Hvaða leikmann langar ykkur mest til að sjá í Liverpool treyju? Af öllum leikmönnum í heiminum? Ég veit ekki með ykkur, en leikmaður #1 á mínum óskalista er pottþétt Joaquín, hægri kantmaðurinn frábæri hjá Real Betís á Spáni.
Hafa menn séð þennan gaur spila? Ég hef horft oft á hann, síðustu þrjú árin, og hef m.a. séð hann jarða Barcelona (tvisvar) og Real Madríd (þrisvar) á síðustu tveimur tímabilum, upp á sitt einsdæmi. Hann og Vicénte voru einu ljósu punktar spænska landsliðsins á EM í fyrrasumar, og hann er einfaldlega búinn að vaxa gríðarlega mikið í vetur – svo mikið að hann er að mínu mati ekki lengur einn besti vængmaður heims, heldur einfaldlega besti vængmaður heims. Ef þið haldið að Arjen Robben, Ryan Giggs (upp á sitt besta), Vicénte, David Beckham (upp á sitt besta), Harry Kewell (upp á sitt besta), Marc Overmars eða einhver annar frábær kantmaður sem ykkur dettur í hug, séu eitthvað spes … bíðið þá bara þangað til þið sjáið hann spila. Hann er yndislega góður leikmaður!
Spurningin er bara: hvar spilar hann á næstu leiktíð?
Þetta virðist vera óljóst. Ruiz de Lopera, forseti Betís, virðist vera að spila alls konar leiki í spænskum fjölmiðlum til að halda í guttann. En ég hef þó eftirfarandi staðreyndir eftir áreiðanlegum heimildarmanni, þeim sama og hefur skúbbað fréttum á borð við Owen-söluna, Morientes-kaupin og Reina-kaupin:
1. Ruiz de Lopera, forseti Real Betís, vill ólmur halda í Joaquín í eitt ár í viðbót. Talið er að þetta sé raunhæf ósk hjá honum, þar sem Betís fara í Meistaradeildina í haust og því gæti Joaquín viljað láta reyna á eitt ár í Meistaradeildinni með heimaliðinu sínu áður en hann fer til stærra liðs. Hann er enn ungur, og með öruggt sæti í byrjunarliði Spánar hvort eð er, þannig að hann munar ekkert um að spila toppbaráttu og Meistaradeild með Betís eitt ár í viðbót.
2. Hins vegar… þá hafa boðist fjögur boð í kappann nú þegar. Hæsta boðið er upp á einhverjar 40 milljónir Evra, sem eru um 28 milljónir punda, en Ruiz de Lopera vill ekki gefa upp hver af fjórum bjóðendum eiga þetta hæsta tilboð. Hann segir líka að hæsta tilboði verði tekið, ef Joaquín biður um að fá að fara, en ef hann vilji vera kyrr í ár til viðbótar muni félagið neita öllum boðum, sama hversu há þau eru.
3. Betís eru í sterkri samningastöðu, þar sem þeir græddu á því að komast í Meistaradeildina og þurfa því ekki nauðsynlega peningana af sölunni. Þá munar ekkert um það hvort þeir þiggja 40m Evrur fyrir kauða í ár, eða eftir 12 mánuði, þar sem hann er með samning til 2010 við Betís, og verður því alveg jafn dýr eftir ár.
4. Þau lið sem Ruiz de Lopera segir að hafi boðið í Joaquín eru: Real Madríd, Barcelona, Chelsea og Liverpool.
Sem sagt, ef maður miðar við þessar fréttir og orð forsetans, þá tel ég frekar litlar líkur á að við sjáum Joaquín spila í rauðu treyjunni. Af hverju? Jú, fyrir það fyrsta þá er hann uppalinn Real Madríd-aðdáandi, og í öðru lagi þá vitum við sem er að öll hin þrjú liðin geta boðið hærra en Liverpool. Ef peningar eru málið, þá einfaldlega bjóða Chelsea hærra en öll hin liðin, en ef Joaquín fengi að ráða þætti mér líklegt að hann myndi sjálfur velja Real Madríd, þar sem hann er uppalinn aðdáandi þeirra.
Í ljósi þess hverjir keppinautarnir um hæfileika þessa unga leikmanns eru, þá held ég að okkur sé óhætt að hætta að láta okkur dreyma um að sjá Joaquín spila fyrir Liverpool. Því miður, því mér þætti ekkert jafn skemmtilegt og að sjá hann á hægri kantinum hjá okkur í haust.
Bíddu, eru Chelsea ekki með ágætis hægri kantmann fyrir? Hvað heitir hann aftur?
já, Robben.
Annars finnst mér líklegast að hann endi hjá Madrid ef hann fer eitthvað. En maður má samt leyfa sér að dreyma. Við erum nú einu sinni Evrópumeistarar.
Ég held samt að það verði ekki gengið frá neinu hjá Liverpool og að það komist ekkert á skrið fyrr en þetta kemst á hreint með Evrópukeppnina.
Já, og ég sá Kuijt spila í gær. Ef það munar bara þrem milljón pundum á verði hans og Crouch, þá hlýtur Rafa að velja Kuijt. Ég bara trúi ekki öðru.
Já, ég er sammála með Kuijt. Ég hef reynt eins mikið og ég get síðustu 10 dagana, að sætta mig við þá staðreynd að Peter Crouch verði sá framherji sem kemur til okkar í sumar, og ég get það bara alls ekki.
Ef Crouch er 7m punda virði, þá er Kuijt a.m.k. 20m punda virði … hann er svo miklu, miklu betri leikmaður.
Þið megið ekki gleyma einu. Enskir leikmenn eru oft metnir mjög hátt.
En varðandi þetta með Joaquin, þá sá ég nú á Sky að það væru Chelsea, Barca, Real og Man Utd sem væru að bjóða í hann. Liverpool var aldrei nefnt þarna í sömu andrá.
Og Crouch hefur gert eitt sem hinir hafa ekki gert… blómstrað í ensku deildinni. Maður veit aldrei hvernig hinir munu standa sig. Maður sá til dæmis Diego Forlan ekki gera góða hluti í ensku deildinni, þó að enginn sé að fara að neita því núna að hann er mjög góður framherji.
Væri þá ekki bara best ef að hann verði hjá betis í ár í viðbót og við stöndum okkur vel í deildinni og fa bikar og CL(ef við komust inn) þá eigum við slatta pening. Kirkland brillerar hjá WBA og Reina brillerar hjá okkur og þá seljum við Kirky á 7-8 milljónir punda af því að hann er ungur enskur leikmaður þá þurfum við bara um 20m punda í viðbót og hann er okkar.
Annars er mér alveg sama hvort það er kujit eða crouch, ég hef aldrei séð kujit en crouch skoraði 12 mörk í 18 leikjum, semsagt ég treysti þeim báðum.