Manchester City 1 – Liverpool 0

_41016263_musampa_emp.jpgÉg veit eiginlega ekki hvað ég á að skrifa um þennan leik, en ég var reyndar nokkuð viss um að við myndum tapa. Ég meina horfum á atburði undanfarinna daga:

1. Morientes segist geta spilað á móti Bolton
2. Við vinnum Bolton
3. Alonso er á bekknum gegn Juventus
4. Við vinnum Juventus í stórkostlegum leik
5. Xabi Alonso spilar með varaliðinu og er heill
6. Tilkynnt af Djibril Cisse sé að byrja að spila

Það var því alltaf ljóst að þetta myndi enda illa. Þetta lið gat ekki mögulega hlíft okkur stuðningsmönnum við áföllum í tvær heilar vikur. Það þurfti náttúrulega að koma okkur niður á jörðina einsog það hefur gert í allan helvítis vetur.

Flestir þeir leikmenn, sem spiluðu með liðinu í dag ættu fullt erindi í flest lið í heiminum þegar þeir spila einsog þeir spila best. Vandamálið er að þeir spila bara alls ekki nógu oft vel. Þeir detta niður í ömurlega meðalmennsku í öðrum eða þriðja hverjum leik. Við getum einfaldlega ekki treyst á þá ef að Rafa ætlar að byggja upp stórlið.

Byrjunarliðið var svona:

Carson

Finnan – Carragher – Pellegrino – Warnock

Garcia – Gerrard – Biscan – Riise
Le Tallec
Morientes

Af þessu byrjunarliði, þá held ég að aðeins 6 séu í huga Rafa Benitez toppmenn, sem hann getur byggt lið á í framtíðinni. Það eru Carson, Finnan, Carra, Garcia, Gerrard og Morientes.

Hinir eru Warnock, Biscan, Riise, Pellegrino og Le Tallec. Pellegrino er sterkur varnarmaður, en ég held að Rafa fari ekki inní næsta tímabil með hann sem miðvörð númer 2, heldur verði hann varamaður. Riise verður ekki vinstri kantmaðurinn okkar á næsta tímabili, en hann getur gert vinstri bakvarðarstöðuna að sinni.

Le Tallec er ekki tilbúinn að spila reglulega sem framherji og Igor Biscan verður einfaldlega aldrei toppmaður hjá okkur, en hann gæti komið sér vel sem varaskeifa fyrir Gerrard og Alonso.

Vandamálið í þessum leik var einfaldlega að alltof margir leikmenn festust í meðalmennsku.

Við áttum nokkur góð færi í leiknum (sérstaklega í fyrri hálfleik) en okkur gekk ekkert að klára þau. Le Tallec og Gerrard klúðruðu bestu færunum. Hinum megin sköpuðu Manchester City betri færi en Scott Carson varði gríðarlega vel. Aðalfjörið var í fyrri hálfleik en þá sköpuðu bæði liðin færi en allt spil datt niður í þeim seinni.

Liverpool náðu einfaldlega engu spili upp. Spilamennskan var einsog ákall til ákveðins [Spánverja](http://www.kop.is/gamalt/2005/04/06/22.19.41/), sem hefði án efa náð að bæta spilið til muna. Það gekk einfaldlega ekkert spil upp. Manchester City menn höfðu einfaldlega yfirhöndina á miðjunni vegna þess að Steven Gerrard var þar aleinn. Igor Biscan náði sér einfaldlega aldrei á strik.

Það sama er að segja um sóknarmennina okkar, Le Tallec og Morientes. Le Tallec náði aldrei að tengja spilið saman á milli sóknar og miðju og því sköpuðum við engin marktækifæri.

Jafntefli hefði dugað til að koma Liverpool uppí fjórða sæti en stuttu fyrir leikslok áttu City menn mjög góða sókn, sem endaði á því að Lee Croft sendi fyrir markið, þar sem Kiki Musampa tók við boltanum og negldi honum í hornið, óverjandi fyrir Scott Carson.

**Menn leiksins**: Það er erfitt að velja menn leiksins, þar sem liðið lék alls ekki vel. Alltof margir virtust fullkomlega áhugalausir (ég er að tala um ykkur, Riise, *Morientes*, Le Tallec og Biscan!) í leiknum. Að mínu mati spiluðu tveir menn best í liðinu. **Scott Carson** stóð sig vel í markinu og hefur greinilega ekki látið mistökin á móti Juve hafa áhrif á sig. Hann sá til þess að City náði ekki að skora í fyrri hálfleiknum.

Af hinum leikmönnunum var það aðeins fyrirliðinn okkar, **Steven Gerrard**, sem barðist vel og spilaði vel. Hann var algjörlega einn á miðjunni en hann barðist vel allan tímann og allt almennilegt spil liðsins fór í gegnum hann.

Núna er staðan þannig að við erum einu stigi á undan Bolton og einu stigi á eftir Everton (sem á leik til góða). Ef Everton vinnur Crystal Palace á morgun, þá komast þeir fjórum stigum á undan okkur með aðeins 6 leiki eftir.

