Svo að umfjöllun okkar um Skjá Einn verði ekki of einhæf, þá verð ég að koma því á framfæri að umfjöllun Skjásins um enska boltann hefur verið til fyrirmyndar í vetur. Það að hafa þetta ókeypis hefur ekki sparað mér neinn pening (þar sem ég er með Sýn, sem hefur ekki lækkað í verði), en vissulega hefur þetta verið frábært fyrir marga fótboltaunnendur.
Takk fyrir það.
En núna hefur Skjár Einn tilkynnt það að á næsta ári verði enski boltinn í áskrift í gegnum Breiðbandið. Þetta vissum við náttúrulega og það sáu allir að boltinn var bara ókeypis vegna þess að dreifikerfið var ekki tilbúið undir áskriftarsjónvarp.
Þetta þýðir þá að til að fylgjast með Meistaradeildinni og enska boltanum, þá þurfa menn að borga tvær stöðvar og vera með tvo afruglara á sínu heimili.
Á stöðinni, sem Skjár Einn ætla að reka virðist ekki eiga að vera neitt efni fyrir utan enska boltann. Ég veit ekki hvað ég ætla að gera. Ætli besti kosturinn sé ekki einfaldlega að fá sér gervihnött. Í þeim pakka fær maður bæði ITV (Meistaradeildin) og Sky (enski boltinn). Það er náttúrulega fáránlegt ástand á Íslandi að þessar sjónvarpsstöðvar geti ekki komið sér saman um dreifingu á efni.
Já maður vissi þetta nú svo sem alltaf, að hann yrði læstur á næsta ári. Mér finnst lang líklegast að ég muni skipta yfir í gervihnattarpakkann, en ekkert hefur verið ákveðið enn.
Og já, þótt við skyldum hafa gagnrýnt S1 harkalega í haust má það alveg segjast að þeir hafa staðið sig vel og farið stöðugt vaxandi í vetur. Þeir voru meira að segja með tvo Liverpool-aðdáendur, Gauja Þórðar og Ólaf Kristjáns, sem gesti fyrir leik Man U í beinni í dag. Það kalla ég framför, get ekki kvartað! 🙂
En hvað með landsbyggðina? Breiðbandið nær nú ekki mikið utan höfuðborgarsvæðisins. Varla ætlar Skjár einn að útiloka landsbyggðina frá boltanum.
Versta er að gæðin í leikjum á breiðbandinu er ekki nærri eins góð… ég veit ekki hvað en það virkar frekar eins og að spila tölvuleik að horfa á stafræna útsendingu í stað hliðrænnar….