Ég eyddi stórum hluta gærdagsins í að bölva eigin heimsku. Málið var að fyrir þremur vikum hafði ég skipulagt starfsmannafund á [veitingastaðnum](http://www.serrano.is) mínum. Ég hafði skipulagt hann þannig að ég myndi örugglega ekki missa af neinum Meistaradeildarleikjum. Þegar kom svo að því að halda fundinn, þá fattaði ég að ég myndi missa af Liverpool Blackburn.
Mig hafði nefnilega hlakkað verulega til leiksins, sérstaklega eftir Leverkusen skemmtunina. En ég sá að ég myndi missa af leiknum og ég talaði því við Kristján og bað hann um að senda mér SMS þegar mörk væru skoruð. SMS-in reyndust aðeins tvö: “0-0 í hálfleik” og “búið 0-0”.
Fundurinn reyndist helvíti skemmtilegur og við sátum á spjalli lengi fram eftir. Undir niðri var ég þó fúll og svekktur yfir því að Liverpool hefði gert jafntefli og var spenntur yfir því að lesa það, sem Kristján hafði að segja um leikinn. Skapið versnaði umtalsvert þegar ég las [leikskýrsluna](http://www.kop.is/gamalt/2005/03/16/22.25.39/).
Það er í raun ekki á mann leggjandi lengur að vera aðdáandi Liverpool. Ég held með góðum liðum í mörgum íþróttum (t.d. Barcelona) og lélegum liðum í öðrum íþróttum (t.d. Chicago Bulls síðustu árin í körfubolta).
Þegar ég bjó í Chicago fór Bulls liðið í gegnum sína mestu lægð. Liðið gat ekki neitt og tapaði 80% af leikjunum. Það var í raun orðið þannig að maður var ónæmur fyrir áföllum. Maður gerði sér ekki vonir fyrir leiki og varð því ekki fyrir svo miklum vonbrigðum þegar óumflýjanlegt tap varð staðreynd. Það tók því ekkert sérstaklega á sálarástand mitt að liðinu gengi svona illa.
Þetta Liverpool tímabil er búið að vera einstakt. Í raun getur það varla talist hollt fyrir okkur Liverpool aðdáendur að fylgjast með þessari vitleysu. Þetta lið, þessir 22 menn eru nefnilega snillingar í því að byggja upp fáránlegar væntingar hjá okkur og svo aftur snillingar í að rústa þeim strax í næsta leik.
Ég hef sjaldan fagnað jafnmikið og þegar við unnum Olympiakos. Ég hélt að nú loksins myndu liðinu vera allir vegir færir. Hvað gerist í næsta leik? Jú, við töpum fyrir Everton í ömurlegum leik.
Frábær útisigur gegn Deportivo. Næsti leikur á eftir, tap gegn Birmingham.
Frábær sóknarbolti gegn Charlton. Svo ömurlegur leikur á móti Birmingham.
Glæstur sigur gegn Leverkusen, svo jafntefli á Anfield gegn Blackburn.
Maður getur vanist því að fylgjast með lélegu liði. Þá býr maður sig andlega undir það að liðið muni tapa. Og maður getur svo sannarlega vanist því að fylgjast með góðu liði, sem tapar einstaka sinnum.
En ég hreinlega get ekki vanist því að fylgjast með liði, sem spilar einsog englar í einum leik en detta svo niður á plan, sem hæfir varla utandeildarliði í næsta leik. Það er bara ekki hægt. Vonbrigðin eru alltof algeng og alltof mikil.
Það er erfitt að átta sig á þessu liði. Hvert er hið raunverulega Liverpool lið? Erum við jafngóðir og við höfum sýnt gegn Arsenal, Chelsea, Leverkusen og fleiri liðum, eða voru það bara undantekningar? Fyrir áramót þá voru vonbrigðin mörg, en samt hafði maður alltaf á tilfinningunni að þetta væri að fara að smella, því liðið lék aldrei svo illa. Núna eftir áramót hafa vonbrigðin hins vegar verið svo miklu algengari en góðu punktarnir.
Sjáið bara síðustu leikina okkar í deildinni. Tap gegn Birmingham, Newcastle og jafntefli á móti Blackburn. Við hefðum átt að ná 7 stigum útúr þessum leikjum, en uppskárum 1. Við værum búnir að klára þetta 4. sæti ef við hefðum bara haldið einhverjum standard á spilamennskunni.
Ég veit að við Kristján erum duglegir við að krítísera þá leikmenn, sem við fílum ekki. Við erum brútal í gagnrýni á Dudek og Hamann, en hlífum oftast þeim leikmönnum, sem við erum hrifnir af, svo sem Garcia og Baros.
