Leverkusen 1 – Liverpool 3!

garcia_leverkusen_two.jpgJahahahahááá! Glæsilegt! Svona á þetta að vera! Come on you Reds! Come on you Reds! 😀 😀 😀

Ókei, ég skal reyna að róa mig nógu lengi til að skrifa þessa skýrslu. Til að gera langa sögu stutta, þá fóru okkar menn á kostum í Meistaradeildinni í kvöld, unnu Bayer Leverkusen á útivelli 3-1 og eru komnir í átta liða fokking úrslit!!!

Til að gera stutta sögu langa, þá spiluðum við frábærlega í 90 mínútur á einni mestu ljónagryfju Evrópu í kvöld og þessi sigur var einfaldlega aldrei í hættu. Ef bara við gætum spilað svona oftar á útivelli, þá værum við miklu ofar í deildinni en í 5. sætinu! En allavega, byrjunarliðið í kvöld var eftirfarandi:

Dudek

Finnan – Carragher – Hyypiä – Warnock

García – Gerrard – Hamann – Biscan – Riise

Baros

BEKKUR: Carson, Núnez, Smicer, Welsh, Le Tallec, Potter, Raven.

Ég horfði á þennan leik með pabba gamla og bræðum mínum og pabbi sagði fyrir leikinn að hann myndi segja mér á 5. mínútu hvernig þessi leikur myndi fara. Sagðist ekki þurfa lengri tíma en 5 mínútur til að sjá hvernig þessi leikur myndi þróast. Nú, fyrstu 5 mínúturnar komu og fóru án þess að liðin fengju nokkur færi, en pabbi hafði séð nóg og sagði einfaldlega: “Liverpool tekur þetta, tvö eða þrjú – núll.”

Af hverju sá hann það strax? Jú, af því að liðið mætti einfaldlega einbeitt og afslappað til leiks og í stað þess að leggjast í einhverjar skotgrafir og reyna að verja forskotið pressuðu okkar menn þá þýsku hátt á vellinum og virtust bara hafa stjórn á leiknum frá byrjun.

Þannig að í raun má segja að það hafi ríkt smá antí-climax stemning í sófanum heima eftir litlar 5 mínútur. Maður var orðinn svo spenntur fyrir leikinn en það hvarf eiginlega strax í upphafi, það var bara eitthvað svo mikil yfirvegun yfir leik liðsins. Eftir hálftíma var síðan öll spenna farin úr manni og við tók stanslaust bros og skemmtun.

Luís García skoraði tvö mörk sitt hvorum megin við 30-mínútna markið og gerði þar með út um þetta einvígi, ekkert flóknara en það. Og það var varla hægt að segja að þessi mörk hefðu komið gegn gangi leiksins. Milan Baros átti að fá augljósa vítaspyrnu strax á 11. mínútu og við vorum búnir að skapa tvö eða þrjú góð færi áður en fyrsta markið kom. Ef Hans Jörg Butt hefði ekki verið vel á verði í marki Leverkusen hefðum við getað verið allavega 4-0 yfir í hálfleik, hvað þá ef við hefðum fengið vítaspyrnudóminn.

En allavega, í seinni hálfleik settu okkar menn bara í hlutlausan gír og nutu þess að vera til. Þeir leyfðu sér að njóta þess að spila knattspyrnu í 16-liða úrslitunum og það sást – menn voru sívinnandi út um allan völl og alltaf að reyna að skapa eitthvað fyrir samherjana. Sérstaklega fannst mér falleg ein slík hreyfing eftir hlé þar sem Baros og Gerrard prjónuðu sig í gegnum vörn Þjóðverjanna og Gerrard átti síðan hörkuskot sem Butt varði … Baros fékk frákastið og hitti ekki boltann í dauðafæri. Það kom þó ekki að sök því fimm mínútum síðar var hann búinn að skora þriðja markið eftir varnarmistök Bæjara.

Game over. Next!

Þeir skoruðu eitt mark undir lokin – sem var eiginlega meira spurning um heiðurinn fyrir þá heldur en einhverja veika von – en það skyggði ekki á fagnaðarlætin. Síðustu 5 mínútur leiksins eða svo heyrði maður “You’ll Never Walk Alone” sungið nær látlaust af áhorfendabekkjunum og okkar menn leyfðu sér að brosa inná vellinum.

Þá náði Rafa Benítez að hvíla þrjá lykilmenn í liðinu, þá Carragher, Hamann og Finnan. Það var sérlega mikilvægt að gefa Carra og Didi hvíld því þeir voru báðir á gulu spjaldi og ég var logandi hræddur um að þeir myndu lenda í að þurfa að byrja 8-liða úrslitin í leikbanni. Því var rétt að taka þá útaf um miðjan seinni hálfleikinn. Í þeirra stað komu þeir Vladimir Smicer og Antonío Núnez, og svo hinn ungi John Welsh sem var að spila sinn fyrsta Evrópuleik fyrir Liverpool í kvöld. Flott mál það!

