Bestu leikmenn Englands (og Liverpool) 04/05: okkar val!

Jæja, nú þegar tímabilinu í Englandi er formlega lokið (eftir sl. miðvikudag) höfum við Einar ákveðið að taka okkur til og veita smá “verðlaun” – eða öllu heldur viðurkenningu til þeirra leikmanna sem okkur finnst hafa skarað fram úr í vetur. Þetta er að sjálfsögðu aðeins okkar mat, og er ykkur lesendum frjálst að bæta við ykkar vali í ummælum fyrir þessa færslu. En hér kemur allavega okkar val:


  • Okkur þykir einstaklega gaman að myndskreyta færslur með myndum úr úrslitaleiknum. Þessi mynd af Gerrard finnst mér vera ÆÐI – eöe

KRISTJÁN ATLI VELUR:

BESTU KAUPIN: Tim Cahill
Það eru margir vel að þessum titli komið í vetur, og er rétt að minnast á leikmenn á borð við Petr Cech hjá Chelsea, Gabriel Heinze hjá Man Utd og Luis García hjá Liverpool. Einnig er ég sannfærður um að ef annar hvor af Arjen Robben hjá Chelsea og Xabi Alonso hjá Liverpool hefði náð að spila heilt, meiðslalaust tímabil í vetur hefði viðkomandi hiklaust hlotið þennan heiður.

En … eins og staðan er í lok tímabils, þá náðu Everton-menn 4. sætinu og unnu sér inn þátttökurétt í Meistaradeildinni, þrátt fyrir að selja bestu leikmenn sína, þá Gravesen og Rooney. Ég er ekki hrifinn af Everton-liðinu, finnst þeir ekki hafa sýnt góða knattspyrnu í vetur utan þess að geta barist fyrir stigunum, en einn leikmaður hjá þeim hefur heillað mig verulega. Tim Cahill kom til Everton síðasta sumar fyrir 1 milljón punda og hefur nú þegar aflað klúbbnum margfalt meiri tekna en hann kostaði. Stórkostleg kaup fyrir hlægilega lága upphæð og ef Moyes getur endurtekið þennan leik svona tvisvar, þrisvar í sumar á markaðnum er full ástæða til að taka þetta Everton-lið alvarlega. En nýafstaðið tímabil var Cahill stjarnan á ólíklegu jólatré, engin spurning, og mín bestu kaup ársins!

MESTU FRAMFARIR: Jamie Carragher
Það er freistandi að láta Peter Crouch hafa þessi verðlaun, þar sem hann var álíka nothæfur sem knattspyrnumaður og sem ljósastaur áður en hann kom til Southampton, en ég held að – algjörlega hlutlaust – sé ekki hægt að neita því hversu góður leikmaður Jamie Carragher er orðinn. Ekki misskilja mig, Carra hefur alltaf verið mjög góður leikmaður og ávallt skilað góðu starfi fyrir Liverpool. Þegar hann kom fyrst upp sem varnarsinnaður miðjumaður, og fór síðan í vörnina þar sem hans helsti styrkur – og um leið mesti veikleiki – var sá að hann gat spilað hvaða stöðu sem er, olli því að Gérard Houllier notaði hann hvar svo sem þörf var á. Fyrir vikið var Carra alltaf í liðinu hjá Houllier, en á móti kom að hann var aldrei nógu öruggur með neina eina stöðu í liðinu til að geta gert hana að einhverri sérgrein. Það breyttist í vetur, og ó hvað það átti eftir að hafa miklar afleiðingar!

Í vetur spilaði Jamie Carragher 38 leiki í Úrvalsdeildinni, sem og alla leiki okkar í Meistaradeildinni og flestalla leiki okkar í bikarkeppnunum, í hjarta varnarinnar. Hvort Sami Hyypiä, Mauricio Pellegrino, Zak Whitbread eða Djimi Traoré var við hliðina á honum var breytilegt en það eina sem maður gat alltaf treyst á í vetur var að Carra var í miðri vörninni. Þá gat maður líka treyst á að hann myndi leiða liðið á vellinum, berjast fyrir hverjum bolta og hverju stigi og jarða hvern þann framherja sem hann mætti. Sá maður sem Thierry Henry hafði að fífli fyrir ári síðan er löngu horfinn á braut, og í stað hans er kominn maður sem er einfaldlega stórkostlegur leikmaður og að mínu mati einn af tveimur bestu miðvörðum í ensku Úrvalsdeildinni, ásamt John Terry! Mestu framfarir ársins? Prófum frekar mestu framfarir áratugarins!