En mönnum getur hins vegar varla verið alvara með það að vilja selja Milan Baros.
Milan Baros er 23 ára gamall. Hann er búinn að skora 9 mörk í deildinni. Það er tveim mörkum meira en næst markahæsti maðurinn okkar í fyrra, Emile Heskey, skoraði. Þessi 9 mörk eru meira en 20% af okkar mörkum. Hann er búinn að skora fleiri mörk en Eiður Smári, Jose Reyes, Dennis Bergkamp, Ruud van Nilsteroy, Alan Shearer, Alan Smith, Patrick Kluviert, Mateja Kezman og Emile Heskey.
Milan er í raun að spila sitt fyrsta alvöru tímabil fyrir Liverpool eftir að hafa sífellt verið á bekknum fyrir liðið undir stjórn Gerard Houllier. Hann hefur spilað með eftirfarandi mönnum í framlínunni: Harry Kewell, Luis Garcia, Fernando Morientes, Neil Mellor, Florent Sinama-Pongolle, Djibril Cisse og Vladimir Smicer. Þetta eru **SJÖ mismunandi** félagar í framlínunni. Er það furða þótt honum gangi illa?
Ég nenni ekki að taka saman tölfræðina, en Baros og Morientes eru ekki búnir að vera saman í mikið meira en 5-7 leikjum. Í raun þori ég nánast að fullyrða að Baros hafi ekki verið með neinum félaga í fleiri en 7-10 leikjum í vetur. Það er alltaf verið að biðja hann um að skipta um félaga, auk þess sem Benitez svissar á milli þess að vera með einn frammi eða tvo. Bætum svo við þessu að Baros er búinn að vera meiddur á þessu tímabili.
Er það þá einhver furða að Milan Baros hafi ekki skorað 20 mörk á þessu tímabili? Ég spyr.
Milan hefur sína galla og við erum flest sammála um þá. En hann er hins vegar ungur og hefur eflaust gott af því að spila með reynslumeiri mönnum í framlínunni einsog Fernando Morientes.
En Milan Baros, þegar hann er í stuði, er (leyfi ég mér að fullyrða) einn af 10-15 bestu sóknarmönnum í heimi. Hann var markahæsti maður EM og það var engin sérstök tilviljun. Hann er einfaldlega ótrúlega góður framherji. Hann getur dottið niður í lélega leiki en að öllu jöfnu eru þeir mun færri en góðu leikirnir hans.
Segjum sem svo að við myndum selja Baros, einsog sumir virðast vilja gera, þá getum við átt von á að fá um 10-15 milljónir punda fyrir hann. Ég leyfir mér að efast um að við fáum betri 23 ára gamlan framherja fyrir þann pening, sem einhver von er á að komi til Liverpool. Ég get allavegana ekki nefnt einn.
Leyfum Milan Baros að venjast samstarfinu með Morientes. Gefum honum nokkra leiki með sama félagann, í sama leikkerfinu og ég er fullviss um að eftir skamma stund verða þeir, sem lögðu til sölu hans, farnir að furða sig á fyrri yfirlýsingum. 🙂
p.s. ég vona svo innilega að næsta færslan á þessari síðu mun ekki bera sama nafn og þessi 😉
Það mætti alltaf fjalla um áhrif skrifa Milan Kundera á leik Liverpool…
Ég veit ekki með Baros, ef við gefum okkur að Cisse nái aftur fyrri styrk fyrir næsta tímabil held ég að það væri ekki það versta sem við gætum gert að selja Baros fyrir 15 milljónir, ég held að það séu margar stöður verr mannaðar en sóknin – Baros. En það er einn maður sem verður greinilega seldur í sumar og það er Kewel, peningar fyrir Baros gætu gert mikið til að fylla uppí það skarð, og þá meina ég ekki nýjan meiðslalistabolta…
Við getum allavega glaðst yfir því að Bulls eru að hressast og eru nánast öruggir í úrslitakeppnina :biggrin:
En varðandi Liverpool þá virðist það nú vera þannig að við spilum alltaf verr á móti liðum sem eru fyrir neðan okkur í deildinni, þannig að við vinnum bara Everton á sunnudag og þá fáum við von að nýju….sem verður svo kraminn aftur í leiknum á móti Bolton o.s.frv :confused:
Ps. Baros má ekki fara, hann er alltof góður, þó svo að það hafi nú ekki sést í síðasta leik, en hver var góður í honum ?
Allir framherjar nema Morientes hafa meiðst illa á rúmu ári. Baros, Cisse fótbrot, Pongolle og Mellor laskað hné. Ekki getur Ástralinn gengið til skógar
Menn meiðast en andskotinn hafi það hvað menn meiðast mikið.