En allavega, eftir allt umtalið um “hið frábæra sóknarlið Leverkusen” þá reyndist Liverpool vera miklu betra sóknarlið í þessari rimmu. Við skoruðum 6 mörk í þessu einvígi – aðeins Lyon frá Frakklandi hafa skorað meira í þessari umferð – og vorum einfaldlega með yfirburði í 180 mínútur gegn þessu liði sem við áttum víst ekki að eiga mikla möguleika gegn, þar sem við erum svo lélegir og “þeir rústuðu Real Madríd” … whatever.

MAÐUR LEIKSINS: LUIS GARCÍA. Reyndar væri öll liðsheildin eins og hún leggur sig vel að þessu komin, hver einasti leikmaður átti frábæran leik í kvöld að mér fannst og var þetta vissulega sigur sterkrar liðsheildar og góðrar leikaðferðar framkvæmdarstjórans. Finnst samt rétt að minnast sérstaklega á þá Stephen Warnock – sem jarðaði Daniel Bierofka á hægri væng Leverkusen og lék í kvöld sinn besta leik í Liverpool-treyju, fullyrði ég – og síðan fyrirliðann Steven Gerrard – sem var út um allt í kvöld og sýndi sína gömlu takta, virtist meira að segja hafa gaman af þessu í kvöld!

En þegar öllu er á botninn hvolft þá er Luis García einfaldlega vel að þessu kominn. Hann byrjaði erfiðlega, átti í vandræðum með að fóta sig á grasinu (eins og fleiri reyndar) og ég sá Rafa skamma hann á hliðarlínunni eftir svona 7-8 mínútna leik. En hann tók sig saman í andlitinu og kálaði þessu einvígi fyrir okkur – einvígi sem hann hóf með fyrsta markinu fyrir tveimur vikum. Ég get ekki ímyndað mér að það vilji nokkur efast um framlag þessa litla, knáa Spánverja eftir leikinn í kvöld. Hann skorar jafnan mikilvæg mörk og í kvöld voru þau tvö – það er ekki hægt að biðja um mikið meira!

Þar að auki þá er García jafnan einn af þeim sem leggur sig alltaf hvað mest fram á vellinum, hann er sívinnandi og alltaf að reyna að skapa eitthvað fyrir sig og aðra. Hann hefur bætt sig rosalega í varnarvinnunni eftir því sem liðið hefur á leiktíðina og ég vona bara innilega að hann klári tímabilið í sama stuði og hann hefur verið síðustu tvo mánuði – þá erum við í mjög góðum málum á hægri kantinum! Frábær leikur hjá García, hann var hetjan okkar í kvöld!

NÆSTA UMFERÐ: Þegar þetta er skrifað eru eftirfarandi lið komin í 8-liða úrslitin:

LIVERPOOL
Chelsea
AC Milan
Olympique Lyonnais
Bayern Munchen
PSV Eindhoven
Juventus
eða Real Madríd (í framlengingu) – uppfært: Juve áfram
Porto eða Internazionale (í næstu viku)

Eiga menn sér einhverja óskamótherja? Nú vilja eflaust einhverjir fá Chelsea og hefna sín eftir sápuóperu síðasta árs og bikarleikinn fyrir 10 dögum, og þá þykist ég vita að sumir renni hýru auga til PSV sem er kannski lakasta liðið af þessum sem eru þarna inni. En ég á mér líka óskamótherja. Ég held að það gæti verið feykilega spennandi ef við myndum dragast gegn Lyon í 8-liða úrslitunum. Þar er feykigott lið á ferð og það yrði eflaust hörkujafnt og spennandi einvígi, en Lyon eru þekktir fyrir að skora helling og spila skemmtilega knattspyrnu og ég er eiginlega viss um að það yrði frábær skemmtum að fá að spila við þá tvo leiki í næstu umferð!

Annars er mér sama … svo lengi sem við lendum ekki í AC Milan. Það hljóta allir að vera sammála um það að þar er sterkasta liðið í þessari keppni á ferð og ég tel okkur ekki eiga séns í það lið. Þeir mega lenda á móti Chelsea fyrir mér, á meðan við myndum skemmta okkur gegn Lyon eða PSV … það yrði ágætis dráttur held ég! 🙂

En allavega … komnir í 8-liða úrslitin og lengra heldur en Man U í ár! Til hamingju með það Púllarar, nær og fjær! 🙂


**Uppfært (Einar Örn)**: JEEEEEESSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSS!!! 🙂

Ég hef svo sem litlu að bæta við þetta. Þetta var algjörlega frábært. Frábær leikur hjá Liverpool!

