Upphitun fyrir úrslitaleikinn: Istanbúl

Einsog ég hef montað mig af áður hér á þessari síðu, þá er ég, ásamt nokkrum öðrum gallhörðum Liverpool stuðningsmönnum, á leið til Istanbúl til að horfa á Liverpool og AC Milan spila í úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Við förum út á þriðjudaginn og fljúgum til London. Þaðan tökum við svo flug til Istanbúl. Við förum svo heim sömu leið á fimmtudaginn. Þeir, sem koma til Istanbúl frá Englandi, koma inná minni flugvöllinn í Istanbúl, sem er í asíska hluta borgarinnar, en Milan aðdáendur koma inná aðalflugvöllinn.

Istanbúl, stærsta borg Tyrklands liggur báðum megin við Bosporus sund, sem aðskilur Evrópu og Asíu. Istanbúl er stærsta borg Tyrklands og ein allra stærsta borg í Evrópu, en um 11 milljónir manna búa í borginni. Borgin var áður þekkt undir nafninu Konstantínópel þegar hún var undir stjórn Grikkja. Tyrkir, sem sigruðu borgina árið 1453, kölluðu borgina alltaf Istanbúl, en nafninu var ekki breytt formlega fyrr en árið 1930.

Tyrkland er gríðarlega stórt land, en aðeins um 3% landsins er hluti af Evrópu, en höfuðborgin skiptist einsog áður segir á milli Evrópu og Asíu. Alls búa um 67 milljónir í Tyrklandi. 99,8% íbúa eru múslimar og allir tala tyrknesku.


Úrslitaleikurinn á milli AC Milan og Liverpool verður spilaður á [Atatürk Olimpiyat](http://www.ataturkolympicstadium.com/eng/eng.asp) vellinum, sem er staðsettur í úthverfi í evrópska hluta borgarinnar.

Atatürk völlurinn var byggður í því skyni að reyna að ná Ólympíleikunum til Tyrklands. Þrátt fyrir að vera einn af bestu völlum í Evrópu, þá hefur hann verið lítið notaður. Galatasary notaði völlinn eitt tímabil, en utan þess hefur hann einungis verið notaður fyrir meiriháttar viðburði.

Völlurinn kostaði um 6 milljarða í byggingu og tekur alls um 80.000 manns í sæti. Fyrir úrslitaleikinn þá hefur miðunum verið dreift svona: Liverpool fékk 20.000 miða, AC Milan 20.000, UEFA.com 7.500, tyrkneska knattspyrnusambandið 7.500 og UEFA “football family” 14.500. Samtals 69.500 miðar. Vegna mikillar öryggisgæslu þá verða ekki seldir miðar í öll sætin á vellinum.

Þannig að liðin tvö fá 20.000 miða hvort. Það er hins vegar ljóst að fullt af hinum miðunum, sérstaklega þeim sem var úthlutað í gegnum uefa.com og tyrkneska knattspyrnusambandið, munu verða keyptir upp af Liverpool og Milan stuðningsmönnum. Til dæmis koma miðarnir, sem við Íslendingarnir fáum, sennilega úr þeim hópi.

Öryggisgæslan verður án efa gríðarleg á vellinum, ekki síst í ljósi þess sem hefur gerst á öðrum fótboltaleikjum í Tyrklandi. Tyrkneska knattspyrnusambandið er án efa undir gríðarlegum þrýstingi frá UEFA um að allt gangi einsog í sögu og því verður gæslan efalítið gríðarlega mikil. Við vonum náttúrulega að allt fari vel fram og að þetta verði Tyrkjunum til sóma.


Ég ræddi það stuttlega við Kristján, að ég er ekki enn kominn með í magann fyrir leikinn. Held ég sé ekki almennilega búinn að gera mér grein fyrir þessu. **Ég er að fara að horfa á Liverpool í úrslitum Meistaradeildarinnar!** Einsog ég hef endurtekið áður, þá var ég 6 ára gamall þegar við vorum síðast í úrslitum þessarar keppni. Einhvern tímann í dag, morgun, eða mánudag mun það sennilega renna upp fyrir mér. Og þá fæ ég sko *sting* í magann!

Það hefur alltaf verið gaman að hafa verið Liverpool stuðningsmaður. Það eru í raun einstök forréttindi að fylgja þessu yndislega liði og bera tilfinningar til þess. En það hefur sjaldan verið jafn gaman og núna. Á miðvikudaginn munum við sjá stærsta fótboltaleik okkar liðs í 20 ár. Við skulum njóta þess, hvort sem við verðum í stúkunni í Atatürk, á Players eða heima í stofu.

**Áfram Liverpool!**

5 Comments

  1. Leiðinleg smámunasemi, en Ankara er höfuðborg Tyrklands.
    Annars
    frábær síða og ÁFRAM LIVERPOOL

  2. Já, vá, þetta var nú ekkert leiðinleg smámunasemi, heldur algjör heimska í mér 🙂

    Auðvitað er Ankara höfuðborgin, Istanbúl er einungis sú stærsta.

  3. Ég hef heyrt af því að afar fáir stuðningsmenn Milan kaupi úr þessum “hlutlausu” miðum. AC Milan náði ekki einu sinni að selja sína 20.000 miða og talað er um að þeir hafi skilað UEFA 5-8 þús miðum sem þeir sáu fram á að geta ekki selt.

    Það sem styður þetta enn frekar, er verð á miðum. Það er hægt að kaupa miða Milan megin núna á undirverði, þ.e. fyrir minni pening en þeir áttu að kosta. Ítalir virðast ekki vera jafn mikil flökkudýr og Tjallarnir.

    Hef heyrt að menn búist við um 15.000 Milan mönnum og 50.000 Poolurum.

    Það er kominn nettur fiðringur í mann verð ég að segja :biggrin:

  4. 50þús Púllarar? Vá, ég hlakka til að heyra YNWA óma um Ataturk-leikvanginn! Þá verður sjónvarpstækið hér í Firðinum sko hækkað í botn 🙂

Arsenal bikarmeistari

Viðtal við Xabi