Því vitna ég í gamalt máltak og umorða það “okkar” boltamál.
Eftir hausnum hreyfast limirnir – Eftir meiðslum standa stigin.
Ég er sammála þessari grein Einar, að við eigum að sýna Baros þolinmæði og gera allt sem við getum til að halda í hann í sumar. En hins vegar er ég bara orðinn hræddur um að Rafa vilji losna við hann, og ef það þarf að minna einhvern á það þá er það Rafa sem ræður þessu, ekki ég.
Þar að auki verður að segjast að þú sást Milan ekki í gær Einar. Þú þekkir mig, það þarf ansi mikið að ganga á til að ég fari að leggja það til að hann verði settur á bekkinn, sérstaklega eftir stórleikinn sem hann átti gegn Leverkusen fyrir viku. En frammistaðan hans í gær var að mínu mati sú versta sem ég hef séð, eða í öllu falli man eftir, hjá Milan Baros fyrir Liverpool FC.
Hann er einn af 10-15 bestu framherjum í heimi, ég efast ekki um það. En að mínu mati ættu Morientes og Cissé líka fyllilega heima í þeim hópi … og af þessum þremur hafa bara tveir sýnt einhverja viðleitni til að reyna að falla inn í leikskipulag Rafa í vetur. Milan Baros er hvorugur þessara tveggja.
Þess vegna óttast ég það æ meir að hann fari … einfaldlega vegna þess að Rafa er að reyna að innprenta stöðugleika og ákveðna taktík í menn – á skiljanlega erfitt með bæði vegna fáránlegrar meiðslaóheppni – og það viljast flestir vera í það minnsta viljugir til að aðlagast breyttum áherslum. En ekki Milan, honum líður bara best með boltann við tærnar útá væng, alveg sama hvað Rafa tautar og raular.
Og já, það sást nokkrum sinnum í leiknum að Rafa var að reyna að segja honum að halda sig frá köntunum og teygja á rangstöðulínu Blackburn, það sást augljóslega … en allt kom fyrir ekki. Það að Milan var tekinn útaf 20 mín. fyrir leikslok þegar við vorum nauðsynlega að reyna að skora segir sína sögu.
Ég held ennþá ótrúlega mikið upp á Milan Baros og vona að hann verði kyrr í sumar. Hins vegar neita ég að vera einn af þeim áhangendum sem dýrkar svo mikið að ég loki augunum fyrir veikleikum kauða, hann hefur stóran veikleika sem hann verður að laga hjá sér og það sem fyrst, því annars held ég að Rafa skipti honum út í sumar.
Bara mín skoðun.
Ég get alveg skilið að menn bindi vonir með Baros. En þessi leikmaður nær bara engan veginn að heilla mig. Ég sé fyrir mér að Cisse og Morientes verði aðalframherjaparið hjá okkur á næsta ári og Baros mun halda áfram að kvarta yfir hve fá tækifæri hann fær, svo ég tel eins og hefur komið hér fram að það sé best að selja hann og fá einhverjar 10-15m punda. Í staðinn getum við reynt að kaupa einhverja almennilega kantmenn. Svo ef eitthvað er til í þessu slúðri um áhuga Lazio á Hyypia(sem ég held mikið upp á) þá þurfum við nauðsynlega einhvern traustan við hlið Carraghers í miðju varnarinnar.
Kv. Stjani
Ég hef bara eftir vini mínum sem er Liverpool stuðningsmaður: “Djöfull hlýtur Smicer að vera góður á æfingum, því alltaf fær hann að spila þegar hann er heill, og getur svo ekki neitt.”
Góðir strikerar geta spilað með hverjum sem er… það væri nú lélegt ef að Nistelrooy spilaði bara vel ef hann hefði Rooney með sér.
Og já, Milan er búinn að skora fleiri mörk heldur en Eiður Smári, Jose Reyes, Dennis Bergkamp, Ruud van Nilsteroy, Alan Shearer, Alan Smith, Patrick Kluviert, Mateja Kezman og Emile Heskey… en bara í deildinni.
Ef að allar keppnir eru teknar saman, þá er hefur hann skorað jafn mörg mörk og Drogba, Hasselbaink, Yakubu og Ljungberg, og svo færri en Shearer.
Síðan hefur Nistelrooy verið mikið meiddur í ár…einungis spilað 18 leiki í ár, og skorað í þeim 12 mörk.
Sama má segja um Kluivert… 22 leikir, 11 mörk.
