Ég hef oft reynt að finna útúr því af hverju ég er Liverpool aðdáandi. Hvort það hafi verið einhver gjöf, einhver leikur, einhver stund, sem gerði það að verkum að ég byrjaði að fylgjast með, styðja og síðar elska þetta fótboltalið, sem hefur haft áhrif á líf mitt og geðheilsu.
Það er nefnilega enginn harður Liverpool maður í fjölskyldunni. Pabbi horfir varla á fótbolta og bróðir minn er Arsenal maður. Ég man hins vegar ekki eftir að hafa stutt neitt annað lið en Liverpool, hver svo sem ástæðan er.
Fyrsta minningin mín um Liverpool leik er hins vegar alveg skýr, líkt og leikurinn hafi farið fram í gær.
Ég var 7 ára gamall þegar Liverpool og Juventus áttust við í úrslitaleik í Evrópukeppninni þann 29. maí 1985. Ég veit að á þeim tíma var ég Juventus stuðningsmaður vegna þess að Michel Platini var minn uppáhalds knattspyrnumaður. Ég man þó að ég hélt mun meira með Liverpool.
Það er kannski eilítið skrítið en þessi ömurlegi dagur, sem er svo sannarlega svartasti bletturinn í sögu okkar frábæra klúbbs, er sá fyrsti sem ég man eftir tengdur Liverpool.
38 Juventus aðdáendur og einn Belgi létust þennan dag.
Heysel leikvangurinn, þar sem úrslitaleikurinn fór fram, var í ömurlegu ástandi og skipulagning mótshaldara var léleg þennan dag. Ákveðið var að úthluta ákveðnum fjölda miða til hlutlausra Belga, sem varð til þess að aðdáendur liðanna gátu keypt miða á svörtum markaði af Belgunum. Þess vegna lentu aðdáendur Liverpool og Juventus hlið við hlið, aðskildir einungis af girðingu.
Árið áður höfðu aðdáendur Liverpool fengið hræðilegar móttökur hjá ítölskum aðdáendum Roma liðsins þegar Liverpool vann Evrópukeppnina í Róm árið 1984. Eftir þann leik urðu aðdáendur Liverpool fyrir miklu aðkasti. Ítalarnir hræktu m.a. og köstuðu steinum í Liverpool aðdáendurna þegar þeir fóru út frá leikvanginum. Kenny Dalglish telur þetta m.a. mikilvæga ástæðu fyrir hegðun Liverpool stuðningsmanna á Heysel árið eftir.
Ástandið fyrir leikinn á Heysel versnaði fljótt og að lokum byrjuðu stuðningsmenn Juventus að kasta hlutum á Liverpool aðdáendurna, sem varð til þess að stuðningsmenn Liverpool réðust á þá. Stuðningsmenn Juventus fylltust örvæntingu og flúðu flestir að vegg, sem varð til þess að stúkan hrundi undan þunga þeirra. 38 stuðningsmenn Juventus og 1 Belgi létust. Yfir 350 manns særðust.
Þessi dagur er sá svartasti í sögu okkar liðs. Þótt að völlurinn hafi verið ónýtur og löggæslan slæm þá verður ekki framhjá því litið að það voru Liverpool aðdáendur, sem báru þunga sök á dauða Ítalana. Eftir atburðina voru ensk félagslið bönnuð frá Evrópukeppninni í 5 ár og það má segja að stjarna Liverpool hafi aldrei skinið jafn skært síðan þá, enda hefur Liverpool ekki unnið Evrópukeppni Meistaraliða eða Meistaradeildina síðan þá.
Nafn Liverpool var í mörg ár tengt öllu því versta, sem fótboltinn bauð uppá. Stuðningsmenn liðsins voru stimplaðir sem ofbeldismenn og vitleysingar. Síðan þá hefur ansi margt breyst, bæði hjá Liverpool og í knattspyrnunni almennt. En atburðirnir á Heysel munu aldrei gleymast og það er alveg ljóst að mjög margir aðdáendur Juventus hafa aldrei fyrirgefið Liverpool. Stjórnir félaganna hafa myndað vináttubrýr á milli félaganna, en það er óvíst að aðdáendur Juventus geti nokkurn tímann tekið Liverpool í sátt.
Leikurinn endaði með sigri Juventus 1-0. Platini skoraði markið úr víti.
Það verður eflaust mikið skrifað um Heysel slysið á næstu dögum. Ég vil benda á þrjár greinar, sem eru allar góðar og vel þess virði að lesa. Fyrir það fyrsta eru hér frásagnir Liverpool aðdáenda, sem upplifðu atburðina í Belgíu. Svo sannarlega mjög átakanleg lesning.
Önnur grein birtist í Obserber í dag og heitir Lost Lives that saved a sport. Þar fjallar Andrew Hussay um Heysel og hvernig sá atburður hefur þó allavegana orðið til þess að bæta fótboltann.
