Everton tapar, Bolton á leik á móti Chelsea, þar sem Chelsea getur tryggt sér titilinn og við [spilum á móti](http://news.bbc.co.uk/sport1/hi/football/eng_prem/4476067.stm) Middlesboro **á Anfield**. Af hverju getum við ekki unnið svona leiki?
Ég meina í alvöru, hvað gerir það að verkum? Við yfirspiluðum Middlesboro í seinni hálfleik eftir að fyrri hálfleikurinn hafi verið aðeins jafnari (þótt við hefðum verið betra liðið). En samt, þá nýtum við ekki tækifærið. Það er einsog Everton neiti að klára þetta og vilji alltaf gefa okkur fleiri sjensa. Þeir leggja þá á borðið fyrir okkar menn, en þrátt fyrir allt, þá afþakka okkar menn alltaf boðið. Alveg magnað!
Hefði bara einhver potað inn einu marki í viðbót fyrir Liverpool þá hefði þessi leikskýrsla verið alveg fáránlega jákvæð því þrátt fyrir allt, þá lékum við vel í 80 mínútur. Í seinni hálfleiknum var liðið frábært. En það var bara ekki nóg!
Rafa stillti þessu upp svona:
Finnan – Carra – Pelle – Warnock
Núnez – Gerrard – Alonso – Riise
Morientes – Kewell
Pellegrino var stórkostlega slappur í leiknum og ég leyfi mér að skrifa Boro markið svona 80% á það hversu lygilega seinn hann er. Pellegrino lætur Laurent Blanc líta út einsog blettatígur. Það kom sending inná Nemeth. Carragher hefði stoppað sóknina blindandi hefði hann verið í sporum Pellegrino, en í stað þess þá stakk Nemeth Pellegrino gjörsamlega af (Pellegrino reyndi að toga í Nemeth, sem hefði getað verið rautt spjald og svo datt hann á rassinn). Nemeth komst í dauðafæri og renndi boltanum framhjá Dudek.
Eftir þetta áttum við leikinn, þó sérstaklega í seinni hálfleiknum. Garcia kom inn fyrir Pellegrino í hálfleik og við það urðu sóknirnar mun beittari, en það dugði einfaldlega ekki. Jöfnunarmarkið var þó stórglæsilegt. Riise gaf langa sendingu á Gerrard, sem skaut af 40 metra færi og hitti boltann í samskeytin. Eitt af fallegustu mörkum tímabilsins.
Eftir það sótti Liverpool stanslaust. Riise, Garcia, Morientes, Gerrard, Núnez og Kewell hefðu allir getað skorað ef þeir hefðu nýtt færin sín. En þeir gerðu það ekki. Og því fór sem fór.
**Maður leiksins**: Ég veit ekki alveg hvern ég á að velja, það var enginn sem stóð uppúr að mínu mati. Flestir voru að spila ágætlega, sérstaklega í seinni hálfleiknum.
Kannski að maður gefi Harry Kewell og Antonio Núnez smá kredit því þeir léku vel. Sérstaklega fannst mér Harry Kewell vera stöðugt ógnandi og það var gaman að sjá hann spila fyrir okkur í 90 mínútur. Einnig var Gerrard ágætur og markið hans var náttúrulega alger snilld.
Everton á núna eftir að spila við Newcastle (H), Arsenal (Ú) og Bolton (Ú) og ég sé það alveg eins fyrir mér að Everton tapi öllum þessum leikjum. Við eigum eftir Arsenal (Ú) og Aston Villa (H). Bolton á eftir Chelsea (H), Portsmouth (Ú) og Everton (H).
Everton þarf bara að ná 4 stigum útúr sínum leikjum til að tryggja sér 4. sætið.
Við hefðum getað sett gríðarlega pressu á Everton í dag. Ég endurtek, við *hefðum* getað það.
Viðbót (Kristján Atli): Ég hef svo sem ekki miklu við þetta að bæta, liðið lék í dag mikið betur en það leikur vanalega eftir Evrópuleiki, þannig að það var jákvætt. Og ég er sammála því að það var gaman að sjá Harry Kewell spila 90 mínútur og það vel fyrir okkur, kannski er hann orðinn góður af meiðslunum? Það væri ómetanlegt fyrir okkur að fá góðan Harry aftur til baka fyrir næsta tímabil.