Rafa fær svo prik fyrir húmor og snilld að taka Hamann útaf og setja Smicer inná. Nákvæmlega sama skiptingin og í leiknum fyrir 3 árum, sem hefur angrað okkur Liverpool aðdáendur æ síðan. Smicer, Hamann, Dudek, Carra, Gerrard, Riise og Hyypia ættu þar með endanlega að hafa grafið þann draug. Yndislegt. Ég brosti breitt þegar ég sá þá skiptingu.

En þetta var frábært. Allt liðið lék vel. Menn léku saman, höfðu gaman að hlutunum og börðust um hvern einasta bolta. Ef maður ætti að velja einhverja væru það sennilega Gerrard, sem frábær (hans langbesti leikur á þessu ári), Garcia, Baros (sem olli vörn Bayer eilífum vandræðum) og Warnock.

Ég hef sjaldan verið jafn afslappaður að horfa á Liverpool leik og í seinni hálfleiknum í kvöld. Maður gat bara hallað sér aftur og haft gaman af leiknum án þess að vera í einhverju stress kasti. Yndislegt! Ég get ekki hætt að brosa 🙂

Svo eru núna vika í næsta leik, sem er gegn Blackburn, þannig að næstu sjö daga verður sennilega erfitt að fá okkur Liverpool aðdáendur til að hætta að brosa. Til hamingju!!!

Ég elska fótbolta og ég elska þetta lið! 🙂

16 Comments

  1. Shit… nú er marr ílla sáttur sko !!! man utd og Arsenal dottin út og Liverpool komnir áfram! Vá hvað manni líður vel akkurat núna, svo eru flestir í skólanum man utd og Arsenal menn.. shit það verður snilld á morgun !

  2. Jamm, það er ljóst að mínu mati að Juventus og AC Milan eru þau tvö lið sem við viljum sennilega forðast í drættinum. 🙂

    En þetta er í fyrsta sinn held ég í mörg ár að spænska deildin á ekki eitt einasta lið í 8-liða úrslitunum… hvað er langt síðan það gerðist síðast?

  3. Ég veit ekki með ykkur en ég vona að Michael Owen sofi illa í nótt. Hann á það skilið. Kom inná undir lokin gegn Juve og svo duttu Real út úr keppninni … og hann mun ekki vinna neina titla á Spáni í vetur.

    Ætli hann væri til í að vera að spila með okkur núna? Bikarúrslitaleikur um daginn – sem er meira en hann fær með Real, öruggt sæti í byrjunarliðinu á meðan hann er heill og síðan að komast í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar?

    Hann sagðist ætla að skrifa undir samning við okkur, fór svo til Real fjórum dögum seinna. Ég vona að hann sofi illa í nótt…

    Bara smá pæling. What goes around, comes around. 😉

  4. ég held ég fari rétt með að það hafi aldrei gerst síðan átta liða knockout kom til sögunnar að ekkert spænskt lið hafi leikið þar

  5. Ég hugsaði akkúrat eitthvað svipað varðandi Owen. Það er sama hvað hann reynir að segja, þetta voru mistök hjá honum. Hann gæti gert svo miklu, miklu meira gagn hjá Liverpool en hann gerir hjá Real. Það væri algjör synd að sóa hæfileikum hans annað tímabil á bekknum hjá Madrid.

    Og já, takk fyrir, ekki AC Milan í 8-liða úrslitum. Veit ekki með Chelsea. Það væri yndislegt ef við myndum vinna þá, hausinn á mér myndi sennilega springa….

    En ef við myndum dragast gegn Chelsea og tapa svo, þá myndum við öll leggjast í stórkostlegt þunglyndi.

    En mér er alveg sama núna. Við erum komin í 8 liða úrslit, trallallalala. :biggrin2:

  6. :smile:Töppum stemningunni á flöskur og látum strákana sniffa hana fyrir þá 12, og vonandi +, leiki er eftir eru :biggrin:, ef að svona leikir kveikja ekki í mönnum að þá veit ég ekki hvað, fáum PSV næst og förum lengra, sýnum svo hvað okkur langar í þessa keppni að ári með því að fá 80% stiganna sem eru eftir í kassanum í deildinni 😉 og skiljum Everton eftir í UEFA keppninni :biggrin:

