Wrexham 3 – L’pool 4

Það er komið að því. Fyrsta leikskýrsla tímabilsins er mætt á svæðið, og það strax í júlíbyrjun! 🙂 Allavega, okkar menn spiluðu sinn fyrsta æfingaleik í dag og unnu Wrexham 4-3 í nokkuð skemmtilegum leik. Ég ætla ekkert að tapa mér í greiningu á leik liðsins, en ég ætla samt að drepa á nokkrum punktum hér…

Byrjunarliðið var sem hér segir:

Reina

Finnan – Carra – Hyypiä – Warnock

Potter – Gerrard – Hamann – Zenden

Cissé – Morientes

Í hálfleik voru svo gerðar stórtækar breytingar, og liðið sem hóf seinni hálfleik leit svona út:

Dudek

Finnan – Josemi – Whitbread – Warnock

García – Alonso – Welsh – Riise

Le Tallec – Baros

David Raven kom svo inná fyrir Steve Finnan um miðjan hálfleikinn, Carl Medjani var eini varamaðurinn sem spilaði ekki í dag. Fjarverandi voru þeir Harry Kewell, Mark Gonzalez og Florent Sinama-Pongolle sem eru allir meiddir, og Djimi Traoré sem hlýtur að vera meiddur líka. Þá var Antonio Núnez hvergi sjáanlegur, sem hlýtur að renna stoðum undir þær sögur að hann sé að semja við Celta Vigo þessa helgina.

En allavega, Rafa tefldi sem sagt upp nokkuð sterkum liðum í báðum hálfleikum og það skilaði sér í skemmtilegum leik:

FERNANDO MORIENTES og MILAN BAROS skoruðu tvö mörk hvor. Morientes jafnaði fyrir okkur með poti af markteig á u.þ.b. 20. mínútu, eftir góðan undirbúning Steve Finnan og Darren Potter upp hægri vænginn. Potter komst innfyrir, renndi boltanum fyrir markið og Morientes henti sér á hann og rak tána í hann. Tíu mínútum síðar tók Gerrard hornspyrnu frá hægri sem rataði beint á kollinn á Morientes í miðjum teignum, og hann hamraði hann í nærhornið. Óverjandi og staðan 2-1 fyrir okkur í hálfleik.

Í seinni hálfleik skoraði Milan Baros svo tvö mörk – það fyrra eftir að Alonso komst inn í sendingu frá markverði Wrexham og sendi Baros innfyrir, Baros lék á markvörðinn og setti boltann í tómt netið. Svo kom fallegasta mark leiksins á u.þ.b. 65. mínútu: eftir að boltinn hafði gengið vel innan liðsins og haft viðkomu í nær hverjum einasta leikmanni liðsins unnu David Raven og Milan Baros vel saman á hægri vængnum, Raven sendi boltann á Alonso sem sá að Baros var búinn að staðsetja sig á vítateignum. Alonso sendi fleygbolta að marki sem datt niður beint fyrir framan Baros, sem tók hann utanfótar með viðstöðulausu skoti og hamraði hann í bláhornið. 4-1, og leikurinn í raun búinn.

Fyrsta mark Wrexham kom eftir 7 mínútna leik og var í raun bara ryðguðum leikmönnum okkar að kenna. Finnan og Gerrard leyfðu einhverjum gaur að labba framhjá sér, og sá sami klobbaði Hyypiä inná sóknarmann sem lék á Reina og skoraði. Í síðari hálfleik komu svo tvö mörk með stuttu millibili, og í bæði skiptin var það Stephen Warnock sem átti sök. Warnock, sem var orðinn þreyttur enda eini leikmaður Liverpool sem lék allan leikinn, lét taka sig illa á kantinum í báðum mörkunum sem skilaði sér í (1) óverjandi skoti af vítapunktinum og (2) potmarki eftir góða fyrirgjöf.