Og varðandi fullyrðingu um að hann sé einn af bestu 10-15 bestu sóknarmönnum í heimi… þá verð ég bara að hefja upptalningu, en hann er ekki einu sinni besti striker Liverpool:
Thierry Henry
Andrei Shevchenko
Ronaldo
Samuel Eto’o
Michael Owen
Jermain Defoe
Fernando Torres
Adriano
Francesco Totti
Ruud van Nistelrooy
Wayne Rooney
David Trezeguet
Raul
Antonio Cassano
Fernando Morientes
Alan Shearer
Roy Makaay
Didier Drogba
Yakubu
Jose Reyes
Hérna geri ég ráð fyrir því að miðað sé við að allir leikmennirnir séu í stuði líkt og Baros þegar hann á að vera á topp 10-15
🙂
Mér finnst umræðan oft fara í marga söluhringi. Það er ekki langur tími siðan Carragher var blóraböggull. Söluræður voru haldnar í mörgum kompum, sem betur fer var það bara í kompum. Efast um að Baros verði látinn fara m.v. hvað Rafa sagði í upphafi tímabils, fjórir klassa framherjar takk fyrir.
Það má segja að Baros skein skært síðasta sumar, en það má með sönnu segja að það sé vetur ennþá.
Ég er fyrir löngu búinn að gera mig ónæman fyrir úrslitum úr leikjum LFC. Það byrjaði fljótlega eftir að Houllier tók aftur við liðinu eftir að hjartað var tekið úr honum og settur hlandkoppur í staðinn. Svo fannst mér bjartari tímar vera að koma með Herra Benitez og þó aðallega eftir að maður sá liðið í USA ferðinni þar sem að þeir spiluðu bara feykilega góðan bolta og akkúrat boltann sem maður vill sjá þá spila. Sækja á öllum leikmönnum og verjast með öllum leikmönnum.
Það er bara staðreynd að Herra Benitez þarf að læra á enska boltann áður en hann fer að vilja gera eitthvað meira í deildinni. Við getum ekki sætt okkur við dúkkulísur, pretty boys og þaðan af verra þegar við erum að berjast um titla í Englandi.
Ég séð frammundan algjöra yfirhalningu á þessu blessaða liði okkar. Það verða í það minnsta 10 leikmenn sem fara í sumar og kæmi mér ekki á óvart ef Hyypia, Baros, Traore, Biscan, Hamann færu ásamt Gerrard (sem er núþegar farinn miðað við spilamennskuna). Einnig má ekki gleyma lánsmönnunum sem ég spái að allir fari bara til að losa menn undan samningum og koma nýjum ábyrgðafyllri mönnum fyrir.
Við höfum fengið svo mikla gagnrýni á markverðina á þessu tímabili sem mér finnst óverðskulduð. Það er að mínu mati eina staðan þar sem við höfum nægilegt magn af góðum leikmönnum. Vörnin og miðjan er aðal vandamálið. Vörnin þarf “Hanse/Lawrenson” tvíeyki á meðan miðjan þarf að fá leikmann sem er fullkomlega hæfur að spila með Alonso. Svo þurfum við virka kantmenn sem eru engar kerlingar og geta tekið menn á án þess að þurfa að gera svo mörg skæri að lappirnar á viðkomandi detti af. Sóknin er fín eins og hún er en þótt Baros fari að þá þurfum við bara einn í viðbót til að leysa hann af þar sem að við erum með slatta af heimsklassa sóknarmönnum fyrir.
Ég er orðinn drullu þreyttur á þessari möru sem liggur yfir LFC og það er kominn tími á að sumarið birtist með vorhreingerningarnar í fyrirrúmi. Megi Herra Benitez kaupa sem mest í sumar! HALELÚJA!
PS: Chicago Bulls eru nú á uppleið eins og stórveldið Boston Celtics! Það verður gaman að slá út Chicago í úrslitakeppninni í vor :biggrin:
Pétur Steinn sagði:
>Góðir strikerar geta spilað með hverjum sem er? það væri nú lélegt ef að Nistelrooy spilaði bara vel ef hann hefði Rooney með sér.
Ég er alveg sammála með það. En málið er einfaldlega að Baros hefur ekki fengið neinn tíma til að spila með neinum af þessum félögum sínum. Nilsteroy og Rooney verða ekki eitthvað dúndurpar eftir einn leik, heldur tekur það tíma.
Ég er reyndar á því að hann sé besti framherjinn hjá Liverpool og að mínu mati er hann betri en Yakubu, Cassano, Torres, Defoe, Drogba og Rooney. En það er bara mín skoðun og við getum verið sammála um að vera ósammála um þessa niðurröðun. 🙂
Og já, Eiki, það verður skemmtilegt að sjá Bulls aftur í úrslitakeppninni. Vona að þeir fari ekki að klúðra þessu uppúr þessu 🙂