BJARTASTA VONIN: Dennis Bergk… ehhh, Francesc Fabregas
Það var ágúst 2004 að ég sá Arsenal sigra Man U í leiknum um Samfélagsskjöldinn. Að Arsenal, yfirburðalið tímabilið áður, skyldi hafa sigrað United var ekki það sem var fréttnæmt. Nei, það sem mér þótti fréttnæmt var að Arsenal-miðjan – sem leidd var af sextán ára gömlum Spánverja í fjarveru Patrick Vieira – skyldi hafa rúllað yfir United-miðjuna á jafn sannfærandi hátt og raun bar vitni. Þetta var í fyrsta sinn sem ég sá hinn unga Francesc Fabregas spila en þarna strax varð mér ljóst að þessi ungi piltur á ekki aðeins eftir að vera lykilmaður í Arsenal-liði framtíðarinnar heldur gætu Spánverjar, undir forystu Fabregas og Xabi Alonso, kannski náð að landa stórtitli í framtíðinni, loksins!

Síðustu 9 mánuðina hef ég svo lítið séð sem hefur minnkað álit mitt á þessum gutta, hann einfaldlega blómstrar á miðjunni fyrir Arsenal og nú í vor, þegar hann fer að nálgast 18 ára afmælið sitt, finnst mér augljóst að hann er bjartasta vonin í vetur. Augljóst, sama hvað enskir Rooney-dýrkendur eða Robben-aðdáendaklúbburinn segja. Þeir tveir eru leikmenn sem geta unnið leiki upp á eigin spýtur – en Fabregas er miklu meira, hann er leikmaður sem getur stjórnað miðjunni ár, eftir ár, eftir ár, eftir ár…

LEIKMAÐUR ÁRSINS:

5: ANDY JOHNSON (Crystal Palace)
Næst markahæstur í Úrvalsdeildinni í vetur, á sínu fyrsta tímabili í Úrvalsdeildinni, fyrir lið sem féll í vor? Það getur varla verið satt, er það? En jú, AJ var einfaldlega það góður í vetur að nú þegar Palace eru fallnir er hann orðaður við meira og minna öll liðin sem eftir eru í Úrvalsdeildinni! Frábært tímabil hjá manni sem enginn kannaðist við fyrir 9 mánuðum, en er nú orðinn fastamaður í enska landsliðshópnum og þekktur sem sá eini sem getur haldið í við Thierry Henry í markaskorun. Ekki slæmt.

4: PETR CECH (Chelsea)
38 leikir í Úrvalsdeildinni, 15 mörk fengin á sig, nýtt met. Og það hjá markmanni sem enginn þekkti fyrr en á EM í fyrra. Cech er að mínu mati alveg jafn stór þáttur í meistaratign Chelsea og hver annar. Besti markvörður Úrvalsdeildarinnar í vetur og seinnilega einn af svona þremur bestu markvörðum í heiminum.

3: JAMIE CARRAGHER (Liverpool)
Eins og ég sagði þegar ég veitti honum viðurkenningu fyrir mestu framfarir, þá er Carra einfaldlega orðinn lykilmaður í Evrópumeistaraliði Liverpool. Hann, öllum öðrum fremur, er fyrsta nafn á blað þegar Rafa Benítez velur byrjunarlið sitt og þótt liðið hafi valdið vonbrigðum í deildinni og endað í 5. sætinu, þá er það allavega ljóst fyrir mitt leyti að án Carra hefði liðið endað mun neðar en það. Dæmi: Hver er munurinn á Liverpool og Newcastle á þessu tímabili breytinga? Svar: Jamie Carragher. Er það að furða að aðdáendur liðsins kalli hann “Legend” (goðsögn) ???

2: JOHN TERRY (Chelsea)
Í raun á allt það sama og ég sagði um Jamie Carragher líka við um John Terry. Hann er lykilmaður, fyrsta nafn á blað þegar José Mourinho velur byrjunarlið Chelsea – sem er ekki slæmt miðað við að menn töldu daga hans hjá Chelsea talda þegar Roman Abramovitch keypti liðið. En annað hefur komið á daginn, hann er núna fyrirliði þessa meistaraliðs og fyrsti miðvörður á blað hjá Sven Göran Eriksson, landsliðsþjálfara Englendinga. Hefur átt nákvæmlega jafn gott tímabil og Carra fyrir Liverpool, en ég set hann ofar þar sem hann hefur skorað meira og af því að lið hans endaði fjórum sætum ofar í deildinni.

