari en Stevie fyrir framtíð þessa Liverpool liðs.

Gerrard þarf að gera sér grein fyrir því að hann mun ekki fá betri félaga en Xabi Alonso, sama hversu langt hann leitar. Vissulega er Frank Lampard *frábær* leikmaður, en hann og Gerrard munu aldrei geta skapað jafn frábært par einsog Gerrard og Alonso, einfaldlega vegna þess að Gerrard og Lampard eru alltof líkir leikmenn.

Ef að Gerrard áttar sig á þessu og hlustar ekki á vitleysuna í ensku blöðunum um að hann einn geti eitthvað í þessu Liverpool liði, þá er ég ekki í nokkrum vafa með að Gerrard verði áfram. Við getum þá leikið okkur við að deila um það hvor sé betri, Stevie eða Xabi, en við getum hins vegar verið fullviss um að EKKERT lið á Englandi mun státa af betra miðjupari næstu árin en Liverpool.

Ein athugasemd

  1. Ég stórefast um að Gerrard muni fara frá Liverpool í sumar. Í fyrsta lagi þá mun Liverpool ná 4. sætinu.

    Í öðru lagi munum við komast í 8 liða úrslitin í CL.

    Í þriðja lagi munum við vinna Chelsea í Carling Cup.

    Og í fjórða og síðasta lagi spila Gerrard og Lampshade einfaldlega ekki vel saman með enska landsliðinu.

    Þó svo að Gerrard hefur átt slæma daga upp á síðkastið þá megum við ekki gelyma því að hann er aðeins 24 ára gamall. Hann á ennþá eftir eithvað ólært og get ég ekki beðið eftir að sjá hann spila sem fullmótaður leikmaður 26-27 ára gamall.

    Eins og þú réttilega segir þá er Liverpool ekki lengur eins manns lið, og er það þess vegna sem að Gerrard hefur ekki verið eins mikið í sviðsljósinu og venjulega. ÞVÍLÍKUR LÉTTIR!!! Hann getur þá einbeitt sér að sínum leik og bætt ýmsar hliðar.

    Þetta segir snillingurinn Gordon Strachan um Gerrard í viðtali við 4-4-2:

    If you had Abramovich’s millions at your disposal, who would be the first three players you bought?
    Steven Gerrard. He has everything. If you ask Keane to push forward or Vieira to play wide, they’d struggle, but Steve can play everywhere. He’s class.

    Þó svo að Ruben Baraja sé góður leikmaður þá hugse ég ekki hiklaust um að Gerrard eigi eftir að verða betri þegar að hann verður orðinn 29 ára gamall eins og Baraja er í dag.

    Ég mundi ekki ganga það langt og segja að Xabi Alonso sé betri en Steven Gerrard því að þetta eru svi ólíkir leikmenn. Gerrard hefur kannski ekki sendinga getu Alonso, en Alonso hefur ekki sama hraða og skuldbindingu (á vellinum) og Gerrard hefur. Alonso finnst beest að liggja djúpt og dreifa spilinu á meðan Gerrard finnst best að “drýfa” fram á völlinn, taka leikmenn á og koma með þessar bannvænu stungusendingar sem að hann er frægur fyrir. Þessir leikmenn eru frábærir, en ósambærilegir að mínu mati.

    En varðandi greinina sem að þú last hjá “The Guardian” þá hafði Paul Tomkins um hana að segja:

    Excellent article. I didn’t agree with every word, but thought-provoking and raised some very good points.

    Harsh on Gerrard against Man U as he wasn’t fit and was out-numbered in a four-man midfield against a five-man one. But true in how he’s exalted even when he’s had a crap game.

    And ends perfectly by saying that Gerrard should stay, to play alongside Alonso; but if he doesn’t, LFC can still prosper.

    I am a massive fan of Gerrard. I think he’s a superb all-round player.

    I just find it frustrating when he has a poor game, and others out-play him, and he still gets MOTM, or we’re still labelled a ‘one man team’. In recent weeks he’s admitted himself to being below par, but still gets all the plaudits.

    I think the article was saying he’s a great player, but not our only player. Alonso does some things better than Gerrard (reading and controlling the game, passing the ball with more accuracy), and Gerrard does other things better (getting forward, beating men, scoring goals, tackling). Together they can be better than Gerrard and Lampard would be at Chelsea, as there’s a natural balance to the pairing.

Xabi og Djib að hressast

Birmingham í dag! (+viðbót)