Fyrir okkur, sem byrjuðu að fylgjast með fótbolta af alvöru eftir Heysel slysið er erfitt að skilja hvernig andrúmsloftið á leikjum í enska boltanum var fyrir Heysel. Ég las athyglisverða lýsingu á því hér:
… in England a Saturday spent as an away fan in those days was like being a prisoner-of-war for the duration; guarded on trains; marched to the ground while locals threw missiles and spat in your direction; stood behind razor wire for the duration of the game and held back for hours afterwards while the police cleared the streets. No wonder attendances at matches were plummeting. From around 42 million clicks of the turnstiles in the English League alone in 1948, to 17 million in 1984, it was one long descending graph
Þessi lýsing á auðvitað ekkert sameiginlegt með því, sem gerist í dag. Ég hef farið á nokkra fótboltaleiki í Evrópu, á Old Trafford, Nou Camp og fleiri völlum en aldrei nokkurn tímann leið mér einsog öryggi mínu væri ógnað eða að ég væri í hættu fyrir að vera Liverpool aðdáandi á Old Trafford. Ástandið er einfaldlega gjörbreytt.
Ég hef þó upplifað ástandið, einsog það var fyrir Heysel, í Suður-Ameríku. Í Argentínu fór ég árið 1996 á leik með Boca Juniors. Þar fyrir utan völlinn voru skriðdrekar og hermenn með vélbyssur. Inná vellinum var okkur sagt að við yrðum að vera í Boca Juniors hlutanum því ef við værum hvítir og ljóshærðir í gesta hlutanum, þá yrði litið á okkur sem stuðningsmenn River Plate og þá ættum við ekki von á góðu. Á vellinum voru sæti, en við vorum fyrir aftan markið, þar sem allir stóðu á pöllum. Fólkið hoppaði allan tímann og söng og þegar Boca skoraði, þá færðist öll stúkan í einu uppað girðingunni í fagnaðarlætum og þeir æstustu klifruðu uppá girðinguna og fögnuðu. Slíkum girðingum var auðvitað eytt úr enska boltanum í kjölfar hörmunganna á Hillsborough.
Eftir leikinn þurftum við að bíða í hálftíma eftir því að fá að fara útaf vellinum. Fyrst fengu stuðningsmenn útiliðsins að fara út. Þeir þurftu að fara í gegnum nokkurs konar búr, þar sem stuðningsmenn Boca hrópuðu að þeim og köstuðu öllu lauslegu í þá. Þetta er gjörólíkt þeirri stemningu, sem ég upplifði á Nou Cammp og Old Trafford.
Einnig er ágæt grein í The Guardian: Liverpool still torn over night that shamed their name.
Átakanlegust er þó þessi í grein í The Guardina: The horror of Heysel scarred in the mind, þar sem rakin er saga ítalsk föðurs, sem horfði uppá son sinn deyja í troðningnum á Heysel.
Á þriðjudaginn spilum við gegn Juventus í fyrsta skiptið í Evrópukeppninni eftir Heysel slysið. Við skulum vona að þeirra leikja verði minnst vegna knattspyrnu, en ekki ofbeldis. Fyrir leikinn á Anfield mun vera mínútu þögn til að minnast þeirra, sem létust í Belgíu. Stuðningsmenn Liverpool munu svo mynda mósaík mynd með orðunum Amicizia (vinátta) á milli merkja liðanna.
Allir Juventus aðdáendur, sem mæta á Anfield munu fá bækling með skilaboðum frá Ian Rush, sem lék fyrir bæði liðin.
Á baksíðunni mun einfaldlega standa: “We are sorry. You’ll Never Walk Alone”.
Frábær pistill Einar. Þar sem ég er tveimur árum yngri en þú man ég ekkert eftir þessum leik og hef því miður aldrei séð hann á myndbandi. Það eina sem ég veit/man er það sem ég hef lesið mér til, og það sem pabbi sagði mér en hann horfði á hörmungina í beinni á meðan ég var í Legó-kubbunum við hliðina á sófanum (5 ára gamall) … mín fyrsta minning frá Liverpool er 2-0 tapið gegn Arsenal þar sem Michael Thomas skoraði bæði mörkin. Hef eflaust horft á Liverpool áður en sá leikur átti sér stað, en man bara ekki lengra aftur í tímann.
Heysel-harmleikurinn varð vissulega ekki aðeins hörmulegur dagur fyrir knattspyrnuna heldur átti eftir að hafa mjög afdrifaríkar afleiðingar í Evrópunni allri. Í kjölfarið á þessum leik var farið af stað með ýmis konar pælingar varðandi öryggi á knattspyrnuvöllum í Evrópu … pælingar sem enduðu með því að í dag eru sæti á flestum eða öllum völlum og UEFA gerir það að skyldu að það séu sæti fyrir alla áhorfendur á leikjum á sínum vegum.