Steve Hunter og David Fairclough voru að lýsa þessum leik á eSeason-svæðinu á opinberu síðunni og þeir vildu meina að Rafa gæti glaðst yfir skapandi leik Liverpool í dag, en þyrfti að vinna meira með varnarlínu liðsins fyrir leikina við TNS. Ég er svona nokkurn veginn sammála því, þótt það hafi í raun enginn varnarmaður leikið illa – og það er líka alltaf erfitt að gagnrýna menn í fyrsta æfingaleik – þá var ákveðið kæruleysi í gangi. Svo sem eðlilegt í júlíbyrjun, en staðreyndin er samt sú að það er alvöruleikur eftir fjóra daga og því verður að uppræta þetta kæruleysi strax.

Hvernig stóðu nýju strákarnir sig? Zenden var einn af okkar betri mönnum í fyrri hálfleik, vann vel og út um allan völl og var okkar mest skapandi miðjumaður, á meðan José Reina hafði bókstaflega ekkert að gera í fyrri hálfleik … annað en að hirða boltann úr markinu á 7. mínútu.

MENN LEIKSINS: Það átti enginn stórleik, en í fyrri hálfleik fannst mér þeir Zenden, Warnock og framherjarnir Morientes og Cissé svona sprækastir. Cissé var óheppinn að skora ekki a.m.k. eitt mark í dag. Í seinni hálfleik var ég svo ánægðastur með Xabi Alonso og Luis García, sem sýndu flotta takta á köflum, auk þess sem Baros var grimmur og virkaði í flottu formi. Þá fannst mér ungu strákarnir, Darren Potter í fyrri hálfleik og þeir Zan Whitbread og David Raven í þeim seinni, komast vel frá þessum leik að mestu leyti.

Ágætis byrjun á tímabilinu, en þó þarf Rafa að huga að mörgu fyrir miðvikudaginn. Eins og ég sagði áðan, þá er skrýtið að þurfa að spila jafn mikilvægan leik og í Meistaradeildinni jafn snemma og raun ber vitni, og fyrir vikið lendir Rafa í nokkuð erfiðri stöðu: hann þarf að velja ellefu manna byrjunarlið úr þeim 21 leikmanni sem hann notaði í dag og uppræta öll ryðgunarmistök dagsins á mettíma fyrir miðvikudaginn.

Vonandi tekst honum það og við fáum áfallalausan miðvikudag. Það er uppselt á Anfield fyrir leikinn við TNS, og hann er í beinni á Sýn og á ölstofum bæjarins, þannig að það verður gaman að sjá muninn á leik Liverpool þá og í dag.

Og þar með er fyrsta leikskýrsla tímabilsins búin. Ef allt gengur að óskum og við stöndum okkur vel í Evrópu og bikarkeppnunum, gæti ég á endanum lent í að skrifa hátt í 60+ leikskýrslur í vetur. Eins gott að ég er háður þessu liði, annars myndi ég sennilega aldrei nenna þessu… 🙂

4 Comments

  1. Flott mál. Ég horfði ekki á leikinn en ætla að horfa á hann þegar hægt verður að download-a honum af lfc.tv síðunni.

    Flott að bæði Baros og Nando séu að skora tvö mörk. En auðvitað óþarfi að fá á sig 3 mörk gegn liði einsog Wrexham.

  2. Jamm. Eins og ég sagði, þá er það skiljanlegt miðað við að menn eru ryðgaðir eftir sumarfríið. Vandamálið er bara það að við höfum ekki efni á að vera ryðgaðir – næsti leikur er alvöru … ef Wrexham geta skorað 3 mörk á okkur geta TNS það svo sem líka. Það er málið.

    Býst nú samt við því að halda hreinu og skora svona á bilinu 4-8 mörk á miðvikudag. Þetta er jú einu sinni Anfield, og það er uppselt! 😉

  3. Gott að Baros sé byrjaður að skora aftur, hlakka til að sjá hann á næsta tímabili.

Figo:Mig dreymir um að spila fyrir Liverpool

Sissoko kemur (STAÐFEST)