Birmingham í dag! (+viðbót)

Tveir sigrar í röð í deildinni. Loksins smá mómentum okkur í hag. Í dag verður það að halda áfram … gegn Birmingham á útivelli. Við könnumst ágætlega við lið Steve Bruce; í liði þeirra í dag verður væntanlega Emile Heskey og þótt hann megi ekki spila gegn okkur (lánsliðs-reglan) þá er Salif Diao einnig hjá þeim.

Nú, Birmingham unnu okkur á Anfield í haust í einhverju mesta “ráni” vetrarins. Við vorum miklu, miklu, miklu betri í þeim leik en töpuðum samt 1-0. Svona getur þetta verið stundum…

Eitt af því sem hefur einkennt viðsnúninginn hjá okkur í febrúar er það að Rafa hefur verið mjög stöðugur í liðsuppstillingu og ekki breytt mikið útaf, sem hefur gefið liðinu aukinn stöðugleika í öllu meiðslaruglinu. Ég spái því að þetta haldi áfram og að við fáum sama byrjunarlið og um síðustu helgi, fyrir utan tvær breytingar:

Dudek

Finnan – Carragher – Hyypiä – Traoré

Núnez/Smicer – Gerrard – Hamann – Riise

Baros – Morientes

BEKKUR: Carson, Pellegrino, Warnock, Biscan, Núnez/Smicer.

Með öðrum orðum, Hamann kemur aftur inn í sína stöðu á miðjunni á kostnað Igor Biscan (sem var svona lala á móti Fulham, ekkert spes) og þar sem Luís García er í leikbanni vegna 5 gulra spjalda þá kemur annað hvort Antonío Núnez eða Vladimír Smicer inn í liðið. Ég hef verið ánægður með innkomu Smicer í síðustu tveim leikjum en er samt ekki viss hvort hann er tilbúinn í að vera með frá byrjun. Núnez var ekki í hópnum síðast eftir að hafa tekið út 3ja leikja bann (sem lauk með Charlton-leiknum) en verður pottþétt í hópnum í dag og sennilega í byrjunarliðinu ef Smicer er ekki tilbúinn.

MÍN SPÁ: Þetta verður erfiður leikur og það er erfitt að spá. Við yfirspiluðum þá á St. Andrews í fyrra og unnum 3-0 í einum besta leik Emile Heskey fyrir Liverpool, en hann er nú í hinu liðinu og hjálpaði þeim að vinna okkur 1-0 á Anfield í haust.´

Samt held ég að við séum komnir á smá skrið núna eftir þrjá sigurleiki í röð og finnst mér líklegt að við tökum þennan leik, þótt erfiður sé. Ég sé svona 1-0, 2-1 eða 3-2 sigur fyrir mér í dag í erfiðum, jöfnum og spennandi leik. Það er allavega ljóst í mínum huga að þetta verður ekkert W.B.A. á útivelli eða neitt slíkt, þetta verður erfiður leikur.

AÐ LOKUM: Þetta er síðasti deildarleikur okkar í febrúar og síðasti leikurinn okkar áður en við mætum Bayer Leverkusen á Anfield í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar eftir 10 daga. Hvernig sem leikir helgarinnar fara, hvort við drögum á Everton eða þeir auka forskotið, þá þurfum við að sitja uppi með þá stöðu næstu þrjár fokking vikurnar áður en við getum lagað það. Því tel ég nauðsynlegt uppá móralinn að gera að við náum að minnka bilið á milli okkar og Everton þessa helgina.

Eins og staðan er fyrir leiki dagsins eru þeir 5 stigum á undan okkur, en við eigum leik sem við getum unnið á móti Birmingham á meðan Everton-menn eiga svakalega erfiðan leik við Chelsea. Aldrei þessu vant mun ég halda með Chelsea í dag, þótt ég myndi ekkert gráta yfir jafntefli. En möguleikinn er sá að, ef við vinnum í dag og Chelsea vinna Everton þá gætum við verið aðeins 2 stigum á eftir erkifjendunum eftir helgina … sem myndi vera okkur mikil lyftistöng fyrir næstu tvo leiki, sem eru ótrúlega mikilvægir!

Þannig að nú er lag … við fáum ekki betra tækifæri til að saxa forskot þeirra bláu um þrjú stig heldur en í dag, þegar mjög líklegt er að þeir tapi sínum leik. Áfram Liverpool!!!


**Viðbót (Einar Örn)**: Ég er ekki búinn að sjá deildarleik með Liverpool í þrjár vikur, sem hefur verið nær óbærileg bið, enda var síðasti deildarleikurinn, sem ég sá, mesta hörmung allra tíma, útileikurinn gegn Southampton.

Ég hef því verið að leita að einhverju til að eyða þeirri minningu hjá mér og er leikurinn í dag kjörið tækifæri. Everton spilar á undan okkur, þannig að ef að það ætti að gefa okkar mönnum aukinn kraft þegar þeir vita niðurstöðurnar úr þeim leik.

Við verðum auðvitað að vinna þennan leik. Boro er aðeins þrem stigum á eftir okkur og Bolton fjórum. Þau lið spila líka í dag.

Ég hef trú á að við vinnum þennan leik. Ég meina for kræing át lád, hættulegasti sóknarmaðurinn þeirra heitir EMILE HESKEY! Sóknarmennirnir okkar heita Milan Baros og Fernando Morientes. Birmingham verða erfiðir, en við eigum einfaldlega að vera með miklu, miklu betra lið en þeir. Ég spái 3-0 einsog fyrir ári. Og hananú!

2 Comments

  1. Ég fór að hugsa Einar. Nú er leikurinn afstaðinn við Birmingham……

    Aumingja þú….. :confused:

    Þú sást síðast leik gegn Southampton og svo þarftu að horfa á þessa hörmung í dag…. 🙁

    I feel for you buddy…..

  2. Já, ég er þokkalega fúll yfir þessu öllu saman. Nú er ég orðinn sannfærður um að sófinn heima sé óhappa og því ætla ég að vera á Players á móti Leverkusen 🙂

Besti miðjumaður Liverpool FC: (+viðbót)

Liðið á móti Birmingham