Við Íslendingar höfum séð það best á því að lið eins og FH og Fylkir verða að spila Evrópuleiki sína á Laugardalsvellinum þar sem þeir mega ekki selja í stæðin á sínum völlum.
Þá eru miðamál komin í miklu skipulagðari farveg, auk þess sem áróðurinn gegn ofbeldi á knattspyrnuleikjum hefur borið þann árangur að þeir leikir sem við sækjum í dag í Evrópu eiga lítið skylt með því andrúmslofti sem ríkti fyrir 20 árum, eins og þú bendir réttilega á Einar.
Það eru 20 ár liðin síðan þessi svartasti blettur í sögu Liverpool varð (auk Hillsborough held ég að þetta séu þeir tveir atburðir sem allir myndu taka aftur ef þeir gætu) og aðild okkar að Evrópukeppnum breyttist varanlega. Liverpool var búið að vinna Evrópukeppni Meistaraliða fjórum sinnum á síðustu átta árunum á undan Heysel en voru í kjölfarið settir í sjö ára bann, að mig minnir, og öll önnur ensk lið einnig sett í fimm ára bann. Eftir að Liverpool kom inn eftir þetta bann hefur endurinnkoman í Evrópukeppnirnar verið mjög erfitt ferli fyrir Liverpool – sem er einmitt ástæðan fyrir því að manni þykir svo vænt um að sjá liðið ná árangri í Evrópu.
Houllier leiddi okkur til sigurs í UEFA-keppninni vorið 2001 í einum besta úrslitaleik allra tíma, en það sem mikilvægara var að andrúmsloftið á þeim leik var Liverpool-aðdáendum til fyrirmyndar og sýndi Evrópu að mikið hafði breyst. Á þriðjudag leikur Liverpool í 8-liða úrslitum Meistaradeilarinnar og augu Evrópu munu hvíla á Anfield. Framkoma Liverpool-stuðningsmanna á þriðjudaginn mun því (vonandi, líklega) fara enn lengra með að snúa almenningsáliti Evrópubúa aftur Púllurum í vil.
En ég tek undir með þér Einar, frábær pistill og við vonum að leikirnir tveir sem eru framundan gegn Juventus verði eftirminnilegir fyrir sakir knattspyrnunnar sem spiluð verður í þeim, ekki fyrir atburða utan vallar.
You’ll never walk alone.
Finnst einnig fréttin sem opinbera síðan var að setja inn sýna í góðu ljósi hversu gríðarleg tilfinningatengsl eru á milli stuðningsmanna þessara tveggja liða í kjölfar Heysel-harmleiksins. Hvet alla til að lesa þessa frásögn: Remorseful Red on peace mission to Italy
Ég hef einusinni farið á leik á Ítalíu, interToto leikur milli Juventus og einhvers austantjalds liðs. Á leiðinni á völlinn fékk okkar litli hópur Íslendinga lögreglufylgd og það sama gilti um ferðina til baka (við þurftum að ganga þó nokkurn spöl frá lestarstöðinni og á völlinn). Mér fannst það nokkuð magnað, sérstaklega þar sem okkar hópur var ekkert frekar “pro-Juve”, okkur bauðst bara tækifæri til að sjá Edgar Davis og fleiri hetjur og maður gat ekki slegið hendinni á móti því.
Það vantar eitthvað í hausinn á þessum gaur sem er með þessa heimasíðu (http://bianconeri.tripod.com/enemies.html)! hann hatar allt og alla og í raun er það ekkert skylt við fótbolta! Ég vona að svona gaur verði stoppaður af áður en eitthvað slæmt hlýst af.
En frábær pistill og í raun eitthvað sem allir knattspyrnuaðdáendur verða að fá að heyra reglulega. Slysið á Heysel bitnaði allt á LFC aðdáendum en ekki þeim sem skipulögðu hlutina á vellinum þann dag. Ég var aðeins eldri en þú þennan dag, Einar, og ég sat heima og átti virkilega bágt með mig þann daginn.
Þykir leitt að vera að leiðrétta, en ef að þú ert að tala um leikinn þegar Arsenal tryggði sér titilinn 1989, þá skoraði Alan Smith fyrra markið. Michael Thomas kom inn á sem varamaður, og skoraði svo þetta eftirminnilega mark sitt.
Takk fyrir leiðréttinguna, Sverrir.
Ég vil bara benda á að ég bætti einni grein við pistilinn eftirá. Það er saga ítalsk föðurs, sem sá [son sinn deyja á Heysel](http://football.guardian.co.uk/championsleague200405/story/0,15008,1450627,00.html)
Já alveg rétt. Minnti samt alltaf að hann hefði skorað þau bæði, skrýtið… en ég er afsakaður, þar sem ég var bara 8 ára þegar þetta gerðist. 🙂