Það sem stendur samt eftir er það að við töpuðum tveimur stigum í dag, ekki græddum eitt. Jú, forskot Everton minnkaði úr 4 stigum niður í 3, en ef við hefðum drullast til að vinna þennan leik hefði það getað orðið 1 stig og við skyndilega í góðum séns á að stela þessu 4. sæti. En neeeei, það er eins og menn geri þetta viljandi, að klúðra svona leikjum vitandi að Everton er að tapa.
Og hvað Pellegrino varðar þá tel ég því miður að þetta hafi verið skýrt tákn um það að hann er ekki nógu góður fyrir Liverpool. Ég hef varið hann hér, finnst hann hafa gert gagn í því að veita Sami Hyypiä kærkomna hvíld og hann hefur vissulega átt mjög góða leiki (Newcastle úti og Everton heima koma upp í hugann) en þess á milli hefur hann átt hræðilega leiki líka. Hann er leikreyndur, hefur unnið mikið og býr yfir reynslu og gerir margt mjög vel. En hann er einfaldlega allt, allt, allt of seinn fyrir enska boltann. Hugsið málið, ef Szilard Nemeth getur stungið hann af hvernig í ósköpunum getur Rafa sett hann í byrjunarliðið fyrir næstu helgi, gegn mönnum eins og Henry, Reyes, Pires og Van Persie??? Samningurinn við Pelle rennur út í sumar og ég held að það besta fyrir alla í stöðunni væri að leyfa honum að fara, þakka honum fyrir hjálpina á þessu tímabili og skilja í góðu. Og kaupa einhvern eins og Ledley King fyrir næsta tímabil.
En allavega, liðið lék ágætlega og maður getur glaðst yfir endurkomu Harry Kewell en samt er ég ekkert annað en pirraður eftir þennan leik. Það er ekki Everton að þakka að þeir séu að ná 4. sætinu, það er okkur að kenna! Getum engum kennt um nema sjálfum okkur…
Þetta er annar leikurinn á skömmum tíma sem ég hætti að horfa á þá í hálfleik. Ég hef því miður ekki áhuga á svona rusli eins og manni er boðið uppá í fyrsta leik eftir evrópuleiki. Til hamingju með CL sætið, Everton/Bolton.
Eiki, þú misstir af mjög góðum seinni hálfleik. Að mínu mati var þetta einsog Tottenham leikurinn, þar sem við spiluðum nógu vel til að vinna stórt, en það vantaði bara eitthvað. Ég var ekki jafn reiður í dag og þá, þar sem ég er búinn að sætta mig við að vera ekki í Meistaradeildinni á næsta ári.
Jammm, ég er sammála viðbótinni hjá þér, Kristján. Þetta er algjörlega okkur að kenna.
Varðandi Pellegrino, þá höfum við á þessar síðu verið sanngjarnir að mínu mati í umfjöllun á Pellegrino (fyrir utan kannski S’ton leikskýrsluna). En það er bara svo hræðilega augljóst að hann er ekki nógu góður til að spila á móti framherjum, sem geta hlaupið. Við þurfum einhvern betri sem þriðja miðvörðinn.
…
Svona á léttari nótum: Hvernig væri það annars ef að við færum inní lokaumferðina þremur stigum á eftir Everton og þyrftum að treysta á Bolton sigur þar og El-Hadji Diouf myndi koma og skora sigurmark Bolton. Væri það ekki alveg eins líklegur endir á þessu snarbilaða keppnistímabili? 🙂
það er komið ansi leiðinlegt munstur eftir meistaradeildarleikina…eftir 12 leiki þar höfum við bara unnið tvisvar í deildinni í leiknum á eftir meistaradeildarleiknum..7 töp, 3 jafntefli og tveir sigrar
reyndar er arsenal eitt þessarra tveggja liða sem við höfum unnið eftir meistaradeildarleik, svo maður veit aldrei með næstu helgi
annars hef ég sjaldan séð jafn leiðinlegan fyrri hálfleik og áðan, en seinni hálfleikurinn var þokkalegur og markið hans Gerrard var náttúrulega ótrúlegt
Mér var að detta svolítið í hug … við tölum ansi mikið um menn eins og Morientes, Baros og Cissé. Mér finnst Cissé vera farinn að vera okkar mest ógnandi framherji eftir því sem hann kemur meira og meira inní leikinn en því miður þarf hann stundum að spila kantinn af því að Rafa hefur enga betri kosti þar.