Næsti deildarleikur er á laugardaginn gegn Tottenham á Anfield. Sá leikur er ekki síður mikilvægur en leikurinn á móti Juventus. Það er lítið gaman af árangri í Meistaradeildinni ef við útilokum okkur frá þáttöku á næsta ári með svona aulaskap.

Ég var að vona að liðinu tækist að klára þetta án þess að þurfa að líta á endurkomu Xabi Alonso sem einu vonina, en það er einfaldlega orðið þannig að ég sé enga von fyrir þetta lið nema að Spánverjinn snjalli komi inní þetta og rífi spilið okkar upp.

10 Comments

  1. Var þetta ekki nokkuð fyrir séð með Juventus leikinn hangandi yfir okkur í næstu viku en ég held samt að við tökum 4 sætið 🙂 það kemur einfaldlega ekkert annað til greina,

    Kv Stjáni

  2. Því miður voru þetta sanngjörn úrslit 😡
    Svo er alltaf spurning hversu langan tíma það tekur Alonso að komast í sitt góða form. Vonandi fyrr en seinna.
    Þá er bara að vona að Everton tapi á morgun !
    Koma svo C Palace !!!!!

  3. Það er mikið að þetta “IGOR BISCAN” æði fær á snúðinn! Igor Biscan er enginn spilari og ég vil sjá hann í burtu fyrir einhvern mann sem veit hvar mark andstæðinganna er! Hamann verður kannski okkar varnarsinnaði miðjumaður á næsta tímabili ásamt John Welsh þannig að við þurfum ekki fleiri slíka Daníel Sullskó. En ég er ekkert að pirra mig á tapinu í dag nema hvað að þetta tap hafði af mér 13 rétta í getraunum……..takk fyrir mig!

  4. Hræðilega leiðinlegur leikur og alveg týpískt fyrir okkur að tapa þessum leik. Við getum unnið þessa svokölluðu ?stórleiki? eins og gegn Everton og Bolton sem eru liðin nálægt okkur. Aftur á móti telja þessir leikir alveg jafn mikið og þeir eru orðnir ansi margir þessir ömurlegur deildarleikir okkar þessa leiktíðina.

    Leikur City þurfti ekki að koma okkur á óvart, þeir berjast eins og ljón í stíl við spilamennsku stjórans Pearce. Sannkallað gæfuspor fyrir City að hafa losað sig við Keegan sem hefur ekki gert merkilega hluti sem knattspyrnustjóri.

  5. Jú Stjáni..þetta var fyrirsjáanlegt sérstaklega þar sem leikmenn verða svo svakalega “þreyttir” ef þeir spila vel þennan leik og eiga svo annan leik í miðri næstu viku. Án gríns…..ef ég heyri þreytukjaftæðið einu sinni enn mun ég kaupa mér haglara og plaffa allt sem á vegi mínum verður! Það mættu stundum halda að þessir knattspyrnumenn séu í 12 tíma vaktavinnu og fái varla svefn.

  6. Mig langar ótrúlega til að skrifa mín 1,000 orð um þennan leik eins og venjulega, en ég ætla að sleppa því í þetta sinn. Ætla að taka mig til og hugsa um allt, allt, allt annað en enska knattspyrnu í kvöld…

    mæli með því að menn taki sér frí frá þessu liði í kvöld. :confused:

  7. Jamm, góð hugmynd hjá þér Kristján. Ég ætla að detta í það og gleyma þessu liði í kvöld. Læt þá ekki skemma fyrir mér laugardaginn. 🙂

  8. vá hvað brúnin á mér lyftist við að horfa á Norwich taka man.utd í hann þurran 🙂

  9. Af þessu byrjunarliði, þá held ég að aðeins 6 séu í huga Rafa Benitez toppmenn, sem hann getur byggt lið á í framtíðinni. Það eru Carson, Finnan, Carra, Garcia, Gerrard og Morientes.

    Josemi var var nú alltaf byrjunarmaður í hægri bakvörð á meðan hann var heill, svo ég efast um að hann líti á Finnan sem toppleikmann. Riise er t.a.m. mun betri, en reyndar er hann betri sem kantmaður heldur en sem bakvörður.

  10. Hvað er hægt að segja eftir svona leik. Það er ótrúlegt að við séum að horfa á sama lið og vann Juve á þriðjudaginn.

    Hvernig er hægt að mæta í svona leik með þetta hugafar og svona spilamennsku, eru menn ekki að gera sér grein fyrir því að einungis 6 leikir eru eftir. Þar af eru 3 útileikir og það er nokkuð ljóst að þeir munu allir tapast ef þessi meðalmennska heldur áfram. Þó ber að hrósa Man City fyrir góðan leik. þeir áttu skilið að vinna.

    Það reddaði þó ömurlegum degi að man u skildi tapa jibí. Ekki gátu þeir rassgat frekar en við.

    En hvað er til ráða???????

    Ég held að Benitez eins og við geti ekki beðið eftir því að sumarið komi, þannig að hægt sé að hefjast handa við hreingerningar.

    kveðja
    Krizzi

Liðið gegn Man City komið

Helgin búin