1: FRANK LAMPARD (Chelsea)
Við skulum hafa eitt á hreinu: ég tel ennþá að Steven Gerrard sé betri leikmaður en Frank Lampard. En ef ég var 1,000,000% viss um þá staðreynd fyrir ári síðan, þá er ég einungis nokkuð viss um hana í dag. Á meðan Gerrard átti erfitt tímabil, litað af misjöfnum frammistöðum og þrálátu slúðri, þá hefur Lampard gjörsamlega blómstrað. Hann skoraði einhver 20+ mörk fyrir Chelsea í öllum keppnum í vetur, spilaði nánast hvern einasta leik í öllum keppnum fyrir þá og hefur einfaldlega verið stórkostlegur. Að sjálfum Ronaldinho undanskildum myndi ég segja að Lampard hafi spilað best allra þeirra miðjumanna í Evrópu sem ég hef séð spila í vetur. Þvílíkur vetur hjá honum, og þvílíkur leikmaður! Ef hann spilar jafn vel næsta vetur og hann gerði í ár finnst mér erfitt að ímynda mér annað en að Chelsea nái 90+ stigunum aftur að ári. Leikmaður ársins, ekki spurning!


EINAR ÖRN VELUR:

Ég sé að ég er frekar sammála Kristjáni í þessu flestu. Þannig að ég er að spá í að takmarka mig einungis við leikmenn Liverpool.

**BEST KAUPIN**: Að mínu mati **Luis Garcia**ok. Við Kristján vissum báðir hvað Xabi Alonso gæti gert fyrir tímabilið og hann hefur að langflestu leyti staðið undir okkar væntingum. Hann var hins vegar gríðarlega óheppinn með meiðsli og missti út stóran hluta tímabilsins. Framtíðin getur líka vel sýnt það seinna að Cisse eða Morientes verði taldir betri kaup.

En staðreyndin er einfaldlega sú að það væri ekki fræðilegur möguleiki á því að við værum Evrópumeistarar án Luis Garcia. Trekk í trekk hefur hann haldið sóknarleik okkar á floti og hann hefur skorað helling af gríðarlega mikilvægum mörkum. Ég er hundrað prósent viss um að hann eigi eftir að vera ennþá sterkari á næsta tímabili og muni leggja varnir í ensku úrvalsdeildinni í rúst.

**MESTU FRAMFARIRNAR**: Það er ekki nokkur spurning, **Jamie Carragher**. Ég hef aldrei verið sérstaklega hrifinn af Jamie Carragher. Í raun má segja að ég hafi ekki gert mér grein fyrir mikilvægi hans fyrr en hann meiddist í fyrra. Breyting hans úr bakverði í miðvörð hefur svo náttúrulega heppnast fullkomlega og það er hverjum manni augljóst að þetta er hans besta staða. Verður ómetanlegur fyrir okkur næstu ár.

**BJARTASTA VONIN**: Þarna koma nú ekki margir til greina. Benitez hefur vissulega notað yngstu leikmennina í Deildarbikarnum, en í deildinni hafa fáir fengið að spreyta sig. Að mínu mati er **Florent Sinama-Pongolle** þeirra sterkastur. Ég held að menn hafi ekki almennilega gert sér grein fyrir mikilvægi hans fyrr en hann einmitt meiddist. Um mitt tímabil átti hann mjög margar verulega fínar innkomur og skoraði nokkur mörk. Meiðslin komu á mjög slæmum tíma, en ég hef það á tilfinningu að hann eigi eftir að spila stórt hlutverk fyrir okkur strax á næsta ári.

  • No PASARÁN

**LEIKMAÐUR ÁRSINS**:

5: STEVE FINNAN
Byrjaði tímabilið illa og virtist vera á leið frá liðinu. Josemi var valinn í bakvörðinn og Finnan fór á kantinn, þar sem hann var alls ekki nógu sterkur. En meiðsli hjá Josemi gerðu það að verkum að bakvarðarstaðan var eign Finnan mestallt tímabilið og hann byrjaði að spila einsog sá leikmaður, sem var valinn besti hægri bakvörðurinn í ensku deildinni þegar hann spilaði fyrir Fulham.