    Kv Stjáni

  7. Við verðum að sætta okkur við það að….VERA EITT AF ÁTTA BESTU LIÐUM EVRÓPU!!! Núna geta þessir vitleysingar sem dissuðu okkur fyrir að einbeita okkur bara að “litlu” dollunum farið til “égveitekkihvað”! Við viljum bara stóru dollurnar sem skipta máli….hehehe eitthvað kannast maður við þessa setningu….hmmm…Arsene Wenger? Saur Niðurgangur Ferguson?
    I LOVE THIS TO PIECES! Spiluðum vel og beittum öguðum leik sem herra Benitez er þekktur fyrir og þetta er einmitt sönnunin fyrir því að herra Benitez er ennþá að komast inní enska leikstílinn. Hann kann inn og út á evrópska stílinn sem kemur okkur mjög til góða í CL. Gott mál! Við fáum þá allavega peninginn til að borga upp “Houllier-fylleríiið”!

  8. Helvíti nett að Byern var búið að spila þrjá leiki heima í þessari keppni og alltaf skorað 3 mörk, það fór ekki alveg svo í kvöld 🙂

    Og síðan fannst mér eitt líka alveg helvíti gott fyrir Smicer kallinn, sama skiptin og hérna um árið án þess að það hafði neinar afleiðingar 😉

  9. flottur leikur. Mikill munur á fyrirliðanum, ferskur og baráttuglaður. Held að þjálfarinn hafi skammað hann aðeins og sagt honum að einbeita sér af leikunum sem eftir er.

    P. W. var mjög góður í varnarhlutverkinu sínu. átti eina bestu varnartæklingu sem ég hef séð síðan Djimi Traore varðist gegn Heiðar Helgusyni i leiknum gegn Watford.

    Annars sýnist mer menn ekki sjá að við vorum mjög heppnir i kvöld líka. Held að B.L. menn hafi misnotað 3-4 MJÖG góð færi til að skora i fyrri hálfleik. Kicksa boltann, skjóta fram hjá, yfir. Uff, þá var manni ekki alveg sama.

    En LFC. lék mjög vel og gerðu mann stoltann af baráttugleði og skemmtilegum bolta.
    TAKK fyrir það.. 😉

  10. Leiðist að vera besserwisser hérna, en eitt í leikskýrslunni verð ég að leiðrétta, sem mikill aðdáandi Þýskalands: “var hann búinn að skora þriðja markið eftir varnarmistök Bæjara.”

    Bæjaraland, eða Bayern, er vissulega eitt af bundeslöndum Þýskalands, og eru leikmenn liðanna 1860/Bayern München oft kallaðir Bæjarar.

    Liðið sem Liverpool keppti við heitir hins vegar Bayer Leverkusen (ekkert n) og er í bundeslandinu Nordrhein-Westfalen (af þessu dregur Westfalenstadion nafn sitt).

    Nú spyrja sumir sig af hverju þetta Bayer sé. Það er nú út af því að eigandi Bayer Leverkusen er lyfjafyrirtækið Bayer, svo einfalt er það. Rétt eins og PSV heitir Philips Sport Verein.

    Takk fyrir

  11. Jamm, stórkostlegur leikur. Ég var búin að sjá fyrir mér að þetta yrði miklu erfiðara. Miðað við hvernig okkar menn spila í útileikjum á Englandi, þá leist mér ekkert alltof vel á þetta. En það virðist bara vera allt annað Liverpool lið sem spilar í CL og Liverpool liðið sem spilar í PL.
    Ég hraunaði yfir Garcia hérna um daginn, ég stend nú við það sem ég skrifaði þá, en í gær var hann miklu betri. Held aðalega vegna þess að hann var duglegri að losa sig við boltann, var ekki alltaf að missa hann. Hann var hörku duglegur í gær og maður sá það undir lok leiksins að hann var orðinn útkeyrður.
    Einn maður sem ég var mjög ánægður með í gær, það var Stephen Warnock(ekki viss um stafsetninguna). Mér fannst hann ekki stíga feilspor í gær.
    Er annars ánægður með allt liðið, meira segja Gerrard, sem bara virkaði áhugasamur.. 😉

    ÁFRAM LIVERPOOL 🙂 🙂 🙂

  12. Pétur Steinn – ja hérna, alltaf lærir maður eitthvað nýtt. Ég hef alltaf tengt þetta ‘Bæjara’-nefni við íslenska þýðingu á orðunum Bayer/Bayern, og þýskukunnátta mín er bara ekki betri en svo að ég taldi Bayer vera styttingu á Bayern eða eitthvað álíka. Það leiðréttist hér með.

    Segið svo að þessi vefsíða sé ekki stútfull af fróðleik! :biggrin:

  13. Hvenær er annars dregið í 8 liða úrslit ?? (ég ætla að spá því að við fáum Bayern Munchen)

Rafa á pöbbarölti

Kevin Keegan hættur hjá Man City