En eftir því sem ég hugsa meira um leiki eins og í dag og um síðustu helgi, þá er ég kominn á þá skoðun að okkur sárvantar mann eins og Florent Sinama-Pongolle í þessa leiki. Einhverra hluta vegna, og ég veit ekki alveg nákvæmlega af hverju, þá er ég bara svo sannfærður um að Flo-Po hefði getað skapað eitthvað úr engu fyrir okkur í dag … eins og hann gerði t.d. gegn Southampton og W.B.A. í vetur og Bolton og Leeds í fyrra. Held að hann sé að vissu leyti sá framherji okkar sem er best til þess fallinn að sprengja upp varnarlínu með knatttækni, taka menn á og gera eitthvað. Baros er líka mjög góður í því og Cissé getur það með hraðanum, en þeir eru einhæfari í því en Flo-Po.
Finnst engum öðrum að við gætum hafa skorað fleiri mörk í þessum tap- og jafnteflisleikjum undanfarna mánuði ef við hefðum haft Pongolle í liðinu? Eða er ég bara að rugla?
Hvernig þið fáið það út að við vorum góðir í dag er mér algjörlega hulin ráðgáta. Fyrir utan smá dauðakipp í upphafi síðari hálfleiks fannst mér við hrikalega slappir.
Menn eins og Morientes, Warnock, Nunez og Pellegrino voru hreinlega ekki með í dag…..ég var alltaf að bíða eftir að þeir kæmu inná. Aðrir voru lala, ekkert meira. Riise og Carra fannst mér þeir einu sem spiluðu af eðlilegri getu.
Slakur leikur gegn slöku liði og það alls ekki í fyrsta sinn í vetur….hvað segir það okkur um okkar lið?
….og btw, getur eitthver sagt mér afhverju í andskotanum Rafa tekur Hyypia út og setur mann, sem lætur ömmu mína heitina líta út fyrir að vera hraða, inná????
Algjörlega óskyljanlegt og stór mistök í Rafa.
Við gerðum ekki nóg til í dag að sigra – Það er það eina sem skiptir máli! Við höfum unnið 16 leiki á leiktíðinni og tapað 13, hræðilegur árangur og ef værum með betra lið en Everton fyrir ofan okkur þá værum við löngu hættir að tala um þessa blessuðu Meistaradeild!
Eftir stendur er sú staðreynd að við eigum enn möguleika á titli og sá er nú ekkert af lakari gerðinni. Við eigum bara að vinna hann og taka svo deildina með trompi á næstu leiktíð – Það verður allavega engin Meistaradeild til að trufla Benitez og félaga næsta vetur!
Hyypia er nú engin Speedy Gonzales sjálfur… báðir mjög hægir.
Annars var Gerrard líka hrein hörmung í þessum leik, en skoraði svo þetta mark sem að bjargaði leik hans í dag fyrir horn.
Já það væri munur ef við hefðum nýtt tækifærin á móti boro og tottenham, þar liggja 4 stig.
Ég er sammála ykkur með hann pellegrín, afhverju hefur Benitez svona mikla trú á honum. Hann er fæddur sigurvegari ( sagði stjórinn), en samt virðumst við aldrei geta unnið með pelle í vörninni. Benni þarf eitthvað að endurskoða sín mál þar.
Hyypia getur ekki verið í svo slæmu formi að hann klári ekki 5 síðustu leikina. Inn í vörnina með Hyppia og málið er dautt.
Kveðja
Krizzi