4: XABI ALONSO
Erfið meiðsli gerðu það að verkum að hann er ekki ofar á þessum lista. Ég er sannfærður um að Xabi Alonso er hæfileikaríkasti leikmaður Liverpool. Ef hann og Gerrard halda sér heilum á næsta tímabili, þá verða þeir án nokkurs efa besta miðjupar í enska boltanum.

3: LUIS GARCIA
Sama og hér að ofan. Hefur verið sá eini í okkar sóknarleik, sem hefur staðið sig leik eftir leik. Okkar leiknasti leikmaður og er alltaf óhræddur við að reyna eitthvað óvænt. Þurfum fleiri leikmenn einsog Luis Garcia í hópinn.

2: STEVEN GERRARD
Gerrard hefur sjálfur sagt að hann hafi ekki spilað vel á þessu tímabili og við erum flestöll sammála um það. En Gerrard er einfaldlega svo stórkostlegur leikmaður að hálf slappt tímabil hjá honum er samt helvíti gott. Það er engin spurning um að meiðslin og stanslausar Chelsea sögur höfðu veruleg áhrif á hann. Ef honum tekst að losa sig við slúðrið, þá á hann eftir að blómstra á næsta tímabili.

1: JAMIE CARRAGHER
Hefur breyst úr því að vera meðal bakvörður yfir í að vera einn af bestu miðvörðunum í deildinni. Okkar besti leikmaður allt tímabilið. Brást aldrei trausti okkar.


**Annað:**
Besta markið: Gerrard á móti Olympiakos
Mestu vonbrigðin: Meiðslin hans Kewell
Leikur ársins: Hmmmmmm…. Milan-Liverpool kannski?

3 Comments

  1. Milan – Liverpool besti leikurinn??? Hvað með leikinn magnaða gegn Blackburn 16. mars? Tekurðu Milan leikinn fram yfir þann leik??? Jahérna 😉 :tongue: :laugh: 🙂

    En ef ég á að velja líka þá yrði þetta einhvernveigin svona:

    Öll deildin:

    Bestu kaupin: Tim Cahill
    Mestu framfarir: Jamie Carragher
    Bjartasta vonin: Senderos og Fabregas koma upp í hugann. Sömuleiðis finnst mér Rafa Benitez eiga skilið þetta val 😉
    Leikmaður ársins:
    5 – Andy Johnson
    4 – Petr Cech
    3 – John Terry
    2 – Jamie Carragher
    1 – Frank Lampard

    Liverpool:

    Bestu kaupin: Xabi Alonso
    Mestu framfarir: Jamie Carragher
    Bjartasta vonin: Bind miklar vonir við Xabi. Rafa Benitez ætti kannski að vera hér líka 🙂
    Leikmaðr ársins:

    5 – Xabi Alonso
    4 – Luis Garcia
    3 – Steven Gerrard
    2 – Steve Finnan
    1 – Jamie ,,THE ROCK” Carragher

    …og er þá kjör dómnefndar upptalið 🙂

  2. ég ætla bara að koma með mína verðlaunaafhendingu fyrir Liverpool, svona er hún:

    Besti leikmaður: Jamie Carragher. Þarf ekki frekari orð um af hverju ef maður hefur fylgst eitthvað með liðinu á tímabilinu.

    Bestu kaup. Luis Garcia. Ef Xabi hefði ekki meiðst í árás Lampard á hann á nýársdag þá hefði ég kannski kosið hann. Garcia kom Liverpool ítrekað til bjargar í meistaradeildinni með mikilvægum mörkum í 16, 8 og 4 liða úrslitum og átti stærstan þátt í að tryggja Liverpool inní úrslitaleikinn.

    Lélegasti leikmaður og lélegustu kaup: Pellegrino. Ef maðurinn er ekki einn sá lélegasti sem spilað hefur í enska boltanum frá upphafi þá er ég Andrés Önd. Þarf ekki frekari orð um frammistöðu hans sem var skelfileg.

    Besti leikur: Liverpool – AC Milan.

    Lélegasti leikur: Liverpool – Burnley

    Flottasta mark: Garcia gegn Juventus í 8. liða úrslitum CL.

    Mesta klúður: Sjálfsmark Djimi Traore í bikarnum gegn Burnley.

    Besta gjöf: Öll sjálfsmörk sem andstæðingar Liverpool gera eru vel þegin.

    Mestu vonbrigði: Er eðlilegt að 12+ leikmenn liðs meiðast í mánuð eða meira á sama tímabili?

Við verðum í Meistaradeild á næsta ári… +viðbót

Myndir frá Istanbúl